Blaðsíður: 1 2 ...3 4 6 7

27.03.06

  22:26:40, Skrásetjari: Sr. Denis O'Leary   , 143 orð  
Flokkur: Dæmisögur og sögur II

Þessi kolamoli fór að kulna

Fyrir nokkrum árum ákvað maður að hann ætlaði ekki framar að fara í messu á sunnudögum. Sú ástæða, sem hann gaf var að hann gæti alveg eins beðist fyrir heima.

En nokkrum vikum seinna, kom sóknarprestur hans í heimsókn á heimili hans. Þeir sátu í setustofunni, þar sem brann eldur á arni. Þeir töluðu um ýmis mál en alls ekki um mikilvægi þess að fara í messu á sunnudögum.

Eftir nokkra stund tók presturinn kolatöngina og tók brennandi kolamola út úr eldinum og setti hann til hliðar. Þessi kolamoli hætti fljótlega að brenna og fór að kulna. En hin kolin héldu áfram að brenna í ljósum logum.

Presturinn sagði ekkert en það gerði maðurinn: "Ég ætla að koma til messu næsta sunnudag", sagði hann.

26.03.06

  19:31:24, Skrásetjari: Sr. Denis O'Leary   , 122 orð  
Flokkur: Dæmisögur og sögur II

Saga um þrjá lærlinga djöfulsins

Hér er saga um þrjá lærlinga djöfulsins sem voru sendir til jarðarinnar til að leiða fólk til heljar. Áður en þeir lögðu af stað, var lagt fyrir þá spurningu um hvaða aðferð þeir mundu nota til að fá fólk til heljar.

• Fyrsti svaraði: "Ég mun fá fólk til þess að trúa að það sé enginn Guð til."

• Annar svaraði: "Ég mun fá fólk til þess að trúa að það sé ekkert helviti."

• Sá þriðji svaraði: "Ég mun fá fólk til þess að trúa því að það þurfi ekki að flytja sér að iðrast.

(Á ensku: No God, no hell, no hurry!)

25.03.06

  09:19:33, Skrásetjari: Sr. Denis O'Leary   , 261 orð  
Flokkur: Dæmisögur og sögur II

Hún var ekki skítug lengur

Eitt sinn var ungur munkur sem átti erfitt með að muna það sem hann las úr Biblíunni. Hann fór því til gamals og viturs munks og sagði honum frá vandamáli sínu. Ungi munkurinn lauk máli sínu með því að segja að kannski væri best að hætta að lesa Biblíuna úr því að hann gleymdi sífellt orðum hennar.

Gamli munkurinn rétti honum gamla og leka könnu sem var skítug að innan.

„Farðu og náðu í vatn í þessa könnu og komdu með það hingað,“ sagði gamli munkurinn.

Ungi munkurinn gerði eins og honum var sagt en eins og gaf auga leið hafði allt vatnið lekið úr könnunni þegar hann kom aftur.

„Fylltu hana á ný,“ sagði gamli munkurinn.

Og ungi munkurinn fyllti hana aftur en allt fór á sömu leið, vatnið lak úr könnunni.

„Fylltu hana á ný,“ sagði gamli munkurinn.

Og ungi munkurinn fyllti könnuna aftur þriðja sinni og enn aftur lak vatnið úr könnunni.

Þá sagði ungi munkurinn: „Áður en þú sendir mig á ný til að ná í meira vatn ættirðu að vita að þessi gamla skítuga kanna lekur.“

Þá brosti gamli munkurinn og sagði: „Gott og vel, líttu í könnuna og segðu mér hvað þú sérð.“

Ungi munkurinn leit í könnuna og sá að hún var ekki skítug lengur.

Þá sagði gamli munkurinn: „Þetta á einnig við um þig, orð Biblíunnar leka stöðugt út en þau hreinsa þig!“

24.03.06

  10:03:28, Skrásetjari: Sr. Denis O'Leary   , 76 orð  
Flokkur: Til umhugsunar

Guð einn er nóg!

Lát þú ekkert trufla þig,
ekkert hræða þig;
allir hlutir eru hverfulir,
en Guð er ávallt óumbreytanlegur;
þrautseig þolinmæði
nær hverju og einu marki;
hann sem á Guð er í engu ávant;
Guð einn er nóg.

Hl. Teresa af Jesú
(Tkk 227)

Nada te turbe;
nada te espante;
todo se pasa;
Dios no se muda,
la paciencia
todo lo alcanza.
Quien a Dios tiene,
nada le falta.
Solo Dios basta.

Santa Teresa de Jesús

23.03.06

  10:16:16, Skrásetjari: Sr. Denis O'Leary   , 120 orð  
Flokkur: Dæmisögur og sögur

Hann einn hlaut frelsi

Einu sinni fóru tveir menn upp á fjall að veiða fugla. Þeir notuðu net. Lögðu það og fóru heim.

Næsta dag var netið fullt af dúfum. Annar maðurinn sagði:

„Þetta er góð veiði.“
En hinn maðurinn sagði: „Nei, þessir fuglar eru of horaðir. Það er ekki hægt að selja þá á markaðinum. En kannski gætum við alið þá og fitað.“

Svo þeir ólu fuglana. Allir fuglarnir átu nema einn. Hann át ekki, svo hann horaðist á meðan hinir fitnuðu. Að lokum, komu mennirnir til að flytja þá til markaðarins, og selja. En fuglinn sem forðaðist matinn, slapp úr netinu. Hann einn hlaut frelsi!

22.03.06

  10:38:14, Skrásetjari: Sr. Denis O'Leary   , 93 orð  
Flokkur: Dæmisögur og sögur

Hér eru engin fátækrahverfi

Eitt sinn sagði Móðir Teresa:
"Um daginn dreymdi mig að ég stæði við hlið himnaríkis en heilagur Pétur sagði við mig:
"Farðu aftur til jarðarinnar, hér eru engin fátækrahverfi".

OPINBERUNARBÓK JÓHANNESAR 21
"Hann flutti mig í anda upp á mikið og hátt fjall og sýndi mér borgina helgu, Jerúsalem, sem niður steig af himni frá Guði. Hún hafði dýrð Guðs.
Og stræti borgarinnar var af skíru gulli sem gagnsætt gler."

21.03.06

  08:20:20, Skrásetjari: Sr. Denis O'Leary   , 105 orð  
Flokkur: Til umhugsunar

Ég er góði hirðirinn

Sumar af elstu táknmyndum kristinna manna, sem málaðar eru á veggi í Katakompunum í Róm, eru af Jesú sem ungum skegglausum fjárhirði þar sem hann heldur á sauð á öxlum sér. Augljóslega var "góði hirðirinn", mjög vinsælt meðal fyrstu kristinna manna.

Eins og við vitum þá eru guðspjöllin uppfull af dæmum um kærleika Jesú:

• "Komið til mín, allir þér sem erfiði hafið og þungar byrgðar, og ég mun veita yður hvíld." (Mt11:28)

• "Ég er góði hirðirinn sem leggur líf sitt í sölurnar fyrir sauðina." (Jh10:11)

20.03.06

  23:09:29, Skrásetjari: Sr. Denis O'Leary   , 293 orð  
Flokkur: Dæmisögur og sögur

Að skilja leyndardóma Guðs

Til er saga um tvo menn. Báðir voru andlega sinnaðir og miklir hugsuðir.
Dag einn gengu þeir meðfram sjávarströnd. Á göngunni ræddu þeir
leyndardóma Guðs. Hvor um sig var sannfærður um, að útskýringar hins á því hvað Guð þýddi fyrir hann, væru lélegar. Þeir fundu hugmyndum hvor annars um Guð, allt til foráttu.

