Blaðsíður: 1 ... 2 3 4 5 6 7 ...8 ...9 10 12 13

31.10.06

  20:26:59, Skrásetjari: Ragnar Geir Brynjólfsson   , 175 orð  
Flokkur: Erlendar fréttir úr heimi kirkjunnar

Meðlimur bresku konungsfjölskyldunnar gengur í hjónaband í Páfagarði

Næsta laugardag mun Nicholas Windsor lávarður, sonur hertogahjónanna af Kent ganga í hjónaband í Páfagarði. Windsor lávarður sem er einna minnst þekkti meðlimur konungsfjölskyldunnar mun kvænast króatískri hefðarkonu fæddri í Bretlandi: Donna Paola Doimi de Frankopan. Lávarðurinn verður fyrsti meðlimur bresku konungsfjölskyldunnar sem gengur í hjónaband í Páfagarði. Hann er líka fyrstur meðlima konungsfjölskyldunnar að giftast í rómversk-kaþólskum sið frá siðaskiptum.

Read more »

18.10.06

  20:47:17, Skrásetjari: Ragnar Geir Brynjólfsson   , 78 orð  
Flokkur: Kaþólska kirkjan á Íslandi

„Ljósið kemur langt og mjótt“ - Fyrirlestur í Landakoti

Í októberhefti Kaþólska kirkjublaðsins er greint frá því að mánudaginn 23. október nk. kl. 20.00 heldur Auður Ólafsdóttir, listfræðingur og lektor við HÍ, fyrirlestur í safnaðarsal Kristskirkju í Landakoti (Hávallagötu 16). Ber hann heitið „Ljósið kemur langt og mjótt“ - Trúarleg táknfræði ljóss og skugga í steinkirkjum miðalda. Aðgangur er ókeypis og er öllum heimill meðan húsrúm leyfir.

RGB/Kaþ.kirkjubl. nr. 10, okt. 2006 bls. 24

08.10.06

  11:30:29, Skrásetjari: Ragnar Geir Brynjólfsson   , 591 orð  
Flokkur: Fjölmiðlarýni

Almannaútvarpinu á að dreifa

Þorsteinn Pálsson skrifaði leiðara í Fréttablaðið síðasta föstudag þar sem hann fjallaði um nýlegt Ríkisútvarpsfrumvarp [1]. Þar segir hann m.a.:

Ríkisútvarpið verður að stærstum hluta í samkeppnisrekstri við einkarekin fjölmiðlafyrirtæki á sviði almannaþjónustu. Engin skynsamleg rök eru þar af leiðandi fyrir því að undanskilja handhafa hlutabréfs ríkisins frá almennum kröfum um dreifð eignarráð að fjölmiðlafyrirtækjum.

Hér hittir Þorsteinn naglann á höfuðið. Hið opinbera á að dreifa aðild sinni að almannaútvarpi og styrkja dugmikla einstaklinga sem hafa meiri vilja og metnað til að standa við útvarpslög en núverandi Ríkisútvarp.

Read more »

21.09.06

  21:41:23, Skrásetjari: Ragnar Geir Brynjólfsson   , 105 orð  
Flokkur: Erlendar fréttir úr heimi kirkjunnar

Þrír kaþólskir menn teknir af lífi í Indónesíu

Palu (AsiaNews). Þær fréttir voru að berast frá Indónesíu að þrír kaþólskir menn sem voru dæmdir til dauða fyrir þátttöku þeirra í uppþoti árið 2000 hafi verið teknir af lífi. Ýmsir mannréttindahópar, þeirra á meðal Amnesty International höfðu unnið í máli mannanna. Mennirnir höfðu óskað eftir því að fá að meðtaka sakramentin fyrir aftökuna en því var synjað.

Heimildir:
http://www.asianews.it/view.php?l=en&art=7280
http://www.asianews.it/view.php?l=en&art=6988
http://www.asianews.it/view.php?l=en&art=7279

17.09.06

  22:54:06, Skrásetjari: Ragnar Geir Brynjólfsson   , 235 orð  
Flokkur: Pílagrimsferðir, Kaþólska kirkjan á Íslandi

20. krossgangan að krossinum í Riftúni

Í dag, sunnudaginn 17. september var gengin hin árlega krossganga að krossinum í Riftúni í Ölfusi. Ganga þessi er gengin sem næst krossmessu á hausti. Krossgöngurnar hófust árið 1986 en þá var gengið alla leið frá Landakotskirkju í Riftún. Einhverju sinni var gengið frá hinum gömlu Þrengslavegamótum um Þrengsli og a.m.k. einu sinni frá vegamótum í Ölfusi þar sem komið er niður úr Þrengslum. Hin síðustu ár hefur verið gengið frá vegamótum Suðurlandsvegar við Hveragerði þar sem nú er komið hringtorg. Þetta er um eins til eins og hálfs tíma ganga.

