« Hin neikvæða hlið líffæragjafa – mál Oklahomabúans Zack Dunlap og „heiladauðakenningin“Hin heilaga fjölskylda og hreinleiki hjartans »

24.10.10

  19:49:46, Skrásetjari: Jón Rafn Jóhannsson, 2529 orð  
Flokkur: Kaþólska kirkjan, uppspretta vestrænnar menningar

Vísindin og kirkjan – Galíleómálið

Af gefnu tilefni vil ég taka fram að þetta er þýðing úr ritinu „How the Catholic Church Built Western Civilization“ eftir Thomas E. Woods, Jr., Ph. D sem kom út á vegum Regnery Publishing, Inc. í Boston árið 2005. Þýðing ritsins mun birtast smám saman hér á kirkju.net á næstu mánuðum. Til stendur að gefa ritið út að þýðingu þess lokinni. Þetta er rit sem ætti að vera til í bókaskáp sem flestra kaþólskra heimila í landinu unglingum til uppfræðslu, ekki síður en þeim sem eldri eru. Í sannleika sagt getum við verið afar „stolt“ af kirkjunni okkar.

Var einungis um tilviljun að ræða að vísindi nútímans þróuðust að stórum hluta til í kaþólsku andrúmslofti, eða var það eitthvað við kaþólskuna sem stóð framförum vísindanna að baki? Jafnvel það eitt að brydda upp á þessari spurningu er að brjóta í bága við tískustefnu samtíma okkar. Stöðugt fleiri vísindamenn hafa engu að síður tekið að velta þessari spurningu fyrir sér og svarið gæti komið sumum á óvart.

Hér er ekki um neitt smámál að ræða. Í hugum almennings var það einmitt kaþólska kirkjan sem ól á fjandskap gagnvart vísindunum. Hin einhliða umfjöllun um mál Galíleós sem flestum er kunnugt um má að mestu kenna um þá útbreiddu skoðun, að kirkja hafi staðið í vegi fyrir þróun vísindanna. En jafnvel mál Galíleós er fjarri því að vera jafn slæmt og illgjarnir menn halda fram. Hinn víðkunni trúskiptingur nítjándu aldarinnar, John Henry Newman kardínáli, sem sagði skilið við anglíkanismann, taldi það umhugsunarvert að þetta væri eina dæmið sem kæmi upp í hugum manna.

Deilan snerist um verk pólska stjörnufræðingsins Nikulásar Kópernikusar (1473-1543). Sumt í umfjöllun nútímans hefur gengið svo langt að fullyrða að hann hafi verið prestur, en þótt hann væri nefndur kanúki eftir kirkjustefnuna í Frauenburg síðla árs 1490, þá er ekkert að finna um að hann hafi tekið æðri vígslu. Einu ummælin sem gefa í skyn að hann hafi verið prestur má rekja til ákvörðunar Sigismund konungs Póllands að minnast á hann sem einn fjögurra umsækjenda um laust biskupsembætti. Hver sem staða hans svo var innan prestastéttarinnar, þá kom Kópernikus úr trúrækinni fjölskyldu sem öll tilheyrði þriðju reglu hl. Dóminikusar, en hún gerði leikmönnum það kleift að taka þátt í guðrækni og arfleifð Dóminíkanareglunnar. [1]

Sem vísindamaður naut hann alls ekki svo lítillar viðurkenningar hjá kirkjulegum yfirvöldum. Hann var ráðgjafi Fimmta Lateranþingsins (1512-1517) í sambandi við endurskoðun tímatalsins. 1531 tók Kóperníkus saman yfirlit um stjörnufræði sína fyrir vinahóp sinn. Það vakti verulega athygli. Clement páfi VII kallaði til Jóhann Albert Widmanstadt til að halda almennan fyrirlestur í Vatíkaninu um efnið. Áhrifin sem þetta hafði á páfa voru afar jákvæð og djúpstæð. [2]

