« Frásagnir af skírlífisbrotum kaþólsks prests og eineltiSumarið er tími pílagrímsferða »

17.06.11

  10:56:15, Skrásetjari: Ragnar Geir Brynjólfsson   , 276 orð  
Flokkur: Kaþólska kirkjan á Íslandi

Frásagnir af alvarlegu kynferðisofbeldi - nauðsynlegt að kirkjan bregðist við

Fréttatíminn greinir í dag frá frásögnum um kynferðisbrot innan Kaþólsku kirkjunnar á Íslandi. Greint er frá alvarlegum kynferðisbrotum fyrrum skólastjóra Landakotsskóla séra A. George, Margétar Müller, kennslukonu við skólann og fyrrum sóknarprests sem ekki er nafngreindur, en fram kemur að þetta fólk er látið núna.[1] Í viðtali við Guðrúnu Ögmundsdóttur fulltrúa í fagráði Innanríkisráðuneytisins um kynferðisofbeldi kemur eftirfarandi fram:

„Málin tvö varða alvarlegt kynferðislegt ofbeldi gegn drengjum innan kaþólska safnaðarins í Reykjavík. Ofbeldið átti sér stað bæði í Landakotsskóla og í Riftúni sem var sumardvalarstaður þeirra kaþólikka. Þetta eru gömul og fyrnd mál og gerendur eru látnir. Það þýðir ekki að málin þurfi kyrr að liggja. Af og frá. Einstaklingunum sem urðu fyrir ofbeldinu var bent á að fara til lögreglu og gefa skýrslu. Komið var á fundi með fagráðinu, ráðherra og biskupi kaþólsku kirkjunnar til að gera biskupi grein fyrir málinu. Síðan eru liðnir tveir mánuðir og ekkert viðbragð hefur komið frá kirkjunni.“

„Kirkjan hefði getað sýnt margs konar viðbrögð við þessu. Stundum vilja þolendur bara það eitt að fá afsökunarbeiðni. Uppreisn æru. Það er aldrei verið að tala um peninga í þessum málum heldur að fólki sé trúað. Yfirleitt er það mikilvægast. Kirkjan hefði getað kallað einstaklingana sem málið snertir á sinn fund, beðist afsökunar á því sem gerðist eða sýnt að hún taki þetta alvarlega. Kirkjan hefur ekkert brugðist við þessu máli,“ segir Guðrún og viðurkennir að hún sé hissa á dræmum undirtektum. Hún segir ástæðu til að fylgjast með trúarsöfnuðum á Íslandi. „Það má vel búast við fleiri málum frá kaþólsku kirkjunni. Við höfum heyrt af tveimur málum til viðbótar sem við eigum von á inn á borð til okkar.“ [2]

[1] http://frettatiminn.is/index.php/frettir/kynferdisleg_misnotkun_innan_katholsku_kirkjunnar_a_islandi
[2] http://www.frettatiminn.is/index.php/frettir/nu_er_folki_truad

4 athugasemdir

Athugasemd from: Ragnar Geir Brynjólfsson

Í gærkvöldi bárust viðbrögð frá Pétri biskupi og var sagt frá þeim á RÚV í miðnæturfréttum. Samhljóða frétt var sett inn á mbl.is kl. 23.42. Þar segir m.a.:

Í tilkynningu frá kaþólsku kirkjunni á Íslandi kemur fram að strax hafi verið brugðist við með þeim hætti að funda með bréfritara sem hafi orðið fyrir kynferðisofbeldinu af hálfu eins kennara við skólann sem og bróðir hans en sá varð fyrir ofbeldi af hálfu skólastjóra Landakotsskóla og samstarfskonu hans.

Í kjölfar fundarins áttu sér stað bréfaskipti milli aðila vegna málsins, samkvæmt fréttatilkynningu frá kaþólsku kirkjunni. Þar kemur m.a. fram að kirkjan geti ekki tekið afstöðu til þeirra alvarlegu ásakana sem settar eru fram gagnvart fyrrum starfsmönnum kirkjunnar. Var bréfritari hvattur til að leita til yfirvalda vegna málsins og myndi kirkjan veita alla þá aðstoð sem unnt væri til að upplýsa málið, segir í tilkynningu.

„Úrlausn málsins var unnin í samráði við lögmann kaþólsku kirkjunnar. Þá er rétt að fram komi að biskup var boðaður til fundar í innanríkisráðuneytinu en fundinn sátu auk ráðherra og ráðuneytisstjóra, fulltrúi lögreglu og barnaverndarstofu. Á fundinum gerði biskup kaþólsku kirkjunnar grein fyrir viðbrögðum við áðurnefndu bréfi og upplýsti ennfremur að kirkjan, í samráði við biskupa í hinum Norðurlöndunum, vinni að gerð samræmdrar áætlunar hvernig starfsfólk kirkjunnar eigi að bregðast við komi upp mál eða ásakanir af þeim toga sem hér um ræðir.