Read more »

10.09.06

  21:50:39, Skrásetjari: Ragnar Geir Brynjólfsson   , 974 orð  
Flokkur: Þjóðfélagsrýni

Hin óþrjótandi virðing

Í fórum mínum er bók sem ég fékk fyrir líklega um 35 árum í barnaskóla. Hún heitir Skólaljóð og er gefin út af Ríkisútgáfu námsbóka. Bók þessi er í blárri kápu, Kristján J. Gunnarsson valdi kvæðin og Halldór Pétursson teiknaði myndirnar. Prensmiðjan Edda prentaði en ártal vantar. Fyrst skálda í þessari bók er Hallgrímur Pétursson og fyrsta vísa bókarinnar er hin fyrsta í Heilræðavísum skáldsins og hljóðar svona:

Read more »

03.09.06

  12:02:07, Skrásetjari: Ragnar Geir Brynjólfsson   , 511 orð  
Flokkur: Þjóðfélagsrýni

Valkostir kvenna: Ofurkona eða hvað?

Heiðrún Bergsdóttir afgreiðslukona skrifaði athyglisverðan pistil í Fréttablaðið 30. ágúst sl. Þar lýsir hún nýrri tegund af íslenskum konum: Ofurkonunni. Konum sem:

.. eru óaðfinnanlega klæddar eftir nýjustu tísku, eru í fullu námi með vinnu, eru algerar súpermömmur, elda eins og bestu listakokkar, vilja vera á topp tíu lista yfir kynþokkafyllstu konur landsins, hafa heimili sem eru óaðfinnanlega hrein og svona mætti lengi telja. ... Og þegar maður lítur á þetta blákalt þá sé ég ekki betur en að þetta séu konur að kúga sig sjálfar. Í stað kúgunar sem kom upprunalega frá samfélaginu þá kemur kúgunin í staðinn innan frá konunum sjálfum.[1]

Read more »

25.08.06

  21:22:05, Skrásetjari: Ragnar Geir Brynjólfsson   , 314 orð  
Flokkur: Fjölmiðlarýni

RÚV - Sjónvarp fer yfir velsæmismörkin

Undanfarið hefur það verið venja Ríkissjónvarpsins að láta fyrstu bíómynd föstudagskvölds vera fjölskyldumynd af einhverju tagi, gjarnan Disneymynd. Þetta hefur átt nokkrum vinsældum að fagna hjá yngri kynslóðinni, þ.e. börnum á aldrinum 8-12 ára sem hafa sest fyrir framan skjáinn með foreldrum sínum. Núna í kvöld var föstudagsmyndin dönsk mynd frá 1997 „Þú átt leik, elskan“ (Skat det er din tur). Myndin er auglýst í dagskránni sem „dönsk gamanmynd.“ Skemmst er frá því að segja að þegar skammt var liðið á myndina birtust óvænt keleríis- og netktarsenur sem vægt til orða tekið voru alls óviðeigandi til áhorfs fyrir þennan aldurshóp.

Read more »

03.08.06

  11:05:36, Skrásetjari: Ragnar Geir Brynjólfsson   , 701 orð  
Flokkur: Fjölmiðlarýni

Dagar náðar og hvíldar

Í fróðlegum pistli í Fréttablaðinu í dag: „Vinnan er guðs dýrð: Taka tvö“ segir Þorvaldur Gylfason m.a: Sumum finnst vinnan vera guðs dýrð: því meiri vinna, þeim mun betra.“ Líkast til er þetta rétt hjá Þorvaldi en varla er hægt að tala um að þetta viðhorf einkenni kristnina sem heild. Ekki má gleyma að það eru kristir söfnuðir sem kalla á að sérstakir helgidagar séu haldnir heilagir sem dagar náðar og hvíldar. Minna má á þriðja boðorðið: „Minnstu þess að halda hvíldardaginn heilagan.“ Í þessu sambandi má benda á sunnudagana, páska eða jól.

Read more »

01.08.06

  12:53:59, Skrásetjari: Ragnar Geir Brynjólfsson   , 365 orð  
Flokkur: Fjölmiðlarýni, Trúarleg tónlist og textar

Metnaðarfullt framtak Sigur Rósar á tónlistarsviðinu

Tónleikar hljómsveitarinnar Sigur Rósar á Miklatúni í fyrrakvöld voru sannarlega metnaðarfullir og tónlistin áheyrileg. Ennfremur er þakkarvert það framtak tónlistarfólksins að selja ekki aðgang að tónleikunum. Sú ákvörðun myndar verðugt mótvægi við þann heim neyslu og eyðslu sem svo mikið ber á í samtíma okkar.

Read more »

18.07.06

  16:52:45, Skrásetjari: Ragnar Geir Brynjólfsson   , 144 orð  
Flokkur: Kaþólska kirkjan á Íslandi

Merki krossins 1. hefti 2006 komið út

Fyrsta hefti af tímaritinu „Merki krossins“ árið 2006 er komið út. Meðal efnis er viðtal við Jóhannes Pál II. páfa: „Einhver stýrði kúlunni..“, grein eftir Kára Bjarnason „Ljómur herra Jóns Arasonar biskups?“ og grein eftir Edward Booth O.P.: „María mey frá Guadalupe: Vísindalegt mat á mynd hennar“.

Read more »

17.07.06

  17:29:59, Skrásetjari: Ragnar Geir Brynjólfsson   , 109 orð  
Flokkur: Kaþólska kirkjan á Íslandi

Hátíðahöld í tilefni stofnunar hinna fornu biskupsdæma

Í tilefni þess að 950 ár eru liðin frá stofnun Skálholtsbiskupsdæmis og 900 ár frá stofnun Hólabiskupsdæmis mun kaþólski biskupinn í Reykjavík Jóhannes Gijsen lesa kaþólska messu í Skálholtskirkju föstudaginn 21. júlí nk. Messan hefst kl. 18.

