Blaðsíður: 1 2 3 4 5 ...6 ...7 8 9 10 11 12 ... 13 >>
Hafnarfjörður (kirkju.net) - Hinn 11. desember síðastliðinn gáfu sex nýir meðlimir loforð til inngöngu í leikmannareglu Karmels við hátíðlega athöfn í Karmelklaustrinu í Hafnarfirði. Á myndinni eru þau frá vinstri Sigurður Stefán Helgason, Guðmundur Már Sigurðsson, Hildur Sigurbjörnsdóttir, Jónas Sen, Ragnar Geir Brynjólfsson og Ágúst Elvar Almy. Loforðið er hið fyrra af tveimur sem gefa þarf til inngöngu í regluna.
Regludeildin hérlendis sem ber heitið „Regla Karmels hinnar heilögu Maríu meyjar frá Karmelfjalli“ var formlega stofnuð hinn 13. apríl 2019 í athöfn sem fólst í því að umsækjendurnir veittu viðtöku helgiklæði sem kallast „brúna skapúlarið“ auk þess að fá regluheiti að eigin vali. Hópurinn hafði þá hist reglulega undir leiðsögn systur Agnesar, Karmelnunnu í Hafnarfirði um árabil og naut hann þeirrar leiðsagnar einnig við undirbúning athafnarinnar sem hér er sagt frá.
Karmelmunkurinn og presturinn Faðir Robert M. Marciniak OCD hinn ytri tengiliður regludeildarinnar við höfuðstöðvar reglunnar í Róm leiddi athöfnina sem fór fram í heilagri messu. Einnig var viðstaddur Karmelmunkurinn Faðir Jan Piotr Malicki OCD umdæmisstjóri leikmannareglunnar í Varsjá. Karmelnunnurnar í klaustrinu fluttu tónlist og aðstoðuðu á margvíslegan hátt. Þær höfðu til dæmis útbúið hvítar skikkjur sem meðlimir leikmannareglunnar klæddust í athöfninni sem fór þannig fram að hver og einn þeirra las upp loforð um að halda í heiðri fátækt, skírlífi og hlýðni sem og sæluboðorð Fjallræðunnar. Loforðið var síðan undirritað á altarinu.
Elstu reglur Karmelreglunnar sem er íhugunar- og fyrirbænaregla voru settar snemma á 13. öld af hinum heilaga Albert patríarka af Jerúsalem fyrir einsetumunka sem höfðu komið sér fyrir á Karmelfjalli í Palestínu. Síðar á 13. öld settust munkarnir að í hinni kristnu Evrópu, einkum á Spáni. Á 16. öld stofnaði hl. Teresa frá Avíla með aðstoð hl. Jóhannesar af Krossi þá grein reglunnar sem nefnist „hin berfætta“ eða „óskóaða“. Á latínu er heiti hennar: Ordo Carmelitarum Discalceatorum; skammst.: OCD. Klaustrið í Hafnarfirði tilheyrir þeirri grein og er hún eina kaþólska klausturreglan fyrir bæði kyn sem stofnuð er af konu.
Skammstöfunin OCDS vísar til leikmannareglunnar þannig að bókstafurinn S stendur fyrir latneska orðið „Saeculum“ sem þýðir „af heiminum“. Á íslensku hefur orðið „leikmenn“ verið notað um þetta hugtak og vísar það til óvígðra karla og kvenna enda er loforð leikmannareglunnar ekki heiti eða vígsla í sama skilningi og klausturheiti og prestvígsla þó það sé af sama meiði. Hið ytra líf meðlima leikmannareglunnar er því eins og hjá almennum borgurum, þeir geta stofnað og átt fjölskyldu en regluloforðið felur í sér dýpkun á andlegum skuldbindingum eins og þeim sem felast í sakramentunum.
Auk þess að biðja tíðabænir og íhuga daglega hver um sig hittast meðlimir regludeildarinnar einu sinni í mánuði í Karmelklaustrinu, biðja tíðabænir saman og lesa rit af andlegum toga. Fólk utan reglunnar sem áhugasamt er um andleg málefni getur verið með í tíðabænum reglunnar og reglufundum og er félagsaðild að reglunni eða kaþólsk trú ekki skilyrði fyrir þátttöku. Þau sem áhugasöm eru um leikmannaregluna og vilja fá meiri upplýsingar um hana geta haft samband við undirritaðan.
Ragnar Geir Brynjólfsson
Ísl. þýðing dr. Gígja Gísladóttir.
Á föstudaginn langa er hefð fyrir því að biðja bænir hinnar heilögu krossgöngu sem gjarnan eru nefndar Krossferilsbænir eða Krossferill Krists. Bænunum er skipt í 14 kafla eða viðstöður þar sem við hverja viðstöðu er minnst viðburðar úr píslargöngu Krists og dauða hans á krossinum. Í kaþólskum kirkjum er komið fyrir 14 myndum af viðburðunum. Bænin fer þannig fram að prestur leiðir bænina, gengur um kirkjuna og staðnæmist við myndirnar og fer með viðeigandi bænir.
