Blaðsíður: 1 ... 35 36 37 38 39 40 ...41 ...42 43 44 46

02.08.05

  17:30:09, Skrásetjari: Ragnar Geir Brynjólfsson   , 230 orð  
Flokkur: Önnur trúarbrögð

Breskir múslimar fordæma hryðjuverkaárásir

ICN greindi frá því 19. júlí [1] að meira en 500 breskir leiðtogar og fræðimenn múslima hafi lýst yfir „fatwa“ þ.e. fordæmt hryðjuverkaárásirnar á London. Í yfirlýsingunni er fórnarlömbum hryðjuverkanna vottuð samúð og beðið er fyrir bata þeirra.

Gul Mohammed aðalritari Múslimaráðs Bretlands (Brithish Muslim Forum) vitnaði í Kóraninn og sagði: „Þá er einhver drepur mann ... er eins og hann hafi drepið allt mannkyn, og þá er einhver bjargar mannslífi er eins og hann hafi bjargað öllu mannkyni“ og bætti svo við: „Afstaða Islam er skýr og hafin yfir allan vafa: Morð einnar sálar er morð alls mannkyns. Sá er sýnir mannlegu lífi ekki virðingu er óvinur mannkyns.“ „Við biðjum fyrir friði, öryggi og að samhljómur megi nást í hinu fjölþjóðlega Bretlandi“

Múslimaráð Bretlands eru regnhlífarsamtök sem stofnuð voru í mars á þessu ári. Liðlega 300 moskur tengjast ráðinu. Fatwa yfirlýsingin var einnig lesin upp í moskunum. Önnur yfirlýsing sem fordæmdi sjálfsmorðsárásirnar var gerð af meira en 40 islömskum leiðtogum og fræðimönnum á fundi sem annar hópur, Fulltrúaráð breskra múslima (Muslim Council of Britain) hélt.

[1]. „British Muslims issue fatwa against terrorism.“ Claire Bergin. 19.07.2005. Independent Catholic News. http://www.indcatholicnews.com

31.07.05

  23:52:57, Skrásetjari: Jon Valur Jensson   , 3765 orð  
Flokkur: Fósturvernd

Fóstureyðingar og samvizkumál

Erindi flutt í Útvarpi Sögu 25. júlí 2005.

Sælir, góðir hlustendur.
Ég heiti Jón Valur Jensson, er guðfræðingur að mennt, frá Háskóla Íslands, og með framhaldsnám í siðfræði og trúarheimspeki við háskólann í Cambridge á Englandi. Með námi vann ég almenna vinnu til lands og sjávar, ekki sízt á togurum úti á landi. Ég væri þó trúlega orðinn prestur í Þjóðkirkjunni, ef ég hefði ekki ákveðið að taka kaþólska trú, áður en námi lauk, en ég starfa nú sem forstöðumaður Ættfræðiþjónustunnar.

Þetta er í 3. sinn, sem ég tala hér í þessum þætti. Ég þakka Arnþrúði útvarpsstjóra þann heiður að fá að kynna viðhorf mín til mála.

Nú væri full þörf á því að ræða hér um miklu fleira en ófædd börn og fóstureyðingar, sem og heilsufarsafleiðingar þeirra, sem ég tók til umfjöllunar í hinum þáttunum. En það vill svo til, að í liðinni viku kom hér upp á Útvarpi Sögu allfjörug umræða um siðferði fóstureyðinga, og ég vil ekki svíkja menn um nokkur svör við andmælum þeirra, enda rennur mér blóðið til skyldunnar, vegna þess að ég lít svo á, að hér sé um að ræða mesta þjóðar- og siðferðismein nútímans, bæði hér á Íslandi, á Vesturlöndum og víðar. Þess vegna þarf það engrar afsökunar með, að ég klári nú fyrstu klukkustund mína í þessari þáttaröð með því að tala einmitt um þetta mál.

Umræðan hér um daginn spannst út frá því, að í liðinni viku tilnefndi George Bush dómarann John Roberts til að skipa sæti í Hæstarétti Bandaríkjanna. Talið er víst, að hann sé hlynntur takmörkun fóstureyðinga, en þær eru nú um 1,3 milljón árlega þar í landi. Það væri þess vegna lífsverndarsinnuðu fólki fagnaðarefni, ef hann hlyti staðfestingu þingsins í þessa stöðu, vegna þess að Hæstiréttur þar er í lykilaðstöðu til að túlka – og endurtúlka – stjórnarskrána á þann veg, sem breyta myndi í reynd öllu lagaumhverfi fóstureyðinga.

Samkvæmt skoðanakönnun, sem birtist í Washington Post í fyrradag, telja 59% Bandaríkjamanna, að þingið ætti að staðfesta þessa skipun Roberts í dómarasætið, 23% voru andvígir því, en 18% tóku ekki afstöðu [sjá heimild 1]. Ég vildi láta þessa getið, vegna þess að í nefndum þætti Gústafs Níelssonar, Bláhorninu, kom fram það sjónarmið, að það yrði aldrei aftur snúið með fóstureyðingarnar hér á Íslandi – það væri "bara pólitískur ómöguleiki". Þessu er ég ósammála. Ekki aðeins vegna þess, að straumurinn er gegn fóstureyðingum í einu helzta lýðræðisríki heims, Bandaríkjunum, heldur af ýmsum öðrum ástæðum sem tengjast framvindu mála í heiminum. Það er t.d. viðblasandi á Vesturlöndum, að mannfjölgun er nálægt því að stöðvast, og í sumum löndum eins og Þýzkalandi, Ítalíu og Svíþjóð eru svo fáar fæðingar á hverja konu, að fólki þar mun fækka í stórum stíl á næstu áratugum. T.d. er talið að Þjóðverjum muni fækka um heilar 23 milljónir til ársins 2050 [heimild 2]. Um leið verður stórfelld aukning á fjölda fólks á lífeyrisaldri, en það leggur síauknar álögur á skattkerfið og vinnandi menn vegna lífeyrisbóta og heilbrigðisþjónustu hinna öldruðu. Bara til þess eins að fara ekki aftur úr í framleiðslu og efnahag þurfa Evrópusambandsríkin að flytja inn um 44 milljónir verkamanna til ársins 2050, skv. Tölfræðistofnun Evrópu [3]. Þó virðist nú einkar ólíklegt, að menn telji það létt verk og einfalt að leysa þetta fólksfækkunar-vandamál með innflutningi fólks af öðrum uppruna, t.d. frá löndum múslima. Félagsleg aðlögun þess fólks hefur reynzt erfiðari en menn óraði fyrir, og upp eru komin illviðráðanleg vandamál í samskiptum við þetta fólk eða öllu heldur: öfgamenn sem leynast meðal samlanda sinna í röðum nýbúa.

En á sama tíma og þessi fólksfækkun vofir yfir – samanber, að mannfjöldi í ESB mun hrapa úr 13% mannkyns niður í 7% um miðbik þessarar aldar, verði ekkert að gert [4] – þá er afar ólíklegt, að sú pólitíska tækifærisstefna og það gervi-frjálslyndi, sem boðar s.k. "frjálsar fóstureyðingar" og samhliða þeim síaukinn innflutning fólks frá öðrum löndum, allt í nafni framfara, þá er afar ólíklegt, endurtek ég, að sú vanhugsaða stefna haldi óskertum áhrifum sínum eða fylgi meðal þessara þjóða og þeirra sem stýra þar málum.

Þótt umtalsverð þrenging á heimildum til fóstureyðinga í Bandaríkjunum verði hugsanlega ekki fyrr en á árunum 2010–15, þá er víst, að það mun einnig hafa áhrif hér í Evrópu, þótt ekki væri nema vegna þess, að sú fækkun fóstureyðinga mun enn auka á forskot Bandaríkjanna á Evrópubandalagið í mannfjölgun og efnahagskrafti.

Já, hvers vegna ættu ekki að vera horfur á því, að einnig Alþingi komi auga á nauðsyn þess að takmarka verulega heimildir til fóstureyðinga? Hvað mundi t.d. gerast, ef alþingismönnum yrði gert kleift að kynna sér allar þær nýju upplýsingar sem komið hafa fram um undursamlegan þroskaferil fóstursins í móðurkviði? Það eru sífellt að koma fram nýjar upplýsingar, t.d. bara í fyrra með þrívíddar-ómsjármyndum. Þá kom í ljós, að fóstrið opnar ekki í fyrsta skipti augun 26 vikna gamalt, eins og talið hafði verið, heldur ekki seinna en 18 vikna gamalt. Þetta er bara eitt dæmi.

Svo er líka önnur ástæða, sem Alþingi ber að gæta að: Efast nokkur um, að hér séu nú ólíkt betri lífskjör hjá almenningi heldur en fyrir 30 árum, þegar fóstureyðingalögin voru sett? Hvers vegna hefur fóstureyðingum þá ekki fækkað? Hvers vegna eru, þvert á móti, rúmlega 1000 fóstureyðingar að meðaltali hér á landi síðustu fimm árin, en voru nálægt 430 á ári fyrstu fimm árin eftir setningu laganna? Það skyldi þó ekki vera vegna hreinnar efnishyggju, vegna þess að menn séu að flýta sér í lífsgæðakapphlaupi og skeyti ekkert um mannlegt líf, sem enn ber ekki mikið á? En er það siðræn, heilsteypt og heiðarleg afstaða? Eða er það kannski eins og séra Þorbergur Kristjánsson, fyrrv. formaður Prestafélags Íslands, lýsti þessu á fundi Lífsvonar, samtaka til verndar ófæddum börnum, árið 1992: að val konunnar eigi m.a. þær rætur í afstöðu umhverfisins, sem fólgin er í lögum landsins – að þau séu tekin sem "nokkur mælikvarði á rétt og rangt" – þau gefi henni "rétt til að hindra fæðingu barnsins, sem hún ber undir belti, og þar með sé henni "óbeint [...] sagt, að barnið hennar hafi ekkert manngildi, fyrr en eftir 12. viku, nema því aðeins, að hún kjósi sjálf að líta svo á, að það eigi að njóta helgi lífsins. Ekki er ólíklegt, að þetta komi til með að móta afstöðu hennar" [5].

Þannig má velta því fyrir sér, hvort við höfum varpað glýju í augu grandalausra kvenna, blekkt þær í raun með þessari löggjöf, sem eigi að vera svo einföld lausn. En þar með var hleypt af stað skriðu, sem við ráðum ekki við – eða öllu heldur: ómanneskjulegu verksmiðju-færibandi, sem liggur út í einhvern öskuhaug, færibandi sem hinum ófæddu er fleygt upp á, blóðugum, lemstruðum, sundurhlutuðum, án þess að geta rönd við reist, ... og allt þetta m.a. vegna þess, að mæðrum þeirra – og jafnvel foreldrum mæðra þeirra – hafði verið talin trú um, að þessi fóstur væru ekki neitt neitt – bara skynlaus vefjahnúður eða frumuköggull ! En ekki er það í samræmi við staðreyndir. Vegna aldurs og þroska eyddra fóstra hér á Íslandi, sem margir halda að séu flest eða öll innan 12 vikna marka, bendi ég á, að 1982–99 var eytt tæplega 500 fóstrum sem voru 13 vikna og þaðan af eldri, þar af 213 sem voru 17-20 vikna og 26 yfir 20 vikna. Skv. annarri rannsókn á 12 ára tímabili (1975–87) fóru einungis um 1,1% allra fóstureyðinga á Íslandi fram á 1–5 vikna fóstrum, en 27,4% á 6–7 vikna fóstrum, 28,9% á 8 vikna og 42,7% á níu vikna fóstrum og eldri [6]. En fegurð og fínleiki 8–12 vikna fósturs og 100% mannlegt útlit þess er þess eðlis, að það lætur engan fara í grafgötur um mennsku þess.

En m.ö.o. fara langflestar fóstureyðingar fram, þegar fóstrið er löngu komið með hjarta, sem slær (í lok 3. viku), heila, sem sendir frá sér heilabylgjur (6 vikna fóstur), útlimi sem hreyfa sig – það stendur jafnvel og gengur 8 vikna gamalt í fósturbelgnum, eins og í ljós kom á þrívíddar-ómsjármyndum, sem próf. Stuart Campbell gerði kunnar í fyrra og sagt er frá á vefsíðum brezka útvarpsins BBC [7].

