Blaðsíður: 1 2 4 5 ...6 ...7 8 9 10 11 12 ... 20

09.06.08

  11:33:58, Skrásetjari: Jón Rafn Jóhannsson, 1332 orð  
Flokkur: Bænalífið, Heilagur Andi

Vísindi krossins – Edith Stein (systir Teresia Benedicta af Krossi OCD) (1891-1942) karmelsystir og trúarheimspekingur – (1)

Árið 1911 hóf Edith Stein nám við háskólann í Breslau og mjög snemma beindist áhugi hennar að heimspekinni. Hún komst í samband við táknmálsfræðinginn Edmund Husserl sem var prófessor í Göttingen og hélt áfram námi sínu þar frá og með árinu 1913. Þarna gat hún fullnægt „einu ástríðu sinni: „Fróðleiksfýsninni“, jafnframt því að vera afar opin gagnvart öllum mannlegum samskiptum. Árið 1916 fylgdi hún læriföður sínum eftir til Freiburg/Breisgau þar sem hún varði doktorsritgerð sína sem hlaut æðstu viðurkenningu: „Um vandamál reynsluskynjunarinnar.“ Verkið vakti mikla athygli meðal heimspekinga og því sem næst samstundis skipaði Husserl þennan hæfileikaríka nemanda aðstoðarmann sinn.

Read more »

07.06.08

  08:43:50, Skrásetjari: Jón Rafn Jóhannsson, 444 orð  
Flokkur: Bænalífið, Heilagur Andi

Vísindi elskunnar – hl. Teresa af Jesúbarninu

„Ég vil að þú lesir í bók lífsins þar sem sjá má vísindi elskunnar.“ Vísindi elskunnar, já einmitt, þessi orð hljóma vel í eyrum sálar minnar og það eru einmitt þessi vísindi sem ég þrái. Þótt ég hafi gefið öll auðæfi mín fyrir þau met ég þau einskis eins og brúðurin í hinum heilögu Ljóðaljóðum (8. 7). Ég skil það svo vel að það er einungis elskan sem gerir okkur velþóknanleg fyrir Guði, að það er þessi elska sem eru þau einu gæði sem ég þrái.

Read more »

30.05.08

  11:54:25, Skrásetjari: Jón Rafn Jóhannsson, 1630 orð  
Flokkur: Hið Alhelga Hjarta Jesú

Bréf hans heilagleika Benediktusar XVI í tilefni 50 ára minningar útkomu hirðisbréfsins „Haurietis Aquas (Uppsprettu vatnanna).“

Í dag, 50 árum síðar, hafa orð Jesaja spámanns sem Píus XII setti í upphafi hirðisbréfs síns þegar hann minntist aldarminningar aukinnar áherslu á Hátíð hins Alhelga Hjarta Jesú í allri kirkjunni ekki glatað inntaki sínu: „Þér munuð með fögnuði vatni ausa úr lindum hjálpræðisins“ (Jes 12. 3).

Með því að glæða guðræknina á Hjarta Jesú hvatti „Haurietis Aquas“ hina trúuðu að opna sig fyrir leyndardómi Guðs og elsku hans og heimila henni að ummynda sig. Að liðnum 50 árum er þetta enn verðug viðleitni fyrir kristið fólk til að halda áfram að dýpka samband sitt við Hjarta Jesú til þess að glæða trú sína á frelsandi elsku Guðs og fagna henni stöðugt í lífi sínu.

Síðusár Endurlausnarans er uppspretta sú sem hirðisbréfið „Haurietis Aquas“ víkur að: Við verðum að leita til þessarar uppsprettu til að öðlast sanna þekkingu á Jesú Kristi og sannreyna elsku hans með djúpstæðari hætti.

Read more »

  08:19:30, Skrásetjari: Jón Rafn Jóhannsson, 418 orð  
Flokkur: Hið Alhelga Hjarta Jesú

Ó Hjarta, elskuríkara öllu öðru – Heil. Geirþrúður frá Helfta (1256-1301)

Í tilefni Hátíðar hins Alhelga Hjarta Jesú

Þú hefur gert svo mikla og undursamlega hluti fyrir mig að ég er bundin þjónustunni við þig að eilífu. Hvernig get ég endurgoldið þér svo fjölþættan ávinning? Hvaða lofgjörð og þakkargjörð gæti ég fært þér að fórn, jafnvel þó að ég úthellti þeim þúsund sinnum yfir þig? Hver er ég, sú aumkunarverða sköpun sem ég er, ef ég er borin saman við þig, yfirfljótandi hjálpræði mitt? Því færi ég þér að fórn þá sál sem þú hefur frelsað. Ég vil auðsýna þér lotningu með allri elsku hjarta míns. Ó, já! Beindu lífi mínu til þín; dragðu mig fullkomlega til þín; gerðu mig að fullu og öllu eitt með þér.

Read more »

20.05.08

  09:27:41, Skrásetjari: Jón Rafn Jóhannsson, 335 orð  
Flokkur: Hið Alhelga Hjarta Jesú

Bæn hl. Thérèse af Jesúbarninu (1873-1897), karmelnunnu og kirkjufræðara.

„Hver sem vill vera fremstur, sé síðastur allra og þjónn allra.“

Jesús . . .! Hversu mikil er ekki auðmýkt þín, ó guðlegur Konungur dýrðarinnar, með því að gefast öllum prestum þínum án þess að gera mun á þeim sem elska þig og þeim – sem æ! – eru hálfvolgir eða kaldir í þjónustu þinni. Þú kemur niður af himnum þegar þeir ákalla þig. Ó Ástmögur minn, hversu „hógvær og lítillátur af hjarta“ (Mt 11. 29) virðist þú ekki vera undir hulu litlu og hvítu hostíunnar. Þú hefðir ekki getað auðmýkt þig meira til að kenna mér auðmýkt. Með sama hætti og sem svar við elsku þinni þrái ég að systur mínar skipi mér ætíð til sætis á lægsta staðnum til að sannfæra mig um að þessi staður er sannarlega minn . . .

