« „Í kjarnorkustríði eru engir sigurvegarar, aðeins fórnarlömb“Kenningin um Limbó kvödd »

03.04.06

  18:17:17, Skrásetjari: Ragnar Geir Brynjólfsson   , 1490 orð  
Flokkur: Þjóðfélagsrýni, Önnur trúarbrögð

Viðhorf íslam til trúskiptinga

Eftirfarandi viðtal tók Bernardo Cervellera við prófessor Francesco Zannini fyrir fréttavefinn Asianews.it. Viðtalið er þýtt og birt hér með leyfi Asianews.it.

27 mars, 2006 Asianews.it
Boð um að taka trúskiptinga af lífi er ekki að finna í Kóraninum heldur er um að ræða sterka skoðun margra
eftir Bernardo Cervellera.

Guðfræðingar harðlínumanna hafa komið þeirri skoðun að hjá fólki að trúskipti grafi undan einingu ummah, hins múslímska samfélags. En prófessor Francesco Zannini sem kennir við stofnun Páfagarðs sem rannsakar arabísku og íslam segir að málefnið sé umdeilt meðal múslima.

Hið nýlega mál Abdul Rahman, kristins trúskiptings frá íslam sem hótað var dauðarefsingu hefur opnað að nýju umræðuna um að krefjast dauðarefsingar fyrir trúskipti í löndum múslima. Francesco Zannini, prófessor í nútímaíslam við Stofnun Páfagarðs um arabísk og íslömsk fræði (PISAI) segir að dauðarefsingar sé ekki krafist í Kóraninum, jafnvel þó fólk leggi trú á það. Ljóst er þó að harðlínumennirnir kynda undir í þessu máli og ríkisstjórnir múslima reyna að styggja þá ekki.

Er dauðarefsing fyrir trúskipti virk í allri íslamskri menningu?

Stuðningur við dráp á trúskiptingi til annarrar trúar er sterkur meðal almennings í sumum löndum sem fylgja sharía, eins og í Saudi Arabíu, Íran og fylkjum í Malasíu. En annars staðar í heimi íslam er umræða í gangi um hvort rétt sé að drepa trúskipting eða ekki.

Í fyrsta lagi verður að segja að Kóraninn gefur ekki skýrar línur hvað þetta varðar. Þar segir „Vissulega hefur hin rétta leið greinst skýrt frá hinni röngu leið“ (Sura, 2:256). Jafnvel þó túlka megi önnur vers í Kóraninum sem réttlætingu á drápi, því þau nefna stríð gegn óvinum íslam, þá skilja flestir það svo að allir sem hafni íslam eftir að hafa tekið trúna muni verða refsað við enda lífsins á dómsdegi. Hadith (safn tilvitnana í spámanninn) sem fjalla um málefnið vega ekki þungt í þessu máli. Sumir harðlínumenn eins og [sheik Yusuf] al-Qaradawi sem talar á al-Jazeera, halda því fram að dráp trúníðings sé réttlætanlegt svo fremi sem ein hadith skipi svo fyrir. Aðrir segja að ekki sé hægt að byggja á hadith til að réttlæta dauðarefsingu. Umræðan um trúarafneitun hefur orðið flóknari. Múslimar eru enn að ræða hvernig beri að skilgreina hana, hvort afneitun íslam verði að fara fram í orðum, í gerðum eða bara í hjarta.

Sumir menntamenn eins og Egyptinn Nasr Abu Zaid og Bangladeshinn Taslima Nazrin hafa verið lýst trúníðingar á þann hátt að það virðist endurspegla löngun til að losna við fólk sem er á öndverðu við meginstrauma hugsunarinnar. Hvert svo sem málefnið er eru lagalegir og guðfræðilegir grunnar refsinga fyrir trúníð frekar veikir og umræðan um það er heit. Á eina hönd er fólk á borð við Muhammad al-Ghazali, nútíma harðlínumaður sem styður dauðarefsingu fyrir trúníð. Á aðra hönd eru egypskir mannréttindahópar sem eru gagnrýnir á þetta viðhorf. Margir líbanskir, sýrlenskir og egypskir múslimar trúa líka að enginn geti notað Kóraninn til að draga þá ályktun að dráp á trúníðingum sé nauðsynlegt.

Á dauðarefsingin sér rætur í uppruna íslam eða hefur hún komið fram á nýliðnum áratugum í kjölfar harðlínustefnunnar?

Í upphafi blandaðist trúníð stjórnmálum, nánar tiltekið því hvað ætti að gera við þá utantrúarmenn sem gætu verið njósnarar óvinarins. Þetta viðhorf versnaði undir Abu Bakr, fyrsta kalífanum. Eftirmaður hans, Omar beitti þessu ákvæði jafnvel ekki gegn óvinum íslam. Síðar var reynt að staðla venjuna en hún var aldrei meðtekin auðveldlega innan íslam.

Af hverju er stuðningur við dráp á trúskiptingum svo útbreiddur meðal almennings?

