Blaðsíður: 1 3 4 5 ...6 ...7 8 9 10 11 12 ... 20

20.04.13

  12:20:00, Skrásetjari: Jón Rafn Jóhannsson, 420 orð  
Flokkur: Hugleiðingar

Orígen (um 185-253), prestur og guðfræðingur: Hugleiðing

„Og hvers sem þér biðjið í mínu nafni, það mun ég gjöra,  svo að Faðirinn vegsamist í Syninum.“

Orígen (um 185-253), prestur og guðfræðingur.

Ég tel að sá sem er í þann veginn að hefja bænina ætti að fara afsíðis og undirbúa sjálfan sig og þannig verða árvökulli og virkari í allri bæninni. Hann ætti að hrekja allar freistingar og truflandi hugsanir frá sér og minna sjálfan sig eftir fremsta kosti á þá Hátign sem hann nálgast og það sé óguðrækilegt að nálgast hann af hirðuleysi, seinlæti og virðingarleysi. Hann ætti að snúa baki við öllu hið ytra. 

Read more »

28.10.10

  18:09:11, Skrásetjari: Jón Rafn Jóhannsson, 1452 orð  
Flokkur: Fóstureyðingar og vernd, Getnaðarverjasamfélagið

Inntak lífsverndarstefnunnar – eftir föður Paul Marx, O.S.B.

Faðir Paul Marx er stofnandi og fyrrum forseti „Human Life International.“ Samtökin sem stofnuð voru árið 1981 eru stærstu samtök lífsverndarsinna og fjölskylduverndar í heiminum. Hlutverk þeirra er að þjálfa, skipuleggja og styðja leiðtoga lífsverndarsinna víðsvegar um heim og verja mannhelgi lífsins og gildi fjölskyldunnar. Samtökin hafa bjargað lífi tugþúsunda barna víðsvegar um heim. Við getum sem best kallað afstöðu Pauls Marx marxisma lífshyggjunnar til mótvægis við marxisma dauðamenningar frú Margaretar Sangers og samtaka hennar: Planned Parenthood International.

Þann 17. nóvember 1979 ræddi ég um lífsverndarhreyfinguna við Jóhannes Pál páfa II. Hann var nýkominn úr ferð til Bandaríkjanna þar sem hann fordæmdi fóstudeyðingar í ávarpi sínu til byskupanna.

Ég þakkaði honum fyrir andstöðu hans við getnaðarvarnir. Ég greindi honum frá reynslu minni í 48 löndum (nú 91). Ég sagði við hans heilagleika að þegar getnaðarvarnir hafa í eitt skiptið fyrir öll öðlast viðurkenningu, þá væru afleiðingarnar fyrirsjáanlegar. Ég tíundaði þetta fyrir honum: Í sérhverju landi leiða getnaðarvarnir til ógnvænlegra fósturdeyðinga. Þegar getnaðarvarnir og fósturdeyðingar hafa verið lögleiddar og náð að breiðast út fellur fæðingartíðnin, þjóðir riða til falls og börnin fylgja fordæmi foreldranna í afskræmingu kynlífsins.

Read more »

27.10.10

  15:03:34, Skrásetjari: Jón Rafn Jóhannsson, 532 orð  
Flokkur: Kaþólska kirkjan, uppspretta vestrænnar menningar

Hvernig kaþólska kirkjan lagði grunninn að vestrænni menningu (1)

Nú að undanförnu hef ég verið að lesa hið merka rit Thomas E. Woods, Jr., Ph. D sem kom út á vegum Regnery Publishing, Inc. í Boston árið 2005. Heiti þess er Hvernig kaþólska kirkjan lagið grundvöllinn að vestrænni menningu (How the Catholic Church Built Western Civilization), en ritið hefur valið mikla athygli meðal fræðimanna bæði vestan hafs og austan.

Í reynd ætti þetta ekki að koma okkur Íslendingum svo mjög á óvart vegna þess að það var einmitt kirkjan sem skapaði gullöld íslenskrar menningar og færði þjóðinni dýrmætan menningararf í hendur með „bókaiðju“ klaustranna. Uppgröfturinn á Skriðuklaustri hefur jafnframt leitt í ljós að þar var rekið líknarheimili (hospicio) eins og tíðkaðist í kaþólskum löndum Evrópu á sama tíma. Hl. Þorlákur samdi einnig lög í miklum mæli sem eru í gildi allt fram á daginn í dag. Í reynd var hl. Þorlákur afar vellesinn í lögum hámiðaldanna, svo mjög, að Jóhann IV Englandskonungur fékk hann til að semja lögbók Englendinga og enn í dag er honum auðsýnd sérstök heiðrun í Lincoln eins og margir vita.

Read more »

26.10.10

  15:46:33, Skrásetjari: Jón Rafn Jóhannsson, 769 orð  
Flokkur: Kaþólska kirkjan, uppspretta vestrænnar menningar

Hvernig kaþólska kirkjan lagði grunninn að vestrænni menningu (2): Hagfræðin

Ragnar Kristjánsson kemst svo að orði í aðsendri athugasemd: „Ég lærði það í félagsfræði að uppruni kapítalismans má rekja til trúar skiptanna. Þar segja þegar Lúterskirkjan kom til sögunnar og mörg lönd tóku þá trú. Þetta vil Marx Weber meina.“ Sem háskólaborgari ætti téður Ragnar að gera sér ljóst að hugtakið „símenntun“ vegur þungt í akademískri umræðu innan háskólasamfélagsins. Ég minnist eins kunningja míns sem lærði líffræði við HÍ. Hann snéri sér síðan að kennslustörfum. Að fimmtán árum liðnum þegar hann sótti síðan um starf í sérgrein sinni var honum tjáð að menntun hans væri orðin úrelt. Hann yrði því að fara í „endurmenntun“ ef hann hefði áhuga á að starfa sem líffræðingur.

Read more »

25.10.10

  15:13:26, Skrásetjari: Jón Rafn Jóhannsson, 1330 orð  
Flokkur: Erlendar fréttir

Hin neikvæða hlið líffæragjafa – mál Oklahomabúans Zack Dunlap og „heiladauðakenningin“

Í september 2003 greindi ástralska dagblaðið Courier Mail sem gefið er út í Brisbane í Ástralíu frá því að rússneskir skurðlæknar fjarlægðu nýru úr heimilislausum sjúklingum og seldu. Gangverð slíkra líffæra er allt að 40.000 $. Einn rússnesku skurðlæknanna sem talaði undir nafnleynd sagði „að almennt talað væru viðkomandi sjúklingar búnir að vera og ættu í mesta lagi þrjá eða fjóra daga ólifaða.“ Margir minnast einnig orðróms sem gekk fjöllunum hærra fyrir nokkrum árum um að heimilislaus börn í Brasilíu væru notuð sem lifandi „líffærabankar,“ þó að erfitt væri að staðfesta þennan orðróm. Kínversk stjórnvöld hafa þannig legið undir grun um að selja líffæri úr fórnarlömbum ógnarstjórnar sinnar og slík viðskipti blómstra alls staðar um hinn vestræna heim, ekki síst í Bandaríkjunum og Kanada. Í nýlegum deilum um „heiladauðakenninguna“ hefur einnig verið vakin athygli á raunverulegri hættu á að hjálparvana sjúklingar væru hafðir að féþúfu lækna og sjúkrahúsa í þessum blómlegu alþjóðlegu viðskiptum eins vaxtarbrodda dauðamenningarinnar.