Read more »

19.05.08

  23:10:34, Skrásetjari: Jón Rafn Jóhannsson, 1248 orð  
Flokkur: Hin heilaga arfleifð

Tólfpostulakenningin sem hluti hinnar heilögu arfleifðar erfikenningar kirkjunnar

Sjá grísk-íslenskan millilínutexta (interlinear) hér samkvæmt texta Fílóþeos Brýenniós metrópólítana í Níkomedíu.

Í Trúfræðsluriti rómversk kaþólsku kirkjunnar er vikið svofelldum orðum að hinni heilögu arfleifð eða erfikenningu:

Þessi lifandi arfleifð, sem fram er komin í Heilögum Anda, er kölluð erfikenning enda aðgreinist hún frá Heilagri Ritningu þótt hún tengist henni nánum böndum. Í gegnum erfikenninguna “varðveitir kirkjan eilíflega, í kenningu sinni, lífi og tilbeiðslu, allt það sem hún sjálf er, allt það sem hún trúir og lætur það ganga að erfðum til allra kynslóða. Ummæli hinna heilögu feðra vitna um hina lífgandi nærveru þessarar erfikenningar og þau sýna fram á hvernig auðlegð hennar er úthellt í starfi og lífi kirkjunnar, í trú hennar og bænum”. (78)

Og nokkru síðar:

Erfikenningin sem hér um ræðir er komin frá postulunum og lætur hún það ganga í erfðir sem þeir námu af kenningu og breytni Jesú og það sem Heilagur Andi kenndi þeim. Fyrsta kynslóð kristinna manna hafði ekki Nýja testamentið í skriflegum búningi og er Nýja testamentið sjálft skýrt dæmi um ferli hinnar lifandi erfikenningar (83).

Read more »

  09:11:26, Skrásetjari: Jón Rafn Jóhannsson, 52 orð  
Flokkur: Vefrit Karmels

Daglegur guðspjallatexti ásamt hugleiðingu

Ég vil minna gesti kirkju.net á að daglegan guðspjallatexta ásamt hugleiðingum hinna heilögu má finna hér:

http://vefrit-karmels.kirkju.net/Gudspjall/Inngangur/Inngangur.html

Eins getur fólk fengið guðspjallið ásamt hugleiðingunni sent til sín í rafpósti með því að senda mér línu.

17.05.08

  07:51:53, Skrásetjari: Jón Rafn Jóhannsson, 466 orð  
Flokkur: Heilagur Andi

Í þessu ljósi munið þið sjá eilíft ljós – Pétur hinn ærurverðugi, ábóti í Cluny (d. 1029)

Þessi grein kemur í beinu áframhaldi af sýn rússneska aðalsmannsins Motovilov sem vikið var að hér að fram þegar hl. Serafim frá Sarov leiddi hann inn í ljúfleika uppljómunur hins óskaðaða ljóss Heilags Anda.

„Ásjóna hans skein sem sól“ (Mt 17. 2) . . . Hulið skýi holdsins hefur ljósið sem upplýsir sérhvern mann (Jh 1. 9) ljómað í dag. Í dag gerir það þetta sama hold dýrlegt og opinberaði postulunum dýrð sína svo að þeir gætu kunngert heiminum það. Og hvað ykkur varðar, þá munið þið njóta ásæisins á þessari sól að eilífu þegar þið sjáið borgina „stíga niður af himni frá Guði, búna sem brúði, er skartar fyrir manni sínum“ (Opb 21. 2). Aldrei framar mun þessi sól hníga til viðar heldur vera hún sjálf og láta eilífan dag ljóma. Aldrei mun þessi sól vera skýjum hulin, heldur skína að eilífu og veita ykkur fögnuð ljóssins sem aldrei mun endi taka. Aldrei mun þessi sól framar blinda augu ykkar: Hún mun veita ykkur styrk til að mæna á sig og hrífa ykkur með guðlegri dýrð sinni . . . „Og dauðinn mun ekki framar til vera, hvorki harmur né vein né kvöl er framar til“ (Opb 21. 4) sem myrkvað getur þann dýrðarljóma Guðs sem hann hefur gefið ykkur eins og sagt var við Jóhannes: „Hið fyrra er farið.“

Read more »

15.05.08

  08:49:37, Skrásetjari: Jón Rafn Jóhannsson, 767 orð  
Flokkur: Hin heilaga arfleifð

Hin heilaga arfleifð og Ritningarnar – Sophronij arkimandríti

Í huga Silúan starets var hlýðnin óhjákvæmileg forsenda vaxtar í hinu andlega lífi. Skilningur hans á hlýðninni var samofinn afstöðu hans til hinnar heilögu arfleifðar og Orðs Guðs.

