Blaðsíður: 1 ... 5 6 7 ...8 ... 10 ...12 ...13 14 15 ... 20

22.10.06

  08:16:03, Skrásetjari: Jón Rafn Jóhannsson, 703 orð  
Flokkur: Ritningarlestur dagsins

Ritningarlesturinn 22. október 2006

Heilagt guðspjall Jesú Krists í dag er úr Mk 10. 35-45

Þá komu til hans Jakob og Jóhannes, synir Sebedeusar, og sögðu við hann: „Meistari, okkur langar, að þú gjörir fyrir okkur það sem við ætlum að biðja þig.“ Hann spurði þá: „Hvað viljið þið, að ég gjöri fyrir ykkur?“ Þeir svöruðu: „Veit okkur, að við fáum að sitja þér við hlið í dýrð þinni, annar til hægri handar þér og hinn til vinstri.“ Jesús sagði við þá: „Þið vitið ekki, hvers þið biðjið. Getið þið drukkið þann kaleik, sem ég drekk, eða skírst þeirri skírn, sem ég skírist?“ Þeir sögðu við hann: „Það getum við.“ Jesús mælti: „Þann kaleik, sem ég drekk, munuð þið drekka, og þið munuð skírast þeirri skírn, sem ég skírist. En mitt er ekki að veita, hver situr mér til hægri handar eða vinstri. Það veitist þeim, sem það er fyrirbúið.“ Þegar hinir tíu heyrðu þetta, gramdist þeim við þá Jakob og Jóhannes. En Jesús kallaði þá til sín og mælti: „Þér vitið, að þeir, sem teljast ráða fyrir þjóðum, drottna yfir þeim, og höfðingjar þeirra láta menn kenna á valdi sínu. En eigi sé svo meðal yðar, heldur sé sá, sem mikill vill verða meðal yðar, þjónn yðar. Og sá er vill fremstur vera meðal yðar, sé allra þræll. Því að Mannssonurinn er ekki kominn til þess að láta þjóna sér, heldur til að þjóna og gefa líf sitt til lausnargjalds fyrir marga.“

Í dag heiðrar kirkjan: Heil. Pétur frá Alcantara (1499-1562), spænskur ögunarlífsmaður og skriftafaðir Teresu frá Avíla. Hugleiðing dagsins: Heil. Tómas frá Akvínó (1225-1274), guðfræðingur í reglu Dóminíkana og kirkjufræðari. Um postullega Trúarjátningu (Collationes In Symbolum apostolorum, art. 4 § 64.70.72-76): „Sá, sem mikill vill verða meðal yðar, verði þjónn yðar.“

Read more »

21.10.06

  08:10:53, Skrásetjari: Jón Rafn Jóhannsson, 498 orð  
Flokkur: Ritningarlestur dagsins

Ritningarlesturinn 21. október 2006

Heilagt guðspjall Jesú Krists í dag er úr Lk 12. 8-12

En ég segi yður: Hvern þann sem kannast við mig fyrir mönnum, mun og Mannssonurinn kannast við fyrir englum Guðs. En þeim sem afneitar mér fyrir mönnum, mun afneitað verða fyrir englum Guðs. Hverjum sem mælir gegn Mannssyninum, verður það fyrirgefið, en þeim sem lastmælir gegn Heilögum Anda, verður ekki fyrirgefið. Og þegar þeir leiða yður fyrir samkundur, höfðingja og yfirvöld, hafið þá ekki áhyggjur af því, hvernig eða með hverju þér eigið að verja yður eða hvað þér eigið að segja. Því að Heilagur Andi mun kenna yður á þeirri stundu, hvað segja ber.“
Í dag heiðrar kirkjan: Heil. Hilaríon (um 291-371), eyðimerkurfaðir og upphafsmann munklífis í Palestínu. Hugleiðing dagsins: Annað Vatíkanþingið. Um trúboðsstarf kirkjunnar (Ad Gentes), § 23-24: Að bera Kristi vitni í öllu sínu lífi

Read more »

  04:14:27, Skrásetjari: Jón Rafn Jóhannsson, 814 orð  
Flokkur: Hið Alhelga Hjarta Jesú

12. Fyrstu föstudaga tilbeiðslan

12, fyrstu föstudagarnir

Það var sjálfur Frelsarinn sem kaus fyrsta föstudaginn í 9 mánuði samfellt sem sérstakan dag til að vegsama hið Alhelga Hjarta sitt. Þar sem takmark þessarar guðrækni er að glæða brennandi elsku á Drottni og til að gera iðrun og yfirbót sökum allrar þeirrar skelfilegu vansæmdar sem honum hefur verið auðsýnd verðskuldar hann stöðugrar elsku okkar. Sífellt er honum auðsýnd vansæmd, fyrirlitning og vantrú í sakramenti elsku sinnar – Evkaristíunni – og þannig iðrumst við og gerum yfirbót fyrir annarra hönd í fyrstu föstudagaguðrækninni.

Read more »

20.10.06

  13:45:15, Skrásetjari: Jón Rafn Jóhannsson, 145 orð  
Flokkur: Vefrit Karmels

„Logi elsku hins Flekklausa Hjarta Maríu“ kominn á íslensku.

Hid Flekklausa hjarta

Nú er rit Erzsebetar Szanto „Logi elsku hins Flekklausa Hjarta Maríu“ komið út á Vefrit Karmels á pfd formati.

BÆN TIL AÐ GLÆÐA LOGA ELSKUNNAR

Með persónulegu samþykki Páls páfa VI
Nóvember 1973

Af barnslegri trú áköllum við þig María mey svo að logi elsku hins Flekklausa Hjarta þíns sem Heilagur Andi hefur glætt tendri í vanmegna hjörtum okkar eld fullkominnar elsku á Guði og öllu mannkyninu, þannig að við elskum Guð og náunga okkar af einu hjarta ásamt þér.

Hjálpaðu okkur til að miðla þessum heilaga loga til allra manna sem hafa góðan vilja svo að logi elskunnar slökkvi eld hatursins alls staðar á jörðinni, þannig að Jesús, Konungur friðarins, verði einnig Konungur allra hjartna í sakramenti elsku sinnar á hásæti hjartna okkar. Amen.

