« Páskarnir eru hátíð gleðinnarÞegar komið er af fjöllum - hugleiðing um RÚV - Sjónvarp »

14.04.06

  10:10:20, Skrásetjari: Ragnar Geir Brynjólfsson   , 2278 orð  
Flokkur: Dymbilvika og páskar

Via Dolorosa - leið hins kristna manns

Á föstunni og í dymbilviku er forn hefð kaþólsku kirknanna að biðja bæn sem nefnd hefur verið Krossferill Krists. Á föstudaginn langa er þessi bæn hluti af helgiathöfnum dagsins. Í bæninni er minnst atvika sem urðu á leið Krists þar sem hann gekk með krossinn frá dómstól Pílatusar til Golgatahæðar og þar sem líkami hans var borinn til grafarinnar. Sú leið er nefnd Via Dolorosa á latínu eða Sorgarvegur.[1] Bænin inniheldur 14 erindi sem kallast viðstöður, því þegar bænin er beðin í kirkju er gengið um kirkjuna og staðnæmst við 14 myndir af atburðum úr píslarsögunni, en þessar myndir er að finna í kaþólskum kirkjum eða kapellum. Venjan er að biðja stuttan inngang og síðan viðstöðurnar 14 og loks stutt lokaerindi. Bænirnar eru ekki staðlaðar og eru því til margar útgáfur af krossferlum. Gjarnan mætti fara með erindi úr íslenskum helgikvæðum við þessi tækifæri. Hér á eftir eru þessar 14 viðstöður taldar upp ásamt stuttum inngangshugleiðingum við sumar viðstöðurnar og vísunum eða tilvitnunum í ýmis helgikvæði íslensk.

1. Jesús er dæmdur til dauða af Pontíusi Pílatusi.

(Hér er kropið á kné.)
Prestur: Vér tilbiðjum þig Jesú minn og vegsömum þig.
Allir svara: Því með þínum heilaga krossi hefur þú endurleyst heiminn.
(Hér er staðið á fætur.)

Hver sleppur við dauðadóm? Jesús kaus að gera alla hluti nýja, jafnvel þjáningu og dauða. Fyrst Guð kaus að ganga þessa leið sjálfur þá getur hún ekki verið án tilgangs. Hjálpaðu mér Jesús að hefja undirbúning þessa andartaks hér og nú, deyja hvern dag eins og hveitikornið og finna lífi mínu þann tilgang sem þú hefur ætlað.

„Sannlega, sannlega segi ég yður: Ef hveitikornið fellur ekki í jörðina og deyr, verður það áfram eitt. En ef það deyr, ber það mikinn ávöxt. Sá sem elskar líf sitt, glatar því, en sá sem hatar líf sitt í þessum heimi, mun varðveita það til eilífs lífs.“ (Jh.12. 24-25).

Viltu þig þvo, þá þvo þú hreint
þel hjartans bæði ljóst og leynt.
Ein laug er þar til eðlisgóð,
iðrunartár og Jesú blóð.
Grát þína synd, en set þitt traust
á sonar guðs pínu efalaust.
Lát af illsku, en elska gott,
allan varastu hræsnisþvott.
[2] (28. sálmur 8. erindi).

Faðir vor ...
Heil sért þú María ...
Dýrð sé Föðurnum ...

2. Jesús tekur á sig krossinn.

(Hér er kropið á kné.)
Prestur: Vér tilbiðjum þig Jesú minn og vegsömum þig.
Allir svara: Því með þínum heilaga krossi hefur þú endurleyst heiminn.
(Hér er staðið á fætur.)

Við verðum að axla krossinn hvort sem það verður viljandi eða ekki. En hvernig við berum hann er undir okkur komið.

Stríðsmenn Krist úr kápunni færðu
og klæddu hann sínum búning í.
Sollnar undir sárt við hrærðu.
Þær sviðu og blæddu upp á ný.
Á blessuðu sínu baki særðu
hann bar sinn kross og mæddist því.
[2] (30. sálmur 1. erindi).