Hann leit á líf kirkjunnar sem líf í Heilögum Anda og hina heilögu arfleifð sem óaflátanlegt starf Heilags Anda í kirkjunni. Þar sem hin heilaga arfleifð felst í eðli sínu í eilífri og óaflátanlegri nærveru Heilags Anda í kirkjunni er hún jafnframt til­vistarlegur grundvöllur hennar. Þannig umvefur hin heilaga arfleifð allt líf kirkjunnar og það í svo ríkum mæli, að Ritn­ingarnar sjálfar eru eitt tjáningarforma hennar. Þetta hefur í för með sér að ef kirkjan væri svipt arfleif­ð sinni yrði hún ekki söm og áður vegna þess að boðskapur Nýja testamentisins er orð Andans „ekki skrifað með bleki, heldur með Anda lifandi Guðs, ekki á steinspjöld, heldur á hjartaspjöld úr holdi“ (2Kor 3. 3-6). Ef við gerðum ráð fyrir því að kirkjan glataði með einum hætti eða öðrum öllum sínum ritum: Gamla og Nýja testamentinu, verkum hinna heilögu feðra og öllum helgisiðabókum sínum, myndi hin heilaga arfleifð endurskrifa Ritningarnar, vafa­laust ekki orðrétt og með öðru tungutaki. En að meginhluta til yrði inntak hinna nýju ritninga tjáning þeirrar sömu trúar „sem heilögum hefur í eitt skipti fyrir öll verið í hendur seld“ (sjá Júd 1. 3). Þær yrðu tjáning þess sama og eina Anda sem sífellt er að starfi í kirkjunni.

Read more »

13.05.08

  18:13:22, Skrásetjari: Jón Rafn Jóhannsson, 470 orð  
Flokkur: Trúarljóð

Hinn guðdómlegi gleðileikur Dante – í þýðingu Guðmundar Böðvarssonar, bónda og skálds frá Kirkjubóli

Nú þegar Borgarleikhúsið hefur sett á fjalirnar verk sem byggist á Hinum guðdómlega gleðileik (Divina commedia) eftir Dante vil ég minna kaþólska lesendur á hina undurfögru þýðingu Guðmundars skálds Böðvarssonar frá Kirkjubóli (1904-1974). Tólf kviður úr Gleðileiknum komu út í þýðingu hans í bundnu máli á vegum Bókaútgáfu Menningarsjóðs árið 1968. Vert er að hafa þetta verk í hávegum. Hinn Guðdómlegi gleðileikur Dante er ein af perlum kaþólskra dulúðarbókmennta.

Sjálfskipaður hópur menningarforkólfa gagnrýndi þýðingu Guðmundar harkalega og án allrar sanngirni á sínum tíma (vafalaust blöskrað djörfung bóndans og erfiðismannsins að ráðast í slíkt verk!). Ég birti hér því brot úr þýðingu Guðmundur úr Paradísarkviðunni 33. 82, 121 ásamt ítalska textanum.

„O abbodante grazia, ond’ io presunsi
ficcar lo viso per la luce eterna,
tanto che la veduta vi consunsi!
Nel suo profondo vidi che s’ interna,
legato con amore in un volume,
ciò che per l’universo si squaderna;

Read more »

11.05.08

  17:07:51, Skrásetjari: Jón Rafn Jóhannsson, 141 orð  
Flokkur: Bænalífið, Heilagur Andi

Heilagur Andi er hinn Óskapaði „Flekklausi Getnaður“ – Hl. Maximilian Kolbe

Í Lourdes bað Bernadetta Maríu mey um að segja sér nafn sitt og hún svaraði: „Ég er hinn Flekklausi Getnaður.“ Með upplýsandi orðum sínum greindi María ekki einungis frá því að hún væri getin flekklaus, heldur að hún væri hinn Flekklausi Getnaður. Þetta er eins og sá munur sem er á einhverju sem er hvítt og sjálfum hvítleikanum eða einhverju fullkomnu og fullkomleikanum.

Read more »

  09:31:03, Skrásetjari: Jón Rafn Jóhannsson, 348 orð  
Flokkur: Hin heilaga arfleifð

Í einingu Heilags Anda er kirkjan kaþólsk og alheimsleg – Joseph Ratzinger kardínáli (Benedikt páfi XVI)

„Vér heyrum þá tala á vorum tungum um stórmerki Guðs" (P 2. 11). Hvítasunnudagur opinberar okkur hina kaþólsku og alheimslegu kirkju. Heilagur Andi kunngerir nærveru sína með náðargjöfum tungnanna. Þannig endurnýjar hann og snýr atburðinum í Babel (1M 11) til betri vegar, þessari ytri tjáningu þeirra sem í hroka sínum vildu vera eins og Guð í sínum eigin mætti – það er að segja án Guðs – að byggja brú til himins: Babelsturninn. Slíkur hroki er tilefni deilna í heiminum og setur upp veggi aðskilnaðar. Vegna hrokans viðurkennir maðurinn einungis sinn eiginn skilning, sinn eigin vilja, sitt eigið hjarta. Afleiðingin er sú að hann er þess ekki lengur umkominn hvorki að skilja tungutak annarra fremur en að heyra raust Guðs.
Heilagur Andi, hin guðdómlega elska, skilur bæði og glæðir skilning á tungutaki annarra. Hann skapar einingu úr óeiningu. Þannig talar kirkjan allar tungur frá upphafi tilurðar sinnar. Frá upphafi er hún kaþólsk og alheimsleg. Brúin á milli himins og jarðar er sannarlega til: Þessi brú er krossinn og það er elska Drottins okkar sem hefur smíðað þessa brú. Hönnun þessarar brúar er ofar getu tækninnar: Takmark Babels verður og hlýtur að misheppnast. Einungis elska Guðs holdi klædd megnar að uppfylla slíkt takmark . . .

Read more »

08.05.08

  08:38:34, Skrásetjari: Jón Rafn Jóhannsson, 393 orð  
Flokkur: Bænalífið, Heilagur Andi

Heil. Pétur frá Damian – Um einingu kirkjunnar í Heilögum Anda

Heilög kirkja verður eitt í einingu Heilags Anda þrátt fyrir að hún taki á sig fjölþætta líkamlega mynd í ótöldum fjölda persóna. Ef hún virðist vera skipt meðal nokkurra fjölskyldna út frá náttúrlegu sjónarmiði, þá glatar hún engu af samsemd sinni í leyndardómi djúpstæðrar einingar sinnar „En vonin bregst oss ekki, því að kærleika Guðs er úthellt í hjörtum vorum fyrir Heilagan Anda, sem oss er gefinn“ (Rm 5. 5). Það leikur ekki á því nokkur vafi að þessi Andi er bæði einn og margir samtímis: Einn í kjarna hátignar sinnar; margir í náðargjöfum heilagrar kirkju sem fyllt er nærveru hans. Og það er þessi sami Andi sem gerir kirkjunni kleift að vera ein og söm í alheimslegri útbreiðslu sinni en engu að síður fyllilega nærverandi í sérhverjum meðlima sinna . . .