Samtímis þessu hvöttu kirkjunnar menn jafnt sem menntamenn Kópernikus að gefa út verk til almennrar dreifingar. Vegna þessarar hvatningar vina sinna og þar á meðal nokkurra kirkjuhöfðingja samdi Kópernikus og gaf út Sex bækur um snúning himinhnattanna sem hann tileinkaði Páli páfa III 1543. Kópernikus hélt fast við ríkjandi stjörnufræði samtímans sem stóð í mikilli þakkarskuld við Aristóteles, en fyrst og fremst þó Ptólemeus (87-150 e. Kr.), einstaklega hæfileikaríkan grískan stjörnufræðing sem lagði fram jarðmiðjulíkan. Stjörnufræði Kópernikusar var í samhljóðan við hinn gríska forvera hans hvað laut að hringlögun himinhnattanna, sporbauga og jafnan ganghraða reikistjarnanna. Hin afgerandi frávik fólust í því að hann staðsetti sólina í stað jarðarinnar í miðju kerfis síns. Þetta sólmiðjulíkan sýndi jörðina á sporbaug umhverfis sólu rétt eins og hinar reikistjörnurnar.

Þótt mótmælendur gagnrýndu harðlega þetta líkan vegna þess að það stangaðist á við heilaga Ritningu, þá sætti kerfi Kópernikusar engri ritskoðun af hálfu kaþólskra fyrr en Galíleómálið kom til sögunnar. Galíleó Galílei (1564-1642) hafði auk verka sinna í eðlisfræði, gert nokkrar mikilvægar stjarnfræðilegar athuganir með stjörnusjónauka sínum sem varð til að draga úr mikilvægi kerfis Ptólemeusar. Hann sá fjöll á tunglinu og hafnaði því hinni fornu fullvissu um að himinhnettirnir væru fullkomlega kúlulaga. Hann uppgötvaði fjögur tungl sem gengu umhverfis Júpiter og sýndi þar með ekki einungis fram á fyrirbrigði á himnum sem Ptólemeus og fornmönnum var ókunnugt um, heldur einnig að reikistjarna sem hreyfðist í geymnum skildi ekki eftir sig minni fylgihnetti sína. (Þetta voru ein þeirra mótraka sem gripið var til gegn hreyfingu jarðar: Að tunglið yrði skilið eftir.). Uppgötvun Galíleós á kvartelaskiptum Venusar voru enn önnur sönnunin til stuðnings kerfi Kópernikusar.

Í upphafi tóku málsmetandi kirkjunnar menn Galíleó og verkum hans opnum örmum. Síðla hluta árs 1610 skrifaði faðir Kristófer Clavíus bréf til Galíleós þar sem hann greindi honum frá því að stjörnufræðingar Jesúíta hefðu staðfest uppgötvanir hans með hjálp stjörnusjónauka. Þegar Galíleó fór til Rómar á næsta ári fékk hann höfðinglegar viðtökur bæði af hálfu kirkjunnar manna sem veraldlegra valdsmanna. Hann skrifaði vini sínum: „Margir valinkunnir kardínálar, kirkjuhöfðingjar og prinsar í borginni hafa tekið á móti mér og tjáð mér velþóknun sína.“ Hann fékk langa áheyrn hjá Páli V páfa og Jesúítarnir við rómverska háskólann héldu sérstakan dag honum til heiðurs. Galíleó var yfir sig ánægður. Í áheyrn kardínála, menntamanna, veraldlegra valdsmanna og nemenda föður Kristófers Grienberger hélt faðir Clavíus erindi um uppgötvanir stjörnufræðingsins.

