« Vísindi krossins – Edith Stein (systir Teresia Benedicta af Krossi OCD) (1891-1942) karmelsystir og trúarheimspekingur – (3)Vísindi krossins – Edith Stein (systir Teresia Benedicta af Krossi OCD) (1891-1942) karmelsystir og trúarheimspekingur – (1) »

11.06.08

  06:43:34, Skrásetjari: Jón Rafn Jóhannsson, 1703 orð  
Flokkur: Bænalífið, Heilagur Andi

Vísindi krossins – Edith Stein (systir Teresia Benedicta af Krossi OCD) (1891-1942) karmelsystir og trúarheimspekingur – (2)

b. Samskipti sálarinnar við Guð og skapaða anda

Með því að grípa til rúmmfræðilegrar líkingar úr náttúruvísindum samtíma síns nefnir hinn helgi maður (Jóhannes af Krossi) Guð hvíldarpunkt eða dýpstu miðju sálarinnar. [1] Samkvæmt þessari vísindalegu afstöðu eru hlutir dregnir með ómótstæðilegum krafti til miðju jarðarinnar vegna þess að þetta er sá punktur þar sem aðdráttaraflið er mest. Steinn inni í jörðinni hefur þegar náð ákveðnum hvíldarpunkti, en þetta er þó ekki enn dýpsta miðjan vegna þess að hann býr yfir eiginleika, mætti og tilhneigingu til að falla enn lengra meðan hann hefur ekki náð til miðpunktsins. Þannig hefur sálin fundið endanlegan og dýpsta hvíldarpunkt sinn í Guði „þegar hún þekkir, elskar og nýtur Guðs af öllum sínum mætti.“ Þetta er aldrei endanlega raunin í þessu lífi. Þegar hún hvílir í hvíldarpunkti sínum fyrir náð Guðs, þá er hér ekki um dýpstu miðjuna að ræða vegna þess að hún getur ávallt gengið enn dýpra inn í Guð. Sá máttur sem dregur hana til Guðs er elskan og elskan getur í þessu tilviki ætíð náð háleitara stigi. Því æðra sem þetta stig er því dýpra dregur akkeri elskunnar sálina niður og þess meira gagntekur Guð hana á þeim rimum stigans sem sálin rís upp eftir til Guðs [2], það er að segja til sameiningar við hann. Eftir því sem hún rís hærra upp til Guðs því dýpra sígur hún niður innra með sér sjálfri: Sameiningin nær fram að ganga í innsta hluta sálarinnar, í dýpsta grunni sálarinnar. Ef þetta virðist allt vera þversagnakennt, þá verður að hafa í huga að hér er einungis um ólíkar rúmmyndir að ræða – sem fylla hvor aðra upp með gagnkvæmum hætti – þar sem leitast er við að tjá það sem á ekkert skylt við rúm og náttúrleg reynsla getur ekki tjáð með fullnægjandi hætti.

Guð er í innsta djúpi sálarinnar og ekkert sem í henni er að finna er hulið fyrir honum. Enginn skapaður andi megnar af sjálfum sér að ganga inn í þennan innsiglaða garð eða svo mikið sem að sjá hann í sjónhendingu. Meðal skapaðra anda eru bæði góðir og illir andar (sem einnig eru nefndir hreinir andar vegna þess að þeir eru líkamslausir) og mannssálir. Lítið er að finna í skrifum Jóhannesar um gagnkvæm samskipti mannssálnanna. Í reynd er þar er einungis um ein slík mannleg samskipti að ræða sem hann skírskotar iðulega til: samband andlegrar sálar og skriftaföðurins. Hann hefur ekki áhuga á því með hvaða hætti þær skilji hvor aðra. Einu sinni víkur hann að því að sá einstaklingur sem öðlast hefur greiningagáfu andanna geti skynjað innra ástand annarrar sálar með hliðsjón af ytri ummerkjum. [3]. Þetta sýnir þá eðlilegu leið þar sem unnt sé að öðlast þekkingu um líf ókunnrar sálar: Það sé með skynrænni tjáningu hins andlega lífs og nær eins langt og hið innra svið birtist.

Allt ytra brotthvarf frá sjálfum sér sem unnt er að skynja með líkamlegri tjáningu, skynrænum viðbrögðum, orðum, athæfi eða verkum grundvallast á innra brotthvarfi frá sjálfum sér – hvort sem slíkt er svo viljandi eða óviljandi, meðvitað eða ómeðvitað. Ef slíkt kemur að innan mun eitthvað að innan upplýsa það. En þetta birtist ekki með afgerandi og ljósum hætti; ekki með einhverju sem unnt sé að festa hendur á og skilja ljóslega meðan stuðst er við hreina náttúrlega nálgun og lætur ekki stjórnast af sérstæðri guðdómlegri uppljómun. Fremur verður það áfram eitthvað leyndardómsfullt og þegar hið innra er lokað megnar ekkert mannlegt að skyggnast inn í það í eigin mætti.

Sálin hefur ekki einungis samskipti við aðrar sálir sér líkar, heldur einnig við hreina skapaða anda, góða og illa. Ásamt Areopagítanum gengur Jóhannes út frá því að menn meðtaki guðdómlega uppljómun fyrir milligöngu engla. Til að eyða öllum vafa heldur hann því ekki fram að náðinni sé miðlað niður stiga hinna himnesku tignarvætta sem einu hugsanlegu leiðinni til að meðtaka hana. Hann þekkir til beinna samskipta Guðs og sálarinnar og það er þetta sem skiptir hann mestu máli. Hann telur að snörur djöfulsins vegi þyngra en áhrif góðra engla. Hann sér djöfulinn stöðugt læðast í kringum sálirnar til að leiða þær afvega á veginum til Guðs.