Read more »

02.05.08

  03:22:07, Skrásetjari: Jón Rafn Jóhannsson, 2611 orð  
Flokkur: Bænalífið, Heilagur Andi

Hl. Serafim frá Sarov – í ljósklæðum Heilags Anda

N. A. Motolivov var rússneskur aðalsmaður sem læknast hafði af erfiðum húðsjúkdómi vegna fyrirbæna hl. Serafims. Atburður sá sem hér er lýst átti sér stað í skóginum við Sarovklaustrið skammt frá klefa hl. Serafims. Ekkja Motolivovs fann eftirfarandi frásögn í skjölum hans að honum látnum.

„En hvernig,“ spurði ég batjúska [1] Serafim. „get ég vitað að ég dvel í náð Heilags Anda?“

„Þetta er afar einfalt, yðar hávelborinheit,“ svaraði hann. „Það er þess vegna sem Drottinn segir: Öll eru þau [orð munns míns] einföld þeim sem skilning hefur (Ok 8. 9). Vandamálið felst í því að við leitum ekki þessarar guðdómlegu þekkingar sem blæs manninn ekki upp vegna þess að hún er ekki af þessum heimi. Þessi þekking sem er þrungin elsku Guðs og náungakærleika uppbyggir sérhvern mann vegna sáluhjálpar hans. Drottinn komst svo að orði um þessa þekkingu að Guð vill að allir menn verði hólpnir og komist til þekkingar á sannleikanum (1 Tm 2. 4).

Read more »

01.05.08

  09:46:25, Skrásetjari: Jón Rafn Jóhannsson, 272 orð  
Flokkur: Bænalífið, Heilagur Andi

Meistari Eckhart – Um eilífan getnað Orðsins í skauti hinnar blessuðu Meyjar í Heilögum Anda

Ef þessi fæðing nær í raun og veru fram að ganga megnar ekkert að halda aftur af þér: Allt beinir þér til Guðs og þessarar fæðingar. Við sjáum líkingu við þetta í eldingunni. Hvað sem hún lýstur, hvort sem það sé tré, dýr eða maður, snýr sá sem á hlut að máli sér að henni við þrumugnýinn. Maður sem snýr við henni baki snýr sér samstundis við til að bera hana augum. Öll þúsunda laufblaða trésins snúa sér við til að verða vitni að þessu leiftri. Sama gegnir um alla þá þar sem þessi fæðing nær fram að ganga.

Read more »

  02:39:11, Skrásetjari: Jón Rafn Jóhannsson, 196 orð  
Flokkur: Bænalífið, Heilagur Andi

Hl. Gregoríos frá Nyssa – um þá hinna kristnu sem bregðast kærleiksinntaki skírnarnáðarinnar og ákalli Heilags Anda

„Ef líkaminn stígur niður í skírnarlaugina, án þess að sálin hreinsist af saurleika ástríðnanna . . . birtist náð Heilags Anda alls ekki í kjölfar þeirrar athafnar sem höfð hefur verið frammi“ (Patrologia Greaca, Cat., XL. 4).

„Hérna er á ferðinni hneyksli sem sá sem meðtekur skírnina gerir sig sekan um með því að ástunda sama líferni og áður“ (Patrologia Greaca, Cat., XL. 5).

Read more »

30.04.08

  08:36:24, Skrásetjari: Jón Rafn Jóhannsson, 1563 orð  
Flokkur: Bænalífið

María Guðsmóðir – Lifandi sáttmálsörk hins Nýja sáttmála

Ákallið Maríu, hina síðari Evu, konuna sem sigraði höggorminn sem tældi hina fyrri Evu (1 M 3. 15). Hún vann sigur á þessum höggormi fyrir tvö þúsund árum (sjá Opb 12) og að nýju í Mexíkó árið 1531, og enn að nýju í Þýskalandi árið 1945 og aftur í Rússlandi árið 1989. Þennan sigur getur hún fullkomnað að nýju meðal þjóða sem guðræknir múslimar kalla „hinn mikla Satan,“ menningu sem úthellir blóði milljóna saklausra barna árlega fyrir gráðugan munn Móloks. Það er einungis Drottning englanna og himneskar hersveitir hennar sem megnar að sigra þennan engil illskunnar og umbreyta menningu okkar úr „dauðamenningu“ í lífsmenningu ljóss og elsku. [1]

Í herbúðarskipun hins Gamla sáttmála var það sáttmálsörkin sem fór fyrir Ísraelsmönnum í eyðimörkinni og veitti þeim vernd og skjól. Í Nýja sáttmálanum er það hin blessaða Mey – María Guðsmóðir – sem gegnir þessu sama hlutverki. Þetta er ekki ný kenning, heldur hluti hinnar heilögu arfleifðar kirkjunnar. Hlýðum á orð hinna heilögu feðra:

Read more »

  00:01:16, Skrásetjari: Jón Rafn Jóhannsson, 540 orð  
Flokkur: Bænalífið, Heilagur Andi

Hl. Jóhannes af Krossi – um hreinsandi mátt hins guðdómlega ljóss Heilags Anda.

