Blaðsíður: 1 2 ...3 5 7

04.09.06

  22:27:32, Skrásetjari: Sr. Denis O'Leary   , 498 orð  
Flokkur: Messan

Helgisiðir messunnar - eftir Sr. Róbert Bradshaw

Meðan Jesús dvaldist hér á jörðu, klæddist hann síðum kufli. Í messunni klæðist presturinn samskonar fötum til þess að minna okkur á að raunverulega er það Jesús sjálfur sem færir messufórnina með því að notfæra sér hendur og varir prestsins.

Read more »

09.06.06

  22:44:40, Skrásetjari: Sr. Denis O'Leary   , 793 orð  
Flokkur: Greinar eftir Sr. Róbert Bradshaw (dó 1993)

Kirkjan er líkami Krists

Kirkjan er líkami Krists

Kirkjan er líkami Krists. Með því er ekki átt við hinn heilaga líkama Krists í altarissakramentinu. Ekki er heldur átt við hinn dýrlega líkama Krists, sem steig upp til himna eftir upprisuna.

Hverskonar líkami er þá kirkjan? Kirkjan er auðvitað stofnun, en hún er meira. Hún er persónulegt starf Krists sem haldið er áfram á jörðinni. Kirkjan er stundum kölluð hinn "algjöri Kristur." Það merkir að hún er uppbyggð af Kristi, sem er höfuð líkamans, og okkur, sem erum limir hans.

Read more »

08.06.06

  22:46:27, Skrásetjari: Sr. Denis O'Leary   , 79 orð  
Flokkur: Nokkrir gullmolar úr Tkk

Fegurð heimsins

32 "Spyrjið fegurð jarðarinnar,
spyrjið fegurð hafsins,
spyrjið fegurð loftsins sem þenst og blæs,
spyrjið fegurð himinsins…
spyrjið allt þetta.
Öll svara þau: “Sjáið hve fögur við erum.”

Fegurð þeirra er játning [confessio]. Þessar fegurðir eru háðar breytingum. Hver gerði þær ef ekki sá hinn Fagri [Pulcher] sem ekki er breytingum háður? 8
___

8 Hl. Ágústínus, Sermo 241, 2-PL 38, 1134.
___

Hérna er að finna Tkk.
http://mariu.kirkju.net/trufraedslurit/index.html

26.05.06

  23:38:03, Skrásetjari: Sr. Denis O'Leary   , 206 orð  
Flokkur: Dæmisögur og sögur II

Guð, ertu þarna?

Ein af uppáhaldssögum mínum um traust á Guð, er frásögn af manninum sem gekk eftir háum klettavegg. Til allrar óhamingju rann hann til og féll fram af klettabrúninni. Honum tókst þó að grípa í trjágrein. En þá gerði maðurinn sér grein fyrir því að hann gat ekki híft sjálfan sig upp og var smátt og smátt að missa takið. Fyrir neðan hann var hundrað metra fall!

Hann fór því að biðja ákaft:
"Guð, ertu þarna - þú verður að hjálpa mér?"

Maðurinn endurtók þetta í sífellu. Í fyrstu gerðist ekkert, en þá svaraði Guð og sagði: "Já, hvað viltu?"

"Guð, þú verður að hjálpa mér - en flýttu þér."

Og Guð svaraði: "Lofarðu að gera hvað sem ég bið þig um?"

"Já, auðvitað, en þú verður að flýta þér að hjálpa mér."

"Lofarðu í raun og veru að gera hvað sem ég bið um?"

"Já, hvað sem er - segðu mér bara hvað ég á að gera - en hjálpaðu mér?

"Allt í lagi", sagði Guði "Ef þú vilt að ég bjargi þér, slepptu þá takinu!"

17.05.06

  23:17:36, Skrásetjari: Sr. Denis O'Leary   , 179 orð  
Flokkur: Nokkrir gullmolar úr Tkk

MAÐURINN: ÍMYND GUÐS

1701. "Með því að opinbera leyndardóm Föðurins og kærleika hans sýnir Kristur… manninum hvað maðurinn er og leiðir í ljós háleita köllun hans." [2] Það er í Kristi "ímynd hins ósýnilega Guðs" [3] sem maðurinn er skapaður í "mynd og líkingu" skaparans. Það er í Kristi, endurlausnara og frelsara, að hin guðdómlega ímynd, afskræmd í manninum með frumsyndinni, hefur verið endurreist til sinnar upprunalegu fegurðar og hún göfguð af náð Guðs. [4]

1702. Hin guðlega ímynd er til staðar í hverjum manni. Hún skín fram í samfélagi persóna, í líkingu einingar meðal hinna guðdómlegu persóna (sbr. 2. kafli).

1703. Maðurinn, búinn "andlegri og ódauðlegri" sál, [5] er "sú eina af sköpuðum verum á jörðu sem Guð ákvarðaði í hennar eigin þágu." [6] Frá getnaði sínum á hann vísa eilífa sælu.

___

#2 GS 22.
#3 Kól 1:15; sbr. 2Kor 4:4.
#4 Sbr. GS 22.
#5 GS 14 § 2.
#6 GS 24 § 3.
___

Hérna er að finna Tkk.
http://mariu.kirkju.net/trufraedslurit/index.html

16.05.06

  22:47:09, Skrásetjari: Sr. Denis O'Leary   , 25 orð  
Flokkur: Til umhugsunar

Hið eina sem nauðsynlegt er til þess að hið illa sigri

Einhver sagði eitt sinn:

"Hið eina sem nauðsynlegt er
til þess að hið illa sigri,
er að gott fólk,
geri ekki neitt".

15.05.06

  23:21:34, Skrásetjari: Sr. Denis O'Leary   , 239 orð  
Flokkur: Bænir

Bæn til Maríu Stjörnu hafsins

María, Stjarna hafsins lít þú hingað til mín,
þar sem ég krýp frammi fyrir náðarhásæti þínu,
þar sem svo margir sem elska móðurhjarta þitt
hafa orðið aðnjótandi hinnar mestu náðar,
þar sem þú hefur aflað hryggum huggunar,
fátækum hjálpar, sjúkum heilbrigði, syndurum fyrirgefningar.