Read more »

24.10.10

  19:49:46, Skrásetjari: Jón Rafn Jóhannsson, 2529 orð  
Flokkur: Kaþólska kirkjan, uppspretta vestrænnar menningar

Vísindin og kirkjan – Galíleómálið

Af gefnu tilefni vil ég taka fram að þetta er þýðing úr ritinu „How the Catholic Church Built Western Civilization“ eftir Thomas E. Woods, Jr., Ph. D sem kom út á vegum Regnery Publishing, Inc. í Boston árið 2005. Þýðing ritsins mun birtast smám saman hér á kirkju.net á næstu mánuðum. Til stendur að gefa ritið út að þýðingu þess lokinni. Þetta er rit sem ætti að vera til í bókaskáp sem flestra kaþólskra heimila í landinu unglingum til uppfræðslu, ekki síður en þeim sem eldri eru. Í sannleika sagt getum við verið afar „stolt“ af kirkjunni okkar.

Var einungis um tilviljun að ræða að vísindi nútímans þróuðust að stórum hluta til í kaþólsku andrúmslofti, eða var það eitthvað við kaþólskuna sem stóð framförum vísindanna að baki? Jafnvel það eitt að brydda upp á þessari spurningu er að brjóta í bága við tískustefnu samtíma okkar. Stöðugt fleiri vísindamenn hafa engu að síður tekið að velta þessari spurningu fyrir sér og svarið gæti komið sumum á óvart.

Hér er ekki um neitt smámál að ræða. Í hugum almennings var það einmitt kaþólska kirkjan sem ól á fjandskap gagnvart vísindunum. Hin einhliða umfjöllun um mál Galíleós sem flestum er kunnugt um má að mestu kenna um þá útbreiddu skoðun, að kirkja hafi staðið í vegi fyrir þróun vísindanna. En jafnvel mál Galíleós er fjarri því að vera jafn slæmt og illgjarnir menn halda fram. Hinn víðkunni trúskiptingur nítjándu aldarinnar, John Henry Newman kardínáli, sem sagði skilið við anglíkanismann, taldi það umhugsunarvert að þetta væri eina dæmið sem kæmi upp í hugum manna.

Read more »

28.12.09

  07:36:39, Skrásetjari: Jón Rafn Jóhannsson, 950 orð  
Flokkur: Bænalífið

Hin heilaga fjölskylda og hreinleiki hjartans

Sjá meðfylgjandi mynd

Endurbirtur pistill sem birtist upprunalega 28.11.2007.

Svo er sagt að þegar hin heilaga fjölskylda var á leið til Egyptalands á flótta undan heiftaræði Heródesar hafi ræningi nokkur sem var víðkunnur af illvirkjum sínum og níðingsverkum heft för þeirra. En þegar hann sá barnið í faðmi Guðsmóðurinnar sagði hann: „Jafnvel þó að sjálfur Guð væri hér á ferð væri hann ekki fegurri en þetta barn!“ Og hann lét þau fara í friði. Undarlegt er til þess að hugsa að þessi miskunnarlausi ræningi lét hrífast af fegurð barnsins á sama tíma sem valdstjórnarmenn leituðust við að fyrirkoma því.

Read more »

24.05.09

  06:57:18, Skrásetjari: Jón Rafn Jóhannsson, 316 orð  
Flokkur: Hugleiðingar

Hollur undirbúningur fyrir hvítasunnuna – John Henry Newman, kardínáli (1801-1890):„Að rísa upp með Kristi.“

Þeir eru ekki af heiminum, eins og ég er ekki af heiminum“

Hefjið nú þennan heilaga páskatíma og rísið upp með Kristi. Sjáið, hann býður ykkur framrétta hönd sína. Hann er að rísa upp, rísið upp með honum. Rísið upp úr gröf hins gamla Adams frá lítilsigldum áhugamálum og öfund; frá afbrýðisemi og önuglyndi jarðneskra markmiða; frá þrældómsoki vanans; frá ringulreið ástríðnanna, frá tálsýnum holdsins, frá ísköldum yfirvegunum anda heimsins; frá léttúð; frá eigingirni; frá hégómaskap; frá sjálfshyggju; frá kveifarskap; frá sjálfsblekkingu og dramblæti. Héðan í frá skuluð þið leggja rækt við það sem er svo miklum erfiðleikum háð, en ætti ekki að vera svo og má ekki láta ógjört: Að vaka, biðja og íhuga . . .

Sýnið fram á að hjarta ykkar og þrár, að líf ykkar sé með Guði. Takið frá tíma á hverjum degi til að leita að honum . . . Ég er ekki að hvetja ykkur til að hverfa úr heiminum eða snúa baki við skyldustörfum ykkar í heiminum, heldur að endurleysa tímann. Ekki að verja tíma ykkur einungis til að gleðjast eða til félagslífsins, en einungis að gefa Kristi örfáar mínútur. Ekki einungis að ákalla hann þegar þið eruð þreytt og megnið ekki að gera neitt nema að sofa. Látið alls ekki undir höfuð leggjast að vegsama hann eða að biðja fyrir heiminum og kirkjunni í ríkum mæli til að gera ykkur merkingu textans ljósa af einlægni, að keppa eftir því, „sem er hið efra“ og bera því vitni að hjarta ykkar er risið upp með honum og „líf yðar er fólgið með Kristi í Guði“ (Kol 3. 1-3).

21.05.09

  06:44:42, Skrásetjari: Jón Rafn Jóhannsson, 248 orð  
Flokkur: Hugleiðingar

Á degi uppstigningar þinnar, ó Kristur konungur vor – úr sýrlensku helgisiðunum

„Samgleðjist mér, því að ég hef fundið sauðinn minn, sem týndur var“ (Lk 15. 6)

Á degi uppstigningar þinnar, ó Kristur konungur vor,
hrópuðu englar og menn:

„Þú ert heilagur, ó Drottinn, vegna þess að þú steigst niður á jörðina og bjargaðir Adam, manni leirsins (1M 2. 7),
úr hyldýpi syndar og dauða,
og með heilagri uppstigningu þinni, ó Sonur Guðs,
öðluðust himinn og jörð frið.
Dýrð sé honum sem sendi þig!“
Kirkjan sá Brúðguma sinn í dýrð
og gleymdi píslunum á Golgata.
Í stað þyngsla krossins sem hann bar,
er hann borinn á ljósskýi.
Sjáið hvernig hann rís upp, íklæddur hátign og dýrð!

Í dag gerist mikið undur á Olíufjallinu:
hver getur greint frá því? . . .
Meistari vor kom niður að leita Adams
og þegar hann hafði fundið þann sem var týndur
bar hann þann hinn sama á herðum sér
í dýrð til himins í samfélagi sínu (spr. Lk 15. 4).
Hann kom og opinberaði okkur að hann er Guð;
hann íklæddist mennskunni og opinberaði sig sem mann;
hann steig niður til Heljar og opinberaði að hann væri dáinn;
hann reis upp og var upphafinn og opinberaði mikilleika sinn.
Blessuð sé upphafning hans!

