Blaðsíður: 1 3 4 5 6

18.10.19

27.08.18

  17:26:00, Skrásetjari: Jon Valur Jensson   , 81 orð  
Flokkur: About our website. Kirkju.net

Nýr vefur kirkjunnar á Facebók

Nýstofnaður er Snjáldurskinnu-vefur kaþólsku kirkjunnar, Diocese Reykjavik,* og þar er margar myndir að finna úr starfi kirkjunnar, til dæmis meðal ungmenna og annarra af erlendum uppruna, einnig myndir af biskupi okkar og prestum glöðum á góðri stund -- hér eru séra Patrick Brien, sóknarprestur Dómkirkju Krists konungs, og séra Jakob Rolland biskupsritari: https://www.facebook.com/photo.php?fbid=2054150664837939&set=a.2054152261504446&type=3&theater,, en ef smellt er á myndina, má sjá þar á undan og á eftir margar slíkar líflegar myndir úr ungmennastarfinu o.fl.
Til dæmis hér: https://www.facebook.com/photo.php?fbid=2054151031504569&set=a.2054152261504446&type=3&theater
og hér: https://www.facebook.com/photo.php?fbid=2054150991504573&set=a.2054152261504446&type=3&theater

19.07.18

  15:55:00, Skrásetjari: Jon Valur Jensson   , 177 orð  
Flokkur: About our website. Kirkju.net

Hjalti Magnússon: Bæn

við brottför mína úr Stykkishólmi í október 1896. Kringumstæðurnar voru bágar, jeg vildi komast að Djúpi, en átti þar þó enga nótt vísa. Varð að fara í vondri tíð, undir veturinn, bæði sjóveg og landveg.

Alvaldi faðir allra þjóða,
eilífa guðdóms þrenningin,
láttu nú haf og land mjer bjóða
liðugan þrautaferilinn.
Yfirbugað fær ekkert mig,
ef aðeins treysti´ eg fast á þig.

Láttu mótgerðir ljett mjer falla,
ljúfasti, góði frelsarinn !
og nær til dauða´ eg höfði halla,
hirtu þá sálarneistann minn,
oft sem jeg hef um æfiskeið
útfordjarfað á marga leið.

Þótt ófullkominn jeg sje nú svona,
samt flýgur til þín hugur minn,
og ávallt skal jeg á þig vona,
elskuríkasti græðarinn.
Hjá þjer einum er allra skjól
eilíf miskunnar náðarsól.

Heyr þú bæn mína, herra góði,
og hjástoð veit mjer, drottinn kær ;
af miskunar þinnar mæta sjóði
mjer veittu líkn, og vertu nær,
eg svo að þreifi´ um almátt þinn,
elskuríkasti faðir minn.

Drottinn heyrði þessa bæn mína. Mjer gekk ferðin vel, og jeg fjekk atvinnu um veturinn við barnakennslu, og hefi jeg verið við það síðan.

23.12.17

Morgunmessa með Þorláki biskupi helga

Falleg var messan í morgun kl. 8 á Þorláksmessudegi í Dómkirkju Krists konungs. Séra Jakob Rolland las og söng þar messu með þremur tylftum kirkjugesta, en þetta hefur hann gert allt frá 1993 og er mikill Þorláksmaður í sér, það heyrist á öllu. Sungin var hefðbundin messa, en í predikun sinni las hann m.a. úr Þorláks sögu helga. Í lok messunnar sungum við sálm tileinkaðan Þorláki, eftir Stefán frá Hvítadal, og stóðum þá fyrir framan líkneski hins helga manns nærri inngangi kirkjunnar.

Eftir messuna var morgunverður í safnaðarheimilinu, kaffi og súkkulaði, rúnnstykki með osti og sultum og pönnukökur beggja gerða, ljúffengt mjög, og ágæt samvera fólks, sem hristist þarna saman með eilítið frábrugðnum hætti frá því sem vant er, því að hér voru líka í messu margir sem gjarnan mæta í ensku sunnudagsmessuna kl. 18 fremur en íslenzku hámessuna kl. hálfellefu, sem og ýmsir aðrir sem sjaldnar sjást eða í öðrum kirkjum.

Á morgun, aðfangadag, vill svo til, að þá er í raun 4. sunnudagur í aðventu, henni er sem sé ekki lokið fyrr en eftir það, og er hámessan í Landakoti kl. hálfellefu að vanda og þá kveikt á fjórða aðventukertinu. Jólavakan byrjar svo á miðnætti sama kvöld.

Gleðileg jól, allir lesendur hér nær og fjær!

PS. Hér á Björn Bjarnason, fyrrverandi. menntamálaráðherra, góða, fróðlega grein um Þorlák biskup í vefdagbók sinni á Moggabloggi í dag: Messa verndardýrlings Íslands = http://www.bjorn.is/dagbok/nr/8631

07.07.17

Vitnisburður með jákvæðri sköpun lífins og gegn dauðamenningunni

Það er ánægjulegt að fulltrúar kaþólsku kirkjunnar eru í vaxandi mæli farnir að beita sér gegn þeirri umturnun á siðagildum sem gætir svo mjög í samtíð okkar. Hér segir frá ræðu Carlos Caraffa kardínála um málið á ráðstefnu um lífsverndarmál í Róm. Um sé að ræða stórtækar árásir á manneðlið og mennskuna og tilgang hinnar góðu sköpunar Guðs, og birtist þær einkum í tvennu:

1) Kardínálinn fordæmdi það að verið sé að “breyta glæp í réttindi” í tilfelli fósturvíga. “þetta merkir, að farið sé að kalla það, sem er gott, illt, og það, sem er ljós, er kallað myrkur,” sagði hann. Caffarra lýsti því yfir, að fóstureyðing feli í sér “djúptæka afneitun á sannleikanum um manninn.”

2) Caffarra færði rök fyrir því, að með því “að hefja samkynhneigð til vegs og virðingar" (the ennoblement of homosexuality) hefði það þau áhrif að hafna “sannleikanum um hjónabandið.” Í huga Guðs hafi hjónabandið viðvarandi hlutverk, byggt á tvíeðli mannsins: hinu kvenlega og karllega (femininity and masculinity); þetta séu ekki tveir pólar, hvor öðrum andstæðir, heldur styðji hvort um sig hitt. "Only thus does man escape his original solitude,” sagði Caraffa, þ.e.a.s.: Aðeins með þessu móti losni manneðlið við sína einsemd.

