Blaðsíður: 1 2 4 ...6 7

19.02.08

  22:35:06, Skrásetjari: Sr. Denis O'Leary   , 739 orð  
Flokkur: Dýrlingarnir og hetjur

Dom Helder Camara, erkibiskup.

Kafli úr trúfræðslubókinni LEGG ÞÚ Á DJÚPIÐ.

Hatur og ofbeldi valda eyðileggingu.

Það er fyrri hluti sunnuda í milljónaborginni Recife í Norðaustur-Brasilíu. Smáhópar manna sitja hingað og þangað um göturnar í fátækrahverfunum. Það eru nokkrir atvinnuleysingjanna 400.000 sem eiga heima í borginni. Berfættir í gatslitnum, reimalausum skóm. Eða alveg skólausir. Fötin eru slitin og tötraleg. Þeir talast ekki við. Hvað eru þeir að gera úti á götu fyrir hádegi á sunnudag?

Sá sem gengur nær þeim kemst á snoðir um að þeir sitja hringinn í kringum útvarpstæki! Þeir hlusta niðursokknir. Það er guðsþjónusta fyrir fátæklinga sem …

Read more »

18.02.08

  13:53:40, Skrásetjari: Sr. Denis O'Leary   , 398 orð  
Flokkur: Til umhugsunar

Harmaljóð - notað á föstudaginn langa

Lýður minn, hvað hef ég gjört þér? Með hverju hef ég hryggt þig? Svara þú mér!

1 Af því að ég hef leitt þig út af Egyptalandi, hefur þú búið frelsara þínum kross. Af því að í fjörutíu ár hef ég leitt þig gegnum eyðimörkina og fætt þig á manna og leitt þig inn í harla gott land, hefur þú búið frelsara þínum kross.

Lýður minn, hvað hef ég gjört þér? Með hverju hef ég hryggt þig? Svara þú mér!

2 Heilagi Guð, heilagi Guð. Heilagi sterki, heilagi sterki. Heilagi, ódauðlegi, miskunna þú oss.

Lýður minn, hvað hef ég gjört þér? Með hverju hef ég hryggt þig? Svara þú mér!

3 Hvað hefði ég átt að gjöra frekar fyrir þig, sem ég gjörði ekki? Ég hef gróðursett þig sem fegursta úrvalsvínvið minn en þú ert orðinn mér afar beiskur; því að þú hefur svalað þorsta mínum með ediki og níst síðu Frelsara þíns með spjóti. Þín vegna hef ég hirt Egypta ásamt frumburðum þeirra, en þú hefur ofurselt mig til húðstrýkingar.

Lýður minn, hvað hef ég gjört þér? Með hverju hef ég hryggt þig? Svara þú mér!

4 Ég hef leitt þig út úr Egyptalandi og sökkt Faraó í Rauðahafið; en þú hefur ofurselt mig æðstu prestunum. Ég hef opnað fyrir þér hafið; en þú hefur opnað síðu mína með spjóti. Ég hef gengið á undan þér í skýstólpa; en þú hefur leitt mig fyrir dómstól Pílatusar.

Lýður minn, hvað hef ég gjört þér? Með hverju hef ég hryggt þig? Svara þú mér!

5 Ég hef fætt þig á manna í eyðimörkinni; en þú hefur slegið mig í andlitið og húðstrýkt mig. Ég hef gefið þér heilnæmt vatn úr kletti að drekka; en þú hefur gefið mér að drekka gall og edik.

Lýður minn, hvað hef ég gjört þér? Með hverju hef ég hryggt þig? Svara þú mér!

6 Þín vegna hef ég slegið konunga Kanaanslands; en þú hefur slegið mig í höfuðið með reyrstaf. Ég hef gefið þér veldissprota konungs; en þú hefur látið þyrnikórónu á höfuð mitt. Ég hef upphafið þig af miklum mætti; en þú hefur hengt mig á krosstréð.

Lýður minn, hvað hef ég gjört þér? Með hverju hef ég hryggt þig? Svara þú mér!

17.02.08

  21:43:22, Skrásetjari: Sr. Denis O'Leary   , 300 orð  
Flokkur: Prédikanir

Páskavakan, textaröð ABC

……… Páskavakan byrjar með því að kveikt er á páskaeldinum. Við erum minnt á að í upphafi skapaði Guð ljósið. Upphaf páskavöku er táknræn fyrir dögun hinnar nýju sköpunar sem hófst með upprisu Jesú.
Síðan leiðir páskakertið okkur í helgigöngu inn kirkjuna. Þetta minnir okkur á eldinn sem vísaði Ísraelsmönnum veginn í eyðimörkinni. Þessi eldur leiddi þá frá okinu í Egyptalandi til fyrirheitna landsins. Núna leiðir Kristur, ljós heimsins, okkur frá fjötrum syndarinnar, með dauða sínum og upprisu, til ………

Read more »

16.02.08

  21:24:23, Skrásetjari: Sr. Denis O'Leary   , 547 orð  
Flokkur: Dýrlingarnir og hetjur

Jóhannes XXIII páfi

Kafli úr trúfræðslubókinni LEGG ÞÚ Á DJÚPIÐ.

Jóhannes XXIII páfi var ekki hálærður maður, en honum var annt um alla menn. Þegar hann dó fannst mörgum að þeir hefðu misst vin sinn.

Einu sinni spurði hann mennina sem unnu í garðinum hjá honum, hvað þeir hefðu í laun. Hann var mjög undrandi þegar hann heyrði hversu lítið það var og sagði að fjölskylda gæti ekki lifað af svo litlu. Hann ákvað því að hækka launin við þá. Þegar einhverjir starfsmenn kirkjunnar kvörtuðu yfir því og sögðu að þá yrði minna eftir til góðgerðastarfsemi, þá sagði páfinn: "Fyrst réttlæti, síðan kærleika."

Í annað sinn sagði hann að sem páfi væri hann mjög stoltur af því að vera sonur óbreytts og heiðarlegs verkamanns.

Og eitt sinn sagði hann, þegar hann heimsótti fanga í einu af fangelsum Rómar: "Fyrst þið getið ekki komið til mín, þá verð ég víst að koma til ykkar."

Stórglæpamaður einn spurði hann einu sinni, hvort hann gæti líka vænst einhvers, og Jóhannes páfi svaraði með því að faðma hann innilega að sé.

Tíu ára drengur skrifaði einu sinni Jóhannesi XXIII og sagði að hann vissi ekki, hvort hann vildi heldur verða, páfi eða lögregluþjónn. Páfinn svarði honum og sagði að það væri líklega best að hann lærði og yrði lögregluþjónn, því að páfar gætu allir orðið. "En ef þú kemur einhvern tíma til Rómar, þá líttu inn til mín og við skulum ræða málið," lauk hann bréfi sínu til drengsins.

Jóhannes páfi sagði einu sinni við trúlausan mann: "Og hvað er það svo, þegar öllu er á botninn hvolft, sem aðskilur okkur? Kannske hugmyndir okkar? En þær eru nú ekki svo mikilvægar, þar verðum við að viðurkenna."