María fagnaði daginn sem hann fæddist;
jörðin skalf á dánardægri hans;
víti vanvirt á degi upprisu hans;
jörðin fagnar á degi upprisu hans.
Blessuð sé uppstigning hans!

20.05.09

  06:22:08, Skrásetjari: Jón Rafn Jóhannsson, 336 orð  
Flokkur: Hugleiðingar

Vilhjálmur frá Saint-Thierry (um 1085-1149), sistersíani – Andi sannleikans

„Andi sannleikans, mun leiða yður í allan sannleikann“

„Hver meðal manna veit hvað mannsins er, nema andi mannsins, sem í honum er? Þannig hefur heldur enginn komist að raun um, hvað Guðs er, nema Guðs Andi“ (1Kor 2. 11). Hraðið ykkur því til að öðlast samfélag við Heilagan Anda. Vart erum við búnir að ákalla hann þegar hann er kominn og ef við áköllum hann, þá er það sökum þess að hann er þegar hið innra með okkur. Þegar hann er ákallaður kemur hann, hann kemur í ríkidæmi gnægta guðdómlegrar blessunar. Það er hann sem er þessar „Elfar-kvíslir sem gleðja Guðs borg“ (Sl 46. 5). Ef hann sér þegar hann kemur að þið eruð auðmjúkir og lausir við angist og óttist orð Guðs, þá mun hann koma og hvíla yfir ykkur og opinbera ykkur það sem Guð hefur hulið fyrir spekingum og hyggindamönnum þessa heims (Mt 11. 25). Þá mun allur sá sannleikur sem Vísdómurinn talaði um við lærisveinana meðan hann dvaldi á jörðu taka að ljóma fyrir ykkur og þeir gátu ekki borið áður en Andi sannleikans kom sem átti að uppfræða þá um allan sannleikann . . .

Rétt eins og þeir sem tilbiðja Guð verða óhjákvæmilega að tilbiðja hann „í anda og sannleika“ (Jh 4. 24), þannig verða þeir sem vilja kynnast honum einungis að leita skilnings trúarinnar í Heilögum Anda . . . Í miðju myrkri og fávisku þessa heims er það hann sjálfur sem ljómar fyrir hina fátæku í anda (Mt 5. 3), kærleikurinn sem dregur til sín og ljúfleikinn sem hrífur sálina, elska þeirra sem elska og guðrækni þeirra sem gefast án þess að hika. Það er hann sem opinberar réttlæti Guðs frá einni fullvissu til annarrar, sá sem veitir „náð á náð ofan“ (Jh 1. 16) og upplýsir trú þeirra sem hlusta á Orðið.

Spegill trúarinnar, 6 (Patrologia latina 180, 384). 


18.05.09

  06:53:46, Skrásetjari: Jón Rafn Jóhannsson, 386 orð  
Flokkur: Hugleiðingar

Huggunarrík orð fyrir uppstigningardag – Hl. Kýrillos frá Alexandríu (380-444)

„Þér skuluð einnig vitni bera“

Allt hafði verið gert sem átti eftir að gera á jörðinni. En enn var það nauðsynlegt að við myndum verða „hluttakendur í guðlegu eðli“ Orðsins (2Pt 1. 4) – það er að segja að við snérum baki við lífi okkar og ummynduðumst fullkomlega og yrðum leidd beint til nýs vegar heilags lífernis . . . Ég tel að það sé sannleikanum samkvæmt að meðan Kristur var nærverandi í líkamanum meðal þeirra sem trúðu á hann, þá opinberaðist hann þeim sem sá sem var miðlari allrar gæsku. En þar sem tíminn og nauðsynin kallaði hann nú til að verða hafinn upp til Föðurins á himnum, þá var nauðsynlegt fyrir hann að vera nærverandi í Andanum með þeim sem tilbáðu hann og „fyrir trúna búa í hjörtum yðar“ (Ef 3. 17).

Það er auðvelt að sanna með hliðsjón af Gamla og Nýja testamentinu að Andinn breytir eðli þeirra sem hann kemur til að dvelja hjá og umbreytir lífi þeirra. Hinn heilagi maður Samúel sagði þegar hann ræddi við Sál: „Þá mun Andi Drottins koma yfir þig, svo að þú munt komast í spámannlegan guðmóð með þeim og verða annar maður“ (1S 10. 6). Heilagur Páll sagði: „En allir vér, sem með óhjúpuðu andliti endurspeglum dýrð Drottins, ummyndumst til hinnar sömu myndar, frá dýrð til dýrðar. Þetta gjörir Andi Drottins“ (2Kor 3. 18).

Þannig sjáið þið að Andinn endurskapar bókstaflega þá í nýja mynd sem hann sést dvelja í. Í stað þrár þeirra til að hugsa jarðneskar hugsanir kemur í stað þessa þrá til að mæna einungis til hins himneska af festu. Hann umbreytir mennsku hugleysi þeirra í anda hugrekkis. Við getum vissulega séð að það var þetta sem lærisveinarnir sannreyndu: Andinn varð að herklæðum þeirra svo að þeir létu ekki undan áhlaupum ofsækjenda sinna, heldur héldu fast í Kristselskuna. Þannig getum við séð sannleiksorð Frelsara okkar: „Það er yður til góðs, að ég fari burt, því ef ég fer ekki, kemur Hjálparinn ekki til yðar“ (Jh 16. 7). Nú var sú stund runnin upp að Andinn stigi niður.

12.05.09

  06:23:33, Skrásetjari: Jón Rafn Jóhannsson, 464 orð  
Flokkur: Hugleiðingar

„Minn frið gef ég yður“ – Blessaður Jóhannes páfi XXIII (1881-1963),
Úr hirðisbréfinu „Pacem in terris“

Allir sem gengið hafa í raðir Krists verða að vera skínandi ljós í heiminum, orkuver elsku og sem súrdeig fjöldans. Þetta munu þeir verða í hlutfalli við stig sameiningar sinnar við Guð. Heimurinn mun aldrei verða að bústaði friðar fyrr en friðurinn hefur gert sér bústað í hjarta hvers og eins, uns við varðveitum hið innra með okkur þá tilhögun sem Guð hefur boðað að skuli varðveitt . . . Þetta takmark er svo háleitt og upphafið að mennsk viðleitni getur aldrei vænst þess að ná því, jafnvel þó að hún sé innblásin af háleitasta stigi lofsverðs og gæskuríks vilja. Sjálfur Guð verður að koma okkur til hjálpar með guðdómlegri hjálp sinni ef mennskt samfélag á að samlíkjast konungsríki Guðs eftir fremsta megni . . .

Með beiskum píslum sínum og dauða hefur Kristur laugað okkur af syndum okkar sem eru flóðgátt upplausnar, eymdar og ójafnréttis . . . „Því að hann er vor friður . . . Hann gjörði báða að einum og reif niður vegginn, sem skildi þá að, fjandskapinn milli þeirra“ (Ef 2. 14). Hinir heilögu helgisiður þessara páska enduróma þennan sama boðskap: „Um kvöldið þennan fyrsta dag vikunnar kom Jesús, stóð mitt á meðal þeirra [lærisveinanna] og sagði við þá: "Friður sé með yður!" . . . Lærisveinarnir urðu glaðir, er þeir sáu Drottin“ (spr. Jh 20. 19-20). Það er þannig Kristur sem kom með friðinn til okkar, Kristur sem gaf okkur hlutdeild í honum: „Frið læt ég yður eftir, minn frið gef ég yður. Ekki gef ég yður eins og heimurinn gefur“.