Erindin í þessari fallegu 14. aldar bæn gegn farsótt eru úr jólapredikun hl. Peter Damascene sem var biskup í Damaskus á 8. öld. Samkvæmt frásögn var texti bænarinnar fluttur af heilögum Bartólómeusi þegar hann vitraðist nunnum af Reglu hl. Klöru í Coimbra í Portúgal þegar borgin var þjökuð af plágunni 1317.
Frá Coimbra breiddist bænin út til Vesturlanda. Venjulega er bænin sungin með andstefjum og bænum til hl. Roch og hl. Sebastíans sem helst er leitað til á tímum farsótta.
Á YouTube myndskeiðinu hér að framan má sjá nunnurnar úr klaustri Maríu meyjar af Aysen syngja erindið eins og þær gera dag hvern á eftir messu og ákalla sérstaklega miskunn Guðs og huggun hins flekklausa hjarta Maríu til handa þeim sem þjást.
Heimild: http://www.infocatolica.com/blog/schola.php/2003271051-suplica-a-la-estrella-del-cie
Á netinu eru margir möguleikar fyrir fólk í samkomubanni sem kýs að eiga heilaga og guðrækilega stund á heimilum sínum. Upptökur af messum Frans páfa má finna á eftirfarandi vefslóð:
https://www.vaticannews.va/en/pope-francis/mass-casa-santa-marta.pagelist.html
Á eftirfarandi vefslóð er bein útsending bandarísku sjónvarpsstöðvarinnar EWTN (Eternal Word Television Network):
https://www.ewtn.com/tv/watch-live
Sjónvarpsupptökur af daglegum messum úr kapellu Roberts Barron biskups er að finna hér:
https://www.wordonfire.org/daily-mass/
Hlaðvörp Vatíkanútvarpsins (hljóðupptökur) má finna á eftirfarandi slóð. Þar eru t.d. fréttir Vatíkanútvarpsins sem enda á yfirliti yfir predikun páfa þann daginn:
Algengur misskilningur er að talnaband sé hálsfesti með krossi, skartgripur eða skraut fyrir baksýnisspegla bifreiða en það er ekki svo. Talnaband er notað við helgiathöfn og það þarf ekki að vera úr dýru efni. 'Rósakransinn' eins og bæði helgiathöfnin og bænafestin er nefnd - er samt nokkuð vel þekkt hjá þeim sem dvalið hafa meðal kaþólskra.
Latneska orðið 'Rosarium' þýðir rósagarður, rósavöndur eða krans af rósum. Talnabandið fékk þetta nafn undir lok 15. aldar. Rósakransinn byggir á hugleiðingu valinna biblíutexta og því ættu allir sem játa kristna trú að geta lagt stund á bænina.
Asia Bibi kristin pakistönsk kona sem sýknuð var af guðlastsákæru í heimalandinu hefur sótt um pólistískt hæli í Frakklandi. Hún var dæmd til hengingar fyrir guðlast árið 2010 og sat í fangelsi en hæstiréttur Pakistan tók mál hennar upp og sýknaði hana í janúar 2019. Hún flúði frá Pakistan í fyrra og fékk tímabundið hæli í Kanada. Í síðasta mánuði sat hún fyrir á mynd ásamt franska blaðamanninum Anne-Isabelle Tollet ævisöguritara sínum og baráttumanni fyrir frelsi hennar. AsiaNews greinir frá þessu: [Tengill]
14. febrúar sl. sendi Goh Seng Chye erkibiskup í Singapore frá sér hirðisbréf þar sem hann tilkynnti að allt messuhald yrði lagt niður um óákveðinn tíma til að hefta útbreiðslu Covid-19 veikinnar. Erkibiskupsdæmið sendir út messu daglega á YouTube og í útvarpi. AsiaNews greinir frá þessu hér: [Tengill]
Biskupinn í Nanyang, msgr. Zhu Baoyu er elsti sjúklingurinn sem nær sér af kórónaveirunni. Hinn 98 ára gamli sálnahirðir veiktist 3. febrúar síðastliðinn af Covid-19 lungnabólgu. Hann losnaði við veiruna 12. febrúar og læknaðist af lungnasýkingunni 14. febrúar síðastliðinn. AsiaNews greinir frá þessu hér: [Tengill]
Sum nútíma snjallúr innihalda smáforrit sem minna fólk á að slaka á í erli dagsins og gera róandi öndunaræfingar. Í þessu sambandi má minna á að sambærilegar öndunaræfingar í trúarlegum tilgangi eru vel þekktar í hinni kristnu trúarhefð.
