Blaðsíður: 1 ... 9 10 11 12 13 14 ...15 ...16 17 19 20

03.03.06

  10:48:21, Skrásetjari: Jón Rafn Jóhannsson, 1401 orð  
Flokkur: Hin heilaga arfleifð

Manngerðirnar þrjár

Í grein minni um heimspekinginn og stærðfræðinginn Blaise Pascal (Blaise Pascal og eldurinn) gaf ég hálfpartinn loforð um að fjalla um manngerðirnar þrjár í riti hans Pensées (§ 66). Þar víkur hann að dýrð holdsins, dýrð vitsmunanna og dýrð andans. Við skulum íhuga þetta örlítið nánar.

Dýrð holdsins: Þau Jón og Gunna eru fyrirmyndar hjón og lifa sátt við hlutskipti sitt. Þau vinna bæði úti og hún stundar heilsuræktina af kappi og mætir reglulega í saumaklúbb vinkvennanna þar sem þær ræða um daginn og veginn og þau hneykslismál sem eru efst á baugi hverju sinni. Fótboltinn og enska deildarkeppnin skipa öndvegissess í lífi Jóns og svo er hann heltekinn af jeppadellu. Þær eru ekki svo fáar stundirnar sem hann hefur varið í jeppann sinn og nú getur hann ekki á heilum sér setið fyrr en hann hefur eignast nýju þokuluktirnar sem komu í Bílabúð Benna í síðustu viku og kosta ekki nema fimmtíuþúsund kall. Að vísu er Gunna ekki hrifin af þessu vegna þess að þá hefur hann varið 300.000 krónum í jeppann á hálfu ári. Hún er hrædd um að þetta gæti orðið til þess að þau yrðu að slá ferðinni um páskana til Kanarí á frest. En í það heila tekið eru þau ánægð með líf sitt og verðbréfin sem þau keyptu í fyrra hafa margfaldast í verði. Grundvallarregla þeirra í lífinu er að skipta sér ekki af því sem þeim kemur ekki við. Þau hafa ekki farið í kirkju síðan hún Pálína frænka dó í fyrra og kjósa fremur að sofa út á sunnudögum.

Read more »

  09:06:09, Skrásetjari: Jón Rafn Jóhannsson, 194 orð  
Flokkur: Ritningarlestur dagsins

Fasta

Heilagt guðspjall föstudagsins 3. mars er úr hl. Matteus 9. 14-15:

Þá komu til hans lærisveinar Jóhannesar og segja: „Hví föstum vér og farísear, en þínir lærisveinar fasta ekki?“ Jesús svaraði þeim: „Hvort geta brúðkaupsgestir verið hryggir, meðan brúðguminn er hjá þeim? En koma munu þeir dagar, er brúðguminn verður frá þeim tekinn. Þá munu þeir fasta.

Enn að nýju skulum við hlusta á boðskap okkar heilögu feðra úr íslensku fornkirkjunni:

Þá helgum vér föstu óra, ef vér látum henni fylgja miskunnsemi við þurfamenn og gjörum sjálfir iðrun fyr það, er vér höfum illa gjört. En þá tæir oss iðrun synda vorra, ef aflát og yfirbót fylgir, svo sem Davíð sálmaskáld mælir: „Snúst þú frá illu“ kvað hann, „og gjör gott.“

Það er oss öllum bráðst að snúast frá inu illa og hverfa eigi aftur til þess. En þó má eigi það eitt að gnógu þörf vinna, nema vér gerim in góðu verk til yfirbótarinnar. [1]

Hómilíubók, bls. 159.

02.03.06

  07:36:19, Skrásetjari: Jón Rafn Jóhannsson, 360 orð  
Flokkur: Ritningarlestur dagsins

De sancta cruce (Um helgan kross)

Guðspjall fimmudagsins 2. mars er um helgan kross: „Hver sem vill fylgja mér, afneiti sjálfum sér, taki kross sinn daglega og fylgi mér. Því að hver sem vill bjarga lífi sínu, mun týna því, og hver sem týnir lífi sínu mín vegna, hann mun bjarga því. Hvað stoðar það manninn að eignast allan heiminn, en týna eða fyrirgjöra sjálfum sér?“ (Lk 9. 23-25).

Við skulum hlíða á þessum degi á boðskap feðra íslensku kirkjunnar sem hljómar til okkar yfir aldanna djúp:

Því er kross Drottins vors öllum helgum dómum helgari, að af honum helgast öll kristnin og öll sú þjónusta, er gift hins Helga Anda fylgir. Ekki má vígja án krossinum, svo sem engi mátti til himnaríkis komast án písla Krists. Þá er vér gerum krossmark yfir oss sjálfum eða yfir því, er vér viljum helgast láta af krossinum, þá skulum vér minnast, hvaðan hann helgaðist eða hvað hann merkir eða hvað hann má. Fyr krossi Drottins flæja [flýja] djöflar, hræðist helvíti, dauði firrist, syndir forðast, skammast óvinir, friður magnast, en ást þróast og allir góðir hlutir. Heilagur kross er sigurmark Guðs, en lausnarmark manna, en fagnaðarmark engla, helgaður af Guði, dýrkaður af englum, en göfgaður af mönnum og vegsamaður af allri skepnu. Heilagur kross er hlífiskjöldur við meinum, en hjálp í farsællegum hlutum, huggun við harmi og hugbót í fagnaði, hlíf við háska, lækning við sóttum, lausn í höftum, en leiðrétting frá syndum, sigur í orrustum, en efling við allri freistni, styrkt volaðra, en stjórn auðugra, friður góðum, en ógn illum, fyr miskunn þess, er á krossi leysti frá dauða allt mannkyn, Drottinn vor Jesús Kristur. Honum sé dýrð og vegur með Feður [Föður] og Syni og Anda Helgum of allar aldir alda. [1]

[1]. Úr Hómilíubók, bls. 54-55.

01.03.06

  18:17:49, Skrásetjari: Jón Rafn Jóhannsson, 746 orð  
Flokkur: Kraftaverk

Blaise Pascal og eldurinn

Franski heimspekingurinn Blaise Pascal fæddist í Clermont-Ferrand þann 19. júní 1623 og andaðist í París 19. ágúst 1662. Hann tilheyrir þeim fágæta hópi manna sem fæðast af og til á jörðu sem gæddir eru snilligáfu. Hann gaf út verk um þríhyrningafræði, líkindareikning og veðmál auk heimspekirita sinna. Til marks um hæfileika hans á sviði stærðfræðinnar ber eitt af helstu forritunarmálum tuttugustu aldarinnar nafn hans honum til heiðurs.

Hvað áhrærir framsetningu hans og stílbrögð, þá hóf hann franska tungu upp í nýjar og óþekktar hæðir og áhrifa hans gætir enn í dag í frönskum bókmenntum. Eftirfarandi röksemdafærsla hans varð fræg í rökfræðinni sem nefnd er rökfræðin um veðmálið:

Guð er til eða hann er ekki til og við verðum óhjákvæmilega að veðja á hann eða ekki.