Til þess að varpa enn frekara ljósi á það sem ég hef sagt og mun segja, verð ég að taka hér fram að þetta hreinsandi og kærleiksríka innsæi, eða umtalaða guðdómlega ljós, hreinsar sálina og undirbýr til þess að sameinast Guði fullkomlega með sama hætti og eldurinn þegar hann vinnur á viðnum sem hann umbreytir í eld. Þegar hinn náttúrlegi eldur kemst í snertingu við viðarbút, byrjar hann að þurrka hann með því að draga út allan rakanum þannig að allt vatnið gufar smám saman upp. Síðan svíður eldurinn viðarbútinn, svertir og dekkir og gerir hann óásjálegan og illa þefjandi og með því að þurrka viðinn sífellt meira eyðir hann öllu því sem er í hrópandi andsögn við eðli eldsins í ljótleika sínum.

Read more »

29.04.08

  00:37:09, Skrásetjari: Jón Rafn Jóhannsson, 240 orð  
Flokkur: Bænalífið, Heilagur Andi

Hl. Símon nýguðfræðingur – Guð sameinast guðum í Heilögum Anda.

Ef sá sem ber hið innra með sér ljós Heilags Anda fær ekki staðist ljóma þess, fellur hann fram á ásjónu sína og hrópar af skelfingu og dauðskelkaður, rétt eins og sá sem sannreynir eitthvað sem stendur hinu náttúrlega eðli ofar, ofar orðum og skynsemi. Hann er líkur manni með logandi iður og þar sem hann megnar ekki að standast þennan brennandi eld, verður hann eldinum að bráð og er sviptur allri getu til að vera í sjálfum sér.

Read more »

28.04.08

  09:05:14, Skrásetjari: Jón Rafn Jóhannsson, 151 orð  
Flokkur: Bænalífið, Heilagur Andi

Heil. Antoníus frá Padúa (um 1195-1231), fransiskani og kirkjufræðari – Um áhrif Sannleiksandans

Heilagur Andi er „eldstraumur“ (Dn 7. 10), guðdómlegur eldur. Rétt eins og eldurinn hefur áhrif á járnið, þá hefur hinn guðdómlegi eldur áhrif á þau hjörtu sem eru saurguð, köld og hörð. Þegar sálin kemst í snertingu við eldinn líður saurgun hennar, kuldi og harðneskja smám saman undir lok. Hún ummyndast að fullu og öllu í líkingu sinni við eldinn sem hún logar í.

Read more »

26.04.08

  06:59:35, Skrásetjari: Jón Rafn Jóhannsson, 425 orð  
Flokkur: Bænalífið

Heil. Polýkarp (69-155), byskup og píslarvottur – í þýðingu Reynis K. Guðmundssonar

„Hafi þeir ofsótt mig, þá munu þeir líka ofsækja yður.“ – ófædd og varnarlaus börn Guðs ekki undanskilin
.


Sleppum aldrei taki á honum sem er von okkar og fyrirheit um hjálpræði; ég á við Jesúm Krist sem „bar sjálfur syndir vorar á líkama sínum upp á tréð; sem drýgði ekki synd og svik voru ekki fundin í munni hans“ (1Pt 2.22, 24); sem staðfastlega leið allt fyrir okkur til að við mættum eiga líf í honum. Breytum eftir þessu mikla þolgæði hans, og þó svo við þjáumst fyrir nafn hans skulum við ekki fást um það heldur lofa hann. Því þetta er fordæmið sem hann gaf okkur í eigin persónu og sem við höfum lært að setja traust okkar á.

Read more »

25.04.08

  12:23:33, Skrásetjari: Jón Rafn Jóhannsson, 797 orð  
Flokkur: Bænalífið, Kristselskan

Ljós Maríu í hinni myrku nótt móður Teresu frá Kalkútta – Hvernig hin blessaða Mey huggaði „dýrling göturæsanna.“

Fyrir skömmu var heimspressan full af fréttum um það hvernig móðir Teresa hefði gengið í gegnum „krísu“ í trúarlífi sínu áratugum saman. En kyrrt var látið liggja hvernig María studdi Teresu á þessu tímaskeiði.

Til að fræðast nánar um þetta snéri ZENIT sér til föður Joseph Langford, en hann stofnaði í samráði við Teresu Kærleikstrúboð presta. Hann er höfundur bókarinnar „Mother Teresa: In the Shadow of our Lady,“ sem kom út í s. l. viku.

Faðir Langford greindi ZENIT frá því hvernig móðir Teresa hefði leitað skjóls hjá Maríu í hinni myrku nótt sinni og hvernig við getum nálgast Maríu með því að fylgja því fordæmi sem Teresa gefur okkur.

Read more »

22.04.08

  08:05:17, Skrásetjari: Jón Rafn Jóhannsson, 334 orð  
Flokkur: Bænalífið

Um dyggð langlyndisins í bæninni – Jóhannes Tauler frá Strassborg og einn af Vinum Guðs (Gottesfreunde) í Rínardalnum

„Frið læt ég yður eftir, minn frið gef ég yður.“

Á tímum þolrauna ber þeim sem vill ekkert né þráir annað en að fela sig í Guði að bíða af langlyndi eftir því að kyrrðin glæðist að nýju . . . Hver veit hvar eða hvernig Guði þóknast að snúa til baka og fylla hann náð sinni? Hvað ykkur áhrærir skuluð þið bíða þolinmóð í skugga hins guðdómlega vilja. Náðargjafir Guðs eru ekki sjálfur Guð og okkur ber að gleðjast í honum einum, en ekki í gjöfum hans. En eðli okkar er svo gráðugt og sjálflægt að það hrifsar allt til sín og hremmir það sem tilheyrir því ekki og þannig myrkvar það náðargjafir Guðs og hindrar hið dýrmæta starf Guðs . . .