Samt sem áður skauta margir nokkuð svo léttilega fram hjá því að líta nokkuð til þess, hvort fóstrið eigi ekki sinn eigin lífsrétt. Sú afstaða virðist t.d. liggja því að baki sem grundvallarforsenda, þegar menn halda því fram, að fóstureyðingar séu mál, sem konur eigi bara að ráða sjálfar. Þetta er t.d. skoðun Gústafs okkar Níelssonar, þess ágæta manns, sem ég á oftast gott með að vera sammála, en finnst líka ágætt til tilbreytingar að eiga við hann rökræðu í máli, þar sem á milli ber. Trúlega er þetta í hans huga frjálshyggjuafstaða, út frá þeirri hugsun, að rétt þinn yfir þinni eigin sál og líkama beri ótvírætt að tryggja – hver maður sé bezti gæzlumaður eigin réttinda og eigi að fá að athafna sig eftir vild. En ýmsir frjálshyggjumenn andmæla þó fóstureyðingum, t.d. Hannes Gissurarson, og benda á, að réttur þinn nær þó ekki hársbreidd lengra en að nefi náungans. Fóstrið er ekki móðirin, hún er ekki með tvö ónæmiskerfi, tvö hjörtu, sem slá, fjórar hendur sem hreyfa sig o.s.frv. Fóstrið er sérstök, einstæð og lifandi mannvera og á sín eigin réttindi í krafti þess.

En skoðun Gústafs á valfrelsi kvenna minnir líka á aðra röksemd, sem heyrist oft í þessari umræðu: "Konur eru alveg færar um að taka siðferðislega ákvörðun fyrir eigin hönd um fóstureyðingu – þær þurfa ekkert á öðrum að halda til þess!" Við skulum gefa þessu sjónarmiði fulla áheyrn, – rýna betur í það og reyna svo að finna rökrétta lausn á málinu til að fullnægja öllu réttlæti.

Ýmsir hafa glímt við þessa mótbáru gegn málstað fósturverndarsinna – t.d. var það gert í málgagni 3500 manna lögfræðingasamtaka í Bretlandi, Association of Lawyers for the Defense of the Unborn, sem beita sér fyrir réttarvernd hina ófæddu. Meðal röksemda, sem lögfræðingarnir tína til gegn sínum eigin málstað, er einmitt þessi: "Konur eru færar um að velja það, sem er siðferðislega rétt – og geta farið eftir sinni eigin samvizku" [8].

Svar þeirra er athyglisvert og hljóðar svo: "Þetta er öldungis rétt, – en HÆFILEIKINN til að velja það, sem er siðferðislega rétt, og til að fara eftir samvizku sinni felur alls ekki í sér, að fólk hljóti að velja Í REYND það, sem er siðferðislega rétt. Og HÆFILEIKI manna til að hlýða samvizku sinni þýðir ekki, að menn FARI alltaf eftir samvizku sinni. Og sá hæfileiki þýðir heldur ekki, að samvizka sérhvers manns virki með eðlilegum, áreiðanlegum hætti. Ef einhver efast um þessi orð, þá getur hann litið á dæmin allt í kringum sig."

Þarna eiga þeir að sjálfsögðu við, að ótal-oft hefur samvizka okkar brugðizt. Hún er á stundum illa upplýst og fellir þá rangan dóm, ellegar, að við hlýðum fremur annarri röddu, öðrum sjónarmiðum en rödd samvizkunnar. Hver neitar því?

Fyrrnefndri kröfu um fullt samvizkufrelsi kvenna til að ákveða hlutskipti hinna ófæddu hefur líka verið svarað með öðrum og snaggaralegri hætti: "Ef þú telur það í raun og sann, að konur séu færar um að taka þessa siðferðisákvörðun sjálfar, þá skaltu upplýsa þær um allar staðreyndir um meðgönguna, um þroskastig þess ófædda barns sem þær ganga með, mynd af því eins og það lítur út [eða af öðru fóstri á sama skeiði], veittu þeim upplýsingar um áhættuna, sem fylgir aðgerðinni – og fáðu þeim í hendur skrifleg gögn um allt þetta. Ég veit, að konur geta tekizt á við sannleikann, og þess vegna skulum við hætta að fela fyrir þeim staðreyndirnar" (tilvitnun lýkur) [9]. En því er við að bæta, að einmitt þessi tillaga hefur fallið í grýttan jarðveg hjá þeim félagsráðgjöfum, sem gefa græna ljósið á fóstureyðingar hjá konum (sem þeir gera, undarlegt nokk, í nánast öllum tilvikum). Ráðgjafarnir, þessir voldugu, opinberu leyfisgjafar, vilja ekki, að konum séu kynnt öll gögn, sem málið varða, og telja að myndir af fóstri á því skeiði, sem barnið er á, sem konan ber undir belti, séu bara til að íþyngja konunni við ákvörðun hennar! Þeim finnst sem sé skárra, að hún komist í slíkar myndir eftir á og fái þá sína eftirsjá eða bakþanka! Er þessi stétt kannski bara að hlífa sjálfri sér í starfi með því að láta konur ganga illa upplýstar til fóstureyðingar?

Mitt eigið svar við spursmálinu um samvizkufrelsi mæðra til að láta eyða börnum sínum, er þetta: frelsi mitt eða þitt til fylgja eigin samvizku felur ekki í sér heimild til að þverbrjóta siðalögmálið né heldur mikilvæg og RÉTTLÁT landslög, t.a.m. varðandi virðinguna fyrir mannslífinu.

Það er engin afsökun fyrir fóstureyðingu, að konan eigi erfitt með þessa ákvörðun – að hún velkist í vafa og gangi þungum skrefum til þessarar aðgerðar. Hafi konan, barnsfaðir hennar eða foreldrar slíkar samvizkukvalir, ættu þau einmitt að taka mark á þeim – til þess er samvizkan! Eigi það við að segja, að það sé þung ákvörðun fyrir konu að fara í fóstureyðingu, hvað má þá segja um útburð barna að fornu? Var það ekki ennþá erfiðari ákvörðun? En er sú staðreynd einhver ástæða til þess að leyfa útburð barna? – kvöl konunnar sé bara það verð, sem hún þurfi að greiða? Nei, að sjálfsögðu ekki. Hvort tveggja, fóstureyðing og barnaútburður, er valdbeiting sem sæmir ekki siðuðu þjóðfélagi.

Með þessu er ég ekki á neinn hátt að dæma þær konur, sem hafa það á baki sér að hafa farið í fóstureyðingu, eins og einn viðmælandi Gústafs taldi þó í þættinum. Ég er einfaldlega að setja fram þá kröfu, að fóstureyðingar verði bannaðar, þetta á ekki að vera leyfilegt. Það á að leysa vandamálin með öðrum hætti en þessum, og þar að auki kennir lífið sjálft fólki að fást við erfiðleikana. Mér er t.d. í ljósu minni bráðung kona sem í viðtali í BBC sagði, að það sé náttúrlega ekki um annað að ræða en að standa með barni sínu. Hafa þó konur hér á landi miklu betri aðstöðu til fæðingarorlofs og ódýrra leikskóla en í Englandi. En okkar ungu konum er att út í fóstureyðingu á grundvelli vanþekkingar, og það gerir það vissulega afsökunarvert, eftir á að hyggja, hjá mörgum konum, sem hafa ekki vitað betur. Þær eru líka þannig fórnarlömb fóstureyðinga, og það er engin tilviljun, að víða um lönd eru til félög þeirra, t.d. Women for Life – og Rachel, sem kennir sig við Rakel í Biblíunni, sem saknaði barna sinna sem frá henni höfðu verið tekin. En það er ekki einungis andleg áþján, þunglyndi og jafnvel sjálfsvígshugsanir, sem hrjá sumar þessara kvenna, heldur einnig líkamleg eftirköst af ýmsu tagi, eins og ég rakti hér í þætti mínum 4. júní. Þar kom t.d. fram, að skv. mati fyrrv. yfirlæknis fæðingardeildar Landspítalans, dr. Gunnlaugs Snædal, hafa á bilinu 700 til 1530 konur orðið ófrjóar af völdum hefðbundinna fóstureyðinga hér á landi frá júní 1975 til marzloka á þessu ári [10]. Spyrja má, í framhaldi af því: Eru ekki þar á meðal ýmsar þeirra kvenna, sem nú standa í biðröð eftir því að fá að ættleiða barn eða eru í tímafrekum tilraunum til að verða þungaðar, tilraunum sem eru jafnframt afar kostnaðarmiklar fyrir heilbrigðiskerfið? Sjáið þið nokkra vitglóru í þessu?

Ugglaust eru ekki allir sannfærðir um réttmæti fósturverndarstefnunnar. En ég vil þá benda þeim á myndirnar á vefsíðunni www.lifsvernd.com/fosturtroski.html .

Eitt aðaleinkenni þeirra hryðjuverkaárása, sem nýlega voru gerðar á fjölda fólks í London og Sjarm-el-sjeik í Egyptalandi, er það, að þeim var beint gegn SAKLAUSUM. Nánast allir eru því sameinaðir í hryllingi sínum og fordæmingu á þvílíkum ódæðisverkum. En einmitt þetta sama einkenni á við um fóstureyðingar: að þeim er beint gegn SAKLAUSUM og þeim sem ekki geta borið hönd fyrir höfuð sér. Það rennur kannski upp ljós fyrir einhverjum, að það sé ekki svo fráleitt, sem haft er eftir Mahatma Gandhi, – þessi orð hans: "Það virðist deginum ljósara, að fóstureyðing væri glæpur" [11]. Þetta var afstaða hans, en við getum a.m.k. ályktað út frá því, sem hér er fram komið, að það er okkur ekki til neinnar vegsemdar að bjóða konum steina fyrir brauð – að svíkja þær um upplýsingar um sitt ófædda barn og aðstoð í bágindum þeirra, heldur freista þeirra til fóstureyðingar, sem síðar kemur í bakið á mörgum þeirra með heilsuspjöllum og sektarkennd. Því síður ætti Alþingi að ætla heilbrigðisstéttinni að vinna þessi heilsuspillandi verk, oftast á alheilum konum sem ganga með alheil börn. Slíkt gengur þvert á móti þeim tilgangi þeirrar stéttar að starfa fyrir lífið og heilbrigði kvenna sem karla, mæðra sem barna. Því ætti með löggjöf að leysa bæði konur, lækna og hjúkrunarfólk undan þessari áþján, fóstureyðingunum.

Nú getur einhver sagt: "En hefur Alþingi nokkuð viljað gera í þessu máli? Er þá ekki vonlaust að búast við einhverri breytingu fyrr en eftir áratugi?" – Svarið er fólgið í þínu eigin brjósti: frumkvæði verður að koma í þessu réttlætismáli frá ÞÉR, sem hlustar og tekur þetta til þín – og frá þér, sem hefur séð myndir af hinum ófæddu í móðurkviði og látið vitundina um sorglegt hlutskipti sumra þeirra – fimmta hvers ófædds barns – snerta þig, vekja þig til meðaumkunar. Og eigum við ekki, hægt og bítandi, að snúa þeirri meðaumkun okkar upp í miskunnarverk: upp í aðgerðir til að tala máli hins ófædda barns? Aðgerðarleysi stjórnvalda hingað til er engin afsökun fyrir OKKUR, að við gerum ekki neitt í málinu. Knýr ekki samvizkan okkur, og erum við ekki fullveðja fólk, með sjálfsvirðingu til að fylgja eftir sannfæringu okkar?

Við getum þá haft í huga það, sem mikill mannréttindafrömuður, Martin Luther King, sagði eitt sinn á ferli sínum: "Sá tími kemur, að maður HLÝTUR að taka afstöðu, sem gefur hvorki ÖRYGGI né PÓLITÍSK ÁHRIF né VINSÆLDIR, heldur byggir á því, að samvizkan segi manni, að það sé hin RÉTTA afstaða" [12].

Góðir hlustendur, ég þakka áheyrnina. Ég heiti Jón Valur Jensson, og þeim, sem áhuga hafa á þessu málefni, er velkomið að hafa samband við mig.