Ef við veðjum á hann og Guð er – ósegjanlegur ávinningur.
Ef við veðjum á hann og Guð er ekki – ekkert tap.
Ef við veðjum gegn honum og Guð er – ósegjanlegt tap.
Ef við veðjum gegn honum og Guð er ekki – hvorki tap eða ávinningur.

Í þriðja tilvikinu felst tilgáta þar sem ég hlýt óhjákvæmilega að tapa öllu. Því segir spekin mér að veðja á þá tilgátu sem færir mér allt í hendur, eða að minnsta kosti að tapa engu. [1]

Read more »

  07:35:38, Skrásetjari: Jón Rafn Jóhannsson, 286 orð  
Flokkur: Erlendar fréttir

Hæstiréttur Bandaríkjanna úrskurðar andstæðingum gegn fóstureyðingum í vil

WASHINGTON, D.C., 28. feb. 2006 (Zenit.org).- Leiðtogi Priests for Life óskaði Joseph Scheidler og Pro-life samtökunum til hamingju fyrir sigur í Hæstarétti Bandaríkjanna sem úrskurðaði mótmælagöngum gegn fóstureyðingum í vil.

„Áratugum saman hafa þeir sem hliðhollir eru fóstureyðingum reynt að draga upp mynd af okkur sem andvíg erum fótstureyðingum sem ofbeldismönnum í þessu máli sem öðrum,“ sagði faðir Frank Pavone í yfirlýsingu. „Í dag misheppnast þessi viðleitni þeirra enn að nýju.“

Read more »

27.02.06

  17:51:13, Skrásetjari: Jón Rafn Jóhannsson, 480 orð  
Flokkur: Kraftaverk

Efkaristíundrið í Lancíano á Ítalíu

Fyrir 1200 árum átti sér stað mikið kraftaverk í hinni fornu rómversku borg Anxanum á strönd Adríahafs Ítalíu sem við þekkjum nú sem Lanciano. Þar stóð klaustur kennt við hl. Longinus sem fylgdi reglu hl. Basils úr Austurkirkjunni, en messan var sungin með rómverskum hætti, Þetta var á tímum mikilla deilna um raunnánd Krists í efkaristíunni. Prestar sá sem söng messuna þennan dag var sagður „vís í fræðum þessa heims, en hins vegar fullur vantrúar á raunnánd Krists í altarissakramentinu.“

Þegar hann lyfti hostíunni fyrir gjörbreytinguna breyttist hún í holdvöðva og vínið í sýnilegt blóð frammi fyrir þrumulostnum munkunum og kirkjugestum. Að sjálfsögðu varð þetta til þess að trú hans á raunnánd Drottins í hinum helgu efnum varð óhagganleg upp frá þessu. Að þessu loknu breyttist blóðið í kaleiknum í eins konar knetti óreglulega að lögun og misstóra. Þegar þeir voru vegnir kom í ljós að minnsti knötturinn reyndist jafn þeim stærsta að þyngd.

Read more »

26.02.06

  18:17:38, Skrásetjari: Jón Rafn Jóhannsson, 702 orð  
Flokkur: Hin heilaga arfleifð

Hvernig Guð mætir stundum manninum

Eldingar virðast hafa áhrif á einhver djúp svið í sálarlífi mannsins sem stundum geta leitt til breytingar á stefnu einstaklinga í lífinu. Þannig segir sá mikli guðsþjónn Meistari Eckhart þegar hann víkur að hinum eilífa getnaði Orðsins í mannssálinni:

Ef þessi fæðing nær í raun og veru fram að ganga megnar ekkert að halda aftur af þér: Allt beinir þér til Guðs og þessarar fæðingar. Við sjáum líkingu við þetta í eldingunni. Hvað sem hún lýstur, hvort sem það sé tré, dýr eða maður, snýr sá sem á hlut að máli sér að henni með þrumugnýnum. Maður sem snýr við henni baki snýr sér samstundis við til að bera hana augum. Öll þúsunda laufblaða trésins snúa sér við til að verða vitni að þessu leiftri. Sama gegnir um alla þá þar sem þessi fæðing nær fram að ganga. Þeir snúa sér þegar í stað til þessa getnaðar af öllum mætti, jafnvel einungis með jarðneskum hætti. Já, það sem áður var til hindrunar verður nú ekkert annað en til hjálpar. Ásjóna þín snýr sér svo fullkomlega til þessa getnaðar, hvað sem þú svo kannt að sjá og heyra, að þú meðtekur ekkert annað en þennan getnað. Allir hlutir eru einfaldlega Guð og þú sérð ekkert annað en Guð í öllum hlutum. Rétt eins og sá sem horfir lengi í sólina sér ekkert annað en sólina hvað sem hann svo horfir á. Ef þetta er ekki fyrir hendi, þetta áhorf til Guðs og að sjá Guð í öllu og fjölbreytileikanum, þá hefur þú ekki enn upplifað þennan getnað.

Read more »

25.02.06

  15:58:39, Skrásetjari: Jón Rafn Jóhannsson, 695 orð  
Flokkur: Kraftaverk

67. staðfesta kraftaverkið í Lourdes

Þann 14. nóvember s. l. samþykkti kaþólska kirkjan lækningu Önnu Santaniello, 93 ára gamallar ítalskrar konu, í lindinni í Lourdes sem kraftaverk. Þetta gerði kirkjan eftir nær 50 ára rannsókn. Atvikið átti sér stað 1952.

Meðlimir alþjóðlegu læknanefndarinnar höfðu komist að þeirri niðurstöðu árið 1964, að engin náttúrleg eða læknisfræðileg skýring væri fyrir hendi á lækningu hennar af alvarlegum hjartasjúkdómi. Samkvæmt starfsreglum sínum sendi nefndin skjöl hvað áhrærir mál Santaniello til erkibiskupsins af Salerno-Campagne-Acerno á Ítalíu, en sérstök nefnd sem hann skipaði lýsti því yfir að hún kæmist ekki að neinni niðurstöðu um mál hennar.

Read more »

24.02.06

  11:28:24, Skrásetjari: Jón Rafn Jóhannsson, 2361 orð  
Flokkur: Kraftaverk

Kraftaverkið í Hiroshima þann 6. ágúst 1945

Orðið kraftaverk á íslensku er ágætt orð sem lýsir vel áhrifamætti þess ofurorkusviðs sem mælt var í Medjugorje. Það er afar sjaldan sem kirkjan viðurkennir tilvist kraftaverka, og þá einungis eftir ítarlega rannsókn fjölmargra sérfræðinga. Engu að síður eiga þau sér stað. Þannig er það hópur sérfræðinga sem skipaður eru úr ýmsum greinum læknisfræðinnar sem fer yfir allar „lækningar“ í Lourdes. Afar fá tilvik sleppa í gegnum þetta nálarauga sérfræðinganna. Síðar mun ég víkja að einu slíku atviki um kraftaverkalækningu sem samþykkt var nýverið og öll gögn lágu fyrir hendi, þar með sjúkrasaga og læknaskýrslur viðkomandi sjúklings.