TENGILL

  07:24:06, Skrásetjari: Jón Rafn Jóhannsson, 532 orð  
Flokkur: Hið Alhelga Hjarta Jesú

11. Hin tólf heiti okkar frammi fyrir hinu Alhelga Hjarta Jesú í Guðslíkamahúsinu.

Monstran

1. Knúinn áfram af krafti Heilags Anda vil ég leitast við að elska hið Alhelga Hjarta Jesú af öllu hjarta, af allri sálu og af öllum mætti alla daga lífs míns og staðfesta elsku mína með því að virða kenningar hans.

2. Ég vil gera all sem í mínu valdi stendur til að taka mér elsku Jesú á Guði Föður til fyrirmyndar auk elskuríkrar gæsku hans og örlætis gagnvart bræðrum mínum og systrum, einkum þeim þeirra sem erfitt er að líta á með velvild og elsku.

3. Ég vil taka þátt í helgisiðagjörð Evkaristíunnar af fyllstu guðrækni og meðtaka útdeilinguna af hreinu hjarta og fyllsta þakklæti og iðrun eins og Jesús þráir.

Read more »

  07:11:35, Skrásetjari: Jón Rafn Jóhannsson, 605 orð  
Flokkur: Ritningarlestur dagsins

Ritningarlesturinn 20. október 2006

Heilagt guðspjall Jesú Krists í dag er úr Lk 12. 1-7

Fólk hafði nú flykkst að í tugum þúsunda, svo að nærri tróð hver annan undir. Jesús tók þá að tala, fyrst til lærisveina sinna: „Varist súrdeig farísea, sem er hræsnin. Ekkert er hulið, sem eigi verður opinbert, né leynt, er eigi verður kunnugt. Því mun allt það, sem þér hafið talað í myrkri, heyrast í birtu, og það, sem þér hafið hvíslað í herbergjum, mun kunngjört á þökum uppi. Það segi ég yður, vinir mínir: Hræðist ekki þá, sem líkamann deyða og fá að því búnu ekki meira að gjört. Ég skal sýna yður, hvern þér eigið að hræðast. Hræðist þann, er hefur vald að deyða og að því búnu varpa í helvíti. Já, ég segi yður, hræðist hann. Eru ekki fimm spörvar seldir fyrir tvo smápeninga? Og þó er ekki einn þeirra gleymdur Guði. Hárin á höfði yðar eru jafnvel öll talin. Verið óhræddir, þér eruð meira verðir en margir spörvar.“

Í dag heiðrar kirkjan: Heil. Maríu Bertilla Boscardin (1888-1922). Hugleiðing dagsins: Heil. Katrín frá Síena (1347-1380), Þriðju reglu dóminíkansystir, kirkjufræðari og einn tveggja verndardýrlinga Evrópu. Samræður 18: „Hárin á höfði yðar eru jafnvel öll talin.“

Read more »

19.10.06

  08:48:49, Skrásetjari: Jón Rafn Jóhannsson, 513 orð  
Flokkur: Hið Alhelga Hjarta Jesú

10. Níudagabæn (novena) hins Alhelga Hjarta Jesú

10. Alhelga hjarta

Guðdómlegi Jesús! Þú sagðir „Biðjið og yður mun gefast; knýið á og fyrir yður mun upplokið verða.“ Horfðu til mín þar sem ég krýp nú niður við fætur þína fullur lifandi trúar og trúnaðartrausts á guðdómlegum fyrirheitum þíns Alhelga Hjarta og sem féllu af þínum lofsverðu vörum. Ég kem til þín til að biðja þig um að (Nefnið bónarbæn ykkar í hljóði).

Hvert get ég snúið mér annað en til Hjarta þíns sem er uppspretta allrar náðar og verðskuldunar? Hvert get ég snúið mér annað en til þess fjársjóðs sem felur í sér allt ríkidæmi gæsku þinnar og miskunnar? Hvar get ég knúið á nema á þær dyr þar sem Guð gefst okkur og við gefumst Guði? Ég leita skjóls hjá þér, Hjarta Jesú.

Read more »

  07:57:26, Skrásetjari: Jón Rafn Jóhannsson, 725 orð  
Flokkur: Ritningarlestur dagsins

Ritningarlesturinn 19. október 2006

Heilagt guðspjall Jesú Krists í dag er úr Lk 11. 47-54

„Vei yður! Þér hlaðið upp grafir spámannanna, sem feður yðar líflétu. Þannig berið þér vitni um athafnir feðra yðar og samþykkið þær. Þeir líflétu þá, en þér hlaðið upp grafirnar. Þess vegna hefur og speki Guðs sagt: ,Ég mun senda þeim spámenn og postula, og suma þeirra munu þeir lífláta og ofsækja.' Þannig verður kynslóð þessi krafin um blóð allra spámannanna, er úthellt hefur verið frá grundvöllun heims, frá blóði Abels til blóðs Sakaría, sem drepinn var milli altarisins og musterisins. Já, segi ég yður, þess mun krafist verða af þessari kynslóð. Vei yður, þér lögvitringar! Þér hafið tekið brott lykil þekkingarinnar. Sjálfir hafið þér ekki gengið inn, og þeim hafið þér varnað, sem inn vildu ganga.“ Og er hann var farinn út þaðan, tóku fræðimenn og farísear að ganga hart að honum og spyrja hann í þaula um margt 54og sitja um að veiða eitthvað af vörum hans.