Jón Rafn Jóhannsson sem lést á árinu 2018, meðlimur í leikmannareglu Karmels, landmælingamaður, kortagerðarmaður og mikilvirkur þýðandi rita af trúarlegum toga skrifaði til dæmis árið 2006:
„Mig langar að segja ykkur frá ákalli til hins Alhelga hjarta Jesú sem ávallt er unnt að grípa til í erli dagsins og þegar illar hugsanir og freistingar sækja á okkur. Það er svona:
Alhelga hjarta Jesú, miskunn!
Þegar við öndum að okkur segjum við: Alhelga hjarta Jesú. Síðan nemum við staðar í hjartanu nokkur andartök, og segjum síðan með útönduninni: Miskunn! Þannig streymir miskunn hans yfir líkama okkar, sál og anda. Þetta hefur gefist mér, bersyndugum manninum, afar vel. Öll verðum við iðulega að kjósa á milli góðs og ills á pílagrímsgöngu okkar á jörðinni. Slík áköll hjálpa okkur til að ganga Veg lífs og hlýðni boðorða Drottins."
Sjá pistil Jóns í heild sinni hér: [Tengill].
Vefsíðan globalsistersreport.org sem gefin er út í Kansas greinir frá því að Karmelsystur í Hafnarfirði hyggist gefa út tvo geisladiska á árinu með aðstoð Jónasar Sen. í viðtali sem blaðamaður vefsíðunnar á við systur Miriam karmelnunnu í Hafnarfirði og Jónas Sen kemur fram að Jónas hefur samið 33 lög við ljóð spænska dýrlingsins og karmelmunksins hl. Jóhannesar af Krossi og einnig við ljóð franska dýrlingsins og karmelnunnunnar hl. Therese af Jesúbarninu, oft kenndri við heimabæ sinn Lisieux. Jónas kemur með tillögur að útsetningum fyrir hljóðfærin sem systurnar nota en þau eru aðallega hljómborð, fiðla, gítarar, mandólín, flauta, sópranblokkflauta, xylófónn auk fleiri. „Ég kem með tillögur að útsetningum en útfærslan er verk systranna" segir Jónas. „Þeim virðist falla lögin vel í geð og þær eru afar hvetjandi. Þakklæti þeirra hvetur mig til að semja meira. Söngur þeirra er einkar fallegur og söngurinn gefur messunum hátíðarblæ. " Tónlistarsamstarf systranna og Jónasar hefur haft góð áhrif á gesti sem koma til klaustrins segir systir Miriam í viðtalinu sem sjá má í heild sinni hér [Tengill].
Mig langar að minnast vinar míns Jóns Vals Jenssonar sem lést 5. janúar á 71. aldursári. Útför hans fór fram frá Kristskirkju í Landakoti í gær 16. janúar og í dag 17. janúar 2020 var hann jarðsettur í Gufuneskirkjugarði.
Leiðir okkar lágu saman fyrir rúmum 30 árum í starfi kirkjunnar, við páfakomuna og í ritnefnd kirkjublaðsins. Við héldum vinskap okkar áfram á blogginu á kirkju.net og blog.is og síðar í málefnastarfi Kristilegra stjórnmálasamtaka sem hann stofnaði.
Jón var léttur í lund, það var stutt í brosið og spaugið. Hann var vel lesinn, fróður og hafði gott minni og frásagnargáfu. Það var því tilhlökkunarefni að hitta hann. Hann var fljótur að koma auga á röksemdir og sjónarhorn og hafði afar gott vald á rituðu máli. Textarýni hans var einstök.
Ó himneski Jesú, þú kenndir okkur að biðja til Drottins uppskerunnar til að senda verkafólk til uppskerunnar.
Veittu kirkjunni í þessu biskupsdæmi og um allan heim, marga heilaga presta og nunnur.
Samkvæmt [vilja] þínum megi þau gefa hæfileika sína, krafta, kapp og kærleika til vegsemdar föður þínum, til þjónustu við aðra og sáluhjálpar.
Ef það mun þóknast þér að velja einhvern úr okkar fjölskyldu til að verða prestar eða nunnur, þá munum við þakka þér af öllu hjarta okkar, núna og ætíð. Amen.
Bæn kirkjunnar fyrir köllunum, af lausu blaði. RGB.
Lát ekkert trufla þig,
ekkert hræða þig;
allt er hverfult,
en Guð er ávallt óumbreytanlegur;
þrautseig þolinmæði nær hverju og einu marki;
þeim sem á Guð er í engu ávant;
Guð einn er nóg.
Úr trúfræðsluriti Kk: 1. hluti: Trúarjátningin. https://mariu.kirkju.net/trufraedslurit/198.html
Í dag er Gaudete Sunnudagur eða „gleði sunnudagur“ vegna þess að gleði er þema messunar í dag. Verið glaðir vegna þess að Jesús kemur til okkar!
Jesús er sonur Guðs. En meira en það, Jesús er Guð Sonurinn - önnur persóna hinnar heilögu þrenningar - Þess vegna er hann Guð! Jesús Kristur er guðleg persóna, ekki mannleg persóna. Jesús er guðleg persóna með tvö eðli: Guðlegt eðli og mannlegt eðli.