Við skulum því biðja um frið hans af brennandi ákafa sem guðdómlegur Endurlausnari okkar kom og færði okkur í hendur. Megi hann varðveita sálir mannanna frá öllu því sem stefnir þessum friði í hættu. Megi hann ummynda okkur öll til að verða að vottum sannleika, réttlætis og bróðurlegrar elsku. Megi hann upplýsa hugi valdhafa með ljósi sínu . . . Megi Kristur loks glæða þrá hjá öllum til að brjóta niður þá veggi sem sundra þeim, að styrkja bönd gagnkvæmrar elsku, að kenna okkur að skilja hvert annað og fyrirgefa þeim sem gert hafa það sem rangt er. Megi allir menn fagna öðrum mönnum í hjörtum sínum sem bræðrum í krafti hans og innblæstri og megi sá friður sem þeir þrá blómstra og ríkja meðal þeirra.

01.05.09

  08:52:28, Skrásetjari: Jón Rafn Jóhannsson, 246 orð  
Flokkur: Hugleiðingar

Maímánuður – mánuður Maríu Guðsmóður

Blóm vallarins

Á tólftu öld talaði hl. Bernhard frá Clairvaux um hina sælu mey Maríu sem „rós kærleikans, lilju hreinleikans, fjólu auðmýktarinnar og hina gullnu ilmjurt sem kom af himni ofan.“ Hl. Frans frá Assisí gætti þess ávallt að stíga aldrei á eitt einasta blóm sem varð á vegi hans vegna þess að það væri tákn Maríu, „Lilju vallarins.“

Nú þegar blómin taka að springa út á Ísa köldu landi getum við stuðst við þau og hugleitt einhvern ákveðinn þátt þess leyndardóms sem líf Maríu opinberar okkur og beðið um að öðlast náð til að taka okkur Guðsmóðurina að fyrirmynd í dyggðugu líferni hennar og heilagleika. Við getum beðið um fyrirbænir hennar þegar eitthvað fagurt blóm verður á vegi okkar og þannig beint hugum okkar til himins til okkar sanna föðurlands (Fl 3. 20).

Höfum jafnframt í huga að hinn dyggðum prýddi eiginmaður hennar. hl. Jósef, er verndari verkamanna í dýrlingatali kirkjunnar og minningardagur hans er 1 maí. Okkur er þetta hollt nú þegar landsmenn eru uppteknir af hruni grægði veraldarhyggjunnar: Einni dauðasyndanna sjö. Látum þessarar hamfarir brostinna vona mennskrar græðgi ekki byrgja okkur sýn til okkar sanna föðurlands á himnum.

Skrautblóm og ilmjurtit sköpunar Guðs geta þannig orðið okkur að bendlum eða vegvísum til himins.

12.04.09

  06:12:30, Skrásetjari: Jón Rafn Jóhannsson, 323 orð  
Flokkur: Hugleiðingar

Hl. Maxímus frá Tórínó: Þetta er dagur fögnuðar og gleði

Þetta er dagurinn sem Drottinn hefir gjört, fögnum, verum glaðir á honum“ (Sl 118. 24). Það er engin tilviljun, bræður, að í dag lesum við þann sálm þar sem spámaðurinn býður okkur að fagna og gleðjast og að heilagur Davíð bjóði allri sköpuninni að halda þennan dag hátíðlegan. Í dag hefur upprisa Krists lokið upp hvíldarstað hinna framliðnu. Hinir nýlega skírðu í kirkjunni hafa yngt þennan dag upp og Heilagur Andi hefur leitt okkur hið himneska fyrir sjónir. Helja stendur opin og lætur af hendi hina dauðu. Himininn stendur galopinn og fagnar þeim sem rísa upp til hans.

Ræninginn er farinn til Paradísar (Lk 23. 43) og líkamar hinna heilögu ganga inn í borgina helgu (Mt 27. 53) . . . Við upprisu Krists hefur verið hrært við öllum frumefnunum og allt er hafið í hæðir. Víti afhendir englunum alla þá sem hafðir voru í haldi og himininn leiðir alla þá sem meðtakið hafa fyrir Drottinn . . . Upprisa Krists veitir hinum dauðu líf, syndurum fyrirgefningu og hinum heilögu dýrðina. Þannig kveður hinn mikli Davíð allt sköpunarverkið til að fagna upprisu Krists og hvetur það til að dansa af fögnuði og gleði á þessum degi sem Drottinn hefur gjört.

Þið munuð spyrja: En himninum og Helju hefur ekki verið skipaður staður innan marka dagsljóss þessa heims og getum við því vænst þess að þetta tvennt fagni degi sem opinberar það ekki? En dagur Drottins umvefur alla hluti, felur í sér alla hluti og umlykur samtímis himin, jörð og víti! Engir skilveggir hindra ljós Krists fremur en að frumefnin myrkvi það eða varpi á það skugga. Ljós Krists er sannarlega dagur án nætur, endalaus dagur. Það brýst fram alls staðar, ljómar alls staðar og dvelur alls staðar.

11.04.09

  07:34:46, Skrásetjari: Jón Rafn Jóhannsson, 385 orð  
Flokkur: Hugleiðingar

Blessaður Guerric frá Igny (1080-1157), páskavakan

„Þetta er dagurinn sem Drottinn hefur gjört“

Bræður: „Þetta er dagurinn sem Drottinn hefir gjört, fögnum, verum glaðir á honum“ (Sl 118. 24). Við skulum fagna í þeirri von sem hann felur í sér svo að við getum séð og glaðst í ljósi hans. Abraham vænti þess með fögnuði að sjá dag Krists, og hann sá og gladdist (spr. Jh 8. 58). Ef þið vakið sjálfir af árvekni við dyrastaf viskunnar (Ok 8. 34) . . . ef þið vakið ásamt Maríu Magdalenu við dyrnar að gröfinni, þá munuð þið ef mér skjátlast ekki sannreyna með Maríu hversu sönn orðin um spekina eru sem er Kristur: „Þeir sem elska hana eiga auðvelt með að sjá hana og þeir sem leita hennar finna hana“ (SS 6. 12).

Þetta gaf Kristur, sjálf spekin, fyrirheit um: „Ég elska þá sem mig elska, og þeir sem vaka frá því árla morguns, finna mig“ (Ok 8. 17). María fann Jesús í holdi og af þessum ástæðum hélt hún vöku sinni. Hún hafði komið til að vaka yfir gröfinni meðan enn var ekki bjart af degi. Þið sem eigið ekki lengur að þekkja Jesús með holdlegum hætti (2Kor 5. 16) heldur í anda munuð finna hann með andlegum hætti, ef þið leitið af sömu þrá og María: „Af hjarta þrái ég þig á næturnar, já, með andanum í brjósti mínu skima ég eftir þér“ (Jes 26. 9). Segið með orðum og hugarfari sálmaskáldsins: „Bíð róleg eftir Guði, sála mín, frá honum kemur hjálpræði mitt“ (Sl 62. 2) . . .