Jóhannes XXIII var áreiðanlega ekki gallalaus maður og ekki heldur syndlaus, en við munum varla eftir neinu, sem honum var á vant, því hann var svo góður maður.

Hann var einn af hetjum okkar tíma og hann var ekki sá eini. Á hverju einasta skeiði kirkjusögunnar hefur kirkjan átt sínar hetjur. Um sumar þeirra hefur því verið lýst yfir opinberlega að þeir eða þær hefi verið dýrlingar. Það merkir m.a. að nöfn þeirra hafa verið skráð í dýrlingatal kirkjunnar. Um leið er þeim hverjum um sig úthlutað ákvenum messudegi innan kirkjuársins, og þann dag minnist fólkið þeirra í guðsþjónustunni. Um aðra er því ekki lýst yfir hátíðlega að þeir hafi verið helgir menn þótt þeir hafi lifað lífi sem er öllum öðrum fyrirmynd. Við getum kallað þá kristin mikilmenni. Dýrlingar, eða helgir menn, og kristin mikilmenni eiga það sameiginlegt að hafa lifað lífi sem sýnir að þeir hafa reynt bæði í orðum og athöfnum að feta í fótspor Krists.

15.02.08

  21:30:52, Skrásetjari: Sr. Denis O'Leary   , 341 orð  
Flokkur: Prédikanir

Föstudagurinn langi, textaröð ABC

Hvílíkur dagur!

……… Allir þeir sem skoða það sem gerðist síðustu klukkustundirnar sem Jesús lifði myndu telja að hann hefði upplifað "slæman" dag:

• Allt byrjaði það er Júdas yfirgaf síðustu kvöldmáltíðina til að svíkja hann - vissulega helsta hneyksli kristindómsins.
• Þrisvar leiddu sofandi lærisveinar hans hann hjá sér.
• Hann var tekinn til fanga og lærisveinarnir komu sér undan.
• Hann var ………

Read more »

14.02.08

  21:24:08, Skrásetjari: Sr. Denis O'Leary   , 107 orð  
Flokkur: Nokkrir gullmolar úr Tkk

Von um hjálpræði

64. Fyrir tilstilli spámannanna mótar Guð þjóð sína í voninni um hjálpræði, í eftirvæntingu um nýjan og ævarandi sáttmála fyrir alla menn, sáttmála sem ritaður er í hjarta þeirra. Spámennirnir kunngera gagngera endurlausn fyrir þjóð Guðs, hreinsun á allri ótryggð þeirra, hjálpræði sem muni ná til allra þjóða. Umfram allt munu hinir fátæku og auðmjúku Drottins bera þessa von. Slíkar heilagar konur sem Sara, Rebekka, Rakel, Mirjam, Debóra, Hanna, Júdít og Ester héldu lífi í voninni um hjálpræðið. Hreinust þeirra allra var María.

13.02.08

  21:52:02, Skrásetjari: Sr. Denis O'Leary   , 821 orð  
Flokkur: Dýrlingarnir og hetjur

Hetjan á Molokai

Kafli úr trúfræðslubókinni LEGG ÞÚ Á DJÚPIÐ.

Hawai-eyjar eru í miðju Kyrrahafinu. Í ferðaskrifstofubæklingum er þeim lýst sem Paradís á jörðu. Þar vaxa hitabeltisblóm um allt, pálmarnir vagga fyrir léttum blænum og bláar bylgjur Kyrrahafsins gjálfra við hvítar strendurnar. Ein þessara eyja heitir Molokai og hún var frá því endur fyrir löngu kölluð "Dauðaeyjan". Í lok 19. aldar voru þessi orð skrifuð í blað um hana: "Allir þeir, sem fara fram hjá klettaströnd Molokai, ættu að hneigja sig djúpt." Og blaðið segir hvers vegna menn ættu að gera það:

Eyjan hafði frá fornu fari verið dvalarstaður fyrir ………

Read more »

12.02.08

  15:27:45, Skrásetjari: Sr. Denis O'Leary   , 775 orð  
Flokkur: Dýrlingarnir og hetjur

Bernadetta í Lourdes

Kafli úr trúfræðslubókinni LEGG ÞÚ Á DJÚPIÐ.

Við rætur Pýrenea-fjallanna frakklandsmegin er alkunn borg sem heitir Lourdes. Sagan um Bernadettu hefst 1844, en þá var borgin hennar síður en svo merkileg. Það var Soubirous-fjölskyldan ekki heldur, hvorki í augum nágrannanna né eigin augum. Ef einhver hefði þá sagt foreldrunum að í framtíðinni yrðu börn í fjölmörgum löndum látin heita eftir dóttur þeirra, hefðu þeir hrist höfuðin og sagt: "Eftir henni Bernadettu? Nei, það getur ekki verið!"

Fjölskyldan bjó í ………

Read more »

11.02.08

  20:44:46, Skrásetjari: Sr. Denis O'Leary   , 550 orð  
Flokkur: Messan

Sunnudagsmessan er heimsókn okkar til Guðs.

Grein eftir Sr. Róbert Bradshaw (dó 1993).

Guð skapaði okkur í þeim sérstaka tilgangi, að við getum lært að þekkja og elska hann og þjóna honum hér á jörðinni, svo að við fáum eftir dauðann að sjá hann og njóta návistar hans um alla eilífð á himnum. Að því kemur, að við deyjum. Það verður ekki umflúið. Og þá verðum við dæmd. Hvernig varði hvert og eitt okkar lífinu, sem Guð gaf okkur? Á þessum dómi veltur það, hvar okkur er búinn staður um alla eilífð.

Getum við verið þess fullviss að fara til himna? Jesús var spurður þessarar spurningar, og hann svaraði ………

Read more »

10.02.08

  21:13:15, Skrásetjari: Sr. Denis O'Leary   , 896 orð  
Flokkur: Greinar eftir Sr. Róbert Bradshaw (dó 1993)

Himnaríki

Ef sum alvarlegustu orð Biblíunnar varða helvíti, þá fjalla líka sum þeirra yndislegustu um himnaríki. Þar er sýnt fram á, að himnaríki er hin sönnu heimkynni okkar og sá staður þar sem Guð óskar þess, að við dveljum með sér í eilífðinni. Augu kristins manns ættu að beinast staðfastlega að himnaríki, en ekki hvika undan, til þess að reyna að forðast hugsunina um helvíti.

