« Óður sálar sem gleðst yfir því að þekkja Guð í trú – Hl. Jóhannes af KrossiVísindi krossins – Edith Stein (systir Teresia Benedicta af Krossi OCD) (1891-1942) karmelsystir og trúarheimspekingur – (3) »

15.06.08

  22:54:02, Skrásetjari: Jón Rafn Jóhannsson, 3878 orð  
Flokkur: Bænalífið, Heilagur Andi

Vísindi krossins – Edith Stein (systir Teresia Benedicta af Krossi OCD) (1891-1942) karmelsystir og trúarheimspekingur – (4)

d. Sálin, „égið“ og frelsið

Það er mikilvægt að varpa eins skýru ljósi og unnt er með andlegum hætti og án ímynda á það hvað þessar rúmmyndir tjá. Þessar ímyndir eru ómissandi. En þær eru óljósar og auðvelt að misskilja þær. Það sem nálgast sálina að utan tilheyrir hinum ytra heimi. Með þessu er átt við það sem tilheyrir ekki sálinni sjálfri og meginreglan er sú að slíkt tilheyrir heldur ekki líkama hennar. Þótt líkami hennar sé nefndur úthverfa hennar, þá er hann hennar úthverfa og einn með henni í einingu verundar hennar og ekki eins úthverfur eins og það sem blasir við henni sem algjörlega framandi og aðskilið. [8]. Meðal þessara framandi og aðskildu fyrirbæra má gera greinarmun á þeim hlutum sem eiga sér augljósa ytri tilveru, það er að segja eru gæddir rúmvídd og þeirra sem eru gæddir innhverfri verund líkt og sjálf sálin.

Engu að síður urðum við að tala um innhverfu og úthverfu í sjálfri sálinni. Þegar hún er dregin út á við, þá hverfur hún ekki frá sjálfri sér, heldur er hún fremur fjarri sínu innsta sviði og auk þess gagntekin af hinum ytra heimi. Það sem nálgast hana að utan hefur ákveðinn rétti til að krefjast athygli hennar og í ljósi þess hversu þungt vægi þess og gildi er í sjálfu sér og fyrir sálina, er það þess virði að því sé skipaður sess á ákveðnu dýpi í sálinni. Þannig er það skynsamlegt hlutlægt séð að sálin viðurkenni það á þessu sviði dýptar. En þegar hún gerir þetta er þess ekki krafist af henni að fórna stöðu sinni á enn dýpra sviði vegna þess að hún er andi og kastalaborg hennar er andlegt svið. Hérna gilda allt aðrar gildisviðmiðanir en á hinu ytra sviði.

Þegar hún dvelur á þessu dýpsta og innsta sviði, sínu innra sviði, ríkir hún fullkomlega yfir því og hefur frelsi til að ganga til hvaða staðar sem er, ef henni þóknast, án þess þó að hún neyðist til að yfirgefa stað sinn, hvíldarstað sinn. Sá möguleiki að færa sig úr stað hið innra með sjálfum sér grundvallast á verund sálarinnar í mynd „égsins.“ „Égið“ er það í sálinni þar sem hún er hún sjálf og það sem bærist hið innra með henni sem hennar eigin svið. Dýpsti punkturinn er samtímis staður frelsis hennar, sá staður þar sem hún getur einbeitt allri verund sinni og tekið ákvarðanir hvað þetta varðar. Frjálsa ákvörðun sem er ekki eins mikilvæg má í vissum skilningi taka í punkti sem stendur nær hinu ytra. Engu að síður er hér um yfirborðskennda ákvörðun að ræða: það er tilviljun sem ræður því hvort slík ákvörðun reynist vera rétt. Það er einungis í dýpsta punktinum þar sem unnt er að vega og meta allt með hliðsjón af endanlegu gildismati sínu. Þetta er heldur ekki óhrekjanleg frjáls ákvörðun vegna þess að sérhver sál sem hefur ekki fullkomið vald yfir sjálfri sér getur ekki tekið ákvörðun í sönnu frelsi, heldur lætur hún fremur stjórnast af einhverjum öðrum þáttum.