Skyndilega gengu þeir fram á lítinn dreng sem var að leika sér í vatnsborðinu. Hann hafði grafið litla holu í sandinn og hljóp í sífellu niður að sjónum og dýfði leikfangafötunni sinni í vatnið og hljóp aftur upp ströndina til að hella vatninu í holuna. Þeir horfðu á hann nokkra stund þar sem hann hljóp fram og aftur og tæmdi og fyllti fötuna sína.

Þeim fannst þetta fyndið svo að þeir gengu til hans og spurðu hvað hann væri að gera. Drengurinn benti í átt að sjónum og sagði þeim alvarlega, að hann ætlaði að taka allt vatnið úr honum og hella því í holuna sem hann hafði grafið í sandinn. Mennirnir tveir brostu og héldu fram göngu sinni og ræddu áfram um Guð.

Skyndilega stansaði annar þeirra og sagði: "Veistu að rétt áðan fannst okkur það fyndið, þegar drengurinn sagði okkur frá því sem hann var að reyna að gera. En umræða okkar um Guð hefur verið alveg eins. Það er jafn ómögulegt fyrir okkur að skilja leyndardóma Guðs, eins og það er fyrir drenginn að hella öllu vatni sjávarins í þessa holu. Hugir okkar eru eins og þessi hola en veruleiki Guðs er eins stór og hafið."

19.03.06

  16:04:21, Skrásetjari: Sr. Denis O'Leary   , 97 orð  
Flokkur: Dæmisögur og sögur

Jesús horfir á mig og ég horfi á hann

Að venju fór sr. Jean–Marie Vianney reglulega á daginn í kirkju sína til að lesa þar tíðarbænir sínar. Hann tók oft eftir bónda nokkrum sem stóð í anddyri kirkjunnar. Hann var hvorki með bænabók né rósakrans heldur spennti hann aðeins greipar sínar og horfði fram á við í átt til háaltarisins þar sem guðslíkamahúsið var.

Dag nokkurn spurði presturinn hann hvað hann væri eiginlega að gera allan þann tíma.

Bóndinn svaraði:
„Jesús horfir á mig og ég horfi á hann.“

18.03.06

  23:38:51, Skrásetjari: Sr. Denis O'Leary   , 143 orð  
Flokkur: Dæmisögur og sögur

Ertu búinn að fyrirgefa?

Á meðal þeirra hluta sem Jesús hefur beðið okkur að gera, er að elska óvini okkar — trúlega einn af þeim erfiðustu hlutum sem hann hefur óskað af okkur.

Einu sinni ætlaði fyrrverandi fangi að heilsa upp á vin sinn, sem hafði einnig verið í sama fangelsi. Þeir töluðu saman um stund um reynslu sína í fangelsinu og Þá spurði annar maðurinn hinn:

"Ertu búinn að fyrirgefa Því fólki sem sá til Þess að við værum settir á þennan hræðilega stað?"

"Já. Það hef ég gert," svaraði hinn maðurinn.

"Jæja, ekki ég," sagði sá fyrri. "Ég ber ennþá brennandi hatur til þeirra."

"Fyrst það er þannig," sagði vinur hans, "þá halda þeir þér enn í fangelsi."

Óvinir okkar eru ekki þeir sem hata okkur, heldur frekar þeir sem við hötum.

17.03.06

  22:03:13, Skrásetjari: Sr. Denis O'Leary   , 367 orð  
Flokkur: Dæmisögur og sögur

Enginn vildi réttlæti

Kennari nokkur í framhaldsskóla einum sagði nemendum sínum í upphafi skólaársins að í lok hvers mánaðar yrðu þeir að skila skrifaðri ritgerð. Ef ritgerðinni yrði ekki skilað á réttum tíma, táknaði það núll í einkunn fyrir ritgerðina. Og þetta skyldu nemendurnir; engin ritgerð þýddi núll í einkunn.

Í lok fyrsta mánaðarins vantaði fimm ritgerðir og nemendurnir báðu kennarann um meiri tíma, sem þeir og fengu. "Látið þetta ekki gerast aftur", sagði kennarinn.

Í lok annars mánaðarins höfðu tíu ritgerðir ekki skilað sér og aftur báðu nemendurnir kennarann um meiri tíma, sem hann veitti þeim. "Látið þetta ekki gerast aftur", sagði kennarinn.

Í lok þriðja mánaðarins hafði kennarinn ekki fengið fimmtán ritgerði og nemendurnir sárbændu kennarann um meiri tíma.

"Adam, hvar er ritgerðin þín?" spurði kennarinn.
Adam svaraði: "Vertu rólegur, kennari, þú færð hana í næstu viku".
"Adam, þú færð núll í einkunn", sagði kennarinn. Adam varð mjög reiður.

"Eva, hvar er ritgerðin þín?"
Eva svaraði: "Engan æsing, kennari, þú færð hana í næstu viku."
"Eva. Þú færð núll í einkunn". Eva varð líka mjög reið.

"Þetta er ekki sanngjarnt", hrópaði Adam. "Þetta er óréttlátt!"
Þá brosti kennarinn og sagði: "Allt í lagi Adam, vilt þú réttlæti?"
"Já, ég krefst réttlætis," öskraði Adam.

Kennarinn sagði þá: "Gott og vel, ef ég man rétt varst þú líka of seinn að skila þinni ritgerð í síðasta mánuði. Er það ekki rétt hjá mér?"
Hann svaraði játandi.

"Allt í lagi, ég mun líka breyta einkunn þinni frá síðasta mánuði í núll", sagði kennarinn. "Eru einhverjir fleiri hér sem vilja réttlæti"?

Enginn annar vildi réttlæti.

Kæru vinir! Guð er miskunnsamur, en ekkert okkar á rétt á þeirri miskunn. Hún er ávallt og með öllu ókeypis gjöf Guðs til okkar. Við skulum ekki ganga að því sem vísu.

16.03.06

  20:10:55, Skrásetjari: Sr. Denis O'Leary   , 133 orð  
Flokkur: Dæmisögur og sögur

Kraftaverk

Til er saga um mann, sem hafði verið mikill drykkjumaður, en í lok gerðist trúmaður og reglumaður um leið.

Nokkrum mánuðum síðar mætti hann gömlum drykkjufélaga sínum.

"Nú ert þú víst orðinn svo trúaður, að þú trúir á kraftaverk", sagði hann háðslega.

"Já, ég trúi á kraftaverk", svaraði hinn.

"Þú getur þá líklega skýrt það út fyrir mér, hvernig Jesús breytti vatni í vín, í Kana."

Hinn svaraði: "Jesús er Guð og Guð getur gert svona. En gerðu svo vel að ganga heim með mér. Þá skal ég sýna þér annað kraftaverk, sem hann hefur gert. Jesús hefur breytt áfengi í húsgögn, góð föt og hamingjusama fjölskyldu."