Eitt af því sem sérfræðingar veittu athygli í Medjugorje var að önnur veðurfarskilyrði virtust vera ríkjandi í næsta umhverfi Jakobskirkjunnar í Medjugorje en á svæðinu í kring. Annað dæmi eru þær tvær tilraunir sem gerðar voru þegar serbneski herinn hóf stórskotahríð á kirkjuna. Öll geiguðu skotin. Og þið megið trúa mér að miðunartæknin er háþróuð í nútíma hernaði þar sem skotið er eftir hnitum með elektrónískum fjarlægðarmælum. Látið mig vita það, bæði er ég sjálfur menntaður í mælingafræðum og svo var mér falið það leiðinlega starf á sínum tíma, að fylgjast með nýjustu fréttunum úr fyrra Persaflóastríðinu. Þá var langdrægum eldflaugum skotið frá herskipum Bandaríkjamanna á Persaflóanum á Bagdad, og reyndar fleiri staði. Allt var þetta gert eftir hnitum og eldflaugarnar misstu ekki marks.

Read more »

22.02.06

  16:50:34, Skrásetjari: Jón Rafn Jóhannsson, 1180 orð  
Flokkur: Hin heilaga arfleifð

Álitsgjafinn (der Besserwisser)

Orðið „besserwisser“ á þýsku skírskotar til þess sem telur sig „vita“ allt betur en allir aðrir. Það þýðir einnig þann sem leitast við að þvinga „þekkingu“ sinni upp á aðra gegn vilja þeirra. Ég finn ekkert annað betra orð yfir þetta á íslensku en álitsgjafi. Samfara þessu vanþroskamerki fylgir einnig annar ágalli sem best er lýst sem athyglissýki, að láta aðra taka eftir sér í tíma og ótíma, bókstaflega að trana sér fram.

Þetta eru hvimleiðir lestir og áberandi fylgikvilli svo kallaðrar kranablaðamennsku þar sem dælan er látin ganga allan liðlangan daginn, án þess að hafa í rauninni nokkuð til málanna að leggja. Því eru álitsgjafarnir vinsælir hjá fjölmiðlum sem leggja sig fram um slíkt af því að þeir eru ávallt tiltækir. Ég verð að ljóstra hér upp dálitlu leyndarmáli sem lýsir þessu vel. Á dagblaði sem ég vann við fyrir fjölmörgum árum og heyrir nú sögunni til, var haldið úti sérstökum dálki um málefni líðandi stundar. Dálkurinn var unninn rétt fyrir útkomu blaðsins og því var tíminn oft knappur og erfitt gat reynst að ná í menn. Þannig hafði blaðið komið sér upp ákveðnum hóp slíkra álitsgjafa. Þetta kom sér vel vegna þess að það skipti ekki nokkru máli um hvað málið snérist: Álitsgjafarnir höfðu vit á öllu og jafnframt skoðun.

Read more »

21.02.06

  18:10:23, Skrásetjari: Jón Rafn Jóhannsson, 592 orð  
Flokkur: Bænalífið

Kraftur Guðs og bænarinnar

Ég skrifaði grein um ljósastólpa bænarinnar og kraft einhvern tímann í janúar, en því miður hefur hún glatast við flutning yfir á annað vefsvæði. Ég endurtek því hér nokkrar þeirra staðreynda sem þar var vikið að. Ég geri mér fyllilega ljóst að strákarnir á Vantrúarnetinu verða alveg spólvitlausir þegar þeir lesa þessa grein, en það er einungis allt gott um það að segja.

Orðið dynameos eða kraftur kemur fyrir um það bil fimmtíu sinnum í bréfum Páls postula og er samofið hinni Eilífu fæðingu Orðsins og þar með Guðsmóðurinni: „Heilagur Andi mun koma yfir þig og KRAFTUR hins Hæsta mun yfirskyggja þig“ (Lk 1. 35). Jafn samofið og orðið kraftur er hinni blessuðu mey kemur það því ekki á óvart að hann hefur opinberast með áþreifanlegum hætti á einum opinberunarstaða hennar, það er að segja í Medjugorje. Það er einnig hér sem þessi kraftur hefur bókstaflega verið mældur með vísindalegum hætti í FYRSTA SKIPTIÐ Í MANNKYNSSÖGUNNI. Rannsóknarniðurstöðurnar voru birtar í Etudes medicales et scientifiques sur les apparitions de Medjugorje, eftir þá prófessor Henry Joyeux og Abbé René Laurentin. [1]

Read more »

20.02.06

  09:42:28, Skrásetjari: Jón Rafn Jóhannsson, 2870 orð  
Flokkur: Hin heilaga arfleifð

Var Adam Biblíunnar einstaklingur eða samfélagsheild?

Ég svara þessari spurningu bæði og í ljósi heilagrar Ritningar í þessu samhengi: „Hönd Drottins kom yfir mig, og hann flutti mig burt fyrir Anda sinn og lét mig nema staðar í dalnum miðjum, en hann var fullur af beinum . . . „Mannsson, hvort munu bein þessi lifna við aftur?“ Ég svaraði: „Drottinn Guð, þú veist það!“ Þá sagði hann við mig: „Tala þú af guðmóði yfir beinum þessum og seg við þau . . . „Sjá, ég læt lífsanda í yður koma, og þér skuluð lifna við“ (Esk 37. 1, 3, 5).

Guð er sjálfum sér ætíð samkvæmur og óumbreytanlegur í ráðsályktun sinni og mætir manninum alltaf eins og hann er: SEM SAMFÉLAGSVERU. Frá upphafi hefur kirkjan skilið þessi orð sem hluta ráðsályktunar Guðs. Í þessu tilviki er okkur greint frá því að Guð muni blása nýjum lífsanda í hús Ísraels, Heilögum Anda sínum. Drottinn endurtekur þetta með sama hætti þegar hann grundvallar kirkju sína á jörðu. Fyrst blés hann lífsanda sínum í samfélagið til að skapa einingu sem er forsenda komu Heilags Anda. Síðan sjáum við hvernig þessi eining er grundvöllur komu Andans á hvítasunnunni: „Allir þessir voru með einum huga stöðugir í bæninni ásamt konunum“ (P 1. 14).

Read more »

19.02.06

  09:53:53, Skrásetjari: Jón Rafn Jóhannsson, 649 orð  
Flokkur: Hin heilaga arfleifð

Um áreiðanleika Biblíutexta

Komið hefur í ljós þegar tímasetningar Biblíunnar eru kannaðar, að gríska Sjötíumannaþýðingin (LXX) hefur reynst standa sjálfum frumtextanum næst. Þetta er sá texti sem tilheyrir kanón kirkjunnar. Af þremur textum Sköpunarsögunnar er það svo nefndur Codex Alexandrinus eða Alexandríutexti sem er heillegastur, en hann er varðveittur í British Museum. Í honum hefur Sköpunarsaga Biblíunnar varðveist í heild ásamt Mósebókunum.

Með ítarlegum samanburði við samverska Biblíutextann og hinn masóríska texta Gyðinga kemur í ljós, að Gyðingar hafa með markvissum hætti breytt öllum tímasetningum til samræmis við trúarafstöðu sína. Allt má rekja þetta til þess tíma sem kristnir menn tóku að beina spádómsorðum Biblíunnar að Gyðingum sjálfum í frumkirkjunni. Allflestir Gyðingar trúðu því að rétt eins og maðurinn hafði verið skapaður á sjötta degi sköpunarinnar, þá myndi Messías birtast á sjötta „degi“ (1000 ár) mannkynssögunnar vegna þess að fyrir Guði er einn dagur sem þúsund ár.