Í dag heiðrar kirkjan: Heil. Isaac Jogues (1607-1646), Jean de Brebeuf (1539-1649) og félaga, fyrstu píslarvottana í Norðurameríku. Hugleiðing dagsins: Heil. Gregoríos frá Nazianzos (330-390), biskup og kirkjufræðari. 3. umfjöllunin um guðfræði: „Tóku fræðimenn og farísear að ganga hart að honum og spyrja hann í þaula um margt“

Read more »

18.10.06

  10:22:13, Skrásetjari: Jón Rafn Jóhannsson, 545 orð  
Flokkur: Hið Alhelga Hjarta Jesú

9. Litanía hins Alhelga Hjarta Jesú

9. Alhelga Hjarta

Meðal þeirra fjölmörgu bæna sem samofnar er guðrækni hins Alhelga Hjarta Jesú er Litanían meðal þeirra þekktustu. Upphaflega var það faðir Jean Croiset S. J. sem samdi hana árið 1691. Í apríl 1899 gerði Stjórnardeild trúfræðikenninga örlítla breytingu á henni sem Leó páfi XIII samþykkti síðan.
Eins og gegnir um hina upphaflegu Litaníu Croisets er sú þeirra sem páfi samþykkti skipt í 33 áköll sem samsvara hinum 33 árum sem Drottinn lifði á jörðinni. Skipta má þessum 33 áköllum þannig:
Jesús eins og hann er í sjálfum sér sem sannur Guð
og Mannssonurinn (7).
Hvað hann er fyrir okkur (15 áköll).
Hvað hann þjáðist fyrir okkur (5 áköll).
Hvað hann verðskuldaði fyrir okkar hönd (6 áköll)

Read more »

  08:30:48, Skrásetjari: Jón Rafn Jóhannsson, 633 orð  
Flokkur: Hið Alhelga Hjarta Jesú

8. Helstu þættir guðrækni hins Alhelga Hjarta Jesú.

8. Alhelga hjarta

Guðrækni hins Alhelga Hjarta birtist í nokkrum myndum í samfélagi kirkjunnar. Mikilvægustu þættir hennar eru eftirfarandi:

Hátíð hins Alhelga Hjarta, en hún er haldin á fyrsta föstudeginum eftir Kristslíkamahátíðina (Corpus Christi).

Meðtaka Evkaristíunnar og gera yfirbót sökum eigin synda og annarra með því að minnast píslarsára Drottins á fyrstu föstudögunum í 9 mánuði samfellt.

Heilög stund iðrunar og yfirbóta milli klukkan 11 og 12 á hádegi á fimmtudeginum sem fer á undan hinni níu föstudagayfirbót.

Read more »

  07:26:42, Skrásetjari: Jón Rafn Jóhannsson, 643 orð  
Flokkur: Ritningarlestur dagsins

Ritningarlesturinn 18. október 2006

Heilagt guðspjall Jesú Krists í dag er úr Lk 10. 1-9

Eftir þetta kvaddi Drottinn til aðra, sjötíu og tvo að tölu, og sendi þá á undan sér, tvo og tvo, í hverja þá borg og stað, sem hann ætlaði sjálfur að koma til. Og hann sagði við þá: „Uppskeran er mikil, en verkamenn fáir. Biðjið því herra uppskerunnar að senda verkamenn til uppskeru sinnar. Farið! Ég sendi yður eins og lömb meðal úlfa. Hafið ekki pyngju, ekki mal né skó, og heilsið engum á leiðinni. Hvar sem þér komið í hús, þá segið fyrst: ,Friður sé með þessu húsi.' Og sé þar friðar sonur, mun friður yðar hvíla yfir honum, ella hverfa aftur til yðar. Verið um kyrrt í sama húsi, neytið þess, sem þar er fram boðið í mat og drykk. Verður er verkamaðurinn launa sinna. Eigi skuluð þér flytjast hús úr húsi. Og hvar sem þér komið í borg og tekið er við yður, þá neytið þess, sem fyrir yður er sett. Læknið þá, sem þar eru sjúkir, og segið þeim: ,Guðs ríki er komið í nánd við yður.'

Í dag heiðrar kirkjan: Heil. Lúkas guðspjallamann. Hugleiðing: Annað Vatíkanþingið Stjórnskipun kirkjunnar um guðdómlegar opinberanir (Dei Verbum), §18-19: Heil. Lúkas skrifar: „Nú hef ég athugað kostgæfilega allt þetta frá upphafi og réð því einnig af að rita samfellda sögu“

Read more »

17.10.06

  10:23:39, Skrásetjari: Jón Rafn Jóhannsson, 1238 orð  
Flokkur: Trúarljóð

Ljóð andans eftir Jóhannes af Krossi

SÖNGUR SÁLARINNAR OG
BRÚÐGUMANS

BRÚÐURIN

1. Hvar hefur þú hulið þig
Ástmögur minn, og skilið mig eftir í tárum?
Þú flúðir sem hjörturinn
eftir að hafa sært mig.
Ég gekk út og hrópaði, en þú varst horfinn.

2. Hirðar, þið sem farið
um sauðabyrgið til hæðarinnar,
ef þið skylduð sjá hann
sem ég elska mest af öllu,
segið honum þá að ég er sjúk, þjáist og dey.

Read more »

  07:40:36, Skrásetjari: Jón Rafn Jóhannsson, 461 orð  
Flokkur: Ritningarlestur dagsins

Ritningarlesturinn 17. október 2006

Heilagt guðspjall Jesú Krists í dag er úr Lk 11. 37-41

Þá er hann hafði þetta mælt, bauð farísei nokkur honum til dagverðar hjá sér. Hann kom og settist til borðs. Faríseinn sá, að hann tók ekki handlaugar á undan máltíðinni, og furðaði hann á því. Drottinn sagði þá við hann: „Þér farísear, þér hreinsið bikarinn og fatið utan, en hið innra eruð þér fullir yfirgangs og illsku. Þér heimskingjar, hefur sá, sem gjörði hið ytra, ekki einnig gjört hið innra? En gefið fátækum það, sem í er látið, og þá er allt yður hreint.“

Í dag heiðrar kirkjan: Heil. Ignatíus frá Antiokkíu (d. 107) og heil. Margaret Marie Alacoque (1647-1680). Hugleiðing dagsins: Baudoin de Ford (? – um 1190), ábóti í Sistersíanreglunni. 6. hugvekja um Hebreabréfið 4. 12: „Þér hreinsið bikarinn og fatið utan . . . Þér heimskingjar, hefur sá, sem gjörði hið ytra, ekki einnig gjört hið innra?“

Read more »

16.10.06

  21:57:39, Skrásetjari: Jón Rafn Jóhannsson, 32 orð  
Flokkur: Trúarljóð

Þú, þú, þú eftir Martin Büber

Hvert sem ég fer, þú,
Hvar sem ég er, þú,
þú, þú.
Aftur þú, eilífur þú.
þú, þú, þú.

Í gleði minni þú,
í sorg minni þú,
þú, þú.
Aftur þú, eilífur þú,
þú, þú, þú.

Himininn þú, jörðin þú,
uppi þú, niðri þú.
Hvert sem ég sný, þú.
Að lokum þú,
þú, þú, þú.

