« Siðferði og samfélag – nauðsyn kristins varnarstarfsNýjasta móðgun stjórnvalda við kristindóm og siðferði: gjörnýting fósturvísa »

06.07.06

  22:20:40, Skrásetjari: Jon Valur Jensson   , 2293 orð  
Flokkur: Siðferði og samfélag

Hvenær báðu kjósendur um vændi á Íslandi?

Á vændi framtíð fyrir sér á Íslandi? Ætlum við að samþykkja það hér? Er þetta valkostur sem frambjóðendur hafa beðið kjósendur að velta fyrir sér vegna kosningastefnu flokkanna? Hefur framþróun þjóðfélagsins og okkar eigin þroskaða meðvitund gert vændi að eðlilegri þætti tilverunnar en oftast var áður talið? Hafa einhverjar nýjar hliðar komið í ljós á þeirri "starfsgrein", sem gera hana jákvæðari en menn áður óraði fyrir? – Fjarri fer því.

Mansal, þrælahald og skelfileg meðferð kvenna í fjárplógsskyni eru nýir ytri þættir þessara mála, sem allir hafa heyrt af, og algengari en flesta grunar. Meðvitund kvenna um virðingu sína og ábyrgð þeirra á kynsystrum sínum, sem sæta kynferðislegu ofbeldi, hefur einnig eflzt og þær sótt fram með þau viðhorf og markmið í réttarfari og lagavernd. Tillögur um að lögleiða vændi á Íslandi, sem dómsmálaráðherra hefur borið fram á Alþingi (þótt lítið hafi borið á í fjölmiðlum), koma því eins og skollinn úr sauðarleggnum.

Alvarlegar fréttir voru af þessum málum í Stöð 2 og Rúv 2. júlí og í Mbl. sunnudaginn 3. júlí (í forsíðufrétt, en einkum í grein Höllu Gunnarsdóttur). Þar eru mjög athyglisverðir hlutir, sem menn ættu að kynna sér.

Vændisfrumvarpið var sem betur fer ekki afgreitt frá Alþingi í vor, heldur var farið í gegnum 1. umræðu og það afgreitt til allsherjarnefndar og 2. umræðu.

Hvað því olli, að dómsmálaráðherrann keyrði ekki málið gegnum þingið, er ekki fullljóst, en Ágúst Ólafur Ágústsson (einnig HÉR og víðar) stóð sig afar vel í andmælum gegn því, að ógleymdum öðrum andmælendum. Er ég ekki frá því, að orð hans hafi haft æðimikil áhrif, og er það vel.

Í málinu eru í meginatriðum fjórar leiðir færar:
1. Að banna sölu vændis (gamla leiðin).
2. Að banna kaup vændis (sænska leiðin, sem t.d. Kolbrún Halldórsdóttir alþm. og femínistar almennt aðhyllast).
3. Að banna hvorugt, heldur LÖGLEIÐA VÆNDI með því að gera það refsilaust; þetta er leið Björns Bjarnasonar (með takmörkunum þó gegn auglýsingum um starfsemina og banni við söluþátttöku þriðja aðila eða melludólgs og rekstri vændishúss fyrir margar í einu – en þær takmarkanir munu að litlu haldi koma gegn þvingunarvændi og mansali, sér í lagi eftir að vændi fær að stóraukast, m.a. til ferðamanna, í kjölfar afléttingar allra refsinga við 'sölu' og 'kaupum' á 'vörunni').
4. Að banna BÆÐI sölu og kaup vændis, enda sé hvort tveggja ósiðlegt og til spillingar fyrir kynheilsu fólks, ekki sízt eiginkonur þeirra manna sem kaupa sér vændi. Þetta er eina rétta leiðin að mínu mati, sbr. grein mína Vændi á Íslandi? Nei takk! Þetta er ennfremur tryggasta leiðin til að koma í veg fyrir mansal, því að það þrífst bezt þar sem vændi á að heita löglegt; þar vekur straumur karlmanna að einhverju húsi litla athygli, miðað við ástandið í þeim löndum þar sem vændi leyfist ekki. Þar að auki er þetta sanngjörn leið: að refsa ekki aðeins 'seljanda' vændis, heldur einnig 'kaupandanum', sem með eftirsókn sinni ("eftirspurn") tekur mjög virkan þátt í að láta það ástand viðgangast að konur séu dregnar út í vændi og jafnvel seldar mansali til þess. Hann er alltjent ævinlega meðsekur í broti konunnar og á ekki að sleppa létt frekar en flibbaglæpamenn nútímans.

