« Úr Lilju eftir Eystein munk (d. 1361) | Prestafundur og messa í dómkirkju Krists konungs » |
,,Það verður auðveldara að svífa til himna ef vasarnir eru ekki fullir af gulli" (séra Frans van Hooff – dæmi um alvörugefna fyndni hans!).
Einn var sá kaþólskur prestur hér á landi, hógvær og af hjarta lítillátur, sem nánast ekkert bar á nema fyrir tilviljun nánast þegar hann var að berjast fyrir hugsjón sinni, en sá var Frans van Hooff, þjónandi prestur á Akureyri og síðar í Karmelklaustrinu í Hafnarfirði (d. 4. maí 1995 í Jerúsalem, 77 ára). Hann vann það kraftaverk að senda marga stærðarinnar gáma fulla af fötum og skóm (en einnig eldhúsáhöldum, reiðhjólum, verkfærum og ritvélum, m.a.) til þurfandi fólks í Póllandi, Afríku og Rússlandi. Sjá um fatasöfnun hans t.d. tilkynningu hans í Velvakanda 20. sept. 1988 hér, og HÉR! er afar falleg grein um hann eftir Karmelsystur á prestsvígsluafmæli hans 25.7. 1992. Stutt æviágrip hans er hér, og þetta eru minningarorð um hann eftir Jón Ágústsson og önnur og ennþá fróðlegri minningargrein í Mbl. 29. júlí 1995, hún er eftir Ragnar Geir Brynjólfsson á Selfossi, ritstjóra þessa Kirkjunets, og loks er hér falleg hugleiðing eftir sr. Frans á Kirkjunetinu: María og Eva.
Greinilega vann séra Frans í sama anda og núverandi páfi, Franz I, og báðir líkja þeir með sínum hætti eftir andanum í lífsverki heilags Franz frá Assisi.
Væri nú ekki full þörf á því, að kaþólska kirkjan á Íslandi beitti sér sérstaklega fyrir matarsöfnun vegna hins hræðilega ástands í Sýrlandi, þar sem konur jafnvel selja sig til að fá handfylli af hrísgrjónum til að börn þeirra verði ekki hungurmorða? Um það fjallar þessi hörmulega AFP-frétt á Mbl.is fyrir þremur dögum: Hungrað fólk selur sig fyrir bolla af grjónum.
Blessuð sé minning séra Frans. Ég ræddi við bróður hans í erfisdrykkjunni eftir jarðarförina og hann sagði við mig að af föðurarfi Frans hafi ekkert verið eftir, ekki neitt, en arfurinn mun hafa verið umtalsverður, hann hefur líklega farið mest allur í að fjármagna þessa umfangsmiklu fata- og hjálpargagnaflutninga. Takk fyrir þennan góða pistil Jón og bestu kveðjur til þín!
PS. Hér er leiðrétting. Ég er titlaður hér “ritstjóri þessa kirkjunets” sem ég er ekki og hef ekki verið.
Góð grein Jón en sorglegt er ástandið í Sýrlandi og hvað þá í Mið Afríku þar sem framin eru þjóðarmorð.
Kærar þakkir fyrir innleggin, báðir tveir!
Já, Ragnar, þetta er fróðlegt um séra Franz; hann gaf allt sitt.
Sannur prestur, segi ég, og mega margir taka hann sér til fyrirmyndar.
Síðustu athugasemdir