Read more »

16.07.06

  18:39:42, Skrásetjari: Ragnar Geir Brynjólfsson   , 236 orð  
Flokkur: Kaþólska kirkjan á Íslandi, Trúarleg tónlist og textar

Voces Thules fær þakkir frá páfa

Í júlí-ágúst tölublaði Kaþólska kirkjublaðsins var sagt frá nýútkomnum diski Voces Thules en sönghópurinn gaf Þorlákstíðir út í vor ásamt handritinu og texta og skýringum á bók. „Hér er um að ræða heildarútgáfu allra söngtexta sem kirkjan flytur á hátíð Þorláks helga Þórhallssonar, sjötta Skálholtsbiskupsins (1133-1193) og verndardýrlings Íslendinga“ segir í blaðinu.

Read more »

06.07.06

  19:01:48, Skrásetjari: Ragnar Geir Brynjólfsson   , 795 orð  
Flokkur: Þjóðfélagsrýni

Í fjötrum fortíðar

Flestir þekkja lagið ‘Living in the past’ með Jethro Tull. Þar kemur fyrir snilldarleg flautuflétta svo unun er á að hlýða. En heiti lagsins vísar til minnis sem kemur fyrir aftur og aftur í bókmenntum og listum. Þessu minni bregður líka fyrir í samfélagslegum viðhorfum og lífi einstaklinga. Í júní 2006 átti ég þess kost að dveljast í útjaðri Róanóke bæjar í Virginiu í Bandaríkjunum. Eins og kunnugt er var Virginia í flokki með Suðurríkjunum. Uppgjafarsáttmáli stríðsins var undirritaður nokkru fyrir norðan þennan bæ og gröf Robert E. Lee hershöfðingja og hetju Suðurríkjanna er í Lexington skammt þar fyrir sunnan. Nokkrum sinnum bar það við að appelsínugulum pallbíl var ekið snöfurmannlega framhjá húsinu þar sem ég bjó.

Read more »

04.07.06

  10:30:56, Skrásetjari: Ragnar Geir Brynjólfsson   , 253 orð  
Flokkur: Helgir menn, Pílagrimsferðir, Opinberanir

Theodokos helgistaðurinn í Perrelos Carcar

Á síðari hluta síðustu aldar, líklega í byrjun 9. áratugarins gerðist sá atburður í Perrelos barangay í Carcar [1] á Cebu eyju í Filippseyjum að maður nokkur, líklega bóndi kvaðst hafa séð fyrirbæri á sól og Guðsmóðurina. Engar heimildir hef ég um afstöðu kirkjunnar til yfirlýsinga bóndans en heimild hef ég fyrir því að pílagrímsferðir eru farnar til staðarins þar sem sýnin á að hafa sést.

Read more »

03.07.06

  09:35:26, Skrásetjari: Ragnar Geir Brynjólfsson   , 145 orð  
Flokkur: Erlendar fréttir úr heimi kirkjunnar

Dauðarefsingu hafnað á Filippseyjum

Filippseyska þingið hefur hafnað dauðarefsingu og Arroyo forseti undirritaði lög þess efnis 25. júní sl. Í tilefni þess var haldin kaþólsk hátíðarmessa. Meðal þátttakenda voru þingmenn sem unnið höfðu gegn dauðarefsingunni. Biskupinn í Pasig leiddi messuna og sagði m.a.: „Þjóðin er að færa sig frá réttlæti sem drepur yfir í réttlæti sem græðir. Aðeins Guð hefur réttinn til að taka líf.“ Biskupinn minnti einnig á ástandið í fangelsum landsins.

Um 1200 manns biðu fullnustu dauðarefsingar í landinu, þar á meðal 11 hryðjuverkamenn sem tengdust al-Quaeda. Dómum þeirra var breytt í lífstíðardóma. Nokkrar aftökur fóru fram á Filippseyjum á árunum 1999-2000 en þeim var frestað vegna þrýstings frá kaþólsku kirkjunni og Evrópusambandinu.

RGB/Heimild: Ensk vefútgáfa Asianews.it. http://www.asianews.it

30.06.06

  18:00:36, Skrásetjari: Ragnar Geir Brynjólfsson   , 592 orð  
Flokkur: Erlendar fréttir úr heimi kirkjunnar

Andi sannleikans mun leiða yður

Á hvítasunnudaginn 4. júní sl. átti ég þess kost að vera viðstaddur messu í St. Andrews kirkjunni í Roanoke í Virginiu. Vefsetur kirkjunnar ásamt upplýsingum um hana má finna á vefslóðinni http://www.standrewsroanoke.org/. Byggingin er úr hlöðnum steini með tveim turnspírum. Birtan berst inn gegnum fagurlega skreytta glugga með myndum úr biblíunni. Kirkjugestir sitja á löngum trébekkjum sem hver um sig er líkast til á lengd við tvo eða þrjá bekki Landakotskirkju. Messan fór fram á ensku en það vakti athygli mína að þegar kom að fyrirbænum þá voru þær lesnar á ensku, spænsku og vítenömsku. Bænasvörin voru svo líka sungin á þessum tungumálum. Þetta tók ekki langan tíma en hefur örugglega snert strengi í brjóstum þess fólks sem á þessar tungur að móðurmáli. Predikunin var stutt en hnitmiðuð.

