« Ritningarlesturinn 11. september 2006Ritningarlesturinn 10. september 2006 »

10.09.06

  09:24:56, Skrásetjari: Jón Rafn Jóhannsson, 615 orð  
Flokkur: Hugleiðingar

Vísindi reynsluguðfræðinnar

Í dag heiðrar kirkjan minningu kínverska píslarvottsins blessaðrar Agnesar Tsao-Kouy. Hún var ekkja og varð að sæta ofsóknum fyrir trúboð sitt og trúfræðslu og þegar hún gekk inn í búrið í Sy-Lin-Hien til að bera dýrð Drottins vitni var hún full gleði og þakklætis. Þetta gera kínverskir bræður okkar og systur enn í dag vegna þess að „hann hefur ekki gleymt hrópi hinna hrjáðu og lyftir þeim upp frá hliðum dauðans (Sl 9. 13, 14). Allir hafa þessir hrjáðu Drottins heyrt orð hans: Effaþa! hljóma í eigin hjörtum. „Dýr er í augum Drottins dauði dýrkenda hans“ (Sl 116. 15).

Þessa raust hafa einnig fjölmargir af hæfustu vísindamönnum heimsins í dag heyrt hljóma í hjarta sínu. Og þar sem þessir hinir sömu hafa tamið sér grundvallarþátt allra raunvísinda, það er að segja að staðfesta vísindalegar niðurstöður sínar með því að endurtaka þær og sannreyna, eiga þeir auðvelt með að tileinka sér vísindi trúarinnar sem grundvallast á sömu forsendunni: ENDURTEKNINGUNNI!

Síðustu 2000 árin hafa kristnir karlar og konur sífellt endurtekið þessa tilraun, að biðja Drottin um að stinga fingrinum í eyra sitt til að heyra orðið Effaþa! Niðurstaðan er ávallt ein og söm: Þau hafa öðlast heyrn. Ergo sum: facta est! [1]

Nýlega greindi faðir Frank Pavone, leiðtogi Priests for Life frá því, að þúsundum saman hafa læknar þeir og hjúkrunarkonur sem deytt hafa ófædd börn iðrast gerða sinna þegar þau heyrðu þessa raust í djúpi hjartans og mörg þeirra leitað fyrrum fórnardýr sín uppi og beðist fyrirgefningar gjörða sinna og gefið þeim börnum sem þau deyddu nöfn og beðið þau fyrirgefningar fyrir ódæðisverk sín og beðið fyrir þeim.

Kæri lesendur! Ef þið eruð raunverulega vísindalega sinnuð hvet ég ykkur til að gera þessa tilraun og árangurinn mun ekki láta á sér standa! Ég á við: Drottinn, sting fingri þínum í eyra mitt svo að ég megi heyra! Þá þagnar hvískur og skvaldur óvinar alls lífs og maðurinn verður daufdumba gagnvart ertingum illsku hans og LÍFIÐ SIGRAR.

[1] Þess vegna er ég: staðreyndir! Það er að segja Jesús: „Ég er vegurinn, sannleikurinn og lífið“ (Jh 14. 6). Staðreyndir sem sannreyna má í ljósi reynsluguðfræðinnar. Heilagur Silúan sagði:

„Hversu mikillar þekkingar sem við öflum okkar, lærist okkur ekki að bera skyn á Drottin ef við lifum ekki samkvæmt boðorðum hans. Það er ekki í krafti vísindalegrar þekkingar, heldur í Heilögum Anda sem við lærum að þekkja Drottin. Margir heimspekingar og lærdómsmenn hafa sannfærst um tilveru Guðs, en þetta felur ekki í sér að þeir beri skyn á Guð . . . Og það er stærilætið sem elur af sér vantrú. Stærilátur maður telur sig hafa vit á öllu með því að grípa til skilningsins og lærdómsiðkunar sinnar. En honum auðnast ekki að þekkja Guð vegna þess að Drottinn opinberar sig einungis fyrir auðmjúkum sálum. Drottinn opinberar auðmjúkum sálum verk sín sem eru æðri skilningi okkar og opinberast í Heilögum Anda. Skilningur okkar ber einungis skyn á hið jarðneska og það einungis að hluta. En þekkingin á Guði og hinum himneska veruleika verður aðeins kunn í Heilögum Anda.

Orðið effaþa er opinleiki gagnvart Heilögum Anda sem okkur veitist af náð.

No feedback yet