Blaðsíður: 1 ... 2 3 4 5 6 7 ...8 ...9 10 11 13

09.02.06

  22:40:43, Skrásetjari: Ragnar Geir Brynjólfsson   , 256 orð  
Flokkur: Þjóðfélagsrýni, Páfinn, Önnur trúarbrögð

Páfagarður fordæmir myndbirtingarnar og ofbeldið

Páfagarði, 5. feb. 2006 (Zenit.org). Páfastóll fordæmdi birtingu skopmynda af Múhameð spámanni sem birst hafa í vestrænum fjölmiðlum sem og ofbeldisfull viðbrögð í hinum múslimska heimi.

Í óundirritaðri yfirlýsingu frá fréttastofu Páfagarðs sem gefin var út sl. laugardag segir: "Frelsi til hugsana og tjáningar, sem staðfest er í Mannréttindasáttmálanum getur ekki falið í sér rétt til að meiða trúarlegar tilfinningar fólks. Þetta á við um öll trúarbrögð". "Fjölbreytileiki kallar á andrúmsloft gagnkvæmrar virðingar og friðarhug milli manna og þjóða".

Read more »

05.02.06

  12:59:14, Skrásetjari: Ragnar Geir Brynjólfsson   , 279 orð  
Flokkur: Þjóðfélagsrýni

Lög gegn trúhatri samþykkt í breska þinginu

LONDON 4. feb. 2006 (Zenit/ICN).
Lagafrumvarp gegn trúhatri var samþykkt í breska þinginu með eins atkvæðis mun 31. jan. sl. eftir miklar umræður. Skv. lögunum er óheimilt að stuðla að hatri með tilliti til trúar, hvort sem er í töluðu máli eða skrifuðu, opinberlega eða í einkalífi. Þetta er þriðja tilraun stjórnarinnar síðan 2001 að koma á svona lögum.

Samkvæmt þeim er sá einn brotlegur sem með ásetningi viðhefur ógnanir í garð trúarhópa, en niðrandi ummæli eða móðganir teljast ekki brotleg. Sálnaveiðar, umræða, gagnrýni, móðganir og háð gegn trú telst ekki vera brot á lögunum.

Read more »

03.02.06

  21:35:42, Skrásetjari: Ragnar Geir Brynjólfsson   , 274 orð  
Flokkur: Sakramentin

Hversu mörg eru sakramentin?

Hversu mörg eru sakramentin? Svarið við þeirri spurningu tekur mið af því hvaða kirkjudeild átt er við með spurningunni. Ef spurt er um rómversk kaþólsku kirkjuna og orþodoxar kirkjudeildir þá er svarið að þær eru með sjö sakramenti:

1210. (1113) Kristur stofnsetti sakramenti hins nýja lögmáls. Þau eru sjö: skírn, ferming (eða biskupun), evkaristían, skriftir, smurning sjúkra, helgar vígslur og hjónaband. Sakramentin sjö snerta öll stig og allar mikilvægar stundir kristilegs lífs:1 þau leiða af sér fæðingu og vöxt, græðingu og erindi hins kristna trúarlífs. Þannig er viss líking með þróunarstigum náttúrlegs lífs og hins andlega lífs. [1]

Hin evangelísk - lútherska þjóðkirkja og aðrar mótmælendakirkjur eru aftur á móti með tvö sakramenti. Einar Sigurbjörnsson prófessor segir á vísindavefnum:

Orðið sakramenti er latneskt og þýðir „leyndardómur” eða „helgur dómur”. Í kirkjunni er orðið notað um ákveðnar athafnir og hefur sakramenti verið skýrgreint á þennan hátt:

"Sakramenti er heilög athöfn, sem Kristur stofnsetti sjálfur, þar sem hann veitir ósýnilegum, himneskum náðargjöfum gegnum sýnilegt, jarðneskt efni samkvæmt orði sínu."

Að skilningi þjóðkirkjunnar og annarra mótmælendakirkna eru það aðeins tvær athafnir sem standast þessa skýrgreiningu og þær eru annars vegar skírn og hins vegar heilög kvöldmáltíð eða altarissakramentið. [2]

RGB/Heimildir
[1] Trúfræðslurit Kaþólsku Kirkjunnar http://mariu.kirkju.net
[2] Vísindavefur HÍ. http://visindavefur.hi.is

29.01.06

  07:37:54, Skrásetjari: Ragnar Geir Brynjólfsson   , 206 orð  
Flokkur: Páfinn

Heimsbréf páfa „Guð er kærleikur“ komið út

25. janúar sl. kom út í Páfagarði svokallað heimsbréf eða umburðarbréf Benedikts páfa XVI. sem ber heitið „Guð er kærleikur.“ Heimsbréf/umburðarbréf vísar til þess að bréfið er öllum ætlað, þ.e það er ritað til heimsins alls og á að berast boðleiðir milli manna. Venjan er að nefna heimsbréfin eftir fyrstu orðum þeirra á latínu og í þessu tilfelli hefst latneska útgáfan á orðunum „DEUS CARITAS EST“. Þetta er tilvitnun í Fyrsta bréf Jóhannesar hið almenna: „Guð er kærleikur, og sá sem er stöðugur í kærleikanum er stöðugur í Guði og Guð er stöðugur í honum“ (1. Jh. 4,16). Efni bréfsins er eins og nafnið bendir til hinn kristilegi kærleikur og skiptist það í tvo hluta. Hinn fyrri fjallar um þann kærleika sem Guð býður manninum og tengsl hans við mannlegan kærleika. Síðari hlutinn fjallar um kærleiksboðið - elskuna til náungans.

Netnotendur geta kynnt sér efni bréfsins í enskri, franskri, þýskri, ítalskri, latneskri, pólskri, portúgalskri eða spænskri þýðingu á netinu.


RGB/Heimild: Encyclical Letter: Deus Caritas Est - on Christian Love - from Pope Benedict. ICN. http://www.indcatholicnews.com/

  07:23:12, Skrásetjari: Ragnar Geir Brynjólfsson   , 52 orð  
Flokkur: Kaþólska kirkjan á Íslandi

Bréf kaþólskra Norðurlandabiskupa komið á netið

Hirðisbréf kaþólskra biskupa Norðurlanda um hjónabandið og fjölskylduna „Kærleikurinn til lífsins“ hefur nú verið birt í heild sinni á vefsetri Kaþólsku kirkjunnar. Netnotendur geta nú kynnt sér efni bréfsins með því að smella á vefslóðina http://www.vortex.is/catholica/lettice.html.

RGB

28.01.06

  09:10:31, Skrásetjari: Ragnar Geir Brynjólfsson   , 125 orð  
Flokkur: Helgir menn

„Hinir heilögu – Fyrirmyndir á lífsleið okkar“

Á síðasta ári birtist í Kaþólska kirkjublaðinu greinaflokkur sem nefndist „Hinir heilögu – Fyrirmyndir á lífsleið okkar“. Nú er greinaflokkurinn í heild sinni kominn á netið og þar geta netnotendur kynnt sér efni hans.

Meðal helgra manna sem fjallað er um eru hinn frægi lærdómsmaður og kirkjufræðari, hl. Tómas frá Aquin, hl. Benedikt frá Aniane, hl. Ludgerus (Liudger) biskup í Münster, hl. Konráð frá Parzham, heilagir konungar Norðurlanda - þeir Eiríkur Svíakonungur, Knútur Danakonungur og
Ólafur Noregskonungur - hl. Gregoríus mikli, hl. Teresa af Jesúbarninu eða „heilög Teresa litla“, hl. Karl Borromeus og hl. Nikulás frá Myra.

Greinasafnið má nálgast á vefslóðinni http://www.vortex.is/catholica/snts.html

RGB

15.01.06

  11:52:39, Skrásetjari: Ragnar Geir Brynjólfsson   , 425 orð  
Flokkur: Dulhyggja, Opinberanir, Meðugorje

„Ég er komin til að segja heiminum að Guð sé til“

Í þorpinu Meðugorje * [svo] (á ensku Medjugorje) í Bosníu-Herzegovinu áttu óvenjuleg atvik sér stað klukkan 6 að kvöldi hinn 24. júní árið 1981 í nágrenni Podbrdo hæðar. Börnin Ivanka Ivankovic, Mirjana Dragicevic, Vicka Ivankovic, Ivan Dragicevic, Ivan Ivankovic og Milka Pavlovic sem þar voru stödd greindu síðar frá því að þeim hefði birst fögur ung kona með barn í fangi. Hún mælti ekki orð en gaf til kynna með bendingum að þau ættu að koma nær. Þau voru undrandi og hrædd þó hvert um sig teldi að um Maríu mey væri að ræða. Daginn eftir mættu þau á sama stað og tíma og aftur birtist hún. Frá þessum degi hefur hún að þeirra sögn haldið áfram að birtast þeim, sumum daglega allt til þessa dags en öðrum sjaldnar.

