« 20. krossgangan að krossinum í Riftúni | Valkostir kvenna: Ofurkona eða hvað? » |
Í fórum mínum er bók sem ég fékk fyrir líklega um 35 árum í barnaskóla. Hún heitir Skólaljóð og er gefin út af Ríkisútgáfu námsbóka. Bók þessi er í blárri kápu, Kristján J. Gunnarsson valdi kvæðin og Halldór Pétursson teiknaði myndirnar. Prensmiðjan Edda prentaði en ártal vantar. Fyrst skálda í þessari bók er Hallgrímur Pétursson og fyrsta vísa bókarinnar er hin fyrsta í Heilræðavísum skáldsins og hljóðar svona:
Ungum er það allra bezt
að óttast guð, sinn herra.
Þeim mun vizkan veitast mest
og virðing aldrei þverra.
Þessi vísa kom upp í hugann í liðinni viku þegar fréttirnar af hópslagsmálunum í Skeifunni bárust út. Skv. frásögnum lögreglunnar „var um að ræða einhver alvarlegustu átök lögreglunnar við borgara í langan tíma“ [1] Þarna áttu um 30 lögreglumenn í kasti við um 150-200 ungmenni. Um þessi átök hefur margt verið ritað. Eitt hið athyglisverðasta sem fram hefur komið skrifaði Kári Jónasson í Skoðun Fréttablaðsins þriðjudaginn 5. september. Kári veltir upp ýmsum skýringum svo sem vaxandi virðingarleysi gagnvart náunganum sem og lögum og reglum sem eigi rót sína að rekja til ágalla í uppeldi. Einnig nefnir hann agamál í skólum og vanbúnað skólakerfisins til að mæta þeirri lífsháttabreytingu sem hann nefnir „kaffihúsa og lífsgæðauppsveiflu“. Hann segir m.a.:
Þá hefur fjölskyldumynstrið tekið miklum breytingum, og það er ekki óeðlilegt að eitthvað bjáti á hjá ungmennum þegar þau eru allt í einu komin í gjörbreytt umhverfi á heimilum sínum, foreldri þeirra komið með annan maka og börn sín inn á heimilið og svo eiga bara allir að vera vinir! Slíkar breytingar eru sumum ungmennum hreinlega ofviða, og þau leita þá kannski meira út fyrir veggi heimilisins og safnast saman eins og í Skeifunni á laugardagskvöld. Þar fá þau útrás, fyrir innri óróleika vegna heimilisaðstæðna og hann brýst út í virðingarleysi fyrir lögreglunni
Vissulega er nærtækt að leita skýringa í bágum fjölskylduaðstæðum og vanbúnum skólum en hvað er til ráða? Hvað fjölskyldurnar varðar þá ætti að vera ljóst að þjóðfélagbreytingar síðustu áratuga eru ofvaxnar á ýmsum sviðum. Á árum áður þótti sjálfsagt að afar, ömmur og annað frændfólk réttu hjálparhönd í uppeldinu, væru jafnvel inni á heimilinu. Sem betur fer tíðkast slíkt samhjálparhugarfar ennþá í mörgum fjölskyldum þó kannski í breyttu formi en aðrar eru ef til vill við það að glata þessu í breyttu þjóðfélagi neysluhyggju og lífsþægindagræðgi.
Trúlega má gera margt betur í skólunum eins og annars staðar. Hvað grunnskólann varðar kom t.d. fram í Fréttablaðinu 4. september að alls bíða 242 börn eftir þjónustu skólasálfræðinga í Reykjavík. 160 börn í grunnskólum og 82 á leikskólum. Hegðunarerfiðleikar eru algengasta ástæða tilvísunar.
