« Vísindi allra vísinda og list allra lista – um hið guðdómlega ásæi mannsandansHin innsiglaða uppspretta – Hl. Gregoríos frá Nyssa (335-395) »

06.07.08

  09:31:06, Skrásetjari: Jón Rafn Jóhannsson, 1578 orð  
Flokkur: Bænalífið, Heilagur Andi

Verundardjúp mannssálarinnar og sköpunarmáttur þjáningarinnar

Í „Bæn kirkjunnar“ kemst Edith Stein svo að orði: „Hjá þeim sem ganga inn í einingu hins guðdómlega lífs verður allt að einni heild: Hvíld og starf, andleg íhugun og viðleitni, þögn og tal, hlustun og samskipti, elskurík meðtaka og elskurík sjálfsgjöf í þakkarbæn og lofgjörð . . . Við þörfnumst tíma þögullar hlustunar þegar við heimilum Orðinu guðdómlega að starfa í okkur uns hann krefst fórnar í lofgjörð og verkum ávaxtanna.“ Eða með orðum sjálfs Frelsarans: „En nær þú biðst fyrir, skaltu ganga inn í herbergi þitt, loka dyrunum og biðja Föður þinn, sem er í leynum. Faðir þinn, sem sér í leynum, mun umbuna þér. (Mt 6. 6). Herbergið er sjálft mannshjartað og dyrnar áreiti skynhrifanna.

Sjálf þekkti Edith þessa fórn lofgjörðarinnar í verkum ávaxtanna. Hún var Gyðingur og þrátt fyrir að hafa snúist til kaþólskrar trúar og gerst karmelnunna varð hún að sæta sömu ofsóknum af hálfu nasista í Þýskalandi eins og aðrir Gyðingar og hún leið með þjóð sinni. Hún gerði sér sannleika krossferils Frelsarans ljósan vegna þess að hún lifði í djúpinu: „Í holdtekju sinni gekk Guðsonurinn dýrlegan veg upprisunnar í þjáningum krossins. Vegur sérhvers okkar og eins til dýrðar upprisunnar liggur með Mannssyninum í gegnum þjáningarnar. Þetta gildir um allt mannkynið.“ [1]

Ofsóknirnar á hendur gyðingum hófust að fullu árið 1938. Systir Teresia Benedicta tók heilshugar þátt í þjáningum þjóðar sinnar:

„Það er skuggi krossins sem fellur á þjóð mína. Ó, að henni mætti einungis skiljast þetta!“

Dvöl hennar í karmelklaustrinu í Köln fól frá og með þessari stundu í sér alvarlega hættu bæði fyrir hana og aðra meðlimi samfélagsins. Ákveðið var að hún settist að í klaustrinu Echt í Hollandi, klaustri sem karmelklaustrið í Köln hafði stofnað á nítjándu öld (þegar systurnar urðu að flýja sökum kulturkamp Bismarcks). Hún fór yfir landamærin aðfaranótt 31. desember 1938. Í Echt samdi systir Teresia Benedicta einmitt Vísindi krossins. Á sunnudeginum í dymbilvikunni árið 1938 skrifaði Edith eftirfarandi beiðni sem stíluð var til príorínu hennar: „Kæra og æruverðuga móðir. Ég fer þess eindregið á leit við yður að þér heimilið mér að bjóða sjálfa mig fram sem friðþægingu frammi fyrir hinu Alhelga hjarta Jesú friðnum til styrktar. Megi veldi Antíkrists verða brotið á bak aftur með þessum hætti – hugsanlega án annarrar heimsstyrjaldar – og röð og reglu komið á með öðrum hætti. Ég veit að sjálf er ég ekkert, en þetta er það sem Jesús vill . . .“ Guð þáði fórnina. Þessa ákvörðun mátti rekja til lífs hennar í Karmel Teresu. Í „Bæn kirkjunnar“ kemst Edith Stein svo að orði:

Hin hátíðlega guðdómlega lofgjörð verður að eignast heimili á jörðu þar sem hún þróast til þess æðsta fullkomleika sem mögulegur er fyrir mennska sköpun. Héðan rís hún til himins allri kirkjunni til handa og verður virk í limum kirkjunnar og glæðir innra líf þeirra og hvetur þá til hlutdeildar í henni. En hún verður einnig að glæðast að innan á þessum stöðum með því að veita henni svigrúm og dýpt. Að öðrum kosti myndi hún snúast upp í innantóma varaþjónustu. Íhugunarhús þar sem sálirnar standa í einveru og þögn frammi fyrir ásjónu Drottins veita vernd gegn þessari hættu. Þau vilja vera í hjarta kirkjunnar í þeirri elsku sem lífgar alla.

„Hver sem tekur ekki sinn kross og fylgir mér, er mín ekki verður. Sá sem ætlar að finna líf sitt, týnir því, og sá sem týnir lífi sínu mín vegna, finnur það“ (Mt 10. 38-39), segir Frelsarinn. Mannssálin verður að hætta að lifa á ytri sviðum égs síns til að finna hið sanna líf í verundardjúpi sínu. Við kynnumst einungis djúpi hjartans með krossfestingu þess, því sem hinir heilögu feður og mæður nefndu á grísku katanyxis kardia.