Skiljanlega olli þessi framburður barnanna miklu róti í þorpinu. Kaþólskur biskup svæðisins neitaði að trúa þessu og taldi að um falsanir væri að ræða. Fljótlega fór fólk samt að streyma til staðarins og júgóslavnesk yfirvöld reyndu að stöðva það sem fram fór, en til þessa dags hefur ekkert náð að stöðva fólksstrauminn til Meðugorje, ekki heldur Bosníustríðið þó á stríðsárunum hafi dregið mjög úr heimsóknum þangað.

Read more »

13.01.06

  20:26:20, Skrásetjari: Ragnar Geir Brynjólfsson   , 207 orð  
Flokkur: Kaþólska kirkjan á Íslandi

Riftún í Ölfusi - kaþólsk kapella á Suðurlandi

Á jörðinni Riftúni í Ölfusi er kapella og safnaðarheimili kaþólsku kirkjunnar á Suðurlandi. Kapellan ber heitið „Kapella hins helga kross“ og vísar heitið til fornrar sögu krossins sem var í Kaldaðarnesi í Flóa sem er handan Ölfusár. Árið 1985 var reistur kross á hamrinum fyrir ofan bæinn og stendur hann enn. Nær krossmessu á hausti eru farnar krossgöngur að krossinum.

Forsaga þess að kaþólska kirkjan eignaðist Riftún var sú að íslenska Jósefssystirin systir Clementía „yngri“ (Svanlaug Guðmundsdóttir), ein fjögurra íslenskra kvenna sem gekk í Jósefsregluna hafði forgöngu um það ásamt séra George þáverandi skólastjóra Landakotsskóla. Systir Clementía ráðstafaði hluta af arfi sínum til kaupanna. Kirkjan keypti svo jörðina árið 1963 til að reka þar sumarbúðir fyrir nemendur Landakotsskóla. Riftún var rekið sem sumardvalarheimili en nemendur Landakotsskóla nutu líka aðstöðunnar á öðrum árstímum.

Síðustu árin hefur sóknarprestur Maríukirkjusóknar haft umsjón með staðnum. Hann messar þar á sunnudögum kl. 16 og á miðvikudagskvöldum kl. 20.

RGB/Heimild: „St. Jósefssystur á Íslandi 1896-1996“. Ólafur H. Torfason. Útg. St. Jósefsreglan af Chambéry, 1997. Bls. 434.

02.01.06

  16:18:35, Skrásetjari: Ragnar Geir Brynjólfsson   , 273 orð  
Flokkur: Þjóðfélagsrýni, Kaþólska kirkjan á Íslandi

Hjónabandið er sáttmáli eins karls og einnar konu

Í inngangi að hirðisbréfi sínu um hjónabandið og fjölskylduna fjölluðu kaþólskir biskupar Norðurlanda um markmið hirðisbréfsins og grundvöll þess. Þar segir m.a: í kafla 1.2:

„Í viðræðum sínum við faríseana setti Jesús fram helstu einkenni hjónabandsins: Það er sáttmáli eins karls og einnar konu. Bæði eiga þau að verða 'einn maður'. Þar eð Guð hefur tengt þau saman er eining þeirra svo náin að enginn maður getur slitið hana sundur (sbr. Mt. 19, 4-6).
Páll postuli tók upp þessa sömu sýn á hjónabandið og þróaði hana frekar. Hann talar um kærleikann sem aflið sem bindi saman karl og konu svo að þau leggja sjálf sig í sölurnar hvort fyrir annað líkt og Kristur gerði fyrir kirkju sína (sbr. Ef 5, 21-33). Páll dregur upp mynd af fjölskyldu sem grundvölluð er á hjónabandinu. Fjölskyldan á einnig að einkennast af kærleika foreldranna til barna sinna og barnanna til foreldranna (sbr. Ef 6, 1-4; Kól 3, 18-21).
Þessi kenning um hjónabandið og fjölskylduna sýnir að Guð álítur 'nýja manninn' vera ímynd Jesú Krists og að maðurinn geti þróast að nýju þökk sé endurlausn hans frá syndinni. Hinn nýi maður á einmitt í fjölskyldunni að öðlast möguleikann og kraftinn til að haga lífi sínu í samræmi við áform Guðs.“

RGB/Heimild:
„Kærleikurinn til lífsins“. Hirðisbréf biskupa Norðurlanda um hjónabandið og fjölskylduna. Útg. Kaþólska kirkjan á Íslandi 2005, bls. 5-6.

01.01.06

  19:32:55, Skrásetjari: Ragnar Geir Brynjólfsson   , 232 orð  
Flokkur: Þjóðfélagsrýni, Kaþólska kirkjan á Íslandi

Nútímamaðurinn leitar kærleika, tryggðar og öryggis

Í inngangi að hirðisbréfi sínu um hjónabandið og fjölskylduna fjölluðu kaþólskir biskupar Norðurlanda um markmið hirðisbréfsins og grundvöll þess. Þar segir m.a: í kafla 1.1:

„Þó að lönd okkar þyki einkennast af veraldarhyggju, verðum við varir við vaxandi áhuga á trúarlegum efnum ... þessi nýi andlegi þorsti og áhugi á siðferðilegum álitaefnum [er] afar vel til þess fallinn að koma fagnaðarboðskapnum á ný á framfæri við menn.“ „Hefðbundið fjölskyldumynstur hefur undanfarna áratugi ... ekki verði grundvöllur núverandi lífsstíls manna“ skrifa biskuparnir. „Annarsvegar býr fólk saman í eins konar hjónabandssambúð eða kýs að lifa eitt og án skuldbindinga, og hins vegar þjást menn vegna skipbrota og vonbrigða sem ónýtar hjónabands- og fjölskylduaðstæður hafa fært þeim. Þó að nútímamaðurinn vilji eiga möguleika á fjölbreytni og vali leitar hann samt á endanum eftir kærleika, tryggð og öryggi.“ Á grundvelli þessa skrifa biskuparnir og koma á framfæri hinum kristna boðskap um hjónabandið og fjölskylduna „til þess að færa mönnum von og huggun og gera þeim fært að uppgötva sitt sanna gildi.“

RGB/Heimild:
„Kærleikurinn til lífsins“. Hirðisbréf biskupa Norðurlanda um hjónabandið og fjölskylduna. Útg. Kaþólska kirkjan á Íslandi 2005, bls. 4-5.

31.12.05

  09:09:05, Skrásetjari: Ragnar Geir Brynjólfsson   , 260 orð  
Flokkur: Kaþólska kirkjan á Íslandi

Nýtt hirðisbréf frá kaþólskum biskupum Norðurlanda komið út

Kaþólskir biskupar Norðurlanda hafa gefið út hirðisbréfið „Kærleikurinn til lífsins“ sem fjallar um hjónabandið og fjölskylduna. Bréfið fylgdi janúarhefti Kaþólska kirkjublaðsins sem sent var út rétt fyrir áramótin 2005-2006. Í kirkjublaðinu segir ennfremur að bréfið muni liggja frammi í „kirkjum okkar og kapellum svo að allir geti tekið það með sér.“ Útgefandi bréfsins í íslenskri þýðingu er kaþólska kirkjan á Íslandi. Þýðanda er ekki getið en slíkt mun vera venja þegar um kirkjuskjöl er að ræða. Bréfið skiptist í sjö kafla með inngangi og lokaorðum. Það er í A5 broti heftað í kjöl og er 31 blaðsíða.

Kaflar bréfsins eru: 1 Inngangur, 2 Ímynd hins kristna manns, 3 Hjónabandið sem sakramenti, 4 Hjónabandið og fjölskyldan, 5 Kristið hjónaband og fjölskylda í nútímaþjóðfélagi: Aðskotahlutur eða ögrun?, 6 Aðstoð kirkjunnar: Fjölskylda og söfnuður, 7 Lokaorð.