Haldið því vöku ykkar, bræður, stöðugir í bæninni . . . einkum sökum þess að morgunn þess dags sem ekki á sér sólarlag hefur þegar risið yfir ykkur . . . Sannarlega er nú sú stund að okkur ber að rísa af svefni. Nóttin er afstaðin og dagurinn í nánd (Rm 13. 11-12). Vakið því segi ég svo að árdegisroðinn blasi við ykkur sem er Kristur, sem mun renna upp eins og morgunroðinn (Hs 6. 3) og er reiðubúinn til að endurnýja iðulega morgun upprisu sinnar í þeim sem vaka. Þá munuð þið syngja af fagnandi hjörtum: „Þetta er dagurinn sem Drottinn hefur gjört, fögnum, verum glaðir á honum.“

09.04.09

  07:15:42, Skrásetjari: Jón Rafn Jóhannsson, 386 orð  
Flokkur: Hugleiðingar

Benedikt páfi XVI: Úr Sacramentum caritatis

„Enginn á meiri kærleik en þann að leggja líf sitt í sölurnar fyrir vini sína“ (Jh 15. 13)

Sakramenti kærleikans, hin heilaga Evkaristía, er sú gjöf þar sem Jesús Kristur gefst sjálfur og opinberar þannig fyrir okkur takmarkalausa elsku Guðs á sérhverjum karli og konu. Þetta undursamlega sakramenti birti okkur þann „meiri kærleika“ sem fékk hann til „að leggja líf sitt í sölurnar fyrir vini sína“ (Jh 13. 1). Með þessum orðum víkur guðspjallamaðurinn að takmarkalausri auðmýkt Krists: Áður en hann dó á krossinum batt hann um sig mittislinda og laugaði fætur lærisveina sinna. Með sama hætti heldur Jesús áfram að gera þetta í sakramenti Evkaristíunnar, að elska okkar „allt til enda,“ jafnvel að fórna líkama sínum og blóði fyrir okkur. Hversu undrandi hljóta postularnir ekki að hafa verið þegar þeir urðu vitni að því sem Drottinn gerði og sagði við kvöldmáltíðina! Hversu mikla undrun hlýtur leyndardómur Evkaristíunnar ekki að glæða í okkar eigin hjörtum! . . .

Í þessu sakramenti verður Drottinn sannarlega að fæðu fyrir okkur til að svala þorsta okkar eftir sannleika og frelsi. Þar sem það er einungis sannleikurinn sem gerir okkur frjáls (spr. Jh 8. 32) verður Kristur að sannleiksfæðu. Drottinn Jesús Kristur, „vegurinn, sannleikurinn og lífið“ (Jh 14. 6) talar til þyrstra pílagrímshjartna okkar, hjartna sem þrá uppsprettu lífsins, hjartna okkar sem þrá sannleikann. Jesús Kristur er sannleikurinn með persónulegum hætti sem dregur heiminn til sín . . .

Í sakramenti Evkaristíunnar sýnir Jesús okkur með sérstökum hætti sannleikann um elskuna sem er sjálft eðli Guðs. Það er þessi sannleikur fagnaðarerindisins sem er áskorun til okkar allra og allrar verundar okkar. Það er af þessum ástæðum sem kirkjan sér í Evkaristíunni sjálfan kjarna lífs síns og ber fyrir brjósti að boða öllum í tíma og ótíma (spr. 2Tm 4. 2) að Guð er elska. Einmitt sökum þess að Kristur er orðinn okkur að sannleiksfæðu, þá snýr kirkjan sér til sérhvers karls og konu og býður þeim að þiggja endurgjaldslaust gjöf Guðs.

20.12.08

  08:17:16, Skrásetjari: Jón Rafn Jóhannsson, 188 orð  
Flokkur: Hugleiðingar

Benedikt páfi XVI – Heilagur Jósef: Fyrirmynd í hlustun (© L'Osservatore Romano)

Þögn heilags Jósefs má rekja til þagnar íhugunar hans á leyndardómum Guðs í fullkomnum fúsleika andspænis vilja Guðs. Með öðrum orðum er þögn heilags Jósefs ekki ummerki innri tómleika heldur þvert á móti fyllingar þeirrar trúar sem hann ber í hjarta sínu og stjórnar öllum hugsunum hans og verkum. Þetta er þögn sem gerir Jósef ásamt Maríu kleift að hlýða Orði Guðs sem kunngert er í heilögum Ritningum og sem blasir við þeim í öllum atvikum í lífi Jesú. Þetta er þögn sem rekja má til óaflátanlegrar bænar, blessunarbænum til handa Drottni, tilbeiðslu á heilögum vilja hans og fullkomnu trausti á fyrirhugun hans.

Við skulum láta það eftir okkur að „smitast“ af þögn heilags Jósefs. Við þörfnumst slíks svo átakanlega í heimi sem iðulega er allt of hávær og ófús til að hlusta af athygli á raust Guðs. Á þessum tíma þegar við undirbúum okkur fyrir jólin skulum við leggja rækt við innri einbeitingu svo að við getum fagnað Jesú í lífi okkar.

09.12.08

  09:32:08, Skrásetjari: Jón Rafn Jóhannsson, 886 orð  
Flokkur: Hugleiðingar

Um þöggun

Orðið þöggun hefur óvænt skotið upp kollinum í þjóðfélagsumræðunni að undanförnu. Ekki er ólíklegt að okkar ástkæra föðurland skipi einstakan sess meðal þjóða í hinum vestræna heimi. Helstu fjölmiðlar þjóðarinnar eru í höndum sömu hagsmunaaðilana að Rúv undanskildu sem að nafninu til á að vera í þjóðareign. En almennt talað hefur hin „óháða“ stétt fréttamanna lotið ofurvaldi þöggunarinnar á umliðnum árum. Meðal annars lýsir þetta sér í því að ef sérfræðingar voguðu sér að benda á veikleika undirstaða íslenska fjármálaviðundursins brugðust fjölmiðlarnir í heild við slíkri gagnrýni af vanþóknun. Ummæli líkt og „þeir þarna í Háskólanum þurfa nú að fara að athuga sinn gang!“ glumdu við í þöggunaráráttu fjölmiðlavaldsins. Ef erlendir fjölmiðlar voguð sér að gagnrýna útrásarvíkingana glumdi hneykslunin við í öllum fjölmiðlum þöggunarvaldsins. Frægt er þegar háttvirtur utanríksráðherra tókst á hendur sérstaka ferð til Danmerkur s. l. vor ásamt fríðu föruneyti útrásarvíkinga til að sannfæra Dani um að hið íslenska „wirtschaftswunder“ stæði styrkum fótum. Ég minni á að þetta var einungis nokkrum mánuðum fyrir ragnarökin miklu. Ég minnist myndskeiðs úr kvikmynd um David Cooperfield eftir Charles Dickens. Það var tekið á geðveikrahæli þar sem þögnin ein ríkti. Skyndilega tók einn hinna sjúku að æpa og það var eins og við manninn mælt: Allir hinir tóku undir hróp hans.