15.03.06

  23:12:48, Skrásetjari: Sr. Denis O'Leary   , 179 orð  
Flokkur: Dæmisögur og sögur

Hvað hefur þú gert í dag ástin mín?

Dag einn kom eiginmaður heim úr vinnu að öllu í óreiðu. Börnin voru enn í náttfötunum, úti að leika sér í drullunni. Tóm matarílát og umbúðir voru út um allt.

Þegar hann kom inn í húsið kom hann að jafnvel enn meiri óreiðu. Óhreinir diskar, hundamatur á gólfinu, brotið glas undir borðinu og sandur við bakdyrnar. Leikföng og föt út um allt og lampi sem hafði oltið á gólfið.

Maðurinn klofaði yfir leikföngin og flýtti sér upp tröppurnar, í leit að eiginkonunni. Hann var áhyggjufullur þar sem hann hélt að hún væri veik.

Hann fann hana í svefnherberginu, í rúminu að lesa bók. Hún brosti og spurði hann hvernig dagurinn hefði verið.

Hann horfði ringlaður á hana og spurði:
"Hvað gerðist hér í dag?"

Hún svaraði brosandi:
"Á hverjum degi þegar þú kemur heim úr vinnunni, spyrð þú mig hvað ég hafi gert í dag?"

"Já," svaraði hann.

"Í dag gerði ég það ekki!"

14.03.06

  16:28:03, Skrásetjari: Sr. Denis O'Leary   , 94 orð  
Flokkur: Dæmisögur og sögur

Biðjið og yður mun gefast

Það er til saga um prest sem tók eftir konu sem sat ein í kirkjunni og bað til Jesú í guðslíkamahúsinu.

Klukkustund seinna, sá presturinn að hún var þar enn.

Önnur klukkustund til viðbótar leið og enn var hún þar í bæn.

Þegar þar var komið, gekk presturinn til konunnar og spurði hvort það væri eitthvað sem hann gæti gert fyrir hana.

„Nei, þakka þér fyrir, faðir“, svaraði hún.
„Ég hef fengið alla þá hjálp sem ég þarf á að halda frá Jesú.“

13.03.06

  20:28:03, Skrásetjari: Sr. Denis O'Leary   , 176 orð  
Flokkur: Dæmisögur og sögur

Guð hefur eitthvað sérstakt í huga fyrir hvert okkar

Heilög Teresía frá Lisieux er mjög vinsæll dýrlingur í kaþólsku kirkjunni (d. 1897).

Þegar faðir hennar var ungur að árum, fór hann í prestaskóla
með það í huga að gerast kaþólskur prestur. Þar var honum sagt að hann hefði enga köllun til prestþjónustu.

Móðir hennar gekk í klaustur ogætlaði að gerast nunna, en það fór á sama veg - henni var sagt að hún hefði ekki köllun til að gerast nunna.

Bæði urðu þau fyrir gífurlegum vonbrigðum og hugleiddu hvað Guð hefði í huga. Þau tvö hittust og giftust og áttu mörg börn. Fjórar dætur þeirra gerðust nunnur og sú yngsta var Teresía.

Á einhvern hátt þarfnast Guð okkar allra. Fyrir tilstilli okkar getur hann gert góða hluti. Það er ef til vill ekki fyrr en við komumst til himna, að við fáum séð hvað Guð hafði í huga fyrir okkur og hvernig hann vann sín verk í gegnum okkur.

12.03.06

  22:04:32, Skrásetjari: Sr. Denis O'Leary   , 159 orð  
Flokkur: Dæmisögur og sögur

Hlutverk Guðs og hlutverk mitt

Til er saga um mann og konu sem áttu tal saman. Konan var kristin en
maðurinn ekki. Maðurinn spurði konuna hvort hún færi ætíð að vilja Guðs.

"Já" svaraði hún, "mér er skylt að gera það sem Guð almáttugur leggur fyrir mig".

"Gott og vel," sagði maðurinn. "En hvað myndir þú gera ef Guð segði þér að stökkva yfir þennan háa vegg þarna? Mundir þú stökkva?"

"Auðvitað stykki ég" sagði konan.

"En það er ómögulegt," sagði maðurinn. "Hvernig færir þú að því? Þessi múr er allt of hár til að þú getir stokkið yfir hann."

"Ef Guð ætlaðist til þess af mér," svaraði konan, "þá væri það mitt hlutverk að stökkva en hlutverk Guðs að sjá til þess að ég gæti það!"

Guð krefst aldrei neins af okkur, sem okkur er um megn.

11.03.06

  21:51:46, Skrásetjari: Sr. Denis O'Leary   , 309 orð  
Flokkur: Dæmisögur og sögur

Í meira lagi heimskur!

Eitt sinn kom ungur maður til kennara síns og bað hann að segja sér
einhverja skemmtilega sögu. Kennarinn sagði þá þessa sögu:

Einu sinni fór maður í ferðalag. Hann fyllti malpokann sinn af ágætum mat og ljómandi ávöxtum. Ferðinni var heitið yfir eyðimörk, víða og gróðurlausa, til fjarlægs héraðs. Fyrstu dagana fór hann um brosandi og frjósöm héruð. Þar voru aldintré og nóg af góðum ávöxtum, sem ferðamenn gátu tínt sér til hressingar eftir þörfum. En þessi ferðamaður nennti því ekki, þótti hægara að eta matinn og ávextina úr malpokanum sínum. En nú kom hann í eyðimörkina. Þegar hann hafði farið hana nokkra daga, hafði hann lokið nestinu. Nú komst hann í skelfilega neyð, eins og vænta mátti, því að ekkert var fyrir hendi, nema glóðheitur sandurinn. Að nokkrum dögum liðnum gafst hann upp af hungri og þorsta og þarna lét hann lífið með miklum harmkvælum.

“Þessi maður hefur verið í meira lagi heimskur", sagði ungi maðurinn, “að honum skyldi ekki detta í hug í tæka tíð að hann þyrfti að fara yfir svona breiða eyðimörk."

“Já, heimskur var hann", svaraði kennarinn. En ert þú þá skynsamari? Þú ert á ferðalagi, ævilangri ferð og leiðin liggur til eilífðarinnar. Nú er tími fyrir þig að tína hina gullnu ávexti hinnar sönnu speki -
kristindómsins. Enn er tími til þess fyrir þig að búa þig undir að fara
yfir eyðimörkina, svo að þú náir til hins fagra héraðs, eilífðarinnar. Ef þú gerir það ekki, getur farið eins fyrir þér og grunnhyggna ferðamanninum.