HEIMILDIR:
1. http://www.washingtonpost.com/wp-dyn/content/article/2005/07/22/AR2005072201430.html?referrer=email&referrer=email
2. ALDU News and Comment, Spring 2004, No. 101, bls. 1. Þetta tölublað (101) má nálgast gegnum vefsíðuna http://www.aldu.org.uk/newsletters.htm
3. Eurostat, sbr. frétt á vefsíðunni http://english.pravda.ru/society/2001/04/10/3472.html
4. Sama heimild.
5. Lífsvon, fréttabréf Lífsvonar, samtaka til verndar ófæddum börnum, IX/i, marz 1993, bls. 1–3: 'Helgi lífsins', ræða sr. Þorbergs Kristjánssonar á Lífsvonarfundi 12. des. 1992.
6. Sbr. Lífsvon, fréttabréf Lífsvonar, samtaka til verndar ófæddum börnum, IX/i, marz 1993, bls. 10.
7. Sjá grein á vefsíðu BBC: http://news.bbc.co.uk/2/hi/health/3846525.stm – ennfremur tíu mynda röð af hinum ófæddu, sem hefst á vefsíðunni http://news.bbc.co.uk/2/hi/in_pictures/3847319.stm
8. ALDU News and Comment, Summer 2002, No. 94, bls. 2.
9. David Six, í svari sem nálgast má gegnum vefsíðuna http://www.spectator-online.com/vnews/display.v/ART/2003/04/17/3e9f64379ed24?in_archive=1
10. Ég geri betri grein fyrir forsendum þessa mats læknisins i 2. útvarpserindi mínu um þessi mál, 4. júní 2005, sem birtast á hér á þessari heimasíðu.
11. Tilvitnað hér skv. www.ohiolife.org/fetal/index.asp
12. Tilvitnað hér skv. www.ohiolife.org/abortion/index.asp

23.06.05

  21:22:51, Skrásetjari: Ragnar Geir Brynjólfsson   , 2040 orð  
Flokkur: Dulhyggja, Vitranir, Hin stríðandi kirkja, Opinberanir, Meðugorje

Frá Meðugorje og Króatíu

Frétt þessi birtist í Kaþólska kirkjublaðinu í febrúar 1992.

Sagt er að þeir fyrirburðir hafi orðið í smáþorpinu Meðugorje (framburður: Medsjugorje) sunnarlega í Bosniu-Herzegovinu (áður Júgóslavíu) að María mey hafi birst nokkrum ungmennum reglulega þar síðan að kvöldi 24. júní 1981. Margar bækur hafa verið skrifaðar um vitranir þessar . Margir eru sannfærðir um að vitranirnar í Meðugorje séu af hinu góða, sérstaklega vegna þess mikla fjölda fólks og ungmenna sem leggur leið sína þangað og finnur við það aukinn trúarstyrk.
Kaþólska kirkjan hefur enga formlega afstöðu tekið til Meðugorje, en rannsókn fyrirbæranna er í gangi enda er það regla kirkjunnar að taka ekki afstöðu fyrr en slíkum fyrirburðum lýkur og þá að lokinni ítarlegri rannsókn.

Read more »

19.06.05

  19:12:58, Skrásetjari: Ragnar Geir Brynjólfsson   , 1869 orð  
Flokkur: Pílagrimsferðir

Pílagrímsferðir og suðurgöngur

Grein þessi birtist í Kaþólska kirkjublaðinu í september 1992.

Pílagrímsferð er það kallað þegar kaþólskir eða meðlimir rétttrúnaðarkirkjunnar fara í ferðalag til helgistaðar að gera þar bæn sína í von um andlegar eða líkamlegar náðargjafir, í þakkargjörðarskyni, í yfirbótarskyni, eða einfaldlega vegna mikils trúarlegs eða menningarlegs áhuga. Heimildir eru um pílagrímsferðir kristinna manna til Jórsala (1) þegar á 2. öld og fornleifarannsóknir í Péturskirkjunni í Róm árið 1940 benda til pílagrímsferða að gröf Péturs postula á 2. öld. Á 3. öld er vitað um fólk sem var líflátið fyrir að biðjast fyrir við gröf Péturs postula.

Read more »

11.06.05

  01:16:58, Skrásetjari: Sr. Denis O'Leary   , 1527 orð  
Flokkur: Kirkjuárið

Yfirlit yfir helstu hátíðir kirkjuársins og fl. ((( í vinnslu )))

KIRKJUÁRIÐ
Kaþólskt kirkjuár er röð hátíða, er kirkjan heldur yfir árið. Kirkjuárið hefst eigi 1. janúar, heldur fyrsta sunnudag í aðventu. Jól, páskar og hvítasunna eru aðalhátíðir kirkjuársins.

Þrennar eru hátíðir kirkjunnar:
Hátíðir Drottins, hátíðir Guðsmóður og hátíðir annara dýrlinga.

Helstu hátíðir Drottins eru:
Jól (25. desember);
opinberun Drottins, venjulega kallað þrettándinn (6. janúar);
páskar (næsti sunnudagur eftir að fyrsta vortungl er fullt);
uppstigningardagur (fertugasti dagur eftir páska);
hvítasunna (fimmtugasti dagur eftir páska);
dýridagur (annar fimmtudagur eftir hvítasunnu).

Helstu hátíðir Guðsmóður eru:
Getnaðardagur Maríu (8. desember);
kyndilmessa eða hreinsunarhátíð (2. febrúar);
boðunardagur Maríu (25. mars);
himnaför Maríu eða Maríumessa hin fyrri (15. ágúst);
fæðingardagur Maríu eða Maríumessa hin síðari (8. september)
hinn Óflekkaði Getnaður (8 des).

Helstu hátíðir annara dýrlinga eru:
Stefán frumvottur (26. desember);
Jósefsmessa (19. mars og 1. maí);
Jónsmessa skírara (24. júní);
Péturs messa og Páls, heilagra postula (29. júni);
hátíð hinna heilögu verndarengla (2. október);
allra heilagra messa (1. nóvember).

(((Dýrlingatal:- http://www.vortex.is/catholica/tres.html )))

Á undan nokkrum hátíðum er lengri eða skemmri undirbúningstími, td. aðventa fyrir jól og fastan fyrir páska.

************************************

Aðventan
eða jólafastan er undirbúningstími jólahátíðarinnar. Með henni hefst kirkjuárið.

Aðventan stendur yfir í fjóra sunnudaga. Orðið aðventa er komið úr latínu "adventus" og það þýðir, "koman," "nálgast" eða "aðkoma."

Jesús er að koma. Það er hans fyrsta koma sem við minnumst um hver jól. En það sem við erum í raun að undirbúa, er hans endurkoma, sem mun verða á síðasta degi.

Á aðventu er sumum hlutum breytt í kirkjunni.

Til dæmis erum við með aðventukransinn. Hér er um að ræða hring með grænu laufi sem umlýkur fjögur kerti. Kertin, verða kveikt, eitt fyrir hvern sunnudag í aðventu og minna okkur á að Jesús er sanna ljósið í þessum heimi.

Annar hlutur sem breyttur er, er hökull prestsins. Fjólublár er liturinn sem kirkjan notar á aðventu og er hann tákn iðrunnar og sorgar.

Umræðuefni ritningarlestranna og bænir í messunni, eru einnig breyttar. Í aðventu er eftirvæntingar að gæta í þeim.

Á sérhverri aðventu er okkur boðið að dýpka og styrkja samband okkar við Guð og náungann.

4. desember
Barbara mey og píslarvottur.

8. desember
Hinn Óflekka›i Getna›ur. Getnaðardagur Maríu.

12. desember
María mey frá Guadalupe.

13. desember
Lúsía mey og píslarvottur.

14. desember
Jóhannes af krossi prestur og kirkjufræðari.

23. des.
Þorlákur biskup Þórhallsson
verndardýrlingur Íslands
Þorláks helga er minnst tvo daga ársins hér á Íslandi. Í 20. júlí, er hátíð upptöku heilags dóms hans og 23. desember er andlátsdagur hans.

Jólin
Á jólunum fögnum við fæðingu Jesú fyrir 2000 árum.

26. desember
Stefán frumvottur.

27. desember
Jóhannes postuli og guðspjallamaður.

Sunnudagur eftir jól
Hin Heilaga Fjölskylda, Jesús, María og Jósef.

1. janúar
María Guðsmóðir.

6. janúar
Opinberun Drottins venjulega kallað þrettándinn.

Skírn Drottins
Í dag höldum við upp á hátíð skírnar Jesú. Þessi hátíð minnir okkur einnig á okkar eigin skírn.

18. - 25. janúar ?
Alþjóðleg bænavika kristinna manna fyrir samstöðu kristninnar
Við biðjum fyrir einingu meðal allra kristinna manna, eins og Jesús sjálfur gerði. Jesús sagði: "Ég bið ... að allir séu þeir eitt, eins og þú, faðir, ert í mér og ég í þér, svo séu þeir einnig í okkur, til þess að heimurinn trúi, að þú hefur sent mig. (Jn 17.20-21)

2. febrúar
Kyndilmessa eða hreinsunarhátíð.

19. mars og 1. maí
Hátíðir heilags Jósefs sem er verndardýrlingur kirkjunnar.

25. mars
Boðunardagur Maríu.

Langafastan
hefst á öskudegi og varir í fjörtíu daga.
Langafastan er sérstakur tími fyrir bænir og yfirbót. Á lönguföstu eigum við að undirbúa okkur fyrir páskana.

Kaþólskir fasta tvo sérstaka daga á hverju ári; öskudag og föstudaginn langa. Það merkir að við neytum einnar fullkominnar máltíðar hvern þessara daga. Til þess er einnig ætlast að við gerum yfirbót á hverjum föstudegi og hvern dag föstunnar.

Á öskudaginn er öskuvígsla og tækifæri fyrir fólki að meðtaka öskukross. Við úthlutun hinni vígðu ösku segir presturinn við okkur: „Minnstu þess maður, að þú ert mold og að moldu skalt þú aftur verða.“

Í dimbilviku
heldur kirkjan hátíðlega upp á atburði úr síðustu lífsdaga Jesú, fyrir páska.

Pálmasunnudagur
Fyrstur af þessum atburðum var hans dýrðlega innganga í Jerúsalem, sem Messías. Við minnumst þessa atburðar á pálmasunnudegi þegar við göngum helgigönguna með vígðum pálmagreinum. Okkar helgiganga er ætluð til að minna okkur á fyrstu sigurgönguna í Jerúsalem þegar hópur fólks elti og hyllti Jesú. Á pálmasunnudag lesum við tvö guðspjöll. Fyrsta guðspjallið segir okkur um hina dýrlegu inngöngu Jesú inn í Jerusalem. Annað guðspjallið segir okkur frá kvöl og dauða Jesú.

Skírdagur
Annar atburðurinn sem við höldum hátíðalega í dimbilviku, er síðasta kvöldmáltíðin, á skírdagskvöld.

Messa á skírdag er byrjunin á dögunum þrem fyrir páskadaginn. Og þessir dagar eru þeir heilögustu í árinu. Þessir dagar ná hámarki sínu á páskavöku.

Föstudagurinn langi
Þriðji atburðurinn úr lífi Jesús sem við höldum hátíðlega í dimbilviku eru hans þjáningar og dauði, sem var á föstudaginn langa fyrir tvö þúsund árum. Á föstudaginn langa tökum við okkur tíma til að hugsa um hið saklausa lamb Guðs sem var fórnað vegna synda okkar. Þetta er dagurinn sem við sýnum sérstaka virðingu fyrir krossinum og við biðjum fyrir öllum heiminum.

Föstudagurinn langi er dagur föstu og bindindis, dagur sem við gerum iðrun.

Laugardaginn fyrir páskana
hugsa og biðja kaþólskir menn um þá hluti sem skeðu fyrir Jesú og hvers vegna. Það er eins og við séum að krjúpa við gröf hans í djúpri sorg og bíðandi eftir upprisu hans.

************************************

Páskar: næsti sunnudagur eftir að fyrsta vortungl er fullt.

Páskavakan
Seint á laugardagskvöld, höldum við hátíðlega upprisu hans frá dauðum. Þetta er gert á sérstakan hátt með eldi og kertum og mörgum öðrum táknum. Þessi athöfn hlýtur að vera ein af þeim fallegustu í kirkjunni.

(I) Páskavakan byrjar með því að kveikt er á páskaeldinum. Við erum minnt á að í upphafi skapaði Guð ljósið. Upphaf páskavöku er táknræn fyrir dögun hinnar nýju sköpunar sem hófst með upprisu Jesú.
Síðan leiðir páskakertið okkur í helgigöngu inn kirkjuna. Þetta minnir okkur á eldinn sem vísaði Ísraelsmönnum veginn í eyðimörkinni. Þessi eldur leiddi þá frá okinu í Egyptalandi til fyrirheitna landsins. Núna leiðir Kristur, ljós heimsins, okkur frá fjötrum syndarinnar, með dauða sínum og upprisu, til eilífs lífs. Þetta er táknað með því að sá sem ber páskakertið inn kirkjuna, gengur í slóð þess er bar krossinn inn í kirkjuna á föstudaginn langa, og nam staðar á þremur sömu stöðum í kirkjunni.