Kær móðir mín ég kem til þín með mínu mesta trúnaðartrausti.
Kraftaverkin mörgu sem gerst hafa fyrir bænarstað þinn, veita mér, vesælum syndara, bjargfasta von um að þú,
móðir miskunnarinnar, viljir líka hlýða á bæn mína.

Já, ég ákalla þig og bið, unaðslega móðir,
elskuverða Stjarna hafsins,
lát þú mig ekki fara héðan án bænheyrslu.

Þú getur hjálpað mér, því að þú er máttugust næst Guði,
þú ert fús til að hjálpa mér,
því að þú ert full kærleika til allra barna þinna.

Minnstu þess, miskunnsama móðir,
að aldrei hefur verið sagt að neinn,
sem leitað hefur verndar þinnar með trúnaðartrausti,
hafi farið bónleiður frá þér.
Ætti ég þá að vera fyrsti vansæli maðurinn
sem þú létir frá þér fara án bænheyrslu? Nei, nei, góða móðir.

Á þessum helga stað getur þú, fyrir máttuga fyrirbæn þína, aflað mér hjálpar í neyð minni og huggunar í kvöl minni. Amen.

14.05.06

  23:33:23, Skrásetjari: Sr. Denis O'Leary   , 118 orð  
Flokkur: Til umhugsunar

Hvers vegna ræður kirkjan til pílagrímsferða?

Kirkjan ræður til pílagrímsferða:

1. vegna þess, að það er kristinn siður, jafn gamall kirkjunni;

2. vegna þess, að þær veita mikla blessun, þegar þær eru framkvæmdar á réttan hátt.

Þegar á elstu tímum fóru kristnir menn pílagrímsferðir til þeirra staða, þar sem Jesús lifði og leið dauða, og sömuleiðis til legstað postulanna og píslarvottanna. Að vísu er Guð alstaðar nálægur og heyrir bænir okkar, hvar sem við biðjum hann, en á vissum helgum stöðum er honum það þóknanlegt að auðsýna okkur sérstaka náð. Slíkir staðir eru nefndir náðarstaðir.

05.05.06

  23:14:46, Skrásetjari: Sr. Denis O'Leary   , 70 orð  
Flokkur: Til umhugsunar

Liturinn á skrúðanum

Liturinn á skrúðanum hefur sérstaka merkingu.

Hvítt merkir sakleysi og andlegan fögnuð, (hátíðir Drottins, Guðsmóður, englanna, játendanna og meyjanna).

Rautt er litur elds og blóðs (hvítasunna, hátíðir píslarvottanna).

Grænt merkir von eilífs lífs (sunnudagarnir eftir þrettánda og hvítasunnu).

Fjólublátt merkir auðmýkt og iðrun (aðventan og fastan).

04.05.06

  22:34:09, Skrásetjari: Sr. Denis O'Leary   , 113 orð  
Flokkur: Bænir

Fagna þú, drottning himinsins, allelúja.

Fagna þú, drottning himinsins, allelúja.
Því að hann, sem þér veittist sú náð að ganga með, allelúja.
Hann er upprisinn, svo sem hann sagði, allelúja.
Bið þú Guð fyrir oss, allelúja.
Fagna þú og gleðst, heilaga María mey, allelúja.
Því að Drottinn er vissulega upprisinn, allelúja.

Látum oss biðja: Guð, þú sem af miskunn þinni hefur látið upprisu Sonar þíns, Drottins vors Jesú Krists verða heiminum til fagnaðar, unn oss þeirra náðar, að við sakir fyrirbæna hinnar heilögu meyjar, Móður hans, fáum að njóta fagnaðar eilífa lífsins. Fyrir hinn sama Krist, Drottin vorn. Amen.

03.05.06

  23:19:36, Skrásetjari: Sr. Denis O'Leary   , 333 orð  
Flokkur: Til umhugsunar

Hvernig hefur Guð látið menn vita að hann væri til?

Guð hefur látið menn vita, að hann væri til:
1. með hinum sýnilega heimi;
2. með rödd samviskunnar;
3. en einkum með yfirnáttúrlegri opinberun.

1. Hús getur ekki byggt sig sjálft. Miklu síður getur hin mikla alheimsbygging með sínum dásamlega útbúnaði hafa orðið til af sjálfu sér. Alvitur og almáttugur skapari hlýtur að hafa gjört hana. Þess vegna kemst heilög ritning svo að orði:

"Himnarnir segja frá Guðs dýrð og festingin kunngjörir verkin handa hans." (Sám.18,2).

"En spyr þú skepnurnar og þær munu kenna þér, fugla loftsins og þeir munu fræða þig, eða jörðina og hún mun svara þér og fiskar hafsins munu segja þér það: Hver þekkti ekki á öllu þessu, að hönd Drottins hefur gjört þetta." (Job.12,7).

"Heimskinginn segir í hjarta sínu: "Enginn Guð er til." (Sálm.13,I)

2. Í hverri mannssál er rödd, sem segir okkur hvað gott sé og hvað illt. Ef við gerum eitthvað gott hrósar hún okkur, en ef við höfumst eitthvað illt að ávítar hún okkur. Þessa rödd nefnum við samvisku. Við höfum eigi gefið okkur samviskuna sjálfir, og getum heldur eigi látið hana hætta að segja okkur til þó við vildum, að minnsta kosti ekki að fullu og öllu. Hvaðan kemur hún? Hún kemur frá Guði, sem hefir ritað lögmál sitt í hjörtu okkar manna. Þess vegna segir hl. Páll postuli um heiðingjana:

"Þeir sýna, að verk lögmálsins er ritað í hjörtum þeirra, með því að samviska þeirra ber vitni." (Róm.2,15)

3. Í opinberuninni fáum við fullkomna þekkingu á Guði, þess vegna segir hl. Jóhannes guðspjallamaður:

"Enginn hefur nokkurn tíma séð Guð. Sonurinn eingetni, sem er í skauti Föðurins hefur lýst honum." (Jóh. I,18).

