« Guðleysinginn Richard Dawkins heiðursgestur í Kastljósi!Réttur ófæddra kvenna »

25.06.06

  22:33:57, Skrásetjari: Jon Valur Jensson   , 2036 orð  
Flokkur: Fósturvernd

William Liley: Minnsta mannsbarnið

Kaflar úr grein eftir Sir William Albert Liley, prófessor í lífeðlisfræði ófæddra og nýfæddra barna (perinatal physiology), Auckland-háskóla, Nýja-Sjálandi. Áður birt í Lífsvon, fréttabréfi Lífsvonar, samtaka til verndar ófæddum börnum, 1. tbl. 9. árg. (marz 1993), s. 6–8. Upphaflega var þetta fyrirlestur, sem Liley flutti 1979 á fundi Right-to-Life-lífsverndarsamtakanna í Kanada, en birtist í málgagni Society for the Protection of Unborn Children í Eng-landi, Human Concern, sumarið 1980. Ritstjóri Lífsvonar fekk leyfi SPUC til að þýða erindið á íslenzku og birta í bók, sem ráðgert er að komi út um lífsverndarmál. Hér eru birtir nokkrir kaflar úr þessari stórfróðlegu grein.

Framfarir í fósturfræði
Okkar kynslóð er sú fyrsta í sögunni, sem fengið hefur nokkuð raunsanna mynd af þróun mannlegs lífs frá getnaði. Það var ekki fyrr en 1930, að menn gátu fylgzt með egglosi í konu. Árið 1944 varð fyrst unnt að greina í smásjá samruna mannlegrar sáðfrumu og eggfrumu. Á 6. áratugnum gátu menn loks gert sér grein fyrir atburðarás sex fyrstu daganna í þróun mannlegs lífs – fyrstu skrefum fósturvísisins á sinni ævintýralegu braut. .... FRAMHALD hér neðar!

Á 7. áratugnum voru stigin þrjú stór framfaraskref til viðbótar. Þá varð í fyrsta sinn mögulegt ekki einungis að sjúkdómsgreina barn í móðurkviði, heldur einnig að ráða bót á meini þess. Í 2. lagi tókst mönnum þá fyrst að skoða fóstrið á "heimavelli" þess [m.a. með ómskoðun og fóstursjá, aths. JVJ]. Í 3. lagi var dulmál erfðavísanna rofið, þ.e.a.s. þegar mönnum tókst að ráða úr þeirri forskrift manneskjunnar, sem tryggir, að hver einasti maður er öðruvísi en allir aðrir, sem áður hafa lifað eða munu lifa.

Nú hefði mátt halda, að þessar fjögurra áratuga uppgötvanir, sem bundu enda á getgátur fyrri tíma, hefðu haft í för með sér nýja virðingu fyrir lífi hinna ófæddu og mikilvægi þessa tímaskeiðs í mannsævinni. En þess í stað verðum við um allan heim vitni að kerfisbundinni baráttu, sem beinist vægðarlaust að því að útrýma ófæddum börnum af hvaða heilsufars- og félagslegu ástæðu, sem hugsazt getur.

Öll byrjuðum við lífið sem ein fruma

Öll byrjuðum við lífið sem ein fruma. En hvernig fórum við að því að breytast úr einni frumu í þær 30 milljónir milljóna frumna, sem við erum núna? Eins og við vitum, skiptist fyrsta fruman í tvær, en það var fyrsta kynslóð margra frumuskiptinga. Frumurnar tvær skiptust svo í fjórar – sem voru önnur "kynslóðin". Þær fjórar skiptust síðan í átta (þriðju kynslóð) o.s.frv.

Þetta er eins og sagan um hveitikornin á skákborðinu: eitt á fyrsta reit, tvö á þann næsta, fjögur á þriðja o.s.frv. M.ö.o.: spurningin, sem við stöndum frammi fyrir, er þessi: hversu margar frumuskiptingar þarf til þess að brúa bilið frá fyrstu frumunni til hinna 30 milljón milljóna frumna í líkama fullorðins manns? Vegna þeirra, sem eru farnir að ryðga í hugarreikningi, skal ég ekki draga ykkur á svarinu: Það þarf 45 kynslóðir frumuskiptinga til að þróast frá einni frumu til hinna 30.000.000.000.000 frumna í líkama fullorðins manns.