  21:37:34, Skrásetjari: Jón Rafn Jóhannsson, 68 orð  
Flokkur: Trúarljóð

Ljóðasöngur um hjartað

Í hjarta þínu er herbergi
og í þessu herbergi
er logi
sem er logi sálar þinnar
og í þessum loga
er ljós
sem er Guð í sálu þinni. [1]

[1]. Mexíkanskt íhugunarljóð eftir ókunnan höfund:

En tu corazón hay un espacio,
y en este espacio,
hay una llama,
que es la llama de tu alma,
y en este llama,
hay una luz,
que es Dios en tu alma.

  13:53:41, Skrásetjari: Jón Rafn Jóhannsson, 63 orð  
Flokkur: Trúarljóð

Ljóð eftir Erika Papp Faber

LJÓS FRÁ LJÓSI

Drottinn, tendra kerti sálar minnar
með elsku þinni.
Tendra í gæsku þinni kveikinn
sem er hjarta mitt.
Skýldu með hendi þinni flöktandi loga
elsku minnar, neistann frá eldhafi þínu

Drottinn, lát logann dansa í elsku þinni,
Lát hann brenna skært sökum annarra,
Megi ég að lokum fuðra upp
í funa elsku þinnar.

  08:23:45, Skrásetjari: Jón Rafn Jóhannsson, 258 orð  
Flokkur: Hugleiðingar

Hugleiðing eftir John Henry Newman, kardínála (1801-1890).

Guð hefur skapað mig til að inna eitthvað sérstakt verk af hendi fyrir sig. Hann hefur falið mér að leysa eitthvað ákveðið verk af höndum sem hann hefur ekki falið einhverjum öðrum að gera. Ég hef mína köllun – Ef til vill veit ég aldrei hvað hún er í þessu lífi, en mér verður greint frá henni í komandi lífi.

Ég er hlekkur í keðju, í samskiptum við annað fólk. Hann hefur ekki skapað mig til einskis. Mér er ætlað að leiða eitthvað gott af mér, mér er falið að vinna hans verk. Mér er ætlað að vera engill friðar, predikari sannleikans á mínum skipaða stað þó að slíkt vaki ekki fyrir mér – einungis ef ég hlýðnast boðorðum hans.

Read more »

  08:00:22, Skrásetjari: Jón Rafn Jóhannsson, 533 orð  
Flokkur: Ritningarlestur dagsins

Ritningarlesturinn 16. október 2006

Heilagt guðspjall Jesú Krists í dag er úr Lk 11. 29-32

Þegar fólkið þyrptist þar að, tók hann svo til orða: "Þessi kynslóð er vond kynslóð. Hún heimtar tákn, en eigi verður henni annað tákn gefið en tákn Jónasar. Því Jónas varð Ninívemönnum tákn, og eins mun Mannssonurinn verða þessari kynslóð. Drottning Suðurlanda mun rísa upp í dóminum ásamt mönnum þessarar kynslóðar og sakfella þá, því að hún kom frá endimörkum jarðar að heyra speki Salómons, og hér er meira en Salómon. Ninívemenn munu koma fram í dóminum ásamt kynslóð þessari og sakfella hana, því að þeir gjörðu iðrun við prédikun Jónasar, og hér er meira en Jónas.

Í dag heiðrar kirkjan: Heil. Gerard Majella (1726-1752), verndardýrlingur vanfærra mæðra. Hugleiðing dagsins: Heil. Jóhannes Chrysostomos (um 345-407), biskup í Antiokkíu og síðar Miklagarði, kirkjufræðari. 4. hugvekjan um Fyrsta Korintubréfið: Tákn Jónasar

Read more »

15.10.06

  06:55:56, Skrásetjari: Jón Rafn Jóhannsson, 658 orð  
Flokkur: Ritningarlestur dagsins

Ritningarlesturinn 15. október 2006

Heilagt guðspjall Jesú Krists sunnudaginn 15. október er úr Markús 10. 17-30

Þegar hann var að leggja af stað, kom maður hlaupandi, féll á kné fyrir honum og spurði hann: „Góði meistari, hvað á ég að gjöra til þess að öðlast eilíft líf?" Jesús sagði við hann: „Hví kallar þú mig góðan? Enginn er góður nema Guð einn. Þú kannt boðorðin: ,Þú skalt ekki morð fremja, þú skalt ekki drýgja hór, þú skalt ekki stela, þú skalt ekki bera ljúgvitni, þú skalt ekki pretta, heiðra föður þinn og móður.'" Hinn svaraði honum: „Meistari, alls þessa hef ég gætt frá æsku." Jesús horfði á hann með ástúð og sagði við hann: „Eins er þér vant. Far þú, sel allt, sem þú átt, og gef fátækum, og munt þú fjársjóð eiga á himni. Kom síðan, og fylg mér." En hann varð dapur í bragði við þessi orð og fór burt hryggur, enda átti hann miklar eignir. Þá leit Jesús í kring og sagði við lærisveina sína: „Hve torvelt verður þeim, sem auðinn hafa, að ganga inn í Guðs ríki." Lærisveinunum brá mjög við orð Jesú, en hann sagði aftur við þá: „Börn, hve torvelt er að komast inn í Guðs ríki. Auðveldara er úlfalda að fara gegnum nálarauga en auðmanni að komast inn í Guðs ríki." En þeir urðu steini lostnir og sögðu sín á milli: „Hver getur þá orðið hólpinn?" Jesús horfði á þá og sagði: „Fyrir mönnum eru engin ráð til þessa, en fyrir Guði. Guð megnar allt." Þá sagði Pétur við hann: „Vér yfirgáfum allt og fylgdum þér." Jesús sagði: „Sannlega segi ég yður, að enginn hefur yfirgefið heimili, bræður eða systur, móður eða föður, börn eða akra vegna mín og fagnaðarerindisins, án þess að hann fái hundraðfalt aftur, nú á þessum tíma heimili, bræður og systur, mæður, börn og akra, jafnframt ofsóknum, og í hinum komandi heimi eilíft líf.

