« Vísindi krossins – Edith Stein (systir Teresia Benedicta af Krossi OCD) (1891-1942) karmelsystir og trúarheimspekingur – (2)Vísindi elskunnar – hl. Teresa af Jesúbarninu »

09.06.08

  09:33:58, Skrásetjari: Jón Rafn Jóhannsson, 1332 orð  
Flokkur: Bænalífið, Heilagur Andi

Vísindi krossins – Edith Stein (systir Teresia Benedicta af Krossi OCD) (1891-1942) karmelsystir og trúarheimspekingur – (1)

Árið 1911 hóf Edith Stein nám við háskólann í Breslau og mjög snemma beindist áhugi hennar að heimspekinni. Hún komst í samband við táknmálsfræðinginn Edmund Husserl sem var prófessor í Göttingen og hélt áfram námi sínu þar frá og með árinu 1913. Þarna gat hún fullnægt „einu ástríðu sinni: „Fróðleiksfýsninni“, jafnframt því að vera afar opin gagnvart öllum mannlegum samskiptum. Árið 1916 fylgdi hún læriföður sínum eftir til Freiburg/Breisgau þar sem hún varði doktorsritgerð sína sem hlaut æðstu viðurkenningu: „Um vandamál reynsluskynjunarinnar.“ Verkið vakti mikla athygli meðal heimspekinga og því sem næst samstundis skipaði Husserl þennan hæfileikaríka nemanda aðstoðarmann sinn.

Edith var Gyðingur og sannleiksleitandi sál. Að lokum brást sannleikurinn við þessari leit hennar og opinberaðist í náð sinni í öllum sínum tærleika. Við getum ekki sigrast á hinum æðstu sannindum í krafti okkar eigin skynsemi. Þessi sannleikur sem er hrein Persóna gefst þeim sem eru reiðubúnir að taka á móti honum, þeim sem þyrstir eftir honum í hógværð hjartans. Skyndilega og óvænt brýst sannleikurinn inn í líf slíkrar manneskju og leggur hana að fótum sér með áþreifanlegum hætti. Edith dvelur á heimili vinkonu sinnar, heimspekingsins Hedwig Conrad-Martius. Kvöld eitt þegar hún er ein heima grípur hún af tilviljun bók í hönd. Þetta er ævisaga Teresu frá Avíla. Við skulum gefa Edith Stein sjálfri orðið: „Ég hóf lesturinn og lét hrífast því sem næst samstundis og ég lauk ekki lestrinum fyrr en bókinni var lokið. Þegar ég blaðaði aftur í gegnum bókina sagði ég við sjálfa mig: „Þetta er sannleikurinn“! Hún kaupir sér trúfræðslukver og messubók og tekur að undirbúa sig fyrir skírn, en hún er skírð til kaþólskrar trúar 1. janúar 1922.

Nú er lífsferill hennar markaður í þjónustunni við Krist. Þann 14. október 1933 gekk Edith í karmelklaustrið í Köln og hlaut nafnið Teresia Benedicta af Krossi: „Að gefast Guði að fullu og öllu ásamt öllu sem við erum felur jafnhliða sér að við öðlumst stjórn yfir sjálfum okkur með þvílíkum hætti, að slíkt er mennskum skilningi ofvaxið“. Leyndardómur krossins verður í síríkari mæli inntak leyndardómsins að baki hennar eigin lífs. Að beiðni yfirboðara Karmelítareglunnar er henni falið að skrifa bók um líf og kenningar Jóhannesar af Krossi. Hún nefnir ritið Kreuzeswissenschaft, Studie über Johannes a Cruce: Vísindi krossins. Sjálf komst hún svo að orði: „Í Scientia Crucis (Vísindum krossins) getum við einungis unnið sigur, ef við finnum fyrir krossinum með áþreifanlegum hætti. Þetta hef ég verið fullviss um frá fyrsta andartaki og því sagt af hjartans sannfæringu: Ave Crux, spes unica (Heill sé þér kross, okkar einasta von!).“

Þetta rættist til fulls í hennar eigin lífi. Þann 7. ágúst 1942 var systir Teresia Benedicta af Krossi flutt ásamt systir sinni, Rósu, austur á bóginn. Gasið varð líklega hlutskipti hennar í Auschwitz 9. ágúst 1942. Sponsa Christi (brúður Krists) stendur upprétt við hlið hans . . . Hið fullkomna framsal hennar á öllu í sjálfri sér og lífi sínu gerir henni kleift að þjást og deyja með honum, að öðlast hlutdeild í ávaxtaríkum dauða hans sem varð mannkyninu að uppsprettu lífsins. Karmelsysturnar finna handritið af Vísindum krossins á borðinu í klefa hennar eftir að stormsveitarmennirnir handtóku hana og færðu á brott. Hér verður birtur 13. kaflinn í Vísindum krossins.