Faðir vor ...
Heil sért þú María ...
Dýrð sé Föðurnum ...

3. Jesús hnígur niður undan þunga krossins.

(Hér er kropið á kné.)
Prestur: Vér tilbiðjum þig Jesú minn og vegsömum þig.
Allir svara: Því með þínum heilaga krossi hefur þú endurleyst heiminn.
(Hér er staðið á fætur.)

Hversu oft brestur okkur ekki afl undir byrðum lífsins? Lífið krefst ofurmannlegs styrks en við erum ekki ofurmenni. Jafnvel Kristur sjálfur hneig niður. Guð er ekki ofurmenni eins og margir álíta að hann ætti að vera. Almætti hans fullkomnast ekki í styrkleika, heldur í veikleika og fórn í þágu kærleikans.

Eru æ minnileg eftirdæmi:
Yfirbjóðandi himins og landa
hneigði nú sinn háls og vægði
hverjum þræl, er lysti að berja,
fátalaðr með lítillæti,
lágraustaðr með ásjón fagra,
svo bjóðandi í sáran dauða
sína önd fyrir nauðsyn mína.[4]

Faðir vor ...
Heil sért þú María ...
Dýrð sé Föðurnum ...

4. Jesús mætir móður sinni.

(Hér er kropið á kné.)
Prestur: Vér tilbiðjum þig Jesú minn og vegsömum þig.
Allir svara: Því með þínum heilaga krossi hefur þú endurleyst heiminn.
(Hér er staðið á fætur.)

Móðir Jesú fylgdi honum Sorgarveginn og allt til grafarinnar. Sumir eru svo lánssamir að eiga nákomna ættingja, vini eða lífsförunauta sem geta veitt þessa fylgd. Þó við vitum ekki hvort neinn muni fylgja okkur þessa leið þá getum við þó kannski fylgt fordæmi Maríu og fylgt einhverjum öðrum áleiðis. Hversu margir þurfa ekki að ganga þessa leið einir í dag inni á stofnunum, fjarri fjölskyldu og ástvinum?

Síðan mætti hann sinni móður,
svo fallinn hún kenndi hann varla,
sverð hins gamla Símeons orða
sárlega snart þá hennar hjarta;
guðdóms styrkur gaf henni orku
grát að stilla vel í máta.

Sonarins neyð og sorgir móður,
samblandað í hugarins landi,
ættum vér með elsku rétta
innilega í hjarta að minnast.
Yfirvoldugri allri mildi
er skínandi Jesú pína,
hún gefr bezt þeim henni treysta
himneskt ráð til guðdóms náða. [3]

Faðir vor ...
Heil sért þú María ...
Dýrð sé Föðurnum ...

5. Símon frá Kýrene hjálpar Jesú að bera krossinn.

(Hér er kropið á kné.)
Prestur: Vér tilbiðjum þig Jesú minn og vegsömum þig.
Allir svara: Því með þínum heilaga krossi hefur þú endurleyst heiminn.
(Hér er staðið á fætur.)

Stundum berst hjálp í einhverju formi. Verum bæði fús til að þiggja og veita hjálp.

Elskugeð svo þitt ég þekki,
þjáðum viltu sýna lið.
Láttu mig, drottinn einan ekki
í ánauð minni, og þess ég bið,
nafnið mitt, þó nauðir hnekki,
náð þín blessuð kannist við.
[2] (30. sálmur, 11. erindi)

Faðir vor ...
Heil sért þú María ...
Dýrð sé Föðurnum ...

6. Veróníka þerrar andlit Jesú.

(Hér er kropið á kné.)
Prestur: Vér tilbiðjum þig Jesú minn og vegsömum þig.
Allir svara: Því með þínum heilaga krossi hefur þú endurleyst heiminn.
(Hér er staðið á fætur.)

Erum við reiðubúin að aðstoða ókunnuga í neyð þeirra? Það kostar alltaf eitthvað auk þess að geta falið í sér áhættu. Veróníka tók eflaust mikla áhættu með þessu, hver álasar henni fyrir það núna? Guð launar fyrir sig.

