Blaðsíður: 1 ... 9 10 11 12 13 14 ...15 ...16 17 18 20

25.01.06

  23:02:06, Skrásetjari: Jón Rafn Jóhannsson, 452 orð  
Flokkur: Bænalífið

Bæn Leós páfa XIII.

Það var þann 13. október árið 1864 sem Leó páfa XIII. opinberaðist í sýn 100 ára tímaskeið þar sem vald Satans næði hámarki. Þetta tímaskeið var tuttugasta öldin. Páfinn hné skyndilega niður eftir að hafa sungið heilaga messu og missti meðvitund. Viðstaddir töldu hann hafa fengið hjartaáfall eða slag. Að dágóðri stund liðinni eftir að hann tók að jafna sig sagði hann nærstöddum, að sér hefði brugðið svo mjög þegar hann sá alla þá tortímingu siðrænna og trúarlegra gilda sem ríða myndi yfir heimsbyggðina: „Hversu skelfileg var ekki þessi sýn sem bar mér fyrir augu.“ Eftir þetta atvik samdi hann sérstaka bæn og ákall til erkiengilsins Mikjáls sem hann bauð öllum prestum að biðja í lok sérhverrar messu:

Heilagur Mikjáll erkiengill! Veittu okkur vernd í átökunum miklu. Veittu okkur vernd gegn slægð og snörum djöfulsins. Við biðjum þig auðmjúklegast að Guð megi ljósta hann. Ó, þú leiðtogi hinna himnesku hersveita, varpa þú Satan og öllum hinum illu öndum hans niður í víti í mætti valds þíns, honum sem æðir um heiminn til að tortíma sálunum.

Read more »

  14:55:02, Skrásetjari: Jón Rafn Jóhannsson, 538 orð  
Flokkur: Vefrit Karmels

Vefrit Karmels

Vefrit Karmels eru rit á íslensku um helgunar- og dulúðarguðfræði kirkjunnar. Athugið að fyrirsögnin er tengill á vefslóðina. Eins er unnt að nálgast ritin á Vefsíðu Karmelklaustursins í Hafnarfirði http://www.karmel.is/ Því miður sést tengillinn einungis í Explorer og Opera vöfrunum.
Eins má sjá slóðina á leitarvél Emblu Morgunblaðsins.

Um Karmelítaregluna:
Karmel Teresu: Saga – hinir heilögu – andi eftir Ann-Elisabeth Steinemann o.c.d.
Hinar upphaflegu reglur Karmels sem Innocentíus IV páfi staðfesti (á Latínu)
Reglur Þriðju reglunnar eða Heimsreglunnar
Karmelítareglan á Norðurlöndum

Heilög Teresa frá Avíla: Saga lífs míns – Vegurinn til fullkomleikans – Borgin hið innra – Íhuganir um Ljóðaljóðin – Andlegir vitnisburðir – Andvörp sálarinnar frammi fyrir Guði.

Um verk Teresu:
Inngangur að Borginni hið innra eftir Kieran Kavanough o.c.d.
Samlíking Teresu af Borginni hið innra með skírskotun til meginmáls.
Um Veginn til fullkomleikans eftir Kieran Kavanough o.c.d.
Formáli Kieran Kavanoughs að Sögu lífs míns
Formáli Anders Arboreliusar að Sögu lífs míns

Read more »

24.01.06

  22:27:53, Skrásetjari: Jón Rafn Jóhannsson, 1341 orð  
Flokkur: Bænalífið

Úr bænasjóði Karmels

Bæn gegn guðlasti – Gullna örin

Drottinn opinberaði karmelsystur í Tours í Frakklandi þessa fögru bæn árið 1843 sem huggun sína þegar honum er auðsýnd vansæmd:

Megi hið Alhelga, heilaga, tilbeiðsluverða, leyndardómsfulla og ósegjanlega nafn Guðs ætíð vera lofað, blessað, elskað, tilbeðið og vegsamað á himni sem á jörðu og undir jörðinni af allri sköpun Guðs og í hinu Allra helgasta Hjarta Drottins Jesú Krists í hinu heilaga altarissakramenti.

