« Vísindi krossins – Edith Stein (systir Teresia Benedicta af Krossi OCD) (1891-1942) karmelsystir og trúarheimspekingur – (4)Vísindi krossins – Edith Stein (systir Teresia Benedicta af Krossi OCD) (1891-1942) karmelsystir og trúarheimspekingur – (2) »

12.06.08

  15:10:37, Skrásetjari: Jón Rafn Jóhannsson, 776 orð  
Flokkur: Bænalífið, Heilagur Andi

Vísindi krossins – Edith Stein (systir Teresia Benedicta af Krossi OCD) (1891-1942) karmelsystir og trúarheimspekingur – (3)

c. Innra svið sálarinnar og hugsanir hjartans.

Hugsanir hjartans eru hið upphaflega líf sálarinnar í grunni verundar hennar í djúpi sem fer á undan allri skiptingu í mismunandi sálareigindir og starfsemi þeirra. Þarna lifir sálin nákvæmlega eins og hún er í sjálfri sér, handan alls sem kallað er fram í henni vegna skapaðra vera. Þótt þetta innsta og djúpa svið sé dvalarstaður Guðs og sá staður þar sem sálin sameinast Guði, þá streymir hennar eigið líf héðan út áður en líf sameiningarinnar hefst. Þannig er þetta jafnvel í því tilviki þar sem þessi sameining nær ekki fram að ganga. Allar sálir eru gæddar þessu innsta sviði og verund þeirra er líf.

Þetta upphaflega líf er ekki einungis hulið fyrir öðrum öndum, heldur jafnframt sálinni sjálfri. Margar ástæður liggja þessu til grundvallar. Hið upphaflega líf er formlaust. Huganir hjartans eru bókstaflega ekki hugsanir í hefðbundinni merkingu orðsins. Þær eru ekki skýrt mörkuð, skipuleg og skiljanleg framsetning skilningsins. Þær verða að ganga í gegnum margvíslega mótun áður en þær verða að slíkum hugsunum. Í fyrsta lagi verða þær að glæðast í grunni hjartans. Síðan koma þær að fyrsta þröskuldinum þegar þeim er veitt athygli. Þessi athygli er miklu upprunalegri meðvitund heldur en áskynjun skilningsins. Hún fer einnig á undan allri skiptingu í sálareigindir og athafnir. Hana skortir skerpu hreinnar skynrænnar áskynjunar. Hins vegar er hún mun auðugri en einföld skynjun skilningsins. Það sem rís upp vekur athygli sem eitthvað sem felur í sér gildi sem ákvörðunin grundvallast á: Hvort sem því sem glæðist er heimilað að rísa upp eða ekki. Minnast verður á það í þessu sambandi að það sem þegar hefur risið upp með náttúrlegum hætti og verið skynjað, er ekki lengur hið hreina innra líf sálarinnar, heldur er það fremur svar við einhverri hræringu sem sálin hefur glætt. Þetta beinist í farveg sem við getum ekki rakið hér.

Við þröskuldinn þar sem hinar rísandi hræringar eru skynjaðar taka þekkjanleg afbrigði andlegra eiginda að skiljast í sundur og skiljanleg form taka að mótast: Til þessa tilheyra vandvirkningslegar hugsanir skilningsins ásamt skynsamlegri niðurröðun þeirra (þetta eru innri orð sem geta tekið á sig mynd ytri orða), hræringar hugans og tilhneigingar viljans sem virkt afl og samlagast öllu í sambandi við hið andlega líf.

Hið andlega líf er ekki lengur hið upprunalega líf í djúpinu, heldur er það fremur eitthvað sem unnt er að festa hendur á með innri skynjun. Innri skynjun er að öllu leyti frábrugðin aðferð til skilnings en sú fyrsta athygli sem beinist að því sem rís úr djúpinu. Sama gildir um þessa uppkomu úr djúpinu sem er frábrugðin áður mótaðri yfirborðsímynd sem varðveitt var í minninu og hefur nú öðlast líf að nýju.

Það sem rís upp og verður skynjanlegt er á engan hátt skynjað með áþreifanlegum hætti. Fjölmargt rís upp og verður að innri eða ytri orðum eða umbreytist í ósk, vilja og athöfn „áður en við verðum þess vör.“ Einungis þeir sem hrærast í fullkominni einbeitingu á sínu innsta sviði vaka af trúfastri athygli yfir þessum fyrstu hræringum.

Með þessu erum við komin að annarri ástæðunni fyrir því að fólk hylur innsta svið sitt. Vikið hefur verið að því að sálin er í raun og veru heima hérna. En jafn undarlega og það kann að láta í eyru, þá er sálin yfirleitt ekki heima hérna. Þær sálir sem lifa á sínu innsta sviði og út frá því eru afar fáar og þær eru enn færri sem lifa stöðugt í og út frá sínu innsta sviði. Til samræmis við eðli sitt – það er að segja sitt fallna eðli – dvelur fólk í ytri vistarverum kastalans sem er sálarborg þess. Það sem nálgast þessar sálir að utan dregur þær til hins ytra. Það er nauðsynlegt að Guð kalli á þær til að draga þær með ómótstæðilegum hætti „inn til sjálfra sín“. [7]

[7]. Móðir okkar hl. Teresa af Jesú líkir sálinni við kastalaborg með mörgum borgarhlutum. Í höfuðverki hennar um dulúðina, Borginni hið innra, víkur hún að sjö borgarhlutum (Borgin hið innra, 1. 1).

No feedback yet