Því hefur verið haldið fram, að engin kona fari sjálfviljug í vændi, hún sé annaðhvort þvinguð til þess af öðrum eða neydd til þess af fátæktarsökum eða vegna eiturlyfjaneyzlu. Sem alhæfing stenzt þetta ekki. Þýzk kona, sem stödd var hér á landi, fræddi mig um það, að margar konur á skólaaldri í landi hennar ferðist um helgar í aðrar borgir, þar sem enginn þekki þær, til að afla sér skjóttekinna tekna með vændi og fjármagni með því sérnám sitt í framhaldsskóla og jafnvel íbúðarkaup, en hætti svo að selja sig. Það þarf heldur ekki að líta lengra en til greinar Höllu í Mbl. um síðustu helgi til að sjá dæmi um, að íslenzkar konur eru líka að gera þetta á frjálsan hátt í tekjuskyni og án þess að sýta það. [1] Þarna var um þeirra eigin vitnisburði að ræða. Að neita – út frá einhverri tilbúinni ídeólógíu – að þær séu siðferðislega ábyrgar fyrir því vændi, er að loka augunum fyrir staðreyndum. Þess vegna er fráleitt og einungis merki um vesaldóms-siðferði að telja viðkomandi konur eiga að vera ábyrgðar- og refsilausar og að einungis karlinn eigi að fá sína refsingu. Hér er tekið undir, að "kaupandanum" beri að refsa, en það er einnig konum til góðs, að ströng viðurlög liggi við því, að manneskja selji afnot af líkama sínum til kynlífs, því að "frjáls" lagaákvæði í því efni eru ekkert annað en freisting fyrir sumar konur til að afla sér tekna á ósiðlegan hátt, oft án þess að gera sér nokkra grein fyrir hugsanlegum afleiðingum þess, lemstrun og niðurlægingu, flekkuðu mannorði, sárindum barna og/eða ættingja, áhrifum á fjölskyldur 'kúnnanna', ef upp um þá kemst, o.fl. o.fl. Meint 'frelsi' verður mönnum líka oft að færi fyrir holdið (Gal.5.13, sbr. 5.1) og breytist þá fljótt í helsi.

Lögin eiga því ekki að freista kvenna til vændis – heldur ekki að gera það gjaldgengt, jafnvel "respektabel" sem starfsgrein, af því að það sé "löglegt" ("og því siðlegt!" eins og sumir álykta ranglega [2]). Með því að búa til linkindarleg lög um vændi er verið að bjóða því heim – skapa nýtt umhverfi, þar sem þetta verði talið meðtækilegt. Þess er sízt þörf um þvílíkt athæfi, sem hefur margar illar afleiðingar, einkum fyrir konur, og getur jafnvel gert útslagið um, að vissir kynsjúkdómar verði að faraldri meðal ungs fólks.

En hér skal því alls ekki neitað, það er líka til og sennilega í vaxandi mæli í sjálfri Evrópu nú, að konur séu þvingaðar í vændi. Þótt ég aðhyllist ekki refsileysi vændiskvenna, tel ég vitaskuld, að kynlífsþrælar ósvífinna mansalsmanna eigi að sleppa við allan dómsáfelli, þótt upp um vændið komist – það er fráleitt að beita þær konur refsingu fyrir það sem þær tóku þátt í tilneyddar; miklu fremur ætti land okkar að styðja þær og greiða þeim sárabætur og endurhæfingu, ef t.d. er um erlendar konur að ræða, sem íslenzkir "viðskiptavinir" hafi verið að kaupa til "notkunar". Ef ekki er fullljóst um neitt saknæmi konunnar, á allur vafi að túlkast henni í hag. Með því móti er líka verið að stuðla að því að viðhalda megi því undirstöðuatriði í löggjöf, að beitt verði þeirri fráfælingu gagnvart frjálsviljugu vændi, að það skuli sæta refsingu. Hvort tveggja, refsing 'kúnnans' og vændisaðilans, auk harðari refsingar mansalsmanna og 'melludólga', vinnur með okkur að því markmiði að útrýma vændi.

Vilja konur, að tekin verði sú stóra áhætta að stuðla að þrælahaldi á Íslandi? Eða vilja þær að yfirvöld standi sig í stykkinu og komi í veg fyrir sölu á líkömum kvenna og þær þvingunaraðgerðir sem harðleiknir menn geta beitt kynsystur þeirra til að neyða þær í vændi og gera sér þær að féþúfu? – m.a. með hótunum við þær, að fjölskyldufólk þeirra í heimalandinu verði tekið í karphúsið, jafnvel sent yfir móðuna miklu, ef þær láti ekki undan og gefi kost á því að selja líkama sinn næstu vikurnar – sem síðan verða auðvitað margfalt fleiri (eftir að búið er að brjóta konuna niður og "venja" hana við ömurlegt hlutskipti sitt) – en löng "atvinnu"dvöl þeirra hér á landi er nú orðin miklu auðveldari fyrir ofbeldismennina eftir þá geysilegu rýmkun á atvinnuleyfum á Íslandi sem margar þjóðir fengu 1. maí sl. (Nú stendur atvinnuleyfið ekki einungis einn eða þrjá mánuði, eins og þegar 'súlustúlkurnar' voru fengnar hingað til starfa sinna.)

