« Skýrsla Rannsóknarnefndarinnar komin á netiðRannsóknarnefndin birtir skýrsluna - yfirlit yfir fréttir á vefmiðlum »

02.11.12

  19:50:00, Skrásetjari: Ragnar Geir Brynjólfsson   , 541 orð  
Flokkur: Kaþólska kirkjan á Íslandi

Viðbrögð við birtingu skýrslu Rannsóknarnefndar Kaþólsku kirkjunnar

Eftirfarandi pistill inniheldur óstytta yfirlýsingu Péturs Bürcher biskups kaþólsku kirkjunnar í tilefni af birtingu rannsóknarskýrslunnar og efni hennar:
--
"Skýrsla íslenskrar rannsóknarnefndar Kaþólsku kirkjunnar, sem Reykjavíkurbiskup stofnaði 29. ágúst 2011, í samræmi við verklagsreglur að tillögu Róberts Spanó prófessors, var birt í dag.

Nefndin vann að þessu verki til októberloka 2012. Hlutverk hennar var að rannsaka á hlutlægan hátt hvernig yfirvöld Kaþólsku kirkjunnar á Íslandi hafa tekið á tilvikum um kynferðislega misnotkun og ofbeldi í fortíðinni og hvaða aðgerðum hún leggur til að beitt verði í framtíðinni. Frá því að nefndin tók til starfa árið 2011 og fram til þessa dags hafa biskupinn og samstarfsmenn hans, m.a. Séra Jakob Rolland, Friðjón Örn Friðjónsson hrl. Og Hjálmar Blöndal hdl., veitt nefndinni allar nauðsynlegar og umbeðnar upplýsingar. Enn fremur hefur nefndin haft fullkomið frelsi til að ræða við fjölda fólks. Skýrslan, eins og frá henni hefur verið gengið, er algerlega á ábyrgð nefndarinnar. Hún þiggur laun fyrir störf sín frá Kaþólsku kirkjunni samkvæmt undirrituðum samningi frá því í fyrra.

Yfirvöld Kaþólsku kirkjunnar á Íslandi hafa í dag fengið í hendur skýrslu nefndarinnar. Þau munu kynna sér hana, einkum ásakanir um misnotkun sem talið er að orðið hafi frá árinu 1960, sem og það sem nefndin leggur til hvað framtíðina snertir. Biskuparnir hafa gripið til ýmissa aðgerða fyrr sem nú. Pétur biskup hefur einnig gripið til allra nauðsynlegra ráðstafana til að taka á móti þeim fórnarlömbum sem þess óska og fylgja þeim eftir. Biskupinn mun stofna fagráð sem sinna mun sérhverri skriflegri fyrirspurn. Allur sannleikurinn verður að koma í ljós. Pétur Bürcher biskup tók á móti ásakendum árið 2010, rannsakaði málin enn frekar og ritaði þeim einnig margsinnis perśónuleg bréf. Hann sendi fjölmiðlum einnig ýmsar upplýsingar árið 2011.

Í nafni Kaþólsku kirkjunnar á Íslandi, sem og persónulega, leitar hugur minn til allra þeirra sem telja að á sér hafi verið brotið og einnig til fjölskyldna þeirra. Þá verður að veita okkur, og ef til vill réttarkerfinu, nauðsynlegan tíma og ráð til að komast að niðurstöðu. Enginn hefur rétt til að kveða fyrirfram upp dóma um sekt og sýknu manna. Hin hörmulega misnotkun á börnum frá hendi kristinna manna, einkum manna úr klerkastétt, veldur mikilli skömm og óskaplegri hneykslun. Forsvarsmönnum ber brýn nauðsyn og skylda til þess að biðjast afsökunar. Það geri ég hér með í fullkominni auðmýkt andspænis þeim persónum sem í raun eiga hér hlut að máli. Það sagði ég einnig opinberlega í fyrra.

Kaþólska kirkjan á Íslandi mun grípa til ráðstafana til að koma í veg fyrir kynferðislega misnotkun í framtíðinni. Hún mun starfa samkvæmt gildandi reglum á Íslandi og í samræmi við alþjóðleg lög kirkjunnar. Hún hefur sett sérstakar forvarnarreglur og starfar að auki með íslenskum yfirvöldum sem og öðrum kirkjum í samkirkjulegum anda samstöðu og einingar. Loks ber að benda á sömu viðleitni Kaþólsku kirkjunnar um heim allan, einkum á síðustu árum, sem beinist að því að skapa öruggara umhverfi handa börnum. Einnig á Íslandi beinast gerðir og bænir kirknanna nú á tímum æ meir að því að skapa nýja menningu virðingar, heiðarleika og kærleika að fyrirmynd Krists meðal allra, og að það nái að breiðast út um allt hið íslenska samfélag. Það er mjög áríðandi og mikilvægt að við vinnum öll saman, biðjum, fyrirgefum og vonum. Til þess erum við reiðubúin.

+ Pétur Bürcher, biskup
2. nóvember 2012"

--
Heimild: http://www.mbl.is/media/89/5489.pdf

1 athugasemd

Athugasemd from: Jon Valur Jensson

Mjög gott bréf frá biskupinum okkar, sem fyrsta viðbragð við þeirri hörmulegu frétt sem rannsóknarskýrslan felur í sér og flytur okkur.

02.11.12 @ 21:28