Um jól, eins og hirðarnir í Betlehem, megum við einnig, með undrun, horfa á barnið Jesú, son Guðs. Í návist hans megi bæn okkar vera: "Sýn þú oss, Drottinn, miskunn þína, og veit oss hjálpræði þitt."
Árið 2015 bauð Frans páfi öllum viðstöddum í heilagri messu aðfangardagskvöld í Pétursbasilíku í Rómaborg, að taka Jesúbarnið í arma sína. Frans páfi sagði: "Ef við látum Jesúbarnið umfaðma okkur, mun hann kenna okkur hvað það er sem er sannarlega nauðsynlegt í lífi okkar. Hann fæddist í fátækt þessum heimi. Það var ekkert pláss í gistihúsi fyrir hann og fjölskyldu hans. Hann fann skjól og stuðning í fjárhúsi og var lagður í jötu sem var ætluð dýrum. En samt úr þessum tómleika, skein dýrðarljós Guðs. Héðan í frá, er leið endurlausnar opin fyrir hverjum manni og konu sem er einfaldur í hjarta sér. Þetta barn kennir okkur, eins og Hl. Páll segir, "að afneita óguðleik og veraldlegum girndum og lifa hóglátlega, réttvíslega og guðrækilega í heimi þessum" (Tit 2:12).
"Þetta barn kallar okkur til að gera hluti í hófi með því að hafna neysluhyggju og nautnahyggju, auð og óhóflegri eyðslusemi og sjálfsdýrkun. Með öðrum orðum, að lifa á þann hátt sem er einfaldur og í jafnvægi, sem gerir fært að sjá og gera það sem er nauðsynlegt."
Munið að ílát sem hefur verið fyllt með pipar hefur ekki pláss fyrir salt. Ef líf mitt er fullt af dóti verður ekkert pláss fyrir Guð. Hvað vil ég Guð mikið í lífi mínu? 10%, 50%, 100%? Aðeins Guð gefur okkur sanna gleði.
Gefum okkur frábæra jólagjöf, með því að uppgötva á nýjan leik fjársjóðinn sem Jesús býður okkur með lífi sínu, kennslu og sakramenti - einkum Altarissakramenti og skriftasakramenti.
Sem hluti af tíðabænum kaþólsku kirkjunnar nánar tiltekið í náttsöng föstudaga er Davíðssálmur 88 lesinn. Undirtitill sálmsins í tíðabæninni er „Bæn fársjúks manns“. Á eftir er tilvitnun í orð Jesú í Lúkasarguðspjalli 22,53 við æðstu prestana, öldungana og varðforingja helgidómsins þegar þeir komu til að taka hann höndum í grasgarðinum : „En þetta er ykkar tími, nú ræður máttur myrkranna.“ Sálmurinn er svohljóðandi:
Andstef: Drottinn, Guð hjálpræðis míns, ég hrópa til þín um daga, um nætur er ég frammi fyrir þér.
Drottinn, Guð hjálpræðis míns,
ég hrópa til þín um daga,
um nætur er ég frammi fyrir þér,
lát bæn mína koma fyrir þig,
hneig eyra þitt að kveini mínu.
Kristnir íbúar Sýrlands líða enn „miklar og víðtækar þjáningar,“ segir sendiherra páfa í landinu. Mario Zenari kardínáli greinir frá því að þótt átök hafi rénað nokkuð í nágrenni Damaskus þá sé enn hart barist í öðrum hlutum landsins „Augljóst er,“ segir hann, „að Sýrland hefur þjáðst um árabil sakir „staðgöngustríðs“ milli áhrifavalda á svæðinu og á heimsvísu.“ Zenari kardínáli sagði enn fremur að ávallt væri „erfitt að meta tölfræðileg gögn,“ en bestu fáanlegar tölur sýni þó að „nærri helmingur“ kristinna manna í Sýrlandi hefur flúið land. Hann sagði að fleiri en tveir þriðju hlutar kristinna fjölskyldna hafi flúið frá Aleppo, en gögn þaðan eru sögð tiltölulega áreiðanleg. Flóttamenn frá Sýrlandi eru „yfir 5 milljónir talsins,“ sagði hann, og af þeim hefði ein milljón haldið til Evrópu.