Manneskjurnar [9] eru kallaðar til að lifa á sínu innsta sviði og hafa eins mikla stjórn á sjálfum sér eins og framast er unnt út frá þessum miðpunkti. Það er einungis héðan sem þær geta komist að samkomulagi við heiminn. Það er einungis héðan sem þær geta fundið sér stað í þeim heimi sem þeim er fyrirbúinn. Í öllu þessu geta þær aldrei séð fullkomlega í gegnum þetta innsta svið. Það er leyndardómur Guðs sem Guð getur einn opinberað að því marki sem honum þóknast. Þetta innsta svið hefur þrátt fyrir þetta verið falið fólki í hendur. Það geta notið þess í fullkomnu frelsi, en því er einnig lögð sú skylda á herðar að vaka yfir því sem dýrmætum gæðum sem því hefur verið trúað fyrir. Á sviði andanna verður að meta það mjög mikils. Englunum hefur verið falið það hlutverk að vernda það. Illir andar leitast við að ná því á vald sitt. Sjálfur hefur Guð útvalið það sem bústað sinn. Góðir og illir andar hafa ekki frjálsan aðgang að hinu innsta sviði. Góðir andar eru betri hæfileikum búnir með náttúrlegum hætti til að lesa „hugsanir hjartans“ en illir andar, en þeir meðtaka uppljómun frá Guði um allt það sem þeir verða að vita um leyndardóma hjartans. Auk þess er um andlegar leiðir að ræða sem gera sálinni kleift að eiga samskipti við aðra skapaða anda. Hún getur ávarpað annan anda með öllu því sem orðið er að innra orði í henni sjálfri. Það er með þessum hætti sem heilagur Tómas ímyndar sér tungumál englanna sem þeir tjá sig á með gagnkvæmum hætti: Sem hreina andlega fórn með það að leiðarljósi að deila með öðrum því sem einhver er í sjálfum sér. [10] Með þessum sama hætti er unnt að ímynda sér orðlaust ákall til verndarengils eða þá innri ertingar illra anda.

Jafnvel án þess að það vaki fyrir okkar að deila með öðrum, þá hafa skapaðir andar ákveðinn aðgang að því sem gerist hið innra með okkur: Ekki að því sem er hulið á okkar innsta sviði, heldur líklega því sem skotið hefur rótum á hinum innri sviðum sálarinnar með skynrænum hætti. Út frá þessu geta þeir einnig ályktað um það sem er þeim hulið sjónum. Við getum gengið út frá því að englarnir standi vörð um hinn innsiglaða helgidóm af djúpstæðri og óttablandinni lotningu. Þeir þrá einungis að beina sálinni hingað til að fela hana Guði á hendur. Satan keppir einnig eftir því að leggja undir sig það sem er konungsríki Guðs. Þetta getur hann ekki í eign mætti, en sálin getur gefist honum á vald. Þetta mun hún ekki gera ef hún hefur sjálf nálgast sitt innsta svið og henni hefur lærst þetta, eins og gerist í hinni guðdómlegu sameiningu. Þá er hún svo djúpt sokkin í Guð og nýtur slíks öryggis, að engin freisting getur nálgast hana lengur. Hvernig getur því þá verið á þann veg farið að hún geti ofurselt sig djöflinum á vald þegar hún hefur ekki enn öðlast stjórn á sjálfri sér sem getur einungis gerst með því að ganga inn á hið innsta svið? Eina hugsanlega leiðin er sú að hún hrifsi til sín hluti í blindni meðan hún dvelur enn hið ytra. Hún gefur sjálfa sig án þess að vita hvað það er sem hún er að gefa öðrum á vald. Djöfulinn getur heldur ekki rofið innsigli þess sem enn er hulið og hefur fallið honum í skaut. Hann getur einungis tortímt því sem er honum hulið að eilífu.