Þetta voru fræðimenn sem nutu umtalsverðs álits. Faðir Grienberger, sem hafði persónulega staðfest uppgötvanir Galíleós á tunglum Júpiters, var hæfileikaríkur stjörnufræðingur sem fundið hafði upp miðbaugsstellið (equatorial mount) sem sneri stjörnusjónauka með hliðsjón af jarðaröxlinum. Hann lagði einnig sitt af mörkum til að þróa speglasjónauka nútímans. [3]

Faðir Clavíus, sem var einn mesti stærðfræðingur samtíma síns, var formaður þeirrar nefndar sem vann að gregoríanska tímatalinu (sem tók gildi 1582) sem leysti úr vandkvæðum þeim sem stóðu gamla júlíanska tímatalinu fyrir þrifum. Útreikningar hans hvað vörðuðu lengd sólarársins og fjölda þeirra daga sem nauðsynlegir væru svo að tímatalið væri til samræmis við sólarárið – níutíu og sjö hlaupadagar á 400 ára fresti – voru svo nákvæmir, að fræðimenn allt fram á daginn í dag undrast hvernig honum auðnaðist þetta. [4]

Allt virtist því ganga Galíleó í haginn. Þegar hann gaf út rit sitt Bréfin um sólarblettina 1612 þar sem hann lýsti kerfi Kópernikusar í fyrsta skipti á prenti, var eitt bréfanna sem tjáði hrifningu sína og aðdáun frá engum öðrum en Maffeo Barberini kardínála, sem síðar varð Úrban páfi VIII. [5]

Kirkjan hafði ekkert við kerfi Kópernikusar að athuga sem hið ágætasta kenningarlíkan sem væri þó fjarri því að hafa verið sannað, en sem lýsti þó fyrirbrigðum himinhvolfsins með mun fyllri hætti en önnur kerfi. Talið var að enginn skaði gæti hlotist af því að nota það sem tilgátu. Galíleó trúði því hins vegar að kerfi Kópernikusar væri bókstaflega það eina rétta fremur en tilgáta sem gæfi réttar niðurstöður til kynna. En hann hafði engin haldbær rök tiltæk til að renna stoðum undir þessa trú sína. Þannig hélt hann því fram að flóð og fjara sönnuðu hreyfingar jarðar, tilgáta sem vísindamenn nútímans telja harla vafasama. Hann gat ekki svarað þeim andmælum um sólmiðjukenninguna sem rekja mátti allt aftur til Aristótelesar, að ef jörðin hreyfðist, þá ætti að gæta hliðstæðra áhrifa í stjörnuathugunum, en um slíkt væri ekki að ræða. Þrátt fyrir skort á ströngum vísindalegum sönnunum, hélt Galíleó fast við bókstaflegan sannleika kerfis Kópernikusar og neitaði að samþykkja þá málamiðlun, að kerfi Kópernikusar yrði kennt sem tilgáta þar til unnt væri að færa sannfærandi rök fyrir tilvist þess. Þegar hann tók síðan það skref að leggja til að ritningarvers sem gengu þvert á kenninguna yrði að endurtúlka, þá var litið svo á að hann hefði misboðið kennivaldi guðfræðinnar.

Jerome Langford, sem er einn virtasti fræðimaður nútímans í þessum efnum, hefur dregið saman gagnlegt yfirlit yfir afstöðu Galíleós í þessum efnum:

Galíleó var sannfærður um að sannleikurinn væri á hans bandi. En hlutlægt séð hafði hann engar sannanir í höndum til að vinna fróðleiksfúsa menn til fylgis við sig. Það er fullkomlega óréttmætt, eins og sumir sagnfræðingar hafa haldið fram, að enginn hafi viljað hlusta á rök hans og að honum hafi aldrei verið gefið tækifæri. Stjörnufræðingar Jesúíta höfðu staðfest uppgötvanir hans. Þeir biðu ákafir eftir frekari sönnunum þannig að þeir gætu sagt skilið við kerfi Tychos [6] og gætu stutt kópernikusismann með óyggjandi hætti. Margir málsmetandi kirkjunnar menn trúðu því að Galíleó gæti haft á réttu að standa, en að þeir yrðu að bíða eftir sönnunum.