Kardínálinn sagði að kristnir menn um allan heim ættu að sjá sýrlenskum bræðrum sínum fyrir „tvöfaldri aðstoð“ – veita efnislega hjálp, og stuðning með bænum sínum. Þess skal getið að hér á landi eru nokkrir kristnir sýrlenskir flóttamenn. Hægt er að heyra einn þeirra syngja „Gloría“ á sinni tungu á Facebook-hópnum „Áhugamenn um kaþólska trú.“
Frétt úr Kaþólska kirkjublaðinu, 27. árg. 8.-9. tbl. bls. 10
Egypska lögreglan handtók [um miðjan apríl] þrettán manns sem áformuðu að gera árásir á kristna menn og opinberar stofnanir í landinu. Handtökurnar voru ekki síst mikilvægar með tilliti til þess að Frans páfi heimsótti Egyptaland í lok aprílmánaðar. Samkvæmt hjálparsamtökunum „Aid to the Church in Need“ leiddu handtökurnar í ljós „hvernig þessar öfgahópar halda áfram að beina spjótum sínum að hinu kristna samfélagi eftir árásirnar sem gerðar voru á kirkjurnar í Tanta og Alexandríu á pálmasunnudag.“ Samtökin „Íslamska ríkið“ lýsti árásunum, sem áttu sér stað þann 9. apríl, á hendur sér. Í þeim létu fjörutíu og fjórir kristnir menn lífið og fleiri en hundrað slösuðust. Í kjölfar tilræðanna hafa yfirvöld gripið til aukinna öryggisráðstafanna fyrir utan kirkjur landsins.
RGB. Úr Kaþólska kirkjublaðinu 27.árg. • 5.-7. tbl. • maí-júlí 2017. bls. 11
Fimmtudaginn, 6. apríl 2017 skipaði Frans páfi James Patrick Green erkibiskup, nafnbiskup af Altinum, nýjan sendiherra páfa í Svíþjóð og á Íslandi. Gert er ráð fyrir að hann verði skipaður sendiherra páfa á hinum Norðurlöndunum innan tíðar. Green erkibiskup fæddist þann 30. maí 1950 í Fíladelfíu í Pennsylvaníu, Bandaríkjunum. Hann lærði til prests og tók prestvígslu í erkibiskupsdæminu í Fíladelfíu þann 15. maí 1976. Á fyrstu árunum sem hann vann fyrir utanríkisþjónustu Páfagarðs starfaði hann í Papúa Nýju-Gíneu, Kóreu, Hollandi, Spáni og á skrifstofu sendiherra páfa á Norðurlöndum (í Kaupmanna höfn). Hann dvaldi síðan eitt ár í Taívan sem staðgengill sendiherra áður en hann var fl uttur til
Rómar í lok ársins 2002.
Ferill James Patrick Green í biskupsembætti.
Benedikt XVI páfi skipaði Green nafnbiskup af Altinum þann 17. ágúst 2006 og sama dag var hann skipaður sendiherra páfa í Suður-Afríku og Namibíu og fulltrúi páfa í Botswana. Hann var vígður biskup þann 6. september 2006 af utanríkisráðherra Páfagarðs, Angelo Sodano kardínála. Sama dag var hann skipaður fulltrúi páfa í Lesotho. Þann 23. september 2006 var hann skipaður fulltrúi páfa í Svasílandi. Þann 15. október 2011 var Green erkibiskup skipaður sendiherra páfa í Perú.
Frétt Kaþólska kirkjublaðsins 27.árg • 5.-7. tbl. • maí-júlí 2017. bls. 1
Í lok hádegisbænar sinnar á Péturstorginu sunnudaginn 21. maí 2017 upplýsti Frans páfi um útnefningu fimm nýrra kardínála. Meðal þeirra er Anders Arborelius OCD, Stokkhólmsbiskup. Það er fyrsta tilnefning sænsks kardínála í sögu Norðurlanda. Hinir kardínálarnir eru Jean Zerbo, erkibiskup í Bamako, Malí; Juan José Omella, erkibiskup í Barcelona, Spáni; Luis Marie-Ling Mangkhanekhoun, postullegur víkar í Pakse, Laos; Gregorio Rosa Chávez, vígslubiskup í erkibiskupsdæminu San Salvador í El Salvador.
Opinber embættistaka fór fram 28. júní og daginn eftir, á stórhátíð postulanna Péturs og Páls, las hinn heilagi faðir messu með hinum nýju félögum í samfélagi kardínálanna. Um 400 Svíar héldu til Rómar til að vera viðstaddir athöfnina, ekki aðeins kaþólskir heldur einnig fulltrúar annarra sænskra trúfélaga.
Í örstuttu samtali við sænska tímaritið Katolskt magasin eftir athöfnina sagðist Arborelius kardínáli vonast til þess að menn sjái að þótt kaþólski minnihlutinn búi í veraldlegu samfélagi þá sé samt hægt að lifa í trú og gleði. Þá telur hann einnig mikilvægt að finna bæði aðferðir og tungutak til að ná til fólks og færa því þann boðskap að trúarbrögðin geti skapað frið og sátt meðal manna. „Kannski verðum við nú einnig áhugaverðari og eftirsóttari, og sjálfsagt fylgjast menn þá líka betur með okkur,“ sagði hinn nýskipaði kardínáli.
Fréttin er stytt og unnin upp úr lengri frétt í Kaþólska kirkjublaðinu 27. árgangi 2017 8.-9. tbl. bls. 10.