Á vefslóðinni hér á eftir fjalla aðrir hæfir menn um sama efni og hvernig m.a. með kynskiptiaðgerðum sé verið að umturna sköpun Guðs (þessu sé svo hampað og hossað af ráðvilltum vinstrimönnum samtímans):
http://www.wnd.com/2017/07/top-vatican-official-satan-hurling-anti-creation-at-god/#KmUMCMOBcimWqzHp.99

Ennfremur sé þessi málflutningur kardínálans í fullu samræmi við það sem Franz páfi hafi rætt um þessi mál. En Caraffa var árið 1981 skipaður af Jóhannesi Páli II páfa sem yfirmaður stofnunar, sem hann kom á legg, um fjölskylduna og hjónabandið.

12.12.16

  00:30:00, Skrásetjari: Jon Valur Jensson   , 99 orð  
Flokkur: Ljóð og kvæði / Poetry, Úr lífi og starfi kirkjunnar, Trúarleg ljóð JVJ

Kirkjuferð og kaffistund

Dagvillumaðurinn
dettur hér glaður inn,
kærrar kirkjunnar son,
kallast J. V. Jensson.
Hyggur á helgistund,
hreinsast þar, sáttur í lund.
Hlýðir á sálmasöng
sætan, er fólksins þröng
altarið nálgast, nú
náðina þiggur í trú.
Hver þá með sjálfum sér
sæll með bænamál fer,
klerkur unz kveður, ber
krossmark að enni þér,
bræðurna yrðir á
upplífgast vinir þá.
Safnaðar halda í hús,
hver og einn næsta fús;
kaffi og kökur á borðum,
kliður af vinsemdarorðum.
Fólkið af framandi slóðum
fagnaði deilir hér góðum.
Blandast þar bræður og systur,
barnsvanginn stundum kysstur.
Biskup, sem ver gegn villum,
helgaðan loks við hyllum.

31.10.16

  19:39:00, Skrásetjari: Jon Valur Jensson   , 217 orð  
Flokkur: Kirkjusaga, íslenzk, Úr lífi og starfi kirkjunnar, Kirkjusaga nýaldar, alþjóðleg, Kaþólskir Íslendingar

30. ártíð Hinriks biskups Frehen

Ótrúlega hratt hefur tíminn liðið frá andláti þessa elskaða leiðtoga sem undirritaður eins og margir aðrir áttu að andlegum föður, hvetjandi og gefandi í tilverunni. Hann var frá okkur tekinn þremur árum fyrir páfaheimsóknina 1989. Um hann ritaði undirritaður á 20. ártíð hans 2006:

"Hinrik biskup var afskaplega hjartahlýr, laus við allt yfirlæti, en þeim mun sannari maður meðbræðrum sínum, það sást í öllu hans viðmóti. Margoft skildi ég við hann á tröppunum við hús hans í Egilsgötu, þar sem hann, brosandi og uppörvandi, bað mér og mínum blessunar og velfarnaðar í bak og fyrir. Það gerði hann líka, þegar ég var erlendis við nám, og þakka ég hér og nú fyrirbænir hans allar.

Hrífandi fagur þótti mér Gregorssöngur biskups, þegar hann hóf upp raust sína í messunni með orðum Níkeujátningarinnar: Credo in unum Deum ... Það var eitthvað innilega hreint og fallegt við tón hans og hreim, en hann lærði einnig allnokkuð í íslenzku og flutti predikanir sínar á því máli.

Trú hans var einlæg og fölskvalaus, hann verður jafnan lifandi dæmi og fyrirmynd um sannan og gefandi lærisvein Krists."

Sjá nánar hér: 20. ártíð Hinriks biskups Frehen – Persónuleg minning. Sjá einnig grein eftir Gunnar F. Guðmundsson, cand. mag., sem mikið starfaði fyrir biskupinn: Dr. Hinrik H. Frehen biskup – Minning.

Blessuð sé minning Hinriks biskups. Megi ljós Guðs lýsa honum. ––JVJ.

14.08.16

Á messudegi heil. Lárentíusar

Okkar vinsæli prestur séra Jürgen Jamin, sem þjónaði hér Kristskirkju um margra ára skeið sem sóknarprestur, unz hann hélt til doktorsnáms og mikil­vægra trúnaðarstarfa fyrir kirkjuna í Róm og Feneyjum, er nú staddur á Íslandi, messaði í Landakoti í dag og fagnaði gömlum vinum í kirkjukaffi í safnaðarhemilinu á eftir.

Predikun hans fjallaði um píslarvottinn heilagan Lárentíus (Laurentius, f. um 225 í Aragon á Spáni, d. 10. ágúst 258) og um auðæfi kirkjunnar, sem dýrlingurinn benti keisarans mönnum á, að væru fólgin í hinum mikla sæg meðlima kirkjunnar, fátækum, sjúkum, blindum og krypplingum.

Keisarinn Valerianus hafði áður látið taka páfann af lífi, hinn gagnmerka Sextus 2., biskup Rómaborgar, og fyrirskipað (í byrjun ágúst 258) aftöku allra biskupa, presta og djákna, og nú reiddist hann svo Lárentíusi, að hann lét húðstrýkja hann og steikja til dauðs á rist. Árið áður hafði Sextus páfi skipað hann fremstan sinna sjö djákna í Rómaborg og treyst honum þar fyrir fjársjóðum kirkjunnar og útdeilingu á ölmusu til fátækra.

Fyrir dauða sinn hafði Lárentíus fengið fyrirskipun veraldlega valdsins um að afhenda allar eigur kirkjunnar til keisarans innan þriggja daga, en í staðinn notaði hann tímann til að dreifa eignum kirkjunnar meðal fátækra og fá þá til að mæta frammi fyrir höll keisarans, og er Lárentíus í einni heimild sagður hafa mælt við umboðsmann Valeríans, bendandi á mannsöfnuðinn: "Kirkjan er sannarlega rík, mun ríkari en keisari yðar."

Lárentíus var höfuðdýrlingur í ekki færri en átta kirkjum hér á landi og auka­dýrlingur í nokkrum, að því er fram kemur í bók dr. Árna Björnssonar, Sögu daganna. Meðal kirkna, sem helgaðar voru honum, var Holtskirkja í Önund­ar­firði, Skálmarnes­múla­kirkja, Lundarkirkja í Lundarreykjadal, kirkjan í Görðum á Akranesi, Grundarkirkja í Eyjafirði og kirkjan í Reykjahlíð við Mývatn.

Einn af kaþólskum biskupum Íslands bar nafn þessa dýrlings, Lárentíus Kálfsson (f. 10. ágúst 1267, d. 16. apríl 1331), Hólabiskup 1324–31, og er af honum Lárentíus saga, sem talið er víst að sé eftir lærisvein hans og vin, sr. Einar Hafliðason (1307–1393), Hólaráðsmann og officialis á Breiðabólstað í Vesturhópi (var sonur hans Árni í Auðbrekku, faðir Þorleifs sýslumanns, föður Björns ríka, riddara og hirðstjóra á Skarði, og eru allir núlifandi menn af þjóðarstofninum af þeim langfeðgum komnir).