Í dag heiðrar kirkjan: Heil. Teresu frá Avíla (1515-1582). Hugleiðing dagsins: Heil. Teresa frá Avíla. Úr Veginum til fullkomleikans 26, 3: „Horfið til hans“

Read more »

14.10.06

  06:41:05, Skrásetjari: Jón Rafn Jóhannsson, 1959 orð  
Flokkur: Hið Alhelga Hjarta Jesú

7. Samfélag milljarða hjartna

Í heilagri arfleifð kirkjunnar er íkonan nefnd „gluggi til himins.“ Í íkonunni tjáir kirkjan þá íhugun sem á sér stað í hennar eigin hjarta, rétt eins og Guðsmóðirin varðveitti allt í hjarta sínu og hugleiddi (sjá Lk 2. 19). Íkonan er bendill til himna í lífi náðarinnar, rétt eins og myndin af hinu Alhelga Hjarta er bendill til ástarfuna elsku Kristshjartans. Og eftir að Drottinn opinberaðist okkur í holdtekju sinni á jörðu getum við dregið upp myndir af honum því að hið stranga lögmál Gamla sáttmálans um myndlausan Guð var afnumið í eitt skipti fyrir öll með holdtekju Dottins sem opinberaðist okkur í grashálmi jötunnar. Þetta voru rök kirkjunnar gegn íkonubrjótunum á sínum tíma sem samþykkt voru á Öðru samkirkjuþinginu í Níkeu 787. Kristnir menn trúa ekki á óhlutstæðan og fjarlægan Guð eins og Íslam, en það voru einmitt kalífarnir í Damaskus sem stóðu að baki og studdu íkonubrjótana í Miklagarði. [1]

Read more »

  05:56:08, Skrásetjari: Jón Rafn Jóhannsson, 330 orð  
Flokkur: Ritningarlestur dagsins

Ritningarlesturinn 14. október 2006

Heilagt guðspjall Jesú Krists í dag er úr Lk 11. 27-28

Er hann mælti þetta, hóf kona ein í mannfjöldanum upp rödd sína og sagði við hann: „Sæll er sá kviður, er þig bar, og þau brjóst, er þú mylktir." Hann sagði: „Já, því sælir eru þeir, sem heyra Guðs orð og varðveita það."

Í dag heiðrar kirkjan: Heil. Callistus I páfa (d. um 222), píslarvott.  Hugleiðing dagsins: Heil. Pétur Damían (1007-1072), einsetumaður, biskup og kirkjufræðari. 45. predikun: „Já, því sælir eru þeir, sem heyra Guðs orð og varðveita það."

Read more »

13.10.06

  15:38:57, Skrásetjari: Jón Rafn Jóhannsson, 209 orð  
Flokkur: Bænalífið

Litaníu auðmýktarinnar

Raphael Merry de Val kardínáli (1865-1930) hafði til siðs að biðja að lokinni sérhverri messu:

Ó Jesús, auðmjúkur og af hjarta lítillátur,
hlýð á bæn mína:

Frá þránni eftir að verða virtur,
Frá þránni eftir að verða elskaður,
Frá þránni eftir að verða mikils metinn.
Frá þránni eftir að verða heiðraður.
Frá þránni eftir að verða lofaður,
Frá þránni eftir að verða valinn um fram aðra,
Frá þránni eftir að verða stjórnandi annarra,
Frá þránni eftir að verða vinsæll

Frelsa mig Jesús! . . .

Að aðrir verði meira elskaðir en ég,
Að aðrir verði meira virtir en ég,
Að ég megi minnka og aðrir stækka
í augum heimsins,
Að aðrir verði valdir en ég settur til hliðar,
Að aðrir verði lofaðir en ég ókunnur,
Að aðrir verði teknir um fram mig í öllu,
Að aðrir verði heilagri en ég, svo framarlega
sem ég öðlast þann heilagleika
sem mér er fyrirhugaður,

Ó Jesús, veit mér þá náð að þrá slíkt.

  07:19:53, Skrásetjari: Jón Rafn Jóhannsson, 686 orð  
Flokkur: Ritningarlestur dagsins

Ritningarlesturinn 13. október 2006

Heilagt guðspjall Jesú Krists í dag er úr Lk 11. 15-26

En sumir þeirra sögðu: „Með fulltingi Beelsebúls, höfðingja illra anda, rekur hann út illu andana." En aðrir vildu freista hans og kröfðu hann um tákn af himni. En hann vissi hugrenningar þeirra og sagði við þá: "Hvert það ríki, sem er sjálfu sér sundurþykkt, leggst í auðn, og hús fellur á hús. Sé nú Satan sjálfum sér sundurþykkur, hvernig fær ríki hans þá staðist - fyrst þér segið, að ég reki illu andana út með fulltingi Beelsebúls? En reki ég illu andana út með fulltingi Beelsebúls, með hverju reka þá yðar menn þá út? Því skulu þeir vera dómarar yðar. En ef ég rek illu andana út með fingri Guðs, þá er Guðs ríki þegar yfir yður komið. Þegar sterkur maður, alvopnaður, varðveitir hús sitt, þá er allt í friði, sem hann á, en ráðist annar honum sterkari á hann og sigri hann, tekur sá alvæpni hans, er hann treysti á, og skiptir herfanginu. Hver sem er ekki með mér, er á móti mér, og hver sem safnar ekki saman með mér, hann sundurdreifir. Þegar óhreinn andi fer út af manni, reikar hann um eyðihrjóstur og leitar hælis. Og er hann finnur það ekki, segir hann: ,Ég vil hverfa aftur í hús mitt, þaðan sem ég fór.' Og er hann kemur og finnur það sópað og prýtt, fer hann og tekur með sér sjö aðra anda sér verri, og þeir fara inn og setjast þar að, og verður svo hlutur þess manns verri eftir en áður."
Í dag heiðrar kirkjan: Heil. Margaret Marie Alacoque (1647-1690), boðbera náðar hins Alhelga Hjarta Jesú. Hugleiðing dagsins: Heil. Íreneus frá Lyon (um 130-208), biskup, guðfræðingur og píslarvottur. Gegn villutrú IV. 39, 2: Fingur Guðs

Read more »

12.10.06

  06:53:50, Skrásetjari: Jón Rafn Jóhannsson, 508 orð  
Flokkur: Hið Alhelga Hjarta Jesú