Undir bréfið rita í eftirfarandi röð: Anders Arborelius Stokkhólmsbiskup, Georg Müller Þrándheimsbiskup og preláti, Gerhard Schwenzer Óslóarbiskup, William Kenney vígslubiskup í Stokkhólmi, Czeslaw Kozon Kaupmannahafnarbiskup, Hans Martensen fyrrum Kaupmannahafnarbiskup, Jóhannes B.M. Gijsen Reykjavíkurbiskup, M. Bernt Eidsvig kjörinn Óslóarbiskup, Józef Wróbel Helsinkibiskup og Gerhard Goebel Tromsöbiskup og preláti. Bréfið er dagsett 15. september 2005.

RGB/Heimildir:
„Kaþólska kirkjublaðið“ 1. tbl. 16. árg. janúar 2006, bls. 2.
„Kærleikurinn til lífsins.“ Hirðisbréf biskupa Norðurlanda um hjónabandið og fjölskylduna. Útg. Kaþólska kirkjan á Íslandi 2005.

27.12.05

  15:07:45, Skrásetjari: Ragnar Geir Brynjólfsson   , 844 orð  
Flokkur: Páfinn, Jólin

Án ljóss Krists nægir ljós skynseminnar ekki

Jólaboðskapur Benedikts páfa XVI.

Páfagarði 25. des, 2005 (Zenit.org). Hér á eftir fer stytt útgáfa af jólaboðskap páfa sem hann las áður en hann flutti jólakveðjur sínar „urbi et orbi“, til borgarinnar Rómar og heimsins. Páfi lagði út af orðum Lúkasarguðspjalls: "...ég boða yður mikinn fögnuð, sem veitast mun öllum lýðnum: Yður er í dag frelsari fæddur, sem er Kristur Drottinn" (Lúk. 2:10-11).

„Í nótt sem leið heyrðum við enn einu sinni ávarp engilsins til fjárhirðanna og upplifðum á ný anda kvöldsins helga í Betlehem þegar sonur Guðs gerðist maður, fæddist í fjárhúsi og dvaldi á meðal okkar. Þennan hátíðardag kveður raust engilsins við á ný og býður okkur, konum og körlum þriðja árþúsundsins að bjóða lausnarann velkominn. Megi nútímafólk ekki hika við að bjóða honum í hús sín, borgir og hvert sem er á jörðinni! Á síðasta árþúsundi og sérstaklega á síðustu öldum hafa gífurlegar framfarir orðið á sviði tækni og vísinda. Í dag er aðgangur greiður að miklum efnislegum gæðum. En karlar og konur þessarar tæknialdar eiga á hættu að verða fórnarlömb eigin vitsmunalegu og tæknilegu afreka og enda í andlegri auðn með tómleika í hjarta. Þess vegna er svo mikilvægt að opna huga og hjarta fyrir fæðingu Krists, þessum hjálpræðisatburði sem getur gefið hverri mannveru nýja von.“

Read more »

11.12.05

  23:25:01, Skrásetjari: Ragnar Geir Brynjólfsson   , 704 orð  
Flokkur: Þjóðfélagsrýni

Baráttan gegn jólunum

WASHINGTON, D.C., 3. des., 2005 (Zenit.org).- Að nefna jólin er ekki lengur talið óviðeigandi í Bandaríkjunum. Sem dæmi um það eru nafngiftir jólatrjáa sem víða eru hitamál. Nýlega var greint frá því að tré á vesturflöt þinghússins væri kallað „jólatré“ (e. Christmas Tree) en ekki „hátíðartré“ (e. Holiday Tree) eins og venjan hefur verið að kalla það undanfarin ár. Í Boston varð fjaðrafok vegna þess að tré var kallað „hátíðartré“ (Holiday Tree). Í kjölfar mótmæla tilkynnti borgarstjórinn að tréð væri „jólatré“. Þessi barátta um jólaskreytingar, jólalög og orðaval byrjaði í nóvember í nokkrum löndum.

Wal-Mart verslanakeðjan í Bandaríkjunum var gagnrýnd fyrir að bjóða fólk velkomið með kveðjunni „gleðilega hátíð“ (Happy Holidays) í staðinn fyrir „gleðileg jól“ (Happy Christmas). Keðjan var einnig gagnrýnd fyrir að halda því fram að jólin væru samsuða úr síberískum shamanisma, keltneskum og gotneskum siðvenjum sem og baalsdýrkun. Keðjan dró þessar staðhæfingar til baka en heldur kveðjunni áfram.

Read more »

05.12.05

  23:14:29, Skrásetjari: Ragnar Geir Brynjólfsson   , 901 orð  
Flokkur: Helgir menn, Trúarleg tónlist og textar

Heilög Lúsía, mey og píslarvottur

Heilög Lúsía, mey og píslarvottur. 13. desember.

Talið er að hún hafi fæðst árið 283. Foreldrar hennar voru aðalsfólk á Sikiley. Faðirinn dó á meðan hún var í bernsku svo að móðirin Eutychia sá um uppeldið. Eins og margir fyrstu píslarvottarnir hafði hún helgað meydóm sinn Guði, og von hennar var sú að geta gefið eigur sínar fátækum. Móðir hennar beitti sér gegn því fyrst í stað, en eftir að hún hafði hlotið undraverða lækningu, sem hún þakkaði Guði, gaf hún leyfi sitt fyrir því. Þetta örlæti vakti mikla gremju hjá æskumanni einum heiðnum sem gegn vilja Lúsíu hafði verið valinn brúðgumi hennar. Hann kom boðum til landstjóra Sikileyjar Paschasíusar að nafni um að Lúsía væri kristin. Þetta á að hafa gerst árið 303 á tíma ofsóknarinnar miklu gegn kristnum mönnum sem Díókletíanus keisari stóð fyrir. Lúsía var dæmd til vistar í vændishúsi. En sagan segir að Guð hafi gefið henni svo mikla staðfestu að þegar átti að flytja hana hafi verðina þrotið afl til að færa hana úr stað. Þá var Lúsía vafin hrísknippum og borinn að eldur. En aftur kom Guð henni til hjálpar. Að lokum var hún líflátin með sverði, sem rekið var ofan í háls hennar. Áður en hún dó sagði hún fyrir um málagjöld Paschasíusar, skjót endalok bæði ofsóknarinnar miklu og veldi Díókletíanusar á keisarastóli. Þannig styrkt af brauði lífsins ávann hún sér kórónu meydóms og píslarvættis.

Read more »

04.12.05

  22:30:03, Skrásetjari: Ragnar Geir Brynjólfsson   , 444 orð  
Flokkur: Þjóðfélagsrýni, Önnur trúarbrögð

Trú og skynsemi haldast í hendur

BIRMINGHAM, 21. nóv. 2005 (ICN). Vincent Nicols erkibiskup í Birmingham fjallaði um veraldarhyggu í predikun sinni og sagði að margir viðurkenndu að tilraun um veraldlega þjóðfélagsskipan hefði mistekist.

„Í dag viðurkenna margir að tilraun um veraldlega þjóðfélagsskipan hefur mistekist. Skynsemishyggja og tækni nægja ekki, hvorki til að halda samfélaginu saman né til innblásturs. Mannsandinn þráir meira og vill reyndar líka gefa meira.“ „Ef allir í stofnun, spítala eða banka eða verksmiðju ynnu bara klippt og skorið eftir starfslýsingu sinni þá myndi sú stofnun stöðvast á nokkrum dögum. Það sem tryggir góðan árangur félags eða stofnunar er sameiginleg sýn, hin undirliggjandi tilfinning fyrir takmarki, þar sem persónulegir duttlungar og sjálfstæði er látið víkja fyrir hinu æðra sameiginlega markmiði.“

Read more »

16.11.05

  23:04:25, Skrásetjari: Ragnar Geir Brynjólfsson   , 1274 orð  
Flokkur: Kirkjuþing og ráðstefnur, Þjóðfélagskenningin, Umhverfismál

Náttúran frá sjónarhóli kristninnar

Tíu umhverfisboðorð kristninnar.