10.03.06

  23:22:22, Skrásetjari: Sr. Denis O'Leary   , 156 orð  
Flokkur: Dæmisögur og sögur

Heilagur Anton og veiðimaðurinn

Heilagur Anton hinn mikli er kallaður faðir munkanna. Hann fæddist í
Egyptalandi um 251. Líf hans hafði mikil áhrif á uppbyggingu
munkalífsins.
Eitt sinn var hann að hvílast ásamt sumum af sínu
meðbræðrum fyrir utan kofa sinn í eyðimörkinni. Veiðimaður átti leið
þangað og blöskaraði á sjá Hinn mikla Anton aðgerðalausan.
"Hvers konar munkur ert þú - að eyða tímanum svona?
Anton svaraði: "Spenntu boga þinn og skjóttu ör."
Veiðimaðurinn gerði það.
"Gerðu það aftur."
Veiðimaðurinn gerði það.
"Gerðu það aftur."
Í þetta skipti skaut hann ekki ör, en sagði í staðinn við Anton:
"Ef ég spenni alltaf boga minn þá mun hann brotna."
"Þetta er hárrétt", sagði Anton. "Og það er það sama með okkur."
Ef við ofreynum okkur, þá munum við líka gefa undan. Við
þörfnumst hvíldar stundum.

09.03.06

  14:10:59, Skrásetjari: Sr. Denis O'Leary   , 71 orð  
Flokkur: Dæmisögur og sögur

Hann spurði Guð hví hann gerði ekki eitthvað

Einu sinni var maður sem fór til fátæks lands sem trúboði.

En þegar hann sá hina sáru fátækt fólksins varð honum mjög brugðið og spurði Guð hví hann gerði ekki eitthvað til að létta á fátæktinni.

Guð svaraði honum djúpt í hjarta hans og sagði:

"Ég hef gert nokkuð - ég skapaði þig!"

08.03.06

  22:42:51, Skrásetjari: Sr. Denis O'Leary   , 101 orð  
Flokkur: Dæmisögur og sögur

Hvíldardagurinn

Einu sinni ákvað Guð að taka sér hvíld. Í sex daga hafði hann verið að
skapa alskyns hluti. En á sjöunda deginum settist hann niður og tók sér
hvíld! Hann naut hvíldarinnar svo mikið, að hann ákvað að deila þessari
hugmynd með okkur!

Í Gamla testamentinu var laugardagurinn, síðasti dagur vikunnar hvíldardagur, í minningu þess, að Guð skapaði heiminn á sex dögum, en hvíldist hinn sjöunda. En frá dögum Nýja testamentisins höldum við helgan sunnudaginn, fyrsta dag vikunnar, vegna þess að Kristur reis upp frá dauðum á sunnudegi.

07.03.06

  21:16:22, Skrásetjari: Sr. Denis O'Leary   , 167 orð  
Flokkur: Dæmisögur og sögur

Já, Drottinn, ég gerði það

Einu sinni heyrði ég viðtal við mann sem hafði lent í alvarlegu bílslysi.
Hann dó næstum því, en margir báðu fyrir honum og á endanum náði hann sér að fullu.

Í viðtalinu, talaði hann um að hann myndi eftir að eitthvað hefði gerst rétt á eftir slysinu. Hann stóð fyrir framan dómshásætið og Jesús var að segja honum allt sem hann hafði aðhafst í lífi sínu.

Maðurinn sagði að það eina sem hann hafi geta sagt þegar Jesús minntist á syndir sem hann hafði drýgt var: "Já, Drottinn, ég gerði það, já, Drottinn ég gerði það."

Hann sagði að hann hefði ekki getað sagt neitt annað, það var ekki hægt að
vera með neinar afsakanir, vegna þess að hann vissi að allt sem Jesús segði var satt.

Hvernig skyldi verða dæmt í málum okkar þegar okkar tími kemur?

06.03.06

  23:15:17, Skrásetjari: Sr. Denis O'Leary   , 151 orð  
Flokkur: Dæmisögur og sögur

Hann hafði fórnað lífi sínu

Tveir bræður, ungir drengir, voru að fá sér göngutúr og villtust
vetrarkvöld eitt. Það var nístingskuldi. Þeim varð því kaldara sem þeir urðu þreyttari að ganga. Loks gáfust þeir upp. Þeir voru staddir á auðri sléttu, þar sem hvorki var hús né tré, sem hægt var að flýtja í skjól við. Drengjunum varð æ kaldara.

Þá klæddi eldri drengurinn sig úr jakkanum og vafði honum um bróður sinn. Já, hann gerði meira. Hann fór úr fleiri flíkum og bjó svo um yngri bróður sinn.

Drengjanna var saknað undir eins um kvöldið og þeirra leitað alla nóttina.

Um morguninn fundust þeir. Yngri drengurinn var með lífi, en sá eldri
hafði króknað.

Eldri bróðirinn hafði fórnað lífi sínu fyrir bróður sinn.

Ó Jesú bróðir besti.

  00:07:28, Skrásetjari: Sr. Denis O'Leary   , 347 orð  
Flokkur: Dæmisögur og sögur

Verk hans lýsa því, að vísdómur hans er takmarkalaus

Í guðfræði Austurlanda er lögð áhersla á að við getum á engan hátt vitað neitt um eðli Guðs og að við þekkjum hann aðeins fyrir "verk" hans.

Einu sinni stóð forn kastali í fögru dalverpi. Nokkru eftir aldamótin 1800 átti barón nokkur kastalann. Hann átti einn son.

Einu sinni kom ferðamaður til að skoða kastalann, en sonur barónsins var ekki heima. Talið barst að trúmálum. Kom þá í ljós að ferðamaðurinn var trúleysingi.

„Ég þekki Guð ekki. Ég hef aldrei séð hann,“ sagði ferðamaðurinn.

Daginn eftir gengu þeir umhverfis kastalann. Meðal annars sá ferðamanninum mynd, sem hékk á einum veggnum. Ferðamaðurinn dáðist að henni og spurði, hver hefði málað hana.

„Sonur minn“, svaraði baróninn.

„Það er sannarlega vel fær maður“, sagði ferðamaðurinn.

Í aldingarðinum lét ferðamaðurinn í ljós aðdáun sína og spurði, hver annaðist garðinn.

„Sonur minn“, svaraði baróninn.

„Það er sannarlega vel fær maður,“ sagði ferðamaðurinn.

Síðar um daginn fóru þeir til næsta þorps og komu að húsi, þar sem sonur barónsins hafði stofnsett skóla fyrir munaðarlaus börn.

„Það er sannarlega vel fær maður. Þér eruð hamingjusamur maður að eiga slíkan son“, sagði ferðamaðurinn í aðdáunarróm.

„Hvernig vitið þér, að ég eigi góðan son? Þér hafið aldrei séð hann,“ spurði baróninn skyndilega.

„Vegna þess, að ég hef séð verk hans. Eftir þeim dæmi ég svo, að hann hljóti að vera góður maður og mjög vel fær. Ég tel mig þekkja hann nokkuð, því að ég dæmi hann eftir verkum hans,“ sagði ferðamaðurinn.

Það sagði baróninn: „Þannig dæmi ég einnig um eiginleika Guðs. Verk hans lýsa því, að vísdómur hans er takmarkalaus.“

04.03.06

  00:14:12, Skrásetjari: Sr. Denis O'Leary   , 212 orð  
Flokkur: Dæmisögur og sögur

Saga um mann sem elskaði dýr.

Til er saga um mann sem elskaði dýr. Hann sá eitt sinn örn í búri og þótti sárt að sjá þennan konung fuglanna þannig firrtan frelsinu. Þess vegna keypti dýravinurinn örninn. Fór hann því næst með hann burt úr borginni, þar sem hann hafði keypt hann og að fjallsrótum. Þar opnaði hann búrið, en örninn var hinn rólegasti í opnu búrinu. Þá stjakaði dýravinurinn við honum, svo að hann gekk út úr búrinu. En ekki reyndi hann til að hefja sig til flugs. Þannig leið löng stund, að örninn gekk hægt umhverfis búrið.