Read more »

14.10.08

  11:52:20, Skrásetjari: Jón Rafn Jóhannsson, 1657 orð  
Flokkur: Hugleiðingar

Um aðskiljanlega náttúru knattleikja – hugleiðing

Á umliðnu sumri var handknattleikur mikið til umræðu meðal þjóðarinnar, einkum vegna velgengni íslenska landsliðsins í Beijing. Bolti og handknattleikur gegnir einnig mikilvægu hlutverki í boðskap Jesú. Drottinn greip til dæmisagna í ríkum mæli eins og við sjáum í guðspjöllunum. Á grísku er orðið dæmisaga „parabole,“ en bókstaflega þýðir orðið: „með bolta.“ Jesús varpar þannig boðskap sínum til okkar líkt og bolta í handknattleik. Við getum þannig gripið boðskapinn eða boltann á lofti og í þessu sambandi eru viðbrögð okkar mikilvæg, rétt eins og gengur í öllum öðrum handknattleikjum. Í þessu samhengi getum við sem best rætt um „veraldlegan“ og „guðdómlegan“ knattleik.

Read more »

08.10.08

  08:10:58, Skrásetjari: Jón Rafn Jóhannsson, 956 orð  
Flokkur: Hugleiðingar

Feitu árin og mögru árin – hugleiðing

Ég minnist þess hversu mjög mér var brugðið þegar ég var að bera út Alþýðublaðið forðum daga og las risafyrirsögn á forsíðunni um að við (Íslendingar) værum að fara fram af hengifluginu. Þetta var á sólbjörtum morgni og þrátt fyrir að ég skildi ekki orðin til fulls var mér ljóst að þetta væri slæmt: Afar slæmt! Það var hnugginn blaðaburðarstrákur sem kom heim þennan morgun til mömmu sinnar sem reyndist erfitt að kreista bros fram á andlitið. Þetta var þegar stjórn Hermanns Jónassonar hrögglaðist frá vegna aðsteðjandi efnahagsörðugleika.

Read more »

14.09.08

  07:47:26, Skrásetjari: Jón Rafn Jóhannsson, 311 orð  
Flokkur: Hugleiðingar

Upphafning hins heilaga kross (14. september): Hugvekja tileinkuð heilögum Efraím hinum sýrlenska (um 306-373), djákna og kirkjufræðara

„Og þegar ég verð hafinn upp frá jörðu, mun ég draga alla til mín“ (Jh 12. 32)

Frá og með þessari stundu hefur krossinn hrakið alla skugga á brott og sannleikurinn tekið að ljóma, eins og Jóhannes postuli segi: „Hið fyrra er farið . . . Sjá, ég gjöri alla hluti nýja“ (Opb 21. 4-5). Dauðinn hefur verið sviptur bráð sinni, hinir fjötruðu í víti endurleystir: Maðurinn er orðinn frjáls. Drottinn ríkir og sköpunin fagnar. Krossinn hefur sigrað og allar þjóðir, kynkvíslir, tungur og lýðir (Opb 7. 9) koma til að tilbiðja hann. Í krossinum finnum við fögnuð okkar og hrópum með heilögum Páli: „En það sé fjarri mér að hrósa mér af öðru en krossi Drottins vors Jesú Krists“ (Gl 6. 14). Krossinn varpar ljósi sínu á alla heimsbyggðina. Hann hrekur myrkrið á brott og safnar þjóðunum saman í kærleika í kirkjunni í einni trú og einni skírn, frá vestri til austurs, úr norðri og frá höfunum. Hann stendur í miðju heimsins þar sem hann rís á Krosshæðinni.

Read more »

06.09.08

  07:29:19, Skrásetjari: Jón Rafn Jóhannsson, 44 orð  
Flokkur: Bænalífið

Bæn í minningu herra Sigurbjörns Einarssonar biskups.

Drottinn vor og Guð, ljós vort og yndi. Leið herra Sigurbjörn Einarsson biskup inn til hvíldar þinnar himnesku gleði til að dvelja þar að eilífu í fullsælu hinna heilögu í sigrandi kirkju himnanna! Drottinn, heyr vora bæn. Amen

29.08.08

  15:21:54, Skrásetjari: Jón Rafn Jóhannsson, 278 orð  
Flokkur: Erlendar fréttir

McCain velur mikinn lífsverndarsinna og móður barns með Downs heilkenni sem varaforsetaefni sitt.

Sú frétt sem vakið hefur mesta athygli í fjölmiðlum vestanhafs í dag er val MacCains á Söru Palin sem varaforsetaefni sínu. Hún er fyrst kvenna til að gegna ríkisstjórastöðu í Alaska og er alþekkt fyrir eindregna afstöðu sína fyrir fjölskyldugildum og lífsvernd. Þessi 44 ára lífsverndarsinni og fyrrum fegurðardrottning var undir miklum þrýstingi frá læknum fyrr á þessu ári að fara í fóstureyðingu fremur en að ala fimmta barn sitt – stúlkubarn sem nefnist Trig – sem greinst hafði með Downs heilkenni.

Read more »

28.08.08

  15:36:22, Skrásetjari: Jón Rafn Jóhannsson, 337 orð  
Flokkur: Bænalífið

Heil. Makaríus (?-405), eyðimerkurfaðir í Egyptalandi – Að vaka í bæn eftir komu Guðs

Til að biðja þörfnumst við hvorki svipbrigða, hrópa né að falla fram á ásjónur okkar. Sú bæn sem er bæði viturleg og brennandi er sú þegar beðið er eftir því að Guð komi til að vitja sálna okkar með alls konar hætti og fyrir milligöngu skynhrifanna. Nóg um þögn okkar, andvörp og tár: Við skulum ekki keppa eftir neinu öðru en að Guð umvefji okkur örmum.

Read more »

27.08.08

  07:06:06, Skrásetjari: Jón Rafn Jóhannsson, 246 orð  
Flokkur: Hið Alhelga Hjarta Jesú

Baldwin frá Ford (?-um1190), ábóti í sistersíanreglunni – Drottinn, fjarlægðu steinhjarta mitt

Okkur ber að elska Krist eins og hann elskaði okkur. Með þessu gaf hann okkur fordæmi svo að við gætum fylgt í fótspor hans (1Pt 2. 21). Því segir hann: „Legg mig sem innsiglishring við hjarta þér“ (Ll 8. 6). Þetta er líkt og hann hefði sagt: „Elskið mig eins og ég elska ykkur. Hafið mig í huga ykkar, endurminningu, löngunum, þrám, andvörpum og tárum. Minnstu þess, mannkyn, hvernig ég skapaði þig, hvernig ég upphóf þig yfir allt hið skapaða, hvernig ég hóf þig til slíkrar tignar, hvernig ég hef krýnt þig með sæmd og heiðri, hvernig ég gerði þig litlu minni en englana og lagt allt að fótum þínum (Spr. Sl 8. 6-7). Minnstu ekki einungis þeirra hluta sem ég hef fært þér í hendur, heldur allrar þeirrar óverðskulduðu harmkvæla sem ég leið fyrir þig . . . Ef þú elskar mig, sýndu þá að þú elskar mig! Elskaðu mig í verki og sannleika, en ekki einungis með innantómum orðum . . . Legðu mig eins og innsiglishring við hjarta þér svo að þú elskir mig af öllum mætti . . .