RÓM, 12. nóv. 2004 (Zenit.org). Mannkynið er kallað til ábyrgðarfullrar umsjónar með sköpuninni. Þetta var eitt af því sem kom fram á ráðstefnunni „Siðfræði og umhverfið“ sem hófst í Evrópska háskólanum í Róm á mánudaginn var. Séra Scarafoni, rektor háskólans útskýrði að hin kristna sýn á umsjónarhlutverk mannsins væri grundvölluð á þeim skilningi að maðurinn væri frjáls og viti borin vera, kölluð til þróunar hins skapaða heims.

„Þessu má ekki rugla saman við sigurglaða sýn á mannlegt ástand og athafnir, sem tilheyrir vísindalegri og hugmyndafræðilegri afstöðu gagnvart mannlegu eðli“ bætti presturinn við. „Kaþólsk siðfræði er grundvölluð á kærleiksboðinu sem er meðvitað um mannleg mistök en líka sjálfsöruggt um að fólk geti gert gott með hjálp náðar Guðs.“

Renato Martino kardínáli forseti Páfaráðs um réttlæti og frið tók næstur til máls. „Svar kirkjunnar við Malthusískri svartsýni setur traust sitt á eiginleika mannkyns til að sigrast á vandamálum. „Þessi viðleitni verður samt að fara fram á siðlegum nótum“ sagði kardínálinn. „Athafnir fólks í hinum skapaða heimi má ekki líta á einungis sem æfingu í tæknilegri getu til að takast á við hlutina“ bætti kardínálinn við og vitnaði í hugmyndir Jóhannesar Páls II. um „mannlega umhverfisfræði“ sem leiðbeinandi í þessu sambandi. Umhverfisfræðileg vandamál eru að upplagi mannfræðileg vandamál. Það hvernig við nálgumst náttúruna er undir því komið hvernig við nálgumst okkur sjálf og Guð. Þegar við afneitum hlutverki Guðs í lífi okkar þá setjum við sjálf okkur í hans stað og missum um leið sjónar á þeirri ábyrgð sem fylgir því að annast hinn skapaða heim.

Read more »

11.11.05

  18:59:45, Skrásetjari: Ragnar Geir Brynjólfsson   , 85 orð  
Flokkur: Hin stríðandi kirkja

Kína: Biskup fangelsaður

Frá því var greint á fréttavef ICN að kínversk yfirvöld hefðu fangelsað kaþólskan biskup í vikunni. Julius Jia Zhiguo biskup sem er meðlimur kaþólsku neðanjarðarkirkjunnar í Kína var sóttur á heimili sitt í borginni Zhengding sem er um 240 km. suðvestur af Bejing. Tveir prestar úr biskupsdæmi hans eru einnig í fangelsi. Stjórnarerindrekarnir sem handtóku hann sögðu að hann ætti að fara á „námskeið“.

Heimild: China: Bishop arrested
Independent Catholic News. http://www.indcatholicnews.com

18.09.05

  20:59:08, Skrásetjari: Ragnar Geir Brynjólfsson   , 272 orð  
Flokkur: Kaþólska kirkjan á Íslandi

Krossganga í Riftúni vel sótt

Krossganga í Riftúni 18.9.2005

Sunnudaginn 18. september s.l. var hin árlega krossganga að krossinum í Riftúni í Ölfusi. Krossi þessum var komið fyrir uppi á hömrunum fyrir ofan bæinn í september 1985 og hafa göngur verið farnar að krossinum á hverju ári síðan þá, næstu helgi eftir krossmessu á hausti.

Í þetta sinn var veðurútlitið ekki gott. Um morguninn var hellirigning. Um klukkan hálf þrjú leytið hófst gangan. Lagt var af stað frá vegamótunum fyrir neðan hringtorgið við Hveragerði. Þá var hætt að rigna en enn var skýjað. Gengið var sem leið lá Ölfusið niður Þorlákshafnarveg og að Riftúni, eða um 6 kílómetra leið. Beðnar voru bænir og sálmar sungnir. Í krossgöngum gefst fólki tækifæri til að hugleiða eigin tilveru og að reyna að finna hinn títtnefnda bjálka í eigin auga sem allir sjá nema eigandinn.

Þegar komið var að Riftúni var komið hið besta veður og uppi á hömrunum safnaðist hópurinn saman til að fara með lokabænirnar. Um það leyti braust sólin fram úr skýjaþykkninu og brosti við göngufólkinu. Ingólfsfjall, Ölfusið og Flóinn þessi þrjú mannvænlegu systkyni voru komin í haustfötin og voru óviðjafnanleg, eins og þau eru alltaf þegar sést til þeirra.

Á eftir safnaðist fólkið inn í kapelluna þar sem sóknarpresturinn séra Denis O'Leary söng messu. Eftir messuna buðu safnaðarkonur upp á veitingar í safnaðarherbergjunum tveim inn af kapellunni. Þar sat fólk þröngt en var samt glatt. 45 nöfn voru skrifuð í gestabók.

RGB

  20:30:08, Skrásetjari: Ragnar Geir Brynjólfsson   , 222 orð  
Flokkur: Kaþólska kirkjan á Íslandi

Breytinga að vænta í Riftúni

Á aðalfundi Vinafélags Riftúns sunnudaginn 11. september s.l. greindi séra Denis O'Leary sóknarprestur frá fyrirætlunum biskupsdæmisins um að selja til fyrirtækis stóran hluta jarðarinnar Riftúns í Ölfusi. Fyrirtæki þetta hefur að sögn áætlanir um að reisa sumarhúsabyggð á landinu. Ráðgert er að planta trjám í kring um gamla íbúðarhúsið þar sem kapellan er og gera nauðsynlegar lagfæringar á húsinu. Tilkynnt var einnig að fyrirhugað væri rífa gamla fjósið á bænum sem gegnt hefur hlutverki geymslu og flytja krossinn ofan af hömrunum og koma honum fyrir nær bænum á svæði kirkjunnar. Krossi þessum var komið fyrir á hömrunum fyrir ofan bæinn í september 1985.

St. Jósefssystur keyptu Riftún í Ölfusi árið 1963 [1] af þáverandi ábúendum Kristjáni Teitssyni og Sigfríði Einarsdóttur. Þar var síðan lengi vel rekið sumardvalarheimili fyrir börn. Síðustu árin hefur íbúðarhúsið verið notað sem kapella og safnaðarheimili fyrir kaþólskt fólk austanfjalls og verið þjónað frá Maríukirkju. Vinafélag Riftúns er félagsskapur sem stofnaður var 26. október 2003 af sóknarbörnum kapellunnar í því augnamiði að efla starfsemi kirkjunnar á svæðinu.

RGB
[1]„Sunnlenskar byggðir III. Vesturhluti Árnessýslu.“ Búnaðarsamband Suðurlands 1983.

12.09.05

  20:21:16, Skrásetjari: Ragnar Geir Brynjólfsson   , 164 orð  
Flokkur: Stjórnmálarýni, Önnur trúarbrögð

Varnaðarorð kardínála vegna stjórnarskrárdraga Íraks

Murphy-O'Connor kardínáli í Westminster á Englandi ritaði nýlega breska utanríkisráðherranum Jack Straw bréf þar sem hann hvatti ráðherrann til að beita áhrifum sínum vegna greinar í íröksku stjórnarskrárdrögunum sem gætu skert réttindi kristinna og annarra minnihlutahópa.

Stjórnarskrárdrögin voru kynnt 25. ágúst síðastliðinn og kosið verður um þau 15. október. Fljótlega lýstu leiðtogar kristinna í Írak yfir áhyggjum sínum vegna greinar 2 í stjórnarskrárdrögunum þar sem segir í lauslegri þýðingu: „Engin lög má setja sem ganga gegn óumdeildum reglum islam“.

Kardínálinn fór þess á leit við ráðherrann að hann beitti áhrifum sínum í málinu og varaði við að greinin gæti haft „alvarlegar afleiðingar“ fyrir kristna minnihlutann í Írak og „grafið endanlega undan“ áætlunum Breta um lýðræði á svæðinu.

Cardinal Murphy-O'Connor issues SOS to Jack Straw over Iraq Independent Catholic News. http://www.indcatholicnews.com

05.09.05

  20:53:09, Skrásetjari: Ragnar Geir Brynjólfsson   , 175 orð  
Flokkur: Stjórnmálarýni, Önnur trúarbrögð

Patríarki kaldea gagnrýnir stjórnarskrárdrög í Írak

Patríarki kaldea Emmanuel III. hefur óskað eftir alþjóðlegum þrýstingi gegn stjórnarskrárdrögunum í Írak þar sem þau gefi islömskum lögum of mikið vægi. „Þó þetta sé skref fram á við þá erum við ekki ánægð“ sagði patríarkinn í viðtali við ítölsku fréttastofuna SIR. Patríarkinn sagði að tryggja þyrfti rétt allra og benti á að samkvæmt stjórnarskrárdrögunum ættu Sharia, islömsk lög að vera grundvöllur laga í Írak og engin lög mættu stangast á við reglur islam.