Faðir vor ...
Heil sért þú María ...
Dýrð sé Föðurnum ...

7. Jesús fellur öðru sinni.

(Hér er kropið á kné.)
Prestur: Vér tilbiðjum þig Jesú minn og vegsömum þig.
Allir svara: Því með þínum heilaga krossi hefur þú endurleyst heiminn.
(Hér er staðið á fætur.)

„Hver sem vill fylgja mér, afneiti sjálfum sér, taki kross sinn og fylgi mér. Því að hver sem vill bjarga lífi sínu, mun týna því, og hver sem týnir lífi sínu mín vegna, mun finna það.“ (Mt. 16.24-25).

Krossinn þungan kvalarar fengu
Kristi að bera, með hörðum kvistum,
særðust hans enu sælu herðar
svo blæðandi hann féll af mæði;
manndóms styrkur mátti ei orka
meiri pínu á holdi sínu,
því hann var lengi þreyttr af göngu
og þorsta mæddr í stóru frosti. [3]

Faðir vor ...
Heil sért þú María ...
Dýrð sé Föðurnum ...

8. Jesús talar til hinna grátandi Jerúsalemsdætra.

(Hér er kropið á kné.)
Prestur: Vér tilbiðjum þig Jesú minn og vegsömum þig.
Allir svara: Því með þínum heilaga krossi hefur þú endurleyst heiminn.
(Hér er staðið á fætur.)

Fólkið, sem drottni fylgdi út,
fylltist margt angri hörðu.
Kvinnurnar grétu sárt með sút,
sem hans kvöl aumka gjörðu.

Sneri til þeirra son guðs sér,
sagði þá herrann mætur:
Grátið þér ekki yfir mér,
ó, Jerúsalem dætur.

Sona yðra og eigin eymd
eflaust þér gráta megið.
Nálgast sú tíð, sem nú er geymd,
nær þér harmandi segið:

Sæl nú óbyrjan barnlaus er
og brjóst þau ei sogin vóru.
Hrynji yfir oss hálsarnir,
hæðir og björgin stóru.

Ef gjört er svo því græna tré,
geta hver til þess næði,
hvað hið þornaða þá mun ske.
Það frá ég Jesús ræði.

Ó, hvað veraldar virðing er
völt og svikul að reyna.
Gæt þess, mín sál, og sjáðu hér
sannprófað dæmið eina.

Hafi svo verið völt og flá
veröldin herra sínum,
hvers má sér vænta þrællinn þá?
Þess gæt í huga þínum.
[2] (Úr. 31. sálmi.)

Faðir vor ...
Heil sért þú María ...
Dýrð sé Föðurnum ...

9. Jesús fellur þriðja sinni.

(Hér er kropið á kné.)
Prestur: Vér tilbiðjum þig Jesú minn og vegsömum þig.
Allir svara: Því með þínum heilaga krossi hefur þú endurleyst heiminn.
(Hér er staðið á fætur.)

Þegar við örmögnumst undir byrðum lífisins þá hjálpar að minnast þess að lífið er að láni og það er ekki okkar heldur hans, hann þjáist í okkur og því öðlast þjáningin endurleysandi tilgang í þágu kærleikans. Ég hef kosið að ganga veginn með þér og því ert þú í mér og ég er í þér. Þetta er ekki mitt líf heldur þitt Jesús.

„Sá sem etur hold mitt og drekkur blóð mitt, er í mér og ég í honum. Eins og hinn lifandi faðir sendi mig og ég lifi fyrir föðurinn, svo mun sá lifa fyrir mig, sem mig etur.“ (Jh. 6. 56-57).

Faðir vor ...
Heil sért þú María ...
Dýrð sé Föðurnum ...

10. Jesús er sviptur klæðum.

(Hér er kropið á kné.)
Prestur: Vér tilbiðjum þig Jesú minn og vegsömum þig.
Allir svara: Því með þínum heilaga krossi hefur þú endurleyst heiminn.
(Hér er staðið á fætur.)

