« Nóttin er ljós mitt – eftir Wilfrid Stinissen ocd (1)Verundardjúp mannssálarinnar og sköpunarmáttur þjáningarinnar »

16.07.08

  07:35:52, Skrásetjari: Jón Rafn Jóhannsson, 2077 orð  
Flokkur: Bænalífið, Hið Alhelga Hjarta Jesú

Vísindi allra vísinda og list allra lista – um hið guðdómlega ásæi mannsandans

RÉTT þykir að útskýra orðið ásæi vegna þess að hér er um nýyrði á íslensku að ræða. Ásæi – þeama, þeamata (gr. sýn, ásýnd; þýska: Beschaung) þýðir bókstaflega að sjá Guð í hreinleika mannshjartans í samhljóðan við orð Drottins: „Sælir eru hjartahreinir, því að þeir munu Guð sjá“ (Mt 5. 8).

Kristin helgunarguðfræði tók hugmyndina um mannssálina sem spegil í arf frá grísku heimspekingunum. Þannig lýstu bæði Platon og Plótínus sálinni sem spegli, hugmynd sem þeir Aþaníos og Gregoríos frá Nyssa þróuðu síðan enn frekar og gæddu nýju inntaki. Plótínus lýsti mannssálinni þannig sem spegli sem væri þess megnugur að endurspegla bæði fegurð og ljótleika þeim sem heillað athygli sálarinnar hverju sinni.

Ólíkt grísku heimspekinni grundvallaðist afstaða kirkjufeðranna á nærveru Orðsins í sálinni í djúpi verundar hennar eða í samhljóðan við orð Drottins: „Sá sem elskar mig, varðveitir mitt orð, og Faðir minn mun elska hann. Til hans munum við koma og gjöra okkur bústað hjá honum“ (Jh 14. 23). Í reynd er það náð nærveru Alhelgrar Þrenningar í mannssálinni í hinni helgandi náð sem stendur að baki þessari áskynjun nærverunnar (aisþêsin parousias). Gregoríos frá Nyssa komst svo að orði í þessu sambandi:

Í raun og veru líkist manneðlið afar mikið spegli vegna þeirra eiginleika sinna að umbreytast til samræmis við þau ólíku áhrif sem hinn frjálsi vilji verður fyrir. Þegar þið leggið gull fyrir framan spegil tekur spegillinn á sig mynd gullsins og vegna eiginleika sinna til endurvörpunar varpar hann frá sér fegurð hins áþreifanlega efnis. Sama máli gegnir ef hann endurvarpar frá sér einhverju viðurstyggilegu. Þá verður hann eitt með þessum ljótleika eins og til að mynda froski, körtu eða margfætlu eða einhverri annarri viðurstyggð. Þannig endurvarpar hann öllu því sem sett er fyrir framan hann. Það er af þessum sökum sem sú sál sem Orðið hefur hreinsað og snúið hefur baki við syndinni meðtekur sólina hið innra og verður skínandi með því að endurvarpa þessu ljósi. Þess vegna segir Orðið við hana [brúðina, sálina]: Þú ert orðin fögur vegna þess að þú gekkst inn í ljós mitt og vegna þessarar nálægðar við mig hefur þú öðlast hlutdeild í þessari fegurð (Patrologia Greaca, XLIV, 833 C).

Hér er því ekki einungis um endurvörpun að ræða heldur hlutdeild (metousia) í fegurð sjálfs Guðdómsins og sálin guðsgjörist. Þetta er grundvöllur samlíkingarinnar við Guð (homoiôsis pros to Þeion) eða með orðum Páls postula, hins mikla sjáanda sem hrifinn var upp til hins þriðja himins:

En allir vér, sem með óhjúpuðu andliti endurspeglum dýrð Drottins, ummyndumst til hinnar sönnu myndar, frá dýrð til dýrða. Þetta gjörir Andi Drottins (2Kor 3. 18).

Íslenska orðið andlit er athyglisvert í þessu sambandi sem tjáning á hinni sönnu persónu mannsins sem sköpunar í mynd og líkingu Guðs: Að snúa sér til annars, til nærveru Guðdómsins í djúpi verundarinnar. Þessi afstaða gengur eins og rauður þráður í gegnum öll skrif hinna heilögu í aldanna rás. „Horfið til hans sem horfir á ykkur,“ segir hl. Teresa frá Avíla við dætur sínar. Áskynjun nærverunnar endurómar í „Loga lifandi elsku“ Jóhannesar af Krossi:

Ó logi lifandi elsku
sem særir sál mína ljúflega
í dýpstu miðju hennar!
Þar sem þú íþyngir ekki lengur,
fullkomna verk þitt, ef þú vilt sjálfur,
sviptu burt blæju þessara ljúfu endurfunda.

Það er í þessu óræði ásæisins þar sem sálin öðlast samsemd við Orðið sem upphafs allrar sköpunar, eða með orðum Páls postula:

Enda var allt skapað í honum í himnunum og á jörðinni, hið sýnilega og hið ósýnilega, hásæti og herradómar, tignir og völd. Allt er skapað fyrir hann og til hans. Hann er fyrri en allt, og allt á tilveru sína í honum (Kól 1. 16-17).