Við eigum að byrja mikilvæg verk með bæn og matmálstímana með borðbæn. Einnig í vinnu, skóla eða veitingastað því að byrjun með Guði er góð byrjun. Þetta kemur fram í nýju hirðisbréfi Davíðs biskups sem birtist í ágúst-sept. tölublaði Kaþólska kirkjublaðsins sem hægt er að ná í á eftirfarandi vefslóð [1].
"Það er eitt sem við gleymum stundum og því er nauðsynlegt að við minnum okkur á það enn og aftur. Við þurfum að læra aftur að byrja hvern dag með bæn, því að byrjun með Guði er góð byrjun. Við eigum að byrja matmálstímana með borðbæn og gera það líka opinberlega, svo sem í matsalnum, í skólanum, á veitingastaðnum eða í vinnunni, því að byrjun með Guði er góð byrjun. Alltaf þegar við byrjum mikilvægt verk er nauðsynlegt að við biðjum Guð um hjálp, því að byrjun með Guði er góð byrjun. Allir góðir nemendur vita að áður en þeir taka próf eiga þeir að biðja Heilagan Anda um hjálp, því að byrjun með Guði er góð byrjun. Við öll, sem ökum bifreiðum, vitum að það er bæði gott og gagnlegt að biðja Guð um hjálp og vernd áður en lagt er af stað, því að byrjun með Guði er góð byrjun. Sumir segja kannski: „Við erum ekki vön að gera þetta, þetta er ekki hluti af menningu okkar.“ Það er ekki mikið vandamál, við getum þá bara byrjað á þessu í dag, því að byrjun með Guði er góð byrjun."
Kaþólska kirkjublaðið 27. árg. 8-9 tbl. bls. 1: https://drive.google.com/file/d/0B841NUGcQ8lAS3h4c1ZaY1FiN0QxbDgwaTN6RWxHOGdxS2M4/view
Dagskráin Fréttablað Suðurlands birti mynd á forsíðu 4. maí s.l. tekna af áhugaljósmyndaranum Hinriki Óskarssyni á Selfossi undir fyrirsögninni "Jesúmynd birtist í Ingólfsfjalli". Á myndinni má greinilega sjá útlínur mannsmyndar í fjallinu sem opnar faðminn til suðvesturs en á myndinni sýnist það vera í áttina að kirkjuturninum. Hægt er að sjá blaðið á vef Dagskrárinnar hér:
http://www.dfs.is/vefblod/2395/files/assets/basic-html/index.html#1
Vegna óskar nefndar heilbrigðisráðherra um umsagnir við gildandi löggjöf um lög nr. 25/1975 með tillögum að breytingum og hvatningar til þeirra sem láta sig málið varða um að senda inn ábendingar og athugasemdir.
1) Allt mannlegt líf á rétt til lífs af því að lífið er þegið að gjöf. Enginn maður getur skapað nýtt líf óháð sínu eigin lífi heldur getur hver maður aðeins stuðlað að framlengingu sinnar eigin lífskeðju sem hann er síðasti hlekkurinn í. Það er því ekki í verkahring manna að taka líf - þvert á móti og miklu frekar er það hlutverk okkar og skylda að tryggja tilveru og framgang lífsins.
2) Mannkynið er komið á þann stað sem það er núna vegna hæfileika sinna til samvinnu og samskipta og vegna þeirrar sameiginlegu ákvörðunar að verja lífi sínu í samfélagi og þar með að deila ábyrgð, réttindum og skyldum. Þess vegna eru það hagsmunir samfélagsins og því almennings að vernda tilveru, vöxt og viðgang mannlegs lífs á öllum stigum, allt frá fyrstu tilurð til síðasta andardráttar. Þau rök að lífið sé á einhvern hátt eða einhverjum tímapunkti veikburða eða eigi sér litla möguleika geta ekki gert þennan lífsrétt og þessa lífsverndarskyldu almennings að engu.
Asianews greinir frá því að fjórar systur af reglu Kærleiksboðberanna hafi fallið í árás á hjúkrunarheimili sem þær ráku í Aden í Suður-Jemen. Árásarmennirnir drápu öryggisvörð og fimm aðra starfsmenn heimilisins, skutu síðan fjórar nunnur og rændu presti heimilisins. Systurnar hétu systir Anselm frá Indlandi, systir Marguerite frá Rúanda, systir Judit frá Kenía og systir Reginette líka frá Rúanda. Sendiherra páfagarðs á svæðinu segir að árásin hafi haft trúarlega ástæðu. Frans páfi tjáði djúpa sorg vegna atburðarins og skoraði á vopnaðar fylkingar í Jemen að hafna ofbeldi.
Systur af reglu Kærleiksboðbera hafa starfað hér á Íslandi síðan í árslok 1996. Þær reka eins og kunnugt er matstofu í Ingólfsstræti 12. Undirritaður vottar þeim samúð vegna þessa atburðar.
Nunnurnar sem féllu í Aden. Ljósmynd: Asianews.
Ragnar Geir Brynjólfsson.