Af þessum 45 kynslóðum frumuskiptinga höfðu átta – eða nær fimmtungur – átt sér stað, um það leyti sem við tókum okkur bólfestu í legveggnum. Þrjátíu – eða um tveir þriðju hlutar – þegar við vorum átta vikna fóstur. 39 kynslóðir frumuskiptinga höfðu átt sér stað eftir 28 vikna meðgöngu og fjörutíu og ein þegar við fæddumst. Eftirstöðvarnar, sem spanna yfir öll bernsku- og uppvaxtarár mannsins, eru einungis litlar fjórar kynslóðir frumuskiptinga.

Ef við lítum á þetta út frá þróunarsjónamiði og minnumst þess, að 41 af þessum 45 frumukynslóðum voru orðnar til, þegar við fæddumst, þá er augljóst, að lífið í móðurkviði spannar yfir 90% af þróunarbraut okkar.

Þessi einfalda staðreynd undirstrikar það, hve umhyggja fyrir ófæddum börnum er afgerandi mikilvæg í læknisfræði nútímans.

Verkefni, sem ófædda barnið glímir við

Þessi stórkostlega margföldun frumnanna í hinu ófædda barni á sér hliðstæðu í undrahraðri þróun líkamsstarfsemi og sérhæfingar hennar. Þar til ungviðið festist í legveggnum, um fimm til átta daga gamalt, er það lítið meira en frumuvefur í hraðri þróun. En þegar þessi festing hefur átt sér stað, hefst stórfengleg atburðarás, og fram kemur auðkennanlegt útlit og líkamsstarfsemi.

25 dögum eftir getnaðinn (tæpum tveim vikum eftir að móðirin missti fyrst úr tíðir) byrjar hjarta barnsins að slá ... 30 daga gamalt mælist barnið um fjórðungur þumlungs, en er þá komið með heila með þekkjanlegt sköpulag mannsheila, einnig augu í mótun, eyru, lifur, nýru, maga og hjarta sem dælir blóði, sem barnið framleiddi sjálft. 45 dögum eftir getnaðinn er beinagrind þess búin að fá á sig fullkomna mynd, en samanstendur af brjóski enn sem komið er.

65 daga gamalt getur barnið kreppt hnefann. Ef eitthvað er látið strjúkast við lófa þess, grípur það um hlutinn.

En það eru mörg önnur og brýnni verkefni, sem barnið þarf að glíma við, fyrir utan líkamsþroskann. Hið nýgetna og vaxandi frumfóstur, sem er "hlaðið" sínum eigin erfðaupplýsingum, hefur einnig í sér þann útbúnað, sem nauðsynlegur er til að stjórna eigin vexti og þróun og þar á ofan til að leysa ýmis vandamál, sem upp koma í umhverfi þess.

"Hvernig flyt ég mömmu fréttina?"

Fyrsta verkefnið og það, sem er brýnast fyrir hið vaxandi ungviði, þegar það er að hreiðra um sig í legveggnum, er að koma í veg fyrir, að móðirin hafi tíðir eftir getnaðinn. M.ö.o.: "Hvernig á ég að koma fréttinni til skila til mömmu?" Hvernig getur ungviðið látið móður sína vita um þungunina? Það gerir það með því að koma af stað merkilegri atburðarás: með því að framleiða hormón, sem hefur áhrif á innri gerð eggjastokksins, sem síðan stuðlar að því, að slímhúð legsins varðveitist, og hefur reyndar einnig ákaflega víðtæk áhrif á líkamskerfi móðurinnar. Þetta er stórkostlegt afrek, vegna þess að hér er um að ræða mannslíf í frumvexti, sem að þyngd til mælist í milljónustu hlutum úr grammi, en hefur áhrif á vissan hluta efnastokksins, sem mælist í þúsundustu hlutum úr grammi, sem síðan hefur áhrif á legvegginn, sem vega má í grömmum, og að lokum á allt lífeðliskerfi móðurinnar, sem vegur tugi kílóa. Við sjáum þannig, hve gífurleg áhrif frumfóstrið hefur, meðan það er ennþá aðeins þúsund-milljónasti hluti af þyngd móðurinnar.

Annar áríðandi vandi, sem þessi vaxandi mannvera þarf að leysa, er aðlögun hennar að lífeðliskerfi móðurinnar. Hjá lífverum eins og mönnum, sem getnir eru af föður og móður, verður ekki hjá því komizt, að móðir og barn eru með sitt hvort ónæmiskerfið. Samt verða þau að þola hvort annað í nánu sambýli allan meðgöngutímann. Ugglaust bíða Nóbelsverðlaunin þess manns, sem finnur lausn á þessari ráðgátu. En nokkur huggun má það vera, að hvert um sig höfum við leyst þetta vandamál fyrir fæðinguna – ella værum við alls ekki hér. Vandinn er bara sá, að við getum ekki munað, hvernig við fórum að því!