„Það gæti gerst að manni yrði neitað að opna vínbúð af því það gengur gegn islömskum lögum“ sagði patríarkinn. „Hver mun ákveða hvað gengur gegn islam? Aðeins dómari úr röðum múslima!“ Þó kristni sé ein af elstu trúarbrögðum í Írak þá eru aðeins um 800 þúsund kristnir í landinu. Um 70% þeirra eru kaldear.

Iraq: Chaldean Patriarch calls for changes in 'pro-Islamic' draft constitution Independent Catholic News 2005. http://www.indcatholicnews.com/

11.08.05

  23:21:45, Skrásetjari: Ragnar Geir Brynjólfsson   , 721 orð  
Flokkur: Önnur trúarbrögð

Staða fatwa - samþykktarinnar í islam

Í Wikipedia, alfræðibókinni á netinu má finna fróðleik um stöðu fatwa ályktunarinnar í Múhameðstrú sem og um leiðtoga hryðjuverkasamtakanna Al-Quaeda. Hér á eftir fer samantekt úr þessum greinum:
---
[1] Fatwa er lögformleg yfirlýsing eða úrskurður, gefin um tiltekið málefni af sérfræðingi í lögum islam. Venjulega er fatwa gefin út vegna óska um úrskurð. Lærðir menn sem gefa út fatwa eru þekktir sem „mufti“ Algengur misskilningur er að fatwa sé bindandi fyrir alla múslima en svo er ekki. Þeir sem eru bundnir af tiltekinni fatwa eru sá mufti sem gaf hana út og fylgjendur hans.

Read more »

02.08.05

  17:30:09, Skrásetjari: Ragnar Geir Brynjólfsson   , 230 orð  
Flokkur: Önnur trúarbrögð

Breskir múslimar fordæma hryðjuverkaárásir

ICN greindi frá því 19. júlí [1] að meira en 500 breskir leiðtogar og fræðimenn múslima hafi lýst yfir „fatwa“ þ.e. fordæmt hryðjuverkaárásirnar á London. Í yfirlýsingunni er fórnarlömbum hryðjuverkanna vottuð samúð og beðið er fyrir bata þeirra.

Gul Mohammed aðalritari Múslimaráðs Bretlands (Brithish Muslim Forum) vitnaði í Kóraninn og sagði: „Þá er einhver drepur mann ... er eins og hann hafi drepið allt mannkyn, og þá er einhver bjargar mannslífi er eins og hann hafi bjargað öllu mannkyni“ og bætti svo við: „Afstaða Islam er skýr og hafin yfir allan vafa: Morð einnar sálar er morð alls mannkyns. Sá er sýnir mannlegu lífi ekki virðingu er óvinur mannkyns.“ „Við biðjum fyrir friði, öryggi og að samhljómur megi nást í hinu fjölþjóðlega Bretlandi“

Múslimaráð Bretlands eru regnhlífarsamtök sem stofnuð voru í mars á þessu ári. Liðlega 300 moskur tengjast ráðinu. Fatwa yfirlýsingin var einnig lesin upp í moskunum. Önnur yfirlýsing sem fordæmdi sjálfsmorðsárásirnar var gerð af meira en 40 islömskum leiðtogum og fræðimönnum á fundi sem annar hópur, Fulltrúaráð breskra múslima (Muslim Council of Britain) hélt.

[1]. „British Muslims issue fatwa against terrorism.“ Claire Bergin. 19.07.2005. Independent Catholic News. http://www.indcatholicnews.com

23.06.05

  21:22:51, Skrásetjari: Ragnar Geir Brynjólfsson   , 2040 orð  
Flokkur: Dulhyggja, Vitranir, Hin stríðandi kirkja, Opinberanir, Meðugorje

Frá Meðugorje og Króatíu

Frétt þessi birtist í Kaþólska kirkjublaðinu í febrúar 1992.

Sagt er að þeir fyrirburðir hafi orðið í smáþorpinu Meðugorje (framburður: Medsjugorje) sunnarlega í Bosniu-Herzegovinu (áður Júgóslavíu) að María mey hafi birst nokkrum ungmennum reglulega þar síðan að kvöldi 24. júní 1981. Margar bækur hafa verið skrifaðar um vitranir þessar . Margir eru sannfærðir um að vitranirnar í Meðugorje séu af hinu góða, sérstaklega vegna þess mikla fjölda fólks og ungmenna sem leggur leið sína þangað og finnur við það aukinn trúarstyrk.
Kaþólska kirkjan hefur enga formlega afstöðu tekið til Meðugorje, en rannsókn fyrirbæranna er í gangi enda er það regla kirkjunnar að taka ekki afstöðu fyrr en slíkum fyrirburðum lýkur og þá að lokinni ítarlegri rannsókn.

Read more »

19.06.05

  19:12:58, Skrásetjari: Ragnar Geir Brynjólfsson   , 1869 orð  
Flokkur: Pílagrimsferðir

Pílagrímsferðir og suðurgöngur

Grein þessi birtist í Kaþólska kirkjublaðinu í september 1992.

Pílagrímsferð er það kallað þegar kaþólskir eða meðlimir rétttrúnaðarkirkjunnar fara í ferðalag til helgistaðar að gera þar bæn sína í von um andlegar eða líkamlegar náðargjafir, í þakkargjörðarskyni, í yfirbótarskyni, eða einfaldlega vegna mikils trúarlegs eða menningarlegs áhuga. Heimildir eru um pílagrímsferðir kristinna manna til Jórsala (1) þegar á 2. öld og fornleifarannsóknir í Péturskirkjunni í Róm árið 1940 benda til pílagrímsferða að gröf Péturs postula á 2. öld. Á 3. öld er vitað um fólk sem var líflátið fyrir að biðjast fyrir við gröf Péturs postula.

Read more »

28.05.05

  15:52:22, Skrásetjari: Ragnar Geir Brynjólfsson   , 2621 orð  
Flokkur: Helgir menn, Pílagrimsferðir

Hl. Jóhanna af Örk

I.

Hl. Jeanne La Puchelle eða Jóhanna af Örk fæddist í sveitaþorpinu Domremy árið 1412, komin af bændafólki staðarins. Saga hennar er í stuttu máli á þá leið að Karl VI. Frakklandskóngur fór halloka í stríði við Hinrik V. Englandskonung á franskri grund. Kóngar þessir létust árið 1422 en deilurnar héldu áfram. Um 14 ára aldur fann Jóhanna fyrir innri hvatningu eða heyrði „raddir“ sem buðu henni að hitta hinn ókrýnda franska prins og krýna hann konung yfir Frakklandi í dómkirkjunni í Rheims til að sameina Frakka í baráttunni gegn Englendingum. Það er ef til vill ekki alveg augljóst nútímafólki hve fjarstæðukennd þessi fyrirætlun Jóhönnu var ef tillit er tekið til aldarfarsins.

Read more »

  00:53:22, Skrásetjari: Ragnar Geir Brynjólfsson   , 1656 orð  
Flokkur: Helgir menn, Pílagrimsferðir

Hl. Angela Merici, mey og stofnandi Úrsúlínureglunnar

I

Hún fæddist í bænum Desenzano, á suðvesturströnd Gardavatns í Lombardy (Langbarðalandi) á Norður-Ítalíu árið 1470. Foreldrar hennar dóu þegar hún var aðeins 10 ára. Auðugur frændi hennar sem bjó í bænum Salo tók hana og systkini hennar, eldri systur og tvo bræður að sér. Eftir andlát systur sinnar helgaði hún líf sitt Guði. Hún fékk inngöngu í þriðjureglu fransiskana. (Þriðjuregla er leikmannaregla, þ.e. fólk getur verið í hjónabandi og unnið almenna vinnu. Það þarf ekki að ganga í munkakuflum, en ber einkenni reglunnar innanklæða. Ekki eru unnin regluheit, heldur gefin loforð. Fleiri reglur en Fransiskanareglan hafa þriðjureglu, til dæmis Karmelreglan.) Þegar Angela var 22 ára dó frændi hennar og hún sneri aftur til Desenzano. Henni rann mjög til rifja fáfræði fátækari barnanna í nágrenninu.