5. Afstaða Páfastóls til útbreiðslu guðrækninnar á hinu Alhelga Hjarta Jesú

Það sem réði úrslitun hvað áhrærir útbreiðslu guðrækninnar á hinu Alhelga Hjarta var sú stuðningur sem páfarnir og fjölmargir biskupar veittu henni. Þeir páfanna sem beittu sér af mikilli festu og einurð í þessu sambandi voru:
Klemens páfi XII (1730-40): Hann var afar jákvæður í garð tilbeiðslunnar á hinu Alhelga Hjarta og er minnst í kirkjusögunni fyrir samkirkjulega viðleitni sína. Hann var einnig fyrstur páfanna til að vara við frímúrarahreyfingunni.
Píus páfi VI (1775-99): Það var hann sem heimilaði tilbeiðslu hins Alhelga Hjarta sem almennrar guðrækni kirkjunnar.
Leó páfi XIII (1878-1903): Samþykkti Litaníu hins Alhelga Hjarta árið 1879. Árið 1899 gaf hann úr hirðisbréfið Annum Sacrum þar sem hann hvatti hina trúuðu til að helga sig hinu Alhelga hjarta.
Píus páfi X (1903-1914): Hvatti eindregið til þess að styttur af hin Alhelga Hjarta skipuðu veglegan sess á öllum kaþólskum heimilum.
Píus páfi XII (1939-1958): Blés nýju lífi í tilbeiðsluna á hinu Alhelga Hjarta í hirðisbréfi sínu Haurietis Aquas sem kom út árið 1956.
Páll páfi VI (1963-1978): Í hirðisbréfi sínu Investigabiles Divitias Christi sem kom út árið 1965 hvatti hann biskupa til að styðja og útbreiða enn frekar guðræknina á hinu Alhelga Hjarta.
Jóhannes Páll páfi II (1978-2005): Hann gaf guðrækni hins Alhelga Hjarta nýja dýpt með því að leggja áherslu á samband hennar og samfélagslegs réttlætis.

Read more »

  06:47:41, Skrásetjari: Jón Rafn Jóhannsson, 657 orð  
Flokkur: Ritningarlestur dagsins

Ritningarlesturinn 12. október 2006

Heilagt guðspjall Jesú Krists í dag er úr Lk 11. 5-13

Og hann sagði við þá: "Nú á einhver yðar vin og fer til hans um miðnætti og segir við hann: ,Vinur, lánaðu mér þrjú brauð, því að vinur minn er kominn til mín úr ferð og ég hef ekkert að bera á borð fyrir hann.' Mundi hinn þá svara inni: ,Gjör mér ekki ónæði. Það er búið að loka dyrum og börn mín og ég komin í rúmið. Ég get ekki farið á fætur að fá þér brauð'? Ég segi yður, þótt hann fari ekki á fætur og fái honum brauð vegna vinfengis þeirra, þá fer hann samt fram úr sakir áleitni hans og fær honum eins mörg og hann þarf. Og ég segi yður: Biðjið, og yður mun gefast, leitið, og þér munuð finna, knýið á, og fyrir yður mun upp lokið verða. Því að hver sá öðlast, sem biður, sá finnur, sem leitar, og fyrir þeim, sem á knýr, mun upp lokið verða. Er nokkur sá faðir yðar á meðal, að hann gefi syni sínum, er biður um fisk, höggorm í staðinn, eða sporðdreka, ef hann biður um egg? Fyrst þér, sem eruð vondir, hafið vit á að gefa börnum yðar góðar gjafir, hve miklu fremur mun þá Faðirinn himneski gefa þeim Heilagan Anda, sem biðja hann."

Í dag heiðrar kirkjan: Heil. Seraphin frá Montegranaro (1540-1604). Hugleiðing dagsins: Heil. Símon nýguðfræðingur (um 949-1022), andlegur faðir úr Austurkirkjunni. Ákall til Heilags Anda, Inngangur að sálmunum: „Hve miklu fremur mun þá Faðirinn himneski gefa þeim Heilagan Anda, sem biðja hann."

Read more »

11.10.06

  15:47:49, Skrásetjari: Jón Rafn Jóhannsson, 447 orð  
Flokkur: Erlendar fréttir

Tvær villur fara ávallt saman

Kevin Knight skrifar á New Advent þann 10. október:

Nokkrum mánuðum eftir að deilan um skopmyndirnar stóð sem hæst, er nú aftur tekið að hitna í kolunum í Danmörku. Hópur pörupilta í Danska þjóðarflokknum gerðu vídeóupptöku til að niðra múslima og Múhammeð. Vídeómyndin barst til sjónvarpsstöðvanna og í fréttirnar og fyllti múslima um allan heim ofsalegri bræði og allt bendir til þess að ástandið eigi eftir að versna á komandi dögum.

Hvoru megin eigum við að skipa okkur. C. S. Lewis býður okkur upp á svarið sem viðvörun:

Djöfullinn sendir tælinguna ávallt í heiminn í tvenns konar mynd – sem andhverfur. Og hann hvetur okkur ávallt til þess að verja miklum tíma til að hugsa um það hver þeirra sé verri. Að sjálfsögðu sjáið þið þetta? Hann treystir því að vanþóknun á annarri þeirra laði okkur smám saman að hinni.

Read more »

  08:43:02, Skrásetjari: Jón Rafn Jóhannsson, 1223 orð  
Flokkur: Hið Alhelga Hjarta Jesú

4. Þróun guðrækni hins Alhelga Hjarta Jesú frá dulúð til almennrar guðrækni í kirkjunni.