Edda Laufey Pálsdóttir í Þorlákshöfn gekk Jakobsveginn árið 2014 og hefur nú hrint í framkvæmd hugmynd um pílagrímagöngu frá Strandarkirkju til Skálholts næsta sumar. Gengið verður 18-22 kílómetra hvern dag, 22. maí, 21. júní, 10. júlí og 24 júlí. Sjá nánar hér: http://www.sunnlenska.is/frettir/18399.html
Öskudagur og föstudagurinn langi eru sérstakir dagar föstu og yfirbótar. Samkvæmt kirkjulögum er rómversk-kaþólsku fólki frá 18 til 60 ára aldurs skylt að fasta á öskudag og föstudaginn langa sem er bindandi föstuboðsdagur. Sjúklingar eru undanþegnir föstu.
Fasta er það þegar aðeins er neytt einnar fullkominnar máltíðar á dag. Þó er ekki bannað að neyta smávegis af fæðu tvisvar að auki.
Allir trúaðir sem náð hafa 14 ára aldri eiga að gera yfirbót alla föstudaga, einkum á lönguföstu. Velja má um eftirtaldar leiðir:
Forðast neyslu kjöts eða annarrar fæðu.
Forðast áfenga drykki, reykingar eða skemmtanir.
Gera sérstakt átak til að biðja:
* Með þátttöku í heilagri messu.
* Með tilbeiðslu hins alhelga altarissakramentis.
* Með þátttöku í krossferilsbænum á föstudögum í lönguföstu.
Fasta algjörlega oftar en skylt er og gefa fé það sem þannig sparast til þeirra sem þess þurfa.
Sýna sérstaka umhyggju þeim sem fátækir eru, sjúkir, aldraðir, farlama eða einmana.
Í Mattheusarguðspjalli 6. kafla eru fyrirmæli Jesú Krists um föstu:
16Þegar þér fastið þá verið ekki döpur í bragði eins og hræsnarar. Þeir afmynda andlit sín svo að engum dyljist að þeir fasta. Sannlega segi ég yður, þeir hafa tekið út laun sín. 17En þegar þú fastar þá smyr höfuð þitt og þvo andlit þitt 18svo að menn verði ekki varir við að þú fastir heldur faðir þinn sem er í leynum. Og faðir þinn, sem sér í leynum, mun umbuna þér.
Á eftirfarandi vefslóð má sjá yfirlit yfir eldri pistla mína um föstuna:
http://www.kirkju.net/index.php/c58/c72/?blog=8
Heimildir:
https://en.wikipedia.org/wiki/Fasting_and_abstinence_in_the_Roman_Catholic_Church
http://www.biblian.is/Biblian/Default.aspx?Book=39&Chap=6
12Íklæðist því eins og Guðs útvalin, heilög og elskuð börn hjartagróinni meðaumkun, góðvild, auðmýkt, hógværð og langlyndi. 13Umberið hvert annað og fyrirgefið hvert öðru ef einhver hefur sök á hendur öðrum. Eins og Drottinn hefur fyrirgefið ykkur, svo skuluð þið og gera. 14En íklæðist yfir allt þetta elskunni sem bindur allt saman og fullkomnar allt.
15Látið frið Krists ríkja í hjörtum ykkar því að Guð kallaði ykkur til að lifa saman í friði sem limi í einum líkama. Verið þakklát.
16Látið orð Krists búa með ykkur í allri sinni auðlegð og speki. Fræðið og áminnið hvert annað og syngið Guði sætlega lof í hjörtum ykkar með sálmum, lofsöngvum og andlegum ljóðum. 17Hvað sem þið segið eða gerið, gerið það allt í nafni Drottins Jesú og þakkið Guði föður með hjálp hans.
Kólossubréfið 3:12-17. Heimild biblian.is
Verið ávallt glöð í Drottni. Ég segi aftur: Verið glöð. 5Ljúflyndi ykkar verði kunnugt öllum mönnum. Drottinn er í nánd. 6Verið ekki hugsjúk um neitt heldur gerið í öllum hlutum óskir ykkar kunnar Guði með bæn og beiðni og þakkargjörð. 7Og friður Guðs, sem er æðri öllum skilningi, mun varðveita hjörtu ykkar og hugsanir ykkar í Kristi Jesú. 8Að endingu, systkin, [2] allt sem er satt, allt sem er göfugt, rétt og hreint, allt sem er elskuvert og gott afspurnar, hvað sem er dygð og hvað sem er lofsvert, hugfestið það. 9Þið skuluð gera þetta, sem þið hafið bæði lært og numið, heyrt og séð til mín. Og Guð friðarins mun vera með ykkur.
Filippíbréfið 4:4-8. Heimild: biblian.is
21Jesús er sannleikurinn og ég veit að þið hafið heyrt um hann og verið frædd um hann: 22Þið eigið að hætta hinni fyrri breytni og afklæðast hinum gamla manni sem er spilltur af tælandi girndum 23en endurnýjast í anda og hugsun og24íklæðast hinum nýja manni sem skapaður er í Guðs mynd og breytir eins og Guð vill og lætur réttlæti og sannleika helga líf sitt.