Sálin hefur persónulegt frelsi og andspænis því nemur Guð staðar. Hann þráir að ríkja í almætti sínu yfir sköpuðum öndum þegar einungis er um frjálsa gjöf elsku þeirra að ræða. Hann þekkir hugsanir hjartans. Hann sér í gegnum dýpsta grunn og huliðsdjúp sálarinnar, það sem hennar eigin sjón nær ekki að skynja nema því aðeins að Guð veiti henni sérstaklega ljós til að gera slíkt. En hann vill ekki að hún verði hans án þess að hún vilji það sjálf. Hann gerir hins vegar allt til þess að hún gefist honum af frjálsum vilja sem gjöf elsku hennar til þess síðan að leiða hana til dýrðarljóma sameiningarinnar. Þetta er það guðspjall sem Jóhannes af Krossi boðar og öll hans skrif snúast um. Það sem sagt hefur verið um sálargerðina, einkum hvað varðar frelsið á innsta sviði sálarinnar, er ekki unnt að rekja til umfjöllunar okkar heilaga föðurs Jóhannesar. Það er því nauðsynlegt að ganga úr skugga um, hvort þetta sé í samræmi við uppfræðslu hans og geti jafnvel gegnt því hlutverki að varpa ljósi á kenningu hans (Einungis ef það kemur í ljós að sú sé raunin er unnt að réttlæta þetta innskot í þessu samhengi). Fljótt á litið gæti sumt af því sem hefur verið sagt ekki samræmst sumu af því sem hinn helgi maður varpar ljósi á.

Sérhver manneskja er frjáls og horfist í augu við ákvarðanir daglega og á sérhverri stundu. Innsta svið sálarinnar er sá staður þar sem Guð lifir „aleinn“ eins lengi og sálin hefur ekki öðlast hina fullkomnu kærleikssameiningu. [11]. Okkar heilaga móðir Teresa nefnir hann sjöunda borgarhlutann sem einungis lýkst upp fyrir sálinni þegar hið yfirskilvitlega brúðkaup nær fram að ganga. [12]. Eru það þannig einungis þær sálir sem öðlast hafa æðsta stig fullkomleikans sem geta tekið ákvarðanir af fullkomnu frelsi? Hér verður að hafa í huga að það dregur úr sjálfræði sálarinnar eftir því sem hún nálgast meira sitt innsta sjálf. Þegar hún er komin hingað er það Guð sjálfur sem gerir allt í henni og sjálf þarf hún ekkert annað að gera en að meðtaka. Það er einmitt þessi meðtaka hennar sem tjáir frjálsa hlutdeild hennar. Auk þessa gegnir frelsið mikilvægu hlutverki á enn áhrifaríkara augnabliki. Hér er það Guð sem gerir allt vegna þess að sálin hefur gefist honum að fullu og öllu og þessi sjálfsgjöf er æðsta stig frelsis hennar. Jóhannes lýsir hinu yfirskilvitlega brúðkaupi sem fúsri sjálfsgjöf Guðs og sálarinnar og tileinkar þeirri sál sem náð hefur þessu stigi fullkomleikans svo mikið vald, að það er ekki einungis hún sjálf heldur Guð sem þjónar henni. [13] Hvað varðar þetta háleita stig hins persónulega lífs, þá er fullkomin samhljóðan á milli kenninga okkar heilögu foreldra um dulúðina og þeirrar afstöðu, að hið innsta svið sálarinnar sé sé staður hins fullkomna frelsis.

Hvernig er þá málum varið hvað varðar þann mikla fjölda fólks sem nær ekki stigi hins yfirskilvitlega brúðkaups? Getur það gengið inn til innsta sviðs síns og tekið þar ákvarðanir, eða getur það einungis tekið ákvarðanir sem eru yfirborðskenndar í meira eða minna mæli? Svarið er ekki einfalt já eða nei.