Read more »

26.08.08

  06:51:24, Skrásetjari: Jón Rafn Jóhannsson, 416 orð  
Flokkur: Hið Alhelga Hjarta Jesú

„Hreinsaðu fyrst bikarinn innan“ – Hl. Jóhannes Eudes

Ó Guð minn, hversu undursamleg er ekki sú elska sem þú berð í brjóti til okkar! Eilíflega ertu þess verður að vera elskaður, lofaður og vera gerður dýrlegur! Sjálfum skortir okkur bæði hjarta og anda til að gera þetta nógsamlega, en í vísdómi þínum og gæsku hefur þú lokið upp leið fyrir okkur til að gera þetta. Þú hefur gefið okkur Anda og Hjarta Sonar þíns til þess að verða að okkar eiginn anda og hjarta eins og þú gafst okkur fyrirheit um fyrir munn spámanna þinna: „Og ég mun gefa yður nýtt hjarta og leggja yður nýjan anda í brjóst“ (Esk 36. 26). Og til þess að gera okkur ljóst hver hvað þetta nýja hjarta og andi er bætir þú við: „Og ég mun leggja yður anda minn í brjóst,“ það er að segja hjarta mitt“ (v. 27). Einungis Andi og Hjarta Guðs megnar að lofa og vegsama Guð, að blessa hann og elska með verðugum hætti. Það er af þessari ástæðu sem þú hefur gefið okkur þitt Hjarta, Hjarta Jesú, Sonar þíns, og auk þess hjarta guðdómlegrar móður hans og allra hinna heilögu og englanna sem öll til samans verða að einu hjarta, rétt eins og limirnir mynda einn líkama (Ef 4. 16) . . .

Read more »

05.08.08

  08:19:11, Skrásetjari: Jón Rafn Jóhannsson, 1045 orð  
Flokkur: Vefrit Karmels

Nóttin er ljós mitt – eftir Wilfrid Stinissen ocd (2)

Nýlega kom út 11. ritið hjá Vefritum Karmels: „Nóttin er ljós mitt – ritskýringar við hina myrku nótt Jóhannesar af Krossi“ eftir karmelítaföðurinn Wilfrid Stinissen. Ritið má fá á:

http://www.lulu.com/content/3337173

Hér verða birtir tveir kaflar úr ritinu: „Dæmið ekki“ og „Guðsríkið er hið innra með yður.“ Hér er sá síðari:

„Guðsríkið er hið innra með yður“

Þegar við höfum unnið úr „vörpununum“ og þannig frelsað sektarlambið sem við höfðum útvalið til að axla þá byrði sem við höfðum lagt á það, getum við byrjað á þriðja stiginu. Á öðru stiginu hverfum við frá hinu ytra til hins innra. Nú hverfum við til þess innsta, til þeirra híbýla þar sem Guð býr. Guðs ríki er hið innra með yður, segir Jesús (Lk 17, 21). Við göngum inn í þetta ríki Guðs og tökum sekt okkar með okkur. Jafnskjótt og við leggjum hana fram fyrir Guð gufar hún upp. Og meira en það: Myrkrið ummyndast í ljós. Og þótt ég segði: ‚Myrkrið hyljir mig og ljósið í kringum mig verði nótt,‘ þá myndi þó myrkrið eigi verða þér of mikið og nóttin lýsa eins og dagur, myrkur og ljós eru jöfn fyrir þér (Sl 139. 11, 12).

Read more »

29.07.08

  08:58:49, Skrásetjari: Jón Rafn Jóhannsson, 1414 orð  
Flokkur: Vefrit Karmels

Nóttin er ljós mitt – eftir Wilfrid Stinissen ocd (1)

Nýlega kom út 11. ritið hjá Vefritum Karmels: „Nóttin er ljós mitt – ritskýringar við hina myrku nótt Jóhannesar af Krossi“ eftir karmelítaföðurinn Wilfrid Stinissen. Ritið má fá á:

http://www.lulu.com/content/3337173

Hér verða birtir tveir kaflar úr ritinu: „Dæmið ekki“ og „Guðsríkið er hið innra með yður.“ Hér er sá fyrri:

Dæmið ekki!

Hluti þessarar „andlegu og opnu hugarfarsafstöðu“ felst í því að dæma ekki. Ef við erum sammála Jóhannesi af Krossi um að tilgangur ögunaræfinga sé að öðlast frelsi vegna Guðs, þá getum við samsinnt því að reglan „dæmdu ekki“ sé ein mikilvægasta ögunaræfingin.

Read more »

16.07.08

  07:35:52, Skrásetjari: Jón Rafn Jóhannsson, 2077 orð  
Flokkur: Bænalífið, Hið Alhelga Hjarta Jesú

Vísindi allra vísinda og list allra lista – um hið guðdómlega ásæi mannsandans

RÉTT þykir að útskýra orðið ásæi vegna þess að hér er um nýyrði á íslensku að ræða. Ásæi – þeama, þeamata (gr. sýn, ásýnd; þýska: Beschaung) þýðir bókstaflega að sjá Guð í hreinleika mannshjartans í samhljóðan við orð Drottins: „Sælir eru hjartahreinir, því að þeir munu Guð sjá“ (Mt 5. 8).

Kristin helgunarguðfræði tók hugmyndina um mannssálina sem spegil í arf frá grísku heimspekingunum. Þannig lýstu bæði Platon og Plótínus sálinni sem spegli, hugmynd sem þeir Aþaníos og Gregoríos frá Nyssa þróuðu síðan enn frekar og gæddu nýju inntaki. Plótínus lýsti mannssálinni þannig sem spegli sem væri þess megnugur að endurspegla bæði fegurð og ljótleika þeim sem heillað athygli sálarinnar hverju sinni.

Read more »

06.07.08

  09:31:06, Skrásetjari: Jón Rafn Jóhannsson, 1578 orð  
Flokkur: Bænalífið, Heilagur Andi

Verundardjúp mannssálarinnar og sköpunarmáttur þjáningarinnar

Í „Bæn kirkjunnar“ kemst Edith Stein svo að orði: „Hjá þeim sem ganga inn í einingu hins guðdómlega lífs verður allt að einni heild: Hvíld og starf, andleg íhugun og viðleitni, þögn og tal, hlustun og samskipti, elskurík meðtaka og elskurík sjálfsgjöf í þakkarbæn og lofgjörð . . . Við þörfnumst tíma þögullar hlustunar þegar við heimilum Orðinu guðdómlega að starfa í okkur uns hann krefst fórnar í lofgjörð og verkum ávaxtanna.“ Eða með orðum sjálfs Frelsarans: „En nær þú biðst fyrir, skaltu ganga inn í herbergi þitt, loka dyrunum og biðja Föður þinn, sem er í leynum. Faðir þinn, sem sér í leynum, mun umbuna þér. (Mt 6. 6). Herbergið er sjálft mannshjartað og dyrnar áreiti skynhrifanna.