Enn má spyrja: Vilja óbreyttir sjálfstæðis- og framsóknarmenn, að lögjafarsamkoma þjóðarinnar lögleiði vændi á Íslandi? HAFA ÞEIR VERIÐ SPURÐIR EÐA KJÓSENDUR ALMENNT? Og aftur má spyrja: Er Þjóðkirkjan samþykk því, að kirkjumálaráðherrann hafi frumkvæði um það ósiðlega mál að löghelga vændi á Íslandi? Eða á ráðherrann að horfa til ferðamanna-atvinnurekstrar, gróða manna á því sviði, til að hafa sem mest fé út úr ferðamönnum t.d. frá Bretlandseyjum? Á þá að horfa fram hjá því, að sumar vændiskonur fá eyðni eða aðra kynsjúkdóma og eyðileggja líf sitt á margvíslegan annan hátt – og eins fram hjá hinu, að "viðskiptavinir" þeirra geta sömuleiðis smitazt af kynsjúkdómi, sem þeir geta svo borið í saklausa konu sína, hérlendis eða erlendis? Er ekki rétt, að margir þeirra féllu í freistni eftir áfengisdrykkju til að gera eitthvað með vændiskonu, sem þeir hefðu ekki gert ófullir og sjá eftir að verknaðinum loknum? Er einhver ástæða til að vefja um þetta rósamáli "valfrelsis" og "sjálfstæðrar ákvörðunar" einstaklinga? Eiga hrein markaðslögmál að gilda um sölu á mannskroppum?

Þar fyrir utan er ljóst, að með slíku frumvarpi væri dómsmálaráðherrann að auka á "svarta vinnu" í landinu, ekki minnka hana, því að hvergi í frumvarpinu er gert ráð fyrir eftirliti með þessari starfsemi né nokkurri fjárveitingu til slíks eftirlits.

Það er þó ekki það versta í skipulagsmálunum, því að hvergi er heldur gert ráð fyrir því, að stofnað verði til heilbrigðiseftirlits með vændisstarfsemi.[3] Það er til lítils að benda á Þýzkaland og Holland sem lönd sem leyfi þetta, en gleyma því um leið, að þar er fólk sem stundar vændi látið undirgangast heilbrigðisskoðun. Ég er þó ekki að leggja til, að sú leið verði farin, á kostnað skattgreiðenda, heldur að vændi verði alfarið bannað. Þótt sumir segðu, að það myndi samt eiga sér stað neðan jarðar, þá er alveg ljóst, að þannig yrði það margfalt umfangsminna en ef það væri löghelgað að ósk og vilja Björns ráðherra. Og því er hann nefndur hér svo oft til sögunnar, að hann er flytjandi frumvarpsins.

Þetta þingmál hefur því miður ekki sofnað svefninum langa – það verður reynt að troða því í gegnum þingið, þegar ráðamenn sjá á því færi (kannski innan um 60 önnur mál, eins og gerðist á 2–3 dögum í lok sumarþingsins); svo mikið er a.m.k. ljóst af eindreginni málsvörn formanns allsherjarnefndar, Bjarna Benediktssonar, fyrir þessu frumvarpi í þingræðum í vor.

En er þetta ekki ónytjumál sem margir ærlegir Íslendingar ættu að geta sameinazt um að kæfa í fæðingu á komandi haustþingi? Það er t.d. ágæt byrjun að lesa ræður Ágústs Ólafs Ágústssonar á vorþinginu (og fleiri en þær sem ég vísaði á hér ofar) og setja sig inn í þingumræðuna. Ég treysti á það, að konur beiti sér í þessu máli, en fjöldi karlmanna mun taka undir með þeim. Látum umræðuna ekki niður falla, fyrr en fullur sigur er unninn.

––––––––––––––––––
Grein þessi birtist í allmiklu styttri mynd á Mbl.bloggi mínu fyrir nokkrum dögum ('Hvaða kjósendur báðu um vændi á Íslandi?'), en er löguð hér bæði í uppsetningu og efnisatriðum, sem eru aukin að mun.

[1] Sbr. í grein Höllu Gunnarsdóttur í Mbl. 2. júlí 2006, bls. 11 (úr frásögn íslenzkrar fyrrverandi vændiskonu): "Stundum selji konurnar sig sjálfar, en stundum séu milliliðir. "Svo eru komnar fram stelpur sem selja sig og segjast hafa gaman af því. Þær velja þá kúnnana eftir því.""

[2] Sbr. um hliðstæðu við þetta í fóstureyðingamálunum: sjá grein sr. Þorbergs, í 3. klausu hennar.