4. Alhelga hjarta

Í upphafi sautjándu aldar var það heil. Jean Eudes (1602-1680) sem stuðlaði mikið að því að útbreiða tilbeiðslu hins Alhelga Hjarta Jesú og hins Flekklausa Hjarta Maríu. Hann skrifaði fyrstu bókina um hjartaguðræknina: „Le Cœur Admirable de la Très Sainte Mère de Dieu," og innleiddi sérstaka hátíð til heiðurs hins Alhelga Hjarta Jesú árið 1672. Árið 1903 gaf Leó páfi XIII honum heiðursnafnbótina „Höfundur helgisiðatilbeiðslu hins Heilaga Hjarta Jesú og hins heilaga Hjarta Maríu.“ Meðal annarra boðbera tilbeiðslu hins Alhelga Hjarta Jesú voru heil. Frans frá Sales (1572-1622), jesúítarnir Alvarez de Paz, Luis de la Puente, Saint-Jure og Nouet og varðveist hefur ritsmíð eftir föður Druzbicki (d. 1662) sem hann nefndi „Meta Cordium, Cor Jesu.“ Einnig má minnast á heil. Frans Borgia, blessaðan Pétur Canisius, heil. Aloysius Gonzages og hl. Alphonsus Rodriguez, bl. Marina de Escobar á Spáni (d. 1633) og bl. Marguerite af hinu blessaða Sakramenti en hún var Karmelíti. Myndin af hinu Alhelga hjarta tók einnig að njóta almennra vinsælda, einkum sökum þess að Jesúítarnir höfðu til siðs að setja hana á forsíðu útgefinna rita sinna og á veggi kirkna sinna.

Read more »

  08:00:47, Skrásetjari: Jón Rafn Jóhannsson, 593 orð  
Flokkur: Ritningarlestur dagsins

Ritningarlesturinn 11. október 2006

Heilagt guðspjall Jesú Krists í dag er úr Lk 11. 1-4

Svo bar við, er Jesús var á stað einum að biðjast fyrir, að einn lærisveina hans sagði við hann, þá er hann lauk bæn sinni: „Herra, kenn þú oss að biðja, eins og Jóhannes kenndi lærisveinum sínum." En hann sagði við þá: „Þegar þér biðjist fyrir, þá segið:

Faðir,
st þitt nafn,
til komi þitt ríki,
gef oss hvern dag vort daglegt brauð.
Fyrirgef oss vorar syndir,
enda fyrirgefum vér öllum vorum skuldunautum.
Og eigi leið þú oss í freistni."

Í dag heiðrar kirkjan: Blessaða Angelu Truszkowska (1825-1899). Hugleiðing dagsins: Heil. Seraphim frá Sarov (1759-1833), rússneskur starets. Úr viðtalinu við Motovilov: „Kenn þú oss að biðja“

Read more »

10.10.06

  07:56:48, Skrásetjari: Jón Rafn Jóhannsson, 1356 orð  
Flokkur: Hið Alhelga Hjarta Jesú

3. Logi elsku hins Alhelga Hjarta Jesú í dulúð kirkjunnar

Sá logi ástarfuna elskunnar sem yljað hafði hjarta kirkjunnar frá upphafi vega tók að brjótast út með sýnilegum og áþreifanlegum hætti hjá hinum heilögu á tólftu öld innan Vesturkirkjunnar og nokkru síðar eða á þeirri þrettándu í Austurkirkjunni þegar sífellt fleiri feðranna á hinu heilaga Aþosfjalli tóku að leggja rækt við bæn hjartans. Ekki er unnt að kalla þessa þróun annað en andlega umskurn hjarta kirkjunnar og ávöxt Kristselskunnar sem þróast í elsku á náunganum og fyrirbæn fyrir öllu mannkyninu. Þannig er lögð áhersla á þessa þróun með þeirri viðbót sem kemur við Ave María (Heil sért þú . . .) – sem með réttu má nefna Jesúbæn Vesturkirkjunnar [1] – með orðunum: Heilaga María Guðsmóðir, bið þú fyrir oss syndugum mönnum, nú og á dauðastund vorri. Og samofin miskunnarbæn Austurkirkjunnar er Maríubænin: Alhelga Mey og Guðsmóðir, bjarga oss. Eins og áður hefur verið sagt er hið Alhelga Hjarta Jesú bendill til djúpstæðari sanninda verundar Krists og það sama má segja um hið heilaga Nafn innan Austurkirkjunnar. En í báðum tilvikunum er um sömu hjartabænina að ræða.

Read more »

  07:29:30, Skrásetjari: Jón Rafn Jóhannsson, 504 orð  
Flokkur: Ritningarlestur dagsins

Ritningarlesturinn 10. október 2006

Heilagt guðspjall Jesú Krists er úr Lk 10. 38-42

Á ferð þeirra kom Jesús í þorp nokkurt, og kona að nafni Marta bauð honum heim. Hún átti systur, er María hét, og settist hún við fætur Drottins og hlýddi á orð hans. En Marta lagði allan hug á að veita sem mesta þjónustu. Og hún gekk til hans og mælti: „Herra, hirðir þú eigi um það, að systir mín lætur mig eina um að þjóna gestum? Seg þú henni að hjálpa mér.“ En Drottinn svaraði henni: „Marta, Marta, þú ert áhyggjufull og mæðist í mörgu, en eitt er nauðsynlegt. María valdi góða hlutskiptið. Það verður ekki frá henni tekið.“

Í dag heiðrar kirkjan: Heil. Frans Borgia (1510-1572). Hugleiðing dagsins: Heil. Ambrosíus (um 340-397), biskup í Milan og kirkjufræðari. Umfjöllun um Lúkasarguðspjall 7. 85-86: Marta og María í einum líkama Krists

Read more »

09.10.06

  08:19:55, Skrásetjari: Jón Rafn Jóhannsson, 1105 orð  
Flokkur: Hið Alhelga Hjarta Jesú

2. Ástarfuni hins Alhelga Hjarta í umfjöllun kirkjufeðra fornkirkjunnar.

Sá ástarfuni sem hið Alhelga Hjarta Jesú ber til sköpunar sinnar og hin djúpstæða þrá þess til að leiða mannkynið inn í kyrrðarríki elsku Þrenningarinnar opinberast á fórnarhæð krossins:

„En einn af hermönnunum stakk spjóti sínu í síðu hans, og rann jafnskjótt út blóð og vatn. Sá er séð hefur, vitnar þetta, svo að þér trúið líka og vitnisburður hans er sannur. Og hann veit, að hann segir satt“ (Jh 19. 34. 35).