Read more »

27.06.06

  14:37:03, Skrásetjari: Ragnar Geir Brynjólfsson   , 427 orð  
Flokkur: Þjóðfélagsrýni

Hrapað að vissu - endað í skyssu

Í ómerktri forystugrein Morgunblaðsins þriðjudaginn 27. júní 2006 er reifuð sú niðurstaða könnunar sem Financial Times lét gera í fimm Evrópulöndum að 36% fólks í þessum ríkjum lítur svo á að heimsfriðnum stafi meiri hætta af „Bandaríkjunum heldur en bæði Kína og Íran. Leiðarahöfundurinn ókunni segir eftirfarandi:

„Líklegast er þó að upplifun fólks í áðurnefndum Evrópuríkjum byggist ekki fyrst og fremst á Íraksstríðinu heldur allt öðru: með sama hætti og almenningur í Evrópu lítur svo á að ofstækisfullir klerkar ráði ríkjum í Íran má telja líklegt að ofangreint mat á Bush-stjórninni byggist á þeirri tilfinningu, að trúarofstækismenn í Bandaríkjunum hafi of mikil áhrif og völd í Hvíta húsinu.“

Read more »

26.05.06

  09:41:19, Skrásetjari: Ragnar Geir Brynjólfsson   , 228 orð  
Flokkur: Erlendar fréttir úr heimi kirkjunnar

Stjörnufræðingur Páfagarðs segir sköpunarhyggjuna vera hjátrú

GLASGOW - 24. maí 2006 Independent Catholic News
Sú trú að Guð hafi skapað alheiminn á sex dögum er hjátrú og eins konar heiðni sem varpar rýrð á trú og ógnar vísindum, segir bróðir Guy Consolmagno jesúíti. Hann sagði að „eyðandi goðsögn“ hefði náð að myndast í þjóðfélögum nútímans um að trú og vísindi væru andstæð hugmyndakerfi. Sköpunarhyggjan sem ýtti undir þetta væri að áliti fræðimanna útúrsnúningur á biblíulegum textum.

Read more »

17.05.06

  18:25:03, Skrásetjari: Ragnar Geir Brynjólfsson   , 362 orð  
Flokkur: Dulhyggja, Forvarnir

Fjölkynngi ber að fordæma

Kaþólska kirkjan andmælir spásagnaspeki, fjölkynngi og særingum kröftuglega eins og fram kemur í Trúfræðsluritinu en þar segir svo um þessi mál:

2115. Guð getur opinberað framtíðina spámönnum sínum eða öðrum heilögum. Engu að síður er rétt kristilegt viðhorf fólgið í því að gefa sig óttalaust forsjá Guðs á vald um allt er varðar framtíðina og hætta allri óheilbrigðri forvitni varðandi hana. Hins vegar getur fyrirhyggjuleysi jafngilt ábyrgðarleysi. [1]

Read more »

11.05.06

  21:38:39, Skrásetjari: Ragnar Geir Brynjólfsson   , 249 orð  
Flokkur: Forvarnir

Klám er alvarleg synd

Yfirvöld eiga að koma í veg fyrir framleiðslu og dreifingu kláms

Í nýlegri könnun sem Barnaverndarstofa og Rannsóknir & greining kynntu 6. maí sl. kom m.a. fram að:

..ástæða [væri] til að hafa áhyggjur af mikilli klámneyslu drengja á framhaldsskólaaldri, en fram kemur að um 37% þeirra horfðu á klámefni oftar en þrisvar sinnum í viku. Könnunin gefur vísbendingar að þessi notkun á klámi geti haft afgerandi áhrif á viðhorf ungmenna til heilbrigðs kynlís.[1]

Read more »

07.05.06

  09:51:15, Skrásetjari: Ragnar Geir Brynjólfsson   , 131 orð  
Flokkur: Þjóðfélagsrýni, Forvarnir

Vændi er félagsleg plága

„Vændi skaðar reisn þeirra sem það stunda og dregur þá niður á það stig að vera verkfæri kynferðislegrar nautnar. Sá sem greiðir, syndgar alvarlega á móti sjálfum sér: Hann vanhelgar hreinlífið sem skírnin skuldbindur hann til að virða og hann saurgar líkama sinn, musteri Heilags Anda. [140] Vændi er félagsleg plága. Venjulega snertir það konur en einnig karla, börn og unglinga (í síðustu tveimur tilfellunum verður syndin meiri við það að hún felur í sér hneyksli). Enda þótt það sé ávallt alvarleg synd að stunda vændi getur fátækt, fjárkúgun eða félagslegur þrýstingur minnkað sök syndarinnar.“ [1]

[1] Trúfræðslurit Kaþólsku kirkjunnar. Grein 2355. http://mariu.kirkju.net. [Tengill]

06.05.06

  15:39:47, Skrásetjari: Ragnar Geir Brynjólfsson   , 787 orð  
Flokkur: Helgir menn

Hvernig menn voru postularnir?

Val Jesú á lærisveinum hefur sjálfsagt oft verið mönnum nokkurt umhugsunarefni. Sem sína nánustu samstarfsmenn velur hann fiskimenn og tollheimtumann. Oft kemur fyrir að þeir skilja ekki hvað hann segir og stundum eru samræðurnar og vangavelturnar allt að því skoplegar eins og þegar Jesú hafði spáð fyrir um upprisu sína og þeir fóru að velta vöngum yfir því hvað það væri að rísa upp frá dauðum, - lái þeim það þó enginn.