Guð hefur staðfest opinberunina með óteljandi kraftaverkum.

  00:06:33, Skrásetjari: Sr. Denis O'Leary   , 112 orð  
Flokkur: Nokkrir gullmolar úr Tkk

SAMVISKAN

1776. "Djúpt í samvisku sinni uppgötvar maðurinn lögmál sem hann hefur ekki sett sér sjálfur en er knúinn til að fylgja. Rödd þess, sem ætíð hvetur hann til að elska og að gera það sem gott er og forðast hið illa, hljómar í hjarta hans þegar þess er þörf…. Því maðurinn hefur í hjarta sér lögmál ritað af Guði…. Samviskan er leyndasti kjarni mannsins og helgidómur hans. Þar er hann einn með Guði sem lætur rödd sína óma í djúpum hans." [47]

___

47 GS 16.
___

Hérna er að finna Tkk.
http://mariu.kirkju.net/trufraedslurit/index.html

01.05.06

  23:11:03, Skrásetjari: Sr. Denis O'Leary   , 193 orð  
Flokkur: Nokkrir gullmolar úr Tkk

Trú og vísindi

159. (283, 2293) Trú og vísindi: “Enda þótt trúin sé ofar skynseminni getur aldrei verið um að ræða neitt raunverulegt ósamræmi milli trúar og skynsemi. Úr því að það er hinn sami Guð sem setur í mannlegan huga ljós skynseminnar og opinberar leyndardóma og gefur trúna, getur Guð ekki afneitað sjálfum sér, og sömuleiðis getur sannleikur ekki andmælt sannleika.” [37] “Kerfisbundin rannsókn á öllum sviðum þekkingar, sé hún gerð á sannan vísindalegan hátt og virðir grunnreglur siðferðis, getur aldrei strítt á móti trúnni vegna þess að það sem heyrir til heiminum og það sem heyrir til trúnni á rætur að rekja til hins sama Guðs. Sá sem er auðmjúkur og þolinmóður í rannsóknum sínum á leyndarmálum náttúrunnar er á vissan hátt, þrátt fyrir hvað hann sjálfur gerir, svo að segja undir handleiðslu Guðs, því það er Guð, verndari allra hluta, sem gerði þá að því sem þeir eru.” [38]
__

37 Dei Filius 4: DS 3017.
38 GS 36 § 1.
__

Hérna er að finna Tkk.
http://mariu.kirkju.net/trufraedslurit/index.html

26.04.06

  23:11:49, Skrásetjari: Sr. Denis O'Leary   , 510 orð  
Flokkur: Nokkrir gullmolar úr Tkk

LEIÐIR TIL AÐ KOMAST TIL ÞEKKINGAR Á GUÐI

31. Sköpuð í mynd Guðs og kölluð til að þekkja hann og elska uppgötvar sú persóna sem leitar Guðs vissar leiðir til að komast til þekkinga á honum. Þær eru einnig kallaðar sannanir fyrir tilveru Guðs, ekki að þær séu sannanir líkt og fást í náttúruvísindum, heldur í merkingu “samstæðra og sannfærandi röksemda” sem gera okkur kleift að öðlast vissu um sannleikann. Þessar “leiðir” til að nálgast Guð í sköpunarverkinu hafa tvo útgangspunkta: efnisheiminn og hina mannlegu persónu.

32. (54, 337) Heimurinn: út frá hreyfingu, tilurð, óvissu og skipulagi og fegurð heimsins getur maður komist til þekkingar á Guði sem upphaf og sem endir alheimsins. Eins og heilagur Páll segir um heiðingjanna: Það, er vitað verður um Guð, er augljóst á meðal þeirra. Guð hefur birt þeim það. Því að hið ósýnilega eðli hans, bæði hans eilífi kraftur og guðdómleiki, er sýnilegt frá sköpun heimsins, með því að það verður skilið af verkum hans. [7] Og heilagur Ágústínus varpar fram þessari áskorun: Spyrjið fegurð jarðarinnar, spyrjið fegurð hafsins, spyrjið fegurð loftsins sem þenst og blæs, spyrjið fegurð himinsins… spyrjið allt þetta. Öll svara þau: “Sjáið hve fögur við erum.” Fegurð þeirra er játning [confessio]. Þessar fegurðir eru háðar breytingum. Hver gerði þær ef ekki sá hinn Fagri [Pulcher] sem ekki er breytingum háður? [8]

33. (1730, 2500, 1776, 1703, 366) Hin mannlega persóna: Í einlægni gagnvart sannleika og fegurð, í skynjun sinni fyrir því sem er siðferðilega rétt, í frelsi sínu og fyrirrödd samvisku sinnar, í löngun sinni eftir hamingjunni og því óendanlega, spyr maðurinn sjálfan sig um tilveru Guðs. Í öllu þessu greinir hann merki um sína andlegu sál. Sálin, sem er “frjókorn eilífðarinnar er við berum í okkur og er óumbreytanleg gagnvart því sem er efnislegt,” [9] getur einungis átt uppruna sinn í Guði.

34. (199) Heimurinn og maðurinn bera vott um það að hvorugir geyma þeir í sér upphaf sitt eða endalok en að þeir eigi hlut í Verunni sjálfri sem ein á hvorki uppruna né endi. Á þennan hátt, eftir ólíkum leiðum, getur maðurinn komist til þekkingar á því að til er veruleiki sem er frumorsök og endimark allra hluta, veruleiki “sem allir kalla Guð”. [10]

35. (50, 159) Skilningarvit mannsins gerir honum kleift að komast til þekkingar á tilveru hins persónulega Guðs. En Guð vildi opinbera sig manninum til að hann gæti gengið til náins samneytis við sig og hann gaf honum náðina til að taka á móti þessari opinberun í trú. Sönnun fyrir tilveru Guðs getur eigi að síður vakið manninn til trúar og hjálpað honum að sjá að trúin stríðir ekki gegn skynseminni.
__

7 Rm 1:19-20; sbr. P 14:15, 17; 17:27-28; SS 13:1-9.
8 Hl. Ágústínus, Sermo 241, 2..PL 38, 1134.
9 GS 18 § 1; sbr. 14 §2.
10 Hl. Tómas frá Akvínó, STh 1, 2, 3.