Guð vill, að við frelsumst, og þess vegna sendi hann ………

Read more »

09.02.08

  18:57:39, Skrásetjari: Sr. Denis O'Leary   , 261 orð  
Flokkur: Lífsvernd

……… að búa við villimennsku ………

Kafli úr Evangelium Vitae

14. ……… "Forburðarskoðun hefur ekki í för með sér neinar siðferðilegar mótbárur ef hún er gerð til að kanna hvort lækningar sé þörf á fyrir barnið í móðurkviði. Hún verður hins vegar allt of oft tilefni þess að ýta undir og framkvæma fóstureyðingu. Þetta er þannig fóstureyðing sem gerð er til að bæta erfðaeiginleika. Þetta réttlætir almenningsálitið á grundvelli hugarfars sem af misskilningi

Read more »

08.02.08

  20:53:00, Skrásetjari: Sr. Denis O'Leary   , 269 orð  
Flokkur: Prédikanir

2. sunnudagur í föstu, textaröð C

Smásynd og dauðasynd

……… Á föstunni gerum við okkar besta til að uppfylla það sem Guð ætlast til af okkur. Hann biður okkur að taka sinnaskiptum og að snúa baki við syndinni. Og hann styrkir okkur til að svo megi verða.

Skilja má syndina sem móðgun við Guð. En syndin er ekki alltaf sama eðlis. Syndin er mismunandi eftir því hversu alvarleg hún er; hún getur verið dauðasynd eða smásynd.

Read more »

07.02.08

  22:19:17, Skrásetjari: Sr. Denis O'Leary   , 296 orð  
Flokkur: Prédikanir

2. sunnudagur í föstu, textaröð A

Ummyndun Jesú

……… Pétur, Jakob og Jóhannes urðu þess heiðurs aðnjótandi að sjá Jesú ummyndast. Guð, Faðirinn, talar frá himnum og segir:

"Þessi er minn elskaði sonur,
sem ég hef velþóknun á.
Hlýðið á hann!"

Þessi orð föðurins sýna glögglega

Read more »

06.02.08

  09:26:44, Skrásetjari: Sr. Denis O'Leary   , 145 orð  
Flokkur: Nokkrir gullmolar úr Tkk

Guð einn fyrirgefur syndir

1441. Guð einn fyrirgefur syndir. Jesús er Sonur Guðs og því segir hann um sjálfan sig: “Mannssonurinn hefur vald til að fyrirgefa syndir á jörðu”; hann fer með þetta guðdómlega vald: “Syndir þínar eru fyrirgefnar”. Í krafti guðdómlegs myndugleika síns gefur hann mönnum þetta vald til að fara með í hans nafni.

1442. Vilji Krists er sá að í bænum, lífi og athöfnum sínum sé öll kirkjan tákn og verkfæri þeirrar fyrirgefningar og sátta sem hann ávann okkur með blóði sínu. Og hann treysti hinni postullegu hirðisþjónustu fyrir því að veita syndaaflausn. Hún hefur með höndum “þjónustu sáttargjörðarinnar”. Postulinn er sendur út sem “erindreki Krists” og fyrir hann er það “Guð sem áminnir” okkur og hvetur: “Látið sættast við Guð.”

05.02.08

  22:28:14, Skrásetjari: Sr. Denis O'Leary   , 142 orð  
Flokkur: Nokkrir gullmolar úr Tkk

Mannshjartað er þungt og forhert

1432. Mannshjartað er þungt og forhert.

Guð verður að gefa manninum nýtt hjarta.

Afturhvarf er fyrst og fremst verk náðar Guðs sem snýr hjarta okkar til hans: “Snú þú oss til þín, Drottinn, þá snúum vér við.”

Guð gefur okkur styrk til að byrja upp á nýtt.

Þegar við komumst að raun um hversu kærleikur Guðs er mikill skelfur hjarta okkar yfir andstyggð og byrði syndarinnar og tekur að óttast að misbjóða Guði með synd og verða viðskila við hann.

Mannshjartað leitar afturhvarfs þegar það horfir á hann sem syndir okkar hafa gegnumstungið: Beinum huganum að blóði Krists.

Hugleiðum hversu dýrmætt þetta blóð er í augum Föður hans því að úthelling þess var okkur til hjálpræðis og hefur opnað öllum mönnum leið til iðrunar.

31.01.08

  23:15:47, Skrásetjari: Sr. Denis O'Leary   , 872 orð  
Flokkur: Lífsvernd

Heilög Gianna Beretta Molla (1922-1962)

Gianna Beretta fæddist í Magenta, Mílanó, á Ítalíu 4. október árið 1922.

Strax sem ung stúlka tók hún á móti gjöf trúarinnar af fúsum vilja, svo og hinni ágætu kristnu fræðslu sem hún hlaut hjá sinum góðu foreldrum. Þetta átti sinn þátt í því að Gianna leit á lífið sem einstaka gjöf frá Guði. Þá leiddi þetta til þess að hún öðlaðist sterka trú á guðlega forsjón og varð sannfærð um nauðsyn og áhrifamátt bænarinnar.

Read more »

28.12.07

  18:37:00, Skrásetjari: Sr. Denis O'Leary   , 635 orð  
Flokkur: Prédikanir

Jólaprédikun 2007

• „Ég boða yður mikinn fögnuð, sem veitast mun öllum lýðnum: Yður er í dag frelsari fæddur, sem er Kristur Drottinn, í borg Davíðs“ (Lk 2:10-11).

• Kæru bræður og systur í Kristi.

• Mig langar að bjóða ykkur öll velkomin til kirkjunnar á þessari hátíðarstundu.

• Þetta er dagurinn sem við minnumst að Sonur Guðs gerðist maður. Sá sem getinn var sem maður í skauti Maríu frá Nasaret, af Heilögum Anda, er enginn annar en eilífi Sonur Föðurins, önnur persóna hinnar heilögu þrenningar.

Og hann kom til að frelsa okkur. Jesús lagði líf sitt í sölurnar til að frelsa okkur frá synd. En fæðing hans og dauða hans er, ein og sér, ekki nægileg okkur til sáluhjálpar. “Einungis þegar Jesús er myndaður í okkur verður leyndardómur jólanna uppfylltur í okkur.” (Tkk 526.) Guð hefur gefið okkur frjálsan vilja. Það merkir að við stöndum frammi fyrir vali. Við getum tekið á móti Guði eða hafnað honum og Guð virðir ákvörðun okkar - jafnvel um alla eilífð. Þ.e.a.s. að sérhvert jáyrði eða neiyrði hefur áhrif á eilífa velferð okkar!

Mig langar að segja ykkur stutta sögu:
Eitt sinn kom lítil stúlka að dyrum prestbústaðarins og spurði: "Getur þú sagt mér hvar Guð býr?" Presturinn benti á kirkjuna. Stúlkan þakkaði fyrir og fór í kirkjuna. Hún hafði greinilega eitthvað í höndunum. Klukkustund síðar fór presturinn í kirkjuna. Þegar hann kom inn í hana varð hann undrandi að sjá sælgæti og kexkökur á altarinu. Þar lá einnig miði sem á stóð: "Kæri Guð, hér er lítil gjöf handa þér. Ég elska þig mjög mikið, Svala."

Við vitum að elskendum finnst gaman að gefa hvort öðru gjafir. Fyrstu jólanóttina sýndi Guð elsku sína til okkar með því að gefa okkur eitthvað fallegt - þ.e.a.s. hann gaf okkur Jesú. Og um hver jól gefum við líka þeim sem við elskum og þykir vænt um, gjafir. En mig langar að spyrja: hvað ætlum við að gefa Guði núna í dag?