Í framhaldsskólunum er agi til staðar. Hann kemur fyrst og fremst fram í eftirliti með tímasókn en ætti kannski frekar að koma fram í auknu aðhaldi og aðstoð á ýmsum sviðum svo sem með námsframvindu, en á því sviði er þó erfitt um vik að beita agaviðurlögum því framhaldsskólar fá einungis greitt fyrir hvern þann nemanda sem skilar sér til prófs. Það er því ávísun á tekjutap skólans að beita nemendur agaviðurlögum sem felast t.d. í frávísun frá námi eða skertri þjónustu á einhverju sviði enda er hæpið að strangur agi sé áhugavekjandi fyrir fólk sem t.d. býr við skerta námshæfileika og slíkar aðgerðir gætu aukið brottfall. Miklu fremur væri athugandi að bjóða upp á aðhald í formi aðstoðar. Greiðslukerfi ríkisins hyglar samt þeim skólum mest sem ná inn sem flestum af þeim nemendum sem líklegastir eru til að skila sér til prófs. Þeir sem búa við námsörðugleika eru því ólíklegir til að vekja mikinn áhuga skólanna miðað við núverandi kerfi og til lengri tíma litið, þó skólafólk sé allt af vilja gert og vissulega sé mikið og óeigingjarnt starf unnið á mörgum sviðum í skólunum. Kerfi sem greiddi skólunum miðað við mældan virðisauka námsframfara hjá hverjum nemanda væri líklegra til að mæta betur þörfum þessa hóps.
Íþróttir og tómstundastarf hefur hin síðari ár verið sú lausn sem margir hafa horft til og vissulega er margt í því starfi afar gott. Hinar hefðbundnu íþróttagreinar hafa þar verið í forgrunni en nokkur hópur laðast samt ekki að þeim. Frístundasmiðjur og tónlistarklúbbar höfða líka til margra. En það er samt eitt sem hefur ekki farið hátt í umræðunni og það er nauðsyn þess að ungt fólk skilji og skynji tilgang með tilveru sinni á einstaklingsbundinn hátt og í þjónustu við samfélagið. Í þessu þjóðfélagi sem leggur veraldlegan mælikvarða á allt og alla er skiljanlegt að sumir sjái lítinn tilgang í tildrinu og snúi baki bæði við þjóðfélaginu og lífinu sjálfu. Það er þar sem trúin getur komið, á að koma og kemur inn og hún á fullt erindi nú sem endranær.
[1] Morgunblaðið, 5. sept. 2006. Bls. 1 og 6.
[2] Lögreglu sé sýnd virðing. Kári Jónasson, Fréttablaðið 5.9.2006, bls. 20. og á www.visir.is: [Tengill].
og snúi baki bæði við þjóðfélaginu og lífinu sjálfu.
Það er hryggilegt til þess að hugsa að um 100 sjálfsmorð eigi sér stað í ekki stærra þjóðfélagi og tilraunirnar til sjálfsvíga mun fleiri (skráð tilfelli 250 til viðbótar).
Þróunin hér á landi er einungis 10 árum á efir nágrannalöndunum. Fyrir 35 árum var í lagi að skreppa niður í bæ í München um helgar. Nú hættir enginn heilvita maður sér út úr húsi eftir kl. 8 á kvöldin einsamall.
Svo virðist að það stefni í hið sama í miðbæ Reykjavíkur um helgar. Alla vega hættir fullorðið fólk sér ekki út á þann vígvöll lengur. Ég tel að ástæðan, Ragnar, sé ekki skortur á peningum til einhverra félagslegra úrræða.
Ég tel að orð móður Teresu frá Kalkútta séu sannleikanum nærri: Vesturlönd eru snauðust allra landa vegna þess að þau hafa ekki lengur efni á kærleika.
Bæði er það „ofurkonunum“ og „ofurkörlunum“ um að kenna, fólki sem hefur ekki lengur tíma til að lifa, hvað þá að ala börnin sín upp.
Að 15 til 20 árum héðan í frá þarf vafalaust að koma upp þrælvopnuðum og brynvörðum lögregusveitum til að berjast við blessuð börnin sem foreldrarnir vanræktu.
Ég vildi óska að ég hafi rangt fyrir mér, en því miður bendir allt í þessa átt. Myrkir eru stígir veraldarhyggjunnar í þessum málaflokki sem öðrum.
Ef mig rekur minni til hljóðar ein vísan í þessu kveri:
Trúðu á tvennt í heimi,
tign sem hæsta ber.
Guð í alheimsgeimi,
Guð í sjálfum þér.