Eftir nafni píslarvottsins heita margir fyrr og nú, þeir sem nefnast Lárus, Lars, Lafranz, Lawrence, Lorenz, Laurent og ýmsum fleiri útgáfum af nafni hans.

22.02.16

Guðs lýður, krossins tak þú tré

Langafasta stendur yfir, það er tími sjálfsafneitunar, ef vel á að vera, og ekki aðeins í mat og drykk. Gjafmildi er þörf, og lestur í Ritningunni og guðrækileg íhugun gagnast opnum huga.

Hér er birtur í fyrsta sinn á netinu fallegur sálmur Guðbrands Jónssonar, rit­höfundar og prófessors að nafnbót, en hann var sonur Jóns Þorkelssonar, mag­isters, dr. í ísl. fræðum, þjóðskjalavarðar (skáldsins Fornólfs), merkra ætta, og faðir Loga lögfræðings, fyrrv. frkvstj. St Jósefsspítala í Landakoti.

Guðbrandur var mikilvirkur rithöfundur og annálaður essayisti og hélt oft útvarpserindi um ferðir sínar og hugðarefni, og eru til allnokkur greinasöfn hans á bókum, t.d. Gyðingurinn gangandi, Að utan og sunnan og Sjö dauða­syndir. Ennfremur er hann höfundur mikillar ævisögu Jóns biskups Arasonar, sem út kom hjá Hlaðbúð á fjögurra alda ártíð herra Jóns og sona hans Ara og Björns, sem allir Íslendingar eru komnir af, en Guðbrandur var kaþólskur.

Mun fleira mætti skrifa um Guðbrand, sem var vel þekktur maður á sinni tíð, en vindum okkur að sálminum, sem er þýddur (frumhöfundur H. Vejser), en vel gerður og kom höf. þessara lína á óvart þennan sunnudag, því að fyrr hafði ég ekki séð kveðskap eftir Guðbrand, en sunginn er hann við fallegt lag:

 

Guðs lýður, krossins tak þú tré

trútt þér á herðar, þótt hann sé

þungur að bera, þessi raun

þiggur margföld og eilíf laun.

 

Í laun þér veitist vegsemd ein,

að verða´ að Kristí lærisvein;

speki og þróttur vaxa víst,

veita mun þér af slíku sízt.

 

Tak þér á herðar Herrans kross,

hljóta munt þá hið æðsta hnoss:

félag og sæta samanvist

sífellt við Drottin Jesúm Krist.

Samdægurs birt á Krist.blog.is

 

07.02.16

7. nóvember 1550 – eftir Pétur Sigurgeirsson biskup

   

Öxi´ og  jörðu eftirlátið

eldrautt þá var blóð.

Minningu um merka feðga

man vor frjálsa þjóð.

Biskupi var kær sín kirkja,

kær sem land og trú.

Fann í vanda frelsi Íslands

frelsishetja sú.

 

Ártíð þessi á oss minnir

afbrot framið mest.

Iðrun synda, sátt og mildi

sakir læknar best.

Þar er hjálpin þörfin mikla,

þá sem einnig nú.

Lifir kristin kirkja fyrir

kærleik, von og trú.

 

Þetta eru 2. og lokaerindið (4.) í ljóðinu 7. nóvember 1550 eftir herra Pétur Sigurgeirsson. Það birtist upphaflega í Lesbók Morgunblaðsins 4. nóvember 2000, á kristnihátíðarárinu. Pétur heitinn biskup var norðanmaður eins og Jón biskup Arason, blessaðrar minningar.

05.01.16

  03:56:00, Skrásetjari: Jon Valur Jensson   , 118 orð  
Flokkur: Fornkirkjan

Brot af sögubroti

Úr athugun Harðar Ágústssonar á skrúða- og áhaldaeign Skálholtsdómkirkju frá miðöldum:

"... Hæstur meðalaldur er í flokknum helgidómar og skrín. Aldrinum veldur allt í senn helgi og dýrleiki. Þrátt fyrir að járntjald siðaskiptanna hafi verið dregið fyrir helgi Þorláks biskups Þórhallssonar, fyrsta dýrlings Íslendinga, þraukaði jarðneskur umbúnaður hans lengst allra kirkjugripa."

Skálholt. Skrúði og áhöld, eftir Kristján Eldjárn og Hörð Ágústsson. Hið ísl. bókmenntafélag 1992, bls. 116. – Þetta rit, alls 370 bls., er mikil upplýsinga-kista um Skálholtsdómkirkju, skrúða þar og áhöld, allt frá þeirri fyrstu kirkju þar, en þar á meðal um mikla bókaeign kirkjunnar, prentuð rit, handrit og skjöl. Væntanlega gefst síðar tími til að gera því efni nokkur skil. Og þetta er ekki eina bók þessara góðu félaga um Skálholt (nánar síðar).

25.10.15

Minnt á biskupsvígslu 31. október 2015

Nú eru fimm dagar rúmir til hátíðlegrar biskupsvígslu í Kristskirkju í Landa­koti, öðru nafni Basiliku Krists konungs. Séra Jakob Rolland minnti á þetta í hámessu nýliðins sunnudags og hvatti alla kaþólska til að sækja þessa vígslumessu, sem verður nk. laugardag, 31. október, kl. 18.00.

Séra Davíð Tencer, kapúcínamunkur og sóknarprestur í sókn heilags Þorláks á Reyðarfirði, hefur verið kallaður og útvalinn til að taka við af herra Pétri Bürcher sem biskup kaþólskra á Íslandi. Við fögnum þessu og biðjum fyrir því að hann fái þjónað sínu nýja embætti af sömu gleðinni og fúsleikanum sem hefur einkennt störf hans hingað til. Um lífshlaup hans og ævistarf var fjallað hér nýlega í þessum pistli (með mynd): Nýtt biskupsefni kaþólskra.

Svo vildi til, að þetta sunnudagskvöld var stutt, en mjög áhugaverð frétt í Sjónvarpinu frá Kollaleiru í Reyðarfirði, þar sem sagt var frá starfi munkanna þar, en einkum frá byggingu kaþólskrar kirkju, Þorlákskirkju, á staðnum, og hvernig hjálp margra hefur gert hana mögulega, einkum viðirnir í hana, en þar er um bjálkabyggingu að ræða, úr fallegum ljósum viði. Mest af bjálk­un­um er gefið af vinum munkanna í Slóvakíu. Einnig er sagt frá ýmsum helgi­gripum sem kirkjunni hafa borizt; – "eins og Davíð sagði: Guð undirbýr allt."

