« SHOUBRAHVERFIÐ Í KAÍRÓ 1986: OPINBERANIRNAR Í KIRKJU HEIL. DEMÍÖNU (14)RÚANDA Í AFRÍKU 1981-1989: MÓÐIR ORÐSINS OPINBERAST Í SKÓLA Í KIBEHO (12) »

13.01.07

  08:26:07, Skrásetjari: Jón Rafn Jóhannsson, 1443 orð  
Flokkur: Opinberanir Maríu Guðsmóður sem njóta kirkjulegrar viðurkenningar

ZEITOUN Í EGYPTALANDI 1968: HINN BLESSAÐA MEY Í HRINGIÐU BORGARLÍFSINS (13)

GUÐSMÓÐIRIN Á KÚPLI KIRKJUNNAR Í ZEITOUN

zeitoun_1

Hin blessaða Mey í Zeitoun. Sjá má
eina af dúfunum dularfullu yfir höfði
Meyjarinnar.

Þann 2. apríl 1968 voru tveir vélvirkjar við vinnu sína á bílaverkstæði beint á móti Kirkju hl. Maríu í Zeitoun, en þetta er eitt úthverfa Kairó. Skyndilega veittu þeir því athygli að hvítklædd nunna virtist standa á kúpli á miðju þaki kirkjunnar. Þar sem þeir óttuðust að systirin gæti farið sér að voða hljóp annar mannanna inn í kirkjuna til að sækja prest, en hinn vélvirkinn hringdi í neyðarsíma lögreglunnar og bað um aðstoð.

Þegar presturinn hljóp út úr kirkjunni til að ganga úr skugga um hvað málið snérist, varð hann sá fyrsti sem gerði sér ljóst að hér var um opinberun Maríu meyjar að ræða. Presturinn og vélvirkjarnir sáu hina blessuðu Mey skírt og greinilega í nokkrar mínútur eins og mannfjöldinn sem tók að safnast saman til að bera þetta undur augum.

FRÉTTIRNAR BERAST ÚT

Fréttirnar um opinberun hinnar heilögu Móður bárust brátt út frá Zeitoun um alla Kairó! Þrátt fyrir að meirihluti íbúanna séu múslimar má einnig finna þar fjölmennan hóp koptísks minnihluta sem tilheyrir koptísku orþodoxakirkjunni. [1] Fólk tók að safnast þúsundum saman í kringum kirkjuna í Zeitoun í aðliggjandi strætum, einkum Tomanbeystrætinu og Kalilbreiðstrætinu til að sjá með eigin augum að sjálf Himnadrottningin var komin til jarðar.

zeitoun_2

Mynd úr egypska dagblaðinu El Ahram
frá 28. apríl 1968. Stundum urðu allt að
250.000 manns vitni að opinberununum.

Það kann að koma kristnum mönnum á óvart hversu mikinn áhuga múslimar sýndu opinberununum í Zeitoun. Þá er þess fyrst að geta að fjölmargar tilvitnanir um Maríu mey má sjá í Kóraninum. Í hugum múslima er María hin sanna Sayyida, Frúin. Eini keppinautur hennar í huga sumra múslima er Fatíma, dóttir Múhammeðs. En eftir andlát Fatímu skrifaði Múhammeð: „Þú verður blessuðust allra kvenna í Paradís, næst á eftir Maríu.“ Í Kóraninum má einnig lesa að Fatíma ber af öllum öðrum konum, að Maríu undantekinni.

Í nítjánda kafla Kóransins má lesa 41 vers um þau Jesús og Maríu. Það er af þessum ástæðum sem múslimar bera svo djúpa virðingu fyrir opinberununum í Fatíma í Portúgal vegna þess að staðurinn ber nafn Fatímu, dóttur Múhammeðs. Þannig litu allir þeir hundruð þúsunda múslima sem urðu vitni að birtingu hinnar blessuðu Meyjar í Zeitoun á opinberanir hennar sem tákn frá Guði. Það er einnig af ofangreindum ástæðum sem múslimar í Afríku, Indlandi og víðar auðsýna líkneski Vorrar Frúar frá Fatíma djúpstæða lotningu, í mun ríkara mæli heldur en nafnkristnir Vesturlandabúar. Þannig taka múslimar þátt í heiðrun Maríu meyjar, taka þátt í helgigöngum henni til heiðurs og er heimilt að ákalla hana í moskum sínum. Þannig snerust fjölmargir múslimar í Mósambik til kristinnar trúar jafnskjótt og þeir sáu líkneski Vorrar Frúar frá Fatíma hjá kaþólskum trúboðum. Er þetta ekki einmitt hlutverk hennar sem Vegvísunnar (Hoidegetria): HORFIÐ TIL HANS?


OPINBERUN SEM STÓÐ YFIR Í ÞRJÚ ÁR

Jafn furðulegt og það lætur í eyru birtist hin heilaga Móðir þannig á kúpli kirkjunnar næstu þrjú árin og myndir af henni birtust jafnvel í egypska ríksissjónvarpinu og auk þess hvað eftir annað í helstu stórblöðum landsins og tímaritum um allt Egyptaland. Milljónir manna töldu sig hafa séð oinberanirnar og fjölmargar myndir af þessum atburði má finna á víð og dreif á internetinu. Guðsmóðirin var klædd síðum kyrtli sem náði allt til fóta. Af og til var hún umlukin björtum stjörnum, en stundum mátti sjá geislabaug um höfuð hennar og hún teygði hendurnar fram til mannfjöldans.

zeitoun_3

Dúfurnar í „krossflugi“ yfir kirkjunni
í Zeitoun í Karíó.