[3] Gæti það verið ætlunin að renna frumvarpinu í gegn m.a. á þeirri forsendu, að það kosti nú ekki mikið í útgjöldum? En þurfa síðan eftir á að semja nýjar lagareglur um útgjöld til eftirlits og heilbrigðisgæzlu? Er það ekki að fara aftan að hlutunum? Ég er þó hræddur um, að mönnum sé mest í mun að troða þessu frumvarpi gegnum þingið, þeim sem að því standa. Hér gæti risið upp voldugur vændisrekstur (þó allur í einkarekstrarformi á yfirborðinu), ef þeir hafa sitt fram, – vændisrekstur með öllum þeim ógeðfelldu einkennum sem honum gjarnan fylgja, s.s. eiturlyfjaneyzlu og ofbeldisþvingunum. Það verður enginn framtíðar-Edensgarður Íslendinga.

16 athugasemdir

Athugasemd from: Jon Valur Jensson

E.k. efnisyfirlit um umræðurnar á Alþingi í vor er að finna á þessum vefslóðum: upphaf 1. umræðu (8 ræður, fjórir ræðumenn: Björn Bjarnason, Ágúst Ólafur Ágústsson, Kolbrún Halldórsdóttir, Ásta Möller), framhald 1. umræðu (13 ræður, sex ræðumenn: Kolbrún Halldórsdóttir, Ásta Möller, Jónína Bjartmarz, Björn Bjarnason, Bjarni Benediktsson, Ágúst Ólafur Ágústsson) og lok 1. umræðu (einn ræðumaður: Atli Gíslason). Geta menn svo smellt á nöfn þingmannanna á vefsíðunum tilvísuðu til að lesa ræður þeirra.

07.07.06 @ 10:51
Athugasemd from: Jon Valur Jensson

Í Laugardagsþættinum á Rás 1 eftir hádegi í dag var athyglisvert og gott viðtal við Drífu Snædal um mansal og vændi. Drífa, sem er framkvæmdastýra Kvennaathvarfs, er fylgjandi sænsku leiðinni og mælti eindregið með henni, án þess þó að víkja neinum orðum að þeirri leið að banna líka sölu á vændi. Ég hvet þá, sem misstu af þættinum, til að hlusta á hann á vefsetri Rúv.

08.07.06 @ 15:08
Athugasemd from: Ragnar Geir Brynjólfsson

Hér eru nokkrar stuttar tilvitnanir í þingumræðuna:

Bjarni Benediktsson:

Ég held að við þurfum að fara að beina umræðunni frá því hvaða siðferðislegu skilaboð Alþingi ætlar að fara að setja hér út með lagabreytingum og einblína frekar á vanda þeirra sem eru komnir í þá aðstöðu sem tengist vændinu. Það er miklu mikilvægara að mínu áliti.

Ágúst Ólafur Ágústsson svarar:

Hv. þingmaður segir að við eigum ekki að einbeita okkur að siðferði heldur að vandanum. Vandinn liggur í að þetta þing treystir sér ekki til að senda þau siðferðislegu skilaboð að það sé rangt að kaupa líkama manneskju með þessum hætti. Þar liggur vandinn. Vandinn liggur líka í því að þetta þing treystir sér ekki til að segja að við eigum að einbeita okkur að svokölluðum rótum vandans sem er auðvitað kaupandinn. Það er engin sala án kaupanda.

Bjarni Benediktsson: svarar:

Ég veit ekki hvers konar ofurtrú þingmaðurinn hefur á þeim skilaboðum sem þingið sendir frá sér og ætlast til að það hafi síðan áhrif á mannlega hegðun. Þetta er ekki þannig að allt verði leyst með því annaðhvort að leyfa eða refsa fyrir einhver tiltekin brot.

Kolbrún Halldórsdóttir:

Hver er þá rót vandans? Í mínum huga og þeirra Svía sem settu lögin á sínum tíma og starfa eftir löggjöfinni í dag — nota bene, um 80% sænsku þjóðarinnar eru ánægð með sænsku löggjöfina. Það hefur ítrekað komið fram í skoðanakönnunum. Rót vandans í okkar huga, sem styðjum þessa leið, er sú að aldagömul viðhorf til kvenna lýsi sér í því að það skuli látið óátalið að líkamar kvenna skuli boðnir til sölu.

og bætir við síðar:

Mansal heyrir til skipulagðri glæpastarfsemi sem veltir orðið álíka miklum upphæðum í veröldinni og vopnasala og eiturlyfjasmygl. Samfélag þjóðanna hefur séð ástæðu til að gera um það alþjóðlegan samning sem kallaður er Palermo-samningurinn til að reyna að takast á við hina skipulögðu glæpastarfsemi í verslun með manneskjur. Það er óásættanlegt í samfélagi þjóðanna að látið skuli viðgangast að konur og börn gangi kaupum og sölum til kynlífsþjónustu, ekki síst á Vesturlöndum, jafnvel í okkar eigin landi.