Sjón er sögu ríkari, því að þetta er á vef Sjónvarpsins, þar sem líka sést í séra Davíð fyrir altarinu (í eldra helgihúsi á staðnum) og ómur heyrist af tilbeiðslu­textum: Hér eru þessar kvöldfréttir Sjónvarpsins, umfjöllun um kaþólsku kirkjuna byrjar þar þegar um 20 mín. eru liðnar af fréttatímanum.

15.10.15

Grein í Mbl. um heil. Teresu frá Avila

Merka grein og vel ritaða eftir Jón Viðar Jónsson, rithöfund og leiklistar­gagnrýnanda, er að finna í Morgunblaðinu í dag: Á fimm hundruð ára afmæli heilagrar Teresu frá Avila (1515-1582) – en í dag er messudagur hennar. Jón Viðar, sem kynnir sig sem kaþólskan leikmann, segir frá henni á áhuga­verðan hátt og tengir það klaustri reglu hennar hér á Íslandi, Karmelklaustri í Hafnarfirði, segir frá erfiðri baráttu heil. Teresu (og samherja hennar, heil. Jóhannesar frá Krossi) og ritum þeirra, sem Jón Rafn Jóhannsson hefur þýtt á íslenzku og fáanleg eru í klaustrinu, sem og með pöntun gegnum þennan vef: http://www.lulu.com/spotlight/jonrafn/ – Þar geta menn kynnzt einhverj­um mestu auðæfum kaþólskrar dulspeki (mystíkurinnar). Teresa var ekki aðeins tekin í tölu heilagra, heldur einnig (árið 1970) í tölu kirkjufræðara (doctores Ecclesiæ).

21.09.15

  02:07:00, Skrásetjari: Jon Valur Jensson   , 362 orð  
Flokkur: Kirkjusaga, íslenzk

Nýtt biskupsefni kaþólskra

Dávid Bartimej Tencer.  Vinsæll prestur, Mgr. Davíð Tencer, hefur verið tilnefndur sem biskupsefni kaþólskra manna á Íslandi, þ.e. sem Reykjavíkurbiskup. Fer vígsla hans fram 31. október næstkomandi. Hann er slóvakískur að ætt og uppruna, þjónaði sem prestur þar í landi og gekk í reglu Kapúcína, en á Íslandi hefur hann þjónað frá 2004. Hann er vel lærður maður og hefur víða komið við, eins og lesa má í þessari tilkynningu á vef kaþólsku kirkjunnar á Íslandi:

"Hann heitir Dávid Bartimej Tencer, OFMCap. Hann fæddist 18. maí 1963 í Nová Baňa. Hann hlaut prestvígslu 15. júlí 1986 í Banská Bystrica í Slóvakíu fyrir biskupsdæmið Banská Bystrica, var aðstoðarsóknarprestur í Hriňova og síðar aðstoðarprestur í Zvolen. Hann varð stjórnandi prestakallsins í Sklenne Teplice árið 1989 og 1989 í Podkonice.

Hann bað biskup sinn að leysa sig undan embættisskyldum svo að hann gæti gengið í reglu kapúsína og árið 1990 hóf hann reynslutíma sinn. Hann vann fyrstu trúarheit sín árið 1991 í Podkonice. Árið 1992 hóf hann nám í trúarhefðum fransiskana í Antonianum-háskólanum í Róm og lauk því með lícentíatsprófi 1994. Hann vann hátíðlegt lokaheit í Fæðingarkirkju heilags Jóhannesar skírara í Kremmnické Bane – Johanesberg.

Hann varð stjórnandi prestakallsins í Holíč eftir að hann kom heim frá Róm, ráðgjafi nýmunka og félagi í ráðgjafanefnd stjórnanda reglunnar. Árið 1996 var hann fluttur til Raticovvrch í Hriňova þar sem hann var ráðgjafi nýmunka til 2000 og yfirmaður klaustursins til 2003. Hann hóf kennslu um áramótin 2001-2002 og kenndi predikunar- og andlega guðfræði til ársins 2004 í prestaskólanum í Badin. Hann varð forstöðumaður samfélagsins í Žilina 2003 og kenndi andlega guðfræði í Stofnun heilags Tómasar frá Akvínó til 2004.

Hann kom til Íslands árið 2004, var skipaður aðstoðarprestur í Maríu­­sókn í Breiðholti í Reykjavík og hóf um leið íslenskunám. Árið 2007 var hann skipaður sóknarprestur í sókn heilags Þorláks á Reyðarfirði. Hann er félagi í prestaráði og ráðgjafanefnd Reykjavíkur­biskupsdæmis."

 

Séra Davíð hefur m.a. predikað í Kristskirkju í Landakoti á íslenzku og einnig á pólsku í messum fyrir Pólverja (kl. 1 á sunnudögum). Hann var við kirkjukaffi í Landakoti þennan sunnudag, hlýr og gefandi að vanda. Við fögnum vali hans sem biskups. Biðjum nú öll fyrir séra Davíð og biskupsstörfum hans fram undan, um leið og við þökkum Pétri biskupi fyrir hans góðu umsjón kirkjunnar síðastliðin átta ár og óskum honum fararheilla til Landsins helga.

27.06.15

Franskir sjómenn, franska kirkjan ... spítalar á Íslandi og sjálf kaþólska kirkjan og viðgangur hennar hér

Mjög athyglisverður var Skáldatími, þáttur Péturs Gunnarssonar rithöfundar, á Rás 1 í kvöld. Afar fróðlegur var hann um fiskveiðar Frakka í norðurhöfum og hvernig hinum mikla fjölda sjómanna þeirra hér við land var nauðsyn á tvenns konar liðsinni í landi: læknis- eða sjúkrahúsþjónustu og prestsþjón­ustu, fyrir utan aðstoð björgunarsveita bænda og annarra við Suðurlandið þegar skútur þeirra strönduðu og þeir komust nauðuglega af.

Pétur fjallar framan af um skrif tveggja rithöfunda um mál Franzmanna hér við land, Þórbergs Þórðarsonar og Halldórs Laxness, en síðan um erfiðar lífsaðstæður sjómannanna um borð og byggir þar ekki sízt á franskri skáldsögu, mjög vinsælli á 19. öld, Pecheur d'Islande, eftir Pierre Lothi. Vincent van Gogh og Paul Gaugain þekktu þá skáldsögu, og van Gogh hafði áhuga á að gera myndefni eftir sögunni ...

Read more »

06.06.15

  11:41:00, Skrásetjari: Jon Valur Jensson   , 139 orð  
Flokkur: Úr lífi og starfi kirkjunnar, Friðarmál og stríðsátök, Páfadæmið í Róm

Páfinn í Sarajevo

Um hundrað þúsund manns er nú saman komið á íþróttaleikvangi í Sarajevó, höfuðborg Bosníu, til að hlýða á messu Franz páfa.