Read more »

01.05.06

  07:34:10, Skrásetjari: Ragnar Geir Brynjólfsson   , 181 orð  
Flokkur: Erlendar fréttir úr heimi kirkjunnar

Filippseyskir biskupar skrifa vefbækur

Nokkrir fillippseyskir biskupar halda úti vefbókum þar sem þeir færa inn hugleiðingar sínar. Mgr. Jose R. Manguiran, biskup í Dipolong heldur úti vefritinu „The Meaning“, „Viewpoints“ er dagbók mgr. Oscar V. Cruz, erkibiskups í Lingayen-Dagupan. „Tidbits“ heitir svo vefbók mgr. Leonardo Medroso, biskups í Borongan. Vefsíðu biskuparáðs Filippseyja má finna á vefslóðinni http://www.cbcponline.net/, en á þeirri síðu má m.a. finna hugleiðingar forseta ráðsins Angel N. Lagdameo erkibiskups í Jaro. Hann er einnig með vefbók á slóðinni http://abplagdameo.blogspot.com/. Fleiri biskupar eru einnig með vefbækur. Þar má nefna erkibiskupinn Orlando B. Quevedo, O.M.I. á vefslóðinni http://abpquevedo.blogspot.com/. Á slóðinni http://archbishopcapalla.blogspot.com/ má svo finna vefbók Capalla erkibiskups.

Read more »

17.04.06

  10:42:10, Skrásetjari: Ragnar Geir Brynjólfsson   , 525 orð  
Flokkur: Dymbilvika og páskar

Páskarnir eru hátíð gleðinnar

Jóhannes biskup Gijsen skrifaði grein í Kaþólska kirkjublaðið sem kom út fyrir páskana 2006 sem bar heitið „Páskar: Hátíð gleðinnar“. Þar sagði hann m.a.

Á páskadag óskum við hvert öðru gleðilegra páska. Hvað merkir það? Páll postuli segir: „Fyrst þér því eruð uppvaktir með Kristi, þá keppist eftir því, sem er hið efra, þar sem Kristur situr við hægri hönd Guðs. Hugsið um það, sem er hið efra, en ekki um það, sem á jörðinni er. Því að þér eruð dánir og líf yðar er fólgið með Kristi í Guði“ (Kól. 3, 1-3). [1]

Í predikun sinni í páskavökunni aðfaranótt 16. apríl 2006 gerði Benedikt páfi XVI. andlega hugleiðingu Páls postula úr Galatabréfinu að þungamiðju máls síns: „Sjálfur lifi ég ekki framar, heldur lifir Kristur í mér.“ (Gal. 2.20) og sagði m.a:

Read more »

14.04.06

  12:10:20, Skrásetjari: Ragnar Geir Brynjólfsson   , 2278 orð  
Flokkur: Dymbilvika og páskar

Via Dolorosa - leið hins kristna manns

Á föstunni og í dymbilviku er forn hefð kaþólsku kirknanna að biðja bæn sem nefnd hefur verið Krossferill Krists. Á föstudaginn langa er þessi bæn hluti af helgiathöfnum dagsins. Í bæninni er minnst atvika sem urðu á leið Krists þar sem hann gekk með krossinn frá dómstól Pílatusar til Golgatahæðar og þar sem líkami hans var borinn til grafarinnar. Sú leið er nefnd Via Dolorosa á latínu eða Sorgarvegur.[1] Bænin inniheldur 14 erindi sem kallast viðstöður, því þegar bænin er beðin í kirkju er gengið um kirkjuna og staðnæmst við 14 myndir af atburðum úr píslarsögunni, en þessar myndir er að finna í kaþólskum kirkjum eða kapellum. Venjan er að biðja stuttan inngang og síðan viðstöðurnar 14 og loks stutt lokaerindi. Bænirnar eru ekki staðlaðar og eru því til margar útgáfur af krossferlum. Gjarnan mætti fara með erindi úr íslenskum helgikvæðum við þessi tækifæri. Hér á eftir eru þessar 14 viðstöður taldar upp ásamt stuttum inngangshugleiðingum við sumar viðstöðurnar og vísunum eða tilvitnunum í ýmis helgikvæði íslensk.

Read more »

13.04.06

  17:13:24, Skrásetjari: Ragnar Geir Brynjólfsson   , 746 orð  
Flokkur: Þjóðfélagsrýni

Þegar komið er af fjöllum - hugleiðing um RÚV - Sjónvarp

Steingrímur J. Sigfússon formaður Vinstri-grænna skrifaði grein í Morgunblaðið þriðjudaginn 11. apríl 2006 undir heitinu „Ríkisstjórn spillir friði í eigin landi.“ og vék hann í greininni að Ríkisútvarpinu og sagði m.a.:

Tilgangur með rekstri Ríkisútvarpsins er ekki að græða peninga heldur að sinna almannaþjónustuhlutverki. Að vera kjölfesta í vandaðri og hlutlægri fjölmiðlun, tryggja fjölbreytni, viðhalda öflugri innlendri dagskrárgerð, halda utan um og miðla menningararfi þjóðarinnar, rækta tunguna, sinna öryggis- og almannavarnarskyldum, tengja þjóðina saman, sem sagt sinna verkefnum sem fjölmiðlum í einkaeigu er hvorki skylt né endilega hagstætt að sinna með sama hætti, það er hlutverk almannaútvarps. Til þess er Ríkisútvarpið í samtímanum og gildi þess hefur síst minnkað...
...[Sjálfstæðis]flokkurinn [hefur] hvorki siðferðilegt né pólitískt leyfi til þess að rjúfa grið um Ríkisútvarpið. Þaðan af síður Framsóknarflokkurinn, sem þóttist ætla að standa um það vörð sem slíkt eða sem sjálfseignarstofnun.[1]

Við þau atriði sem Steingrímur nefnir hér má gera ýmsar athugasemdir. Varðandi miðlun menningararfsins, og Steingrímur lítur vonandi á kristnina sem hluta af þeim arfi þá verður að segja að metnaðarleysi Sjónvarpsins til miðlunar hins kristna menningararfs er átakanlegt. Í dagskrá yfirstandandi páska sést ekkert - ekkert í allri dagskrá skírdags, föstudagsins langa, pákskadags eða annars í páskum sem gefur til kynna að í þessu landi búi kristin þjóð. Ef mér hefur yfirsést eitthvað hér þá bið ég um leiðréttingu. Þetta sem hér er sagt gildir þó ekki um RÚV Rás 1, hljóðvarpið. Þar er enn bæði metnaður og menning í fyrirrúmi og er Rás 1 því sá hluti sem eigulegastur er fyrir þjóðina. Bæði er dagskráin vönduð og fréttamennskan fagmannleg.

Read more »

12.04.06

  23:31:44, Skrásetjari: Ragnar Geir Brynjólfsson   , 251 orð  
Flokkur: Þjóðfélagsrýni, Þjóðfélagskenningin

„Í kjarnorkustríði eru engir sigurvegarar, aðeins fórnarlömb“

Edinborg, 11. apríl 2006. Vefsetrið Indcatholicnews.co.uk greindi frá því að átta biskupar kaþólskra á Skotlandi hafi komið saman í síðustu viku til að ræða Trident kjarnavopnakerfið. Í lok fundarins gáfu þeir út yfirlýsingu þar sem sagði m.a.: „Biskupar Skotlands fagna orðum forsætisráðherrans um að Trident kjarnorkuflaugakerfið eigi að ræða til fulls. Kaþólska kirkjan hefur skýra og eindregna stefnu hvað varðar kjarnavopn. Notkun gereyðingarvopna væri glæpur gegn Guði og mannkyni og þeim má aldrei beita. Kirkjan kennir að ekki megi nota gereyðingarvopn í stríði [1]. Á sama hátt er geymsla og uppsöfnun slíkra vopna siðferðilega vafasöm. [2]“

Í samþykkt Skotlandsbiskupa frá 1982 kom fram að auk þess væri siðlaust að hóta beitingu slíkra vopna. Í janúar á þessu ári sagði Benedikt páfi XVI: „Í kjarnorkustríði eru engir sigurvegarar, aðeins fórnarlömb.“ Auk þess að endurtaka fyrri áskoranir og taka undir orð páfa hvöttu biskuparnir ríkisstjórn Bretlands til að leggja ekki í endurnýjun á Trident kerfinu og setja af stað ferli sem miði að því að leggja niður þessi vopn, með það endanlega markmið að verja því fjármagni sem annars væri varið væri til kjarnorkuvopna til hjálpar- og þróunarstarfs.

[1] Annnað Vatíkanþingið, Gaudium et Spes 80 og Trúfræðslurit kaþólsku kirkjunnar, grein 2314
[2] Trúfræðslurit kaþólsku kirkjunnar 2315

RGB/Heimild: http://www.indcatholicnews.co.uk

03.04.06

  20:17:17, Skrásetjari: Ragnar Geir Brynjólfsson   , 1490 orð  
Flokkur: Þjóðfélagsrýni, Önnur trúarbrögð

Viðhorf íslam til trúskiptinga

Eftirfarandi viðtal tók Bernardo Cervellera við prófessor Francesco Zannini fyrir fréttavefinn Asianews.it. Viðtalið er þýtt og birt hér með leyfi Asianews.it.

27 mars, 2006 Asianews.it
Boð um að taka trúskiptinga af lífi er ekki að finna í Kóraninum heldur er um að ræða sterka skoðun margra
eftir Bernardo Cervellera.

Guðfræðingar harðlínumanna hafa komið þeirri skoðun að hjá fólki að trúskipti grafi undan einingu ummah, hins múslímska samfélags. En prófessor Francesco Zannini sem kennir við stofnun Páfagarðs sem rannsakar arabísku og íslam segir að málefnið sé umdeilt meðal múslima.

Hið nýlega mál Abdul Rahman, kristins trúskiptings frá íslam sem hótað var dauðarefsingu hefur opnað að nýju umræðuna um að krefjast dauðarefsingar fyrir trúskipti í löndum múslima. Francesco Zannini, prófessor í nútímaíslam við Stofnun Páfagarðs um arabísk og íslömsk fræði (PISAI) segir að dauðarefsingar sé ekki krafist í Kóraninum, jafnvel þó fólk leggi trú á það. Ljóst er þó að harðlínumennirnir kynda undir í þessu máli og ríkisstjórnir múslima reyna að styggja þá ekki.