SÁLIN Á SVIÐI ANDANS OG SKAPAÐRA ANDA

a. Sálargerðin; Andi Guðs og skapaðir andar

Sem andi er sálin staðsett á sviði Andans og andanna. Hún er engu að síður gædd sínum eigin eigindum. Hún er meira en eitthvað einfalt form sem blæs lífi í líkamann, meira en eitthvað innra og ytra. Fremur má finna andhverfur hins innra og ytra í henni. Segja má að sálin sé heima í sínum innsta punkti, í eðli sínu eða dýpsta sálargrunni. Hún gengur út á við vegna starfsemi skynhrifanna til sviðs sem er óæðra hennar eigin sviði. Það hefur áhrif á sálina í því sem hún gerir og gerir ekki og skerðir frelsi hennar í vissum skilningi. Það getur ekki brotist inn til innsta kjarna hennar, en það getur fjarlægt sálina þessari miðju hið innra.

Í upprisu sinni til Guðs hefur sálin sig upp yfir sig sjálfa eða er hafin upp. Samtímis þessu og það sökum þessa fremur en alls annars nálgast hún sína innstu miðju. Þetta hljómar sem þversögn en kemur heim og saman við staðreyndir málsins og grundvallast á sviði andanna í samskiptunum við Guð.

Guð er hreinn andi og frumgerð allra andlegra vera. Það er þannig einungis með því að byrja á Guði sem mögulegt er að skilja hvað andi er. Þetta felur engu að síður í sér að hann er leyndardómur sem dregur okkur stöðugt til sín vegna þess að hér er um leyndardóm okkar eigin verundar að ræða. Við getum nálgast hann á ákveðinn hátt vegna þess að okkar eigin verund er andleg. Við getum einnig nálgast hann eftir vegi allrar verundar að svo miklu leyti sem öll verund sem hefur tilganga og unnt er að skilja með vitrænum hætti er gædd einhverju sem rekja má til andlegrar verundar. Þetta opinberast með fyllri hætti í hlutfalli við þekkingu okkar á Guði, þrátt fyrir að þetta verði ávallt hulið að hluta, það er að segja hættir aldrei að vera leyndardómur.

Andi Guðs er algjör yfirskilvitleiki gagnvart sjálfum sér. Hann er fullkomlega frjáls að miðla af sjálfum sér (af þeirri gjafmildi sem er eðlislæg þeim sem er verund í sjálfum sér). Andinn setur allri annarri verund mörk í sjálfum sér, þróar hana, býr í henni og stjórnar henni. Skapaður andi er takmörkuð ímynd (Abbild) Guðs (í öllum þeim eigindum sem vikið hefur verið að). Sem ímynd líkist hann Guði; í takmarkanleika sínum andhverfa Guðs. Hann getur í meira eða minna mæli meðtekið Guð og á hástigi sínu hefur hann möguleika til að sameinast Guði í gagnkvæmri, frjálsri og persónulegri sjálfsgjöf.

Við tölum um svið Andans og andanna, að svo miklu leyti sem öll andleg verund hefur að minnsta kosti möguleika til innbyrðis samskipta sem hluti heildar. Við nefnum þetta svið Andans vegna þess að Andinn felur meira í sér en alla anda, það er að segja allt sem er andlegt og þetta felur í sér í vissum skilningi allt sem á sér tilveru. En við segjum fremur: Svið andanna vegna þess að á þessu sviði andanna gegnir persónuleg andleg verund mikilvægu hlutverki.

Guð er æðstur alls á þessu sviði og rís í takmarkaleysi sínu ósegjanlega hátt yfir allt sem er andlegt og yfir alla anda. Skapaður andi getur einungis risið upp til hans með því að rísa upp yfir sig sjálfan. En þar sem hann veitir engu að síður öllu verund sem á sér verund og stendur vörð um verund þess, þá er Guð verndandi verund alls. Allt sem rís upp til hans dregst samtímis niður, einmitt vegna þessa sama verknaðar til sinnar eigin miðju eða hvíldarstaðar.

(Næst: Samskipti sálarinnar við Guð og skapaða anda).

No feedback yet