« Úr Lilju eftir Eystein munk (d. 1361)Prestafundur og messa í dómkirkju Krists konungs »

01.02.14

Við þurfum nýjan Frans van Hooff fyrir sveltandi Sýrlendinga

,,Það verður auðveldara að svífa til himna ef vasarnir eru ekki fullir af gulli" (séra Frans van Hooff – dæmi um alvörugefna fyndni hans!).

Einn var sá kaþólskur prestur hér á landi, hógvær og af hjarta lítillátur, sem nánast ekkert bar á nema fyrir tilviljun nánast þegar hann var að berjast fyrir hugsjón sinni, en sá var Frans van Hooff, þjónandi prestur á Akureyri og síðar í Karmelklaustrinu í Hafnarfirði (d. 4. maí 1995 í Jerúsalem, 77 ára). Hann vann það kraftaverk að senda marga stærðarinnar gáma fulla af fötum og skóm (en einnig eldhúsáhöldum, reiðhjólum, verkfærum og ritvélum, m.a.) til þurfandi fólks í Póllandi, Afríku og Rússlandi. Sjá um fatasöfnun hans t.d. tilkynningu hans í Velvakanda 20. sept. 1988 hér, og HÉR! er afar falleg grein um hann eftir Karmelsystur á prestsvígsluafmæli hans 25.7. 1992. Stutt æviágrip hans er hér, og þetta eru minningarorð um hann eftir Jón Ágústsson og önnur og ennþá fróðlegri minningargrein í Mbl. 29. júlí 1995, hún er eftir Ragnar Geir Brynjólfsson á Selfossi, ritstjóra þessa Kirkjunets, og loks er hér falleg hugleiðing eftir sr. Frans á Kirkjunetinu: María og Eva.

Greinilega vann séra Frans í sama anda og núverandi páfi, Franz I, og báðir líkja þeir með sínum hætti eftir andanum í lífsverki heilags Franz frá Assisi.

Væri nú ekki full þörf á því, að kaþólska kirkjan á Íslandi beitti sér sérstaklega fyrir matarsöfnun vegna hins hræðilega ástands í Sýrlandi, þar sem konur jafnvel selja sig til að fá handfylli af hrísgrjónum til að börn þeirra verði ekki hungurmorða? Um það fjallar þessi hörmulega AFP-frétt á Mbl.is fyrir þremur dögum: Hungrað fólk selur sig fyrir bolla af grjónum.

4 athugasemdir

Athugasemd from: Ragnar Geir Brynjólfsson

Blessuð sé minning séra Frans. Ég ræddi við bróður hans í erfisdrykkjunni eftir jarðarförina og hann sagði við mig að af föðurarfi Frans hafi ekkert verið eftir, ekki neitt, en arfurinn mun hafa verið umtalsverður, hann hefur líklega farið mest allur í að fjármagna þessa umfangsmiklu fata- og hjálpargagnaflutninga. Takk fyrir þennan góða pistil Jón og bestu kveðjur til þín!

03.02.14 @ 16:42
Athugasemd from: Ragnar Geir Brynjólfsson

PS. Hér er leiðrétting. Ég er titlaður hér “ritstjóri þessa kirkjunets” sem ég er ekki og hef ekki verið.

06.02.14 @ 06:29
Athugasemd from: Gunnar Ingibergsson
Gunnar Ingibergsson

Góð grein Jón en sorglegt er ástandið í Sýrlandi og hvað þá í Mið Afríku þar sem framin eru þjóðarmorð.

19.02.14 @ 12:52
Athugasemd from: Jon Valur Jensson

Kærar þakkir fyrir innleggin, báðir tveir!
Já, Ragnar, þetta er fróðlegt um séra Franz; hann gaf allt sitt.
Sannur prestur, segi ég, og mega margir taka hann sér til fyrirmyndar.

27.02.14 @ 17:07
Ábyrgðarmaður: Jón Valur Jensson guðfræðingur.

Önnur blogg sama höfundar: [jonvalurjensson.blog.is]
[jvj.blog.is]
[krist.blog.is] (þátttaka)
[lifsrettur.blog.is]

Leit

  XML Feeds

powered by b2evolution free blog software