« Vísindi krossins – Edith Stein (systir Teresia Benedicta af Krossi OCD) (1891-1942) karmelsystir og trúarheimspekingur – (1)Bréf hans heilagleika Benediktusar XVI í tilefni 50 ára minningar útkomu hirðisbréfsins „Haurietis Aquas (Uppsprettu vatnanna).“ »

07.06.08

  06:43:50, Skrásetjari: Jón Rafn Jóhannsson, 444 orð  
Flokkur: Bænalífið, Heilagur Andi

Vísindi elskunnar – hl. Teresa af Jesúbarninu

„Ég vil að þú lesir í bók lífsins þar sem sjá má vísindi elskunnar.“ Vísindi elskunnar, já einmitt, þessi orð hljóma vel í eyrum sálar minnar og það eru einmitt þessi vísindi sem ég þrái. Þótt ég hafi gefið öll auðæfi mín fyrir þau met ég þau einskis eins og brúðurin í hinum heilögu Ljóðaljóðum (8. 7). Ég skil það svo vel að það er einungis elskan sem gerir okkur velþóknanleg fyrir Guði, að það er þessi elska sem eru þau einu gæði sem ég þrái.

Jesú þóknaðist að sýna mér þann veg sem liggur til þessa guðlega bræðsluofns og þessi vegur er trúnaðartraust litla barnsins sem sefur óttalaust í örmum Föður síns. „Hver, sem er smár, komi hingað!" Þannig talar Heilagur Andi fyrir munn Salómons (Ok. 9. 4). Þessi sami Andi elskunnar segir jafnframt: „Þeim sem er smár verður auðsýnd miskunn“ (SS 6. 6). Jesaja spámaður opinberar í nafni hans að á hinum efsta degi muni Guð „eins og hirðir halda hjörð sinni til haga, taka unglömbin í faðm sér“ (Jes 40. 11) . . .

Æ! Ef allar vanmegna og ófullkomnar sálir skynjuðu það sama og þessi smæst allra sálna skynjar, sál hennar litlu Teresu þinnar, þá myndi engin þeirra vera angistarfull um að hún nái ekki til hátindi fjalls elskunnar. Jesús krefst ekki mikilla verka af okkar hálfu, heldur einungis trúnaðartrausts og þakklætis. Sagði hann ekki í sálmi 50: „Ég þarf ekki geithafra úr stíu þinni, því að mín eru öll skógardýrin og skepnurnar á fjöllum þúsundanna . . . Fær Guði þakkargjörð að fórn og gjald Hinum hæsta þannig heit þín“ (Sl 50. 9-14). Sjáið þið ekki núna hvað það er sem Jesús krefst af okkar hálfu. Hann hefur enga þörf fyrir verk okkar heldur elsku vegna þess að sá Guð sem segir okkur að hann þurfi ekki að segja okkur hvenær hann er hungraður, óttaðist ekki að biðja samversku konuna um nokkra vatnsdropa (Jh 4. 7). Hann var sárþyrstur . . . honum þyrsti eftir elsku okkar. Æ! Ég finn það betur en nokkru sinni fyrr að Jesús er mæddur vegna þess að hann mætir engu öðru en vanþakklæti og afskiptaleysi meðal lærisveina sinna í heiminum. Og meðal sinna eigin lærisveina finnur hann því miður fá hjörtu sem reiðubúin eru að gefast honum skilyrðislaust, hina raunverulegu mildi takmarkalausrar elsku sinnar.

Úr Saga sálar, handrit B. 1.

No feedback yet