Með heimsókn sinni hyggst páfi boða frið í landinu sem enn er markað eftir borgarstríð sem lauk fyrir tuttugu árum. Í stríðinu börðust serbneskir meðlimir rétttrúnaðarkirkjunnar við bosníska múslima. Íbúar landsins halda sig enn í fylkingum eftir trúar­hópum og þjóðflokkum. Páfi hyggst funda með forsvarsmönnum múslima, réttrúnaðarkirkjunnar og gyðinga í landinu á meðan á heimsókninni stendur. Þannig vill hann boða frið og reyna að fá trúarhópa til að lifa í sátt og samlyndi. (Rúv í dag.)

Franz páfi hefur nú þegar öðlazt miklar vinsældir fyrir augljósan hug sinn til að nálgast og blanda geði við óbreytta meðlimi kirkjunnar víða um lönd, að vekja athygli á hlutskipti fátækra, vinna í þágu friðar og sýna samstöðu með bágstöddum og undirokuðum.

18.05.15

Kaþólska kirkjan um hjónabandið, hreinlífi og samkynhneigð

Öllum má vera ljóst, að kaþólska kirkjan stendur vörð um hjónabandið, eins og um það er fjallað í guðspjöllum og bréfum Nýja testamentisins. Ennfremur hvikar hún hvergi frá því, sem þar er sagt um kynferðislegt samband fólks af sama kyni, og hafnar því, að samband þeirra geti verið grundvöllur hjónabands. Í þremur greinum í  Trúfræðsluriti Kaþólsku kirkjunnar segir svo:

  • 2357. Samkynhneigð vísar til sambands milli karla og milli kvenna sem með algjörum eða ráðandi hætti laðast kynferðislega að persónum af sama kyni. Það hefur tekið á sig ýmsar myndir í aldanna rás og á hinum mismunandi menningarsvæðum. Sálræn tilurð þess hefur að mestu leyti verið óútskýrð. Með því að styðjast við heilaga Ritningu, er lýsir samkynhneigðum athöfnum sem alvarlegri siðspillingu, [141] hefur erfikenningin ávallt lýst því yfir að "samkynhneigð athöfn feli í sér eðlislæga röskun." [142] Hún stríðir gegn náttúrulögmálinu. Hún útilokar að kynlífið kveiki nýtt líf. Hún sprettur ekki af sannri gagnkvæmri fyllingu, tilfinningalegri og kynferðislegri. Hana má ekki undir nokkrum kringumstæðum viðurkenna.
  • 2358. Þeir karlar og konur sem hafa djúpstæða samkynhneigð eru ekki lítill hópur. Þessi tilhneiging, sem á hlutlægan hátt er röskun, er fyrir flest þeirra erfið raun. Þau ber að umgangast af virðingu, samúð og nærgætni. Sérhverja tilhneigingu til óréttmætrar mismununar gagnvart þeim ber að forðast. Þau eru kölluð til að uppfylla vilja Guðs í lífi sínu og, ef þau eru kristin, að sameina þá erfiðleika, sem skapast vegna ástands þeirra, fórn Drottins á krossinum. [Frh. hér neðar!]

Read more »

13.01.15

  00:00:00, Skrásetjari: Jon Valur Jensson   , 155 orð  
Flokkur: Kirkjusaga, íslenzk, Úr lífi og starfi kirkjunnar, Kirkjusaga nýaldar, alþjóðleg, Kaþólskir Íslendingar

Pétur biskup biðst lausnar

Í hámessunni sl. sunnudag las sr. Jakob Rollant biskupsritari upp bréf herra Péturs biskups Burcher, þar sem hann skýrir frá því, að hann hafi sent Franz páfa lausnarbeiðni sína frá biskupsembættinu. Hann er á sínu sjötugasta aldursári, en heilsa hans leyfir ekki, að hann gegni þessu starfi áfram í okkar kalda landi; hann er m.a. með mjög viðkvæm lungu og þolir ekki eldfjallaryk.

Pétur Bürcher hefur gegnt biskupsembætti í tvo áratugi, fyrst sem aðstoðar­biskup í Sviss, en síðustu sjö árin sem Reykjavíkurbiskup og hefur notið bæði trausts og vinsælda safnaðarins, enda mikið ljúfmenni. Lausnar­beiðni hans liggur fyrir hjá páfanum; gera má ráð fyrir að hún verði samþykkt.

Ekki mun biskupinn okkar sitja auðum höndum eftir það; hann mun áfram gegna ýmsum störfum, m.a. í Jerúsalem, fyrir hjálparsamtök sem hann áður starfaði fyrir.

Biskupinum fylgja beztu árnaðaróskir frá söfnuði hans hér. Var bæði beðið fyrir honum og fyrir eftirmanni hans í hámessunni í Kristskirkju sl. sunnudag.

10.01.15

Ódæðisverk í nafni trúar

Illt er í efni að islamstrú sé í vaxandi mæli notuð sem átylla og "réttlæting" mannvíga og verstu glæpa. Þetta gerist nú í stórum stíl á vegum Boko Haram-hreyfingar öfgamanna í Nígeríu og víðar, nú síðast með stórfelldri slátrun í þorpi einu, einnig milli hópa múslima í Mið-Austurlöndum og í morð-árásum og aftöku ISIS-manna á kristnu fólki og jazídum í Írak, en einn nýjasti atburðurinn er árásin á starfsmenn Charlie Hebdo-skopblaðsins í París, þar sem 12 lágu eftir í valnum og um fimm aðrir saklausir í eftirmálum þessa í gær, auk margra særðra. Ódæðisverkin voru fjár­mögnuð af al-Qaída í Jemen.

Sumir leiðtogar múslima hafa fordæmt þessar árásir, og er mikilvægt, að sem flestir múslimar aðgreini sig algerlega frá slíkum grimmdarverkum gegn saklausum. Þeir, sem réttlæta þau, verðskulda ekki að fá að njóta óskertra borgararéttinda hér á Vesturlöndum.

