« Um friðarboðskap kristninnar - 5. hluti: Hin kinninÞýskir Jesúítar minnast Nonna »

18.11.07

  08:51:12, Skrásetjari: Ragnar Geir Brynjólfsson   , 355 orð  
Flokkur: Trúin og menningin

Zontakonur minnast Nonna - sýning opin til áramóta

Það voru ekki bara þýskir Jesúítar sem minntust Nonna í fyrradag. Konur í Zontaklúbbi Akureyrar minntust þess að þá voru 50 ár liðin síðan framsýnar konur í klúbbnum opnuðu Nonnahús á Akureyri, fyrsta höfundasafn landsins. Þá var sýningin "Pater Jón Sveinsson - en kallaðu mig Nonna" sem opnuð var í Þjóðarbókhlöðunni 8. september sett upp í Amtsbókasafninu á Akureyri og opnuð 10. nóvember sl. og mun hún standa til áramóta.

Þegar forseti Íslands, herra Ólafur Ragnar Grímsson, opnaði sýninguna í Þjóðarbókhlöðunni þá þakkaði hann m.a. konum í Zontaklúbbi Akureyrar fyrir að hafa unnið sýningu um Nonna og heiðrað minningu hans í þau 50 ár sem Nonnahús hefur starfað. Sigrún Björk Jakobsdóttir bæjarstjóri á Akureyri opnaði svo sýninguna á Akureyri hinn 10. nóv. síðastliðinn að viðstöddu fjölmenni.

Þessar upplýsingar eru fengnar af vefsíðunni nonni.is en þar segir einnig:

Zontaklúbbur Akureyrar var stofnaður árið 1949. Fljótlega kom upp sú hugmynd að heiðra minningu hins þekkta rithöfundar og jesúítaprests Jóns Sveinssonar, Nonna. Bernskuheimili Nonna, Aðalstræti 54 var orðið mjög hrörlegt og lá undir skemmdum og ákváðu Zontakonur að reyna að eignast húsið. Varð úr að þáverandi eigendur hússins Sigríður Davíðsdóttir og Zóphónías Árnason gáfu Zontaklúbbnum húsið árið 1952.
Hófust þá miklar framkvæmdir við að koma húsinu í sitt fyrra horf. Zontakonur lögðu á sig mikla vinnu og unnu baki brotnu við að koma minningarsafni um Jón Sveinsson á fót. Ýmsir lögðu málefninu lið, ríki og bær, Kea, kaþólska kirkjan, Haraldur Hannesson auk fjölmargra annarra.

Árið 1957 á afmælisdegi Nonna 16. nóvember var safnið opnað og hefur það verið starfrækt æ síðan og hafa Zontakonur séð um rekstur þess.

Til frekari upplýsinga um Nonna er lesendum er bent á líta á og skoða þessa smekklegu og fróðlegu vefsíðu nonni.is sem Zontakonur sjá um að reka og viðhalda.

No feedback yet