Sálargerðin – meiri og minni stig dýptar hennar auk hins innsta sviðs – eru henni eðlislæg. Hræringar „égsins“ innan þessa rúms eru jafnframt fyrir hendi sem möguleiki sem rekja má til eðlis sálarinnar. Þetta „ég“ tekur sér stöðu hér eða þar til samræmis við þær hræringar sem laða það til sín. En það velur sér stöðu að eigin vild. Þessi staða er ekki ein og söm hjá öllum, heldur ræðst hún af breytilegri persónugerð. Sú [sál] sem kýs skynræna fullnægju er að mestu föst í skynrænni fullnægju eða hugfangin af því að öðlast slíka fullnægju. Staða hennar er víðsfjarri innsta sviði hennar. Sú sem keppir eftir sannleikanum lifir að mestu í miðpunkti virks og leitandi skilnings. Ef henni er í raun og veru annt um sannleikann (ekki einungis að raða saman þekkingarbrotum), þá er hún ef til vill nærri Guði sem er Sannleikurinn og þar með sínu innsta sviði, en hún gerir sér sjálf ljóst.

Auk þessara tveggja dæma vil ég einungis bæta við því þriðja sem virðist fela í sér sérstaka merkingu: „Ég-verundsálina,“ það er að segja þá [sál] þar sem „égið“ er miðpunkturinn. Út frá yfirborðskenndu sjónarmiði mætti ætla að slík manneskja stæði sérstaklega nærri sínu innsta sviði. En ef til vill er þessi vegur hvergi eins torfarinn en fyrir hana. (Allar manneskjur hafa eitthvað af þessu til að bera í sjálfum sér eins lengi og þær hafa ekki gengið í gegnum hina myrku nótt til enda). Við verðum að íhuga möguleika hræringa „égs“ allra þessara manngerða, möguleikana til frjálsrar ákvarðanatöku og möguleikann til að ná til hins innsta sviðs.

Þegar hin skynræna manneskja sem ánetjast hefur einhverri skynrænni fullnægju stendur frammi fyrir þeim möguleika að öðlast eitthvað sem er enn skynrænna, mun hún ef til vill án þess að íhuga slíkt nánar eða velja, hrinda fullnægjunni í framkvæmd. Þegar ertingarnar eru á sama sviði á hræring sér stað sem er í reynd ekki frjáls ákvarðanataka fremur en ganga inn á dýpra svið. Sá möguleiki er fyrir hendi hvað áhrærir hina skynrænu manneskju, að eitthvað nálgist hana sem tilheyrir sviði þar sem gildismatið er allt annað. Engin manngerð einskorðast einungis við eitt svið. Á ákveðnu andartaki hefur eitt sviðanna undirtökin yfir hinu. Hún getur til að mynda verið beðin um að afneita sjálfri sér um einhverja gleði til að koma annarri manneskju til hjálpar. Hér verður ákvörðunin vart tekin án frjálsrar ákvarðanatöku. Í öllu falli mun hin skynræna manneskja að sjálfsögðu ekki fórna sér. Hún verður miklu fremur að taka sjálfa sig taki til að gera slíkt. Ef hún hafnar slíku – hvort sem það er svo eftir einhverja yfirvegun, eða með ósjálfráðu „slíkt kemur ekki til mála – er þetta einnig viljaákvörðun. Í öfgakenndum tilvikum má jafnvel gera ráð fyrir því að hún haldi áfram í fullnægju sinni án þess svo mikið sem að nema staðar við fórnina. Í slíku tilviki hefur hún ánetjast hinu skynræna svo algjörlega að ákallið nær ekki eyrum hennar. Hún heyrir orðin og skilur ef til vill raunverulega merkingu þeirra, en það svið þar sem hin raunverulega merking orðanna yrði meðtekin er grafið undir ruslahaugi. Í slíkum öfgum getur frjáls ákvarðanataka ekki náð fram að ganga vegna þess að áður en til þessa kom var frelsinu hafnað. Þar sem um höfnun er að ræða er merkingin líklega skilin, þótt hún sé augljóslega ekki yfirveguð nánar.