"Að verða eins og barn í samskiptum við Guð er skilyrði fyrir því að komast inn í himnaríki. Því er það nauðsynlegt að auðmýkja sig og gerast lítill gagnvart honum. Og það sem meira er, til að verða “Guðs börn” verðum við að “fæðast að nýju” eða vera “af Guði fædd”. Einungis þegar Kristur er myndaður í okkur verður leyndardómur jólanna uppfylltur í okkur." (Tkk. 526.)

Þessi kærleikur Guðs til okkar krefst viðbragða af okkar hálfu. Við megum ekki gleyma að Guð er kærleikur og það hefur verið sagt að einungis kærleikur getur endurgoldið kærleika. Þess vegna erum við beðin um að “Elska Drottin Guð, af öllu hjarta.”

• Við skulum gefa okkur smá tíma núna að horfa á Jesúbarnið í jötunni. Hvað er það sem þig langar helst að segja við hann í dag?

• Mig langar að enda þessa prédikun með bæn.

“Drottinn, vér höfum fyrir fagnaðarboðskap engilsins orðið þess vísari, að Sonur þinn er maður orðinn. Vér biðjum þig, úthell náð þinni í hjörtu vor, svo að sakir milligöngu hinnar heilögu meyjar og fyrir þjáningar Krists og kross verðum vér leiddir til upprisu dýrðarinnar. Fyrir Krist, drottin vorn. Amen.”

• Kæru bræður og systur í Kristi, ég óska ykkur gleðilegra jóla!

15.11.07

  21:46:43, Skrásetjari: Sr. Denis O'Leary   , 482 orð  
Flokkur: Grein eftir Sr. Frans van Hooff (dó 1995)

María og Eva (Grein eftir Sr. Frans van Hooff (dó 1995))

Í kennslu kirkjunnar eru oft borin saman Adam og Kristur, Eva og María. Adam er fyrsti maðurinn og faðir allra, Kristur er hinn nýi Adam - hinn fyrsti í nýsköpuninni. Eva stendur við hlið Adams og María stendur við hlið Krists.

Guð hafði skapað Adam og sagt við hann: "Af öllum trjám í aldingarðinum máttu eta eftir vild, en af skilningstrénu góðs og ills mátt þú ekki eta. Með því skaltu viðurkenna að ég, Guð, er hinn æðsti." Hið sama boðorð gilti fyrir Evu.

En Eva hlýddi ekki. Hún hugði sig vera sterka og hreina, hún þyrfti ekki boðorð Guðs. Hún var drottning paradísar, og ekkert gat skaðað hana. Hún fór til trésins. Hjá trénu fann hún freistarann.

Hann sagði: "Heldur þú að hér sé hið illa? Alls ekki. Guð langar aðeins að sjá þig undirgefna sem þræl, sem beygir sig og krýpur í bæn. Ertu ekki drottning alheimsins?"

Og hann bauð henni að borða. Hún gerði það og síðan fór hún til Adams sem át einnig.

Með Maríu er allt andstætt. Hún sá fyrir ljós Guðs að óhlýðni Evu hafði sárt Guð, og vildi bæta fyrir þetta. Hún var hlýðin í öllu. Guð bað hana að verða móðir Messíasar og móðir Guðs. Og hún hlýddi og svaraði: "Ég er ambátt Drottins, verði mér eftir orði þínu."

Það var sem henni væri gefin fögur rós, en rósin var með þyrnum. Einn þyrnanna var að hún, yrði í augum Jósefs sem ótrú og sek. En hún fól það Guði í hendur að hugga og kenna heilögum Jósef. Annar þyrninn var að hún vissi að sonur hennar yrði maður þjáninga. En á móti þessu kom sú fullvissa að hún gat sagt mannkyninu: "Grátið ekki, bráðum mun ég fæða ykkur frelsarann." Hún gat jafnvel gert Guð glaðan, því að með hlýðni sinni gerði hún yfirbót fyrir óhlýðni Evu.

María var jarðvegur þar sem nýtt¸ tré óx, krosstré, þar sem Jesús hékk á. Jesús þekkti allt hið illa, því hann þjáðist mikið af völdum þess. Hann þekkti einnig allt hið góða sem hann vildi öllum gefa.

María var full náðar. Hún þekkti einnig allt hið góða og lifði samkvæmt því. Hún vísaði hinu illa á bug, því það er til einskis að þekkja hið illa.

Við biðjum: Guð, send þú okkur frelsarann, fæddan af Maríu Mey.

11.11.07

  22:06:51, Skrásetjari: Sr. Denis O'Leary   , 185 orð  
Flokkur: Dæmisögur og sögur II

"Með þeim mæli, sem þér mælið, mun yður aftur mælt verða."

"Gefið, og yður mun gefið verða. Góður mælir, troðinn, skekinn, fleytifullur mun lagður í skaut yðar. Því með þeim mæli, sem þér mælið, mun yður aftur mælt verða." (Lk 6:38)

Til er saga um konu nokkra sem vön var miklum munaði. Eftir dauða sinn kom hún til himna. Engill var sendur til að leiða hana að vistarveru hennar þar. Á leiðinn fóru þau fram hjá mörgum reisulegum húsum og var konan mjög hrifin. Hún hlakkaði til að sjá sína hús.

Skömmu seinna tók konan eftir því að húsin urðu alltaf minni og minni. Og áfram héldu þau þar til þau að lokum komu að örlitlu kofaskrifli.

"Þetta er húsið þitt", sagði engillinn.

"Hvað segirðu!", sagði konan, "Þetta! Ég get ekki búið í þessu. Ég vil stórt hús."

"Því miður", sagði engillinn, "þetta er allt sem við gátum byggt fyrir þig úr því efni sem þú hefur sent okkur upp."

12.09.07

  08:04:05, Skrásetjari: Sr. Denis O'Leary   , 72 orð  
Flokkur: Til umhugsunar

Síðasta sjö orð Jesú Krists á krossinum

(14. september er upphafning hins heilaga kross)

1 "Faðir, fyrirgef þeim, því að þeir vita ekki, hvað þeir gjöra." Lk 23:34

2 "Sannlega segi ég þér: Í dag skaltu vera með mér í Paradís." Lk 23:43

3 "Kona, nú er hann sonur þinn." "Nú er hún móðir þín." Jn 19:26

4 "Guð minn, Guð minn, hví hefur þú yfirgefið mig?" Mk 15:34

5 "Mig þyrstir." Jn 19:28

6 "Það er fullkomnað." Jn 19:30

7 "Faðir, í þínar hendur fel ég anda minn!" Lk 23:46

02.03.07

  00:05:59, Skrásetjari: Sr. Denis O'Leary   , 917 orð  
Flokkur: Greinar eftir Sr. Róbert Bradshaw (dó 1993)

BIBLÍAN - ORÐ GUÐS

Biblían er helgasta bók, sem rituð hefur verið. Hún hefur að geyma orð Guðs; hún segir okkur frá Guði og því, sem hann hefur kennt okkur. Í Biblíunni fræðumst við um þýðingu og tilgang lífsins; við lærum, hvað það er, sem Guð ætlast til af okkur; okkur eru kennd boðorð Guðs; við erum vöruð við því, að eftir dauðann bíður okkar dómur; við lærum um lífið eftir dauðann.