Read more »

18.02.06

  11:51:37, Skrásetjari: Jón Rafn Jóhannsson, 466 orð  
Flokkur: Erlendar fréttir

Engin hjónavígsla fyrir hómósexualista eða réttur til að ættleiða börn.

Spánn (Novedades Fluvium, 18. feb. 2006). Nefnd sem franska þingið skipaði til fjalla um rétt fjölskyldunnar og vernd barna hefur komist að þeirri niðurstöðu, að hafna beri hjónavígslu samkynhneigðra og ættleiðingu barna af hálfu samkynhneigðs fólks. Formaður nefndarinnar, Valèrie Pecresse, segir í viðtali við Novedades Fluvium: „Málið snýst ekki um að skerða mannréttindi fullorðins fólks. Kjarni málsins snýst um réttindi barnsins sjálfs.
Í þessu sambandi kemst Pecresse svo að orði: „Einungis er um tvær leiðir að ræða: Annað hvort að lögleiða hjónavígslu þeirra og rétt til ættleiðingar, eða hafna ættleiðingunni og þar með hjónavígslunni. Samkvæmt niðurstöðum nefndarinnar stangast slík heimildarákvæði í lögum gegn líffræðilegum staðreyndum sem fælist í því að hafna því hvernig barn er getið.

Read more »

17.02.06

  18:37:26, Skrásetjari: Jón Rafn Jóhannsson, 1124 orð  
Flokkur: Fóstureyðingar og vernd

Manndrápslyfið RU-486

Þann 14. febrúar s.l. samþykkti neðri deild Ástralska þingsins með 90 atkvæðum gegn 56 að lögleiða notkun fóstureyðingalyfsins RU-486. Þann 9. febrúar samþykkti efri deildin (senatið) sömu heimildarákvæði með 45 atkvæðum gegn 28. Í ákvörðun sinni sinnti ástralska þingið engu niðurstöðum rannsóknarnefndar Bandaríkjaþings sem leiddu í ljós að lyfið hefur valdið dauða 8 kvenna og stefnt heilsu 850 annarra kvenna í voða. Þannig bættist Ástralía í hóp nokkurra annarra ríkja sem heimila notkun lyfsins, það er að segja Frakklands, Kína, Bretlands, Svíþjóðar og Bandaríkjanna.

Ástæðan sem býr þessari ákvörðun að baki er einföld. Inngjöf lyfja sem skaðleg eru líkama kvenna, einkum móðurlífinu og frjósemi þeirra þar sem kvenlíkaminn er notaður sem hver önnur sorptunna, veltir milljarða dollara ágóða árlega sem rennur í vasa alþjóðlegra lyfjahringa. Markaður þessi samanstendur af fóstureyðingjarlyfjum eins og Dalkom Shield, Norplant, Depo-provera, VES, DES og rítodrine, að ógleymdu RU-486.

Read more »

16.02.06

  20:29:17, Skrásetjari: Jón Rafn Jóhannsson, 574 orð  
Flokkur: Persónulegir vitnisburðir

Fyrsta áþreifanlega reynslan af Heilögum Anda

Fyrstu áþreifanlegu reynsluna af Heilögum Anda öðlaðist ég þegar ég var sextán ára og tveggja mánaða gamall. Tildrögin voru þessi. Ég var að passa krakka fyrir skyldfólk úti í bæ. Þetta var um hásumar eins og veðrið gerist best í Reykjavík, í miðjum júlímánuði. Ég sat í stól í betri stofunni og var að glugga í einhverja bók vegna þess að þetta var löngu fyrir tíma sjónvarpsins.

Read more »

  18:31:24, Skrásetjari: Jón Rafn Jóhannsson, 128 orð  
Flokkur: Persónulegir vitnisburðir

Annað lítið dæmi um árvekni Heilags Anda

Fyrir nokkrum vikum síðan gaf kærkominn vinur minn heiti sitt sem skemamunkur í ónefndu klaustri í Austurkirkjunni. Athöfnin fór vitaskuld fram á sunnudegi. Daginn áður, eða á laugardeginum, sendi ég honum heillaóskir í rafpósti. Allt í einu datt mér í hug að senda honum íslensku íkonuna af hl. Silúan frá Aþosfjalli sem viðhengi.

Á þriðjudagsmorguninn þegar ég opnaði aðsend rafpóstbréf beið mín eftirfarandi orðsending frá honum: Bróðir, Guð hefur opinberað þér mikla hluti. Þeir gáfu mér nafnið Silúan. Þetta varð honum til mikillar staðfestingar.

Það er huggunarríkt hvernig Drottinn og Heilagur Andi vaka yfir hjörðinni sinni á jörðu, nú á tímum framsóknar guðsafneitunarinnar, jafnvel í smæstu hlutum.

  11:37:38, Skrásetjari: Jón Rafn Jóhannsson, 399 orð  
Flokkur: Persónulegir vitnisburðir

Örlítið um handleiðslu Heilags Anda

Hér að framan (í athugasemdum við Tübingenmennina) er minnst lauslega á útgáfu hins Íslenska biblíufélags af Nýja testamentinu frá árinu 1981. Mig langar að koma á framfæri eftirfarandi frásögn sem tengist þessari útgáfu. Frásögnin er falleg og leiðir okkur einfaldlega fyrir sjónir hvernig Heilagur Andi vakir sífellt yfir velferð kirkju sinnar á jörðu.

Það var séra Hreinn Hákonarson sem annaðist lokafrágang verksins og prófarkalestur fyrir prentun, en Biblían var prentuð í Prentsmiðju evrópsku Biblíufélaganna í Stuttgart. Í byrjun janúar 1981 þegar ég kom heim í mat í hádeginu fannst mér ég vera knúinn til að hringja í séra Hrein og bjóða fram aðstoð mína. Hann tjáði mér að verkinu miðaði svo vel áfram að engrar aðstoðar væri þörf, en til öryggis skrifaði hann nafn mitt og símanúmer niður. Á þessum árum vann ég enn við kortagerð, áður en ég lét heillast af hinni himnesku landafræði.

Read more »

15.02.06

  10:52:08, Skrásetjari: Jón Rafn Jóhannsson, 2121 orð  
Flokkur: Bænalífið

Um hið andlega brúðkaup Krists og sálarinnar

Hér á vefsetrinu hefur verið vikið að inntaki kaþólsks hjónabands sem guðlegri tilhögun og óaðskiljanlegum þætti í helgunarguðfræðinni. Þannig hefur kirkjan lagt á það áherslu frá upphafi vegferðar sinnar á jörðu, að hjónaband karls og konu sé helgunarvegur. Ef kaþólskur karl og kona fella hugi saman, þá útilokar hjónabandi þau ekki frá því að ganga veg helgunarinnar, heldur þvert á móti, sökum þess að hér er um sakramenti Drottins að ræða sem glæðir náðargjöf elskunnar í Heilögum Anda. Ef einstaklingar fá ekki köllun til annarrar þjónustu í kirkjunni til klausturlífs, prestsþjónustu eða annarra helgrar þjónustu, hvetur kirkjan karlinn og konuna til að kvænast til að forðast saurlifnað.