Read more »

24.03.06

  22:08:12, Skrásetjari: Ragnar Geir Brynjólfsson   , 624 orð  
Flokkur: Skírnin

Kenningin um Limbó kvödd

Róm, 24 jan. 2006 (Zenit.org).-
Jóhannes Páll II. páfi fór þess á leit árið 2004 að guðfræðileg staða óskírðra látinna barna yrði skýrð. Séra Cantalamessa prestur í Páfagarði skrifaði:

„Sumir hafa haft samband við mig vegna skrifa minna um að sálir óskírða barna endi ekki í Limbó heldur fari til himna. Jesús stofnaði sakramentin sem sérstaka náðarfarvegi. Venjulega eru þau nauðsynleg og fólk sem getur meðtekið þau en vill það ekki þarf að svara fyrir þessa afstöðu gagnvart Guði. En Guð takmarkaði sig ekki við þau. Jafnvel um Altarissakramentið sagði Jesús: „Ef þér etið ekki hold Mannssonarins og drekkið blóð hans, hafið þér ekki lífið í yður.“ (Jh. 6:35), en þetta þýðir ekki að allir þeir sem hafa aldrei meðtekið sakramentið séu glataðir.

Þráð en óframkvæmd skírn sem og hátíð hinna heilögu sakleysingja staðfesta þetta. Í Matteusarguðspjalli segir Jesús líka „Sannlega segi ég yður, það allt, sem þér gjörðuð einum minna minnstu bræðra, það hafið þér gjört mér.“ (Mt. 25,40). Kenningin um Limbó hefur aldrei verið skilgreind sem kennisetning kirkjunnar. Hún var guðfræðileg tilgáta sem að mestu hvíldi á kenningu hl. Ágústínusar um erfðasyndina en var hafnað sem boðun fyrir löngu og guðfræði nútímans hafnar henni.

Read more »

21.03.06

  22:33:18, Skrásetjari: Ragnar Geir Brynjólfsson   , 290 orð  
Flokkur: Þjóðfélagsrýni

Á aldrei að kasta perlum fyrir svín?

Í Matteusarguðspjalli kafla 7. versi 6 stendur skrifað:

Gefið ekki hundum það sem heilagt er, og kastið eigi perlum yðar fyrir svín. Þau mundu troða þær undir fótum, og þeir snúa sér við og rífa yður í sig.

Síðar í sama guðspjalli er svipuð eða sama hugsun færð í orð í frásögninni af kanversku konunni (Mt. 15, 21-28):

Þaðan hélt Jesús til byggða Týrusar og Sídonar. Þá kom kona nokkur kanversk úr þeim héruðum og kallaði: "Miskunna þú mér, herra, sonur Davíðs! Dóttir mín er mjög kvalin af illum anda." En hann svaraði henni engu orði. Lærisveinar hans komu þá og báðu hann: "Láttu hana fara, hún eltir oss með hrópum." Hann mælti: "Ég er ekki sendur nema til týndra sauða af Ísraelsætt." Konan kom, laut honum og sagði: "Herra, hjálpa þú mér!" Hann svaraði: "Ekki sæmir að taka brauð barnanna og kasta því fyrir hundana." Hún sagði: "Satt er það, herra, þó eta hundarnir mola þá, sem falla af borðum húsbænda þeirra." [Leturbr. RGB]
Þá mælti Jesús við hana: "Kona, mikil er trú þín. Verði þér sem þú vilt." Og dóttir hennar varð heil frá þeirri stundu.

Fleiri dæmi mætti tína til þar sem hann sýnir hinum auðmýktu og útskúfuðu sérstaka náð. Svo virðist sem um ákveðna þróun sé að ræða frá fyrstu tilvitnuninni. Líklega mun enginn kasta perlum fyrir svín í eiginlegri merkingu en þegar andleg verðmæti eru annars vegar má greinilega gera undantekningar.

RGB

24.02.06

  22:03:37, Skrásetjari: Ragnar Geir Brynjólfsson   , 273 orð  
Flokkur: Tilbeiðsla, Trúarleg tónlist og textar

Gunnar Þórðarson semur messutónlist

Morgunblaðið greindi frá því 23. febrúar síðastliðinn að hinn landsþekkti tónlistarmaður Gunnar Þórðarson hefði samið nýtt tónverk sem hann nefnir Brynjólfsmessu, í tilefni af 400 ára afmæli Brynjólfs Sveinssonar biskups í Skálholti. Brynjólfsmessan verður frumflutt Í Keflavíkurkirkju 25. mars. Flytjendur eru 25 manna hljómsveit, 100 manna kór, 50 manna barnakór auk söngvaranna Sigrúnar Hjálmtýsdóttur og Jóhanns Friðgeirs Valdimarssonar. Verkið verður svo flutt aftur 26. mars í Skálholtskirkju og 29. mars í Grafarvogskirkju og tekur verkið um 50 mínútur í flutningi.