Read more »

  07:26:21, Skrásetjari: Jón Rafn Jóhannsson, 704 orð  
Flokkur: Ritningarlestur dagsins

Ritningarlesturinn 9. október

Heilagt guðspjall Jesú Krists í dag er úr Lk 10. 25-37

Lögvitringur nokkur sté fram, vildi freista hans og mælti: „Meistari, hvað á ég að gjöra til þess að öðlast eilíft líf?“ Jesús sagði við hann: „Hvað er ritað í lögmálinu? Hvernig lest þú?" Hann svaraði: "Elska skalt þú Drottin, Guð þinn, af öllu hjarta þínu, allri sálu þinni, öllum mætti þínum og öllum huga þínum, og náunga þinn eins og sjálfan þig.“ Jesús sagði við hann: „Þú svaraðir rétt. Gjör þú þetta, og þú munt lifa.“ En hann vildi réttlæta sjálfan sig og sagði við Jesú: „Hver er þá náungi minn?“ Því svaraði Jesús svo: „Maður nokkur fór frá Jerúsalem ofan til Jeríkó og féll í hendur ræningjum. Þeir flettu hann klæðum og börðu hann, hurfu brott síðan og létu hann eftir dauðvona. Svo vildi til, að prestur nokkur fór ofan sama veg og sá manninn, en sveigði fram hjá. Eins kom og levíti þar að, sá hann og sveigði fram hjá. En Samverji nokkur, er var á ferð, kom að honum, og er hann sá hann, kenndi hann í brjósti um hann, gekk til hans, batt um sár hans og hellti í þau viðsmjöri og víni. Og hann setti hann á sinn eigin eyk, flutti hann til gistihúss og lét sér annt um hann. Daginn eftir tók hann upp tvo denara, fékk gestgjafanum og mælti: ,Lát þér annt um hann og það sem þú kostar meiru til, skal ég borga þér, þegar ég kem aftur.' Hver þessara þriggja sýnist þér hafa reynst náungi þeim manni, sem féll í hendur ræningjum?“ Hann mælti: „Sá sem miskunnarverkið gjörði á honum.“ Jesús sagði þá við hann: „Far þú og gjör hið sama.“

Í dag heiðrar kirkjan: Heil. Denis og félaga (d. 258), fyrstu píslarvotta Frakklands. Liðu píslarvætti á Montmartre (Hæð píslarvottanna) í París. Hugleiðing dagsins: Heil. Ágústínus (354-430), biskup í Hippo (Norðurafríku) og kirkjufræðari. Hugvekja 171 um Filippíbréfið: „Hver var náungi þeim manni, sem féll í hendur ræningjum?“

Read more »

08.10.06

  11:06:03, Skrásetjari: Jón Rafn Jóhannsson, 750 orð  
Flokkur: Hið Alhelga Hjarta Jesú

1. Ímynd hins Alhelga Hjarta og boðskapur

Jesus

Til þess að skilja kenningu kirkjunnar um guðrækni hins Alhelga Hjarta Jesú og hins Flekklausa Hjarta Maríu er nauðsynlegt að við gerum okkur grein fyrir hinni sönnu merkingu orðsins „hjarta“ í ljósi hinnar heilögu arfleifðar. Orðið „hjarta“ (hebr. lev, gr. kardia), í heilagri Ritningu og samkvæmt skilningi kirkjufeðranna skírskotar ekki einungis til hins líkamlega hjarta heldur andlegs verundarkjarna mannsins, mannsins eins og hann er skapaður í ímynd Guðs, til sjálfrar guðsímyndar mannsins.

Read more »

  09:41:01, Skrásetjari: Jón Rafn Jóhannsson, 798 orð  
Flokkur: Ritningarlestur dagsins

Ritningarlesturinn 8. október 2005

Heilagt guðspjall Jesú Krists í dag er úr Mk 10. 2-16

Farísear komu og spurðu hann, hvort maður mætti skilja við konu sína. Þeir vildu freista hans. Hann svaraði þeim: „Hvað hefur Móse boðið yður?" 4 Þeir sögðu: „Móse leyfði að ,rita skilnaðarbréf og skilja við hana.'" 5 Jesús mælti þá til þeirra: „Vegna harðúðar hjartna yðar ritaði hann yður þetta boðorð, 6 en frá upphafi sköpunar ,gjörði Guð þau karl og konu. 7 Fyrir því skal maður yfirgefa föður sinn og móður og bindast konu sinni, 8 og þau tvö skulu verða einn maður.' Þannig eru þau ekki framar tvö, heldur einn maður. 9 Það sem Guð hefur tengt saman, má maður eigi sundur skilja." 10 Þegar lærisveinarnir voru komnir inn, spurðu þeir hann aftur um þetta. 11 En hann sagði við þá: „Sá sem skilur við konu sína og kvænist annarri, drýgir hór gegn henni. 12 Og ef kona skilur við mann sinn og giftist öðrum, drýgir hún hór."13 Menn færðu börn til hans, að hann snerti þau, en lærisveinarnir átöldu þá. 14 Þegar Jesús sá það, sárnaði honum, og hann mælti við þá: „Leyfið börnunum að koma til mín, varnið þeim eigi, því að slíkra er Guðs ríki. 15 Sannlega segi ég yður: Hver sem tekur ekki við Guðs ríki eins og barn, mun aldrei inn í það koma." 16 Og hann tók þau sér í faðm, lagði hendur yfir þau og blessaði þau.

Í dag heiðrar kirkjan : Heil. Jóhannes Leonardi (1541?-1609), stofnanda Bræðralags kristinna trúarkenninga. Hugleiðing dagsins: Benedikt páfi XVI. Hirðisbréfið Deus caritas est, § 9-11: „Þannig eru þau ekki framar tvö, heldur einn maður.“

Read more »

07.10.06

  09:24:41, Skrásetjari: Jón Rafn Jóhannsson, 1353 orð  
Flokkur: Hugleiðingar

Jesús og María Guðsmóðir (Panhagia Þeotokos: Alhelga Guðsmóðir)

Í gær mátti sjá spurningu lagða fyrir fimm fulltrúa þeirra ungmenna sem erfa skulu landið í Fréttablaðinu, fjórar stúlkur og einni pilt. Spurningin var: Hver er höfundur Faðirvorsins? Spurningin stóð í stúlkunum, það er að segja þær höfðu ekki minnstu hugmynd um það, en pilturinn svaraði: „Ég held að það hafi verið einhver jesúkall!“ Svona langt er afkristnun íslensku þjóðarinnar komin. Þökk sé Alþingi þjóðarinnar sem markvisst hefur dregið úr trúfræðslu í skólum.

Read more »

1 ... 5 6 7 ...8 ... 10 ...12 ...13 14 15 ... 20