« Þeir fóru og prédikuðu hvarvetnaAnnað opið bréf til Þórðar Sveinssonar, formanns ungra jafnaðarmanna í Hafnarfirði »

23.04.06

  14:08:49, Skrásetjari: Jón Rafn Jóhannsson, 730 orð  
Flokkur: Ritningarlestur dagsins

Yður ber að fæðast að nýju.

Guðspjall Jesú Krists þann 24 apríl er úr Jóhannesarguðspjalli 3. 1-8

1 Maður hét Nikódemus, af flokki farísea, ráðsherra meðal Gyðinga. 2 Hann kom til Jesú um nótt og sagði við hann: „Rabbí, vér vitum, að þú ert lærifaðir kominn frá Guði. Enginn getur gjört þessi tákn, sem þú gjörir, nema Guð sé með honum.“ 3 Jesús svaraði honum: „Sannlega, sannlega segi ég þér: Enginn getur séð Guðs ríki, nema hann fæðist að nýju.“ 4 Nikódemus segir við hann: „Hvernig getur maður fæðst, þegar hann er orðinn gamall? Skyldi hann geta komist aftur í líf móður sinnar og fæðst?“ 5 Jesús svaraði: „Sannlega, sannlega segi ég þér: Enginn getur komist inn í Guðs ríki, nema hann fæðist af vatni og anda. 6 Það sem af holdinu fæðist, er hold, en það sem af andanum fæðist, er andi. 7 Undrast eigi, að ég segi við þig: Yður ber að fæðast að nýju. 8 Vindurinn blæs þar sem hann vill, og þú heyrir þyt hans. Samt veistu ekki, hvaðan hann kemur né hvert hann fer. Svo er um þann, sem af andanum er fæddur.“

Hugleiðing
Þessi ritningarkafli er í einstöku uppáhaldi hjá mér sjálfum. Ákveðnar ástæður búa þessu að baki. Fyrir tæpum 30 árum þegar ég var sjálfur að taka mín fyrstu skref í hugleiðslu dvaldi ég í fransiskanaklaustri í Þýskalandi í vikutíma. Tímanum var varið til að íhuga þennan kafla. Daglega komu síðan guðfræðiprófessorar héðan og þaðan frá ýmsum háskólum og vörpuðu ljósi á textann. Í klausturlandinu var yndislegur skógur sem menn gengu svo um og íhuguðu. Feðurnir sögðu okkur að mörg skáld hefðu „fæðst“ í þessum skógi, það er að segja fólk sem aldrei hafði gert sér ljóst að það væri þess umkomið að geta samið ljóð.

Setjum okkur fyrir sjónir hvernig þeir standa þarna saman í kvöldkyrrðinni, Drottinn og Nikódemus, og ræða saman um leyndardóm Guðsríkisins. Þrátt fyrir að Nikódemus sé ráðherra af flokki farísea mætir hann Frelsaranum með opnum huga og hlustar hugfanginn á það sem hann hefur fram að færa um hið nýja líf í Heilögum Anda. Það var síðar hann sem lagði til gröfina þar sem undur upprisunnar átti sér stað. Við skulum heyra hvernig hl. Jóhannes af Krossi vék að þessum leyndardómi:

„Þetta ber að skilja sem svo að það sem sálin nefnir hér dauða er allt það sem felst í hinum gamla manni, öll binding sálarkraftanna, það er að segja minnisins, skilningsins og viljans, við hluti þessa heims og gleði langananna í fullnægja hins skapaða [hedonisminn]. Allt er þetta ummerki um hið gamla líf sem hefur deyðandi áhrif á hið nýja og andlega líf. Sálin er þess ekki umkomin að lifa með fullkomnum hætti í þessu nýja og andlega lífi, ef hinn gamli maður deyr ekki fullkomlega. Postulinn flytur þessi varnaðarorð: Þér eigið að hætta hinni fyrri breytni og afklæðast hinum gamla manni . . . og íklæðast hinum nýja manni, sem skapaður er í Guði í réttlæti og heilagleika sannleikans (Ef 4. 22, 24). Í þessu nýja lífi sem við erum að fjalla um hérna þegar sálin hefur öðlast hlutdeild í hinni fullkomnu sameiningu við Guð, eru allar tilhneigingar og hræringar sálarkraftanna og langananna orðnar guðdómlegar, en í eigin mætti er starfsemi þeirra dauðleg og án hins andlega lífs“ (Logi lifandi elsku 2. 33).

Við ættum öll að keppa eftir því að mæta Drottni í kvöldkyrrð bænarinnar og biðja hann um að gefa okkur hlutdeild í þessu nýja lífi. Það mun hann svo sannarlega gera eins og hl. Elísabet af Þrenningunni benti á: „Hin eina hræring hins Alhelga hjarta Jesú er að uppræta syndina og leiða okkur til síns himneska Föður.“ Það var af þessum sökum sem hann leið píslir og úthellti blóði sínu á fórnarhæð krossins. Amen.

No feedback yet