Þegar páskakertið er sett á sinn stað er páskalofsöngurinn sunginn. Páskalofsöngurinn er mjög gamall og má jafnvel rekja hluta hans aftur til fjórðu aldar. Í páskalofsöngnum er samtímanum kunngert:

„Þetta er nóttin,
þegar (Guð) fyrrum
leiddir forfeður vora,
syni Ísraels,
út úr Egyptalandi
til fyrirheitna landsins ………
þegar Kristur braut fjötra dauðans
og sté sigrandi úr helju.“

(II) Síðan er lesið úr ritningunni. Og því yfirleitt fylgt eftir með Davíðssálmum og bænum. Sagan um frelsun Ísraelsmanna við Rauðahafið er alltaf lesin. Önnur ritning minnir okkur á eigin frelsun í skírninni. Loks segja guðspjöllin frá upprisu Jesú.

(III) Síðan hefst skírnarathöfnin þar sem við erum minnt á að í skírninni öðlumst við hlutdeild í upprisu Jesú. Með skírninni verður upprisa Jesú fyrirheit um okkar upprisu. Þess vegna erum við á páskavökunni beðin um að endurtaka skírnarheit okkar.

(IV) Altarisþjónusta.

************************************

Páskadagur
Páskahátíðin er haldin í minningu upprisunnar. Það er hin mesta hátíð kirkjuársins og sigurhátíð kristninnar, Því með upprisu sinni hefur Jesús unnið fullan sigur á dauðanum og helvíti. Páskakertið er ímynd hins upprisna Endurlaunara.

"Upprisa Krists er kjarninn í tilveru kirkjunnar." “En ef Kristur er ekki upprisinn, þá er ónýt prédikun vor, ónýt líka trú yðar.”
“Upprisa Krists er kóróna trúar okkar á Krist.....”

Hátíð hinnar guðlegu miskunnar
Annar sunnudagur á páskatíma.
Í dag minnumst við hins óendanlega kærleika og miskunnar Guðs, sem hann úthellir yfir heiminn.

Hátíð hinnar guðlegu miskunnar býður okkur að líta á Guð sem uppsprettu raunverulegs friðar, sem okkur stendur til boða fyrir upprisinn Drottin okkar Jesú. Benjar hins upprisna og dýrlega Drottins eru varanlegt tákn um miskunnsaman kærleika Guðs fyrir mannkyninu. Úr sárum hans streymir eins konar andlegt ljós sem varpar ljósi á samvisku okkar og veitir okkur huggun og von.

Í dag förum við, ásamt fjölda manns um allan heim, með orðin: "Jesús, ég treysti á þig!"

Köllunarsunnudagur
Fjórði sunnudagur á páskatíma.
Alþjóðlegur dagur bæna um kallanir.

Himnaför Jesú
er haldin hátíðleg 40 dögum eftir páska.

Hvítasunnudagur
er hátíð Heilags Anda. Heilagur Andi er þriðja persóna guðdómsins, sannur Guð, ásamt Föður og Syni.

Þegar lærisveinarnir voru sviptir sýnilegri nærveru hans skildi Jesú þá ekki eftir munaðarlausa. Hann lofaði að vera með þeim allt til enda veraldar svo hann sendi þeim Anda sinn. Heilagur Andi kom yfir Maríu og postulana á hvítasunnu í líki logandi eldstungna. Andinn er líf vort.

Maí mánuður
er sérstaklega tileinkaður Maríu.

Júní mánuður
er sérstaklega tileinkaður dýrkun hins alhelga hjarta Jesú.

24. júní
Jónsmessa skírara.

23. júlí
er vígsluafmæli Kristskirkju

15. ágúst
Himnaför Maríu eða Maríumessa hin fyrri.

8. september
Fæðingardagur Maríu eða Maríumessa hin síðari.

14. september
er upphafning hins heilaga kross

Krossinn var ekki merkingarlaus fyrir Jesú, heldur var hann leiðin til upprísunnar. Núna lifir hann um alla eilífð og hann heitir okkur sama sigrinum. Krossinn er ták um sigur en ekki ósigur.

Október mánuður
er sérstaklega tileinkaður rósakransbæninni.

Í nóvember
biðjum við sérstaklega fyrir þeim sem látnir eru.

1. nóvember
Allra heilagra messa.

2. nóvember
Allra sálna messa.

Kristur konungur
Á þessum síðasta sunnudegi kirkjuársins höldum við hátíð Krists konungs. Lestrar síðastliðna sunnudaga hafa minnt okkur á að Jesús mun snúa aftur í dýrð til að dæma heiminn. Við köllum það endurkomu hans.

  00:24:50, Skrásetjari: Sr. Denis O'Leary   , 183 orð  
Flokkur: Dæmisögur og sögur

Ég er pílagrímur og á bara leið hér um

Til er saga um ríkan mann sem fór fótgangandi í pílagrímsför til frægs helgistaðar. Á leið sinni kom hann við í litlu klaustri þar sem mjög heilagur munkur bjó. Ríki maðurinn og hinn heilagi munkur tóku tal saman. Ríki maðurinn var undrandi að sjá engin húsgögn að frátöldum einföldum borðum og stólum í klaustrinu.

"Bróðir," spurði ríki maðurinn, "hvar eru öll húsgögnin þín?"

"Ég gæti spurt þig sömu spurningar," svaraði munkurinn.

"Ég er ekki með nein húsgögn með mér af því að ég er á pílagrímsför," sagði ríki maðurinn. "Ég er pílagrímur og á bara leið hér um."

"Munkurinn brosti og sagði: "Það er ég líka."

Öll erum við pílagrímar sem eigum leið hjá. Ákvörðunarstaður okkar er Himnaríki. Þess vegna verðum við að gæta okkar á því að ánetjast ekki um af hlutum sem ekki hafa varanlegt gildi.

  00:19:09, Skrásetjari: Sr. Denis O'Leary   , 207 orð  
Flokkur: Dæmisögur og sögur

Var þessi móðir heimsk?

Til er saga um konu nokkra sem átti 4 ára gamlan son. Barnið veiktist af smitsjúkdómi sem var banvænn. Læknir vöruðu konuna stöðugt við að koma nærri barninu. Að sjálfsögðu var þetta henni mjög erfitt, sérstaklega þar sem hún elskaði barnið mjög heitt.

Dag einn, þar sem hún stóð í fjarlægu horni í svefnherbergi sonar síns, heyrði hún hann spyrja: "Af hverju elskar móðir mín mig ekki lengur?"

Þetta var meira en hún gat þolað og hljóp hún til sonar síns, hélt honum í örmum sér og kyssti hann margsinnis. Fáeinum vikum síðar dóu bæði móðir og sonur og voru þau jarðsett í sömu gröf.

Var þessi móðir heimsk? Var þetta heimskulegur hlutur sem hún gerði? Sumir mundu halda því fram að svo hefði verið. En ekki taldi hún svo vera því kærleikur hennar til sonar síns var það mikill að ekkert annað skipti máli.

Var Guð heimskur að senda Son sinn til jarðar? Ekki taldi hann svo vera því kærleikur hans var það mikill.

02.06.05

  23:45:18, Skrásetjari: Sr. Denis O'Leary   , 224 orð  
Flokkur: Dæmisögur og sögur

Maðurinn sem bjó í útjaðri bæjar

Eitt sinn var maður sem bjó í útjaðri bæjar sem hét Davíð. Hús hans lá við aðalveginn inn í bæinn. Dag einn er hann var að vinna í garðinum fyrir framan húsið kom til hans ókunnugur maður.

Aðkomumaðurinn spurði: "Hvers konar fólk býr í þessum bæ?"

Davíð svaraði: "Hvers konar fólk bjó í þeim bæ, sem þú síðast heimsóttir?"

Aðkomumaðurinn svaraði: "Það var hræðilegur lýður. Mér líkaði alls ekki við fólkið. Það var mjög andstyggilegt.

Þá sagði Davíð: "Ég held að þú finnir fyrir samskonar fólk hér."

"Þakka þér fyrir" sagði aðkomumaðurinn og hélt áfram ferð sinni.

Nokkrum mínútum síðar bar að annan aðkomumann.

Þessi síðari aðkomumaður kallaði til Davíðs og spurði: "Hvers konar fólk býr í þessum bæ?"

Davíð svaraði: "Hvers konar fólk bjó í þeim bæ, sem þú síðast heimsóttir?"

Síðari aðkomumaðurinn svaraði: "Nú þetta var hið elskulegasta fólk. Mér líkaði mjög vel við það. Þau voru mjög vingjarnleg."

Þá sagði Davíð: Ég held að þú finnir fyrir samskonar fólk hér."

Málið er nefnilega að hamingja kemur innan frá!!!

31.05.05

  23:33:42, Skrásetjari: Sr. Denis O'Leary   , 391 orð  
Flokkur: Bænir

Lítanía af allrahelgustu hjarta Jesú

Drottinn, miskunna þú oss.
Kristur, miskunna þú oss.
Drottinn, miskunna þú oss.
Kristur, heyr þú oss.
Kristur, bænheyr þú oss.

Guð Faðir í himnaríki * miskunna þú oss.
Guð Sonur, Lausnari heimsins *
Guð Heilagur Andi *
Heilög þrenning, einn Guð *
Hjarta Jesú, Sonar Föðursins eilífa *
Hjarta Jesú, gert í skauti meymóðurinnar af Heilögum Anda *
Hjarta Jesú, innilega sameinað eilífu Orði Guðs *
Hjarta Jesú, óendanlega dýrðlegt *
Hjarta Jesú, heilagt musteri Guðs *
Hjarta Jesú, tjaldbúð hins hæsta Guðs *
Hjarta Jesú, Guðs hús og himinshlið *
Hjarta Jesú, logandi arin kærleikans *
Hjarta Jesú, hæli réttlætis og kærleika *
Hjarta Jesú, fullt gæsku og kærleika *

Hjarta Jesú, ómælisdjúp allra dygða *
Hjarta Jesú, allrar lofgerðar maklegt *
Hjarta Jesú, konungur og miðja allra hjartna *
Hjarta Jesú, sem geymir alla fjársjóðu visku og fræða *
Hjarta Jesú, þar sem fylling Guðdómsins býr *
Hjarta Jesú, sem Faðirinn hefur velþóknun á *

Hjarta Jesú, sem hefur veitt oss hlut í gnægð
þinni *
Hjarta Jesú, þrá eilífra hæða *
Hjarta Jesú, þolgott og miskunnarríkt *
Hjarta Jesú, örlátt við alla, sem ákalla þig *
Hjarta Jesú, uppspretta lífs og helgi *
Hjarta Jesú, friðþæging synda vorra *
Hjarta Jesú, háðungum satt *

Hjarta Jesú, sundurkramið sakir misgerða vorra *
Hjarta Jesú, hlýðið til dauðans *
Hjarta Jesú, geiri gegnumstungið *
Hjarta Jesú, lind allrar huggunar *
Hjarta Jesú, líf vort og upprisa *
Hjarta Jesú, friður vor og sátt *
Hjarta Jesú, friðþægingarfórn syndugra *
Hjarta Jesú, hjálpræði þeirra, sem treysta þér *

Hjarta Jesú, von þeirra sem deyja í þér *
Hjarta Jesú, unaðssemd allra heilagra *

Guðs lamb, sem ber burt heimsins syndir,
væg þú oss, Drottinn.

Guðs lamb, sem ber burt heimsins syndir, bænheyr þú oss, Drottinn.

Guðs lamb, sem ber burt heimsins syndir, miskunna þú oss, Drottinn.

Jesús, hógvær og lítillátur af hjarta, ger þú hjarta vort líkt þínu hjarta.

Almáttugi, eilífi Guð, lít þú hjarta þíns elskulega Sonar og þá vegsemd og friðþægingu, sem hann flytur þér í nafni syndugra og fyrirgef þú af gæsku þinni öllum, sem beiðast líknar þinnar í nafni Sonar þíns, Jesús Krists, sem lifir og ríkir með þér í einingu Heilags Anda, Guð um aldir alda. Amen.

30.05.05

  17:42:07, Skrásetjari: Sr. Denis O'Leary   , 40 orð  
Flokkur: Bænir

Ó, heilaga máltíð

Í fornri bæn lofsyngur kirkjan leyndardóm evkaristíunnar:

Ó, heilaga máltíð,
þar sem Kristur er vor fæða,
minningin um píslir hans gerð lifandi,
sál vor fyllt náð og
pantur hinnar komandi dýrðar oss gefinn.

  01:20:11, Skrásetjari: Sr. Denis O'Leary   , 119 orð  
Flokkur: Bænir

Æðruleysisbæn

Guð, gefðu mér æðruleysi,
til að sætta mig við það sem ég fæ ekki breytt,
kjark til að breyta því sem ég get breytt
og vit til að greina þar á milli.