Read more »

23.02.06

  22:11:29, Skrásetjari: Ragnar Geir Brynjólfsson   , 214 orð  
Flokkur: Trúarleg tónlist og textar

Lög Megasar við Passíusálmana flutt í Hallgrímskirkju

Morgunblaðið greindi frá því 22. febrúar sl. að lög Megasar við Passíusálmana yrðu flutt í Hallgrímskirkju laugardag fyrir föstubyrjun. Það er lagasmiðurinn og meistarinn sjálfur sem flytur lögin með aðstoð barnakórs og hljóðfæraleikara. Fluttir verða sjö sálmar auk nokkurra veraldlega texta. Í samtali við blaðamann Mbl. sagði Megas m.a:

"Fólk á mínum aldri vandist á það að heyra Passíusálmana lesna. Það mátti ekki slökkva á útvarpinu meðan á lestrinum stóð, og ýmis helgi yfir lestri þeirra [...] Ég hef líka alltaf haft gaman af eldri skáldskap, finnst hann skondinn og hugsanir sniðuglega orðaðar.[1]"

Óskandi er að upptökumenn Ríkisútvarpsins missi nú ekki af þessum einstæða viðburði og nái að festa hann á filmu svo þeir landsmenn sem utan höfuðborgarsvæðisins búa og ekki eiga heimangengt fái að njóta hans líka. Þarna væri komið ágætt sjónvarpsefni til að sýna í sjónvarpi allra landsmanna eitthvert kvöldið í dymbilvikunni, t.d. á föstudaginn langa.

RGB/Heimild
[1] "Það gengur allt oní Drottin allsherjar". Viðtal Bergþóru Jónsdóttur við Megas. Morgunblaðið, miðvikudagur 22. febrúar 2006. Bls. 25.

12.02.06

  11:18:41, Skrásetjari: Ragnar Geir Brynjólfsson   , 680 orð  
Flokkur: Þjóðfélagsrýni

Um tjáningarfrelsið og guðlastsákvæðin

Una Margrét Jónsdóttir ritar grein í Morgunblaðið 11. febr. um tjáningarfrelsið og sagði m.a:

"En það að forsvarsmenn danskra múslima skyldu krefjast þess að blaðamönnunum væri refsað og að forsætisráðherra landsins bæðist afsökunar á einhverju sem stóð í frjálsu og óháðu dagblaði, það bendir því miður til þess að þeir hafi ekki skilið grundvallarlög þess lands sem þeir höfðu valið að búa í."

Nú vill svo til að í dönsku hegningarlögunum, nánar tiltekið grein 140 í 15. kafla sem fjallar um brot gegn friði segir:

15. kapitel
Forbrydelser mod den offentlige orden og fred [..]
§ 140. Den, der offentlig driver spot med eller forhåner noget her i landet lovligt bestående religionssamfunds troslærdomme eller gudsdyrkelse, straffes med bøde eller fængsel indtil 4 måneder.
LBK nr 909 af 27/09/2005
http://www.retsinfo.dk/

Það sem danskir múslimar hafa kannski ekki skilið er af hverju ekki mætti beita þessari lagagrein? Þeir hafa kannski fengið þá mynd að það væru í reynd tvenn lög í landinu? Ein fyrir Dani, þau sem væru skrifuð og önnur fyrir múslima - þau sem væru óskrifuð?

Read more »

11.02.06

  22:33:18, Skrásetjari: Ragnar Geir Brynjólfsson   , 936 orð  
Flokkur: Kaþólska kirkjan á Íslandi, Sakramentin, Hjónabandssakramentið

Hvað er kaþólskt hjónaband?

Hjörtur Magni Jóhannsson forstöðumaður og prestur Fríkirkjunnar í Reykjavík ritaði grein í Morgunblaðið [1] um réttindamál samkynhneigðra föstud. 10. febr. sl. Í röksemdafærslu vék forstöðumaðurinn að kaþólsku hjónabandi í umfjöllun sinni um grein Steinunnar B. Jóhannsdóttur (Mbl. 21.01. 2006) og sagði:

"Hér er hörfað langt aftur fyrir lúterska siðbreytingu og í faðm kaþólsku miðaldarkirkjunnar í leit að rökum og réttlætingu. Samkvæmt þeirri skilgreiningu er hjónabandið sakramenti kirkjustofnunarinnar, helgað þeim eina megintilgangi að fjölga mannkyni. Þannig er eini tilgangur kynlífs einnig sá að viðhalda mannkyni með því að búa til börn. Lútherskur skilningur á hjónabandi er allt annar.

Lúter breytti rétt

Marteinn Lúter afnam sakramentisskilning hjónabandsins. Hann losaði það undan drottnunarvaldi kirkjustofnunarinnar. Hann krafðist frelsis hins kristna manns undan þeirri þröngsýnu kirkjustjórn sem setti sjálfa sig og kristindómstúlkun sína ofar Guði [..] Þess vegna er hjónaband samkvæmt evengelísk-lúterskum skilningi fyrst og fremst kærleikssáttmáli gerður af tveim jafnréttháum og jafnupplýstum einstaklingum."

Svo gæti virst við lestur þessara setninga sem kaþólska miðaldakirkjan hafi verið býsna villuráfandi hvað varðar hjónabandið. Í þeim heimildum sem kaþólska kirkjan á Íslandi hefur gefið út finnst þó ekkert sem bendir til að skilningur kaþólsku miðaldakirkjunnar hvað hjónabandið varðar hafi í meginatriðum verið annar en hann var aldirnar á undan, né heldur en hann er í dag þó svo að hjónavígsla hafi ekki verði staðfest sem sakramenti fyrr en á 12. öld.

Read more »

1 ... 2 3 4 5 6 7 ...8 ...9 10 12 13