Með slíkri höfnun og með því að víkja sér undan því að yfirvega málið í heild má sjá yfirborðsmennskuna og hið lemstraða frelsi. Því er hafnað að láta ákveðna þætti hafa áhrif af fullum þunga og gæta þess með aðgát að hverfa til djúpsins þar sem slík afstæða gæti leitt til þátttöku. Í þessu tilviki einskorðum við okkur við eitt svið ákvarðanatöku. Við tökum okkur sjálf ekki taki, það er að segja öll dýpri svið verundar okkar og sviptum okkur þar með þeim möguleika að mynda okkur afstöðu eftir að hafa yfirvegað hinar raunverulegu aðstæður, það er að segja það sem er sannarlega sanngjarnt og frjálst. Auk þessarar yfirborðskenndu höfnunar getum við að sjálfsögðu haft í huga eitthvað sem væri æskilegra: Að láta sálina yfirvega ákallið um hjálp til hins ítrasta með því að íhuga allar hliðar málsins. Þá gætum við fundið okkur knúin til að hafna þegar öll meðrökin og mótrökin hafa verið yfirveguð og niðurstaðan er óréttmæt. Slík höfnun er á sama sviði og samþykki eftir að meðrökin og mótrökin hafa verið yfirveguð. Þetta tvennt er aðeins hugsanlegt þegar hin skynræna manneskja hefur hafnað afstöðu sinni sem skynræn persóna og hefur horfið til siðrænnar afstöðu, það er að segja afstöðu þeirrar manneskju sem vill samþykkja og framkvæma það sem er rétt út frá siðrænni afstöðu. Til þess að slíkt sé unnt verður hún að taka sér stöðu djúpt innra með sjálfri sér: Svo djúpt að stefnubreytingin felur í sér ummyndun manneskjunnar. Þetta er jafnvel ekki hugsanlegt með náttúrlegum hætti, heldur einungis vegna sérstæðrar innri vakningar. Já, við getum komist svo að orði: Endanlega og rétta ákvörðun er einungis unnt að taka á sérstökum dýptarsviðum í sálinni. Engin mennsk verund er þess umkomin að vega og meta öll meðrök og mótrök sem liggja ákvörðun að baki. Ákvörðun er einungis unnt að taka með hliðsjón af bestu vitund sinni og samvisku innan ramma eigin sjónsviðs. Engu að síður veit trúuð manneskja að um einn er að ræða þar sem afstaðan einskorðast ekki við neitt, heldur felur í sér allt og er heildarskynjun. Samviska þeirrar manneskju sem lifir í þessari fullvissu trúarinnar megnar ekki lengur að þagga niður í sjálfri sér með því að fylgja sinni eigin þekkingu eftir. Hún verður að keppa eftir því sem er hið rétta í augum Guðs. (Af þessum ástæðum er hin trúarlega afstaða sú eina siðræna. Ekki er ólíklegt að um náttúrlega leit og þrá eftir hinu rétta og góða geti verið að ræða og að finna þetta í sumum tilvikum, en einungis með því að leita hins guðdómlega vilja mun fólki auðnast að ná þessu takmarki.).