Read more »

13.02.06

  11:54:19, Skrásetjari: Jón Rafn Jóhannsson, 1522 orð  
Flokkur: Hin heilaga arfleifð

Af Tübingenmönnum og fleira

Eitt þeirra þjóðfélagsmeina sem þjakaði evrópskt samfélag síðmiðaldanna var ofvöxtur í þeirri þjóðfélagsstétt sem nefndist „aðalsmenn.“ Yfirleitt voru þeir iðjulausir með öllu og höfðu lítt annað fyrir stafni en að syngja ballöður og gæða sér á vínum og heilsteiktum grísum, milli þess sem þeir fóru um sínar heimasveitir og lömdu á búandkörlum og frömdu húsbrot. Því datt hyggnum landstjórnarmönnum það snjallræði í hug, að senda þá í „krossferð“ til að létta á áþjáninni heima fyrir.

Read more »

12.02.06

  20:22:24, Skrásetjari: Jón Rafn Jóhannsson, 157 orð  
Flokkur: Hin heilaga arfleifð

Hvernig öðruvísi?

Oft eru hvatvísar yfirlýsingar lúterskra presta dálítið broslegar. Þannig segir séra Þórhallur Heimisson: „Kaþólska kirkjan á Íslandi hefur alltaf verið öðruvísi en kirkjan á meginlandinu.“ Þetta hefur alveg farið fram hjá okkur kaþólskum. Hvernig?

Kannske á hann við einlífi presta (celibacy). Hann gerir sér augljóslega ekki grein fyrir því að kirkjan er sveigjanleg þegar á reynir. Prestum á Íslandi, Grænlandi og í harðbýlum löndum Austurlanda nær var heimilað að kvænast á miðöldum ef þeir æsktu þess. Hvers vegna? Þessi lönd voru svo harðbýl að prestar komust trauðla eða ekki af án eiginkvenna og barna og að stunda búrekstur.

Hvað áhrærir sjálfa guðfræðina. Miklu ósegjanlega var hún ekki fegurri, tærri og háleitari guðfræðin í Hómilíubókinni en þessi ósköp sem þeir eru að boða í þessum fríkirkjum í dag.

  17:56:32, Skrásetjari: Jón Rafn Jóhannsson, 908 orð  
Flokkur: Hin heilaga arfleifð

Fúlt vin á lekum belgjum

Grein sem Morgunblaðið vildi ekki birta, skrifuð 15. janúar s. l.

Það er með vaxandi undrun sem meðlimir rómversk-kaþólsku kirkjunnar og Rétttrúnaðarkirkjunnar á Íslandi hafa fylgst með umræðum þeim sem farið hafa fram um eðli og inntak hjónabands karls og konu. Hvað áhrærir ummæli herra Karls Sigurbjörnssonar biskups lútersk-evangelísku kirkjunnar um að hún þarfnist "umþóttunartíma" áður en hún taki afstöðu til "giftingar" homma og lesbía, langar mig einungis að segja þetta: Hin almenna (kaþólska)
kirkja mótaði afstöðu sína til hjónabands karls og konu fyrir tvö þúsund árum. Í samhljóðan við hana er hjónaband karls og konu eitt sakramentanna sjö og óaðskiljanlegur hluti hinnar heilögu arfleifðar. Jafnvel sjálfur páfinn í Róm og patríarkarnir í Konstantínópel og Moskvu geta ekki vikið út af arfleifðinni. Þetta er eitt þeirra náðarmeðala sem frumkirkjan þáði úr
höndum Drottins, sakramenti (leyndardómur).

Heilagleikalögin í Þriðju Mósebók eru afdráttarlaus: Eigi skalt þú leggjast með karlmanni sem kona væri. Það er viðurstyggð (3 M 18. 22). Þetta er sannleikur sem endurtekinn er í fyrsta varðveitta trúfræðslukveri frumkirkjunnar, Tólfpostulakenningunni (Didache) samið um 60-120? e. Kr.: Þú skalt ekki iðka kynvillu [saurga drengi] (2. 2). Jafnframt minni ég á orð Guðs Drottins er hann mælti meðan hann dvaldist meðal okkar í holdtekju sinni á jörðu: Þar til himinn og jörð líða undir lok, mun ekki einn smástafur eða stafkrókur falla úr lögmálinu, uns allt er komið fram (Matt 5. 17, 18).

Það kemur ekki á óvart að almenningur í landinu hafi "ruglast í ríminu" sökum iðju og eljusemi vegvilltra falsboðenda orðs Guðs: Drottinn hefur byrlað þeim sundlunaranda, svo að þeir valda því, að Egyptaland er á reiki í öllum fyrirtækjum sínum, eins og drukkinn maður reikar innan um spýju sína (Jes 19. 14). Þetta hafa þeir gert með dyggum stuðningi þeirrar forarvilpu siðleysis sem úthellt hefur verið yfir heimsbyggðina frá smiðju Satans í Hollywood undanfarna áratugi, eðjupytti blygðunarlausrar vantrúar og botnlausrar blindu gagnvart siðrænum gildum kristindómsins.

Veturinn 1906 til 1907 jókst ungbarnadauði í Vínarborg svo mjög, að læknar stóðu uppi ráðþrota. Að lokum veitti einn þeirra því athygli, að þessi banvæna sýking virtist ekki hafa nein áhrif á sængurkonur Gyðinga og nýbura þeirra. Við nánari rannsókn kom í ljós að það voru læknarnir sjálfir sem báru sýkinguna á milli sængurkvennanna. Ástæðan var sú að þeir þvoðu ekki hendur sínar og sótthreinsuðu. En samkvæmt lögmáli Móse er sængurkonum gert að dvelja í einangrun í átta daga að fæðingu barns lokinni (hreinsunardagarnir). Þannig veittu lögmálsákvæðin Gyðingakonunum og hvítvoðungunum vernd.

Við falsboðendur orðs Drottins vil ég segja þetta: Iðrist og laugið hendur ykkar í silfurtærri uppsprettu guðspjallanna. Látið af þeirri iðju ykkar að bera andlega sýkingu sundlunaranda ykkar til barna Guðs til að deyða þau eftir endurfæðingu þeirra í Drottni Jesú Kristi (þ.e. eftir skírnina).

Upphafið að hruni Sovétríkjanna mátti rekja til lítils trékross sem reistur var í borginni Novi Sad í Póllandi, sem fólk tók að safnast um. Þetta varð upphafið að Samstöðu (Solidarnosh) pólsks almennings gagnvart ógnaroki kommúnismans. Borginni Novi Sad var ætlað að verða að fyrstu fyrirmyndarborg og ímynd kommúnismans án allra kirkna.

Milljónir rússneskra karla og kvenna báru þessum sama krossi vitni með því að úthella blóði sínu í fórn píslarvættisins í útrýmingarbúðum sósíalfasismans.