Biblían er raunar ekki ein bók, heldur safn bóka. Í henni eru alls 72 bækur. 45 þeirra voru ritaðar fyrir daga Krists, og nefnast Gamla testamentið. 27 bækur Biblíunnar voru ritaðar eftir daga Krists og nefnast Nýja testamentið.

Orðið "testamenti" merkir samningur eða sáttmáli, sem Guð gerir við mennina. Bókin Exodus, sem gjarnan er kölluð Önnur Mósebók, er þungamiðja og mikilvægasta bók Gamla testamentisins, því að hún greinir frá þeim sáttmála, eða því testamenti, sem Guð gerði við þjóð sína. Inntak hans er þetta: "Ef þið haldið boðorð mín, getið þið verið þess fullviss, að ykkur bíður eilíf hamingja. Þið eruð þjóð mín, og ég er Guð ykkar." Og síðan innsiglar hann þennan sáttmála með því að leiða þjóð sína, undir forystu Móse, út úr þrælahúsinu Egyptalandi inn í frelsi hins fyrirheitna lands.

Það er auðvelt að sjá, hvernig Nýja testamentið hefur hlotið nafn. Það greinir frá alveg nýju skipulagi eða sáttmála, þar sem Guð sendir, ekki aðeins spámann, heldur sinn eigin Son, til þess að deyja fyrir okkur á Golgata og frelsa okkur þannig úr þrældómi syndarinnar.

Mikilvægustu bækur Nýja testamentisins eru hin fjögur guðspjöll Matteusar, Markúsar, Lúkasar og Jóhannesar. Þau segja frá lífi og kenningum Jesú Krists, stofnun kirkjunnar og dauða og upprisu Jesú. Fimmta bókin í Nýja testamentinu, sem er Postulasagan, er sömuleiðis mjög þýðingarmikil, því að hún greinir frá komu hins Heilaga Anda og sögu frumkirkjunnar.

Hver ritaði Biblíuna? Það voru menn, sem Guð valdi sérstaklega til þess hlutverks. Sennilega hafa margir þeirra ekki gert sér grein fyrir því, að það væri Guð sjálfur, sem leiðbeindi þeim og stjórnaði við skriftirnar. Höfundarnir höfðu hver sinn eigin stíl, sín persónueinkenni og meira að segja sínar takmarkanir. En þeir voru innblásnir af Guði, svo að þau trúarlegu sannindi, sem þeir skrásettu, voru í raun og sannleika opinberun frá Guði. Þess vegna getum við sagt, að Biblían sé innblásið rit, hún sé Guðs orð.

En verðum við þá að trúa öllu, sem í Biblíunni segir? Eigum við, svo að dæmi sé tekið að trúa því að Guð hafi skapað heiminn á sjö dögum, eins og stendur í Biblíunni? Svarið er það, að við verðum að trúa því, sem Biblían segir, þegar hún greinir frá sannindum trúarinnar, og þar á meðal auðvitað opinberunum Guðs til mannanna og sögu hinnar útvöldu þjóðar hans. En Biblían var ekki skrásett sem vísindarit og gerir enga kröfu til þess að teljast nákvæm í vísindalegum efnum. Ef höfundur Genesis, sem gjarnar er nefnd Fyrsta Mósebók, ætlar sér að skýra út einhver þýðingarmikil sannindi um Guð, hikar hann ekki við að setja á blað ólíkindalega frásögn, til þess að einfalda mál sitt, alveg eins og kennari leggur áherslu á mikilvæga hluti, með því að segja börnunum dæmisögu. Þess vegna skipti það höfund Genesis ekki meginmáli, hvenær eða hvernig Guð skapaði heiminn. Aðalatriðin eru þau sem koma fram í lýsingu hans, að það hafi verið Guð, sem skapaði heiminn og alla hluti; að hann hafi skapað þetta úr engu; að sköpunarverk Guðs sé háð þeim reglum, sem hann ákvað; og að sköpun mannsins sé hápunkturinn í sköpunarverki Guðs.

Allir ættu að eiga Biblíuna og sýna henni mikla lotningu. Hún er heilög, vegna þess að hún er Guðs orð. Það er ekki aðeins, að hún segi sögu hinna andlegu forfeðra okkar - við skulum muna það, að við erum andlegir afkomendur Abrahams - heldur finnum við einnig í henni ljóslifandi frásögn um það, að Guð sjálfur elskar hvert og eitt okkar.

Heilagri ritningu er ekki ætlað það eitt að vera til skrauts. Við ættum öll að lesa hana að staðaldri. Þó að þú hafir kannski ekki ennþá vanið þig á þennan góða sið, er ekki orðið of seint að byrja. Mig langar til að stinga upp á því, að þú byrjir þá á Nýja testamentinu, sérstaklega guðspjöllunum, því að þau eru ekki aðeins mikilvægustu bækurnar í Biblíunni, heldur einnig þær fallegustu og áhrifamestu.

Það að lesa hina heilögu ritningu er áskorun til okkar; það er tilboð; hún er saga um ást. Hún er eins og fersk uppsprettulind í eyðimörk. Við skulum ekki láta okkur sjást yfir það að neyta vatnsins úr henni.

28.02.07

  23:35:17, Skrásetjari: Sr. Denis O'Leary   , 164 orð  
Flokkur: María Guðsmóðir

María, konan sem Guð valdi

"María fæddi Jesú, son Guðs."

Þessi fáu orð fela í sér lofgjörð okkar til Maríu. María, konan sem Guð valdi til að gegna einstöku hlutverki í veraldarsögunni. Það var hlutverk hennar að vera móðir Messíasar.

Þetta var sagt fyrir af spámönnum Gamla testamentisins. Þeir sögðu að Messías kæmi til að frelsa fólk sitt og að hún myndi fæða hann. Og þannig gerðist þetta allt samkvæmt áformi Guðs. Engri annarri konu hefur nokkru sinni hlotnast annar eins heiður og sá sem Maríu hlotnaðist frá Guði.

Það var líka áform Guðs, að hlutverk Maríu sem móður skyldi ekki taka enda þegar Jesús sneri aftur til himnaríkis heldur yrði hún líka móðir fylgismanna Jesús. Þar erum við meðtalinn! Guð vill að við elskum hana sem okkar himnesku móður.

27.02.07

  23:36:25, Skrásetjari: Sr. Denis O'Leary   , 117 orð  
Flokkur: Dæmisögur og sögur II

Hann varð aldrei stærðfræðingur

Það var einu sinni stúdent sem vildi verða stærðfræðingur. Í nokkrar vikur sótti hann tímana samviskusamlega á hverjum degi og gerði heimavinnuna sína samviskusamlega á hverju kvöldi.