Vegna þess að það er samkomulag á meðal múslima að maður geti ekki afneitað trú sinni (áhersla er lögð á þetta í Kóraninum). Þetta leiddi til ofsókna gegn trúvillingum og trúníðingum. Al-Hallaj, einn af hinum miklu dulhyggjumönnum íslam leið píslarvættisdauða af höndum múslima. Í þessum skilningi var pólitísk notkun trúníðs mikilvæg í höndum valdhafa til að móta viðhorf almennings.

Hvað er það sem hvetur múslima til að vilja drepa einhvern sem sekur er um trúníð í nafni trúar sinnar, ættingja þar á meðal?

Það eru tveir þættir sem skipta máli. Annar er andlegur og hinn tengist meðvitund þeirra um samfélag. Þar sem íslam er séð sem heild er litið svo á að það að snúa baki við trúnni skemmi vöxt hennar. Þetta er ekki málefni trúarinnar heldur málefni ummah eða samfélagsins. Trúskiptingur, múslimi sem snýst til annarrar trúar er álitinn grafa undan samfélagslegri tengingu fjölskyldunnar sjálfrar. Í Malasíu til dæmis er talað um hvað gera eigi við nútímalega múslima, þ.e. þá sem „hegða sér ekki eins og sannir múslimar“ eins og þeir eru skilgreindir innan hefðarinnar. Sumir fræðimenn í Kóraninum halda fram að þá eigi að drepa. Í Indónesíu aftur á móti þar sem grundvallarreglur viðurkenna frelsi fimm trúarbragða mega fjölskyldur innihalda meðlimi sem eru múslimar, kristnir eða hindúar.

Það er líka mikilvægt að gera greinarmun á sharía, sem er guðleg skipan, og fiqh, þ.e. íslömskum dómstól sem grundvallast á mannlegri skynsemi. Þar sem ekki eru guðlegar reglur um trúníð þá er það svo að margir múslimar spyrja, hvernig menn geti tekið sér réttinn til að setja þau lög.

Hve sterkar eru hinar frjálslyndu raddir sem verja trúfrelsi í heimi íslam?

Umburðarlyndi er til staðar í stjórnarskrám múslimalanda að Saudi Arabíu, Íran og Súdan undanteknum. Í Sádi-Arabíu er gengið svo langt að neita að undirrita mannréttindayfirlýsingu Sameinuðu þjóðanna vegna þess að þeir viðurkenna ekki trúfrelsi. Önnur ríki múslima viðurkenna trúfrelsi en vernda það ekki, m.a. vegna þess að þau hafa blandaðar stjórnarskrár. Sumir kaflar eru undir áhrifum sharía, aðrir vísa í alþjóðlega samninga. Og á heildina er litið svo á að íslam sé grundvöllur og bakgrunnur lagagerðar. Þetta opnar á ýmis konar misbeitingu.

Meðal fjöldans er harðlínustefnan (fundamentalism), sem verður að verjast árásum Vesturlanda, í vexti. Guðfræðingar harðlínumanna misbeita Kóraninum. Þeir vitna í baráttu Múhameð við heiðingjana (á meðan á dvöl hans í Mekka stóð) og líta svo á að barátta við trúníð sé hluti af baráttunni við heiðindóm og skurðgoðadýrkun. Þetta er ástæðan fyrir því að dráp á Vesturlandabúa, kristnum eða jafnvel hófsömum múslima er réttlætt.

Eru stjórnir múslimaríkja of varkárar í þeirri viðleitni að halda fram sjálfstæði stjórnarskráa þeirra gagnvart íslam?

Að sjálfsögðu eru þær það. Ríkisstjórnir múslima óttast fjöldann og harðlínumennina. Stjórnarskrárnar staðfesta að valdið komi frá fólkinu, en segja jafnframt að íslam sé ofar öllu. Þessi misskilningur færir fólki öryggi í hinni hefðbundnu sýn á hlutina, sem harðlínumenn kynda svo undir í þeirri von að sjá allan heiminn undir íslam.

Hvað getum við gert. Páfinn og margar ríkisstjórnir hafa krafist sakaruppjafar yfir Abdul Rahman?

Vesturlöndum er vandi á höndum. Ekki er krafist reikningsskila á því fjármagni sem varið er til menntunar og menningar. Oftar en ekki enda þessir peningar hjá ríkisstjórnum sem nota þá til að styrkja valdagrundvöll sinn en ekki til að lægja öldurnar. Samt sem áður hvað svo sem er gert þá verður að forðast valdbeitingu. Upp til hópa telja múslimar að íslam sé í hættu. Ef breytingar eru þvingaðar fram með valdbeitingu þá getur þessi ótti leitt til viðræðuslita. Áskoranir okkar verða að vera grundvallaðar á mannréttindum og tengdar leið múslimskra menntamanna til að sýna fram á að íslam sjálft verndi trúfrelsi.

RGB þýddi. „Killing apostates not in Qu‘ran but a strongly held view in the masses“. Bernardo Cervellera. http://www.asianews.it

No feedback yet