Sjá: http://www.althingi.is/altext/132/04/l11183723.sgml

09.07.06 @ 09:52
Athugasemd from: Ragnar Geir Brynjólfsson

Um sölu vændis segir í frumvarpinu:

a. Sala vændis.
Sala kynlífs, nánar tiltekið að stunda vændi sér til framfærslu, hefur lengi verið refsiverð á Íslandi. Eru Íslendingar nú orðin eina Norðurlandaþjóðin sem hefur ákvæði um refsinæmi slíkrar hegðunar í löggjöf sinni. Efast má um að þetta ákvæði eigi lengur rétt á sér, hafi það einhvern tíma átt það. Þar kemur tvennt til. Í fyrsta lagi má segja að það sé vafasamt að það sé í samræmi við nútímaviðhorf að refsa fyrir sölu kynlífs þegar báðir aðilar eru fullorðnar manneskjur sem vita hvað þær eru að gera og háttsemin fer fram með fullu samþykki og vilja beggja. Þessi afstaða er byggð á því sjónarmiði að vændi eigi að vera frjáls og viljabundin athöfn út frá viðskiptalegu sjónarmiði. Fólki eigi að vera frjálst að selja líkama sinn til kynlífs á sama hátt og það selur vinnu sína, líkamlega sem andlega. Í öðru lagi er það sjónarmið, sem vegur mun þyngra, að þeir sem hafi viðurværi sitt af sölu kynlífs séu í flestum tilvikum illa settir andlega, líkamlega og félagslega. Þeir séu yfirleitt þolendur sjálfir, t.d. vegna fátæktar, fíkniefnaneyslu eða kynferðislegrar misnotkunar (samkvæmt upplýsingum Stígamóta hafa 65–85% kvenna sem stunda vændi orðið fyrir einhvers konar kynferðislegu ofbeldi). Þessi afstaða byggist á því sjónarmiði að vændi tengist alltaf neyð og því sé nær að veita seljanda félagslega, læknisfræðilega og fjárhagslega aðstoð í stað þess að refsa honum.

Sjá: http://www.althingi.is/altext/132/s/1048.html

09.07.06 @ 09:55
Athugasemd from: Ragnar Geir Brynjólfsson

Rökstuðningurinn fyrir því að sala vændis eigi að vera heimil hvílir semsé á “nútímaviðhorfum” því að “Fólki eigi að vera frjálst að selja líkama sinn til kynlífs á sama hátt og það selur vinnu sína, líkamlega sem andlega.”sem og því að “þeir sem hafi viðurværi sitt af sölu kynlífs séu í flestum tilvikum illa settir andlega, líkamlega og félagslega. Þeir séu yfirleitt þolendur sjálfir, t.d. vegna fátæktar, fíkniefnaneyslu eða kynferðislegrar misnotkunar” (Leturbr. RGB)

Engar heimildir eru tíndar til stuðnings fyrri rökunum hvorki tilvitnanir, félagsfræðirannsóknir, niðurstöður kannana, tímaritsgreinar eða álit nokkurs manns. Síðari rökin eru frekar einsýn á mannlegan fjölbreytileika. Ekki er verið að lasta álit Stígamóta þó þetta sé sagt. Þeirra álit staðfestir að vændinu fylgir ofbeldi en spurning hlýtur að vera hvaða aðferðir Stígamót hafa lagt til grundvallar þessari álitsgerð og hvernig þeir geta dregið ályktanir um sölu vændis almennt út frá reynslu þess fólks sem leitar aðstoðar vegna vændistengds ofbeldis. Þau rök sýnast því langt frá því að hafa nægilegt vægi til að hægt sé að byggja á þeim og gera sölu vændis leyfilega.

09.07.06 @ 10:09
Athugasemd from: Ragnar Geir Brynjólfsson

Hin svokölluðu ‘nútímaviðhorf’ sem eiga að grundvöllur vændissölunnar eru greinilega ekki sótt í kaþólska trúfræðsluritið. Það má nefna það rit sem heimild um ‘nútímaviðhof’ því sú bók er enn í vinnslu en hefur verið á netinu nú um nokkurt skeið. Þar segir:

2353. Óskírlífi er líkamlegt samneyti milli ógifts karls og ógiftrar konu. Það stríðir með alvarlegum hætti gegn reisn persóna og mannlegu kynferði sem beinist með náttúrulegum hætti að velferð hjóna og getnaði og uppfræðslu barna. Ennfremur er það alvarleg hneykslun þegar á sér stað spilling þeirra sem ungir eru.

2354. Klám felst í því að raunverulegur eða sviðsettur kynferðislegur verknaður er slitinn frá því að vera persónulegt samneyti hluttakenda og hann sýndur af ásetningi þriðja aðila. Klám brýtur gegn hreinlífi vegna þess að það afbakar hjúskaparfarið, hina nánu samkennd sem hjónin gefa hvort öðru. Það skaðar alvarlega reisn þeirra sem þar koma nærri (leikendur, söluaðilar og almenningur) þar sem hver þeirra verður öðrum tilefni lítilmótlegrar skemmtunar og ólöglegs hagnaðar. Það fær alla sem það eru viðriðnir til að sökkva sér í heim draumóra og tálsýnar. Það er alvarleg synd. Opinber yfirvöld eiga að koma í veg fyrir framleiðslu og dreifingu kláms.