Að lifa einn dag í einu,
njóta hvers andartaks fyrir sig,
viðurkenna mótlæti sem friðarveg,
með því að taka syndugum heimi eins og hann er,
eins og Jesús gerði,
en ekki eins og ég vil hafa hann,

og treysta því að þú munir færa allt á réttan veg,
ef ég gef mig undir vilja þinn,
svo að ég megi vera hæfilega hamingjusamur í þessu lífi,
og yfirmáta hamingjusamur með þér þegar að eilífðinni kemur. Amen.

28.05.05

  15:52:22, Skrásetjari: Ragnar Geir Brynjólfsson   , 2621 orð  
Flokkur: Helgir menn, Pílagrimsferðir

Hl. Jóhanna af Örk

I.

Hl. Jeanne La Puchelle eða Jóhanna af Örk fæddist í sveitaþorpinu Domremy árið 1412, komin af bændafólki staðarins. Saga hennar er í stuttu máli á þá leið að Karl VI. Frakklandskóngur fór halloka í stríði við Hinrik V. Englandskonung á franskri grund. Kóngar þessir létust árið 1422 en deilurnar héldu áfram. Um 14 ára aldur fann Jóhanna fyrir innri hvatningu eða heyrði „raddir“ sem buðu henni að hitta hinn ókrýnda franska prins og krýna hann konung yfir Frakklandi í dómkirkjunni í Rheims til að sameina Frakka í baráttunni gegn Englendingum. Það er ef til vill ekki alveg augljóst nútímafólki hve fjarstæðukennd þessi fyrirætlun Jóhönnu var ef tillit er tekið til aldarfarsins.

Read more »

  00:53:22, Skrásetjari: Ragnar Geir Brynjólfsson   , 1656 orð  
Flokkur: Helgir menn, Pílagrimsferðir

Hl. Angela Merici, mey og stofnandi Úrsúlínureglunnar

I

Hún fæddist í bænum Desenzano, á suðvesturströnd Gardavatns í Lombardy (Langbarðalandi) á Norður-Ítalíu árið 1470. Foreldrar hennar dóu þegar hún var aðeins 10 ára. Auðugur frændi hennar sem bjó í bænum Salo tók hana og systkini hennar, eldri systur og tvo bræður að sér. Eftir andlát systur sinnar helgaði hún líf sitt Guði. Hún fékk inngöngu í þriðjureglu fransiskana. (Þriðjuregla er leikmannaregla, þ.e. fólk getur verið í hjónabandi og unnið almenna vinnu. Það þarf ekki að ganga í munkakuflum, en ber einkenni reglunnar innanklæða. Ekki eru unnin regluheit, heldur gefin loforð. Fleiri reglur en Fransiskanareglan hafa þriðjureglu, til dæmis Karmelreglan.) Þegar Angela var 22 ára dó frændi hennar og hún sneri aftur til Desenzano. Henni rann mjög til rifja fáfræði fátækari barnanna í nágrenninu.

Read more »

27.05.05

  22:08:09, Skrásetjari: Ragnar Geir Brynjólfsson   , 254 orð  
Flokkur: Þjóðfélagsrýni

Fyrirlestraröð um framtíð Evrópu

Independent Catholic News greindi frá því að 25. maí sl. hefði Cormac Murphy-O'Connor kardínáli á Englandi flutt fyrirlestur, hinn síðasta í röð fyrirlestra sem fjölluðu um framtíð Evrópu [1]. Fyrirlestrarnir voru haldnir í Westminster dómkirkjunni og komu fyrirlesararnir úr ýmsum áttum. Þeirra á meðal voru Sir Bob Geldof, fyrrum poppstjarna, Patten lávarður, Mary McAleese, Jean Vanier og sr. Timothy Radcliffe. Hver fyrirlestur var sóttur af meira en þúsund manns. Efni fyrirlestranna er hægt að nálgast á www.rcdow.org.uk, smellt á „Speeches and articles.“ Þeir munu einnig verða gefnir út síðar á árinu af Darton, Longman & Todd forlaginu.

Murphy-O'Connor kardínáli fékk hugmyndina að fyrirlestraröðinni eftir að hafa lesið hugleiðingar Jóhannesar Páls II. um Evrópu „Ecclesia in Europa“. Skjal þetta sem gefið var út 2003 inniheldur efnislega samantekt fundar kaþólskra biskupa Evrópu sem haldinn var í Róm 1999. Í skjalinu skrifaði páfinn um það sem sameinar evrópskar þjóðir, undanhald hinnar kristnu menningar, upplausn þjóðfélaga og dvínandi samstöðu. „Verið þið sjálf“ hvatti hann Evrópubúa í „Ecclesia in Europa“, „leitið upprunans og rótanna.“

Fyrirlestrarnir í Westminster dómkirkjunni hafa haft sem þemu von, einingu, trú, mannleg samskipti og hvernig Evrópa getur þjónað breiðum hagsmunum heimsins betur.

[1] Europe and the Shape of the Church. Vefur Westminster biskupsdæmis. http://www.rcdow.org.uk
[2] Cardinal outlines vision of future church in Europe. Independent Catholic News. 26. maí 2005. http://www.indcatholicnews.com

24.05.05

  16:52:25, Skrásetjari: Ragnar Geir Brynjólfsson   , 251 orð  
Flokkur: Lífsvernd

Erkibiskup um klónun fósturvísa

Í tilefni frétta af því a Suður-Kóreumenn hafi ræktað einstaklingsbundnar stofnfrumur [1] sendi Peter Smith erkibiskup á Englandi frá sér yfirlýsingu þar sem sagði m.a: [2] „Í fjaðrafokinu sem varð vegna frétta af því að tekist hefði að rækta stofnfrumur með því að nota fósturvísa virðumst við hafa gleymt því að í þessu felst sköpun og eyðilegging mannlegs lífs. Það er siðferðilegt áhyggjuefni að klónun er framkvæmd til að ná í þessar stofnfrumur. Það getur ekki verið rétt að umgangast mannlegt líf á þann hátt. Hið sorglega er að hjá þessum aðstæðum er hægt að komast. Miklar framfarir hafa orðið í stofnfrumurannsóknum þar sem stofnfrumur eru teknar úr fullorðnum eða úr naflastrengjum. Viðurkennt er að þessar stofnfrumur leggi grunn að rannsóknum og jafnvel meðhöndlun á sjúkdómum á borð við Alzheimer og Parkinsonsveiki. Slík nýting stofnfruma er frábært dæmi um áhugaverða vísindalega þróun sem vekur miklar vonir fyrir mannkynið. En þróunin á og verður að vera innan marka svo ekki þurfi að nota fósturvísa. Það er í grundvallaratriðum rangt að skapa nýtt mannlegt líf í þeim tilgangi einum að rækta stofnfrumur.“

[1] Scientists clone stem cells genetically matched to patients. CNN - vefútgáfa. 20.05.2005. http://www.cnn.com
[2] Archbishop Peter Smith comments on human cloning.Independent Catholic News. 24. maí 2005. http://www.indcatholicnews.com

  16:12:05, Skrásetjari: Ragnar Geir Brynjólfsson   , 292 orð  
Flokkur: Stjórnmálarýni

Mannréttindi rædd í kínaheimsókn forsetans

Morgunblaðið greindi frá því hinn 17. maí sl. að Ólafur Ragnar Grímsson forseti Íslands hefði rætt mannréttindamál við Hu Jintao forseta Kína [1]. Lítið hefur borið á frásögnum af mannréttindabrotum kínverskra stjórnvalda í íslenskum fjölmiðlum. Sumum kann því að þykja óþarfi að vera að ympra á mannréttindamálum þegar t.d. viðskiptahagsmunir eru í húfi. Fagna ber þessu framtaki forsetans. Kínversk stjórnvöld leyfa ekki starfsemi kaþólsku kirkjunnar í landinu og hefur hún því starfað neðanjarðar í mörg ár. Sem dæmi um aðgerðir kínverskra stjórnvalda gegn kirkjunni má nefna að Independent Caholic news [2] greindi frá því 29. apríl sl. að sjö kaþólskir prestar í Zhengding Heibei biskupsdæmi hafi verið handteknir um morguninn tveim dögum fyrr í Wuqiu þorpi í borginni Jinzhou. Prestarnir ætluðu að sækja kyrrðardaga skipulagða af Jia Zhiguo biskupi sem nýlega var látinn laus úr 24 stunda eftirliti.

Handtökurnar voru framkvæmdar á vegum „öryggisskrifstofu“ Shijiszhuang, erindrekum frá skrifstofu trúmála og lögreglumönnum á 9 lögreglubílum.
Jia biskup hafði verið aðvaraður um að hann mætti ekki standa fyrir trúarlegum athöfnum. Hinir handteknu prestar eru: Séra Wang Dingshan, LI Qiang og Liu Wenyuan frá Gaocheng. Sr. Zhang Qingcai frá Wuji County. Sr. LI Suchuan frá Zhaoxian. Sr. Pei Zhenping frá Luancheng og sr. Yin Zhengsong frá Dingzhou. Prestarnir voru því næst sendir til „öryggisskrifstofa“ viðkomandi sókna.

[1] Ræddi meðal annars mannréttindamál við forseta KínaMorgunblaðið - vefútgáfa. 17.05.2005. http://www.mbl.is
[2] Seven Catholic priests arrested in China.Independend Catholic News. 29. apríl 2005. http://www.indcatholicnews.com

22.05.05

  00:06:28, Skrásetjari: Sr. Denis O'Leary   , 67 orð  
Flokkur: Til umhugsunar

Löngunin eftir Guði

"Löngunin eftir Guði er letruð í hið mannlega hjarta vegna þess að maðurinn er skapaður af Guði og fyrir Guð; og Guð dregur manninn linnulaust til sín. Einungis í Guði mun maðurinn finna sannleikann og hamingjuna sem hann leitar sleitulaust.
Þú hefur gert okkur fyrir þig sjálfan og hjarta okkar er órótt, uns það hvílist í þér." (TRÚFRÆÐSLURIT)

20.05.05

  12:43:13, Skrásetjari: Sr. Denis O'Leary   , 433 orð  
Flokkur: Dæmisögur og sögur

Hvers vegna varð Guð sú sköpun sem hann skapaði?

Eftirfarandi saga hefur
hjálpað mér að skilja ástæðu þess.

Einu sinni var maður sem elskaði dýrin mjög, en hafði ekki mikinn tíma fyrir Guð. Einkanlega átti hann erfitt með að skilja allt það sem fólk gerði á jólunum. Hann gat ekki skilið hvernig Guð gerðist maður. Þess vegna fór hann aldrei í kirkju, ekki einu sinni á jólum. En um síðustu jól
gerðist eitthvað sérstakt sem breytti öllu lífi hans. Guð veitti honum sérstaka náð, náð sinnaskipta. Og þannig gerðist það.

Það var áliðið jólanótt og fjölskylda mannsins var farin til miðnæturmessu í kirkjunni. Hann var einn í húsinu. Veðrið hafði verið stillt en skyndilega skall á snjóstormur. Eftir smástund heyrðist einkennilegur hávaði við útidyrnar. Maðurinn leit út um gluggan og sá að nokkrir fuglar
voru að reyna að leita skjóls undan storminum.

Þar sem honum þótti vænt um dýrin fann hann til með þeim og velti fyrir sér hvernig hann gæti hjálpað þeim. Hann ákvað að fara út um bakdyrnar og opna bílskúrsdyrnar. Hlýtt var í bílskúrnum og þar myndu fuglarnir vera öruggir. Hann fór út, opnaði bílskúrsdyrnar og fór aftur inn í húsið. Er hann leit aftur út um gluggann varð hann fyrir vonbrigðum því fuglarnir
höfðu ekki hreyft sig.

Af því að hann unni dýrum, gafst hann ekki upp. En hvað átti hann að taka til bragðs? Þá datt honum í hug að setja fuglafræ í bílskúrinn. Að því loknu kom hann aftur til þess að sjá hvað gerast myndi, en hann varð enn fyrir miklum vonbrigðum þar sem fuglarnir höfðu enn ekki hreyft sig.
Kuldinn var farinn að sverfa að þeim.

En hvað gat maðurinn gert til þess að hjálpa þeim? Í þeirri von að fuglarnir færu yfir í bílskúrinn opnaði maðurinn dyrnar varlega. En hvað gerðist? Þegar hann opnaði dyrnar flugu fuglarnir auðvitað hver í sína áttina en enginn í bílskúrinn.

Maðurinn sagði þá í algerri örvæntingu: "Ef ég gæti nú bara orðið fugl eins og þeir í smástund gæti ég sýnt þeim leiðina til öryggis."

Á því augnabliki hringdu kirkjuklukkurnar og maður þessi áttaði sig skyndilega á því hvers vegna Guð varð sú sköpun sem hann skapaði - hvers vegna Guð varð maður eins og við.