Barnið veit bezt

Og að lokum er það barnið, sem ákvarðar lengd meðgöngutímans – sem ákveður sinn eigin fæðingardag – sem gerir upp við sig, hvenær það er "fullbakað í ofninum". Enginn vafi leikur á því, að upphaf fæðingarhríðanna er einhliða ákvörðun barnsins (nema í þeim tilfellum þegar hjúkrunarfólkið hefur góð, læknisfræðileg rök fyrir því, að það viti betur en barnið).

Þessi hugmynd, að það sé barnið, sem haldi við stjórnvölinn varðandi lengd meðgöngunnar, er engin ný frétt fyrir konur, sem orðið hafa þungaðar. Hins vegar er þetta tiltölulega ný hugmynd í fæðingarlækningum og reyndar mjög mikilvæg, því að ekki er unnt að skilja þær líkamsbreytingar, sem eiga sér stað við meðgönguna, ef ekki fyrir hendi þekking á lífeðliskerfi hins ráðandi aðila í þessu sambýli.

Þrátt fyrir svo frábært afreksverk ófædda barnsins kynnu ýmsir að hafa það enn á tilfinningunni, að hér sé einungis um vitvana "vélmenni" að ræða, með sína ákveðnu eðlishneigðaforskrift. Ekkert gæti verið fjær sanni. Jafnskjótt sem líffæri og útlimir þróast í ófædda barninu, fer það að beita þeim. Þróun þessara líkamshluta helzt í hendur við þróun athafna þeirra. Það, sem skiptir enn meira máli, er sú staðreynd, að uppbygging eða mótun líkamshlutanna og svo aftur starfsemi þeirra verða fyrir gagnkvæmum áhrifum hvort af öðru.

Við vitum, að ófædd börn hreyfa sig léttilega og með yndisþokka. Það, sem ræður stöðu fóstursins í leginu, er hversu þægileg hún er fyrir fóstrið. Börnin sjálf ákveða, hvernig þau liggja og hvernig þau koma út í fæðingunni. Þetta er einfaldlega spurning um þægindi fóstursins. Því verður ekki neitað, að með vali sínu á vissri þægindastöðu kann það að velja stellingu, sem torveldar eða beinlínis kemur í veg fyrir, að það komist út um leggöngin. Þegar slíkar aðstæður koma upp, mætti auðvitað álasa barninu fyrir skort á framsýni. En það er reyndar fyrirbæri, sem ekki er með öllu óþekkt meðal fullorðinna!

Við vitum, að ófædda barnið fær hiksta

Við vitum, að barnið snýr sér í móðurlífinu, meðan það hefur ennþá nægilegt olnbogarúm, og hvernig það snýr sér í hringi með fótunum, oftast með því að fikra sig aftur á bak og láta höfuðið byrja snúninginn, en stundum með því að feta sig áfram og láta búk og höfuð fylgja á eftir. Við vitum, að börnin snúa sér frá einni hlið til annarrar með löngum, glæsilegum, gormlaga snúningi.

Við vitum, að barn í móðurkviði er næmt fyrir snertingu, ljósi, hljóði og ertingu, sem a.m.k. mér og þér myndi finnast sársaukafull. Við vitum, að ófædda barnið drekkur af líknarbelgsvökvanum (legvatninu) – í ríkara mæli, ef hann er gerður sætur, en minna, ef vondu bragðefni er sprautað í hann.

Við vitum líka, að ófædda barnið fær hiksta, sýgur á sér þumalfingurna, vakir, sefur og stundar æfingar með öndunarfærum sínum.

Þið sjáið af þessu, að það, sem hér er um að ræða, er ekki vitvana, pasturslítil og tilfinningalaus "planta", heldur mannvera á yngsta skeiði sínu – kraftmikil, liðug og sveigjanleg, með staðfasta stjórn á umhverfi sínu og því sem fram undan er.

Nefnd valinna manna í Ástralíu, sem kölluð var saman 1966 til þess að íhuga breytingar á fóstureyðingalöggjöfinni, viðurkenndi, að upplýsingar færustu líffræðinga gerðu það allskostar óumdeilanlegt, að mannlegt líf hefjist við getnaðinn. En samt klykkti nefndin út með því að segja, að margir myndu einfaldlega ekki samþykkja þessa niðurstöðu, og bætti svo við þeirri nýstárlegu röksemd, að lagfæra bæri hegningarlögin, svo að þau féllu að þessari útbreiddu fáfræði alls þorra manna ...