Yfirleitt gekk hún um á þaki kirkjunnar, einkum á kúpli hennar og laut krossmarki sem var komið fyrir á miðjum kúplinum og þá upplýstist krossinn. Af og til hélt hún á barni í faðmi sínum og yfirleitt birtust hvítar dúfur áður eða meðan á opinberunum stóð sem hringsóluðu yfir kirkjunni. Iðulega flugu þær átta saman í hóp og mynduðu krossmark. Þær voru ólíkar venjulegum dúfum, voru bæði stærri og gátu flogið að næturlagi. Stundum mátti sjá ljósleiftur birtast sem skein um stund áður en það hvarf svo aftur. Það kom fyrir að ilmandi mistur lagðist yfir allt umhverfið sem angaði þá af reykelsisilm.

PÁFI KOPTÍSKU KIRKJUNNAR
SKIPAR RANNSÓKNARNEFND

Anba Kyrillos páfi VI af Alexandríu og patríarki sætis heil. Markúsar í Afríku og Austurlöndum nær, skipaði rannsóknarnefnd háttsettra klerka undir forsæti Anba Gregorios biskups sem urðu vitni að opinberununum. Þeir dvöldu við kirkjuna í nokkrar nætur, bæði til að spyrja fólk og verða vitni að þessu kraftaverki og sáu sjálfir með eigin augum hina blessuðu Mey á kúpli kirkjunnar. Yfirleitt stóðu opinberanirnar yfir í langan tíma og þann 30. apríl 1968 í tvær klukkustundir samtals.

Tvennt hafði djúp áhrif á fulltrúa koptísku kirkjunnar. Í fyrsta lagi hvað þær glæddu trú fólks á Guði og hinum heilögu og þannig snérust fjölmargir til trúar eða iðruðust og endurnýjuðust í trú sinni. Í örðu lagi voru það svo óútskýranlegar lækningar sem margt fólk upplifði og rannsakaðar voru af læknum og öðrum sérfræðingum. Hér var bæði um blindu, lömuð líffæri, krabbamein og ýmsa aðra sjúkdóma að ræða sem fólk fékk lækningu við með því að ákalla hina blessuðu Mey í Zeitounkirkjunni sem er helguð henni.

Anba Kyrillos páfi VI staðfesti áreiðanleika opinberananna þann 4. maí 1968. Auk hans staðfesti jesúítinn faðir Henry Ayrout þær, auk dr. Ibrahims Said af hálfu mótmælendakirkjunnar. Systur úr Félagi hins Alhelga Hjarta Jesú urðu einnig vitni að þeim og sendur ítarlega greinargerð til Vatíkansins sem varð til þess að sendinefnd Páfastóls kom til Zeitoun þann 28. apríl og sendi hún Páli páfa VI ítarlega skýrslu um atburðina. Meðal þeirra sem sáu ástæðu til að koma á opinberunarstaðinn var þáverandi forseti Egyptalands, Gamal Abdel Nasser.

Páfi koptísku kirkjunnar tjáði þá ósk sína að þessi náðarríka nærvera Guðsmóðurinnar yrði að friðartákni manna á meðal og egypsku þjóðinni til blessunar. Við þekkjum jafnframt sögu hinnar heilögu fjölskyldu sem flúði til Egyptalands undan barnamorðingjanum Heródesi. Ef til vill er Guðsmóðirin að áminna okkur á þessi sannindi að nýju nú á tímum barnamorða síðkristinna þjóðfélaga Vesturlanda, menningar sem guðræknir múslimar kalla DAUÐAMENNINGU SATANS? Þessi menning er afsprengi svonefndrar „68“ kynslóðar sem hóf fríhyggju afstæðishyggjunnar til vegs og valda. Þannig birtist hún að nýju árið 1986 í Shoubraúthverfinu í Kairó, eins og fjallað verður um í lokakafla þessarar umfjöllunar. Megi algóður Guð gefa ófæddum börnum hlutdeild í þeim friði sem er öllum skilningi æðri með því að kristnar þjóðir virði að nýju ákvæði Tíyrðanna (dekalog).

[1]. Orðið kopti er dregið af gríska orðinu „Aigyptos“ sem fyrir sitt leyti er dregið af „Hikaptah,“ einu hinna fornu nafna Memfis sem var fyrsta höfuðborg Egyptalands til forna. Koptíska kirkjan er grundvölluð á kenningum heil. Markúsar guðspjallamanns sem bar kristindóminn til Egyptalands á tímum Nerós. Kristindómurinn breyddist út um allt Egyptaland hálfri öld eftir komu heil. Markúsar. Koptíska kirkjan heldur fast við Níkeutrúarjátninguna og sakramentin sjö.

Byggt á:

http://en.wikipedia.org/wiki/Zeitoun_apparitions

http://www.unexplainedstuff.com/Religious-Phenomena/Mother-Mary-Appears-in-Egypt.html

http://www.zeitun-eg.org/stmary10.htm

http://www.zeitun-eg.org/zeitngal.htm

http://www.coptic.net/EncyclopediaCoptica/

No feedback yet