En allt í einu varð skýjarof og brennheitt sólskinið flæddi yfir umhverfið. Þá lyfti örninn höfðinu og fór að hreyfa vængina. Og skyndilega breiðir hann úr vængjum sínum og lyftir sér til flugs, hærra og hærra.

Meðan maðurinn bindur hamingjuleit sína eingöngu við jarðnesk gæði, líkist hann erninum, sem gleymt hafði fluginu. En þegar hann verður var kærleika hins himneska föður og fegurð himinsins verður honum ljós, þá finnur hann, að lífi hans er ætlað æðra mark og mið.

11.06.05

  01:16:58, Skrásetjari: Sr. Denis O'Leary   , 1527 orð  
Flokkur: Kirkjuárið

Yfirlit yfir helstu hátíðir kirkjuársins og fl. ((( í vinnslu )))

KIRKJUÁRIÐ
Kaþólskt kirkjuár er röð hátíða, er kirkjan heldur yfir árið. Kirkjuárið hefst eigi 1. janúar, heldur fyrsta sunnudag í aðventu. Jól, páskar og hvítasunna eru aðalhátíðir kirkjuársins.

Þrennar eru hátíðir kirkjunnar:
Hátíðir Drottins, hátíðir Guðsmóður og hátíðir annara dýrlinga.

Helstu hátíðir Drottins eru:
Jól (25. desember);
opinberun Drottins, venjulega kallað þrettándinn (6. janúar);
páskar (næsti sunnudagur eftir að fyrsta vortungl er fullt);
uppstigningardagur (fertugasti dagur eftir páska);
hvítasunna (fimmtugasti dagur eftir páska);
dýridagur (annar fimmtudagur eftir hvítasunnu).

Helstu hátíðir Guðsmóður eru:
Getnaðardagur Maríu (8. desember);
kyndilmessa eða hreinsunarhátíð (2. febrúar);
boðunardagur Maríu (25. mars);
himnaför Maríu eða Maríumessa hin fyrri (15. ágúst);
fæðingardagur Maríu eða Maríumessa hin síðari (8. september)
hinn Óflekkaði Getnaður (8 des).

Helstu hátíðir annara dýrlinga eru:
Stefán frumvottur (26. desember);
Jósefsmessa (19. mars og 1. maí);
Jónsmessa skírara (24. júní);
Péturs messa og Páls, heilagra postula (29. júni);
hátíð hinna heilögu verndarengla (2. október);
allra heilagra messa (1. nóvember).

(((Dýrlingatal:- http://www.vortex.is/catholica/tres.html )))

Á undan nokkrum hátíðum er lengri eða skemmri undirbúningstími, td. aðventa fyrir jól og fastan fyrir páska.

************************************

Aðventan
eða jólafastan er undirbúningstími jólahátíðarinnar. Með henni hefst kirkjuárið.

Aðventan stendur yfir í fjóra sunnudaga. Orðið aðventa er komið úr latínu "adventus" og það þýðir, "koman," "nálgast" eða "aðkoma."

Jesús er að koma. Það er hans fyrsta koma sem við minnumst um hver jól. En það sem við erum í raun að undirbúa, er hans endurkoma, sem mun verða á síðasta degi.

Á aðventu er sumum hlutum breytt í kirkjunni.

Til dæmis erum við með aðventukransinn. Hér er um að ræða hring með grænu laufi sem umlýkur fjögur kerti. Kertin, verða kveikt, eitt fyrir hvern sunnudag í aðventu og minna okkur á að Jesús er sanna ljósið í þessum heimi.

Annar hlutur sem breyttur er, er hökull prestsins. Fjólublár er liturinn sem kirkjan notar á aðventu og er hann tákn iðrunnar og sorgar.

Umræðuefni ritningarlestranna og bænir í messunni, eru einnig breyttar. Í aðventu er eftirvæntingar að gæta í þeim.

Á sérhverri aðventu er okkur boðið að dýpka og styrkja samband okkar við Guð og náungann.

4. desember
Barbara mey og píslarvottur.

8. desember
Hinn Óflekka›i Getna›ur. Getnaðardagur Maríu.

12. desember
María mey frá Guadalupe.

13. desember
Lúsía mey og píslarvottur.

14. desember
Jóhannes af krossi prestur og kirkjufræðari.

23. des.
Þorlákur biskup Þórhallsson
verndardýrlingur Íslands
Þorláks helga er minnst tvo daga ársins hér á Íslandi. Í 20. júlí, er hátíð upptöku heilags dóms hans og 23. desember er andlátsdagur hans.

Jólin
Á jólunum fögnum við fæðingu Jesú fyrir 2000 árum.

26. desember
Stefán frumvottur.

27. desember
Jóhannes postuli og guðspjallamaður.

Sunnudagur eftir jól
Hin Heilaga Fjölskylda, Jesús, María og Jósef.

1. janúar
María Guðsmóðir.

6. janúar
Opinberun Drottins venjulega kallað þrettándinn.

Skírn Drottins
Í dag höldum við upp á hátíð skírnar Jesú. Þessi hátíð minnir okkur einnig á okkar eigin skírn.

18. - 25. janúar ?
Alþjóðleg bænavika kristinna manna fyrir samstöðu kristninnar
Við biðjum fyrir einingu meðal allra kristinna manna, eins og Jesús sjálfur gerði. Jesús sagði: "Ég bið ... að allir séu þeir eitt, eins og þú, faðir, ert í mér og ég í þér, svo séu þeir einnig í okkur, til þess að heimurinn trúi, að þú hefur sent mig. (Jn 17.20-21)

2. febrúar
Kyndilmessa eða hreinsunarhátíð.

19. mars og 1. maí
Hátíðir heilags Jósefs sem er verndardýrlingur kirkjunnar.

25. mars
Boðunardagur Maríu.

Langafastan
hefst á öskudegi og varir í fjörtíu daga.
Langafastan er sérstakur tími fyrir bænir og yfirbót. Á lönguföstu eigum við að undirbúa okkur fyrir páskana.

Kaþólskir fasta tvo sérstaka daga á hverju ári; öskudag og föstudaginn langa. Það merkir að við neytum einnar fullkominnar máltíðar hvern þessara daga. Til þess er einnig ætlast að við gerum yfirbót á hverjum föstudegi og hvern dag föstunnar.

Á öskudaginn er öskuvígsla og tækifæri fyrir fólki að meðtaka öskukross. Við úthlutun hinni vígðu ösku segir presturinn við okkur: „Minnstu þess maður, að þú ert mold og að moldu skalt þú aftur verða.“

Í dimbilviku
heldur kirkjan hátíðlega upp á atburði úr síðustu lífsdaga Jesú, fyrir páska.