Read more »

27.05.05

  22:08:09, Skrásetjari: Ragnar Geir Brynjólfsson   , 254 orð  
Flokkur: Þjóðfélagsrýni

Fyrirlestraröð um framtíð Evrópu

Independent Catholic News greindi frá því að 25. maí sl. hefði Cormac Murphy-O'Connor kardínáli á Englandi flutt fyrirlestur, hinn síðasta í röð fyrirlestra sem fjölluðu um framtíð Evrópu [1]. Fyrirlestrarnir voru haldnir í Westminster dómkirkjunni og komu fyrirlesararnir úr ýmsum áttum. Þeirra á meðal voru Sir Bob Geldof, fyrrum poppstjarna, Patten lávarður, Mary McAleese, Jean Vanier og sr. Timothy Radcliffe. Hver fyrirlestur var sóttur af meira en þúsund manns. Efni fyrirlestranna er hægt að nálgast á www.rcdow.org.uk, smellt á „Speeches and articles.“ Þeir munu einnig verða gefnir út síðar á árinu af Darton, Longman & Todd forlaginu.

Murphy-O'Connor kardínáli fékk hugmyndina að fyrirlestraröðinni eftir að hafa lesið hugleiðingar Jóhannesar Páls II. um Evrópu „Ecclesia in Europa“. Skjal þetta sem gefið var út 2003 inniheldur efnislega samantekt fundar kaþólskra biskupa Evrópu sem haldinn var í Róm 1999. Í skjalinu skrifaði páfinn um það sem sameinar evrópskar þjóðir, undanhald hinnar kristnu menningar, upplausn þjóðfélaga og dvínandi samstöðu. „Verið þið sjálf“ hvatti hann Evrópubúa í „Ecclesia in Europa“, „leitið upprunans og rótanna.“

Fyrirlestrarnir í Westminster dómkirkjunni hafa haft sem þemu von, einingu, trú, mannleg samskipti og hvernig Evrópa getur þjónað breiðum hagsmunum heimsins betur.

[1] Europe and the Shape of the Church. Vefur Westminster biskupsdæmis. http://www.rcdow.org.uk
[2] Cardinal outlines vision of future church in Europe. Independent Catholic News. 26. maí 2005. http://www.indcatholicnews.com

24.05.05

  16:52:25, Skrásetjari: Ragnar Geir Brynjólfsson   , 251 orð  
Flokkur: Lífsvernd

Erkibiskup um klónun fósturvísa

Í tilefni frétta af því a Suður-Kóreumenn hafi ræktað einstaklingsbundnar stofnfrumur [1] sendi Peter Smith erkibiskup á Englandi frá sér yfirlýsingu þar sem sagði m.a: [2] „Í fjaðrafokinu sem varð vegna frétta af því að tekist hefði að rækta stofnfrumur með því að nota fósturvísa virðumst við hafa gleymt því að í þessu felst sköpun og eyðilegging mannlegs lífs. Það er siðferðilegt áhyggjuefni að klónun er framkvæmd til að ná í þessar stofnfrumur. Það getur ekki verið rétt að umgangast mannlegt líf á þann hátt. Hið sorglega er að hjá þessum aðstæðum er hægt að komast. Miklar framfarir hafa orðið í stofnfrumurannsóknum þar sem stofnfrumur eru teknar úr fullorðnum eða úr naflastrengjum. Viðurkennt er að þessar stofnfrumur leggi grunn að rannsóknum og jafnvel meðhöndlun á sjúkdómum á borð við Alzheimer og Parkinsonsveiki. Slík nýting stofnfruma er frábært dæmi um áhugaverða vísindalega þróun sem vekur miklar vonir fyrir mannkynið. En þróunin á og verður að vera innan marka svo ekki þurfi að nota fósturvísa. Það er í grundvallaratriðum rangt að skapa nýtt mannlegt líf í þeim tilgangi einum að rækta stofnfrumur.“

[1] Scientists clone stem cells genetically matched to patients. CNN - vefútgáfa. 20.05.2005. http://www.cnn.com
[2] Archbishop Peter Smith comments on human cloning.Independent Catholic News. 24. maí 2005. http://www.indcatholicnews.com

  16:12:05, Skrásetjari: Ragnar Geir Brynjólfsson   , 292 orð  
Flokkur: Stjórnmálarýni

Mannréttindi rædd í kínaheimsókn forsetans

Morgunblaðið greindi frá því hinn 17. maí sl. að Ólafur Ragnar Grímsson forseti Íslands hefði rætt mannréttindamál við Hu Jintao forseta Kína [1]. Lítið hefur borið á frásögnum af mannréttindabrotum kínverskra stjórnvalda í íslenskum fjölmiðlum. Sumum kann því að þykja óþarfi að vera að ympra á mannréttindamálum þegar t.d. viðskiptahagsmunir eru í húfi. Fagna ber þessu framtaki forsetans. Kínversk stjórnvöld leyfa ekki starfsemi kaþólsku kirkjunnar í landinu og hefur hún því starfað neðanjarðar í mörg ár. Sem dæmi um aðgerðir kínverskra stjórnvalda gegn kirkjunni má nefna að Independent Caholic news [2] greindi frá því 29. apríl sl. að sjö kaþólskir prestar í Zhengding Heibei biskupsdæmi hafi verið handteknir um morguninn tveim dögum fyrr í Wuqiu þorpi í borginni Jinzhou. Prestarnir ætluðu að sækja kyrrðardaga skipulagða af Jia Zhiguo biskupi sem nýlega var látinn laus úr 24 stunda eftirliti.

Handtökurnar voru framkvæmdar á vegum „öryggisskrifstofu“ Shijiszhuang, erindrekum frá skrifstofu trúmála og lögreglumönnum á 9 lögreglubílum.
Jia biskup hafði verið aðvaraður um að hann mætti ekki standa fyrir trúarlegum athöfnum. Hinir handteknu prestar eru: Séra Wang Dingshan, LI Qiang og Liu Wenyuan frá Gaocheng. Sr. Zhang Qingcai frá Wuji County. Sr. LI Suchuan frá Zhaoxian. Sr. Pei Zhenping frá Luancheng og sr. Yin Zhengsong frá Dingzhou. Prestarnir voru því næst sendir til „öryggisskrifstofa“ viðkomandi sókna.

[1] Ræddi meðal annars mannréttindamál við forseta KínaMorgunblaðið - vefútgáfa. 17.05.2005. http://www.mbl.is
[2] Seven Catholic priests arrested in China.Independend Catholic News. 29. apríl 2005. http://www.indcatholicnews.com

19.05.05

  10:13:35, Skrásetjari: Ragnar Geir Brynjólfsson   , 880 orð  
Flokkur: Stjórnmálarýni

Trúin í eldhúsdagsumræðum Alþingis

Í eldhúsdagsumræðum á Alþingi 10. maí 2005 mæltist Össuri Skarphéðinssyni formanni Samfylkingarinnar svo:

Öldin [20.] varð öld öfga og andstæðna og tækniframfarir voru notaðar jafnt til illverka sem góðverka. Sú öld sem nú er nýhafin má ekki verða eins. En til að svo verði þurfum við alltaf að hafa hugfast að friður, mannréttindi og lýðræði eru ekki fyrirhafnarlaus lífsgæði. Í heiminum eins og við þekkjum hann í dag er margs konar efniviður sem hægt væri að kveikja í óviðráðanlegt ófriðarbál, togstreitu um auðlindir eins og olíu, vatn og loft, ójafnan aðgang að mörkuðum, hryðjuverkastarfsemi öfgahópa, árekstra millum kristinna manna og múslima og síðast en ekki síst vaxandi misskiptingu auðs.