__

Hérna er að finna Tkk.
http://mariu.kirkju.net/trufraedslurit/index.html

  22:55:05, Skrásetjari: Sr. Denis O'Leary   , 446 orð  
Flokkur: Nokkrir gullmolar úr Tkk

Skilningur á Ritningunni

115. Samkvæmt fornum trúarhefðum má hafa tvenns konar skilning á Ritningunni: bókstaflegan og andlegan. Sá andlegi greinist í allegórískan, siðferðilegan og anagógískan skilning. Hið djúpstæða samræmi sem er á milli þessara fjögurra skilninga tryggir hinni lifandi túlkun Ritningarinnar í kirkjunni alla auðlegð þeirra.

116. (110-114) Hinn bókstaflegi skilningur. Hann er merkingin sem orð Ritningarinnar hafa og biblíuskýrendur uppgötva eftir sönnum túlkunarreglum: “Allur annar skilningur á Heilagri Ritningu byggist á hinu bókstaflega.” [83]

117. (1101) Hinn andlegi skilningur. Þar eð fyrirætlun Guðs er ein, er það ekki einvörðungu texti Ritningarinnar sem getur verið tákn, heldur einnig þeir raunveruleikar og þeir atburðir sem hann fjallar um. 1. Hinn allegóríski skilningur. Við getum öðlast dýpri skilning á atburðum með því að þekkja merkingu þeirra í Kristi; þannig er gangan í gegnum Rauðahafið tákn um sigur Krists og einnig um kristna skírn. [84] 2. Hinn siðferðilegi skilningur. Atburðirnir sem Ritningin segir frá ætti að fá okkur til að breyta rétt. Eins og heilagur Páll segir voru þeir ritaðir “til viðvörunar oss”. [85] 3. Hinn anagósíski skilningur (gríska: anagoge, “leiðandi”). Við getum skoðað allan raunveruleika og atburði í ljósi eilífrar merkingar þeirra, að þeir leiði okkur í átt að sönnu föðurlandi okkar: þannig er kirkjan á jörðu tákn um hina himnesku Jerúsalem. [86]

118. Tvíhenda frá miðöldum dregur saman merkingu hinna fjögurra skilninga: Bókstafurinn talar um gjörðirnar; allegórían um hvað skal trúa; Hið siðferðilega um breytnina; anagógían um hlutskipti okkar. [87]

119. (94, 113) “Það er hlutverk biblíuskýrenda að starfa í samræmi við þessar reglur til að auka skilning og skýra betur merkingu Heilagrar Ritningar þannig að rannsóknir þeirra aðstoði kirkjuna við að kveða upp fastmótaðri dóma. Því að allt sem hefur með túlkun Ritningarinnar að gera er að endingu háð dómi kirkjunnar en hjá henni er hið guðdómlega umboð og þjónusta að hafa eftirlit með Orði Guðs og túlka það.” [88] Ég tryði ekki á guðspjallið hefði myndugleiki kaþólsku kirkjunnar ekki fengið mig til þess. [89]

______

83 Hl. Tómas frá Akvínó, Sth I, 1, 10, ad 1.
84 Sbr. 1Kor 10:2.
85 1Kor 10:11; sbr. Heb 3-4:11.
86 Sbr. Opb 21:1-22:5.
87 Lettera gesta docet, quid credas allegoria, moralis quid agas, quo tendas anagogia. Ágústínus frá Dacia, Rotulus pugillaris, I: útg. A. Walz: Angelicum 6 (1929) 256.
88 DV 12 § 3.
89 Hl. Ágústínus, Contra epistolam Manichaei, 5, 6: PL 42, 176.

______

Hérna er að finna Tkk.
http://mariu.kirkju.net/trufraedslurit/index.html

25.04.06

  16:30:06, Skrásetjari: Sr. Denis O'Leary   , 169 orð  
Flokkur: Til umhugsunar

“Ég hef mína barnatrú!”

Oft gerist það að fólk sem fann sterkan kærleika til Guðs sem börn, kemst að því sem fullorðið fólk að Guð er ekki lengur mikilvægur. Það sem gerist er að skilningur einstaklingsins á Guði vex ekki og þroskast í samræmi við hærri aldur. Þegar maðurinn nær svo fullorðinsaldri hefur hann enn hugmynd barnsins um Guð í huga sér og heldur að Guð sé einungis fyrir börn.

Heilagur Páll postuli segir: "Þegar ég var barn, talaði ég eins og barn, hugsaði eins og barn og ályktaði eins og barn. En þegar ég var orðinn fulltíða maður, lagði ég niður barnaskapinn."

Við verðum að biðja Guð um að skilningur okkar á honum vaxi og þroskist. Sem fullorðnir einstaklingar eigum við að leggja barnslegar hugmyndir um Guð til hliðar og setja þroskaðar hugmyndir í þeirra stað. Því Guð er einnig mikilvægur fyrir okkur fullorðna fólkið!

24.04.06

  22:39:14, Skrásetjari: Sr. Denis O'Leary   , 125 orð  
Flokkur: Til umhugsunar

Til hvers erum við hér á jörðunni?

Við erum hér á jörðunni til þess að þekkja Guð, elska hann og þjóna honum, þ.e.a.s. að við erum hér á jörðunni til þess að gera Guðs heilagan vilja; og komast á þann hátt til himnaríkis.

Einasta markmið okkar er: Að komast til himnaríkis, til Guðs, Föður vors.

Það var einmitt það, sem Frelsari okkar átti við, þegar hann sagði við Mörtu: "Eitt er nauðsynlegt" (Lúk. 10,42), og þegar hann sagði við lærisveina sína: "Því að hvað mun það stoða manninn, þótt hann vinni allan heiminn, en bíði tjón á sál sinni " (Matt. 16,26).

Vegurinn að þessu markmiði er að gera Guðs vilja.

