« Ráðstefna um lausn frá samkynja kynlífsháttumTvær nýjar fréttir um tvíræðni tæknifrjóvgunar »

14.12.06

Vesturlönd afneita trúarlegum rótum sínum

Sagnfræðiprófessorinn Jonathan Clark á makalaust afhjúpandi, skýra og skemmtilega grein í nýjasta Spectator. 'The West denies its religious roots' nefnist hún. Hvet ég alla enskumælandi til að lesa hana – hún opinberar þann hráskinnaleik, þann undarlega selskapsleik sem Vesturlandamenn – einnig við Íslendingar – hafa leikið í marga áratugi : flóttann frá því að viðurkenna rætur okkar, sem við stöndum þó á, fælnina frá því að ræða saman um trú okkar, feluleikinn um undirstöðuhugsun kristinnar trúar.

Í staðinn höfum við verið góð í því að leita uppi "lægsta sameiginlega samnefnarann" – færa helzt ekkert í tal af andlegum eða trúarlegum efnum, sem ýtt gæti óþægilega við einhverjum í samkvæminu (af því að hann kynni að vera á annarri línu en við í trúnni, jafnvel guðspekisinni, spíritisti, guðleysingi eða vantrúar-sósíalisti, nú eða tengdur nýjum trúarbrögðum sem hingað berast). Við höfum þaggað þessi mál svo niður, að við missum bara fótanna, þegar þau, allt í einu, eru komin í sviðsljósið á ný – ekki af því að við báðum um það, heldur vegna breyttrar veraldar, af því að skyndilega sjáum við, að mörgu af þessu aðkomna fólki er trúin eitthvað sem skiptir máli, eitthvað sem dregur það til guðsdýrkunar með öðrum sama sinnis, meðan við vorum hins vegar nánast "útskrifuð" úr kirkjunni, ef ekki með fermingunni, þá fljótlega upp úr því.

Jonathan Clark hlífir okkur ekkert í þessari grein sinni, hann minnir okkur á þá staðreynd, sem virðist orðin óþægileg, að þjóðfélög okkar og menning eru um fjölmarga hluti reist á kristindómnum, svo sem í löggjöf okkar, velferðarhugsjón, vitundinni um jafngildi allra manna, um boðorð kærleika og mannúðar. Þessi mótunaráhrif birtust í listum og bókmenntum og halda áfram að gera það, ennfremur í starfsemi stofnana sem mótuðust í upphafsrót sinni af kristinni sýn og trúarlegri hugsjón – ég nefni sem dæmi kristnar verkalýðshreyfingar (bæði í kaþólskum löndum og t.d. á Norðurlöndunum, auk kristinna hreyfinga í þeim málum í Englandi á 19. öld), sjúkrahúsrekstur víða um lönd allt frá miðöldum, einnig hér (bæði á miðöldum, sbr. m.a. nýframkomna vitneskju um slíkt á Skriðuklaustri, og á seinni tímum má nefna Franska spítalann, St. Jósefsspítalana í Reykjavík og Hafnarfirði og St. Franziskus-spítalann í Stykkishólmi). Þá má ekki gleyma Elli- og hjúkrunarheimilinu Grund, Samhjálp hvítasunnumanna og Hlaðgerðarkoti, Hjálpræðishernum og sjálfri AA-hreyfingunni (sem fekk upphafshugmyndir sínar og hvatningu frá meðlimum Oxford-hreyfingarinnar, sem var kristin endurnýjunarhreyfing í Bretlandi); enn eru AA-sporin tólf grundvölluð í guðstrú. En áhrif Biblíunnar til góðs fyrir löggjöf Evrópumanna og málsmeðferð sakamála eru merkilegur kafli í sögu miðalda, einkum frá Justinianusi keisara í Miklagarði, sem og frá kirkjuréttinum (Ius canonicus = kanónréttur kaþólsku kirkjunnar). Höfðu margar frumreglur, þaðan komnar, og starfshættir við réttarhald víðtæk og farsæl áhrif á löggjöf Evrópuþjóða, eins og lögfræðiprófessorinn Harold J. Berman gerir ljósa og góða grein fyrir í riti sínu The Interaction of Law and Religion (SCM Press, London 1974; ég mun síðar skrifa hér grein(ar) um merkileg atriði í þeirri bók, með hliðsjón af öðrum ritum).