Höfum það hugfast að frelsi og friður koma ekki af sjálfu sér. Forustumenn þjóða heims, almannasamtök og einstaklingar þurfa að leggja alla áherslu á að ágreiningur og deilur séu leystar í samstarfi innan vébanda alþjóðlegra samtaka eins og Sameinuðu þjóðanna en ekki á vígvellinum með vopnavaldi. [1]

Ýmsum gæti virst að hér hafi formaðurinn hitt naglann á höfuðið því daginn eftir að ræðan var flutt bárust fréttir af uppþoti í Afganistan vegna meintrar óvirðingar við Kóraninn í Guantanamo fangabúðunum. [2-3] Hæpið er samt að málið sé svo einfalt. Hafa ber í huga að atvikið olli ekki heimsuppþoti múslima heldur staðbundnum uppþotum hjá þeim sem líta má á að hafi mesta samkennd með föngunum. Áminningar Össurar um að friður, mannréttindi og lýðræði fáist ekki án fyrirhafnar eru samt alltaf tímabærar og aldrei úreltar. Sem betur fer þá geta eflaust flestir landsmenn tekið undir aðvaranir hans gegn öfgum og öfgamönnum. En það að talað sé sérstaklega um „árekstra millum kristinna manna og múslima“ „sem hægt væri að kveikja í óviðráðanlegt ófriðarbál“ getur orkað tvímælis í ræðu hjá stjórnmálaforingja. Vissulega eru til dæmi um ofsatrúarleiðtoga sem hafa leitt söfnuði sína út í óhæfuverk. Hitt er samt mun algengara, sérstaklega þegar um kristni og islam er að ræða að öfgamenn eða tækifærissinnar notfæri sér trúarbrögðin til að ná fram pólitískum markmiðum sínum, til að ná fram samkennd með stórum hópi fólks og til að laða ungt fólk til liðs við sig og öfgastefnur sínar. Sjaldan eða aldrei berast fréttir af því að leiðtogi þessa eða hins öfgahópsins hafi sprengt sig í loft upp sem mætti þó búast við ef þeir tryðu eigin útleggingum á trúnni. Þó trúarbrögð fari víða með stórt hlutverk í mótun menningar, samskipta og sjálfsmyndar manna og þjóða þá er hæpið að álíta þau ein og sér efni í ófriðarbál. Það er miklu frekar sívaxandi misskipting, eins og Össur bendir réttilega á sem vekur deilur, en ekki endilega bara auðs. Hugsanlega má líta svo á að skortur í víðum skilningi og þess vegna líka skortur á sjálfsmynd geti haft þessi skaðvænlegu áhrif.

Í þessu sambandi er vert að minna á að múslimar sjálfir hafa gengið hart fram í að uppræta öfgahópa sem kenna sig við islam.[4] Á sama hátt má benda á að það eru kristnir menn sem eru vonandi við það að ná að binda enda á ofbeldi öfgahópa sem allt of oft eru kenndir við kristin trúfélög á Norður Írlandi. Minna má á að áhrif trúarleiðtoga eru andlegs eðlis en ekki veraldlegs en það eru oftast veraldleg deilumál sem verða uppspretta átaka. Deilan á Norður-Írlandi snýst t.d. ekki um spurninguna um réttlætingu fyrir trú eða vígsluröð biskupa eins og ætla mætti ef sú deila væri háð á trúarlegum forsendum, heldur um sjálfstæði Norður-Írlands og stjórnmálatengsl þess við England. Það hlýtur því að vera varhugavert þegar fólk eða deilumál eru flokkuð með tilliti til trúar. Slíkt hrap að ályktun hlýtur að vera öfgamönnum geðþekkt því það staðfestir að þeim hefur orðið nokkuð ágengt í smíði staðalímynda. Fyrir stjórnmálamenn skiptir miklu að þeir láti ekki berast með þeim yfirborðslega straum og noti ekki tvírætt orðalag sem gæti hugsanlega misskilist í þá veru að dilkadráttur með tilliti til trúar sé lykill að skilningi á deilumálum samtímans.

Heimildir:
[1] Almennar stjórnmálaumræður.
Össur Skarphéðinsson. 130. fundur. 2005-05-10. http://www.althingi.is
[2] Fjórir látnir eftir mótmæli vegna frétta af vanvirðingu á Kóraninum í Guantanamo.
Morgunblaðið vefútgáfa. 11.05. 2005. http://www.mbl.is
[3] Bandarísk stjórnvöld vilja að Newsweek bæti fyrir skaðann.
Morgunblaðið vefútgáfa. 17. 05. 2005. http://www.mbl.is
[4] Háttsettur al-Qaedaliði handtekinn í Pakistan.
Morgunblaðið vefútgáfa. 4.05. 2005. http://www.mbl.is

08.05.05

  15:27:00, Skrásetjari: Ragnar Geir Brynjólfsson   , 590 orð  
Flokkur: Fjölmiðlarýni

Var Jóhannes Páll II. páfi valdur að dauða milljóna?

Dagana eftir andlát Jóhannesar Páls II. páfa hinn 2.4.2005 var mikið fjallað um hann í íslenskum fjölmiðlum. Margt af því sem fram kom virtist nokkuð vel unnið en einnig komu fram óvænt viðhorf - og nokkuð samhljóða - þess efnis að hinn nýlátni páfi hafi valdið dauða fjölda fólks með áhrifum sínum. þrátt fyrir nokkra eftirgrennslan hefur ekkert fundist sem rennt gæti stoðum undir þessar fullyrðingar.

Þetta byrjaði að því er næst verður komist í fréttum á Stöð 2 hinn 3. apríl þar sem eftirfarandi orð féllu:

„Hann ... vildi ekki mæla með notkun smokka, þrátt fyrir að það gæti dregið úr útbreiðslu alnæmis, sem fer sem eldur í sinu um þau lönd þar sem kaþólskur siður hefur fest rætur undanfarna áratugi, ekki síst fyrir atbeina Jóhannesar Páls.“ [1]

Í umræðuþættinum „Silfri Egils“ á Stöð 2 10. apríl var svo gengið mun lengra þegar í þáttinn mætti kona sem fullyrti:

„Auðvitað var þetta merkur maður. Hann hafði mikil áhrif. Spurningin er hvort þau áhrif voru að öllu leyti góð. Ég tel að þau hafi ekki verið góð og ja - hreinlega drepið milljónir manna. Því að þessi páfi og kardínálar hans börðust hreinlega gegn notkun smokksins svo dæmi sé tekið. Það var talsmaður alnæmissamtaka sem sagði eftir lát páfa: ,Við gerðum ekki ráð fyrir að þeir færu að mæla með að fólk notaði smokkinn til að koma í veg fyrir smit - en við vorum að vona að þeir berðust ekki gegn því – sú von rættist ekki.' “ [2]

Þessar fullyrðingar eru sérkennilegar því þrátt fyrir talsverða eftirgrennslan hafa engar tölur fundist sem sýna jákvæða fylgni milli hlutfalls kaþólskra og hlutfalls HIV smitaðra á neinum stað eða landsvæði - tölur sem ættu þó að vera auðfundnar sé horft á hvað fullyrðingarnar eru afdráttarlausar.

Þáttastjórnandinn tók gagnrýnislaust við málflutningnum og vitnaði þar að auki í grein eftir breskan dálkahöfund [3] þar sem svipuðum sjónarmiðum var haldið á lofti. Enginn var kvaddur til að halda uppi andmælum þó Einar Oddur Kristjánsson sem þar var mættur hafi gert það drengilega - þó ekki sé hann kaþólskur.

Í skýrslu Unaids [4] um útbreiðslu HIV kemur m.a. fram að í Afríku sunnan Sahara þar sem algengi HIV smits er mest um þessar mundir (64% af heildarfjölda þeirra sem sýktir eru í heiminum) birtist sjúkdómurinn ekki sem eitt heldur ólík vandamál. Mikill vandi er að víða skortir heilbrigðisþjónustu eða efni til að kaupa hana og því er oft ekki vitað hverjir eru sýktir. Sagt er að viðbrögð við sjúkdómnum miðist gjarnan við hugsjónir um heim þar sem allir séu jafnir, frjálsir að því að taka ákvarðanir og geti valið t.d. að vera skírlífir, að vera tryggir lífsförunaut sínum eða að nota verjur að staðaldri. Raunveruleikinn sé að konur mæti ýmsum hættum frekar en karlar. Meira en fjórðungur (28%) kvenna í Suður-Afríku segir að fyrsta kynferðisleg reynsla hafi verið óumbeðin. (Bls. 24.) Hvergi er bent á trúfélag, þjóðflokk, þjóðríki eða leiðtoga sem sökudólg er ábyrgð beri á ástandinu.