  00:33:05, Skrásetjari: Sr. Denis O'Leary   , 23 orð  
Flokkur: Til umhugsunar

Biðjið eins og allt sé háð Guði en starfið eins og allt sé háð ykkur

"Biðjið eins og allt sé háð Guði en starfið eins og allt sé háð ykkur."
Eignað hl. Ignatíusi frá Loyola.

  00:08:37, Skrásetjari: Sr. Denis O'Leary   , 74 orð  
Flokkur: Bænir

TIL HEILAGS JÓSEFS

Heilagur Jósef,
bið þú með oss fyrir söfnuði vorum,
að Guð gefi oss lifandi og sterka trú;
að vér störfum og stöndum saman í kærleika;
að allir þeir, sem tilheyra söfnuði vorum fyllist áhuga
og vilja til að sækja heilaga messu
og taka þátt í safnaðarlífinu,
svo að vér megum bera fagnaðarboðskap Krists verðugt vitni
í orðum og gerðum. Amen.

12.04.06

  21:56:20, Skrásetjari: Sr. Denis O'Leary   , 276 orð  
Flokkur: Dæmisögur og sögur II

Við þörfnumst Jesú

Einu sinni var prestur sem fór til Suður[-Ameríku sem haf]ði mikinn áhuga á að hjálpa fátækum. Hann hafði fjárhagslega burði til að létta oki fátæktarinnar og hungursins af fólkinu þar.

Þegar hann kom til Suður-Ameríku fór hann að byggja læknastofur og skóla. En, eftir tíu ár tók hann eftir því að mörg sóknarbarna hans hættu að koma til hans.

Dag einn kvartaði hann við einn af gömlu mönnunum, mjög trúfastan mann sem var alltaf nærri kirkjunni og hjálpaði prestinum. Gamli maðurinn leit á hann með tárin í augunum og sagði, "Faðir, ég vil ekki særa þig, en ég verð að segja þér. Þú færðir okkur mikið af góðum hlutum. Þú hefur unnið mjög mikið, en þú færðir okkur ekki Jesú og við þörfnumst Jesú."

Presturinn sagði, "Ég skammaðist mín. Það var þá sem ég skildi að ég hafði ákveðið að gefa þeim allt sem þeir þyrftu fyrir líkama sinn. En ég var svo upptekinn að ég las ekki messu. Ég hafði ekki tíma. Það [þurfti a]ð fæða þetta fólk. Það var svangt. Samt sýndi Drottinn mér, með þessu sama fólki sem ég hafði eytt öllum mínum kröftum fyrir, að það þurfti meira en efnislega hluti".

Presturinn hafði gleymt að Jesús sagði, "Eigi lifir maðurinn á einu saman brauði, heldur á hverju orði því sem gengur af Guðs munni."

11.04.06

  22:28:06, Skrásetjari: Sr. Denis O'Leary   , 195 orð  
Flokkur: Dæmisögur og sögur II

Hvað ættum við ekki að gera fyrir okkar konung?

Sú saga er sögð af her Napóleons að eitt sinn varð hann fyrir árás og varð að hörfa í skyndi. Herinn varð að fara [þar sem br]ýrnar höfðu verið eyðilagðar. Napóleon gaf skipun um að einhvers konar brú yrði að reisa samstundis.

Hermennirnir sem næstir voru ánni hófu strax hið nánast óvinnandi verk. Þungur straumurinn þreif suma þeirra með sér og aðrir drukknuðu sökum kulda og örmögnunar. En í hvert skipti sem það gerðist komu aðrir hermenn í þeirra stað og héldu áfram verkinu. Loks var brúin tilbúin og her Napóleons fór heilu og höldnu yfir brúna.

Þegar Napóleon skipaði mönnunum sem höfðu reist brúna að koma upp úr vatninu, hreyfði enginn þeirra sig. Þeir voru fastir og hreyfingarlausir við brúarstöplana. Þeir höfðu frosið til dauða. Jafnvel Napóleon felldi tár.

Ef þessir menn voru reiðubúnir að leggja slíkt á sig fyrir jarðneskan konung, hvað ættum við ekki að gera fyrir okkar konung konunganna?

10.04.06

  14:56:12, Skrásetjari: Sr. Denis O'Leary   , 435 orð  
Flokkur: Dæmisögur og sögur II

Saga um ríkan mann

Til er saga um ríkan mann sem bjó á stórri jörð. Hann varði miklum tíma á degi hverjum, til þess að horfa út um glugga á stórhýsi sýnu og virða fyrir sér dalinn sem hann átti. En hann trúði ekki á Guð. Hvers vegna skyldi hann gera það, hann sem var ríkasti maðurinn í dalnum?

Við innganginn að landareign hans bjó hliðvörður hans sem hét Jóhann. Jóhann þessi átti ekki mikla peninga, en hann trúði á Guð og fór í kirkju á hverjum sunnudegi með fjölskyldu sinni. Jóhann átti sjaldan frí en hann gat alltaf gefið sér tíma til þess að hjálpa því fólki á svæðinu, sem var hjálpar þurfi. Hann notaði kunnáttu sína í garðyrkju, trésmíði og öðru handverki til þess að liðsinna öðrum.

Dag einn var barið að dyrum ríka mannsins og þegar hann lauk þeim upp, stóð Jóhann fyrir utan. Jóhann sagði honum, að hann hefði dreymt draum nóttina áður og í draumnum hefði Guð talað til hans og sagt að á miðnætti í nótt myndi ríkasti maður dalsins deyja. Ríki maðurinn hló við og sagði að hann tryði ekki á drauma. Jóhann hélt þá til vinnu sinnar.

Ríki maðurinn hafði hlegið að Jóhann, en hann get ekki vikið orðum hans úr huga sér: "Ríkasti maðurinn í dalnum mun deyja á miðnætti í nótt". Til þess að hafa allt á hreinu fór hann í læknisskoðun um kvöldið. Læknirinn kvað upp þann úrskurð, að ríki maðurinn væri við góða heilsu og myndi sennilega lifa að minnsta kosti tuttugu ár til viðbótar. Ríki maðurinn varð svo feginn þessum orðum, að hann bauð lækninum heim með sér til kvöldverðar. Læknirinn kom og fór ekki úr húsi hans fyrr en stundarfjórðung eftir miðnætti. Og ríki maðurinn var glaður að vera enn á lífi!