25Leggið því af lygina og talið sannleika hvert við sinn náunga því að við erum hvert annars limir. 26Ef þið reiðist þá syndgið ekki. Sólin má ekki setjast yfir reiði ykkar. 27Gefið djöflinum ekkert færi. 28Hinn stelvísi hætti að stela en leggi hart að sér og geri það sem gagnlegt er með höndum sínum svo að hann hafi eitthvað að miðla þeim sem þurfandi er. 29Látið ekkert fúkyrði líða ykkur af munni heldur það eitt sem er gott til uppbyggingar, þar sem þörf gerist, til þess að það verði til góðs þeim sem heyra. 30Hryggið ekki Guðs heilaga anda sem þið eruð innsigluð með til endurlausnardagsins. 31Látið hvers konar beiskju, ofsa, reiði, hávaða og lastmæli vera fjarlægt ykkur og alla mannvonsku yfirleitt.32Verið góðviljuð hvert við annað, miskunnsöm, fús til að fyrirgefa hvert öðru eins og Guð hefur í Kristi fyrirgefið ykkur.
Efesusbréfið 4. kafli vers 21-31
Úr Síraksbók: (*) "Heift og reiði eru andstyggð og eru ætíð í föruneyti með illum manni.
Sá sem hefnir sín hlýtur hefnd frá Drottni, er lætur syndir hans allar á honum hrína.
Fyrirgef öðrum mótgerðir, og þá munu þér fyrirgefin brot þín er þú biður.
Menn geyma með sér reiði hver gegn öðrum, en svo ætlast þeir til líknar hjá Drottni! Þeir sýna enga miskunn jafningjum sínum, en beiðast þó vægðar á eigin syndum!
Þeir búa yfir hatri og eru þó aðeins hold. Hver mun biðja þeim vægðar með bænum sínum?
Minnstu endalokanna og láttu af fjandskap, hugðu að dauða og rotnun og vertu stöðugur við boðorðin.
Gættu lögmálsins og hataðu ekki náungann, minnstu sáttmála hins hæsta og taktu vægt á misbrestum. "
Sír. 27:33-28:9
Úr messublaði Kaþólsku kirkjunnar: 24. sunnudagur almennur í kirkjuári. Fyrsti ritningarlestur. Textaröð A. Merkt SV/8/90.
(*) Síraksbók er ein af hinum síð-kanónísku ritum Gamla testamentisins sem Marteinn Lúther tók úr hefðbundinni röð bóka í biblíunni og kom fyrir í viðauka sjá nánar hér.
Nú eru rósakransbænir á íslensku aðgengilegar á YouTube, sjá nánar hér: https://www.youtube.com/channel/UCrBahFcNi36BIukJdlRf53Q
Asianews 25.08.2015.
Asianews greindi nýverið frá því að Makassed, góðgerðasamtök sem tengjast æðstaráði súnni múslima í Líbanon hafi gefið út yfirlýsingu um trúfrelsi 20. júní sl. Í þessari yfirlýsingu, sem kennd er við Beirút, ítreka samtökin vilja frjálslyndra múslima til að búa meðal kristinna. Tekið er fram að engan eigi að þvinga til trúskipta og engan megi ofsækja fyrir að vera annarrar trúar. Samkvæmt túlkun þessa hóps bannar íslam stríð, að hrekja fólk af landi sínu eða takmarka frelsi annarra í nafni trúarinnar.
Yfirlýsingunni er ætlað að skerpa á afstöðu líbanskra múslima gegn ofbeldi sem framið hefur verið í nafni trúar þeirra. Í yfirlýsingunni er grundvelli íslam teflt fram í andstöðu við þá sem halda trúnni í gíslingu í þágu valds.
Texta yfirlýsingarinnar er að finna á eftirfarandi tengli, ensk þýðing AsiaNews: [Tengill].
„Það er vissa, sem eg hef fengið staðfesta bæði af eigin reynd og öllu því, sem eg hef haft tækifæri til þess að athuga og kynnast, að okkur farnist svo bezt í þessu lífi, að við höfum sífellda hliðsjón af dauðanum, möguleika annars lífs og undirbúningi þess. Því fer mjög fjarri, að við með því móti færum okkur þetta líf verr í nýt, verðum dugminni eða hamingjusnauðari. Umhugsunin um annað líf er sjálf eitt af ævintýrum þessarar jarðnesku tilveru, en auk þess er hún bezta vegaljósið til þess að greina á milli sannra og falsaðra gæða lífsins.“
Úr bókinni Líf og dauði eftir Sigurð Nordal. Sex útvarpserindi með eftirmála. Almenna bókafélagið gaf út árið 1966. Bls. 33-34. Útvarpserindin voru flutt 15. febrúar - 17. mars 1940.