Það væri einföldun að fjalla um einstök boð kirkjunnar án þess að horfa á það samhengi sem þau eru sett fram í. Boðum gegn notkun getnaðarvarna er beint til kaþólskra hjóna og hjónin eiga að sýna hvort öðru tryggð. [5, gr. 2370,2380-81] Ógiftu fólki er boðað skírlífi. Ásakanir um að boð Jóhannesar Páls II. páfa hafi valdið dauða milljóna eru samkvæmt framansögðu því ótrúverðugar. Það er áhyggjuefni að fjölmiðill geti gagnrýnislaust orðið farvegur fyrir ásakanir af alvarlegasta tagi, þ.e. að nafngreindir einstaklingar hafi stuðlað að dauða milljóna.

Heimildaskrá:
[1] Fréttir. 3. apríl 2005. http://stod2.visir.is
[2] Silfur Egils. 10. apríl 2005. Umsjón Egill Helgason. http://stod2.visir.is
[3] Not in my name. Polly Toynbee, 8. apríl 2005. The Guardian http://www.guardian.co.uk
[4] AIDS Epidemic Update 2004
Des. 2004. http://www.unaids.org/
[5] Trúfræðslurit kaþólsku kirkjunnar. Óopinber bráðabirgðaútgáfa. Maríukirkja Breiðholti. http://mariu.kirkju.net/trufraedslurit

26.03.05

  09:16:08, Skrásetjari: Ragnar Geir Brynjólfsson   , 987 orð  
Flokkur: Fjölmiðlarýni

Undarlegur fréttaflutningur fréttastofu Sjónvarps (RÚV)

Á föstudaginn langa, 25. mars 2005 birtist frétt í Ríkissjónvarpinu undir fyrirsögninni „11 sjálfboðaliðar krossfestir á Filippseyjum.“ [1]

Mynd af sérvef RÚV sjónvarps.

Sagt er frá því í inngangi fréttarinnar að „þúsundir Filippseyinga og erlendra ferðamanna“ hafi fylgst með því þegar 11 menn létu krossfesta sig og síðan er bætt við „Krossfestingin er hápunktur páskahátíðarinnar í þessu eina kaþólska ríki Asíu“. Því næst koma myndræn brot af sársaukagrettum og handaneglingum og hópi blóðugra manna að berja sig með svipum. Á meðan krossfestum manni er lyft upp les þulur að rómversk-kaþólska kirkjan hafi „lýst yfir andstöðu sinni við þessa blóðugu helgisiði en hefur lítið gert til að koma í veg fyrir þá.“ Að því búnu er sagt frá því að útlendingum sé meinað að láta krossfesta sig í kjölfar hneykslismáls. Síðan kemur: „85% Filippseyinga eru kaþólskir og eru páskarnir þeirra helgasta stund á ári hverju“. Í niðurlagi fréttarinnar eru svo greint frá því að lögregluyfirvöld í Luzon hafi gefið „lögreglumönnum sem höfðu hlaupist undan merkjum“ tækifæri til að bera krossa eða láta krossfesta sig.

Það er ekkert sem bendir til að birting þessarar fréttar sé mistök. Sérstaklega þegar haft er í huga að aðrar fréttir þessari líkar af sömu árvissu viðburðunum eru að ná að hasla sér völl sem alveg jafn fyrirsjáanlegur liður í páskafréttum RÚV sjónvarps og veðurfréttirnar eru dags daglega.

Fullyrðingin um að krossfestingin sé hápunktur páskahátíðarinnar á Filippseyjum stenst ekki. Þetta kemur fljótlega í ljós ef málið er skoðað. Hjá Manila Bulletin Online [heimildir 2 og 3] kemur fram að giskað sé á að áhorfendur hafi verið um 20 þúsund og margir þeirra ferðamenn. Nú ætti fréttamönnum að vera kunnugt um og þeir skilja að það að vera áhorfandi að einhverju atviki er ekki það sama og að vera þátttakandi í því. Flestir rómversk-kaþólskir Filippseyingar, en þeir skipta tugum milljóna, halda upp á páskahátíðina með því að taka þátt í helgisiðum kirkju sinnar. Það er hápunktur páskahátíðarinnar hjá flestum en ekki að taka þátt í krossfestingu né heldur að vera áhorfandi að slíku. Að vísu er hefð fyrir helgigöngum og helgileikjum en krossfestingar tíðkast ekki nema á þessum örfáu stöðum og með þátttöku tiltölulega fárra. Breskur mannfræðingur Nicholas H. Barker hefur rannsakað þetta og geta þeir sem fræðast vilja meira lesið um það hér og á næstu síðum þar á eftir[4].

Biskuparáðstefna kaþólskra biskupa á Filippseyjum hefur farið þess á leit við þetta fólk að það láti ekki krossfesta sig. Ritari ráðstefnunnar Monsignor Hernando Coronel hefur sagt að athafnir þessar gefi ranga mynd af „kaþólskri trú okkar“ og að tilgangur athafnarinnar sem ætti að vera sá að minnast þjáningar og dauða Krists sé sá að draga að ferðamenn og sé ekki einlæg iðrunarathöfn [5 og 6]. Eins og áður segir kom RÚV efnislega inn á þetta atriði en bætti svo við að kirkjan hefði lítið gert til að „koma í veg fyrir“ þetta. Með þessu niðurlagi er gefið í skyn að kirkjan hafi heimild til að stöðva þetta sjónarspil en það er villandi.

Í annan stað er sú ákvörðun að velja eitthvað jafn öfgakennt til að sýna sem dæmi um erlenda trúarathöfn í sjónvarpi allra landsmanna á föstudaginn langa illskiljanleg. Því miður féll Stöð 2 í sömu gryfjuna en sem betur fer ekki alveg eins djúpt [7]. Fréttahaukar RÚV hefðu átt að sjá í gegnum þetta án þess að lesa ábendingu Monsignors Coronels. Tilgangurinn með fjölmiðlafárinu er runninn undan rifjum fjármálamanna og gerður til að hala gull í kassann. Fólkið sem lætur krossfesta sig er greinilega annað hvort ekki fyllilega meðvitað um niðurlægingu sína og trúarinnar og þá athygli sem ábyrgðarlaust athæfi þeirra hefur í för með sér eða þá að þeir þiggja sinn skerf af kökunni í einhverjum skilningi. Af furðukörlum- og kerlingum er alltaf nóg en þeir verða ekki allir að fjölmiðlamat á föstudaginn langa. Þannig hefur klókum eyjarskeggjum tekist að breyta hinum og þessum fréttastofum út um heiminn í auglýsingastofur.

Skylduaðild landsmanna að RÚV gerir að verkum að gera verður ríkari kröfur til þessarar stöðvar en annarra stöðva. Þar á fagmennska og þekking að vera í fyrirrúmi. Hafa ber í huga að hér á landi búa margir Íslendingar sem eru annað hvort upprunnir á Filippseyjum eða afkomendur þeirra. Á stöð eins og RÚV þar sem hlutfallslega litlum hluta tímans er varið í umfjöllun um trúmál á Filippseyjum gefur frétt á borð við þessa ekki einasta skakka mynd af trúarlífi Filippseyinga heldur getur hún í einhverjum tilfellum rennt stoðum undir fordóma á Filippseyingum, á trúarbrögðum almennt og þá kannski rómversk-kaþólskum trúarbrögðum frekar en öðrum. Flestir rómversk-kaþólskir eða meðlimir hverra trúarbragða og lífsskoðana sem er eru venjulegt fólk, ekki öfgamenn né furðumenni. Þetta fólk verðskuldar hlutlausa og óbjagaða umfjöllun um staðreyndir og atburði sem snerta það.

Heimildir:
[1] Fréttir. RÚV - Sjónvarp. 26. mars 2005. http://www.ruv.is
[2] The Manila Bulletin Online. 26. mars 2005. http://www.mb.com.ph
[3] The Manila Bulletin Online. 26. mars 2005. http://www.mb.com.ph
[4] The Revival of Religious Self-Flagellation
in Lowland Christian Philippines.
Nicholas H. Barker.
[5] Ananova World news.
[6] Catholic News. 26. mars 2002. http://www.cathtelecom.com
[7] Fréttir. Stöð 2. 26. mars 2005. http://stod2.visir.is

1 ... 2 3 4 5 6 7 ...8 ...9 10 11 13