2355. Vændi skaðar reisn þeirra sem það stunda og dregur þá niður á það stig að vera verkfæri kynferðislegrar nautnar. Sá sem greiðir, syndgar alvarlega á móti sjálfum sér: Hann vanhelgar hreinlífið sem skírnin skuldbindur hann til að virða og hann saurgar líkama sinn, musteri Heilags Anda. [140] Vændi er félagsleg plága. Venjulega snertir það konur en einnig karla, börn og unglinga (í síðustu tveimur tilfellunum verður syndin meiri við það að hún felur í sér hneyksli). Enda þótt það sé ávallt alvarleg synd að stunda vændi getur fátækt, fjárkúgun eða félagslegur þrýstingur minnkað sök syndarinnar.

Sjá: http://mariu.kirkju.net/trufraedslurit/2196.html

09.07.06 @ 10:20
Athugasemd from: Jon Valur Jensson

Já, þakka þér þetta, Ragnar. Þú greinir það réttilega, að í þingumræðunum (sjá tengla í pósti hér ofar, 7.7.) er mikið efni til að vinna úr og skoða og kryfja afstöðu manna. Bjarni ungi Benediktsson “setur puttann á” einn kjarna málsins – a.m.k. kjarna frumvarpsins – þegar hann mjög berlega vill skipta út eldri viðhorfum gagnvart sölu vændis fyrir eitthvað sem hann kallar “nútímaviðhorf” til þeirra mála. Nútímaviðhorf?! Viðhorf hverra? Þjóðarinnar? Samkvæmt hvaða könnunum? Eða eru það viðhorf kjósenda Sjálfstæðis- og Framsóknarflokks? Nei, engan veginn! En þessi meintu “nútímaviðhorf” hafa vissulega heyrzt þrálátlega í nýfrjálshyggjukreðsum Sjálfstæðisflokksins (eins og þær eru nú litlar), og nú á greinilega að ganga á það lagið, kannski með “útrásar- og nýsköpunarhyggjuna” í huga, en kannski bara út frá trúarjátningu frjálshyggjunnar.

Grundvöllur frjálshyggjunnar er trúin á manninn,” sagði dr. Jónas Haralz bankastjóri í Eimreiðarviðtali fyrir um 25–30 árum, og þar sést í eðli sínu vandinn, sem við er að eiga: ekki það eitt, að frjálshyggjan hafnar þar með principielt að taka tillit til trúarinnar á Guð, heldur hinn heimatilbúni vandi þessarar hugmyndafræði, sem er ofurtrúin á manninn, án tillits til þeirra sjálfseyðileggjandi hvata sem meðfram er að finna í okkur – og eigingirni sem kemur oft öðrum illa, jafnvel níðist á þeim. Kaþólsk afstaða er vissulega sú, að Guð hafi skapað “mjög (harla) góðan heim,” þ.m.t. ekki sízt manninn, og að þetta tilheyri ennþá grundvelli manneðlisins, þótt syndafallið hafi spillt því (að nokkru leyti og með alvarlegum afleiðingum). Peter Geach heimspekingur leggur mikla áherzlu á það, að menn eru almennt gæddir náttúrlegum gæðum og gæzku, þ.m.t. í vilja þeirra til góðs í umhverfi sínu og löngunum til athafna, það sé grunnurinn, en svartsýnna viðhorf (pessímismi á manneðlið), t.d. Lúthers og á köflum Ágústínusar, málar manninn í dekkri litum. Samt sem áður er kaþólska viðhorfið með öllu laust við allan optímisma (bjartsýnishyggju) á manneðlið sem slíkt (án hjálpar náðar Guðs) og hafnar því dogmatískri afstöðu hinnar líberalísku mannhyggju (frjálshyggju-mannfræði), sem trúir beinlínis á manninn. Ég hef ekki tíma rétt í þessu að útleggja þetta nánar í konkret tilfellum; geri það síðar í dag. En “íhaldsstefnan” (conservatismi), varðveizlustefnan, hefur virkað sem mótvægi við ofuráherzlu á frelsið innan margra hægri stjórnmálaafla; og þegar skoðuð eru fræðirit um íhaldsstefnuna, kemur einmitt í ljós, að einn meginþáttur varðveizluhyggju hennar hefur miðazt við að virða og viðhalda bindandi siðagildum, kristnum og almennum, andstætt hinni hráu laissez-faire-stefnu frjálshyggjumanna ("laissez-faire” = látið allt ganga sinn veg; = ef engum takmörkunum er neins staðar beitt, gengur allt bezt, markaðsöflin og önnur náttúrulögmál félagslífsins sjá um það; en skv. þessari stefnu á t.d. ekki að skylda menn til að nota bílbelti, og í sömu heimsku áttina gengur frjálshyggjan í raun í vændismálunum).