Read more »

22.06.08

  00:24:50, Skrásetjari: Jón Rafn Jóhannsson, 472 orð  
Flokkur: Bænalífið, Heilagur Andi

Hin innsiglaða uppspretta – Hl. Gregoríos frá Nyssa (335-395)

Með eftirfarandi orðum víkur hl. Gregoríos að innsta verundardjúpi mannsins í skrifun sínum, hinu innsta sviði Edith Stein eða uppsprettunni hans Jóhannesar af Krossi:

En garðurinn okkar þarfnast einnig uppsprettu, þannig að trjálundirnir fái að blómgast í sífellu og njóti vökvunar. Og þess vegna bætir hann uppsprettunni við þegar hann lofar brúðina og segir: Lokuð lind, innsigluð uppspretta (Ll 4. 12). Orðskviðirnir uppfræða okkur um hvað felst að baki þessarar uppsprettu með dæmisögu: Gæddu uppsprettur þína sætleika. Þér einum skulu þær tilheyra og engum óviðkomandi með þér (Ok 5. 16, 17, Sjötíumannaþýðingin). Hér leggur textinn blátt bann við því, að einhver annar spilli vatninu. Þannig er þessu einnig varið í fyrra textabrotinu okkar: Óviðkomandi er meinað að njóta uppsprettunnar, eins og gefið er í skyn með orðinu innsigluð, sem þýðir eitt og hið sama og „undir eftirliti.“

Read more »

17.06.08

  17:33:09, Skrásetjari: Jón Rafn Jóhannsson, 481 orð  
Flokkur: Trúarljóð

Óður sálar sem gleðst yfir því að þekkja Guð í trú – Hl. Jóhannes af Krossi

Hversu vel þekki ég ekki uppsprettuna
sem streymir fram, þótt það sé nótt.

1. Þessi eilífa uppspretta er hulin,
en ég veit vel hvaðan hún streymir fram,
þótt það sé nótt.

2. Upphaf hennar er mér ókunnugt,
en ég veit að allt upphaf er frá henni komið,
þótt það sé nótt.

3. Ég veit að ekkert annað er svona fagurt,
og himininn og jörðin bergja af henni
þótt það sé nótt.

4. Ég veit vel að botn er ekki í henni að finna,
að enginn geti komist hér yfir,
þótt það sé nótt.

Read more »

15.06.08

  22:54:02, Skrásetjari: Jón Rafn Jóhannsson, 3878 orð  
Flokkur: Bænalífið, Heilagur Andi

Vísindi krossins – Edith Stein (systir Teresia Benedicta af Krossi OCD) (1891-1942) karmelsystir og trúarheimspekingur – (4)

d. Sálin, „égið“ og frelsið

Það er mikilvægt að varpa eins skýru ljósi og unnt er með andlegum hætti og án ímynda á það hvað þessar rúmmyndir tjá. Þessar ímyndir eru ómissandi. En þær eru óljósar og auðvelt að misskilja þær. Það sem nálgast sálina að utan tilheyrir hinum ytra heimi. Með þessu er átt við það sem tilheyrir ekki sálinni sjálfri og meginreglan er sú að slíkt tilheyrir heldur ekki líkama hennar. Þótt líkami hennar sé nefndur úthverfa hennar, þá er hann hennar úthverfa og einn með henni í einingu verundar hennar og ekki eins úthverfur eins og það sem blasir við henni sem algjörlega framandi og aðskilið. [8]. Meðal þessara framandi og aðskildu fyrirbæra má gera greinarmun á þeim hlutum sem eiga sér augljósa ytri tilveru, það er að segja eru gæddir rúmvídd og þeirra sem eru gæddir innhverfri verund líkt og sjálf sálin.

Read more »

12.06.08

  15:10:37, Skrásetjari: Jón Rafn Jóhannsson, 776 orð  
Flokkur: Bænalífið, Heilagur Andi

Vísindi krossins – Edith Stein (systir Teresia Benedicta af Krossi OCD) (1891-1942) karmelsystir og trúarheimspekingur – (3)

c. Innra svið sálarinnar og hugsanir hjartans.

Hugsanir hjartans eru hið upphaflega líf sálarinnar í grunni verundar hennar í djúpi sem fer á undan allri skiptingu í mismunandi sálareigindir og starfsemi þeirra. Þarna lifir sálin nákvæmlega eins og hún er í sjálfri sér, handan alls sem kallað er fram í henni vegna skapaðra vera. Þótt þetta innsta og djúpa svið sé dvalarstaður Guðs og sá staður þar sem sálin sameinast Guði, þá streymir hennar eigið líf héðan út áður en líf sameiningarinnar hefst. Þannig er þetta jafnvel í því tilviki þar sem þessi sameining nær ekki fram að ganga. Allar sálir eru gæddar þessu innsta sviði og verund þeirra er líf.

Read more »

11.06.08

  06:43:34, Skrásetjari: Jón Rafn Jóhannsson, 1703 orð  
Flokkur: Bænalífið, Heilagur Andi

Vísindi krossins – Edith Stein (systir Teresia Benedicta af Krossi OCD) (1891-1942) karmelsystir og trúarheimspekingur – (2)

b. Samskipti sálarinnar við Guð og skapaða anda

Með því að grípa til rúmmfræðilegrar líkingar úr náttúruvísindum samtíma síns nefnir hinn helgi maður (Jóhannes af Krossi) Guð hvíldarpunkt eða dýpstu miðju sálarinnar. [1] Samkvæmt þessari vísindalegu afstöðu eru hlutir dregnir með ómótstæðilegum krafti til miðju jarðarinnar vegna þess að þetta er sá punktur þar sem aðdráttaraflið er mest. Steinn inni í jörðinni hefur þegar náð ákveðnum hvíldarpunkti, en þetta er þó ekki enn dýpsta miðjan vegna þess að hann býr yfir eiginleika, mætti og tilhneigingu til að falla enn lengra meðan hann hefur ekki náð til miðpunktsins. Þannig hefur sálin fundið endanlegan og dýpsta hvíldarpunkt sinn í Guði „þegar hún þekkir, elskar og nýtur Guðs af öllum sínum mætti.“ Þetta er aldrei endanlega raunin í þessu lífi. Þegar hún hvílir í hvíldarpunkti sínum fyrir náð Guðs, þá er hér ekki um dýpstu miðjuna að ræða vegna þess að hún getur ávallt gengið enn dýpra inn í Guð. Sá máttur sem dregur hana til Guðs er elskan og elskan getur í þessu tilviki ætíð náð háleitara stigi. Því æðra sem þetta stig er því dýpra dregur akkeri elskunnar sálina niður og þess meira gagntekur Guð hana á þeim rimum stigans sem sálin rís upp eftir til Guðs [2], það er að segja til sameiningar við hann. Eftir því sem hún rís hærra upp til Guðs því dýpra sígur hún niður innra með sér sjálfri: Sameiningin nær fram að ganga í innsta hluta sálarinnar, í dýpsta grunni sálarinnar. Ef þetta virðist allt vera þversagnakennt, þá verður að hafa í huga að hér er einungis um ólíkar rúmmyndir að ræða – sem fylla hvor aðra upp með gagnkvæmum hætti – þar sem leitast er við að tjá það sem á ekkert skylt við rúm og náttúrleg reynsla getur ekki tjáð með fullnægjandi hætti.

Read more »

1 3 4 5 ...6 ...7 8 9 10 11 12 ... 20