„Augljóst er að það er ekki með öllu leyti rétt að draga upp mynd af Galíleó sem saklausu fórnarlambi andspænis fordómum og fáfræði heimsins,“ heldur Langford áfram. „Hluta af sök þeirri sem kom í kjölfarið má heimfæra á Galíleó sjálfan. Hann hafnaði málamiðluninni og hélt svo út í deilurnar án nægilegra sannana og það á heimavígstöðvum guðfræðinganna.“ [7]

Það var þrákelkni Galíleós hvað laut að bókstaflegu sannleiksgildi kópernikusismans sem vandkvæðin fólust í vegna þess að á yfirborðinu virtist sólmiðjukenningin stangast á við ákveðin vers í Ritningunni. Kirkjan, sem var viðkvæm fyrir ásökunum mótmælenda um að kaþólikkar virtu Biblíuna að vettugi, hikaði við að ljá máls á því að bókstafleg túlkun Ritningarinnar – sem virtist á stundum gefa hreyfingarleysi jarðar til kynna – yrði lögð til hliðar til að koma til móts við ósannaða vísindalega kenningu. [8] Jafnvel hér var kirkjan þó ekki ósveigjanleg, eins og athugasemd Róberts Bellarmino kardínála frá þessum tíma leiðir í ljós:

Ef raunverulega sönnun lægi fyrir um að sólin sé miðja alheimsins, að jörðin sé á þriðja himni (sporbaug) og að sólin gangi ekki í kringum jörðina heldur jörðin í kringum sólina, þá verðum við að ganga fram af fyllstu aðgát í að útskýra ákveðna ritningarstaði sem virðast boða hið gagnstæða. Við ættum fremur að viðurkenna að við skiljum þá ekki, fremur en að lýsa því yfir að skoðun sé röng sem sannað hefur verið að sé rétt. Hvað sjálfan mig áhrærir mun ég ekki trúa slíkum sönnunum fyrr en þær hafa verið lagðar á borðið. [9]

Hin opna fræðilega afstaða Bellarmino gagnvart nýrri túlkun á Biblíunni í ljósi þess að heildarþekkingarsjóður mannkynsins hefði aukist er ekkert neitt nýtt af nálinni. Heilagur Albert hinn mikli var sömu skoðunar. „Það gerist iðulega,“ skrifaði hann eitt sinn, „að einhver ákveðin spurning sem lýtur að jörðinni og himinhvolfinu eða að einhverju öðrum fyrirbrigðum þessa heims, sem einhver sem ekki er kristinn hefur öðlast þekkingu á sem grundvallast á mikilli umhugsun eða athugunum sé ekki virt. Það er afar illa til fundið og óheppilegt og ber að forðast þegar kristinn einstaklingur talar um slík málefni eins og þau séu ekki í samhljóðan við kristnar Ritningar og einhver vantrúaður heyrir hann tala um slíka fjarstæðu og sér að hann er eins fjarri sannleikanum eins og austrið frá vestrinu og getur vart haldið aftur af sér að hlæja.“ [10] Heilagur Tómas frá Akvínó hafði með sama hætti varað við afleiðingum þess að halda fast við ákveðna túlkun á Ritningunni eftir að þungvæg rök leiddu í ljós að hún fengi ekki staðist:

Í fyrsta lagi verður að líta á sannleika Ritningarinnar sem óvéfengjanlegan. Í öðru lagi, að þegar unnt er að túlka ritningarstað með ýmsum hætti, þá ætti ekki að halda fram ákveðinni túlkun af slíkri óbilgirni, að ef sannfærandi rök sýna fram á að hún sé röng, að einhver dirfist að halda því fram engu að síður að þetta sé hin ákveðna merking textans. Að öðrum kosti munu vantrúaðir smána heilagar Ritningar og vegurinn til trúar lokast fyrir þeim. [11]

Þegar Galíleó hafði engu að síður opinberlega og af miklu harðfylgi haldið áfram að kenna kerfi Kópernikusar sögðu kirkjuleg yfirvöld honum 1616, að hann yrði að hætta að kenna kenningu Kópernikusar sem staðreynd, þrátt fyrir að honum væri heimilt að fjalla um hana sem tilgátu. Galíleó samþykkti þetta og hélt störfum sínum áfram.