Pálmasunnudagur
Fyrstur af þessum atburðum var hans dýrðlega innganga í Jerúsalem, sem Messías. Við minnumst þessa atburðar á pálmasunnudegi þegar við göngum helgigönguna með vígðum pálmagreinum. Okkar helgiganga er ætluð til að minna okkur á fyrstu sigurgönguna í Jerúsalem þegar hópur fólks elti og hyllti Jesú. Á pálmasunnudag lesum við tvö guðspjöll. Fyrsta guðspjallið segir okkur um hina dýrlegu inngöngu Jesú inn í Jerusalem. Annað guðspjallið segir okkur frá kvöl og dauða Jesú.

Skírdagur
Annar atburðurinn sem við höldum hátíðalega í dimbilviku, er síðasta kvöldmáltíðin, á skírdagskvöld.

Messa á skírdag er byrjunin á dögunum þrem fyrir páskadaginn. Og þessir dagar eru þeir heilögustu í árinu. Þessir dagar ná hámarki sínu á páskavöku.

Föstudagurinn langi
Þriðji atburðurinn úr lífi Jesús sem við höldum hátíðlega í dimbilviku eru hans þjáningar og dauði, sem var á föstudaginn langa fyrir tvö þúsund árum. Á föstudaginn langa tökum við okkur tíma til að hugsa um hið saklausa lamb Guðs sem var fórnað vegna synda okkar. Þetta er dagurinn sem við sýnum sérstaka virðingu fyrir krossinum og við biðjum fyrir öllum heiminum.

Föstudagurinn langi er dagur föstu og bindindis, dagur sem við gerum iðrun.

Laugardaginn fyrir páskana
hugsa og biðja kaþólskir menn um þá hluti sem skeðu fyrir Jesú og hvers vegna. Það er eins og við séum að krjúpa við gröf hans í djúpri sorg og bíðandi eftir upprisu hans.

************************************

Páskar: næsti sunnudagur eftir að fyrsta vortungl er fullt.

Páskavakan
Seint á laugardagskvöld, höldum við hátíðlega upprisu hans frá dauðum. Þetta er gert á sérstakan hátt með eldi og kertum og mörgum öðrum táknum. Þessi athöfn hlýtur að vera ein af þeim fallegustu í kirkjunni.

(I) Páskavakan byrjar með því að kveikt er á páskaeldinum. Við erum minnt á að í upphafi skapaði Guð ljósið. Upphaf páskavöku er táknræn fyrir dögun hinnar nýju sköpunar sem hófst með upprisu Jesú.
Síðan leiðir páskakertið okkur í helgigöngu inn kirkjuna. Þetta minnir okkur á eldinn sem vísaði Ísraelsmönnum veginn í eyðimörkinni. Þessi eldur leiddi þá frá okinu í Egyptalandi til fyrirheitna landsins. Núna leiðir Kristur, ljós heimsins, okkur frá fjötrum syndarinnar, með dauða sínum og upprisu, til eilífs lífs. Þetta er táknað með því að sá sem ber páskakertið inn kirkjuna, gengur í slóð þess er bar krossinn inn í kirkjuna á föstudaginn langa, og nam staðar á þremur sömu stöðum í kirkjunni.

Þegar páskakertið er sett á sinn stað er páskalofsöngurinn sunginn. Páskalofsöngurinn er mjög gamall og má jafnvel rekja hluta hans aftur til fjórðu aldar. Í páskalofsöngnum er samtímanum kunngert:

„Þetta er nóttin,
þegar (Guð) fyrrum
leiddir forfeður vora,
syni Ísraels,
út úr Egyptalandi
til fyrirheitna landsins ………
þegar Kristur braut fjötra dauðans
og sté sigrandi úr helju.“

(II) Síðan er lesið úr ritningunni. Og því yfirleitt fylgt eftir með Davíðssálmum og bænum. Sagan um frelsun Ísraelsmanna við Rauðahafið er alltaf lesin. Önnur ritning minnir okkur á eigin frelsun í skírninni. Loks segja guðspjöllin frá upprisu Jesú.

(III) Síðan hefst skírnarathöfnin þar sem við erum minnt á að í skírninni öðlumst við hlutdeild í upprisu Jesú. Með skírninni verður upprisa Jesú fyrirheit um okkar upprisu. Þess vegna erum við á páskavökunni beðin um að endurtaka skírnarheit okkar.

(IV) Altarisþjónusta.

************************************

Páskadagur
Páskahátíðin er haldin í minningu upprisunnar. Það er hin mesta hátíð kirkjuársins og sigurhátíð kristninnar, Því með upprisu sinni hefur Jesús unnið fullan sigur á dauðanum og helvíti. Páskakertið er ímynd hins upprisna Endurlaunara.

"Upprisa Krists er kjarninn í tilveru kirkjunnar." “En ef Kristur er ekki upprisinn, þá er ónýt prédikun vor, ónýt líka trú yðar.”
“Upprisa Krists er kóróna trúar okkar á Krist.....”

Hátíð hinnar guðlegu miskunnar
Annar sunnudagur á páskatíma.
Í dag minnumst við hins óendanlega kærleika og miskunnar Guðs, sem hann úthellir yfir heiminn.

Hátíð hinnar guðlegu miskunnar býður okkur að líta á Guð sem uppsprettu raunverulegs friðar, sem okkur stendur til boða fyrir upprisinn Drottin okkar Jesú. Benjar hins upprisna og dýrlega Drottins eru varanlegt tákn um miskunnsaman kærleika Guðs fyrir mannkyninu. Úr sárum hans streymir eins konar andlegt ljós sem varpar ljósi á samvisku okkar og veitir okkur huggun og von.

Í dag förum við, ásamt fjölda manns um allan heim, með orðin: "Jesús, ég treysti á þig!"

Köllunarsunnudagur
Fjórði sunnudagur á páskatíma.
Alþjóðlegur dagur bæna um kallanir.

Himnaför Jesú
er haldin hátíðleg 40 dögum eftir páska.

Hvítasunnudagur
er hátíð Heilags Anda. Heilagur Andi er þriðja persóna guðdómsins, sannur Guð, ásamt Föður og Syni.

Þegar lærisveinarnir voru sviptir sýnilegri nærveru hans skildi Jesú þá ekki eftir munaðarlausa. Hann lofaði að vera með þeim allt til enda veraldar svo hann sendi þeim Anda sinn. Heilagur Andi kom yfir Maríu og postulana á hvítasunnu í líki logandi eldstungna. Andinn er líf vort.

Maí mánuður
er sérstaklega tileinkaður Maríu.

Júní mánuður
er sérstaklega tileinkaður dýrkun hins alhelga hjarta Jesú.

24. júní
Jónsmessa skírara.

23. júlí
er vígsluafmæli Kristskirkju

15. ágúst
Himnaför Maríu eða Maríumessa hin fyrri.

8. september
Fæðingardagur Maríu eða Maríumessa hin síðari.

14. september
er upphafning hins heilaga kross

Krossinn var ekki merkingarlaus fyrir Jesú, heldur var hann leiðin til upprísunnar. Núna lifir hann um alla eilífð og hann heitir okkur sama sigrinum. Krossinn er ták um sigur en ekki ósigur.

Október mánuður
er sérstaklega tileinkaður rósakransbæninni.

Í nóvember
biðjum við sérstaklega fyrir þeim sem látnir eru.

1. nóvember
Allra heilagra messa.

2. nóvember
Allra sálna messa.