Read more »

20.04.08

  18:21:54, Skrásetjari: Jón Rafn Jóhannsson, 714 orð  
Flokkur: Bænalífið

Biðjum fyrir Tíbet – það hjálpar til!!!

Þegar ég legg svo mikla áherslu á það (til samræmis við hina heilögu arfleifð) að leita fyrirbæna Guðsmóðurinnar og verndar í náðarhjúp hennar á örlagastund í sögu Tíbet er engin tilviljun sem býr þessu að baki. Áður hef ég vikið að franska prestinum föður Yves Hamon hér á kirkju.net http://www.kirkju.net/index.php/jonrafn/2007/04/27/p1212.
Í þjónustu sinni við hans Hátign var hann meðal annars sendur til Kína í upphafi tuttugustu aldarinnar.

Read more »

  09:25:11, Skrásetjari: Jón Rafn Jóhannsson, 378 orð  
Flokkur: Bænalífið, Kristselskan

Vegur kærleikans – Hl. Katrín frá Siena, kirkjufræðari

Eilífi Faðir. Þú þráir að við þjónum þér með hliðsjón af velþóknan þinni og þú leiðir þjóna þína eftir ýmsum vegum. Með þessu sýnir þú okkur að ekki undir neinum kringumstæðum getum við, eða eigum við að dæma ætlanir mannsins eins og við skynjum þær hið ytra . . . Sú sál sem sér ljósið í þínu ljósi (Sl 36. 10) gleðst við að sjá alla vegi þína, fjölmargar brautir þínar í sérhverjum einstakling. Þrátt fyrir að þær fari ólíkar leiðir, þá hlaupa þær ekki síður eftir vegi þíns brennandi kærleika. Ef það væri ekki einmitt vegna þessa kepptu þær ekki í raun og veru eftir sannleika þínum. Þannig sjáum við sumar skunda veg iðrunarinnar með líkamlegri deyðingu, aðrar veg auðmýktar og deyðingar eiginn vilja; enn aðrar veg hinnar lifandi trúar; aðrar leggja rækt við miskunnarverk; aðrar sem eru fullir af kærleika í garð náungans með því að hafna sjálfum sér.

Read more »

17.04.08

  08:28:49, Skrásetjari: Jón Rafn Jóhannsson, 304 orð  
Flokkur: Bænalífið, Kristselskan

Kristselskan felur í sér allar kallanir – Hl. Teresa af Jesúbarninu (Teresa litla), karmelnunna og kirkjufræðari

Að vera brúður þín, ó Jesús, að vera karmelíti og vera í sameiningu við þig til að verða að móður sálnanna, á þetta ekki að nægja mér? En sú er ekki raunin. Það leikur ekki nokkur vafi á því að í þessum þremur köllunum felst hin sanna köllun mín: Karmelíti, brúður og móðir. En ég finn aðrar kallanir hið innra með mér . . . Ég finn þörfina og þrána til að framkvæma mestu hetjudáðir fyrir þig, ó Jesús. Þrátt fyrir smæð mína vildi ég upplýsa sálirnar eins og spámennirnir og kirkjufræðararnir. Ég hef fengið köllun til að vera postuli. Ég vildi ferðast um allan heiminn til að predika nafn þitt og gróðursetja hinn dýrlega kross í jörð vantrúarinnar. En Ástmögur minn, ein köllun myndi ekki nægja mér. Ég vildi predika Fagnaðarerindið í öllum heimsálfunum fimm samtímis og jafnvel í fjarlægustu eylöndum. Ég vildi vera trúboði, ekki einungis í nokkur ár, heldur frá upphafi sköpunarinnar allt til loka aldanna . . .

Read more »

16.04.08

  09:34:01, Skrásetjari: Jón Rafn Jóhannsson, 119 orð  
Flokkur: Bænalífið

Ákall til Heilags Anda

Kom þú, Heilagur Andi, og send ljósgeisla þinn frá himnum. Kom þú, Faðir fátækra, þú gjafari gæðanna, og ljós hjartnanna. Hjálparinn besti, ljúfi gestur sálarinnar, ljúfa hressing hennar. Hvíld hennar í erfiði, forsæla í hitum, huggun í sorgum. Þú blessaða ljós, lát birta til í hugskoti fylgjenda þinna. Án þinnar velvildar er maðurinn ekkert, án þín er ekkert ósaknæmt. Lauga það sem er saurgað, vökva það sem er þornað, græð það sem er í sárum. Mýktu það sem er stirnað, vermdu það sem er kólnað, réttu úr því sem miður fer. Gef fylgjendum sem treysta þér, þínar heilögu sjöföldu gjafir. Amen.

13.04.08

  09:41:54, Skrásetjari: Jón Rafn Jóhannsson, 892 orð  
Flokkur: Bænalífið, Kristselskan

Ekkert starf kirkjunnar er jafn mikilvægt og Kristselskan – hl. Jóhannes af Krossi, kirkjufræðari

Í Kristselskunni tökum við undir bæn Æðsta prests okkar, Krists Drottins, á Krossinum: „Faðir, fyrirgef þeim, því að þeir vita ekki, hvað þeir gjöra“ (Lk 23. 34). Við skulum heyra hvað hl. Jóhannes af Krossi hefur að segja um Kristselskuna:

Þar sem sálin hefur séð af öllu og gefist elskunni á vald, fæst andi hennar ekki við neitt annað. Hún snýr jafnvel baki við þeim verkum sem falla undir hið virka líf og því sem slíku er samfara til að uppfylla það eina sem Brúðguminn sagði að væri nauðsynlegt (Lk 10. 42). Þetta felst í árvekninni gagnvart Guði og að leggja rækt við elskuna í honum. Drottinn metur þetta og virðir svo mikið, að hann álasaði Mörtu þegar hún reyndi að draga Maríu frá honum þegar hún sat honum til fóta til að fá hana til að sinna öðrum verkum til að þjóna honum. Sjálf taldi Marta sér trú um að allt hvíldi á hennar herðum og María hefðist ekkert að vegna þess að hún dvaldi í nærveru Drottins (sjá Lk 10. 39-41). En þar sem ekkert verk er meira né háleitara en elskan, er hið gagnstæða sannleikanum samkvæmt. Drottinn heldur einnig upp vörnum fyrir brúðina í Ljóðaljóðunum og býður allri sköpun heimsins sem skírskotað er til með Jerúsalemdætrunum að hindra brúðina ekki í andlegum svefni elskunnar eða að vekja hana, svo að hún ljúki ekki upp augunum gagnvart neinu öðru fyrr en hún þrái slíkt sjálf (Ll 3, 5)

Read more »

12.04.08

  08:05:02, Skrásetjari: Jón Rafn Jóhannsson, 1098 orð  
Flokkur: Bænalífið, Kristselskan

„Að biðja fyrir fólki (þjóðum) er að úthella blóði sínu“ fyrir „allan Adam“

Kafli úr bókinni Heilagur Silúan starets á Aþosfjalli eftir Sophronij arkimandríta (bls. 54-56):

Undarlegt og óskiljanlegt er hið kristna líf í augum heimsins. Allt er hér þversagnakennt, allt gengur þvert á þær siðvenjur sem gilda í heiminum. Ekki er unnt að varpa ljósi á slíkt með orðum. Eina leiðin til að bera skyn á slíkt er að lúta vilja Guðs, með því að virða boðorð Krists: Að ganga þann veg sem hann benti okkur sjálfur á.

Eftir að Silúan hafði meðtekið þessa opinberun Drottins tók hann að ganga þann veg sem honum hafði verið leitt fyrir sjónir. Frá og með þessum degi varð hann „ljúflingssöngur“ hans, eins og hann komst sjálfur að orði:

Read more »

  07:35:12, Skrásetjari: Jón Rafn Jóhannsson, 77 orð  
Flokkur: Bænalífið, Kristselskan

Maðurinn sér ekki vel nema með hjarta Kritstselskunnar – bæn

Heil sért þú María, full náðar Drottinn er með þér. Blessuð ert þú á meðal kvenna, og blessaður er ávöxtur lífs þíns, Jesús! Heilaga María, Guðsmóðir, bið þú fyrir oss syndugum mönnum, einkum sálunum í hreinsunareldinum, að þeim gefist að sjá hið Óskapaða ljós Krists. Úthell náð loga elsku þíns Flekklausa Hjarta, yfir Tíbet, Kína og alla heimsbyggðina, nú í upphafi nýrrar þúsaldar. Amen.

11.04.08

  13:17:59, Skrásetjari: Jón Rafn Jóhannsson, 1089 orð  
Flokkur: Kynþáttahyggjan og átök þjóða

Mongólska heimsveldið

TENGILL Á KORT

Okkur auðnast vart að skilja sögu Tíbet og Kína án þess að víkja nánar að Mongólska heimsveldinu. Mongólar voru lítt kunnur þjóðflokkur sem bjuggu í ytri Góbíeyðimörkinni á landsvæði sem nú nefnist Ytrimongólia. Þeir voru hirðingjar sem lifðu í ættarsamfélögum sem komu saman árlega til fundar, en urðu aldrei að einni eiginlegri þjóð, þrátt fyrir að kjósa sér forystumenn á þessum samkomum. Trúarbrögð þeirra beindust að himnaguði sem ríkti yfir náttúruöndum og guðum og það voru shamar eða töframenn sem sáu um samskiptin við hann.

Allt breyttist þetta svo skyndilega þegar styrkur og atkvæðamikill leiðtogi birtist á sjónarsviðinu: Nafn hans var Genghis Khan. Hann var kominn af fátæku alþýðufólki og fæddist einhvern tímann í kringum 1160 e. Kr. Honum tókst smám saman að sameina hin dreifðu mongólsku hirðingjasamfélög og 1206 var hann kjörinn sem hinn „mikli alheimsstjórnandi“ eða Gengis Khan. Hann tók þegar að skipuleggja Mongóla sem hernaðarveldi og tók að skattleggja ættarsamfélögin. Með her sínum sem hafði á að skipa 120.000 mönnum tókst honum að auka veg Mongóla til muna.

Read more »

07.04.08

  18:15:18, Skrásetjari: Jón Rafn Jóhannsson, 491 orð  
Flokkur: Kynþáttahyggjan og átök þjóða, Tíbet: Ákall frelsisunnandi þjóðar

Tíbet og sjálfsstjórnarvæðin - kort á íslensku

TENGILL Á KORTIN

Hér birti ég kort af Tíbet og tíbezku stjálfsstjórnarsvæðunum. Satt best að segja var ekki hlaupið að því að vinna þessi kort. Flest kort af Tíbet (á vefnum) koma frá stjórnvöldum í Bejing með fölsuðum landamærum sem koma til móts við landakröfur kínversku ógnarstjórnarinnar.

Í þessu sambandi vil ég minna lesendur á að í 3500 ára sögu Tíbets sem sjálfstæðs ríkis hefur landið einungis verið undir stjórn Kínverja í 49 ár – og það ekki samfellt. Innrásir Gúrkha frá Nepal 1724 og að nýju 1792 urðu þess valdandi að Tíbetar leituðu hernðaðaraðstoðar Kínverja 1792 og skipuðu þeir í kjölfarið amban“ (eins konar sendiherra) sinn í Lhasa. Kínversku Mansjúarnir sem á þessum tíma voru komnir á fallandi fót gripu þetta tækifæri til að reyna að skerða sjálfstjórnarrétt Tíbeta árangurslaust.