Árið 1624 tókst hann aðra ferð á hendur til Rómar þar sem honum var enn að nýju tekið af velvild og áhrifamiklir kardínálar voru ákafir að ræða við hann um vísindaleg málefni. Úrban páfi VIII færði honum nokkrar mikilsverðar gjafir, þar á meðal tvær gullmedalíur og yfirlýsingu um að Galíleó nyti verndar hans í starfi sínu. Páfi talaði um frægð Galíleós „eins og hún uppljómaði himnhvelfinguna og breiddist út um alla heimsbyggðina.“ Úrban VIII sagði stjörnufræðingnum að kirkjan hefði aldrei lýst því yfir að kópernikusisminn væri villutrú og það myndi kirkjan aldrei gera.

Verk Galíleós Samræður um hið mikla heimskerfi sem gefið var út 1632 var samið að beiðni páfa, en í því lét Galíleó undir höfuð leggjast að fjalla um kópernikusismann sem tilgátu, heldur sem viðurkennda staðreynd. Mörgum árum síðar gerði faðir Grienberger þá athugsemd, að ef stjörnufræðingurinn mikli hefði fjallað um niðurstöður sínar sem tilgátu, þá hefði hann getað skrifað eins og honum byði í brjósti“ [12]. Illu heilli fyrir Galíleó var því lýst yfir 1633 að hann væri grunaður um trúvillu og skipað að hætta að gefa út verk um kópernikusismann. Galíleó hélt áfram að skrifa önnur mikilsverð verk, einkum Umræður um hin nýju vísindi (1635). En þessi óviturlega ritskoðun verka hans hefur verið blettur á ásýnd kirkjunnar.

Það er hins vegar mikilvægt engu að síður að gera ekki of mikið úr því sem gerðist. Eða eins og J. L. Heilbron segir:

Upplýstir samtíðarmenn hans mátu mikils að skírskotunin til villutrúar í sambandi við Galíleó eða Kópernikus hafði enga almenna eða guðfræðilega merkingu. Gassendi gerði þá athugasemd 1642 að ákvörðun kardínálanna, og þótt hún hefði verið mikilvæg hvað áhrærði hina trúuðu, jafngilti ekki trúarsetningu. 1651 sagði Riccioli að sólmiðjuisminn væri ekki villutrú; Mengoli 1675 að túlkun Ritninganna væri einungis bindandi fyrir kaþólikka ef hún væri samþykkt á almennu kirkjuþingi og Baldigiani 1678 að þetta væri öllum ljóst. [13]

Staðreyndin er sú að kaþólskum vísindamönnum var heimilt í grundvallaratriðum að halda rannsóknum sínum hindrunarlaust áfram, svo framarlega sem þeir litu á göngu jarðar sem tilgátu (eins og ákvæði hins heilaga Sætis hafði lagt áherslu á 1616). Ákvæði frá 1633 lagði enn frekari áherslu á þetta og undanskildi ákvæðið um göngu jarðar frá fræðilegri umræðu. Þar sem kaþólskir vísindamenn líkt og faðir Roger Bosovich héldu áfram að víkja að göngu jarðarinnar í verkum sínum, veltu fræðimenn því fyrir sér, að ákvæðinu frá 1633 væri líklegast beint „sérstaklega að Galíleó Galílei persónulega,“ en ekki að kaþólskum vísindamönnum almennt. [14]

Vissulega reyndist fordæmingin á Galíleó, jafnvel þó að hún sé skilin í réttu samhengi fremur en í þeim öfgafullu og tilfinningaríku umræðum sem eru svo algengar í fjölmiðlum, kirkjunni til álitshnekkis og hratt á stað goðsögninni um fjandskap kirkjunnar í garð vísindanna.

Endurbirtur pistill sem birtist áður hér á vefsetrinu 12.06.08.