Kristur konungur
Á þessum síðasta sunnudegi kirkjuársins höldum við hátíð Krists konungs. Lestrar síðastliðna sunnudaga hafa minnt okkur á að Jesús mun snúa aftur í dýrð til að dæma heiminn. Við köllum það endurkomu hans.

  00:24:50, Skrásetjari: Sr. Denis O'Leary   , 183 orð  
Flokkur: Dæmisögur og sögur

Ég er pílagrímur og á bara leið hér um

Til er saga um ríkan mann sem fór fótgangandi í pílagrímsför til frægs helgistaðar. Á leið sinni kom hann við í litlu klaustri þar sem mjög heilagur munkur bjó. Ríki maðurinn og hinn heilagi munkur tóku tal saman. Ríki maðurinn var undrandi að sjá engin húsgögn að frátöldum einföldum borðum og stólum í klaustrinu.

"Bróðir," spurði ríki maðurinn, "hvar eru öll húsgögnin þín?"

"Ég gæti spurt þig sömu spurningar," svaraði munkurinn.

"Ég er ekki með nein húsgögn með mér af því að ég er á pílagrímsför," sagði ríki maðurinn. "Ég er pílagrímur og á bara leið hér um."

"Munkurinn brosti og sagði: "Það er ég líka."

Öll erum við pílagrímar sem eigum leið hjá. Ákvörðunarstaður okkar er Himnaríki. Þess vegna verðum við að gæta okkar á því að ánetjast ekki um af hlutum sem ekki hafa varanlegt gildi.

  00:19:09, Skrásetjari: Sr. Denis O'Leary   , 207 orð  
Flokkur: Dæmisögur og sögur

Var þessi móðir heimsk?

Til er saga um konu nokkra sem átti 4 ára gamlan son. Barnið veiktist af smitsjúkdómi sem var banvænn. Læknir vöruðu konuna stöðugt við að koma nærri barninu. Að sjálfsögðu var þetta henni mjög erfitt, sérstaklega þar sem hún elskaði barnið mjög heitt.

Dag einn, þar sem hún stóð í fjarlægu horni í svefnherbergi sonar síns, heyrði hún hann spyrja: "Af hverju elskar móðir mín mig ekki lengur?"

Þetta var meira en hún gat þolað og hljóp hún til sonar síns, hélt honum í örmum sér og kyssti hann margsinnis. Fáeinum vikum síðar dóu bæði móðir og sonur og voru þau jarðsett í sömu gröf.

Var þessi móðir heimsk? Var þetta heimskulegur hlutur sem hún gerði? Sumir mundu halda því fram að svo hefði verið. En ekki taldi hún svo vera því kærleikur hennar til sonar síns var það mikill að ekkert annað skipti máli.

Var Guð heimskur að senda Son sinn til jarðar? Ekki taldi hann svo vera því kærleikur hans var það mikill.

02.06.05

  23:45:18, Skrásetjari: Sr. Denis O'Leary   , 224 orð  
Flokkur: Dæmisögur og sögur

Maðurinn sem bjó í útjaðri bæjar

Eitt sinn var maður sem bjó í útjaðri bæjar sem hét Davíð. Hús hans lá við aðalveginn inn í bæinn. Dag einn er hann var að vinna í garðinum fyrir framan húsið kom til hans ókunnugur maður.

Aðkomumaðurinn spurði: "Hvers konar fólk býr í þessum bæ?"

Davíð svaraði: "Hvers konar fólk bjó í þeim bæ, sem þú síðast heimsóttir?"

Aðkomumaðurinn svaraði: "Það var hræðilegur lýður. Mér líkaði alls ekki við fólkið. Það var mjög andstyggilegt.

Þá sagði Davíð: "Ég held að þú finnir fyrir samskonar fólk hér."

"Þakka þér fyrir" sagði aðkomumaðurinn og hélt áfram ferð sinni.

Nokkrum mínútum síðar bar að annan aðkomumann.

Þessi síðari aðkomumaður kallaði til Davíðs og spurði: "Hvers konar fólk býr í þessum bæ?"

Davíð svaraði: "Hvers konar fólk bjó í þeim bæ, sem þú síðast heimsóttir?"

Síðari aðkomumaðurinn svaraði: "Nú þetta var hið elskulegasta fólk. Mér líkaði mjög vel við það. Þau voru mjög vingjarnleg."

Þá sagði Davíð: Ég held að þú finnir fyrir samskonar fólk hér."

Málið er nefnilega að hamingja kemur innan frá!!!

31.05.05

  23:33:42, Skrásetjari: Sr. Denis O'Leary   , 391 orð  
Flokkur: Bænir

Lítanía af allrahelgustu hjarta Jesú

Drottinn, miskunna þú oss.
Kristur, miskunna þú oss.
Drottinn, miskunna þú oss.
Kristur, heyr þú oss.
Kristur, bænheyr þú oss.

Guð Faðir í himnaríki * miskunna þú oss.
Guð Sonur, Lausnari heimsins *
Guð Heilagur Andi *
Heilög þrenning, einn Guð *
Hjarta Jesú, Sonar Föðursins eilífa *
Hjarta Jesú, gert í skauti meymóðurinnar af Heilögum Anda *
Hjarta Jesú, innilega sameinað eilífu Orði Guðs *
Hjarta Jesú, óendanlega dýrðlegt *
Hjarta Jesú, heilagt musteri Guðs *
Hjarta Jesú, tjaldbúð hins hæsta Guðs *
Hjarta Jesú, Guðs hús og himinshlið *
Hjarta Jesú, logandi arin kærleikans *
Hjarta Jesú, hæli réttlætis og kærleika *
Hjarta Jesú, fullt gæsku og kærleika *

Hjarta Jesú, ómælisdjúp allra dygða *
Hjarta Jesú, allrar lofgerðar maklegt *
Hjarta Jesú, konungur og miðja allra hjartna *
Hjarta Jesú, sem geymir alla fjársjóðu visku og fræða *
Hjarta Jesú, þar sem fylling Guðdómsins býr *
Hjarta Jesú, sem Faðirinn hefur velþóknun á *

Hjarta Jesú, sem hefur veitt oss hlut í gnægð
þinni *
Hjarta Jesú, þrá eilífra hæða *
Hjarta Jesú, þolgott og miskunnarríkt *
Hjarta Jesú, örlátt við alla, sem ákalla þig *
Hjarta Jesú, uppspretta lífs og helgi *
Hjarta Jesú, friðþæging synda vorra *
Hjarta Jesú, háðungum satt *

Hjarta Jesú, sundurkramið sakir misgerða vorra *
Hjarta Jesú, hlýðið til dauðans *
Hjarta Jesú, geiri gegnumstungið *
Hjarta Jesú, lind allrar huggunar *
Hjarta Jesú, líf vort og upprisa *
Hjarta Jesú, friður vor og sátt *
Hjarta Jesú, friðþægingarfórn syndugra *
Hjarta Jesú, hjálpræði þeirra, sem treysta þér *

Hjarta Jesú, von þeirra sem deyja í þér *
Hjarta Jesú, unaðssemd allra heilagra *

Guðs lamb, sem ber burt heimsins syndir,
væg þú oss, Drottinn.