En nokkru eftir að læknirinn var farinn, var barið að dyrum og þegar ríki maðurinnn lauk þeim upp sá hann dóttur Jóhanns standa þar og gráta. Hún sagði honum að faðir hennar hefði dáið á miðnætti!

Jesús segir: "Til eru síðastir, er verða munu fyrstir og til eru fyrstir er verða munu síðastir".

09.04.06

  22:56:01, Skrásetjari: Sr. Denis O'Leary   , 115 orð  
Flokkur: Dæmisögur og sögur II

Verið vakandi!

Til er saga af fólki, sem kom til gamals og viturs munks og spurði hann: "Hvað getum við gert, til að nálgast Guð?"

Hinn vitri munkur svaraði með spurningu:
"Hvað getið þið gert, til að sólin rísi?"

Fólkið svaraði: "Við getum ekkert gert, til að sólin rísi".

Eftir þetta varð nokkur þögn, þar til fólkið sagði: "En ef það er raunin, því haldið þið munkarnir áfram að segja okkur, að biðjast fyrir, aftur og aftur?"

Munkurinn brosti og svaraði: "Við munkarnir hvetjum ykkur til að biðjast stöðugt fyrir, svo að þið verðið vakandi, þegar sólin rís!"

08.04.06

  19:23:39, Skrásetjari: Sr. Denis O'Leary   , 136 orð  
Flokkur: Dæmisögur og sögur II

Fyrirgefning er ekki nóg

Einu sinni var strákur að spila fótbolta. Hann sparkaði boltanum sem lenti á glugganum mínum og glugginn brotnaði. Hann bankaði upp á hjá mér og sagðist vera leiður og sjá eftir þessu. Ég fyrirgaf honum og hann hélt leiðar sinnar með boltann.

Þegar ég kom inn aftur sá ég brotinn gluggann og öll glerbrotin. Ég spurði sjálfan mig: "Hver ætlar að borga fyrir nýtt gler í gluggann?"

Átti ég að borga? Nei.

Átti strákurinn að gera það? Já. Það var hann sem braut gluggann, ekki ég. Þannig að hann átti að borga.

Jafnvel þótt strákurinn hafi hlotið fyrirgefningu þá er það ekki nóg. Fyrirgefningin er mikilvæg, en hún lagar ekki gluggann. Fyrirgefning er góð en hún er ekki nóg.

07.04.06

  10:28:57, Skrásetjari: Sr. Denis O'Leary   , 158 orð  
Flokkur: Dæmisögur og sögur II

Leið smáblómsins

Í sjálfsævisögu sinnar „Saga sálar“ segir Heilög Teresía frá Lisieux okkur hvað gerðist þegar hún sagði föður sínum frá því í fyrsta skipti að hún vildi gerast Karmelnunna.

Þau voru ein í garðinum. Þegar hún sagði honum hvað henni lá á hjarta gekk hann að lágum steinveggi og sýndi Teresu hvít smáblóm sem uxu þar. Hann tók eitt þeirra og gaf Teresu. Hann útskýrði fyrir henni með hve mikilli umhyggju Guð hefði látið það vaxa og blómgast. Teresa gerði sér ljóst að þetta var nákvæmlega það sem Guð var að gera við hana.

Teresa virti blómið vandlega fyrir sér. Það hafði enn ræturnar svo það gat lifað áfram á öðrum stað.

Leið blómsins var leið Teresu sjálfrar og hún blómgaðist svo sannarlega á „Karmelfjallinu“.

06.04.06

  10:06:47, Skrásetjari: Sr. Denis O'Leary   , 39 orð  
Flokkur: Dæmisögur og sögur II

Jóhannes XXIII

Til er saga sem sögð var um Jóhannes páfa tuttugasta og þriðja.

Eitt sinn var hann spurður að því hve margt fólk ynni í Vatíkaninu.

Páfi svaraði: "Svona um helmingur þeirra!"

05.04.06

  10:37:02, Skrásetjari: Sr. Denis O'Leary   , 209 orð  
Flokkur: Dæmisögur og sögur II

Hann var leiður á sífelldu tali um kross Jesú

Einu sinni, sagði maður nokkur frá því, að dag einn hafi hann átt tal við vin sinn um trúmál. Segist hann að lokum hafa sagt við þennan vin sinn, að hann væri orðinn leiður á þessu sífellda tali um kross Jesú, enda skildi hann það alls ekki.

En um nóttina dreymdi hann að hann væri á leiðinni heim til konu sinnar, sem hann þó vissi í svefninum, að var dáin. Hann kom að djúpu sýki. Hinum megin við sýkið sá hann konuna sína. En hann hafði engin ráð til að komast til hennar yfir sýkið. Hvað ætti hann að gera?

Þá sér hann að hún bendir og heyrir hana kalla: „krossinn, krossinn!“

Þá sér hann á bakkanum skammt frá sér liggja krosstré. Hann gengur að því, reisir það upp og lætur það síðan falla yfir sýkið. Hann gengur yfir það og fellur í faðm konu sinnar.

Draumurinn varð ekki lengri. Frá þeirri stundu segir maðurinn, að hann hafi skilið, að ekkert nema sú trú, sem byggir á Jesú Kristi krossfestum og upprisnum, geti hjálpað sér til þess að ná fundi konunnar sinnar, handan við gröf og dauða.

04.04.06

  20:15:06, Skrásetjari: Sr. Denis O'Leary   , 145 orð  
Flokkur: Dæmisögur og sögur II

Guð biður okkur að gera heiminn betri

Dag einn kom kennari með skæri með sér inn í kennslustofuna. Hún sagði að sig langaði til að tala um Guð og fólk. Hún skrúfaði skærin sundur og tók annan hlutann sér í vinstri hönd og hinn í hægri, hélt þeim á lofti og sagði:

"Sjáið þið, hálf skæri gera ekkert gagn. En þegar ég skrúfa helmingana aftur saman verða úr þeim skæri sem geta gert mikið gagn og klippt marga metra af efni."