11.12.14

Úr Lilju Eysteins munks

Mikill er máttur Lilju. 62. og 69. erindi:

  • Hvað er tíðinda? Hjálpast lýðir. 
  • Hví nú? Því lét Jesús pínast.
  • Hvað er tíðinda? Hraktr er fjandinn. 
  • Hverr vann sigrinn? Skapari manna. 
  • Hvað er tíðinda? Helgir leiðast. 
  • Hvert? Ágæt í tígnarsæti. 
  • Hvað er tíðinda? Himnar bjóðast. 
  • Hverjum? Oss, er prísum krossinn. 
  • Máríu son, fyr miskunn dýra
  • manns náttúru og líkam sannan
  • kennstu við, að mín þú minnist,
  • mínn drottinn, í ríki þínu.
  • Ævinliga með lyktum lófum
  • lof ræðandi á kné sín bæði
  • skepnan öll er skyld að falla,
  • skapari minn, fyr ásjón þinni.
Hér segja útgáfur reyndar ýmist: með lyktum lófum eða með lyftum lófum.
Takið eftir, að hér er Jesús réttilega kallaður skapari manna (62,4; 69,8), sbr. Jóhannesarguðspjall, 1.3. – 'Skepnan öll': gervöll sköpunin, allt mannkyn.

20.10.14

  03:40:00, Skrásetjari: Jon Valur Jensson   , 621 orð  
Flokkur: Fósturvernd, Siðferði og samfélag, Úr lífi og starfi kirkjunnar, Unborn children – abortion

Sinnaskipti fósturdeyðingarmanna, eftir Frank Pavone

Frank Pavone, kaþólskur prestur, er leiðandi maður samtakanna Priests for Life um öll Bandaríkin. Jón Rafn hefur áður kynnt hér skrif hans, lesendur eiga að vera honum að góðu kunnir. Þessi grein var send út 3. júlí 2006.

"Hundraðshöfðinginn, sem stóð við kross Krists, varð skyndilega altekinn hryllingi vegna krossfestingarinnar, sem honum hafði verið fyrirskipað að framkvæma. Þegar Kristur gaf upp andann, lét hundraðshöfðinginn sverð sitt falla, kraup á kné og hrópaði: "Sannarlega hefur þessi maður verið réttlátur!"

Þau okkar, sem tekið hafa þátt í því að drepa ófædd börn, mætti kalla hundraðshöfðingja nútímans. Við höfum látið sverð okkar gegn hinu ófædda barni niður falla. Nú játum við sekt okkar í allri hennar dýpt og glímum við afleiðingar verknaðar okkar....

Read more »

05.04.14

  02:36:00, Skrásetjari: Jon Valur Jensson   , 47 orð  
Flokkur: Kirkjusaga, íslenzk, Úr lífi og starfi kirkjunnar, Ýmis skáld, Kaþólskir Íslendingar

Mikil stoð og stytta kirkjustarfs kaþólskra, Torfi Ólafsson, látinn, nær hálfníræður, og honum sungin sálumessa

Útför Torfa Ólafssonar, fyrrum formanns Félags kaþólskra leikmanna, var gerð í gær með sálumessu í Kristskirkju konungs í Landakoti að viðstöddu fjölmenni. Hans verður minnzt hér nánar síðar.

Sjá á meðan um hann: 1) pistil hér: Torfi Ólafsson, sálmahöfundur og velgjörðarmaður kaþólskrar kirkju,

2) Æviágrip og minningargreinar í Morgunblaðinu 4. apríl 2014.

10.03.14

  11:49:00, Skrásetjari: Jon Valur Jensson   , 162 orð  
Flokkur: Bænamál, Miðaldafræði íslenzk, Ýmis skáld, Guð-fræði (bæði kristin og heimspekileg), Klaustur

Úr Lilju eftir Eystein munk (d. 1361)

 

María, vertu mér í hjarta,

mildin sjálf, því að gjarnan vilda' eg,

blessuð, þér, ef mætta' eg meira,

margfaldastan lofsöng gjalda;

lofleg orð í ljóðagjörðum

listilegri móður Christi

öngum tjáir að auka lengra:

Einn er drottinn Maríu hreinni.

 

Rödd engilsins kvenmann kvaddi,

kvadda af engli drottinn gladdi,

gladdist mær, þá er föðurinn fæddi,

fæddan sveininn reifum klæddi,

klæddan með sér löngum leiddi,

leiddr af móður faðminn breiddi,

breiddr á krossinn gumna græddi,

græddi hann oss, er helstríð mæddi.

 

Þó grét hún nú sárra súta

sverði nist í bringu og herðar,

sitt einbernið, sjálfan drottin,

sá hún hanganda' á nöglum stangast,

armar svíddu af brýndum broddum,

brjóst var mætt. Með þessum hætti

særðist bæði sonur og móðir

sannheilög fyrir græðing manna.

 

Fyrir Maríu faðm inn dýra,

fyrir Máríu grát inn sára

lát mig þinnar lausnar njóta,

lifandi guð með föður og anda.

Ævinlega með lyktum lófum

lof ræðandi á kné sín bæði

skepnan öll er skyld að falla,

skapari minn, fyrir ásján þinni.

      

01.02.14

Við þurfum nýjan Frans van Hooff fyrir sveltandi Sýrlendinga

,,Það verður auðveldara að svífa til himna ef vasarnir eru ekki fullir af gulli" (séra Frans van Hooff – dæmi um alvörugefna fyndni hans!).

Einn var sá kaþólskur prestur hér á landi, hógvær og af hjarta lítillátur, sem nánast ekkert bar á nema fyrir tilviljun nánast þegar hann var að berjast fyrir hugsjón sinni, en sá var Frans van Hooff, þjónandi prestur á Akureyri og síðar í Karmelklaustrinu í Hafnarfirði (d. 4. maí 1995 í Jerúsalem, 77 ára). Hann vann það kraftaverk að senda marga stærðarinnar gáma fulla af fötum og skóm (en einnig eldhúsáhöldum, reiðhjólum, verkfærum og ritvélum, m.a.) til þurfandi fólks í Póllandi, Afríku og Rússlandi. Sjá um fatasöfnun hans t.d. tilkynningu hans í Velvakanda 20. sept. 1988 hér, og HÉR! er afar falleg grein um hann eftir Karmelsystur á prestsvígsluafmæli hans 25.7. 1992. Stutt æviágrip hans er hér, og þetta eru minningarorð um hann eftir Jón Ágústsson og önnur og ennþá fróðlegri minningargrein í Mbl. 29. júlí 1995, hún er eftir Ragnar Geir Brynjólfsson á Selfossi, ritstjóra þessa Kirkjunets, og loks er hér falleg hugleiðing eftir sr. Frans á Kirkjunetinu: María og Eva.

Greinilega vann séra Frans í sama anda og núverandi páfi, Franz I, og báðir líkja þeir með sínum hætti eftir andanum í lífsverki heilags Franz frá Assisi.

Væri nú ekki full þörf á því, að kaþólska kirkjan á Íslandi beitti sér sérstaklega fyrir matarsöfnun vegna hins hræðilega ástands í Sýrlandi, þar sem konur jafnvel selja sig til að fá handfylli af hrísgrjónum til að börn þeirra verði ekki hungurmorða? Um það fjallar þessi hörmulega AFP-frétt á Mbl.is fyrir þremur dögum: Hungrað fólk selur sig fyrir bolla af grjónum.