En “fagnaðarerindi” Bjarna Benediktssonar –– eins og það kom fram í orðum hans hér ofar um það “nútímaviðhorf” að “vafasamt” sé “að refsa fyrir sölu kynlífs þegar báðir aðilar eru fullorðnar manneskjur sem vita hvað þær eru gera” o.s.frv. –– felur ekkert minna í sér en viðskipta- og markaðsvæðingu (commericialization) kynlífs: að gera mannslíkamann að verzlunarvöru. Hvorki hann né frændi hans og samflokksmaður Björn Bjarnason virðast hafa á því nokkurn skilning, að þetta sé bæði ósiðlegt í sjálfu sér, í ósamræmi við anda tímanna og í algerri andstöðu við kristin siðaboð. En við þurfum einmitt að beina athygli manna að þeirri staðreynd, að þeir bera þessi grundvallarviðhorf og staðhæfingar fram til réttlætingar frumvarpi sínu, og gegn því sjónarmiði má andstaðan ekki sízt beita sér.

Að femínistar eins og Kolbrún Halldórsdóttir skuli ekki hafa á því neinn skilning, að banna beri sölu vændis (um leið og þó verði bundið svo um hnútana, að konur, sem neyddar hafa verið í vændi, fái að sleppa algerlega refsilaust og fái miklu fremur bætur og hjálp) – það er vissulega sorglegt ástand þeirra femínistanna. Þær ættu miklu fremur að opna augun fyrir því, að með afstöðu sinni eru þær að gera það líklegra, að sjónarmið Björns og Bjarna verði ofan á, auðvitað ekki hjá þjóðinni, heldur í þingsölum, þar sem taglhnýtings-tilhneigingin við frumvörp ríkisstjórnarinnar sem snerta siðferðismál virðist vera alger (sem sýnir hve innantómar yfirlýsingar stjórnarflokkanna um stuðning við kristin siðagildi eru). Þær konur, sem berjast í þessu máli fyrir kynsystur sínar, ættu einmitt að sjá sinn sterkasta mögulega bandamann í baráttunni gegn vændi í kristinni kirkju og í röddum og tilstyrk presta og kristinna leikmanna um allt land. Væri málstaðurinn og hagur kvenna ekki þess virði, að slíkt bandalag gæti myndazt með þeim um þetta mál? Það gæfi vissulega miklu sterkara færi á því að kljúfa liðsmenn stjórnarflokkanna í málinu, ef hér myndaðist mjög sterk þjóðarrödd í málinu. Látum Björn og Bjarna og þeirra menn ekki komast upp með að narra þessu frumvarpi inn í lagasafnið nánast “í skjóli nætur", eins og oft hefur viljað til í þingsölum (gjarnan í samfloti með mörgum öðrum málum, svo að lítið beri á). En reynum þó fyrst að koma vitinu fyrir þá sjálfa.

09.07.06 @ 10:54
Athugasemd from: Árni Gunnar Ásgeirsson
Árni Gunnar Ásgeirsson

Til Ragnars:
Hvort þessi viðhorf löggjafans til vændis eigi eftir að vera til gæfu eða glötunar mun tíminn einn leiða í ljós.

,,Hin svokölluðu ‘nútímaviðhorf’ sem eiga að grundvöllur vændissölunnar eru greinilega ekki sótt í kaþólska trúfræðsluritið.”

Það þætti mér undarlegt ef kaþólska trúfræðsluritið væri það fyrsta sem flett er upp í áður en samin eru ný lög.
Hagstofan: Árið 2005 tilheyrðu því 2,2% þjóðarinnar kaþólsku kirkjunni.
Það væri undarlegt lýðræðið sem fyrst og fremst tæki tillit til siðferðiboðskapar sem tilheyrir 2,2% íslendinga.

09.07.06 @ 22:51
Athugasemd from: Ragnar Geir Brynjólfsson

Vændi er ekkert nútímalegt. Það er gamall ósiður, fortíðardraugur sem er að rumska af værum svefni. Eitthvað hefur vakið hann - en hvað?

Ég vitnaði í kaþólska trúfræðsluritið því það er handbær og aðgengileg heimild um nútímaviðhorf sem hafnar vændi og klámi. Mér kæmi ekki á óvart þó allar kristnu kirkjurnar á Íslandi höfnuðu því líka, ég hafði bara ekki neinar handbærar heimildir um það úr nútímanum.

Hvar eru annars þessi ‘nútímaviðhorf’ þar sem vændi er réttlætt? Hvar stendur annars staðar en í þessum frumvarpsdrögum að:

“Fólki eigi að vera frjálst að selja líkama sinn til kynlífs á sama hátt og það selur vinnu sína, líkamlega sem andlega.”

Viðhorf flestra eru þvert á móti þau að vændi sé viðurstyggð - eða er kannski hægt að sýna fram á annað?

