« Sinnaskipti fósturdeyðingarmanna, eftir Frank PavoneHvenær báðu kjósendur um vændi á Íslandi? »

13.07.06

  21:35:01, Skrásetjari: Jon Valur Jensson   , 892 orð  
Flokkur: Fósturvernd, Siðferði og samfélag, Kristindómur og stjórnmál

Siðferði og samfélag – nauðsyn kristins varnarstarfs

Eftir því sem ég frétti, les og hugsa meira um óviðunandi réttarstöðu hinna ófæddu, sífellt meiri ásækni gegn lífshagsmunum þeirra, um siðferði hjúskaparmála, upplausn fjölskyldna, viðkvæmt og áhættusamt uppeldi barna, þróunina hér, á Norðurlöndum og víðar, m.m., verður mér æ betur ljós þörfin á því, að hér rísi upp kristinn, samkirkjulegur félagsskapur sem sinni þessum málum sérstaklega, þ.e.a.s. söfnun heimilda, rannsóknum og upplýsingastarfi, m.a. með stofnun vefseturs. Siðferði og samfélag gæti t.d. orðið nafnið á slíkum félagsskap eða rannsóknarstofnun.

Þar mun miklu máli skipta að hafa það rannsóknarstarf sem vandaðast og faglegast (án þess þó, að félags-fræðingar og -ráðgjafar hafi þar nokkurn forgang) – já, hlutlægt og yfirvegað, með vandlega unnum greinaflokkum, álitsgerðum eða opinberum yfirlýsingum og verði þannig í stakk búið, að rannsóknarsetur þetta geti átt eðlilegt tilkall til framlags úr opinberum sjóðum, ekki síður en öll sú útgerð sem nú þegar stendur yfir af hálfu svokallaðra frjálslyndisafla í félagsmálageiranum til að útbreiða þeirra veraldlegu þjóðfélagsútópíur á ýmsum sviðum [1].

M.a. er aðkallandi að beina augunum að hinu kristna fjölskyldumynztri og ýmsum þeim þáttum sem hafa sýnt sig að nauðsynlegt sé að varðveita til að stuðla að hollum uppeldisáhrifum og stöðugleik bæði í einkalífi, fjölskyldum og í samfélaginu. Þar verður ekki hjá því komizt að leggja áherzlu á fjölskylduna sem grunneiningu í mannlegu samfélagi og mikilvægi þess að efla hana, í stað þess, sem nú er gert, að ríkisvaldið stuðlar nánast að því að gera hjónabands- og sambúðarformin efnalega séð langtum óhagstæðari en einbýli [2]. Hér er þó á fátt eitt drepið að sinni, verkefnin geta verið miklu fjölþættari.

Óvíst er, að þessi hugmynd komi bezt út með því að reka þetta fyrst og fremst sem stórt félag. Ég sé þetta fyrir mér sem vinnuhóp framan af, því næst e.k. stofnun með vefsetur, sem leiti t.d. tilstyrks frá Þjóðkirkjunni og öðrum trúfélögum til að standa straum af kostnaði, og þar á eftir verði farið að auglýsa upp starfsemina, t.d. í kirkjum, í fjölmiðlum, með fundahaldi (með sérstökum, vel unnum framsöguerindum og opinni umræðu), en svo að lokum að stofna almennan félagsskap, ef sýnt þykir, að viðblasandi sé, að nýta verði þann meðbyr, sem við eigum vonandi eftir að finna, til enn meiri starfsemi og tilhöfðunar til alls almennings.

Ég set þetta hér á blað til að kanna viðbrögð ykkar. Þetta er ekki "ein flugan enn" úr höfði J.V.J., heldur er ég sannfærður um, að þetta sé mál sem verði að sinna af fullri alvöru og fá til liðs við okkur gott og kristið fólk úr öllum áttum, þ.m.t. tölvutæknimenn, góða þýðendur og fólk sem með blaðagreinum o.fl. hefur sýnt þessum uppbyggingarmálum jafnt sem hugarfarslegum og praktískum varnarviðbúnaði áhuga í verki. Hópurinn þarf ekki að vera stór til að byrja með, og menn geta unnið frjálst og 'freelance' að þessu á tölvuna heima hjá sér og lagt svo fram slíkt efnisframlag. Eins er gott að fá inn á vefsíðuna ýmsar greinar sem nú þegar hafa birzt um þessi mál (ég er með eitthvað í huga eftir leikfólk, einkum nokkrar konur). Tenglar inn á aðrar vefsíður, innlendar og erlendar, skipta líka máli.

Set þetta fram lesendum til umhugsunar. Meðal góðra viðbragða gæti t.d. verið að benda mér og okkur öllum á fólk sem tilvalið eða heppilegt gæti verið að hafa samband við um þessar hugmyndir. Smám saman getur svo hringurinn víkkað út og endanlegar hugmyndir orðið, með Guðs hjálp, að veruleika.

Ykkar í Kristi,
Jón Valur Jensson.

–––––––––––––––––––––––––
[1] Það er heldur dæmigert fyrir margt af því frjálslyndisbaráttufólki, að það gerir fátt í sjálfboðavinnu, en þeim mun meira í ýmsum launuðum verkefnum, hjá ríki, borg, Háskóla Íslands og fleiri stofnunum. Nú þegar eru ýmis slík samtök/stofnanir í gangi, t.d. Fræðslusamtök um kynlíf og barneignir, sem eru angi af International Planned Parenthood, sem er einhver stórvirkasta stofnun sem vinnur að útbreiðslu fóstureyðinga um víða veröld; þessi tiltölulega ungu samtök, FUKOB, eru nú þegar á opinberum styrkjum. Það sama er að segja um vefsetur róttækra læknanema, sem nefnist Ástráður og einbeitir sér ekki sízt að því að útbreiða "fagnaðarerindi" veraldarhyggjunnar í kynferðismálum.
[2] Sbr. umræðu, sem stóð yfir um þau mál sumarið 2004.

––––––––––
Pistill þessi er að mestu leyti samhljóða bréfi sem ég sendi ýmsum vinum 24. ágúst 2004, en fáeinum atriðum aukið við.

No feedback yet

Ábyrgðarmaður: Jón Valur Jensson guðfræðingur.

Önnur blogg sama höfundar: [jonvalurjensson.blog.is]
[jvj.blog.is]
[krist.blog.is] (þátttaka)
[lifsrettur.blog.is]

Leit

  XML Feeds

powered by b2evolution