Faðir vor ...
Heil sért þú María ...
Dýrð sé Föðurnum ...

11. Jesús er negldur á krossinn.

(Hér er kropið á kné.)
Prestur: Vér tilbiðjum þig Jesú minn og vegsömum þig.
Allir svara: Því með þínum heilaga krossi hefur þú endurleyst heiminn.
(Hér er staðið á fætur.)

Faðir vor ...
Heil sért þú María ...
Dýrð sé Föðurnum ...

12. Jesús deyr á krossinum.

(Hér er kropið á kné.)
Prestur: Vér tilbiðjum þig Jesú minn og vegsömum þig.
Allir svara: Því með þínum heilaga krossi hefur þú endurleyst heiminn.
(Hér er staðið á fætur.)

Eg segi rétt, að enginn mætti
ógrátandi vörum láta,
Jesú minn, ef letrið læsi
linhjartaðr af píslum þínum,
því að náttúran æpti af ótta
öll skjálfandi, en himnar sjálfir
týndu ljósi, er ber varst bundinn,
bifaðist hauðr í þínum dauða. [4]

Faðir vor ...
Heil sért þú María ...
Dýrð sé Föðurnum ...

13. Jesús er tekinn af krossinum og lagður í fang móður sinnar.

(Hér er kropið á kné.)
Prestur: Vér tilbiðjum þig Jesú minn og vegsömum þig.
Allir svara: Því með þínum heilaga krossi hefur þú endurleyst heiminn.
(Hér er staðið á fætur.)

Faðir vor ...
Heil sért þú María ...
Dýrð sé Föðurnum ...

14. Jesús er lagður í gröfina.

(Hér er kropið á kné.)
Prestur: Vér tilbiðjum þig Jesú minn og vegsömum þig.
Allir svara: Því með þínum heilaga krossi hefur þú endurleyst heiminn.
(Hér er staðið á fætur.)

Dýrlega smurðu drottins lík,
dæmin má önnur finna slík,
byrgðu með steini búna gröf,
burt gengu strax fyrir utan töf.

María, móðir Jakobs ein,
Magdalena á sömu grein,
Salóme einnig sat þar hjá,
sáu vors herra greftran á.

Í þeirra selskap, sál mín blíð,
settu þig niður litla tíð.
Greftran þíns herra gæt vel að.
Gagnslaust mun ekki vera það.

Við Jesú greftran ég fæ séð,
Jósef og Nikódemum með.
Áður þeir þorðu ekki Krist
opinberlega að játa fyrst.

Nú fá þeir næsta nýjan dug,
nóga djörfung og styrkan hug,
augljóslega svo allir sjá
elsku, sem drottni höfðu á.
[2] (49. sálmur 6.-10. erindi.)

Faðir vor ...
Heil sért þú María ...
Dýrð sé Föðurnum ...

Viðstöður þessar má einnig biðja utandyra í helgigöngu og er þær því gjarnan að finna á pílagrímastöðum kaþólskra.

[1] Kort af leiðinni má finna hér [Tengill]
[2] Fimmtíu passíusálmar eftir Hallgrím Pétursson. Reykjavík, Prentsmiðjan Leiftur 1981.
[3] Píslargrátur. Jón Arason. Íslenzkt ljóðasafn I bindi. Fornöld Miðaldir Siðaskiptaöld. Kristján Karlsson valdi kvæðin. Almenna bókafélagið 1976.
[4] Lilja. Eysteinn munkur. Íslenzkt ljóðasafn I bindi. Fornöld Miðaldir Siðaskiptaöld. Kristján Karlsson valdi kvæðin. Almenna bókafélagið 1976.

1 athugasemd

Athugasemd from: Jón Rafn Jóhannsson
Jón Rafn Jóhannsson

Þetta eru glæsileg vinnubrögð hjá þér Ragnar. Hafðu þakkir fyrir, miklar upplýsingar og allt saman athyglisvert.

14.04.06 @ 14:30