Hártoganir og staðreyndir

Sú skilgreining, sem kastað hefur verið fram, að barnið sé aðeins "möguleiki til þess að verða manneskja" (potential human being), er athyglisverð þó ekki sé nema vegna þess, hve læknum er gjarnt að grípa til hennar. Hún er að sjálfsögðu engin skilgreining, vegna þess að hún segir okkur ekkert um það, hvað fóstrið er, heldur einungis, hvað það muni verða. Það er mikilvægt að gera sér grein fyrir því, að hugtakið "möguleiki" í þessu sambandi er hvorki læknisfræðilegt, lífeðlisfræðilegt né líffræðilegt hugtak, heldur komið úr orðaforða frumspekinnar. Ef við aftur á móti höldum okkur við tungutak líffræði og læknisfræði og tölum um mannveru í vexti eða þróun, þá stöndum við á föstum grunni læknisfræðilegra staðreynda.

Við höfum einnig heyrt þá fullyrðingu, að fyrir fæðinguna sé barnið ekki fært um að lifa sjálfstætt. Vitaskuld getur þessi spurning um sjálfstæða tilveru hvorki útilokað það né afsannað, að um mannlegt líf er að ræða, heldur er hún einfaldlega tilraun til að taka það fram, í hvaða sérstaka umhverfi líf okkar geti þrifizt, þ.e.a.s. hvað varðar hitastig, fæðu- og drykkjarþörf o.s.frv.

En það eru ekki slíkar kringumstæður, sem í reynd verða ófæddum börnum að fjörtjóni, heldur sú afdrifaríka staðreynd, að menn hafa búið þeim önnur örlög – og þau örlög eiga lítið sem ekkert skylt við læknisfræði. Það eina læknisfræðilega við fóstureyðingu er það, að hún er framkvæmd af læknum og að þeir verða að glíma við eftirköst hennar, þegar frá líður. Sjáið þið til: Þegar ófæddum börnum er veitt læknisumönnun, þá eru vaxtarskilyrði þeirra o.s.frv. afgerandi mikilvæg. En ef til stendur að deyða barnið, þá eru slíkar upplýsingar um vöxt þess og viðgang aðeins feimnismál og til óþæginda ...

Í Genfarsamþykkt Alþjóðasambands lækna segir: "Ég mun sýna fyllstu virðingu gagnvart mannlegu lífi allt frá getnaði." Í inngangi yfirlýsingar Sameinuðu þjóðanna um réttindi barnsins er bent á, að vegna líkamlegs og andlegs þroskaleysis þarfnist börnin sérstaks öryggis og umhyggju, þ.m.t. viðeigandi réttarverndar, fyrir fæðingu jafnt sem eftir hana. Það, sem við öll verðum að gera, er að spyrja sýknt og heilagt þá, sem við umgöngumst, hvernig það að drepa þá, sem eru til óþæginda, hina óvelkomnu og fötluðu, geti kallazt "fyllsta virðing", "sérstök umhyggja" eða "viðeigandi réttarvernd" .....

Þýð. JVJ. – Hér er að endingu vert að benda á erindi, sem flutt var á fundi Lífsvonar 12. des. 1992, um Sir William Liley – ævi hans og störf að rannsóknum og lækningum á ófæddum börnum.

2 athugasemdir

Athugasemd from: Jón Rafn Jóhannsson
Jón Rafn Jóhannsson

Þakka þér fyrir þessa fróðlegu grein, Jón Valur! Okkur vantar meira af slíkri uppfræðslu hér á kirkju.net til að halda merki Felix páfa á lofti. Enn og aftur, hugheilar þakkir!

26.06.06 @ 05:52
Athugasemd from: Jon Valur Jensson

Þegar Jón Rafn talar um “að halda merki Felix páfa [þriðja] á lofti,” á hann við þessi ágætu einkunnarorð, sem frá honum eru komin: Að standa ekki gegn villu er að samþykkja hana – að verja ekki sannleikann er að brjóta hann á bak aftur.

26.06.06 @ 12:41
Ábyrgðarmaður: Jón Valur Jensson guðfræðingur.

Önnur blogg sama höfundar: [jonvalurjensson.blog.is]
[jvj.blog.is]
[krist.blog.is] (þátttaka)
[lifsrettur.blog.is]

Leit

  XML Feeds

powered by b2evolution free blog software