En aftur að grein Jonathans Clark (og seinni hluta hennar hér) – það er ekki margra mínútna lestur að renna í gegnum hana, en sá lestur er "self-rewarding," eins og Englendingar segja. Mörgum mun einnig vera það ljósara en áður, hve knýjandi er orðið, að við stöldrum við og setjum a.m.k. spurningamerki við alla veraldarvæðinguna, sem orðin er. Þó erum við Íslendingar enn ekki komnir jafn-langt á þeirri braut og svokallaðir "frjálslyndir" (liberals) í Bandaríkjunum, þar sem það er að verða pínlegt feimnismál að nefna stór jólatré á torgum og í almenningsgörðum Christmas tree, heldur þarf að nefna þau "árstíðartré" til að þókknast fjölhyggjunni, veraldarvæðingunni og fjölmenningunni! En menn eru nú, í ljósi hraðvaxandi áhrifa trúarlegra hreyfinga múslima í Miðausturlöndum og Evrópu, farnir að hyggja aftur að rótum okkar og kristnum arfi – hvort það sé í raun okkur til góðs að vanrækja hann, finnast hann kinnroðaefni og telja okkur jafnvel þess umkomna að varpa honum fyrir róða, meðan aðrir eru sízt á þeim buxunum, hvað þeirra trú varðar, og furða sig raunar á daufri trúarvitund Vesturlandamanna og þokukenndri sjálfsmynd þeirra, hvað snertir hina meintu trú þeirra.

Ýmislegt þessu tengt mun vera til umræðu í nýútkomnum Þjóðmálum (3. hefti 2006), undir ritstjórn þess ágæta menntavinar Jakobs F. Ásgeirssonar. Menn hafa kannski séð árásina lítt dulbúnu, sem gerð var á það Þjóðmálahefti í 'Viðhorfs'-grein Höllu Gunnarsdóttur, vinstrisinnaðs blaðamanns, í Morgunblaðinu í dag, en þeir ættu einmitt að láta sér það verða til hvatningar að afla sér tímaritsins, láta sjálfum sér það eftir að vega og meta upplýsingar og umfjöllun Jakobs og félaga hans, Stefáns Einars Stefánssonar, formanns Félags guðfræðinema, og fleiri góðra höfunda. Það mun ekki sízt tíðindavert, að þar er fjallað um fósturdeyðingar og ekki farið í feluleik með þá staðreynd, að þær rekast illilega á kristna manngildishugsjón allt frá rótum trúar okkar á tímum Biblíunnar.

1 athugasemd

Matthías Ásgeirsson

Þó erum við Íslendingar enn ekki komnir jafn-langt á þeirri braut og svokallaðir “frjálslyndir” (liberals) í Bandaríkjunum, þar sem það er að verða pínlegt feimnismál að nefna stór jólatré á torgum og í almenningsgörðum Christmas tree, heldur þarf að nefna þau “árstíðartré” til að þókknast fjölhyggjunni,

Hér snýr J öllu á haus. Við íslendingar erum einmitt svo heppin að við köllum þessi tré jólatré en ekki Kristsmessutré.

15.12.06 @ 09:54
Ábyrgðarmaður: Jón Valur Jensson guðfræðingur.

Önnur blogg sama höfundar: [jonvalurjensson.blog.is]
[jvj.blog.is]
[krist.blog.is] (þátttaka)
[lifsrettur.blog.is]

Leit

  XML Feeds

multiblog