  00:08:12, Skrásetjari: Sr. Denis O'Leary   , 131 orð  
Flokkur: Dæmisögur og sögur

Fótspor í sandinum

Sú saga er sögð af manni einum sem dreymdi draum.
Í drauminum var hann á gangi eftir strönd í fylgd Jesú.
Þegar maðurinn leit til baka sá hann að stundum voru fótspor eftir tvo menn í sandinum og stundum voru einungis fótspor eftir einn mann.
Hann tók einnig eftir því að tímaskeiðið þegar einungis ein fótspor voru sýnileg, virtist koma heim og saman við það tímabil í lífi hans, þegar hann þjáðist mest.

Maðurinn stöðvaði því og spurði Jesúm: „Hvers vegna yfirgafstu mig þegar ég þurfti mest á þér að halda?“

Jesús brosti til hans og sagði:
„Ég hef aldrei vikið frá þér.
þegar þú þjáðist mest í lífi þínu,
þá tók ég þig í fang mér!“

19.05.05

  23:18:13, Skrásetjari: Sr. Denis O'Leary   , 47 orð  
Flokkur: Dæmisögur og sögur

Bjartsýni eða svartsýni?

Tveir menn sátu eitt sinn í fangelsi.

Annar þeirra var bjartsýnismaður en hinn var svartsýnismaður.

Sá svartsýni horfði í gegnum rimlana á glugganum og sá ekkert nema svarta forina.

Hinn bjartsýni horfði í gegnum sömu rimla og sá stjörnuskinið á himni.

  10:13:35, Skrásetjari: Ragnar Geir Brynjólfsson   , 880 orð  
Flokkur: Stjórnmálarýni

Trúin í eldhúsdagsumræðum Alþingis

Í eldhúsdagsumræðum á Alþingi 10. maí 2005 mæltist Össuri Skarphéðinssyni formanni Samfylkingarinnar svo:

Öldin [20.] varð öld öfga og andstæðna og tækniframfarir voru notaðar jafnt til illverka sem góðverka. Sú öld sem nú er nýhafin má ekki verða eins. En til að svo verði þurfum við alltaf að hafa hugfast að friður, mannréttindi og lýðræði eru ekki fyrirhafnarlaus lífsgæði. Í heiminum eins og við þekkjum hann í dag er margs konar efniviður sem hægt væri að kveikja í óviðráðanlegt ófriðarbál, togstreitu um auðlindir eins og olíu, vatn og loft, ójafnan aðgang að mörkuðum, hryðjuverkastarfsemi öfgahópa, árekstra millum kristinna manna og múslima og síðast en ekki síst vaxandi misskiptingu auðs.

Höfum það hugfast að frelsi og friður koma ekki af sjálfu sér. Forustumenn þjóða heims, almannasamtök og einstaklingar þurfa að leggja alla áherslu á að ágreiningur og deilur séu leystar í samstarfi innan vébanda alþjóðlegra samtaka eins og Sameinuðu þjóðanna en ekki á vígvellinum með vopnavaldi. [1]

Ýmsum gæti virst að hér hafi formaðurinn hitt naglann á höfuðið því daginn eftir að ræðan var flutt bárust fréttir af uppþoti í Afganistan vegna meintrar óvirðingar við Kóraninn í Guantanamo fangabúðunum. [2-3] Hæpið er samt að málið sé svo einfalt. Hafa ber í huga að atvikið olli ekki heimsuppþoti múslima heldur staðbundnum uppþotum hjá þeim sem líta má á að hafi mesta samkennd með föngunum. Áminningar Össurar um að friður, mannréttindi og lýðræði fáist ekki án fyrirhafnar eru samt alltaf tímabærar og aldrei úreltar. Sem betur fer þá geta eflaust flestir landsmenn tekið undir aðvaranir hans gegn öfgum og öfgamönnum. En það að talað sé sérstaklega um „árekstra millum kristinna manna og múslima“ „sem hægt væri að kveikja í óviðráðanlegt ófriðarbál“ getur orkað tvímælis í ræðu hjá stjórnmálaforingja. Vissulega eru til dæmi um ofsatrúarleiðtoga sem hafa leitt söfnuði sína út í óhæfuverk. Hitt er samt mun algengara, sérstaklega þegar um kristni og islam er að ræða að öfgamenn eða tækifærissinnar notfæri sér trúarbrögðin til að ná fram pólitískum markmiðum sínum, til að ná fram samkennd með stórum hópi fólks og til að laða ungt fólk til liðs við sig og öfgastefnur sínar. Sjaldan eða aldrei berast fréttir af því að leiðtogi þessa eða hins öfgahópsins hafi sprengt sig í loft upp sem mætti þó búast við ef þeir tryðu eigin útleggingum á trúnni. Þó trúarbrögð fari víða með stórt hlutverk í mótun menningar, samskipta og sjálfsmyndar manna og þjóða þá er hæpið að álíta þau ein og sér efni í ófriðarbál. Það er miklu frekar sívaxandi misskipting, eins og Össur bendir réttilega á sem vekur deilur, en ekki endilega bara auðs. Hugsanlega má líta svo á að skortur í víðum skilningi og þess vegna líka skortur á sjálfsmynd geti haft þessi skaðvænlegu áhrif.

Í þessu sambandi er vert að minna á að múslimar sjálfir hafa gengið hart fram í að uppræta öfgahópa sem kenna sig við islam.[4] Á sama hátt má benda á að það eru kristnir menn sem eru vonandi við það að ná að binda enda á ofbeldi öfgahópa sem allt of oft eru kenndir við kristin trúfélög á Norður Írlandi. Minna má á að áhrif trúarleiðtoga eru andlegs eðlis en ekki veraldlegs en það eru oftast veraldleg deilumál sem verða uppspretta átaka. Deilan á Norður-Írlandi snýst t.d. ekki um spurninguna um réttlætingu fyrir trú eða vígsluröð biskupa eins og ætla mætti ef sú deila væri háð á trúarlegum forsendum, heldur um sjálfstæði Norður-Írlands og stjórnmálatengsl þess við England. Það hlýtur því að vera varhugavert þegar fólk eða deilumál eru flokkuð með tilliti til trúar. Slíkt hrap að ályktun hlýtur að vera öfgamönnum geðþekkt því það staðfestir að þeim hefur orðið nokkuð ágengt í smíði staðalímynda. Fyrir stjórnmálamenn skiptir miklu að þeir láti ekki berast með þeim yfirborðslega straum og noti ekki tvírætt orðalag sem gæti hugsanlega misskilist í þá veru að dilkadráttur með tilliti til trúar sé lykill að skilningi á deilumálum samtímans.

Heimildir:
[1] Almennar stjórnmálaumræður.
Össur Skarphéðinsson. 130. fundur. 2005-05-10. http://www.althingi.is
[2] Fjórir látnir eftir mótmæli vegna frétta af vanvirðingu á Kóraninum í Guantanamo.
Morgunblaðið vefútgáfa. 11.05. 2005. http://www.mbl.is
[3] Bandarísk stjórnvöld vilja að Newsweek bæti fyrir skaðann.
Morgunblaðið vefútgáfa. 17. 05. 2005. http://www.mbl.is
[4] Háttsettur al-Qaedaliði handtekinn í Pakistan.
Morgunblaðið vefútgáfa. 4.05. 2005. http://www.mbl.is

  01:01:31, Skrásetjari: Sr. Denis O'Leary   , 350 orð  
Flokkur: Til umhugsunar

Tíu ástæður fyrir því að ég fer aldrei í kirkju :-)

Fólk ber við mörgum mismunandi ástæðum fyrir því að fara ekki í kirkju. Ástæður þessar eru oftast mjög skynsamlegar og góðar eða er það?

Tíu ástæður fyrir því að ég fer aldrei í kirkju
og tíu ástæður fyrir því að ég þvæ mér aldrei.

(1) Ég var neydd/ur til þess að fara í kirkju sem barn.
(1) Ég var neydd/ur til þess að þvo mér sem barn.

(2) Fólk sem fer í kirkju er hræsnarar sem heldur að það sé betra en annað fólk.
(2) Fólk sem þvær sér er hræsnarar sem heldur að það sé hreinna en annað fólk.

(3) Það eru svo margar mismunandi kirkjur að ég get ekki ákveðið hvaða kirkja er best.
(3) Það eru svo margar mismunandi sáputegundir að ég get ekki ákveðið hvaða sáputegund er best.

(4) Ég var vön/vanur að fara í kirkju en fór að leiðast það og hætti því.
(4) Ég var vön/vanur að þvo mér en fór að leiðast það og hætti því.

(5) Ég fer aðeins í kirkju á hátíðum eins og til dæmis á jólum og páskum.
(5) Ég þvæ mér aðeins á hátíðum eins og til dæmis á jólum og páskum.

(6) Enginn vina minna fer í kirkju.
(6) Enginn vina minna þvær sér.

(7) Ég ætla að byrja á því að fara í kirkju þegar ég eldist.
(7) Ég ætla að byrja á því að þvo mér þegar ég eldist.

(8) Ég hef aldrei tíma til þess að fara í kirkju.
(8) Ég hef aldrei tíma til þess að þvo mér.

(9) Það er aldrei nógu hlýtt í kirkjunni á veturna og aldrei nógu svalt í henni á sumrin.
(9) Það er aldrei nógu hlýtt í baðherberginu á veturna og aldrei nógu svalt þar á sumrin.

(10) Fólk sem hvetur til trúar er bara að hugsa um að ná peningum af manni.
(10) Fólk sem hvetur til sápunotkunar er bara að hugsa um að ná peningum af manni.

08.05.05

  15:27:00, Skrásetjari: Ragnar Geir Brynjólfsson   , 590 orð  
Flokkur: Fjölmiðlarýni

Var Jóhannes Páll II. páfi valdur að dauða milljóna?

Dagana eftir andlát Jóhannesar Páls II. páfa hinn 2.4.2005 var mikið fjallað um hann í íslenskum fjölmiðlum. Margt af því sem fram kom virtist nokkuð vel unnið en einnig komu fram óvænt viðhorf - og nokkuð samhljóða - þess efnis að hinn nýlátni páfi hafi valdið dauða fjölda fólks með áhrifum sínum. þrátt fyrir nokkra eftirgrennslan hefur ekkert fundist sem rennt gæti stoðum undir þessar fullyrðingar.

Þetta byrjaði að því er næst verður komist í fréttum á Stöð 2 hinn 3. apríl þar sem eftirfarandi orð féllu:

„Hann ... vildi ekki mæla með notkun smokka, þrátt fyrir að það gæti dregið úr útbreiðslu alnæmis, sem fer sem eldur í sinu um þau lönd þar sem kaþólskur siður hefur fest rætur undanfarna áratugi, ekki síst fyrir atbeina Jóhannesar Páls.“ [1]

Í umræðuþættinum „Silfri Egils“ á Stöð 2 10. apríl var svo gengið mun lengra þegar í þáttinn mætti kona sem fullyrti:

„Auðvitað var þetta merkur maður. Hann hafði mikil áhrif. Spurningin er hvort þau áhrif voru að öllu leyti góð. Ég tel að þau hafi ekki verið góð og ja - hreinlega drepið milljónir manna. Því að þessi páfi og kardínálar hans börðust hreinlega gegn notkun smokksins svo dæmi sé tekið. Það var talsmaður alnæmissamtaka sem sagði eftir lát páfa: ,Við gerðum ekki ráð fyrir að þeir færu að mæla með að fólk notaði smokkinn til að koma í veg fyrir smit - en við vorum að vona að þeir berðust ekki gegn því – sú von rættist ekki.' “ [2]

Þessar fullyrðingar eru sérkennilegar því þrátt fyrir talsverða eftirgrennslan hafa engar tölur fundist sem sýna jákvæða fylgni milli hlutfalls kaþólskra og hlutfalls HIV smitaðra á neinum stað eða landsvæði - tölur sem ættu þó að vera auðfundnar sé horft á hvað fullyrðingarnar eru afdráttarlausar.

Þáttastjórnandinn tók gagnrýnislaust við málflutningnum og vitnaði þar að auki í grein eftir breskan dálkahöfund [3] þar sem svipuðum sjónarmiðum var haldið á lofti. Enginn var kvaddur til að halda uppi andmælum þó Einar Oddur Kristjánsson sem þar var mættur hafi gert það drengilega - þó ekki sé hann kaþólskur.