28.01.14

  23:23:00, Skrásetjari: Jon Valur Jensson   , 194 orð  
Flokkur: Úr lífi og starfi kirkjunnar, Ora et opera – Biðjandi og iðjandi kirkja

Prestafundur og messa í dómkirkju Krists konungs

Hún var falleg athöfnin þennan nýliðna þriðjudag, þegar 16 kaþólskir prestar á Íslandi með biskupinn þann sautjánda héldu hátíðlega messu í basilikunni, eins og Kristskirkja er einnig kölluð, eftir að Jóhannes Páll II páfi útnefndi hana sem slíka í heimsókn sinni hingað, og er það virðingarnafn meiri háttar kirkna. Kirkjugestir, aðrir en prestarnir, voru a.m.k. 45, mikill meirihluti leikmenn, en einnig allmargar reglusystur. 

Þetta var falleg athöfn, með biskupinn okkar góða sem aðal-celebrant (þ.e. þann sem leiðir altaris- og helgiþjónustuna), en séra Edward Booth, enski presturinn í Stykkishólmi, predikaði og sagði m.a. frá heil. Tómasi af Aquino. Predikun hans mun verða aðgengileg í íslenzkri þýðingu von bráðar.

En messan var í tengslum við reglulegan synodus (prestafund) kaþólska biskupsdæmisins, sem fram hefur farið þessa daga.

Næsta sunnudag er kyndilmessa, ein af hinum aldagömlu Maríumessum ársins. Allir fá kerti í hönd við komuna í kirkju, og það er falleg stund í samfélagi trúaðra þegar ljósin eru tendruð. Einnig er fólk hvatt til þess að taka með sér kerti til að fá þau blessuð, til notkunar heima, og eins lét sóknarpresturinn séra Patrick vita af því við messu sl. sunnudag, að kirkjan þiggi kertagjafir frá fólki til notkunar í þjónustunni.

28.12.13

  21:31:00, Skrásetjari: Jon Valur Jensson   , 122 orð  
Flokkur: Fósturvernd, Siðferði og samfélag, Kenning kaþólskrar kirkju, Unborn children – abortion

Móðir Teresa lýkur upp munni sínum fyrir hina ófæddu*

Með því að taka við hverju barni meðtökum við Jesúm sjálfan (sjá Mt. 18.5,** sbr. Mt. 25.40) – og höfnum honum með því að hafna barninu, einnig hinu ófædda barni. "So every abortion is a denial of receiving Jesus, segir Móðir Teresa.

Hér er myndband með Móður Teresu árið 1984 sem vert er að hlusta á. Það er mjög mikið efni á þessu litla myndbandi. Fósturdeyðing leysir engin vandamál, býður aðeins fleiri fósturdeyðingum heim (sjá myndbandið um rök þessa o.m.fl.). Þvert gegn þessu eigum við að sýna kærleika – að gefa af okkur, alveg þangað til það er farið að meiða okkur sjálf.

* Sbr. Orðskv. 31.8: "Ljúk þú upp munni þínum fyrir hinn mállausa."

** "Hver sem tekur á móti einu slíku barni í mínu nafni, tekur á móti mér."

14.11.13

Skálholtsferð 16. nóvember vegna 463. ártíðar Jóns biskups og sona hans

Hér skal enn minnt á pílagrímsferð til Skálholts nk. laugardag 16. nóvember á vegum Félags kaþólskra leikmanna. Farið verður 16. nóv. kl. 9.oo frá Landakoti. Ekið að Úlfljótsvatni og messað þar, síðan farið að Skálholti þar sem verður bænastund við minnisvarða herra Jóns Arasonar biskups. Komið verður við á Laugarvatni á heimleiðinni. Heimkoma er áætluð milli kl. 16.oo og 17.oo. Þátttaka tilkynnist í síma 552-5388.

Verðið er 2500 kr. fyrir manninn, en 500 kr. fyrir börn upp að 16 ára aldri. Þetta er eingöngu fyrir rútuna.

Heimild: vefsíða Facebókarhópsins Kaþólskir á Íslandi.

30.10.13

26.10.13

  04:19:00, Skrásetjari: Jon Valur Jensson   , 533 orð  
Flokkur: Kirkjusaga, íslenzk, Kristindómur og menning, Kaþólskir Íslendingar, Jón Arason biskup

Doktorsrit um Jón biskup Arason

Frétt í dagblaðinu Vísi 27. október 1919:

Tveir doktorar.

Cand. jur. Páll Eggert Ólason vinnur doktorsnafnbót.

Svo fór með það, sem vænta mátti, að mikið fjölmenni kom í alþingishúsið 24. þ.m., til að hlýða á athafnir þær, sem þar fóru fram.

Meðal áheyrenda voru ráðherrar allir, háskólakennarar og kennarar mentaskólans, og fjöldi annara karla og kvenna.

Athöfnin hófst kl. 1 e. h., og var tvískift: — Fyrst var prófessor Jón J. Aðils gerður að heiðursdoktor í heimspeki, en þá var gert stutt hlé, og að því loknu hófst doktorspróf Páls Eggerts Ólasonar. (Framhald ...)

Read more »

13.10.13

Pílagrímsferð til Skálholts

Ákveðin hefur verið minningarstund um píslarvotta trúarinnar, Jón biskup Arason og syni hans Ara og Björn, sem hálshöggnir voru við Skálholtskirkju 7. nóvember 1550. Athöfnin er í fullri samvinnu við vígslubiskupinn í Skálholti, herra Kristján Val Ingólfsson. Eru menn hvattir til að mæta, en rúta verður útveguð til ferðarinnar, og verður nánar sagt frá þessu hér bráðlega.

Eftir hámessu í dag hélt Gunnar Eyjólfsson fallegt ávarp í safnaðarheimilinu, þar sem hann minntist þeirra feðga eftirminnilega og sagði frá einni slíkri pílagrímsferð að þeim helgistað, þar sem blóði þeirra var úthellt af þjónum konungsins danska. Gunnar hefur lengi verið hvatamaður þess, að kaþólska kirkjan taki biskup Jón í tölu heilagra. Og svo sannarlega eru full rök til þess.

01.09.13

Vanmetum ekki gildi skrifta í trúnaði, jafnvel fyrir glæpamenn og fórnarlömb þeirra

Ef einstaklingur, sem vill skrifta, veit, að prestur hefur ekki þagnarskyldu gagnvart efni skriftanna, þá einfaldlega opnar sá einstaklingur sig ekki í skriftastóli um mál sem varða við lög. Þar með fer hinn sami einstaklingur á mis við þá leiðréttingu og hvatningu prestsins, sem hefði getað siðbætt viðkomandi og jafnvel örvað hann til að upplýsa lögreglu um brotið.