Biskup, Pétur Bürcher, og kaþólska kirkjan á Íslandi áréttar að hún lítur mál af þessum toga mjög alvarlegum augum og vill í samráði við yfirvöld samræma viðbrögð komi upp mál af þessum toga,” segir enn fremur í tilkynningunni frá kaþólsku kirkjunni á Íslandi.

Heimild: http://www.mbl.is/frettir/forsida/2011/06/17/stadfestir_asakanir_um_brot/

18.06.11 @ 08:20
Athugasemd from: Ragnar Geir Brynjólfsson

Þessi texti er úr frétt kom í dag á visir.is kl. 03.13:

„Rétt er að síðastliðinn vetur fékk biskup kaþólsku kirkjunnar bréf þar sem lýst var kynferðislegri áreitni á hendur einum af prestum kirkjunnar sem þá var nýlátinn. Þá kom fram í bréfinu að bróðir viðkomandi hafi orðið fyrir áreitni af hálfu fyrrum skólastjóra Landakotsskóla og samstarfskonu hans sem einnig er látin,” segir í yfirlýsingu biskups.

Sjá: http://www.visir.is/katholski-biskupinn-hafnar-asokunum-um-thoggun/article/2011110619125

18.06.11 @ 17:50
Athugasemd from: Ragnar Geir Brynjólfsson

Hér er fréttatilkynning kaþólsku kirkjunnar í heild sinni. Tekið af vefnum www.catholica.is

17. júní 2011

Fréttatilkynning

Í helgarútgáfu Fréttatímans er umfjöllun undir yfirskriftinni “Kynferðisleg misnotkun innan kaþólsku kirkjunnar á Íslandi”. Segir m.a. að tveir menn hafi stigið fram og lýst kynferðislegu ofbeldi sem hafi verið látið viðgangast innan kaþólsku kirkjunnar í Reykjavík. Er því ranglega haldið fram að kaþólski biskupinn á Íslandi hafi þagað þunnu hljóði þrátt fyrir vitneskju um málið.

Rétt er að sl. vetur fékk biskup kaþólsku kirkjunnar bréf þar sem lýst var kynferðislegri áreitni á hendur einum af prestum kirkjunnar sem þá var nýlátinn. Þá kom fram í bréfinu að bróðir viðkomandi hafi orðið fyrir áreitni af hálfu fyrrum skólastjóra Landakotsskóla og samstarfskonu hans sem einnig eru látin.

Af hálfu biskups kaþólsku kirkjunnar var þegar brugðist við með þeim hætti að fundað var með viðkomandi manni og í kjölfarið áttu sér stað bréfaskipti milli aðila. Þar kemur m.a. fram að kirkjan geti ekki tekið afstöðu til þeirra alvarlegu ásakana sem settar eru fram gagnvart fyrrum starfsmönnum kirkjunnar. Var bréfritari hvattur til að leyta til yfirvalda vegna málsins og myndi kirkjan veita alla þá aðstoð sem unnt væri til að upplýsa málið.

Úrlausn málsins var unnin í samráði við lögmann kaþólsku kirkjunnar. Þá er rétt að fram komi að biskup var boðaður til fundar í Innanríkis-ráðuneytinu en fundinn sátu auk ráðherra og ráðuneytisstjóra, fulltrúi lögreglu og barnaverndarstofu. Á fundinum gerði biskup kaþólsku kirkjunnar grein fyrir viðbrögðum við áðurnefndu bréfi og upplýsti ennfremur að kirkjan í samráði við biskupa í hinum Norðurlöndunum inni að gerð samræmdrar áætlunar hvernig starfsfólk kirkjunnar eigi að bregðast við komi upp mál eða ásakanir af þeim toga sem hér um ræðir.

Biskup Hr. Pétur Bürcher og kaþólska kirkjan á Íslandi áréttar að hún lítur mál af þessum toga mjög alvarlegum augum og vill í samráði við yfirvöld samræma viðbrögð komi upp mál af þessum toga.

Reykjavík, 17. Júní 2011

f.h. Hr. Péturs Bürcher
Séra Jakob Rolland
Upplýsingafulltrúi kaþólsku kirkjunnar á Íslandi


20.06.11 @ 22:42
Athugasemd from: Jon Valur Jensson

Já, hér er þessi yfirlýsing komin, það er fengur að henni. Ég vissi ekki, að hún væri hér, þegar ég skrifaði annað innlegg á yngri vefslóð hér.

22.06.11 @ 01:25