Einn daginn varð hann mjög þreyttur á allri tímasókninni og heimavinnunni. Hann sá að það var mjög erfið vinna að vera stærðfræðingur. Hann fletti í gegnum stærðfræðibókina sína og sá í fyrsta skipti að lausnirnar á dæmunum voru aftast í bókinni. Hann ákvað að framvegis skyldi hann aðeins skrifa niður lausnirnar í stað þess að eyða mörgum klukkutímum í að læra.

Auðvitað varð hann aldrei stærðfræðingur!

  23:26:16, Skrásetjari: Sr. Denis O'Leary   , 349 orð  
Flokkur: Til umhugsunar

Jesús heldur áfram að lækna í gegnum okkur!

Veikindi og þjáningar hafa alltaf verið meðal stærstu vandamála, sem fólk hefur orðið að horfast í augu við í lífinu. Þegar við erum alvarlega veik, verðum við fljótt vanmáttug og auðsæranleg. Við verðum hrædd. Og þegar við erum mjög veik, finnum við stundum fyrir návist dauðans.

Vanheilsa getur gert okkur reið, þunglynd og bitur. Stundum snúumst við gegn Guði þegar við erum veik, vegna þess að við sökum hann.

En vanheilsa getur líka haft gagnstæð hrif. Hún getur hjálpað okkur til að þroskast, svo að við sjáum skýrar hvað er mikilvægt og hvað ekki í lífi okkar. Mjög oft getur vanheilsan hvatt okkur til að leita að Guði og snúa okkur til hans.

Samúð Jesú með hinum sjúku og hinar mörgu lækningar hans eru tákn um það að Guð vakir yfir okkur og lætur sér annt um okkur. Frelsari okkar læknar ekki aðeins líkamann með því að taka burt sjúkdóma. Hann læknar líka sálir okkar með því að taka burt syndina. Samúð hans gagnvart öllum sem þjást gengur svo langt að hann gerir jafnvel þeirra þjáningar að sínum eigin. "Ég var sjúkur og þér vitjuðuð mín."

Ást Jesú á hinum sjúku hefur varðveist um aldir í kirkjunni. Fyrst í klaustrunum, þar sem hinir sjúku fundu skjól. Seinna helguðu margar prestareglur og nunnureglur sig því að annast sjúka.

Til að finna dæmi um það þurfum við ekki að leita mjög langt. Við þurfum aðeins að minnast þess að þrjú af sjúkrahúsunum hér á Íslandi voru í mörg ár rekin af Sankti Jósefs systrum og Fransiskus systrum. Þessar systur og þúsundir fleiri víðsvegar um heim hafa helgað æfi sína því að hjálpa sjúkum. Þær feta í fótspor Jesú.

Jesús heldur áfram að kenna, lækna og þjóna — í gegnum okkur!

25.02.07

  23:41:09, Skrásetjari: Sr. Denis O'Leary   , 458 orð  
Flokkur: Messan

Jesús er til staðar í Altarissakramentinu

Það eru margir í heiminum í dag sem neita að trúa því að Jesús hafi verið Sonur Guðs. Þetta sama fólk viðurkennir e.t.v. að hann hafi verið andríkur en það hafi verið allt og sumt. Fólkið sýnir Jesú ákveðna virðingu og fylgir honum að vissu leyti. Ef það viðurkenndi, hver hann væri í raun og veru, þá mundi fólkið sýna honum enn meiri virðing, og fylgir honum betur eftir.

Hver ætti virðing okkar að vera þá gangvart Jesú þegar við vitum að hann er í raun og veru Sonur Guðs almáttugs? Hversu vel ættum við að fylgja honum þegar við vitum að hann er ekki einungis andríkur maður, heldur að hann sé önnur persóna Heilagrar Þrenningar? Er hann ekki vor konungur konunganna og æðstur drottinn vor?

Það er hægt að finna út hversu mikla virðingu við berum fyrir Drottni vorum Jesú Kristi með því að sjá hversu mikla virðingu við berum fyrir honum í Altarissakramentinu. Jesús er til staðar í Altarissakramentinu okkar vegna.

Þetta sakramenti er sérstakt tákn Guðs um kærleika hans og umhyggju fyrir okkur. Þarna er hann á meðal okkar á mjög sérstakan hátt.

Konungur okkar kemur til okkar sem í mynd brauðs og víns. Hann er Brauð Lífsins. Hann kemur til okkar sem fæða. Venjuleg fæða gefur okkur líf og hjálpar okkur að endurnýja líkama okkar. Venjuleg fæða veitir okkur þrótt og ánægju. Altarissakramentið gefur okkur andlegt líf og gerir gott úr þeim skemmdum er syndin veldur. Það veitir okkur andlegan þrótt og ánægju.

Í hverri messu sem við sækjum þá fögnum við nærveru Jesús meðal vor. Hann talar til okkar Þegar við hlustum á ritningarlestrana og prédikunina. Í byrjunmessunar biðjum við hann um fyrirgefningu syndanna. Þegar við berum hvort öðru friðarkveðju, þá biður hann okkur að fyrirgefa þeim sem hafa syndgað geng okkur. Þegar messunni er lokið, heldur hann áfram að vera hér í guðslíkamahúsinu, til að við getum verið með honum.

Það er til saga um prest sem tók eftir konu sem sat ein í kirkjunni og bað til Jesú í guðslíkamahúsinu. Klukkustund seinna, sá presturinn að hún var þar enn. Önnur klukkustund til viðbótar leið og enn var hún þar í bæn. Þegar þar var komið, gekk presturinn til konunnar og spurði hvort það væri eitthvað sem hann gæti gert fyrir hana. „Nei, þakka þér fyrir, faðir“, svaraði hún. „Ég hef fengið alla þá hjálp sem ég þarf á að halda frá Jesú.“

24.02.07

  23:37:29, Skrásetjari: Sr. Denis O'Leary   , 326 orð  
Flokkur: Messan

Löngu liðnir atburðir eru að gerast aftur

Ár hvert halda Gyðingar upp á páska, sömu viku og við köllum páskaviku. Einn hápunktur hátíðarinnar hjá Gyðingum er, þegar fjölskyldan borðar saman páskamáltíðina. Þeir neyta sama málsverðar — þ.e.a.s., ósýrð brauð, beyskar kryddjurtir og lambakjöt og drekka vín — sem forfeður þeirra átu og drukku nóttina sem þeir yfirgáfu Egyptaland. Engill Guðs fór yfir Egyptaland þessa fyrstu nótt og þeir urðu frjálsir eftir að hafa verið þrælar.

Þessi páskamáltíð er ekki aðeins minningarathöfn vegna löngu liðinna atburða. Gyðingar trúa því að er þeir neyti páskamáltíðarinnar, þá einhvern veginn, gerist það sama og gerðist er þeir yfirgáfu Egyptaland. Löngu liðnir atburðir eru að gerast aftur. Þessi máltíð minnir Gyðinga kröftuglega á að þeir eru kvaddir til að breyta frá syndaþrælkun og eigingirni yfir í betra líferni.