Allt mátti rekja þetta til andvaraleysis umbótasinnaðra rússneskra stjórnmálamanna sem leiddi til þess að sósíalfasisminn bókstaflega "rændi" rússnesku þjóðina ávinningi stjórnarumbóta Kerenskij-stjórnarinnar og dúmunar (rússneska þingsins).

Við andvaralausa stjórnmálamenn á Íslandi vil ég segja þetta: Fjölmargir forystumanna fyrir bættri afkomu almennings á Norðurlöndum, í Englandi og Þýskalandi í upphafi tuttugustu aldar komu úr kristnum söfnuðum. Þetta voru einstaklingar sem létu hrífast af orðum Drottins í lögmálinu: Hann rekur rétt munaðarleysingjans og ekkjunnar og elskar útlendinginn, svo að hann gefur honum fæði og klæði (5 M 10. 18). Látið ekki afturgöngu guðsafneitunar sósíalfasismans ræna þjóðina þessari vegsemd Guðs. Ég bið lýðræðissinnaða stjórnmálamenn að hafa þetta í huga til að hefta megi þessa framsókn dauðamenningar guðsafneitunarinnar.

Í stað draumsýna hugvillna sósíalfasismans um guðlausar borgir skulum við fremur horfa til borgar Guðs eins og hún endurspeglast í mannshjartanu, eins og skáldjöfurinn og presturinn Einar Sigurðsson frá Heydölum sá hana birtast í guðsímynd kornvoðungs fyrir fjögur hundruð árum (í ljóðinu: Af stallinum Christí):

Skapaðu hjarta hreint í mér
til híbýlis er sómir þér
saurgan allri síðan ver
svo ég þér gáfur (dyggðir) færi.

Þá mun íslensku þjóðinni farnast vel í "Guð vors landi" á tuttugustu og fyrstu öldinni og njóta blessunar Guðs í ríkum mæli.

11.02.06

  18:27:47, Skrásetjari: Jón Rafn Jóhannsson, 160 orð  
Flokkur: Erlendar fréttir

Andkristin viðhorf ríkjandi innan stjórnar Evrópubandalagsins

Toríno, Ítalíu, 10. Feb 2006 (Zenit.org). Hinir trúuðu hafa það iðulega á tilfinningunni að andkristinn minnihluti stjórni ráðum Evrópubandalagsins og yfirstjórn, kemst biskup einn að orði.

„Jæja, ef til vill höfum við lagt sjálf eitthvað af mörkum með andvaraleysi okkar,“ skrifaði aðalritari ungverska biskuparáðsins, András Veres, biskup í yfirlýsingu til SIR, fréttaþjónustu ítölsku biskupsumdæmanna.

Þegar Veres aðstoðarbiskupinn í Eger, leit yfir farinn veg einu og hálfu ári eftir að Ungverjaland gekk í bandalagið, gerði hann þá athugasemd „að fjöldi þeirra sem orðið hefðu fyrir vonbrigðum færi vaxandi.“

Hann lagði einnig áherslu á skort á „andlega sinnuðu bandalagi sem gæti glætt almenn siðagildi hjá Evrópubúum,“ og bætti því við að „bandalag án allra siðagilda væri hvorki unnt að byggja upp eða viðhalda.

ZE060211024/JRJ.

10.02.06

  17:51:35, Skrásetjari: Jón Rafn Jóhannsson, 1405 orð  
Flokkur: Fóstureyðingar og vernd

Krukkufórnir og barnamorð

Í gamla daga þegar ég var að bögglast við að læra latínu las ég Púnversku stríðin hans Tacítusar. Það var ekki svo að mér væri uppálagt það, heldur rakst ég á ævagamalt eintak af bókinni á latínu á fornbókasölu. Ég er ekki sá fyrsti sem hef látið heillast af þessum forna rómverska sagnaritara. Mig minnir að það hafi tekið mig heilan vetur að strögglast í gegnum verkið, enda mikið að vöxtum.

Á þessum tíma, lýðveldistímanum, voru Rómverjar afar siðprúðir menn og höfðu konur sínar, börn og heimili í hávegum. Upphaf púnversku stríðanna við Karþagómenn fólst ekki einungis í verslunarhagsmunum, heldur fyrirlitu Rómverjar Karþagómenn fyrir mannfórnir þeirra, einkum barnafórnir. Karþagómenn komu upphaflega frá Fönikíu og á fönísku þýðir Karþagó „Nýja borgin.“ Borgin var þannig eins konar New York í útþenslustefnu þeirra.

Read more »

09.02.06

  10:21:43, Skrásetjari: Jón Rafn Jóhannsson, 1060 orð  
Flokkur: Fóstureyðingar og vernd

Lífsmenning ljóss og elsku eða dauðamenning?

Kæru bræður og systur! Um aldir hefur orðið hin stríðandi kirkja á jörðu verið haft um hönd í kaþólskri guðfræði. Með kaþólskri guðfræði á ég við guðfræði rómversk kaþólsku kirkjunnar og Rétttrúnaðarkirkjunnar. Við tölum einnig um hina sigrandi kirkju himnanna, samfélag heilagra á himnum, og hina líðandi kirkju eða kirkju þjáninganna í hreinsunareldinum (Austurkirkjan í eldinum). Þetta samfélag myndar eina órofna heild og fyrri limirnir tveir bera statt og stöðugt fram fyrirbænir fyrir kirkju þjáninganna í eldinum eilífa. Þetta er það lífssamfélag sem Endurlausnarinn lagið grundvöllinn að í holdtekju sinni á jörðu og þar er hann höfuð líkamans. Kirkjan er því ekki „grasrótarhreyfing“ eins og einn fylgjenda endurskoðunarguðfræði póstmódrnismans komst að orði. Hún lýtur valdi Drottins Jesú Krists af auðmýkt. Kristur er konungur kirkjunnar, við hins vegar þegnar hans.

Read more »

08.02.06

  10:44:18, Skrásetjari: Jón Rafn Jóhannsson, 847 orð  
Flokkur: Hin heilaga arfleifð

Panhagían (Hin Alhelga)

Þegar hl. Silúan frá Aþosfjalli (1866-1938) var ungur maður var hann sterkbyggður og stæðilegur. Iðulega sat hann á þorpskránni og að eigin sögn gat hann hesthúsað þremur brúsum af vodka á kvöldi, án þess að verða meint af. Að minnsta kosti taldi hann sér sjálfum trú um þetta. Svo kom hún, Panhagían, Guðsmóðirin, óvænt til hans og sagði við hann byrstri röddu: „Mér fellur það illa, Simeon (þetta var skírnarnafn hans) hvernig þú hagar þér!“

Eftir að hafa gegnt herþjónustu í lífvarðadeild tsarsins í St. Pétursborg með sóma, snéri hann heim þar sem hann dvaldist í viku með fjölskyldu sinni, áður en hann hélt til Aþosfjalls þar sem hann dvaldi alla ævi sem munkur og varð afar helgur maður.