Næst: Guð hefur sett öllu „mæli, tölu og þyngd.“

[1]. J. G. Hagen, "Nicolaus Copernicus," Catholic Encyclopedia, 2nd ed. 1913.
[2]. Jerome J. Langford. O.P., Galileo, Sciences and the Church (New York: Desclee, 1966), 35.
[3]. Joseph MacDonnell, S.J., Jesuit Geometers (St. Louis: Institute og Jesuit Sources, 1989), 19.
[4]. Ibid.
[5]. Langford, 45, 52.
[6]. Tycho Brae (1546-1601), lagði fram stjarnfræðilegt kerfi sem lá mitt á milli jarðmiðjukerfis Ptólemeusar og sólmiðjukerfis Galíleós. Í kerfi hans snerust allar reikistjörnunnar umhverfis sólu, en sólin snerist um kyrrstæða jörð.
[7]. Ibid, 68-69.
[8]. Spr. Jaques Barzun, From Dawn to Decadence (New York: Harper Collins, 2001), 40; góða heildarumfjöllun um efnið má sjá hjá H. W. Crocker III, Triumph (Roseville, Calif: Prima, 2001), 309-311.
[9]. James Brodrick, The Life and Work of Blessed Robert Francis Cardinal Bellarmine, S.J., 1542-1621, vol. 2 (London: Burns, Oates and Washbourne, 1928), 359.
[10]. James J. Walsh, The Popes and Sciences (New York: Fordham University Press, 1911), 296-297.
[11]. Edward Grant, "Sciences and Theology in the Middle Ages," in God and Nature: Historical Essays on the Encounter Between Christianity and Science, David C. Lindberg and Ronald L. Numbers, eds. (Berkely: University of California Press, 1986), 63.
[12]. MacDonnell, Appendix 1, 6-7
[13]. J.L. Heilbron, The Sun in the Church: Cathedrals as Solar Observatories (Cambridge: Harvard University Press 1999), 203.
[14]. Zdenek Kopal, "The Contribution of Boscovich to Astronomy and Geodesy," in Roger Joseph Bosovich, S.J., F.R.S., 1711-1787, Lancelot Law Whyte, ed. (New York: Fordham University Press, 1961), 173.

6 athugasemdir

Athugasemd from: Ragnar Geir Brynjólfsson

Takk fyrir þessa grein Jón, greinilegt að þú hefur lagt mikla vinnu í hana. Það hefur verið gert mikið úr máli Galílei. Mig minnir t.d. að í leikriti Berthold Brecht sé málið sýnt þannig að kirkjunnar menn hafi ekki viljað horfa í stjörnusjónaukann. En hvað sem því líður þá hefur kirkjan fyrir löngu tekið upp afstöðu Tómasar frá Akvínó þ.e. að ritningin sé aðeins grundvöllur að guðfræði og siðfræði en ekki raunvísindum.

13.06.08 @ 10:13
Athugasemd from: Jon Valur Jensson

Mjög athyglisverð grein sem ég þarf að lesa vel, nafni.

Kanón er til í ýmissi merkingu, samkvæmt http://www.thefreedictionary.com/canon, eins og við vitum (um regluritasafn Biblíunnar, kirkjulögin, canon missæ [þann hluta messunnar sem byrjar eftir præfatíuna og endar rétt á undan Faðirvorinu), um atriði í tónlist o.fl.], en um menn er orðið viðhaft um þessa tvo hópa (og sem sé ekki aðeins um presta):

1. A member of a chapter of priests serving in a cathedral or collegiate church.
2. A member of certain religious communities living under a common rule and bound by vows.

Canon (latneska og enska orðið og í fleiri málum) er þýtt á íslenzku kanúki, og er það líklega komið úr norrænum málum og þýzku. Eins er talað um kórsbræður (í fyrri merkingunni, þ.e. um presta við dómkirkjur, en hver dómkirkja er biskupskirkja eftir eðli sínu og uppruna) – t.d. kórsbræður í Niðarósi í kaþólskum sið.