Fyrir mörgum árum síðan var ég svo lánsamur að komast í kynni við jesúítaföðurinn Henry Boulad í Alexandríu í Egyptalandi (þetta get ég þakkað föður Oremusi vegna þess að hann þjónaði einmitt í Alexandríu áður en hann var sendur til Istanbúl). Faðir Boulad varð víðkunnur fyrir fyrirlestra sína sem hann flutti vikulega í Alexandríu og ávallt fyrir fullu húsi. Vinir hans tóku fyrirlestra hans upp á segulband og skrifuðu þá síðan niður og tóku saman í lausblaðamöppum sem voru síðan sendar um allan heim (alls 6 þykk bindi).

Auk þess að vera guðfræðingur var faðir Boulad taugalífsfræðingur með doktorsgráðu frá Háskólanum í Chicago. Í einum fyrirlestra sinna fjallaði hann um sköpunarmátt þjáningarinnar. Hann greindi frá tilraun sem gerð var í Bandaríkjunum hvað varðaði sársaukaskynjun ýmissa dýrategunda. Tilraunirnar voru framkvæmdar á vegum bandaríkjahers þar sem herlæknar í vígvöllum Annarrar heimstyrjaldarinnar höfðu komist að raun um að sársaukaskyn hermanna var afar breytilegt og réðst af uppruna þeirra. Þannig þörfnuðust þeir hermannanna sem voru úr hópi frumbyggjanna, indíánar og eskimóar, ekki jafn stórra skammta af deyfilyfjum eins og til að mynda hermenn af ítölskum ættum.

Niðurstöður rannsóknanna voru í sem fæstum orðum þær að huglæg og sálræn afstaða sjálfra hermannanna réði úrslitum. Umfangsmiklar rannsóknir voru gerðar á sársaukamörkum ýmissa dýra. Niðurstöðurnar komu afar mikið á óvart. Þau dýranna sem þjáðst höfðu mest í langan tíma reyndust vera með hærri greindarvísitölu! Þegar þau voru krufin blasti við sjónum að rákirnar í heilaberki þeirra voru dýpri en annarra dýra sömu tegundar.

Þegar faðir Boulad snéri að nýju heim til Egyptalands tók hann að íhuga þessar óvæntu niðurstöður nánar og þá var það sem hann uppgötvaði það sem hann nefndi sköpunarmátt þjáningarinnar, mátt, sem opinberaðist með áþreifanlegum hætti í lífi einstaklinga sem höfðu „unnið sigur á þjáningunni.“ Hann greindi frá fyrrverandi liðsforingja í egypska hernum sem misst hafði sjónina í götuóeirðum. Fyrsti árin eftir þetta slys þjáðist hann af alvarlegu þunglyndi. En með tímanum gerðist „kraftaverkið.“ Þegar hann hafði sæst við sjálfan sig og ástand sitt tók hann að berjast fyrir réttindum blindra og velferð þeirra. Hann stofnaði og varð framkvæmdastjóri stærsta blindraheimilisins í Egyptalandi!

Faðir Boulad minntist einnig á franska konu sem var svo alvarlega bækluð allt frá fæðingu að því sem næst allur líkami hennar var óstarfhæfur. „Bæklun“ hennar var í reynd svo mikil að það var höfuðið eitt sem starfaði bókstaflega talað með eðlilegum hætti og það varð að vopni hennar í baráttunni fyrir réttindum hinna bækluðu í Frakklandi. Með því að tala í útvarpi og sjónvarpi auðnaðist henni að lokum að reisa sjö meðferðarheimili. Listamaður einn sem aflaði sér heimsfrægðar gat gefið öðrum hlutdeild í fegurð heimsins með því að halda á penslinum milli tanna sér.

Með þessum og fjölmörgum öðrum tilvikum sannfærðist Boulad um hinn skapandi mátt þjáningarinnar, að fólki sem hefði auðnast að virkja þennan mátt öðrum til heilla framkvæmdi í reynd kraftaverk, væru einstaklingar sem nýttu hæfileika síns mun betur en þeir sem teljast „heilbrigðir.“ Hann útskýrði þetta með því að þessu fólki hefði lærst sá leyndardómur, að lifa út frá dýpsta djúpi verundar sinnar, hefði svo að segja sætt sig við aðstæður sínar og aðlagað líf sitt að þeim möguleikum sem lífið fæli í sér: HEFÐI SÆST VIÐ GUÐ. Og í beinu áframhaldi af þessu hefði það orðið að farvegi náðarinnar sem hefði haft mótandi áhrif á allar aðstæður þess og breytni ekki síður en á umhverfi þess og samferðamenn.

Við getum ekki gengið inn í djúp verundar okkar og sæst við Guð með öðrum hætti en með því að ganga veg krossins: Að deyja okkar óæðra og lítilsiglda lífi á útjöðrum verundar okkar. Þetta er að öðlast hlutdeild í lífi Krists þegar hér á jörðinni. Ég hef bent hér að framan á eina leið að þessu marki, það er að segja á Kristsrósakrans hins Alhelga Hjarta Jesú. Sjá: http://www.kirkju.net/index.php/2008/02/25/

Það er þessi sannleikur sem hinir heilögu feður Austurkirkjunnar nefndu „vísindi allra vísinda“ og jafnframt „list allra lista,“ æðsta verk mannssálarinnar á jörðu. Við skulum íhuga þetta nánar í næstu grein.

[1]. Människoblivandets mysterium, í tímaritinu Karmel, árgangi 2 (1967), bls. 16.

No feedback yet