Um miðbik nítjándu aldar dró mjög úr áhrifum Kínverjar í Tíbet sem sjálfir höfðu öðrum hnöppum að hneppa heima fyrir. Svo var komið 1912 að Tíbetar birtust í samfélagi þjóðanna sem fullvalda þjóð og þrátt fyrir viðleitni af hálfu Kuomintang flokksins kínverska til að seilast til áhrifa í Tíbet bar það engan árangur.

Read more »

29.03.08

  08:43:07, Skrásetjari: Jón Rafn Jóhannsson, 1752 orð  
Flokkur: Kynþáttahyggjan og átök þjóða, Tíbet: Ákall frelsisunnandi þjóðar

Lifi frjálst Tíbet!!!

Enn í dag minnumst við hins frækilega hlaups Feidippídesar frá vígvellinum á Maraþonsléttunni á Attíkuskaganum í Grikklandi til Aþenu eftir orustuna við Persa (490 f. Kr). Fróðir menn segja að fjarlægðin sé 42, 2 kílómetrar. Hann flutti Aþeningum sigurtíðindin um að Grikkir hefðu sigrað her Kýrusar Persakeisara og hné síðan andvana niður. Maraþonhlaup var ein þeirra greina sem tekin var upp þegar Olympíuleikarnir voru endurreistir 1896 til minningar um þennan atburð.

Persum sveið ósigurinn mjög gegn þessari örverpisþjóð og því snéri Xerxes Peraskeisari til baka með her sem skipaður var meira en 100.000 vígamönnum auk mikils flota. Grikkir brugðust þannig við að mynda Hellenska bandalagið og í því bundust höfuðandstæðingarnir, Aþena og Sparta, fastmælum um að sigra her Persa. Faðir sagnfræðinnnar, Heródótus, greinir okkur frá því að fyrir herförina á hendur Grikkjum hafi Xerxes viljað kynnast hugarfari væntanlegra andstæðinga sinna. Honum var meðal annars greint frá Olympýuleikunum sem Grikkir héldu á fjögurra ára fresti og voru í reynd grundvöllur gríska tímatalsins. Þá vildi hann vita hver sigurlaunin væru. Þegar keisarinn heyrði að það væru hvorki gull né dýrir steinar heldur lárviðrasveigur varð honum ljóst, að hér væri við frelsisunnandi hugsjónamenn að ræða og að asnar hlaðnir gulli kæmu til lítils: Að slík þjóð létu ekki múta sér með glóandi gulli þegar frelsið lægi að veði.

Read more »

12.03.08

  18:37:19, Skrásetjari: Jón Rafn Jóhannsson, 6113 orð  
Flokkur: Synir Réttlætissólarinnar – Af prestkonungum Adamskynslóðarinnar

INNGANGUR – að Prestkonungum Adamskynslóðarinnar

Sjá myndir. Lesandanum skal bent á að best er að hlaða myndskrá á skjáborð og hafa tiltæka við lestur kaflans því að hér er um þungar pdf skrár að ræða

Það hefur vakið undrun mannfræðinga að þar sem ritlistin hefur ekki skotið rótum varðveitast munnlegar arfsagnir einstaklega vel þar sem þjálfun minnisins gegnir lykilhlutverki. Til að mynda skráðu trúboðar arfsagnir Iroquisindíána í norðanverðum Bandaríkjunum í „fríríkjum“ (relations) Jesúíta. Þegar Franz Boas rannsakaði þessar sömu arfsagnir 300 árum síðar höfðu indíánarnir varðveitt þær frá orði til orðs þrátt fyrir gjörbreytt menningarumhverfi. Sovéskir mannfræðingar komust að raun um að shamar (töfralæknar) í Miðasíu gátu þulið hindrunarlaust arfsagnir ættbálka sinna svo þúsundum skipti í bundnu máli. Ástralskir mannfræðingar hafa bent á þá staðreynd að munnlegar arfsagnir frumbyggjanna eru umgjörð um mikilvæga þætti í lífsafkomu þeirra: Hafa að geyma lífsnauðsynlegar upplýsingar um vatnsból, fjarlægðir, veiðilendur og græðandi jurtir svo að eitthvað sé nefnt. Arfsagnir frumbyggjasamfélaga gegndu þannig mikilvægu hlutverki til forna hvað laut beinlínis að sjálfri lífsafkomu þeirra og tilvist.

Read more »

  11:48:51, Skrásetjari: Jón Rafn Jóhannsson, 837 orð  
Flokkur: Hugleiðingar

Nýjasti hjartaknosari Danaveldis – ung kona með downseinkenni

Hversu miklu fegurri er hún ekki í mínum augum unga konan með downseinkennin sem heillað hefur dönsku þjóðina með lífskrafti sínum og gleði á undanförnum misserum og ég sá á DR1 um daginn, fremur en þessar . . . bib, bib, bib . . . sem gengið hafa inn í tröllaheima afskræmdra lífsgilda Hollywoodfársins og kallast „kvikmyndadísir,“ jafn ankannalega og slíkt lætur í eyra. Mér láðist að leggja nafn hennar á minnið en vafalaust eigum við eftir að heyra meira af henni hérna á klakanum vegna þess að hún er á góðri leið með að verða „heimsfræg“ um alla Skandinavíu. Væntanlega gefa dagskrárstjórar íslenska sjónvarpsins okkur tækifæri til að sjá hana „á skjánum.“ Þessi unga kona hefur flutt frumsamda einþáttungu og tvíþáttunga sem hrifið hafa hjörtu dönsku þjóðarinnar og er lifandi sönnum þess að mannauðurinn leynist víðar en á kaupþingum verðbréfastrákanna.

Read more »

1 2 4 5 ...6 ...7 8 9 10 11 12 ... 20