Slík heimska er ekki í tísku lengur hjá þessu „hámenntaða“ fólki, eins og það telur sjálft sig vera, fólk sem glatað hefur sjónar á brjóstvitinu (Rm 2. 14).
Mig langar að bæta því við að ég minnist þess enn frá barnsárunum á Siglufirði hversu heiftarlega erlendir sjómenn slógust í landlegum. Þetta var á þeim árum sem Norðmenn, Svíar og Finnar sendu enn sildarbáta til Íslands á sumrin. Þetta voru litlir bátar og vitaskuld án allrar hreinlætisaðstöðu og þegar vel veiddist var síldinni jafnvel mokað í lúkarana.
Brjóstvitið sagði okkur að mennirnir slógust svona heiftarlega vegna innibældrar reiði sökum slæms aðbúnaðar. En vafalaust vita „sérfræðingarnir“ þetta allt betur. En má ekki yfirfæra þetta á vanrækta unglinga? Það skildi nú ekki vera.
Mig langar að vekja athygli á bók sem tekur á þessu vandamáli og var að koma út hjá Sankt Eriks katolsk bokförlag í Svíþjóð í vikunni. Hún heitir Monopol efir Anna Dunér og fjallar um vanrækta 12 ára gamla stelpu og hvernig hún vinnur sig út úr erfiðleikum sínum. Hana má fá hjá:
catholica@catholica
Í Fréttablaðinu í dag 12. september er fyrirsögn forsíðunnar: „Sjálfsvíg vegna spilafíknar“ og í undirfyrirsögninni segir:
Formaður Samtaka áhugafólks um spilafíkn segist vita um þrjá sem hafa svipt sig lífi vegna spilafíknar á þessu ári. Þórarinn Tyrfingsson segir sjálfsvígshugsanir velþekktar meðal spilafíkla og efast ekki um að tölurnar séu réttar.
Á forsíðu Blaðsins í dag er greint frá fjórtán mánaða bið tíu ára drengs eftir innlögn á BUGL - barna og unglingageðdeild Landspítala - háskólasjúkrahúss. Í fréttinni sem er á forsíðunni er haft eftir Ólafi Ó. Guðmundssyni yfirlækni BUGL að hann vísi ábyrgðinni á stjórnvöld og yfirstjórn Landspítalans. Ólafur segir:
Biðtíminn er heimatilbúinn og er óþarfur … Hvorki stjórnendur spítalans né heilbrigðisráðuneyti hafa sýnt áhuga á því að eyða biðlistunum.
Sjá einnig á síðu 4 í Blaðinu.
Í Mbl. í dag 8.10. er frétt á baksíðu: „Tilfinningaleg vanræksla barna virðist vaxandi“. Í fréttinni er vísað í þriðju grein umfjöllunar blaðsins um Ísland sem barnvænt samfélag á bls. 20. Einn viðmælanda blaðsins er Hrefna Ólafsdóttir, félagsráðgjafi og sérfræðingur í fjölskyldumeðferð sem starfað hefur á barna- og unglingageðdeild í tuttugu ár. Hún segir:
Hér áður fyrr komu ekki nokkur einustu börn hingað inn sem langaði ekki til að lifa lengur. Í dag kemur hópur barna sem langar ekki til þess að vera til. Maður heyrir meira að segja eitt og eitt sjö, átta eða níu ára barn segja að það langi ekki að lifa og þegar kemur á unglingsaldur virðist depurð hreinlega vera eins og faraldur í hinum vestræna heimi.“
Í raun þarf þetta viðhorf barnanna engum að koma á óvart í samfélagi þar sem efnisleg lífsgæði eru lögð til grundvallar tilverunni. Ekki er víst að löng ævi full af eftirsókn eftir dauðum hlutum, skemmtun, spennu eða afþreyingu höfði til allra. Það er trú mín að það sem vanti í líf þessara barna auk nauðsynlegrar umhyggju og aðbúnaðar sé skilningur á hinum æðri tilgangi lífsins, sem er tilvera í samfélagi, tilvera sem tekur tillit til þess að lífið sé ekki endastöð alls, heldur eigi það sér æðri tilgang handan sín sjálfs.