Það er þetta náðarvald sem Dante víkur að í „Paradísarkviðunni“ í hinum „Guðdómlega gleðileik“ (Divina commedia) sínum:

Ó náðarvald, sem gafst þér orku alla
eilífðarlogans regindjúp að kanna
áður en dauðans klukkur til mín kalla.
Ég sá hve tilvist alls og allra manna,
öll alheimsverund, fast er samanbundin
Guðs ástarband, hins eina, góða og sanna.

Latnesku kirkjufeðurnir þýddu gríska orðið þeamata sem contemplatio. Forskeytið con þýðir „í“ eða „með“ og templatio er dregið af latneska orðinu templum eða musteri. Það er að þessum leyndardómi sem hl. Silúan frá Aþosfjalli vikur að með eftirfarandi orðum:

„Það er okkur enn hollara að hjarta okkar verði að musteri Drottins og andinn að hásæti hans vegna þess að Drottinn elskar að gera sér bústað í hjarta og anda mannsins.” Hann bætti því við að þegar hin óaflátanlega bæn er orðin stöðug í djúpi hjartans ummyndist allur alheimurinn í musteri Guðs.

Af þessum sökum nefndi Gregoríos frá Nyssa hjartað djúp spekinnar eða „helgidóm hinnar guðdómlegu speki (adytois tîs þeognosias). Þegar mannsandinn (nous) verður að bústað Orðsins þegar hinn andlegi skilningur (noïsis) verður eitt með honum í óræði hinnar hreinu bænar verður jafnvel sjálfur mannshugurinn að „fjárhirslu“ guðdómlegrar speki sem „nous getur tjáð þegar hann óskar, en þrátt fyrir að orðin streymi fram, verður slíkt aldrei að fullu tjáð,“ segir Pétur frá Damaskus Í Fílókalíunni. Í riti sínu um hl. Silúan starets sem kemur út á íslensku á vegum bókaútgáfunnar Imbru á komandi hausti, kemst höfundur þess, Sophronijs arkimandríta, svo að orði (bls. 147):

Þannig grætur sá og kveinar sem hefur komist í snertingu við Paradísarfegurð mannsins í Guði, þegar hann snýr til baka frá hinni óumræðilegu brúðkaupsveislu andans í brúðarsal djúps hjartans og horfir til þessa heims sviptan fegurð dýrðarinnar.

Í óræði hinnar hreinu bænar öðlast sálin græðslu af sundrungu erfðasyndarinnar, en íslenska orðið yfir synd er einmitt dregið af þessari sundrungu. Við skulum enn að nýju snúa okkur að skrifum hl. Gregoríosar frá Nyssa og föður kristinnar dulúðar, jafn mikilvægt og þetta umfjöllunarefni er (ég læt gríska skýringartextann standa óbreyttan guðfræðingum til umþenkingar:

Meðan svefninn ræður ríkjum líður sorgin hjá og hið illa glatar áhrifamætti sínum. Af þessu verður okkur ljóst hversu langt sú sál er komin í hinu andlega lífi sem getur sagt: „Ég sef en hjarta mitt vakir“ (Ll 5. 2). Þar sem andinn (ὁ νοῦς) lifir einn (μόνος) með sjálfum sér og án þess að skynhrifin áreiti hann, þá er skynjun líkamans (ἡ ϕύσις τοῦ σώματος) ónæm og er eins og í svefni eða dái (κώματι). Við getum í raun og veru sagt að sjónin (ὄρασις) sofi vegna óvirkninnar (δι᾽ἀπραξία) og frjáls undan þeim sjónhrifum sem gagntaka hana venjulega . . . Þar sem ímyndir og ertingar hinna skynhrifanna eru upprættar vegna óvirkninnar (ἀπραξία) og líkt og í eins konar svefni verður starfsemi hjartans að öllu leyti hrein og andinn íhugar hið himneska án þess að vera truflaður í hvíld sinni . . . Þannig nýtur (εὐϕραίννεται) sálin hins eina ásæis (μόνῃ θεωρία) þess sem er og engin skynræn gleði raskar vöku (ἐγρήγορε) hennar vegna þess að líkamsstarfsemin bærir ekki á sér í hreinleika (καθαρᾷ) og nekt (γυμνῇ) andans og hann öðlast opinberun (ἐμϕανείαν) í guðdómlegri vöku (διὰ θείας ἐγρηγόρσεως). Við skulum því leggja okkur fram um að vera þess verðug að gera okkur ljóst að þessi svefni (ὕπνου) er vaka sálarinnar (ἐγρήγορσις) “ (P. G. XLIV, 993 A-C).