Það atriði sem ég vil vekja athygli á er: eins og vissir liðnir atburðir verða uppvaktir fyrir Gyðinga, með páskamáltíðinni; þá er það eins fyrir okkur, í messunni. Atburðir síðustu kvöldmáltíðarinnar og krossfestingarinnar, gerast aftur. Salur síðustu kvöldmáltíðarinnar og Golgata verða á vissan hátt uppvaktir í messunni.

Fyrir Gyðinga í dag, eru þessir gömlu atburðir endurvaktir til þess að þeir breyti til bættara lífernis, samkvæmt þessum atburðum. Fyrir okkur í dag, eru atburðir þjáninga og dauða Krists endurvaktir, svo að við munum breyta lífum okkar, eftir þessum atburðum. Fórn Jesús á krossinum var borin einu sinni, fyrir okkur öll, og fyrir messuna verður hún uppvakin í lífum okkar. Eins oft og fórn Jesús á krossinum er haldin hátíðleg á altarinu, heldur frelsun okkar áfram.

23.02.07

  23:31:37, Skrásetjari: Sr. Denis O'Leary   , 120 orð  
Flokkur: Lífsvernd

Að fara með bæn daglega um að fóstureyðingum linni

Lífsverndarfólk getur skipt sköpum með bænum sínum og fórnfýsi, því lífsverndarbaráttan er fyrst og fremst andleg barátta gegn öflum hins illa.
Við getum ekki hunsað þá staðreynd að um 900 fóstureyðingar eru framkvæmdar á hverju ári á íslandi.
Sum af þessum deyddu börnum gætu hafa orðið nágrannar okkar eða vinir barna okkar.
Kannski framtíðar tengdasonur eða tengdadóttir.
Að segja ekki neitt og gera ekki neitt andspænis slíku óréttlæti gangvart deyddum börnum, er nokkurs konar þáttaka með fóstureyðingum.
Vilt þú gera eitthvað?
Að minnsta kosti fara með bæn daglega um að fóstureyðingum linni á Íslandi.

22.02.07

  18:28:27, Skrásetjari: Sr. Denis O'Leary   , 321 orð  
Flokkur: Til umhugsunar

Galli og synd er ekki það sama.

Galli og synd er ekki það sama. Galli er veikleiki í skapgerð okkar sem gerir okkur auðveldara fyrir að drýgja vissar syndir. Ágallinn er varanlegur nema við losum okkur við hann.

Aftur á móti er syndin eitthvað sem við drýgjum á gefnu augnabliki.

Við skiljum betur muninn á galla og synd ef við hugsum okkur að gallinn sé rótin og syndin laufblöðin. Það er þannig með arfann sem við reynum að reita í garðinum að það er ekki nóg að slíta blöðin, við verðum einnig aðrífa upp ræturnar. Að öðrum kosti munu laufblöðin vaxa fljótt aftur. Það sama á við syndina í lífi okkar, hún mun endurtaka sig nema því aðeins að við losum okkur við þann ágalla sem veldur henni.

Að megin hluta eru ágallar mannsins sjö að tölu eftir því sem kaþólskir guðfræðingar segja okkur. Suma þeirra höfum við öll í einhverju mæli.

Fyrsti ágallinn er HROKI. Hroki er uppspretta margra synda eins og gegndarlausrar framagirni, ofurtrúar á eigin andlegri getu, hégóma, monts og svo framvegis.

Sá næsti er ÁGIRND. Ágirnd er uppspretta margra synda eins og þjófnaðar, fjársvika, arðráns, vinnusvika, okurstarfsemi og svo framvegis.

Þriðji ágallinn er LOSTI. Lostinn er uppspretta margra synda sem ganga gegn hreinlífi.

Fjórði er REIÐI. Reiðin er uppspretta margra synda eins og mannvígs, deilna, haturs, meinfýsi, skemmda á eignum og svo framvegis.

Fimmti ágallinn er ÓHÓF. Óhóf er uppspretta synda eins og ofáts og ofdrykkju.

Sjötti er ÖFUND. Öfundin er uppsprettasynda eins og rógburðar, óvildar og svo framvegis.

Sjöundi er LETI. Leti er uppspretta margra synda eins og að vanrækja fjölskylduna og vinnuna, að fara ekki til messu á sunnudögum að ásettu ráði, að biðjast aldrei fyrir og svo framvegis.

21.02.07

  23:27:42, Skrásetjari: Sr. Denis O'Leary   , 191 orð  
Flokkur: Til umhugsunar

Hversu vel þekki ég sjálfan mig?

Hversu vel þekki ég sjálfan mig?

Þessa mikilvægu spurningu ætti hver og einn ætti að spyrja sig. Margir dýrlingar hafa í skrifum sínum gefið góðar ráðleggingar í þeim efnum. Spurningin er mikilvæg vegna þess að ef við reynum að svara henni getur það þroskað andlegt líf okkar. Það gerir okkur kleift að sjá okkur í því ljósi sem Guð sér okkur. Þetta er að sjálfsögðu merking sannrar auðmýktar — að sjá sjálfan sig í því ljósi sem Guð sér okkur. Engin sýndarmennska, ekkert er falið, við birtumst eins og við erum í raun og veru með alla okkar kosti og galla.

Heilagur Antoníus mikli, sem kallaður hefur verið faðir munkalífs, var fæddur í Egyptalandi í kringum árið 251. Margt af því sem hann skrifaði hefur varðveist fram á okkar tíma. Eftirfarandi sagði hann eitt sinn um auðmýktina: „Ég sá ginningar óvinarins hvert sem litið var og ég sagði: „Hvað fær staðist slíkar ginningar?“ Og ég heyrði rödd sem sagði við mig:„Auðmýktin“.“

20.02.07

  23:19:15, Skrásetjari: Sr. Denis O'Leary   , 208 orð  
Flokkur: Dæmisögur og sögur II

Ættartala

Sú saga er sögð um konu eina sem eyddi fimmtíu þúsund krónum til að fá ættartölu sína. Hún eyddi síðan öðrum fimmtíu þúsundum til að halda ættartölunni leyndri!

Ástæðan var sú að nokkrir forfeður hennar höfðu haft slæmt orð á sér og hún skammaðist sín fyrir þá.

Ef við hins vegar lesum upphafskafla Matteusarguðspjallsins, þar sem ættartala Jesú er rakin, sjáum við þrjár konur nafngreindar þar sem sérhver Gyðingur hefði skammast sín fyrir.
Fyrsta skal telja Batseba, sem syndgaði með Davíð konungi og leiddi skömm yfir konungborna afkomendur hans.
Önnur var Rahab sem var útlendingur og syndari.
Og sú þriðja var Rut sem var útlendingur (Gyðingar þeirra tíma var í nöp við útlendinga).