Í skýrslu Unaids [4] um útbreiðslu HIV kemur m.a. fram að í Afríku sunnan Sahara þar sem algengi HIV smits er mest um þessar mundir (64% af heildarfjölda þeirra sem sýktir eru í heiminum) birtist sjúkdómurinn ekki sem eitt heldur ólík vandamál. Mikill vandi er að víða skortir heilbrigðisþjónustu eða efni til að kaupa hana og því er oft ekki vitað hverjir eru sýktir. Sagt er að viðbrögð við sjúkdómnum miðist gjarnan við hugsjónir um heim þar sem allir séu jafnir, frjálsir að því að taka ákvarðanir og geti valið t.d. að vera skírlífir, að vera tryggir lífsförunaut sínum eða að nota verjur að staðaldri. Raunveruleikinn sé að konur mæti ýmsum hættum frekar en karlar. Meira en fjórðungur (28%) kvenna í Suður-Afríku segir að fyrsta kynferðisleg reynsla hafi verið óumbeðin. (Bls. 24.) Hvergi er bent á trúfélag, þjóðflokk, þjóðríki eða leiðtoga sem sökudólg er ábyrgð beri á ástandinu.

Það væri einföldun að fjalla um einstök boð kirkjunnar án þess að horfa á það samhengi sem þau eru sett fram í. Boðum gegn notkun getnaðarvarna er beint til kaþólskra hjóna og hjónin eiga að sýna hvort öðru tryggð. [5, gr. 2370,2380-81] Ógiftu fólki er boðað skírlífi. Ásakanir um að boð Jóhannesar Páls II. páfa hafi valdið dauða milljóna eru samkvæmt framansögðu því ótrúverðugar. Það er áhyggjuefni að fjölmiðill geti gagnrýnislaust orðið farvegur fyrir ásakanir af alvarlegasta tagi, þ.e. að nafngreindir einstaklingar hafi stuðlað að dauða milljóna.

Heimildaskrá:
[1] Fréttir. 3. apríl 2005. http://stod2.visir.is
[2] Silfur Egils. 10. apríl 2005. Umsjón Egill Helgason. http://stod2.visir.is
[3] Not in my name. Polly Toynbee, 8. apríl 2005. The Guardian http://www.guardian.co.uk
[4] AIDS Epidemic Update 2004
Des. 2004. http://www.unaids.org/
[5] Trúfræðslurit kaþólsku kirkjunnar. Óopinber bráðabirgðaútgáfa. Maríukirkja Breiðholti. http://mariu.kirkju.net/trufraedslurit

21.04.05

  23:24:07, Skrásetjari: Sr. Denis O'Leary   , 78 orð  
Flokkur: Bænir

Bæn fyrir Benedikt XVI. páfa

Guð, hirðir og stjórnandi allra trúaðra.
Lít náðarsamlega á þjón þinn Benedikt
sem þú hefur sett sem hirði og leiðtoga kirkju þinnar.
Vér biðjum þig: Veit honum að fyrir orð hans og eftirdæmi
efli hann velferð allra þeirra sem hann er leiðtogi fyrir,
svo að hann komist til eilífs lífs
ásamt þeirri hjörð sem honum er trúað fyrir.
Fyrir Krist, Drottin vorn. Amen.

19.04.05

  19:22:50, Skrásetjari: Sr. Denis O'Leary   , 6 orð  
Flokkur: Bænir

HABEMUS PAPAM!

HABEMUS PAPAM!

BENEDIKT XVI.

DEO GRATIAS.

15.04.05

  00:35:38, Skrásetjari: Sr. Denis O'Leary   , 1736 orð  
Flokkur: Bænir

Algengar bænir

SIGNINGIN
Í nafni Föðurins og Sonarins og hins Heilaga Anda. Amen.

FAÐIRVORIÐ
Faðir vor, þú sem ert á himnum. Helgist þitt nafn; komi þitt ríki; verði þinn vilji, svo á jörðu sem á himni. Gef oss í dag vort daglegt brauð; og fyrirgef oss vorar skuldir, svo sem vér og fyrirgefum vorum skuldunautum; og eigi leið þú oss í freistni, heldur frelsa oss frá illu. Amen.

MARÍUBÆN
Heil sért þú María, full náðar. Drottinn er með þér; blessuð ert þú meðal kvenna; og blessaður er ávöxtur lífs þíns, Jesús. Heilaga María, Guðsmóðir, bið þú fyrir oss syndugum mönnum, nú og á dauðastundu vorri. Amen.

LOFGERÐARBÆN
Dýrð sé Föðurnum og Syninum og hinum Heilaga Anda. Svo sem var í öndverðu, er enn og verður ávallt og um aldir alda. Amen.

IÐRUNARBÆN
Guð minn, ég iðrast af hjarta alls þess, sem ég hef gjört rangt og harma vanrækslu mína að láta svo mörg góðverk ógerð, því með syndinni hef ég sært þig og brotið gegn þér, sem ert hið æðsta hnoss, og verðugastur þess, að vér elskum þig öllu öðru fremur. Ég ákveð því fastlega, að með hjálp náðar þinnar, skuli ég gera yfirbót, syndga eigi framar og forðast öll færi til syndar í framtíðinni. Amen.

ANIMA CHRISTI
Sál Kristí, helga þú mig. Hold Kristí, frelsa þú mig. Blóð Kristí, örfa þú mig. Vatnið úr síðu Kristí, lauga þú mig. Písl Kristí, styrk þú mig. Góði Jesús, bænheyr þú mig. Fel þú mig í undum þínum. Lát þú ekki skilja með okkur. Vernda mig fyrir valdi óvinarins. Kalla þú mig á dauðastundinni, og lát mig koma heim til þín, svo að ég geti lofað þig og vegsamað að eilífu með öllum helgum mönnum þínum. Amen.

AÐ VEKJA VON
Guð minn, ég vonast eftir náðinni og dýrðinni af þér, sakir fyrirheita þinna, mildi þinnar og máttar. Amen.

AÐ VEKJA ÁST
Guð minn, ég elska þig af öllu hjarta, af því að þú ert fjarska góður, og fyrir sakir þín elska ég náunga minn eins og sjálfan mig. Amen.

AÐ VEKJA IÐRUN
Guð minn, það hryggir mig mjög, að ég skuli hafa brotið við þig, því að þú ert fjarska góður, og ég ætla ekki að syndga framar. Amen.

MARÍA, GETIN SYNDLAUS
María, getin syndlaus, bið þú fyrir oss, sem á náðir þínar leitum. Amen.

TIL HEILAGS ANDA
Kom þú, Heilagur Andi, og fyll hjörtu þinna trúuðu, og tendra í þeim eld kærleika þíns. Send þú Anda þinn, og allir verða endurskapaðir, og þú endurnýjar ásjónu jarðar. Vér skulum biðja. Guð, þú hefur uppfrætt hjörtu hinna trúuðu með ljósi Heilags Anda. Veit oss að njóta sannleikans í þeim sama Anda og gleðjast ávallt sakir huggunar hans. Fyrir Krist, drottin vorn. Amen.

FYRIR MÁLTÍÐ
Blessa þú oss, Drottinn, og þessar gjafir, sem vér þiggjum af mildri gæsku þinni. Fyrir Krist, drottin vorn. Amen.

EFTIR MÁLTÍÐ
Almáttugi Guð, vér þökkum þér allar velgerðir þínar. Þú sem lifir og ríkir um aldir alda. Amen.

SALVE REGINA
Heil Sért þú, drottning, móðir miskunnarinnar, lífs yndi og von vor, heil sért þú. Til þín hrópum vér, útlæg börn Evu. Til þín andvörpum vér, stynjandi og grátandi í þessum táradal. Talsmaður vor, lít þú miskunnarríkum augum þínum til vor og sýn þú oss, eftir þennan útlegðartíma, Jesú, hinn blessaða ávöxt lífs þíns, milda, ástríka og ljúfa María mey. Bið þú fyrir oss, heilaga Guðsmóðir. Svo að vér verðum makleg fyrirheita Krists. Amen.

Postulleg trúarjátning
Ég trúi á Guð Föður almáttugan, skapara himins og jarðar. Og á Jesúm Krist, hans einkason, Drottin vorn; sem getinn er af Heilögum Anda, fæddur af Maríu mey; leið undir valdi Pontíusar Pílatusar, var krossfestur, dáinn og grafinn, sté niður til heljar, reis á þriðja degi aftur upp frá dauðum, sté upp til himna, situr við hægri hönd Guðs Föður almáttugs og mun þaðan koma að dæma lifendur og dauða. Ég trúi á Heilagan Anda, heilaga kaþólska kirkju, samfélag heilagra, fyrirgefningu syndanna, upprisu holdsins og eilíft líf. Amen.

Friðarbæn
Drottinn, ger þú mig að farvegi friðar þíns, svo að ég færi kærleika þangað sem hatur er, fyrirgefningu þangað sem móðgun er, einingu þangað sem sundrung er, trú þangað sem efi er, sannleika þangað sem villa er, von þangað sem örvænting er, gleði þangað sem harmur er, ljós þangað sem skuggi er. Veit þú, Drottinn, að ég sækist fremur eftir að hugga en láta huggast, skilja en njóta skilnings, elska en vera elskaður, því að okkur gefst ef við gefum, við finnum sjálf okkur ef við gleymum okkur sjálfum, okkur fyrirgefst ef við fyrirgefum og fyrir dauðann fæðumst við til eilífs lífs. Amen.

Memorare
Mildiríka María mey, minnst þú þess, að aldrei hefur það komið fyrir, að nokkur maður hafi árangurslaust snúið sér til þín og ákallað hjálp þína og árnaðarbænir. Til þín sný ég mér því með fullu trúnaðartrausti, móðir mín og meyjan öllum meyjum æðri; til þín kem ég, frammi fyrir þér stend ég, aumur syndari. Móðir eilífa Orðsins, fyrirlít þú ekki bæn mína, heldur veit þú mér áheyrn og bænheyr mig. Amen. Bið þú fyrir oss, heilaga Guðsmóðir. Svo að vér verðum makleg fyrirheita Krists. Amen.

Engill Drottins
Engill Drottins flutti Maríu fagnaðarboðskapinn og hún fékk getnað af Heilögum Anda.

Heil sért þú María, full náðar. Drottinn er með þér; blessuð ert þú meðal kvenna; og blessaður er ávöxtur lífs þíns, Jesús. Heilaga María, Guðsmóðir, bið þú fyrir oss syndugum mönnum, nú og á dauðastundu vorri. Amen.

Sjá, ég er ambátt Drottins, verði mér eftir orði þínu.

Heil sért þú María, full náðar. Drottinn er með þér; blessuð ert þú meðal kvenna; og blessaður er ávöxtur lífs þíns, Jesús. Heilaga María, Guðsmóðir, bið þú fyrir oss syndugum mönnum, nú og á dauðastundu vorri. Amen.

Og Orðið varð hold og bjó meðal vor.

Heil sért þú María, full náðar. Drottinn er með þér; blessuð ert þú meðal kvenna; og blessaður er ávöxtur lífs þíns, Jesús. Heilaga María, Guðsmóðir, bið þú fyrir oss syndugum mönnum, nú og á dauðastundu vorri. Amen.

Bið þú fyrir oss, heilaga guðsmóðir; til þess að vér getum orðið verðug fyrirheita Krists. Vér skulum biðja; Drottinn, vér höfum fyrir fagnaðarboðskap engilsins orðið þess vísari, að Sonur þinn er maður orðinn. Vér biðjum þig, úthell náð þinni í hjörtu vor, svo að sakir milligöngu hinnar heilögu meyjar og fyrir þjáningar Krists og kross verðum vér leiddir til upprisu dýrðarinnar. Fyrir Krist, drottin vorn. Amen.

Regina Caeli
Fagna þú, drottning heimsins, allelúja,
því að hann, sem þér veittist sú náð að ganga með, allelúja,
hann er upprisinn, svo sem hann sagði, allelúja.
Bið þú Guð fyrir oss, allelúja.
Fagna þú og gleðst, heilaga María mey, allelúja,
því að Drottinn er vissulega upprisinn, allelúja.
Vér skulum biðja: Guð, af miskunn þinni hefur þú látið upprisu Sonar þíns, Drottins vors Jesú Krists, verða heiminum til fagnaðar. Unn oss þeirrar náðar, að sakir milligöngu hinnar heilögu meyjar, móðir hans, fáum vér að njóta fagnaðar eilífa lífsins. Fyrir Krist Drottin vorn. Amen.

Bæn um fyrirgefningu
Góði Drottinn Guð, ég ætla að gera eins og þú vilt og fyrirgefa öllum eins og þú fyrirgefur mér. Góði Guð, fyrirgefðu líka öllum, hvar sem þeir eru og hvað, sem þeir hafa gert. Láttu alla elska þig. Amen.