Hvaða hugsanlegu samskipti eru til staðar milli mennskra sálna og hreinna – það er að segja ólíkamaðra –anda? Ein greiðfær leið til þekkingar felst einnig í líkamlegri tjáningu og öðrum skynrænum birtingarmyndum. Þetta er hugsanleg leið fyrir mennina vegna þess að til þess að gera sig skiljanlega búa hreinir andar yfir mætti til að birtast í sýnilegri mynd eða geta látið heyra í sér með orðum. Í þessu er afar mikil hætta fólgin vegna þess að með þessu opna menn sig fyrir fjölþættum blekkingum og villum: Tekið er að líta á það sem andlegar sýnir sem er ekkert annað en skynrænar blekkingar eða tálsýnir ímyndunaraflsins. Djöfullinn getur birst í ljósengilslíki góðs engils til að leiða sálir afvega með auðveldari hætti. Vegna ótta við slíkar blekkingar getur sálin hafnað sönnum himneskum opinberunum sem blekkingum skynhrifanna eða djöfulsins.

Getum við þá gengið út frá því að hreinn andi finni leið til innra sviðs sálarinnar með hjálp hins ytra skynræna sviðs? Vart er unnt að túlka frásagnirnar í Jobsbók og Tóbitsbók á annan hátt en þann, að bæði djöfullinn og englar fylgist grannt með og stjórni ytri hegðun mannanna. Að englar búi yfir þekkingu um heiminn eins og unnt er að nálgast hann skynrænt og þar með af hinu ytra sviði mannsins er hugmynd sem er í samhljóðan við kenningar trúarinnar vegna þess að þetta er forsenda þess að englar geti þjónað mönnunum. [4] Ef þetta er unnt án þess að líkamleg skynhrif séu fyrir hendi, þá gefur þetta til kynna að aðrir möguleikar séu fyrir hendi til að skilja líkamlegt eðli: „Skynræn þekking án skynhrifa.“ [5].

Það er ekki hlutverk okkar að kryfja þessa möguleika núna til mergjar. Hvað sem öðru líður er hið ytra ekki eini aðgangur hreinna anda að hinu innra lífi. Þeir geta einnig skynjað andleg orð og viðbrögð hið innra. Verndarengill „heyrir“ bænir sem rísa upp til hans úr hjartanu án orða. Óvinurinn illi gefur ákveðnum hræringum sálarinnar gaum sem gefa honum tækifæri til að koma tillögum sínum á framfæri.

Andarnir búa fyrir sitt leyti yfir þeim möguleika að láta heyra til sín með andlegum hætti: Með hljóðum orðum sem án milligöngu hinna ytri skynhrifa eru mælt hið innra og skynjuð hið innra. Eða þá með áhrifum sem við skynjum með sjálfum okkur sem koma engu að síður að utan, til að mynd geðbrigði eða viljatilhneigingar sem eru óskiljanlegar í ljósi eigin reynslu. Það sem hefur ekki bært á sér í hinum ytri skynhrifum er yfirleitt ekki af þessum sökum einum almennt séð laust við skynrænt inntak og er því ekki hreint andlegt svið í þeim skilningi sem Jóhannes af Krossi talar um það sem er andlega hreint. Rétt er að hann telur minnið, skilninginn og viljann andlegar eigindir, en náttúrleg starfsemi þeirra er enn á valdi hins skynræna og á því hlutdeild í hinu skynræna lífi. Einungis það er andlega hreint sem gerist í innsta djúpi hjartans: lífi sálarinnar frá og í Guði. [6] Hér hafa skapaðir andar engan aðgang. Hugsanir hjartans eru þeim huldar með náttúrlegum hætti. Við segjum náttúrlegum vegna þess að Guð getur opinberað þeim þessar hugsanir.

[1]. Logi lifandi elsku 1. 12. Hugtakið „hvíldarpunkur“ tók Edith beint upp eftir þýskri þýðingu Aloysiusar, bls, 13. Í langri athugasemd benti þýski þýðandinn á að Jóhannes af Krossi skrifaði verk sitt á tíma þegar vísindin höfðu ekki enn uppgötvað skilgreininguna „ miðja þyngdaraflsins.“ Hugmynd sú sem Jóhannes grípur til er ekki komin úr eðlisfræðinni heldur úr heimspeki samtíma hans sem hélt því fram að allt efnislegt drægist að því sem væri „meira“ efnislegt. Steinn féll til jarðar vegna þess að hann væri það minna af þessu hvoru tveggja og hefði haldið áfram „að falla“ þar til hann hefði náð miðju jarðarinnar þar sem efnisþyngd jarðar væri mest. Héðan í frá verður „hvíldarpunktur“ yfirleitt þýddur sem „dýpsta miðjan,“ en tekið skal fram að hér er ekki einungis um stað að ræða heldur einnig virkni. Sálin er ekki einungis komin að ákveðnum punkti, heldur hvílir hún þar „virk.“
[2]. Hin myrka nótt sálarinnar 2. 19-20. Hér lýsir Jóhannes af Krossi stiga kærleikans í upprisu sálarinnar til Guðs.
[3]. Uppgangan á Karmelfjall 2. 26, 14.
[4]. De veritatae q. 8 a 11 c (tilvitnunin er til hinnar þýsku þýðingar Edith Stein á þessu verki Tómasar Akvínó).
[5]. Ibid, q. 8 a 8 ad 7.
[6]. Spr. Logi lifandi elsku 2. 32-33.

No feedback yet