Spurningunni er svarað í eitt skiptið fyrir öll þegar einhver [manneskja] er dregin áfram af sjálfum Guði til innsta sviðs sálarinnar og hefur gefist þar í kærleikssameiningunni. Ekkert annað er nauðsynlegt en að láta Anda Guðs stjórna og veita leiðsögn vegna þess að Andinn mun knýja sálina áfram með beinum hætti og hann mun ávallt og alls staðar vera viss um að hann sé að gera það rétta. Í þessari einu miklu ákvarðanatöku sem tekin er í fullkomnu frelsi felast allar aðrar framtíðarákvarðanir og geta að sjálfsögðu verið teknar með hliðsjón af þessu. En í stað þess að leita einfaldlega að hinni réttu ákvörðun í sérstökum tilvikum, verður að leggja langan veg að baki – ef þá um einhvern veg er að ræða. Sú manneskja sem leitar hins rétta hér og nú og ákveður í framhaldi af þessu að gera það sem hún trúir að hún viti, er á leiðinni til Guðs og á leiðinni til sjálfrar sín, jafnvel þó að hún viti þetta ekki. En hún hefur ekki enn náð svo miklum tökum á sjálfri sér að það komi til móts við hið endanlega djúp. Því hefur hún ekki enn tök á sjálfri sér fremur en að taka fullkomlega frjálsa ákvörðun hvað varðar umfjöllunarefnið.

Allir sem í grundvallaratriðum leita þess sem rétt er, það er að segja sérhver sú manneskja sem hefur einsett sér að gera hið rétta ávallt og alls staðar, hefur tekið ákvörðun hvað sjálfa hana varðar og hefur falið vilja sinn hinum guðdómlega vilja á hendur, jafnvel þó að hún geri sér ekki ljóst að góðverk hennar eru í samhljóðan við það sem Guð vill. Ef hún veit þetta ekki er sá vegur sem leiðir til rétts skilnings á því sem er hið rétt ekki fyrir hendi. Hún hefur tekið sér stöðu rétt eins og hún hafi tök á sjálfri sér, þrátt fyrir að hið hinsta djúp innra sviðs hennar hafi ekki enn lokist upp fyrir henni. Lokaákvörðunin verður einungis tekin auglitis til auglitis við Guð. En þegar einhver manneskja hefur náð svo langt í lífi trúarinnar að hún hefur falið sig fullkomlega í hendur Guðs og vill ekki lengur neitt annað en það sem er vilji Guðs, hefur hún þá ekki náð til síns innsta sviðs og er þetta svið þá enn frábrugðið æðsta stigi kærleikssameiningarinnar? Það er afar erfitt að draga einhver mörk hér á milli og einnig að vita hvar okkar heilagi faðir Jóhannes dregur þessi mörk. Engu að síður trúi ég því – efnislægt og eins og hann boðar – að nauðsynlegt sé að viðurkenna að draga verði þessi mörk og beina athyglinni að þeim. Sérhver manneskja sem þráir raunverulega í blindri trú ekkert annað en það sem Guð vill, hefur fyrir náð Guðs náð því æðsta stigi sem manneskja getur náð. Vilji hennar er fullkomlega hreinn og með öllu laus við togstreitu vegna mennskra langana. Hún hefur sameinast hinum guðdómlega vilja með frjálsu framsali sínu. [14] Engu að síður skortir eitthvað á fyrir æðsta stig kærleikssameiningarinnar, hið yfirskilvitlega brúðkaup, þetta eitthvað sem er afgerandi er ekki enn fyrir hendi.

[8]. Okkar heilaga móðir nefnir líkamann ytri múra kastalaborgarinnar.
[9]. Edith notar þýska orðið „Mench,“ í fleirtölu „Menchen“. Til að forðast kyngreiningu nota ég orðið manneskja, manneskjur og „fólk“ í stað „manna.“ Jóhannes af Krossi skrifaði ekki síður fyrir systur sínar í Karmel og greip yfirleitt til orðsins „sál“ til að forðast kyngreiningu. Að þessu leyti til hefur hann verið langt á undan samtíma sínum.
[10]. De veritatae q.9 a 4.
[11]. Logi lifandi elsku 4, 14-16.
[12]. Borgin hið innra, 7. 1, 3.
[13]. Loga lifandi elsku, 1, 9.
[14]. Þau hl. Jóhannes af Krossi og hl. Teresa frá Avíla nefna þetta stig viljasameininguna í verkum sínum. Hún er þáttur í hinni endanlegu kærleikssameiningu hins andlega brúðkaups í sjöunda borgarhluta Teresu –ath. þýð.

No feedback yet