‘Chapter of priests’ er kallað dómkapítuli og merkir hóp kórsbræðra.

Í anglíkönsku kirkjunni er þessum embættum viðhaldið og þau veitt meiri háttar prestum sem framarlega standa um lærdóm eða kennimennsku.

13.06.08 @ 21:30
Athugasemd from: Jón Rafn Jóhannsson
Jón Rafn Jóhannsson

Þakka þér góðar ábendingar, Jón Valur. Ber er hver að baki nema sér bróður eigi.

Ragnar, rétt hjá þér. Hin átakanlega fáfræði Íslendinga hvað varðar kaþólsku kirkjuna má sjá á bloggsíðum daglega, afstöðu sem mótast af algjörri fáfræði.

Gott dæmi mátti sjá um þetta á Moggabloggi Jóns Vals nýlega þar sem kona ein fullyrti að það hefði verið rómversk-kaþólska kirkjan sem innleitt hefði þá reglu að konur væru ekki vígðar til prests á fjórtándu öld! Sannleikurinn er sá að þetta var á þeim tíma búinn að vera óaðskiljanlegur hluti erfikenningar kirkjunnar í 1400 ár, bæði innan Vesturkirkjunnar og Austurkirkjunnar.

Iðulega er sá sannleikur sem lifað hefur í kirkjunni um aldir ekki tjáður í trúarsetningum fyrr en ytri aðstæður krefjast þess.

Dæmi skal tekið af uppnumningu Maríu til himna sem kirkjufeðurnir fjölluðu þegar um á annarri öld (m. a. Tatían). Þótt þessi kenning væri ævaforn var hún ekki sett fram sem trúarsetning fyrr en um miðbik nítjándu aldar, einkum vegna ásóknar veraldarhyggjunnar á sviði þjóðmála, m.a. fríhyggjusinna og frímúrarahreyfingarinnar.

Þessi trúarsetning boðar ekkert annað en að allir sem trúa á Drottin munu rísa upp til dýrðar eins og María Guðsmóðir að þessi lífi loknu. Enok og Elía voru hafnir upp og Kristur sté til himna sem frumávöxtur margra bræðra og systra

14.06.08 @ 06:39
Athugasemd from: Jon Valur Jensson

Já, vanþekkingin á kaþólsku kirkjunni er gífurleg – og fordómarnir að sama skapi miklir hjá allt of mörgum nú á dögum. Þetta er í raun verkefni fyrir alla upplýsta, kaþólska menn að vinna að: að gera grein fyrir réttum skilningi trúar sinnar og andæfa röngum fullyrðingum um kaþólsk trúaratriði; að stíga fram og segja a.m.k. eitthvað á þessa leið (í hvert sinn, er trúnni og siðferðisboðskap kirkjunnar er í móti mælt):

Þetta er ekki rétt túlkað, ekki eins og við kaþólskir menn skiljum trú okkar (eða: ekki eins og okkur kaþólskum er kennt).

15.06.08 @ 11:23
Athugasemd from: Jón Rafn Jóhannsson
Jón Rafn Jóhannsson

Hjartanlega sammála þér nafni. Orðið „ho eini Petrus“ hafa staðið á gröf Péturs í 2000 ár og tala til okkar yfir aldanna djúp.

Þau ættu jafnvel að tala til þjóðkirkju Íslendinga sem að mínu mati hefur ekki tekið „risastökk til framtíðar“ heldur heljarstökk, líkt og hluti Biskupakirkjunnar í Bandaríkjunum.

Tæpast héraðsbrestur innan kristninnar, en engu að síður hryggilegt.

15.06.08 @ 13:27
Athugasemd from: Jon Valur Jensson

Vegna þessarar greinar vil ég gjarnan vísa til skrifa á þessari vefslóð á Moggabloggi mínu: Kópernikus, Galileo, Bruno – og Hjörtur Magni flatjarðarkenningarsmiður, sbr. og athugasemdir mínar hér og víðar.

26.06.08 @ 14:06