Presturinn er þarna ennfremur í Krists stað. Skriftabarnið er að tala til Guðs í skriftastólnum. Presturinn er bundinn þagnareiði, en fær frá kirkjunni mikla hvatningu til að leiða slíka einstaklinga til fullrar iðrunar og þar með talið að bæta fyrir brot sín (þannig hefur það alltaf verið) og einnig að fara fyrir lögreglu með mál sín, af því að það sé samfélagsskylda (t.d. manns sem framið hefur morð – og allt eins barnaníðings).

Ef þagnarskylda skrifta væri afnumin, myndi glatast gott tækifæri til betrunar.

24.07.13

  16:51:00, Skrásetjari: Jon Valur Jensson   , 210 orð  
Flokkur: Kirkjusaga, íslenzk, Úr lífi og starfi kirkjunnar, Kristindómur og menning

Vígsludagur Kristskirkju á Landakotshæð haldinn hátíðlegur

Úr Dögum Íslands, fróðlegu riti eftir Jónas Ragnarsson:

22. júlí 1929

Landakotskirkja í Reykjavík var vígð með mikilli viðhöfn, en það gerði Vilhjálmur van Rossum kardínáli og sérlegur sendimaður Píusar páfa. Kardínálinn og fylgdarlið hans gekk tvívegis kringum kirkjuna rangsælis og einu sinni sólarsinnis. Þá voru 55 manns í kaþólska söfnuðinum, nú eru þeir um ellefu þúsund.

Næstkomandi sunnudag, 28. júlí, verður haldið upp á 84 ára vígsluafmæli dómkirkju kaþólskra á Íslandi, Kristskirkju á Landakotshæð. Prestar og söfnuður vænta þess, að sem flestir sjái sér fært að taka þátt í hátíðarmessunni kl. 10.30 að morgni. 

Greinilega var hugsað til framtíðar við byggingu þessa reisulega Guðshúss á þriðja áratug 20. aldar. Fögur er Landakotskirkja utan sem innan og sómi safnaðarins. Sjálf byggingin mun hafa veitt mörgum vinnu á erfiðum tímum. Ennþá annar hún messusókn stórs hluta kaþólskra á höfuðborgarsvæðinu, þ.m.t. í fjölsóttum pólskum messum kl. 13 á sunnudögum og enskum messum kl. 18, auk messu hvern virkan dag, en auk Kristskirkju eru fleiri kaþólskar kirkjur og kapellur á Suðvesturlandi (stærstar þeirra Maríukirkjan í Seljahverfi og St. Jósefskirkja í Hafnarfirði) og á ýmsum helztu stöðum úti á landi, s.s. í Stykkishólmi, á Ísafirði, Akureyri og Reyðarfirði.

Við komu hins blessaða Jóhannesar Páls II páfa hingað til lands í júlí 1989 var Kristskirkju veittur heiður og staða basiliku, sem yfirleitt tíðkast aðeins að veita höfuðkirkjum.

08.05.13

Ný Messubók kirkjunnar

Það var fögur og hrífandi stund í dómkirkju Krists konungs í gær, þegar í helgigöngu presta og leikmanna var borin inn ný Messubók kaþólsku kirkjunnar á Íslandi, raunar sú eina í fullkominni mynd, og lögð á altarið. Biskup okkar, Pétur Bürcher, stýrði athöfninni og sjálfur forseti Íslands viðstaddur, einnig megnið af prestum biskupsdæmisins, enda eru þeir með synodus þessa dagana. Biskupinn, séra Jakob Rolland og séra Patrick Breen fluttu ávörp, og fagurlega spilaði kaþólsk nunna á fiðlu – og systurnar sungu fagra hymna, síðast Regina Coeli (Himnadrottningin) sem margir tóku undir.

Meðal þess, sem séra Jakob vék að í ávarpi sínu, var hin gleðilega fjölgun kaþólskra hér á landi, en tala þeirra hefur ... [frh. neðar]

Read more »

27.02.13

Benedikt XVI páfi rýmir til fyrir nýjum páfa í Róm

Benedikt 16. páfi hefur kosið að láta af störfum eftir um 8 ára styrka leiðsögn kirkjunnar, enda er hann á 86. aldursári, og heilsu hans hefur hrakað. Falleg var sú virðingarfulla biskupsmessa sem haldin var í Kristskirkju í Landakoti í gær, að viðstöddum flestum prestum kaþólsku kirkjunnar hér á landi.

Farsæll hefur páfinn verið í samskiptum við bæði orþódoxu kirkjuna, Gyðinga og múslima og staðið trúan vörð um kaþólska kenningu. Var frá upphafi vitað, að hér var um einn mesta guðfræðing kirkjunnar að ræða, langsamlega afkastamesta rithöfund allra páfa sögunnar og vitmann flestum öðrum fremur. Ekki hlífði það honum við gagnrýni veraldar- og lausungarhyggjumanna, en kaþólska kirkjan er á bjargi byggð og fyrirheitum Frelsarans, ekki á tízkuvindum hverrar samtíðar.

Í messunni í gær, rétt eins og á fjölmennri helgistund við Péturstogið í Róm í dag, var beðið fyrir hinum fráfarandi páfa Benedikt og fyrir því, að nýr eftirmaður hans megi verða kirkjunni til blessunar.

20.01.13

Fróðlegt sjónvarpsviðtal um Skriðuklaustur og kaþólsk áhrif á Íslandi

 Í nýrri Kilju Egils Helgasonar, endursýndri í gær, átti hann mjög gott viðtal við dr. Steinunni Kristjánsdóttur fornleifafræðing, sem staðið hefur fyrir víðtækum uppgreftri rústa Skriðuklausturs á Austurlandi, fyrsta heildar-uppgreftri klausturs á Norðurlöndum. Vegna þess að klaustrinu og hjúkrunar-húsnæði þess var einfaldlega lokað með siðaskiptunum og ábúendur á jörðinni (oft sýslumenn) tóku sér búsetu í bæjarhúsunum þar, þá hefur húsaskipan þarna, þótt grotnað hafi niður, varðveitzt í óbreyttri mynd að öðru leyti en því, hvernig náttúran braut þetta niður.

Konungur lagði undir sig þessa klausturjörð eins og allar aðrar, ...

Read more »

1 3 4 5 6

Jón Valur Jensson

Ábyrgðarmaður: Jón Valur Jensson guðfræðingur.

Önnur blogg sama höfundar: [jonvalurjensson.blog.is]
[jvj.blog.is]
[krist.blog.is] (þátttaka)
[lifsrettur.blog.is]

Leit

  XML Feeds

blogging software