Matteus segir okkur að Jesús sé beinn afkomandi þessara kvenna. Guðspjallamaðurinn reynir ekki að leyna því. Hann virðist í raun hafa lagt sig í líma við að minnast á þessar þrjár konur. Þetta kennir okkur strax eitthvað um Jesúm. Hann blygðaðist sín ekki fyrir mannlegt ætterni sitt. Drottinn vor var ekki einungis vinur syndara og útlendinga - hann var skyldur þeim.

19.02.07

  23:15:46, Skrásetjari: Sr. Denis O'Leary   , 429 orð  
Flokkur: Bænir

KROSSFERILL

14 myndir er sýna þjáningaleið Krists til Golgata.

I+
Jesús er dæmdur til dauða.
Þrátt fyrir það segir hann: "Fyrir því elskar Faðirinn mig að ég legg líf mitt í sölurnar, svo að ég fái það aftur. Enginn tekur það frá mér, heldur legg ég það sjálfur í sölurnar." Jóh. 10,17-18

II+
Jesús ber sinn kross.
Vissulega er það rétt að "hann tók á sig mein vor og bar sjúkdóma vora." Matt.8,17b

III+
Þegar krossbyrðin var orðin of þung, féll Jesús í fyrsta sinn.

IV+
María var viðstödd alla þessa sorgargöngu. "Þjáning hennar var eins mikil og víðátta hafsins."

V+
"Þegar þeir leiddu hann út, tóku þeir Símon nokkurn frá Kýrene, er kom utan úr sveit, og lögðu krossinn á hann, að hann bæri hann eftir Jesú." Lúk. 23,26

VI+
Kona ein þerrar svitann af andliti Jesú.
"- svo afskræmd var ásýnd hans framar en nokkurs manns og mynd hans framar en nokkurs af mannanna sonum -" Jes. 52.14

VII+
Jesús heldur áfram. Hann örmagnast meir og meir. Hann fellur í annað sinn.

VIII+
"En honum fylgdi mikill fjöldi fólks og kvenna er hörmuðu hann og grétu." Lúk. 23,27

IX+
Jesús gæti sagt í bæn sinni: "Faðir bænheyr þú mig. Nú dreg ég brátt andann í síðasta sinn."

X+
Hermennirnir "gáfu honum vín að drekka, galli blandað ... Þeir köstuðu hlutum um klæði hans og skiptu með sér." Matt. 27,34-35

XI+
Því næst krossfestu þeir hann. Jesús var ekkert nema gæskan og fyrirgefningin, enda þótt hann héngi á krossinum. "Faðir, fyrirgef þeim, því að þeir vita ekki hvað þeir gjöra." Lúk. 23,34

XII+
Og það líður ekki á löngu þangað til hann deyr. "Enginn á meiri kærleik en þann að leggja líf sitt í sölurnar fyrir vini sína." Jóh. 15,13

XIII+
Líkami Jesú er tekinn niður af krossinum. Ef við hugsum okkur Jesúm, sem dó fyrir okkur, gætum við sagt á þessa leið: "Heilagi Faðir, meðtak þú Son þinn Jesúm sem hjálpræðisfórn fyrir alla menn."

XIV+
"En á staðnum, þar sem hann var krossfestur, var grasgarður og í garðinum ný gröf ... Þar lögðu þeir Jesúm." Jóh. 19,41-42

---
---
Páskamorgunninn ljómar í ljósi upprisunnar. Drottinn er upprisinn, hallelúja!

((( Kafli úr bók KOMIÐ OG SJÁIÐ. )))

18.02.07

  20:39:35, Skrásetjari: Sr. Denis O'Leary   , 57 orð  
Flokkur: Nokkrir gullmolar úr Tkk

Elskið óvini yðar

1825. Af kærleika dó Kristur fyrir okkur meðan við vorum ennþá "óvinir". [100] Drottinn biður okkur að elska eins og hann gerir, jafnvel óvini okkar, gera okkur að náunga þeirra sem fjarlægastir eru og að elska börn og hina fátæku eins og Krist sjálfan. [101] ........

.

100 Rm 5:10. 101 Sbr. Mt 5:44; Lk 10:27-37; Mk 9:37; Mt 25:40, 45.

15.12.06

  23:47:59, Skrásetjari: Sr. Denis O'Leary   , 688 orð  
Flokkur: Greinar eftir Sr. Róbert Bradshaw (dó 1993)

Altarissakramentið

Þetta er hið mesta allra sakramentanna. Í því meðtökum við raunverulegan lifandi líkama og blóð Krists.

Við síðustu kvöldmáltíðina breytti Jesús brauði og vini í líkama sinn og blóð. Hann gaf postulunum tólf vald þetta, og það vald skyldi frá þeim ganga til eftirkomandi biskupa og presta innan kaþólsku kirkjunnar.

Read more »

03.10.06

  23:43:11, Skrásetjari: Sr. Denis O'Leary   , 99 orð  
Flokkur: Dæmisögur og sögur II

"Þú ert Guð, sem sér."

Eitt sinn var drengur sem fór ásamt móður sinni, að heimsækja gamla konu. Þegar þau komu sýndi gamla konan þeim texta, sem hékk á veggnum. Þar stóð:

"Þú ert Guð, sem sér." (1M 16:13)

Gamla konan snéri sér að drengnum og spurði: "Sérðu þessi orð?"

"Já," svaraði drengurinn.

"Þessi orð merkja ekki að Guð sé stöðugt að fylgjast með því hvort þú sért að gera eitthvað rangt", hélt gamla konan áfram. "Nei, þessi orð þýða að Guð elskar þig svo mikið að hann getur ekki litið af þér."

25.09.06

  22:58:36, Skrásetjari: Sr. Denis O'Leary   , 172 orð  
Flokkur: Til umhugsunar

Við þekkjum ríki Guðs á kærleikanum

Móðir Teresa frá Kalkútta átti það til að segja eftirfarandi sögu:

„Einu sinni stóð Múhameðstrúarmaður við hlið mér og horfði á eina af okkur systur binda um sár holdsveiks manns, sem hún gerði af mikilli umhyggju og ást. Systirin sagði ekki orð við holdsveika manninn en hún gerði honum mikið gagn.

Múhameðstrúarmaðurinn sneri sér að mér og sagði: „Öll þessi ár hef ég trúað því að Jesús Kristur væri spámaður; einungis það, ekkert annað. En í dag hef ég komist að því að hann er Guð. Hann hefur látið ómælandi kærleika flæða um hjarta og hendur þessarar systur.““

Móðir Teresa bætti ávallt við eftir að hafa sagt þessa sögu:

„Enn þann dag í dag, veit þessi systir ekki að með hinni góða þjónustu sinni við holdsveika manninn bar hún Jesúm inn í líf Múhameðstrúarmanns.“

1 2 4 ...6 7

Sr. Denis O'Leary

Séra Denis O'Leary er sóknarprestur við Maríukirkju í Breiðholti.

Leit

  XML Feeds

powered by b2evolution