Read more »

06.02.06

  21:27:28, Skrásetjari: Jón Rafn Jóhannsson, 1620 orð  
Flokkur: Hin heilaga arfleifð

ALLAH MEHABA (Guð er kærleikur)

Fyrir fjölmörgum árum stóð ég í bréfaskriftum við afar fjölfróðan jesúítaföður í Alexandríu í Egyptalandi. Nafn hans er Henry Boulad S. J. Jesúítarnir í Alexandríu hafa hvað eftir annað staðið í samræðum (dialog) við íslamska guðfræðinga og þekkja því trúarafstöðu þeirra vel. Þeir hafa rekið menntaskóla í nokkra áratugi í Egyptalandi. Í kristindóminum opinberar Guð sjálfan sig í mennskri mynd, staðreynd sem hljómar eins og argasta guðlast í eyrum íslamskra guðfræðinga. Þeir vara fylgjendur sína við að leggja eyra að slíku guðlasti, þessa lítillækkun á almáttugum Guði. Og múslimar fullyrða engu að síður að Guð sé kærleikur! Þetta er það sem faðir Boulad heyrði með eigin eyrum sheikinn segja við nemendur sína í morgunbænunum. Ég gef honum orðið:

Þetta er það sem ég heyri þennan morgunn á Nílarbökkum með eigin eyrum:

„ALLAH MEHABA“ (Guð er kærleikur).

Read more »

05.02.06

  15:18:25, Skrásetjari: Jón Rafn Jóhannsson, 1548 orð  
Flokkur: Hin heilaga arfleifð

Um viðræður milli trúar, vísinda og veraldarhyggju (secularism)

Um miðjan janúar s.l. lagði Benedikt páfi XVI áherslu á viðræður milli trúar og vísinda annars vegar og veraldarhyggju (secularism) hins vegar. Mig langar þannig að víkja örlítið að viðræðum kirkjunnar og stjarneðlisfræðinnar um heimsmyndunarfræðina (cosmology). Árið 1989 var Alheimsþing stjarneðlisfræðinga þannig haldið í Vatíkaninu. Ástæðan er sú að á þessu sviði eiga kirkjan og vísindin samleið. Benedikt páfi er þannig einungis að feta í fótspor forvera síns, Jóhannes Páls páfa II. Bandaríski stjarneðlisfræðingurinn Robert Jastrow hefur komist vel að orði í þessu sambandi: „Nú sjáum við að staðreyndir stjörnufræðinnar falla að afstöðu Biblíunnar til sköpunar heimsins. . . Fjölmargir vísindamenn sætta sig ekki við að heimurinn hafi orðið til með þessum hætti. Guðfræðingar eru í hæsta máta ánægðir með þær sannanir sem leiða í ljós að alheimurinn átti sér upphaf, en stjörnufræðingarnir bregðast undarlega við. Viðbrögð þeirra varpa athyglisverðu ljósi á hina vísindalegu hugsun – sem krafist er að sé óhlutbundin – þegar staðreyndir sem vísindin sjálf hafa uppgötvað rekast á grunvallaratriði trúarjátningar okkar.“ Við getum einnig orðað þetta öðruvísi: Vantrú og guðsafneitun (atheism) er einungis ákveðið afbrigði trúar sem játar að Guð sé ekki til.

Read more »

  13:39:44, Skrásetjari: Jón Rafn Jóhannsson, 411 orð  
Flokkur: Kraftaverk

Hún blessaða Bernadetta okkar frá Lourdes

Þessi grein féll niður við flutning skráa yfir á nýtt vefsetur. Hún var skrifuð þann 22. janúar s.l.

Í gærkveldi, rétt áður en ég fór að sofa, efndi Drottinn til óvæntra
veisluhalda í sál minni. Ég sá afar athyglisverða mynd á National
Geography Channel í sjónvarpinu. Myndin heitir: The Beautiful Dead.

Þar gafst að líta fjölmörg dæmi um heilagt fólk sem hafið hefur verið
upp yfir lögmál jarðneskrar tilveru og er jafn fallegt eins og þegar það
dó. Hl. Margrét hefur legið þannig í 700 ár, án þess að hafa verið
smurð. Blessunin hún Margrét var lögð til hvíldar í grafhvelfingu ásamt
fjölmörgum öðrum sem sofnaðir voru í Kristi. Utan hennar einnar er allt
þetta hold orðið að dufti fyrir mörg hundruðum ára!

Read more »

03.02.06

  21:50:36, Skrásetjari: Jón Rafn Jóhannsson, 1043 orð  
Flokkur: Hin heilaga arfleifð

Dálítið um pólitíska slagsíðu

Sumir vina minna telja að ég hafi gert mig sekan um pólitíska slagsíðu í skrifum mínum á Kirkju.net. Þeir óttast að ég sé orðinn að hægri sinnuðum öfgamanni, jafnvel falangista vegna tengsla minna við Spán. Þeir þurfa ekki að óttast slíkt. Leyfið mér að útskýra mál mitt.

Sem kaþólskur maður aðhyllist ég þá efnahagsstjórn sem Heilagur Andi boðaði frumkirkjunni: En í þeim fjölda, sem trú hafði tekið, var eitt hjarta og ein sál, og enginn þeirra taldi neitt vera sitt, er hann átti, heldur höfðu þeir allt sameiginlegt (P 4. 32).

Þetta er sameignarstefna Heilags Anda og það guðsríki (theocracy) sem hann boðar á jörðu. Sérfræðingar Matvælastofnunar Sameinuðu þjóðanna hafa komist að þeirri niðurstöðu, að jörðin gæti auðveldlega brauðfætt 35-50 milljarði íbúa og engin þyrfti að líða skort: Ekkert barn þyrfti að sofna á kvöldin á svangan maga eða verða hálf vanvita sjö ára gamalt sökum skorts á eggjahvítu.

Read more »

  19:57:26, Skrásetjari: Jón Rafn Jóhannsson, 1625 orð  
Flokkur: Hin heilaga arfleifð

Vorvindar breytinga?

Davíð Oddsson, fyrrverandi forsætisráðherra, komst svo að orði s.l. sumar í fjölmiðlum: „Guðlaus kapítalismi er ekki hætis hót skárri en guðlaus kommúnismi.“ Davíð er einn af mikilhæfustu stjórnmálamönnunum á Íslandi á tuttugustu öld og verður minnst sem slíks í sögunni. Davíð var einn þeirra fágætu stjórnmálamanna sem hafði einnig „pólitískt innsæi“ til að bera. Meðal annars hafði hann horn í síðu „skriffinnanna“ í Efnahagsbandalaginu: Hann vantreysti þeim.