Í athugasemd við þennan texta kemst Jean Danielou kardínáli svo að orði: „Þessi tilvitnun er afar mikilvæg vegna þeirrar innsýnar sem hún veitir í eðli dulúðarinnar. Í reynd greinir hún frá því að þegar andinn vaknar að fullu og öllu, þannig að sjálfrar líkamsstarfseminnar gætir ekki lengur. Hrifin felst einmitt í þessu.“ Það er þetta andlega vökuástand sem glæðir kyrrð (ἡσυχία) andans og hjartans, það sem bróðir Eysteinn kallar kyrrleiksvald í fyrsta erindi Lilju: „Stað haldandi í kyrrleiks valdi.“

Þessi kyrrð á ekkert skylt við andlega óvirkni: Mannsandinn (ὁ νοῦς) er aldrei eins virkur eins og einmitt í þessari hvíld Guðs. Þessu víkur Gregoríos að í annarri víðfrægri athugasemd þar sem hann lýsir einni yfirskilvitlegri þversagna sinna: Hinni kyrrstæðu hreyfingu (στασις–κίνησις) þegar hann fjallar um Móse í riti sínu Lífi Móse þegar hann stendur á fjalli opinberunarinnar:

„Skalt þú standa upp á berginu.“ Hér er um einhverja mestu þversögn (τὸ παραδοξότατον παντός) að ræða sem hugsast getur vegna þess að hér er kyrrstaðan og hreyfingin (στάσις καὶ κίνησις) eitt og hið sama (ταὐτό). Í raun og veru háttar svo til um þann sem stendur hreyfingarlaus að hann haggast ekki úr stað, og sá sem heldur áfram hefur ekki numið staðar. Hérna heldur hann áfram jafnframt því sem hann nemur staðar“ (P. G. XLIV, 405 C).

Því segir Páll postuli: „Verið ekki hugsjúkir um neitt, heldur gjörið í öllum hlutum óskir yðar kunnar Guði með bæn og beiðni og þakkargjörð“ (Fl. 4. 6) Einmitt núna á því andartaki sem ég er að skrifa þessi orð er endurtekið í útvarpinu erindi sem Kristján frá Djúpalæk hélt í Akureyrarkirkju á sýnodusi vorið 1969. Þar lýsti hann með greinargóðum hætti græðslu þeirri sem mannshugurinn öðlast þegar andinn (nous) tekur að hrærast í verundardjúpi sínu eða dvelur í nærveru Guðs. Er það ekki einmitt þessi sannleikur sem Páll postuli víkur að í Efesuarbréfinu 5. 14:

Vakna þú, sem sefur,
og rís upp frá dauðum,
og þá mun Kristur lýsa þér.

Þetta er leyndardómur nærverunnar þegar Kristur Drottinn, hið lifandi Orð og Ljós lífsins, snertir við mannshjartanu í kærleikshrifum friðar síns. Þegar mannsandinn nýtur handleiðslu Krists í óræði bænarinnar hlýtur allt sem lemstrað er græðslu eða með orðum sænska djúphyggjumannsins og sjáandans Hjalmars Ekberg:

Allt verður andlegt, allt er gætt lífi undir þessu augnatilliti og hendi. Það sem er dautt og ekkert og þannig dæmt endurlífgar Andi þinn. Og sjá, það skýtur rótum, blómgast og grær. [1]

Því sagði hl. Teresa frá Avíla að sú sál sem biður ekki væri bækluð. [2] Við skulum því forðast að hafa endaskipti á mannfræðilegum skilningi kirkjunnar með því að gera hugann að húsbónda andans þegar þessu er á öfugan veg farið. Þannig verður mannshugurinn að „fjárhirslu guðdómlegrar speki.“

Fáum hefur auðnast að skilgreina verund mannsandans (nous) með jafn skilmerkilegum hætti og karmelsysturinni og trúarheimspekingnum Edith Stein (1891-1942). Þetta gerði hún í riti sínu Kreuzeswissenschaft, Studie über Johannes a Cruce eða Vísindi krossins. Þar kemst hún svo að orði:

Hugsanir hjartans eru hið upphaflega líf sálarinnar í grunni verundar hennar í djúpi sem fer á undan allri skiptingu í mismunandi sálareigindir og starfsemi þeirra. Þarna lifir sálin nákvæmlega eins og hún er í sjálfri sér, handan alls sem kallað er fram í henni vegna skapaðra vera. Þótt þetta innsta og djúpa svið sé dvalarstaður Guðs og sá staður þar sem sálin sameinast Guði, þá streymir hennar eigið líf héðan út áður en líf sameiningarinnar hefst. [3]

Ég hef þýtt þennan kafla í heild og sjá má hann á kirkju.net. [3] Hvernig nálgumst við þetta verundardjúp mannsandans ? Ein þeirra leiða eða viðleitni sem okkur stendur til boða er Kristsrósakrans hins Alhelga Hjarta Jesú [4]

[1]. Mystikern Hjalmar Ekström, bls. 210.
[2]. Borgin hið innra, 1. 1, 8.
[3]. Spr. http://www.kirkju.net/index.php/2008/06/09/
[4]. http://www.kirkju.net/index.php/2008/02/25/

1 athugasemd

Athugasemd from: Pétur Pétursson  
Pétur Pétursson

Takk fyrir að taka þetta saman. Mjög vel gert og áhugavert.

16.11.13 @ 13:12