Eins er, með Guð og okkur, fólkið hans. Með okkar hjálp, vill hann koma blessun sinni til skila til alls fólksins í heiminum, sem hann elskar. Hann hefur falið okkur að gæta heimsins. Hann biður okkur um að nota huga okkar og hönd til að gera heiminn betri.

03.04.06

  11:13:03, Skrásetjari: Sr. Denis O'Leary   , 125 orð  
Flokkur: Dæmisögur og sögur II

Hvað myndir þú segja?

Saga er sögð um mann, sem var týndur í eyðimörk. Seinna, þegar hann var að lýsa því sem gerðist fyrir vini sínum, þá lýsti hann því hverning hann kraup á kné og bað Guð að hjálpa sér.

"Og hjálpaði Guð í raun og veru?" spurði vinur hans.

"Nei, nei, alls ekki. Áður en hann gat hjálpað mér, kom landkönnuður og sýndi mér leiðina."

* Sumir munu segja að það hafi verið tilviljun að landkönnuðurinn kom á þessum tíma.

* En aðrir, munu segja að Guð hafi á sinn hátt komið því þannig fyrir að landkönnuðurinn rakst á týnda manninn, svo sem af tilviljun.

* Hvað myndir þú segja?

  00:08:00, Skrásetjari: Sr. Denis O'Leary   , 269 orð  
Flokkur: Dæmisögur og sögur II

Að finna það bænaform sem hentar best

Til er falleg saga um biskup í trúboðslandi.

Þar sem þessi biskup var trúboði þurfti hann að ferðast mikið með skipi til að heimsækja hinar ýmsu sóknir. Dag einn, stöðvaði skipið hjá fjarlægri eyju. Biskupinn ákvað að nýta tímann vel og fór í land. Hann gekk eftir ströndinni og hitti þar þrjá fiskimenn, sem voru að hreinsa net sín. Þeir sögðu biskupinum að hundrað árum áður hefðu trúboðar kristnað eyjaskeggja og þess vegna spurði biskupinn þá hvort þeir gætu beðið Faðirvorið.

„Nei!“, sögðu þeir.

„Hvernig biðjið þið þá?“, spurði biskupinn.

„Þegar við biðjum, segjum við við Guð: „Við erum þrír, þú ert þrír, miskunna þú okkur.“

Biskupinn ákvað að þetta væri ekki nógu gott. Og þess vegna hóf hann að kenna þeim Faðirvorið. Þeir voru lengi að læra það en að lokum kunnu þeir það utanbókar.

Mánuðum seinna varð biskupinn að ferðast á ný til hinnar ýmsu sóknar, af því að hann var ennþá trúboði. Í þetta sinn kom skipið ekki við á eyju fiskimannanna þriggja. Biskupinn stóð uppi á þilfari og leit til eyjarinnar. Þá sá hann skyndilega hvar fiskimennirnir þrír komu gangandi á sjónum, í átt að skipinu. Biskupinn trúði varla sínum eigin augum. Það gerði skipsstjórinn ekki heldur og stöðvaði skipið.“

„Biskup“, sögðu fiskimennirnir þrír; „Við sáum að skip þitt sigldi hjá og flýttum okkur til að biðja þig um svolítið. „Við höfum gleymt Faðirvorinu, getur þú kennt okkur það aftur.“

En í stað þess, að kenna þeim bænina aftur, svaraði biskupinn:

„Farið aftur heim kæru vinir og í hvert sinn sem þið biðjið skuluð þið segja: „Við erum þrír, þú ert þrír, miskunna þú okkur.

01.04.06

  22:18:10, Skrásetjari: Sr. Denis O'Leary   , 211 orð  
Flokkur: Dæmisögur og sögur II

Ljósið sem hún kveikti í lífi mínu logi ennþá

Eitt sinn heimsótti Móðir Teresa gamlan mann, en enginn virtist hafa hugmynd um að hann væri til. Herbergið sem maðurinn bjó í var í algjörri óreiðu. Þar hafði ekki verið þrifið árum saman. Ekkert rafmagn var þar og gluggarnir voru huldir, þannig að maðurinn var í stöðugu myrkri.

Móðir Teresa fór að þrífa og taka til. Í fyrstu mótmælti maðurinn, en hún hélt áfram og þegar hann sá breytinguna, leyfði hann henni að halda áfram.

Skyndilega fann Móðir Teresa olíulampa. Hún tók hann upp, þreif hann og lagaði, setti olíu á hann og...

"Nei, ekki kveikja á honum!", hrópaði maðurinn.

"Hvers vegna ekki?" spurði Móðir Teresa.

"Vegna þess að ég kann vel við myrkrið og enginn kemur nokkurn tíma að heimsækja mig."

"En ef nokkrar systranna minna koma að heimsækja þig, viltu þá kveikja á honum?"
"Já, það skal ég gera", svaraði maðurinn.

Og svo fóru systurnar að heimsækja manninn og þá var kveikt á lampanum. Nokkrum mánuðum seinna sendi maðurinn þessi skilaboð til Móður Teresu: "Segið henni að ljósið, sem hún kveikti í lífi mínu, logi ennþá."

31.03.06

  21:24:51, Skrásetjari: Sr. Denis O'Leary   , 225 orð  
Flokkur: Dæmisögur og sögur II

Koma Krists færði þeim frið og góðvild

Jólakvöld, árið 1914, á fyrsta ári heimsstyrjaldarinnar fyrri, lagðist einkennileg kyrrð yfir vesturvígstöðvarnar. Hermennirnir í einni skotgröfinni voru að tala um það hvað þeir væru að gera ef þeir væru heima hjá fjölskyldum sínum um jólin.

Eftir svolitla stund heyrðu þeir söng óma frá óvinaskotgröfunum. Allir hlustuðu. Þetta var jólasálmur! Þegar honum var lokið fóru þessir hermenn líka að syngja jólasálm. Seinna þegar hópur hermanna fór að syngja sálminn "Hljóða nótt", tóku andstæðingarnir undir og hundruðir radda sungu saman á tveimur tungumálum!