Drottinn sagði: „Örin gullna mun særa hjarta mitt með unaðsríkum hætti og græða þau sár sem guðlastið veldur því.“

Tilbeiðsla hinnar dýrlegu
ásjónar Drottins

Sífellt verðum við að hafa í huga að það er ekki nóg fyrir okkur að horfa til Drottins, ef við elskum hann ekki. Minnist Júdasar Ískaríots sem hafði Drottin fyrir augunum í rúmlega þrjú ár og horfðist í augu við hann, en elskaði hann ekki. Regluheiti Teresu frá Lisieaux í Karmel var: Teresa af Jesúbarninu og hinni heilögu ásjónu:

Jesús, þú sem í hörmungum písla þinna varðst harmkvælamaður og hryggðarmynd. Ég tilbið heilaga ásjónu þína sem geislaði út frá sér fegurð og mildi Guðdómsins. Í þessari afskræmdu mynd ber ég kennsl á takmarkalausa elsku þína og þrái að elska þig og að þú verðir elskaður. Megi mér gefast að líta dýrlega ásjónu þína á himnum!

Read more »

  11:22:32, Skrásetjari: Jón Rafn Jóhannsson, 976 orð  
Flokkur: Bænalífið

Tvær undurfagrar Maríubænir

+Jesús, María!

Mig langar að koma hér á framfæri tveimur undurfögrum Maríubænum. Við í minni reglu (Karmelítareglunni) förum með fyrri bænina á hverjum morgni þegar við vöknum. Í sjö aldir hefur þessi bæn sem nefnist Flos Carmeli (Blómi Karmels) og var bæn hl. Símons Stock, aldrei brugðist þeim sem ákalla Guðsmóðurina með þessum hætti:

Ó, þú blómi Karmels, ávaxtaríki vínviður,
prýði himins, heilög og einstök, þú sem ólst
Son Guðs, þú sem ætíð ert hin flekklausa mey.
Kom mér til bjargar (í þessum vanda).
Ó, þú hafsins stjarna, kom mér til bjargar
og veit mér vernd þína! Sýndu mér að þú
sért móðir mín.

Ó, María! Getin án syndar, bið þú fyrir oss
sem leitum ásjár þinnar!

Móðir og prýði Karmels, bið þú fyrir oss!
Meyja, blómi Karmels, bið þú fyrir oss!
Verndari allra þeirra sem bera axlarklæðið,
bið þú fyrir oss!
Von allra sem deyja með axlarklæðið,
bið þú fyrir oss!
Heilagur Jósef og vinur hins Alhelga hjarta,
bið þú fyrir oss!
Heilagur Jósef, flekklaus eiginmaður Maríu,
bið þú fyrir oss!
Blíða hjarta Maríu, bjarga oss.

Read more »

23.01.06

  23:24:40, Skrásetjari: Jón Rafn Jóhannsson, 670 orð  
Flokkur: Hin heilaga arfleifð

Hin Heilaga arfleifð

+Jesús, María.

Bréf til eins hinna trúföstu Krists meðal Hvítasunnumanna.

Jón Valur las upp fyrir mig bréf það sem þú sendir Jóhönnu Sigurðardóttir, alþingismanni, um inntak og eðli kærleikans eða Kristselskunnar í gegnum síma. Eins og talað úr mínu eigin hjarta!

Hin heilaga arfleifð vegur þungt í guðfræði rómversk kaþólsku sem Rétttrúnaðarkirkjunnar. Skilningskortur og afneitun mótmælenda á hinni heilögu arfleifð setur til að mynda mark sitt á alla umræðu manna um samkynhneigð á Íslandi í dag. Það er ekki einungis að Drottinn Guð boði heilagleikalög sín í Ritningunum þegar í Gamla testamentinu: „Eigi skalt þú leggjast með karlmanni sem kona væri. Það er viðurstyggð“ (3 M 18. 22), sem hl. Páll endurtekur í skrifum sínum, til að mynda í Rómverjabréfinu: „Bæði hafa konur breytt eðlilegum mökum í óeðlileg, og eins hafa karlar hætt eðlilegum mökum við konur og brunnið í losta hver til annars“ (Rm 1. 26. 27). Hin heilaga arfleifð endurtekur þetta með ljósum hætti í Tólfpostulakenningunni (Didache), elsta varðveitta trúfræðslukveri fornkirkjunnar (um 120). Þar má lesa: „Vegirnir eru tveir. Annar er Vegur lífsins, hinn Vegur dauðans. Þeir eiga ekkert sameiginlegt“ (1, 1). Við sjáum berlega af hversu mikilli trúfesti fornkirkjan stóð vörð um boðorð Krists: „Þú skalt ekki fremja morð, þú skalt ekki drýgja hór, þú skalt ekki iðka kynvillu [saurga drengi], ekki iðka saurlifnað, rán, töfrabrögð, svartagaldur og þú skalt ekki myrða ungabörn með fóstureyðingu eða eftir fæðingu þeirra“ (2, 2).

Read more »

1 ... 9 10 11 12 13 14 ...15 ...16 17 18 20