10.07.06 @ 05:32
Athugasemd from: Jon Valur Jensson

Gott svar hjá þér, Ragnar.

Auðvitað heldur hvorki Ragnar né við hinir á þessu vefsetri því fram, að kaþólska trúfræðsluritið sé það fyrsta sem þingmenn eigi að fletta upp í áður en samin eru ný lög. Orð hans skildi ég sem svo, að himinn og haf aðskilji frumvarpið og kaþólska trú, jafnvel í nýjustu framsetningu hennar. – Kaþólska afstaðan er einmitt nútímaleg, en steinrunnin karlremba nýfrjálshyggjustrákanna er vondur endurómur af þeirri fortíð, þegar valdið eitt skóp mönnum lög og rétt – í þessu tilviki vald peninganna.

En setning þín, Árni Gunnar:

“Það væri undarlegt lýðræðið sem fyrst og fremst tæki tillit til siðferðiboðskapar sem tilheyrir 2,2% Íslendinga,”

rekst undarlega illa á þá staðreynd, að nýbúið er að setja lög, sem einmitt taka fyrst og fremst tillit til hagsmuna 2,1 til 2,2% þjóðarinnar (í mesta lagi), þ.e. samkynhneigðra, – og hagsmuna þeirra jafnvel á kostnað annarra.

Ég tek undir þau orð Ragnars, að vændi sé viðurstyggð – synd gegn manneskjunni sjálfri – hrikalegust þegar kona eða piltur eru knúin í nauðungarvændi; en þegar einstaklingurinn stundar það sjálfviljugur, er það synd hans gegn eigin líkama og samfélaginu, auk þess að vera ævinlega brot “viðskiptavinarins” gegn siðalögmálinu.

10.07.06 @ 12:03
Athugasemd from: Jon Valur Jensson
02.10.06 @ 11:20
Athugasemd from: Ragnar Geir Brynjólfsson

Í Fréttablaðinu í dag er forvitnilegt viðtal við Dorit Otzen, danska baráttukonu gegn vændi þar sem segir:

Ég veit að þið Íslendingar kallið súludans og aðra vændistengda starfsemi list en þetta er ekki list. Þetta er vændi. Íslendingar geta lýst því yfir að vændi sé ekki samþykkt hér. Þið getið sett lög gegn mansali og vændi ef þið hafið áhuga“ segir hún og ráðleggur Íslendingum að fara í herferð gegn vændi og ræða hvers konar þjóðfélagi þeir vilji búa í.

Þetta er tilvitnun í frétt Fréttablaðsins 6. des. 2006, bls. 16. „Sænska leiðin reynist best“. Í fréttinni kemur einnig fram að Dorit er hlynnt sænsku leiðinni að banna einungis kaup vændis og nefnir því til stuðnings að vændi sé vandamál í Danmörku, Noregi og Finnlandi en miklu síður í Svíþjóð. Hún er hér á vegum Stígamóta og var á fundi með allsherjarnefnd Alþingis ásamt konum frá Stígamótum til að minna nefndina á að enn liggur ekki fyrir íslensk aðgerðaráætlun gegn mansali en ríkisstjórnin skuldbatt sig til þess að samþykkja slíka áætlun fyrir árslok 2005.

06.12.06 @ 20:33
Athugasemd from: Jon Valur Jensson

Sænska leiðin ein sér hefur líka ýmis vandamál í sér fólgin (kem væntanlega inn á það, þegar tími gefst til). Bezt er að refsa fyrir bæði kaup og sölu vændis, enda sanngjarnt gagnvart báðum hinum brotlegu aðilum, – en gera hins vegar vændið refsilaust, ef í ljós kemur, að mansal og kynlífsþrælkun bjó að baki vændi viðkomandi vændiskonu eða vændismanns.

06.12.06 @ 21:11
Athugasemd from: Ragnar Geir Brynjólfsson

Ég tek undir með þér Jón. Þó margt sé gott í máli Dorit þá ber sátt við sænsku leiðina einkenni nytjahyggjunnar.

06.12.06 @ 22:16
Athugasemd from: Jon Valur Jensson

Verst að ég komst ekki á fyrirlestur hennar, það hefði verið áhugavert, bæði að heyra hana, fá tækifæri til að leggja mitt til málanna og hitta áhugafólk um þetta alvarlega málefni.

06.12.06 @ 23:11
Athugasemd from: Jon Valur Jensson

Viðtal er við þessa baráttukonu í Mbl. í dag, og þar kemur skýrt fram, hve birtingarmyndir vændis í Danmörku eru hryllilegar. Hvet menn til að lesa greinina.

07.12.06 @ 09:08
Ábyrgðarmaður: Jón Valur Jensson guðfræðingur.

Önnur blogg sama höfundar: [jonvalurjensson.blog.is]
[jvj.blog.is]
[krist.blog.is] (þátttaka)
[lifsrettur.blog.is]

Leit

  XML Feeds

powered by b2evolution