"Einhver er að koma!" hrópaði hermaður. Og það reyndist rétt. Hermaður úr óvinahernum var að koma. Hann gekk mjög hægt, veifaði hvítum klút með annari hendinni en hélt á súkkulaðistykkjum í hinni. Hægt og rólega fóru menn að koma upp úr skotgröfunum og heilsa hver öðrum. Þeir deildu með sér súkkulaðinu og tóbaki. Þeir fóru að sýna myndir af ástvinum sínum heima. Þeir skipulögðu meira að segja fótboltaleik.

Þetta jólakvöld var það koma Krists sem megnaði að færa þessum hermönnum frið og góðvild hver í annars garð.

30.03.06

  21:29:16, Skrásetjari: Sr. Denis O'Leary   , 230 orð  
Flokkur: Dæmisögur og sögur II

Hvers vegna skildu svo fáir Jesú?

Til er saga um mann sem kom í heimsókn til klausturs nokkurs.

Gesturinn spurði einn munkanna þessarar spurningar: "Hvers vegna skildu svo fáir Jesú? Farísearnir og fræðimennirnir voru stöðugt á móti honum. Lærisveinar hans virtust oft ruglaðir á kenningu hans. Og enn aðrir álítu hann haldinn illum anda. Jafnvel nokkrir í hans eigin fjölskyldu höfðu áhyggjur af andlegri heilsu hans."

Hinn aldni og hyggni munkur hugsaði sig um eitt augnablik, en svaraði síðan:

"Eitt sinn voru brúðhjón sem réðu bestu tónlistarmenn landsins til að leika í brúðkaupsveislunni sem haldin var á lóð hótels nokkurs. Tónlistarmennirnir léku og allir dönsuðu.

Einmitt þá óku tveir menn framhjá. Gluggar bílsins voru lokaðir og útvarpið var hátt stillt. Mennirnir gátu ekki heyrt tónlistina sem barst frá lóð hótelsins. Allt og sumt sem þeir sáu, var fólk sem hoppaði um og hegðaði sér einkennilega.

"Hvílíkt samsafn fáráðlinga" sagði annar maðurinn við hinn þegar þeir óku framhjá. "Þau hljóta að vera brjáluð öll saman."

Munkurinn stoppaði augnablik en sagði svo: "Þetta er sú niðurstaða sem sumt fólk kemst að þegar það heyrir ekki tónlistina, sem annað fólk dansar við."

29.03.06

  09:36:39, Skrásetjari: Sr. Denis O'Leary   , 420 orð  
Flokkur: Dæmisögur og sögur II

Hvers vegna varð Guð maður eins og við?

Einu sinni var maður sem elskaði dýrin mjög, en hafði ekki mikinn tíma fyrir Guð. Einkanlega átti hann erfitt með að skilja allt það sem fólk gerði á jólunum. Hann gat ekki skilið hvernig Guð gerðist maður. Þess vegna fór hann aldrei í kirkju, ekki einu sinni á jólum. En um síðustu jól gerðist eitthvað sérstakt sem breytti öllu lífi hans. Guð veitti honum sérstaka náð, náð sinnaskipta. Og þannig gerðist það.

Það var áliðið jólanótt og fjölskylda mannsins var farin til miðnæturmessu í kirkjunni. Hann var einn í húsinu. Veðrið hafði verið stillt en skyndilega skall á snjó stormur. Eftir smástund heyrðist einkennilegur hávaði við útidyrnar. Maðurinnleit út um gluggan og sá að nokkrir fuglar voru að reyna að leita skjóls undan storminum.

Þar sem honum þótti vænt um dýrin fann hann til með þeim og velti fyrir sér hvernig hann gæti hjálpað þeim. Hann ákvað að fara út um bakdyrnar og opna bílskúrsdyrnar. Hlýtt var í bílskúrnum og þar myndu fuglarnir vera öruggir. Hann fór út, opnaði bílskúrsdyrnar og fór aftur inn í húsið. Er hann leit aftur út um gluggann varð hann fyrir vonbrigðum því fuglarnir höfðu ekki hreyft sig.

Af því að hann unni dýrum, gafst hann ekki upp. En hvað átti hann að taka tilbragðs? Þá datt honum í hug að setja fugla fræ í bílskúrinn. Að því loknu kom hann aftur til þess að sjá hvað gerast myndi, en hann varð enn fyrir miklum vonbrigðum þar sem fuglarnir höfðu enn ekki hreyft sig. Kuldinn var farinn að sverfa að þeim.

En hvað gat maðurinn gert til þess að hjálpa þeim? Í þeirri von að fuglarnir færu yfir í bílskúrinn opnaði maðurinn dyrnar varlega. En hvað gerðist? Þegar hann opnaði dyrnar flugu fuglarnir auðvitað hver í sína áttina en enginn í bílskúrinn.

Maðurinn sagði þá í algerri örvæntingu: "Ef ég gæti nú bara orðið fugl eins og þeir í smástund gæti ég sýnt þeim leiðina til öryggis."

Á því augnabliki hringdu kirkjuklukkurnar og maður þessi áttaði sig skyndilega á því hvers vegna Guð varð sú sköpun sem hann skapaði - hvers vegna Guð varð maður eins og við.

28.03.06

  18:16:28, Skrásetjari: Sr. Denis O'Leary   , 74 orð  
Flokkur: Dæmisögur og sögur II

Verið ávallt glaðir í Drottni!

Þegar heilagur Tómas More var að ganga upp þrepin til aftöku staðarins þá bauðst böðulinn til þess að aðstoða hann.

Tómas svaraði: "Ég er einfær um að komast upp. En vel kann að vera að ég þurfi á hjálp að halda við að komast aftur niður!"

"Verið ávallt glaðir í Drottni. Ég segi aftur: Verið glaðir." BRÉF PÁLS TIL FILIPPÍMANNA 4:4

1 2 ...3 5 7

Sr. Denis O'Leary

Séra Denis O'Leary er sóknarprestur við Maríukirkju í Breiðholti.

Leit

  XML Feeds

blogging software