Guðs lamb, sem ber burt heimsins syndir, bænheyr þú oss, Drottinn.

Guðs lamb, sem ber burt heimsins syndir, miskunna þú oss, Drottinn.

Jesús, hógvær og lítillátur af hjarta, ger þú hjarta vort líkt þínu hjarta.

Almáttugi, eilífi Guð, lít þú hjarta þíns elskulega Sonar og þá vegsemd og friðþægingu, sem hann flytur þér í nafni syndugra og fyrirgef þú af gæsku þinni öllum, sem beiðast líknar þinnar í nafni Sonar þíns, Jesús Krists, sem lifir og ríkir með þér í einingu Heilags Anda, Guð um aldir alda. Amen.

30.05.05

  17:42:07, Skrásetjari: Sr. Denis O'Leary   , 40 orð  
Flokkur: Bænir

Ó, heilaga máltíð

Í fornri bæn lofsyngur kirkjan leyndardóm evkaristíunnar:

Ó, heilaga máltíð,
þar sem Kristur er vor fæða,
minningin um píslir hans gerð lifandi,
sál vor fyllt náð og
pantur hinnar komandi dýrðar oss gefinn.

  01:20:11, Skrásetjari: Sr. Denis O'Leary   , 119 orð  
Flokkur: Bænir

Æðruleysisbæn

Guð, gefðu mér æðruleysi,
til að sætta mig við það sem ég fæ ekki breytt,
kjark til að breyta því sem ég get breytt
og vit til að greina þar á milli.

Að lifa einn dag í einu,
njóta hvers andartaks fyrir sig,
viðurkenna mótlæti sem friðarveg,
með því að taka syndugum heimi eins og hann er,
eins og Jesús gerði,
en ekki eins og ég vil hafa hann,

og treysta því að þú munir færa allt á réttan veg,
ef ég gef mig undir vilja þinn,
svo að ég megi vera hæfilega hamingjusamur í þessu lífi,
og yfirmáta hamingjusamur með þér þegar að eilífðinni kemur. Amen.

22.05.05

  00:06:28, Skrásetjari: Sr. Denis O'Leary   , 67 orð  
Flokkur: Til umhugsunar

Löngunin eftir Guði

"Löngunin eftir Guði er letruð í hið mannlega hjarta vegna þess að maðurinn er skapaður af Guði og fyrir Guð; og Guð dregur manninn linnulaust til sín. Einungis í Guði mun maðurinn finna sannleikann og hamingjuna sem hann leitar sleitulaust.
Þú hefur gert okkur fyrir þig sjálfan og hjarta okkar er órótt, uns það hvílist í þér." (TRÚFRÆÐSLURIT)

20.05.05

  12:43:13, Skrásetjari: Sr. Denis O'Leary   , 433 orð  
Flokkur: Dæmisögur og sögur

Hvers vegna varð Guð sú sköpun sem hann skapaði?

Eftirfarandi saga hefur
hjálpað mér að skilja ástæðu þess.

Einu sinni var maður sem elskaði dýrin mjög, en hafði ekki mikinn tíma fyrir Guð. Einkanlega átti hann erfitt með að skilja allt það sem fólk gerði á jólunum. Hann gat ekki skilið hvernig Guð gerðist maður. Þess vegna fór hann aldrei í kirkju, ekki einu sinni á jólum. En um síðustu jól
gerðist eitthvað sérstakt sem breytti öllu lífi hans. Guð veitti honum sérstaka náð, náð sinnaskipta. Og þannig gerðist það.

Það var áliðið jólanótt og fjölskylda mannsins var farin til miðnæturmessu í kirkjunni. Hann var einn í húsinu. Veðrið hafði verið stillt en skyndilega skall á snjóstormur. Eftir smástund heyrðist einkennilegur hávaði við útidyrnar. Maðurinn leit út um gluggan og sá að nokkrir fuglar
voru að reyna að leita skjóls undan storminum.

Þar sem honum þótti vænt um dýrin fann hann til með þeim og velti fyrir sér hvernig hann gæti hjálpað þeim. Hann ákvað að fara út um bakdyrnar og opna bílskúrsdyrnar. Hlýtt var í bílskúrnum og þar myndu fuglarnir vera öruggir. Hann fór út, opnaði bílskúrsdyrnar og fór aftur inn í húsið. Er hann leit aftur út um gluggann varð hann fyrir vonbrigðum því fuglarnir
höfðu ekki hreyft sig.

Af því að hann unni dýrum, gafst hann ekki upp. En hvað átti hann að taka til bragðs? Þá datt honum í hug að setja fuglafræ í bílskúrinn. Að því loknu kom hann aftur til þess að sjá hvað gerast myndi, en hann varð enn fyrir miklum vonbrigðum þar sem fuglarnir höfðu enn ekki hreyft sig.
Kuldinn var farinn að sverfa að þeim.

En hvað gat maðurinn gert til þess að hjálpa þeim? Í þeirri von að fuglarnir færu yfir í bílskúrinn opnaði maðurinn dyrnar varlega. En hvað gerðist? Þegar hann opnaði dyrnar flugu fuglarnir auðvitað hver í sína áttina en enginn í bílskúrinn.

Maðurinn sagði þá í algerri örvæntingu: "Ef ég gæti nú bara orðið fugl eins og þeir í smástund gæti ég sýnt þeim leiðina til öryggis."

Á því augnabliki hringdu kirkjuklukkurnar og maður þessi áttaði sig skyndilega á því hvers vegna Guð varð sú sköpun sem hann skapaði - hvers vegna Guð varð maður eins og við.

  00:08:12, Skrásetjari: Sr. Denis O'Leary   , 131 orð  
Flokkur: Dæmisögur og sögur

Fótspor í sandinum

Sú saga er sögð af manni einum sem dreymdi draum.
Í drauminum var hann á gangi eftir strönd í fylgd Jesú.
Þegar maðurinn leit til baka sá hann að stundum voru fótspor eftir tvo menn í sandinum og stundum voru einungis fótspor eftir einn mann.
Hann tók einnig eftir því að tímaskeiðið þegar einungis ein fótspor voru sýnileg, virtist koma heim og saman við það tímabil í lífi hans, þegar hann þjáðist mest.

Maðurinn stöðvaði því og spurði Jesúm: „Hvers vegna yfirgafstu mig þegar ég þurfti mest á þér að halda?“

Jesús brosti til hans og sagði:
„Ég hef aldrei vikið frá þér.
þegar þú þjáðist mest í lífi þínu,
þá tók ég þig í fang mér!“

19.05.05

  23:18:13, Skrásetjari: Sr. Denis O'Leary   , 47 orð  
Flokkur: Dæmisögur og sögur

Bjartsýni eða svartsýni?

Tveir menn sátu eitt sinn í fangelsi.

Annar þeirra var bjartsýnismaður en hinn var svartsýnismaður.

Sá svartsýni horfði í gegnum rimlana á glugganum og sá ekkert nema svarta forina.

Hinn bjartsýni horfði í gegnum sömu rimla og sá stjörnuskinið á himni.

1 2 ...3 4 6 7

Sr. Denis O'Leary

Séra Denis O'Leary er sóknarprestur við Maríukirkju í Breiðholti.

Leit

  XML Feeds

blogging software