Read more »

  19:53:58, Skrásetjari: Jón Rafn Jóhannsson, 499 orð  
Flokkur: Hin heilaga arfleifð

Skaftahliðarfárið

Það var Jónas Kristjánsson sem sem varð fyrstur manna til að nota orðið „kranablaðamennska“ yfir það óráð sem þjakar strákana og stelpurnar í Skaftahlíðinni. Satt best að segja virðist Sigurður Tómasson vera sá eini í þessari aftökusveit almennrar skynsemi og dómgreindar sem haldið hefur sönsum. Mikill er munurinn á þessu hitasóttarfári og þeim vinnubrögðum sem ég kynntist í eldgamladaga þegar ég starfaði við stærsta dagblað Þýskalands. Þá störfuðu þar 3000 manns, þar af 600 blaðamenn, eða álíka mikill fjöldi eins og í Blaðamannafélagi Íslands. Vinnubrögðin voru slík, að þýsku fréttaritararnir í Kaupmannahöfn stafsettu jafnvel íslensk manna- og staðanöfn rétt. Hins vegar tel ég El Pais á Spáni bera höfuð og herðar yfir önnur evrópsk blöð síðustu tvo áratugina fyrir vandaðan og gagnrýnin fréttaflutning. Það voru einmitt þessi vönduðu vinnubrögð blaðsins sem felldu stjórn Aznars illu heilli þegar sósíalfasistarnir komust óvænt til valda í landinu (Það er ljótt að skrökva). Eins og gegndi um skoðanabræður þeirra í Sovétríkjunum sálugu, hafa þessi „frjálslyndu öfl“ hamast við það síðan að afnema kristinn rétt úr spænskri löggjöf. Hér er um skæða farsótt að ræða, eins konar afbrigði andlegrar fuglaflensu. Hinir heilögu feður nefndu þetta hins vegar andlegt bindingarvald myrkraaflanna. Ég er þeim sammála. Þetta er skæður sjúkdómur hjá 365-miðlunum. Til þess að „tolla í tískunni“ dansar svo Moggahróið með á hliðarlínunni líkt og afgamalt kerlingarhró.

Read more »

28.01.06

  13:14:57, Skrásetjari: Jón Rafn Jóhannsson, 1835 orð  
Flokkur: Hin heilaga arfleifð

Um kristna samstöðu

Þann 23. janúar s.l. fóru fram þingkosningar í Kanda. Úrslitin urðu þau að Frjálslyndi flokkurinn undir stjórn Paul Martins beið afhroð fyrir íhaldsflokki Harpers sem hlaut 38% atkvæða og þar með lykilstöðu í kanadískum stjórnmálum. Enginn stjórnmálaflokkur á vesturhveli jarðar hefur gengið jafn langt í „ofuréttindum“ hómósexúalistum til handa heldur en einmitt Frjálslyndi flokkurinn í Kanada. Einungis árið 2004 áður en lögin voru samþykkt bárust kanadíska þinginu mótmæli frá 75 erlendum þjóðum.

Í reynd ganga lögin svo langt að mannréttindi annarra hópa eru skert verulega sem vart samræmist vestrænu lýðræðisríki. Þetta sést best á hæstaréttardóminum gegn Chris Kempling prófessor. Hann hafði staðið fyrir undirskriftasöfnun til að standa vörð um kristin siðferðisgildi. Hann var svipur stöðu sinni sem prófessor og er nú atvinnulaus. Allir sem til þekkja gera sér ljóst, að vestanhafs er prófessor sem hrakinn er úr starfi með öllu ókleift að sækja um nýja stöðu. Í dómsniðurstöðunum má meðal annars lesa, að með hliðsjón af starfi hans og ábyrgð hafi hann hvorki rétt til að tjá sig eða njóta trúfrelsis og ef ríkisvaldið viðurkenni „réttindi“ hómósexualista beri skólakerfinu að haga uppfræðslu sinni til samræmis við ákvæði landslaga. Hér er því um beina skoðanakúgun að ræða líkt og tíðkuð var í alþýðu„lýðveldum“ sósíalfasismans.

Read more »

27.01.06

  13:11:46, Skrásetjari: Jón Rafn Jóhannsson, 1579 orð  
Flokkur: Hin heilaga arfleifð

Um hrun Sovétríkjanna sálugu

– einn þáttur í aðdraganda þess –

Í grein minni, Kristin samstaða, minntist ég lauslega á borgina Novi Sad í Póllandi. Mig langar að greina frá eftirfarandi svo að það verði ekki gleymskunni að bráð. Heilsu minni er þannig varið, að ég gæti þurft að hverfa heim hvenær sem er (sjá Fl 3. 20).

Margir minnast enn föður Lamberts Terstroet sem andaðist í hárri elli í Hollandi árið 2001. Færri gerðu sér grein fyrir því, að hann var einhver virtasti Maríufræðingur (Mariolog) kirkjunnar. Þetta má vafalaust rekja til lítillætis hans og ljúfmennsku. Hann starfaði um 20 ára skeið sem núnsíus Páfagarðs og ferðaðist víða um heim. Mig minnir að hann hafi sagt mér að hann hefði starfað í 67 löndum víðsvegar um heim, síðast í Australíu við skipulagsbreytingar á áströlsku biskupsumdæmunum, áður en hann kom loks til Íslands. Þetta lág svo sem alltaf fyrir honum. Sem ungur prestnemi, einungis sautján ára gamall, spurði faðir hans hann uppúr þurru: „Og hvað ætlar þú svo að gera?“ „Pabbi, við skulum snúa hnattlíkaninu þínu og ég bendi síðan á staðinn blindandi.“ Landið sem kom upp var Ísland, land sem þeir þekktu hvorugur. Ég var svo lánsamur að vera með föður Lambert í bænahópi um tíu ára skeið ásamt fleira góðu fólki. Hann greindi mér frá eftirfarandi.

Read more »

26.01.06

  11:33:19, Skrásetjari: Jón Rafn Jóhannsson, 564 orð  
Flokkur: Hin heilaga arfleifð

Guðfræðiprófessor á hálum ís

Drottinn sagði við Pontíus Pílatus: „Til þess er ég kominn í heiminn, að ég beri sannleikanum vitni“ (sjá Jh 18. 37-38). Pílatus svaraði þessu fullur efasemda: „Hvað er sannleikurinn? Ef hann hefði orðað spurninguna rétt, það er að segja ekki HVAÐ heldur HVER, þá hefði hann fengið sama svarið og Drottinn gaf elskuðum lærisveinum sínum við síðustu kvöldmáltíðina og þannig öllum heiminum: „Ég er sannleikurinn“ (Jh 14. 6).

Hálærður prófessor við Háskóla Íslands sem aðhyllist endurskoðunarguðfræði póstmódernismans uppfræddi þjóðina í Ríkisútvarpinu í s.l. vika um að þjónn rómverska hundraðshöfðingjans og hann sjálfur (Mt 8. 5-10) hefðu iðkað hómósexualisma, og þrátt fyrir það hefði Drottinn grætt þjón þess síðarnefnda! Hann vitnaði til orðsins doulos í þessu sambandi orðum sínum til vægis. Í mínum Textus Receptus af Koina texta Nýja testamentisins stendur ekki orðið doulos heldur he pais-mou. Á koinagrískunni þýðir þetta þjónn minn, sveinn minn eða þræll minn. Á koinagrískunni þýðir orðið ho doulos hins vegar ánauðugur maður eða þræll og sögnin doulóo að glata frelsinu. Ekkert er vikið að kynhneigð piltsins í guðspjallinu, en af öllu samhengi textans frá upphafi má ráða að þessi rómverski hermaður var réttlátur og sannsýnn maður. Og Drottinn talaði við hann sem slíkan. Við þurfum einungis að lesa góða gamla Tacitus til að gera okkur ljóst, að slíka heiðursmenn var einnig að finna í röðum Rómverja.

Read more »

1 ... 9 10 11 12 13 14 ...15 ...16 17 19 20