Bæn um hina sönnu trú
Almáttugi Guð, ég bið þig auðmjúklega að upplýsa hugskot mitt og hræra hjarta mitt með gæsku þinni, svo að með sannri trú og kærleika megi ég lifa og deyja í hinni sönnu trú Jesú Krists. Það er þessi trú, Guð minn, sem ég þrái af heilum hug að fylgja, til þess að bjarga sálu minni. Þessvegna lýsi ég því yfir að ég skal lifa í þeirri trú, sem þú sýnir mér að sé rétt, hverju sem til þarf að kosta. Það, sem ég verðskulda ekki, vænti ég að öðlast fyrir óendanlega miskunn þína. Heilög María, öndvegi viskunnar, bið þú fyrir oss. Amen.

Kvöldbæn
Góði Guð, vak þú yfir mér á meðan ég sef. Vak yfir öllum, sem eru þreyttir, að hvíla sig. Gef öllum svöngum mönnum mat að borða. Hugga líka góði Guð, alla þá, sem eru sorgmæddir, einmana og sjúkir. Amen.

Forn bæn fyrir framliðnum
Ég bið fyrir öllum sálum, sem fram hafa farið af heiminum frá upphafi og minna bæna með þurfa. Ég bið allsvaldandi Guð, að hann veiti þeim fyrirgefningu allra synda og gefi þeim eilífa hvíld og óþrjótandi ljós til efsta dags. En á upprisudegi veiti hann allra vorra sálum óumræðilegan fögnuð með sjálfum sér og öllum himneskum hersveitum. Amen. Drottinn, veiti þeim hina eilífu hvíld, og hið eilífa ljós lýsi þeim. Allir sálir trúaðra framliðinna hvíli í friði sakir miskunnar Guðs. Amen.

FYRIR FRAMLIÐNUM
Drottinn, veiti þeim hina eilífu hvíld, og hið eilífa ljós lýsi þeim. Allir sálir trúaðra framliðinna hvíli í friði sakir miskunnar Guðs. Amen.

03.04.05

  22:40:55, Skrásetjari: Sr. Denis O'Leary   , 37 orð  
Flokkur: Bænir

Fyrir Jóhannesi Páli

Drottinn, veiti Jóhannesi Páli hina eilífu hvíld, og hið eilífa ljós lýsi honum.
Allir sálir trúaðra framliðinna hvíli í friði sakir miskunnar Guðs. Amen.

  22:30:30, Skrásetjari: Sr. Denis O'Leary   , 93 orð  
Flokkur: Messan

Fastir liðir heilagrar messu

Upphaf Messunar
Heilsun og iðrunarbæn
Gloria (Söfnuðurinn lofar Guð)
Safnbæn

Orðþjónusta
(Nú er hlýtt á Guðs orð)
Fyrri ritningarlestur
Davíðssálmur (1 til 150)
Síðari ritningarlestur
Allelúja vers
Guðspjall
Stólræða
Trúarjátning
Almenn fyrirbæn

Altarisþjónusta
Undirbúningur fórnargjafanna
Brauð og vín borið fram
Bæn yfir fórnargjöfunum

Þakkar- og helgunarbænir
Þakkargjörð
Efstabæn - gjörbreyting

Berging
Faðirvorið
Friðarkveðja
Brotning brauðsins og berging
Bæn eftir bergingu

Messulok

28.03.05

  22:06:17, Skrásetjari: Sr. Denis O'Leary   , 100 orð  
Flokkur: Bænir

Köllunarsunnudagur

Köllunarsunnudagur
17.4.2005

BÆN
"Ó himneski Jesú,
þú kenndir okkur að biðja til Drottins uppskerunnar
til að senda verkafólk til uppskerunnar.
Veittu kirkjunni í þessu biskupsdæmi
og um allan heim, marga heilaga presta og nunnur.
Samkvæmt vilja þínum megi þau gefa hæfileika sína,
krafta, kapp og kærleika til vegsemdar föður þínum,
til þjónustu við aðra, og sáluhjálpar.
Ef að það mun þóknast þér
að velja einhvern úr fjölskyldu okkar
til að verða prestar eða nunnur,
þá munum við þakka þér af öllu hjarta okkar,
núna og ætíð. Amen."

26.03.05

  09:16:08, Skrásetjari: Ragnar Geir Brynjólfsson   , 987 orð  
Flokkur: Fjölmiðlarýni

Undarlegur fréttaflutningur fréttastofu Sjónvarps (RÚV)

Á föstudaginn langa, 25. mars 2005 birtist frétt í Ríkissjónvarpinu undir fyrirsögninni „11 sjálfboðaliðar krossfestir á Filippseyjum.“ [1]

Mynd af sérvef RÚV sjónvarps.

Sagt er frá því í inngangi fréttarinnar að „þúsundir Filippseyinga og erlendra ferðamanna“ hafi fylgst með því þegar 11 menn létu krossfesta sig og síðan er bætt við „Krossfestingin er hápunktur páskahátíðarinnar í þessu eina kaþólska ríki Asíu“. Því næst koma myndræn brot af sársaukagrettum og handaneglingum og hópi blóðugra manna að berja sig með svipum. Á meðan krossfestum manni er lyft upp les þulur að rómversk-kaþólska kirkjan hafi „lýst yfir andstöðu sinni við þessa blóðugu helgisiði en hefur lítið gert til að koma í veg fyrir þá.“ Að því búnu er sagt frá því að útlendingum sé meinað að láta krossfesta sig í kjölfar hneykslismáls. Síðan kemur: „85% Filippseyinga eru kaþólskir og eru páskarnir þeirra helgasta stund á ári hverju“. Í niðurlagi fréttarinnar eru svo greint frá því að lögregluyfirvöld í Luzon hafi gefið „lögreglumönnum sem höfðu hlaupist undan merkjum“ tækifæri til að bera krossa eða láta krossfesta sig.

Það er ekkert sem bendir til að birting þessarar fréttar sé mistök. Sérstaklega þegar haft er í huga að aðrar fréttir þessari líkar af sömu árvissu viðburðunum eru að ná að hasla sér völl sem alveg jafn fyrirsjáanlegur liður í páskafréttum RÚV sjónvarps og veðurfréttirnar eru dags daglega.

Fullyrðingin um að krossfestingin sé hápunktur páskahátíðarinnar á Filippseyjum stenst ekki. Þetta kemur fljótlega í ljós ef málið er skoðað. Hjá Manila Bulletin Online [heimildir 2 og 3] kemur fram að giskað sé á að áhorfendur hafi verið um 20 þúsund og margir þeirra ferðamenn. Nú ætti fréttamönnum að vera kunnugt um og þeir skilja að það að vera áhorfandi að einhverju atviki er ekki það sama og að vera þátttakandi í því. Flestir rómversk-kaþólskir Filippseyingar, en þeir skipta tugum milljóna, halda upp á páskahátíðina með því að taka þátt í helgisiðum kirkju sinnar. Það er hápunktur páskahátíðarinnar hjá flestum en ekki að taka þátt í krossfestingu né heldur að vera áhorfandi að slíku. Að vísu er hefð fyrir helgigöngum og helgileikjum en krossfestingar tíðkast ekki nema á þessum örfáu stöðum og með þátttöku tiltölulega fárra. Breskur mannfræðingur Nicholas H. Barker hefur rannsakað þetta og geta þeir sem fræðast vilja meira lesið um það hér og á næstu síðum þar á eftir[4].

Biskuparáðstefna kaþólskra biskupa á Filippseyjum hefur farið þess á leit við þetta fólk að það láti ekki krossfesta sig. Ritari ráðstefnunnar Monsignor Hernando Coronel hefur sagt að athafnir þessar gefi ranga mynd af „kaþólskri trú okkar“ og að tilgangur athafnarinnar sem ætti að vera sá að minnast þjáningar og dauða Krists sé sá að draga að ferðamenn og sé ekki einlæg iðrunarathöfn [5 og 6]. Eins og áður segir kom RÚV efnislega inn á þetta atriði en bætti svo við að kirkjan hefði lítið gert til að „koma í veg fyrir“ þetta. Með þessu niðurlagi er gefið í skyn að kirkjan hafi heimild til að stöðva þetta sjónarspil en það er villandi.

Í annan stað er sú ákvörðun að velja eitthvað jafn öfgakennt til að sýna sem dæmi um erlenda trúarathöfn í sjónvarpi allra landsmanna á föstudaginn langa illskiljanleg. Því miður féll Stöð 2 í sömu gryfjuna en sem betur fer ekki alveg eins djúpt [7]. Fréttahaukar RÚV hefðu átt að sjá í gegnum þetta án þess að lesa ábendingu Monsignors Coronels. Tilgangurinn með fjölmiðlafárinu er runninn undan rifjum fjármálamanna og gerður til að hala gull í kassann. Fólkið sem lætur krossfesta sig er greinilega annað hvort ekki fyllilega meðvitað um niðurlægingu sína og trúarinnar og þá athygli sem ábyrgðarlaust athæfi þeirra hefur í för með sér eða þá að þeir þiggja sinn skerf af kökunni í einhverjum skilningi. Af furðukörlum- og kerlingum er alltaf nóg en þeir verða ekki allir að fjölmiðlamat á föstudaginn langa. Þannig hefur klókum eyjarskeggjum tekist að breyta hinum og þessum fréttastofum út um heiminn í auglýsingastofur.

Skylduaðild landsmanna að RÚV gerir að verkum að gera verður ríkari kröfur til þessarar stöðvar en annarra stöðva. Þar á fagmennska og þekking að vera í fyrirrúmi. Hafa ber í huga að hér á landi búa margir Íslendingar sem eru annað hvort upprunnir á Filippseyjum eða afkomendur þeirra. Á stöð eins og RÚV þar sem hlutfallslega litlum hluta tímans er varið í umfjöllun um trúmál á Filippseyjum gefur frétt á borð við þessa ekki einasta skakka mynd af trúarlífi Filippseyinga heldur getur hún í einhverjum tilfellum rennt stoðum undir fordóma á Filippseyingum, á trúarbrögðum almennt og þá kannski rómversk-kaþólskum trúarbrögðum frekar en öðrum. Flestir rómversk-kaþólskir eða meðlimir hverra trúarbragða og lífsskoðana sem er eru venjulegt fólk, ekki öfgamenn né furðumenni. Þetta fólk verðskuldar hlutlausa og óbjagaða umfjöllun um staðreyndir og atburði sem snerta það.

Heimildir:
[1] Fréttir. RÚV - Sjónvarp. 26. mars 2005. http://www.ruv.is
[2] The Manila Bulletin Online. 26. mars 2005. http://www.mb.com.ph
[3] The Manila Bulletin Online. 26. mars 2005. http://www.mb.com.ph
[4] The Revival of Religious Self-Flagellation
in Lowland Christian Philippines.
Nicholas H. Barker.
[5] Ananova World news.
[6] Catholic News. 26. mars 2002. http://www.cathtelecom.com
[7] Fréttir. Stöð 2. 26. mars 2005. http://stod2.visir.is

18.03.05

  20:39:15, Skrásetjari: Ragnar Geir Brynjólfsson   , 9 orð  
Flokkur: Kaþólskir fjölmiðlar

Kaþólska sjónvarpsstöðin EWTN

Kaþólska sjónvarpsstöðin EWTN
(Windows media player)

14.02.05

1 ... 35 36 37 38 39 40 ...41 ...42 43 44 46

Síðustu pistlar

Kirkju.net er óháð vefrit sem inniheldur aðallega efni tengt kaþólskri trú en einnig um trúmál almennt. Markmiðið er að miðla fróðleik og stuðla að skoðanaskiptum og umræðu innan kaþólsku kirkjunnar á Íslandi sem og að kynna kaþólsku kirkjuna fyrir þeim sem utan hennar eru. Aðalsíða vefritsins sækir pistla inn á bloggsíður og skrifa höfundar hvers bloggs pistla sem hafa kaþólskt eða annað trúarlegt efni sem meginþema. Skoðanir settar fram í pistlunum eru höfundanna sjálfra og ber ekki að túlka þær sem skoðanir trúfélaga eða annarra bloggara. Höfundar bera ábyrgð á efni sem þeir birta á sínu bloggi. Athugasemdir við pistlana eiga að vera á íslensku, málefnalegar og fullt nafn höfundar á að koma fram. Athugasemdum er ritstýrt af höfundi hvers bloggs fyrir sig. Gestapennar innan eða utan kaþólsku kirkjunnar eru einnig velkomnir að senda inn greinar sem eru birtar undir „Ýmsir höfundar.“

Leit

Flokkur

Sr. Denis O'Leary

Kirkjuvefbók Ragnars

Jón Valur Jensson

Ýmsir höfundar

Jón Rafn Jóhannsson

Kirkju.net

  XML Feeds

blog software