« Hann hafði fórnað lífi sínuSaga um mann sem elskaði dýr. »

05.03.06

  23:07:28, Skrásetjari: Sr. Denis O'Leary   , 347 orð  
Flokkur: Dæmisögur og sögur

Verk hans lýsa því, að vísdómur hans er takmarkalaus

Í guðfræði Austurlanda er lögð áhersla á að við getum á engan hátt vitað neitt um eðli Guðs og að við þekkjum hann aðeins fyrir "verk" hans.

Einu sinni stóð forn kastali í fögru dalverpi. Nokkru eftir aldamótin 1800 átti barón nokkur kastalann. Hann átti einn son.

Einu sinni kom ferðamaður til að skoða kastalann, en sonur barónsins var ekki heima. Talið barst að trúmálum. Kom þá í ljós að ferðamaðurinn var trúleysingi.

„Ég þekki Guð ekki. Ég hef aldrei séð hann,“ sagði ferðamaðurinn.

Daginn eftir gengu þeir umhverfis kastalann. Meðal annars sá ferðamanninum mynd, sem hékk á einum veggnum. Ferðamaðurinn dáðist að henni og spurði, hver hefði málað hana.

„Sonur minn“, svaraði baróninn.

„Það er sannarlega vel fær maður“, sagði ferðamaðurinn.

Í aldingarðinum lét ferðamaðurinn í ljós aðdáun sína og spurði, hver annaðist garðinn.

„Sonur minn“, svaraði baróninn.

„Það er sannarlega vel fær maður,“ sagði ferðamaðurinn.

Síðar um daginn fóru þeir til næsta þorps og komu að húsi, þar sem sonur barónsins hafði stofnsett skóla fyrir munaðarlaus börn.

„Það er sannarlega vel fær maður. Þér eruð hamingjusamur maður að eiga slíkan son“, sagði ferðamaðurinn í aðdáunarróm.

„Hvernig vitið þér, að ég eigi góðan son? Þér hafið aldrei séð hann,“ spurði baróninn skyndilega.

„Vegna þess, að ég hef séð verk hans. Eftir þeim dæmi ég svo, að hann hljóti að vera góður maður og mjög vel fær. Ég tel mig þekkja hann nokkuð, því að ég dæmi hann eftir verkum hans,“ sagði ferðamaðurinn.

Það sagði baróninn: „Þannig dæmi ég einnig um eiginleika Guðs. Verk hans lýsa því, að vísdómur hans er takmarkalaus.“

3 athugasemdir

Athugasemd from: Jón Rafn Jóhannsson
Jón Rafn Jóhannsson

1. Í dag þegar ég sárbændi Drottin að mæla mér í munn vegna þess að mér kom ekkert í huga til að segja, fremur en að ég gerð mér grein fyrir því hvernig mér væri unnt að verða við þessari hlýðniskyldu, kom það í huga mér sem ég mun nú greina frá og verður grundvöllurinn að áframhaldinu. Þetta felst í því að við lítum á sál okkar eins og virkisborg sem að öllu leyti er gerð úr gimsteini eða afar tærum kristal. Í henni eru ótal vistarverur líkt og dvalarstaðirnir á himnum eru fjölmargir. Þegar við íhugum sálina gaumgæfilega, systur,  verður okkur ljóst að sál réttlátrar manneskju er ekkert annað en paradís þar sem Drottinn segir að hann finni til gleði. Hvernig haldið þið að sá dvalarstaður líti út þar sem konungur sem er jafn voldugur, vitur, hreinn og gæskuríkur finni til gleði (Ok 8. 31) Ég get ekki komið auga á neitt sem jafna má við háleita fegurð sálarinnar og undursamlega hæfileika. Í raun og veru getur skilningur okkar vart borið skyn á slíkt – hversu næmur sem hann kann að vera að öðru jöfnu – fremur en að hann beri skyn á Guð. En sjálfur segir hann að hann hafi skapað okkur í sinni eigin mynd (1M 1. 26, 27).

6. Fyrir skömmu sagði mikill lærdómsmaður við mig, að þeim sálum sem legðu ekki rækt við bænina mætti líkja við fólk sem væri farlama eða líkamlega bæklað. Jafnvel þótt það hafi hendur og fætur láta þessar hendur og fætur ekki að stjórn. Þannig er þær sálir að finna sem eru svo bágstaddar og hafa ánetjast hinum ytri heimi svo mjög, að þær megna ekki að öðlast bót meina sinna og svo virðist sem þær séu þess ekki umkomnar að hverfa inn á við til sjálfra sín. Þeim er orðið svo tamt að glíma í sífellu við skorkvikindin og flærnar sem sest hafa að í múrnum umhverfis borgina, að þær svo að segja draga dám af þeim. Þrátt fyrir að þær séu gæddar slíku gnægtaeðli og eiginleikum til að eiga samskipti við engan annan en Guð sjálfan, er ekki um neina bót fyrir þær að ræða. Ef þessar sálir leitast ekki við að öðlast skilning og bót meina sinna, munu þær ummyndast í saltstólpa og megna ekki að snúa sér við til að horfa til sjálfra sín, rétt eins og kona Lots ummyndaðist þegar hún horfði til baka (1M 19. 26).

Hl. Teresa frá Avíla, Borgin hið innra 1. 1, 6.

06.03.06 @ 07:31
Athugasemd from: Jon Valur Jensson

[Þ]að, er vitað verður um Guð, er augljóst á meðal [mannanna], því að Guð hefur birt þeim það. Því að hið ósýnilega eðli hans, bæði hans eilífi kraftur og guðdómleiki, er sýnilegt frá sköpun heimsins, með því að það verður skilið af verkunum.

Og svo kemur framhaldið erfiða:

Mennirnir eru því án afsökunar, þar sem þeir hafa ekki, þótt þeir þekktu Guð, vegsamað hann eins og Guð, né þakkað honum, heldur gjörzt hégómlegir í hugsunum sínum og hið skynlausa hjarta þeirra hjúpazt myrkri. Þeir kváðust vera vitrir, en urðu heimskingjar og breyttu vegsemd hins ódauðlega Guðs í mynd, sem líktist dauð-legum manni, fuglum, ferfætlingum og skriðkvikindum. Þess vegna hefur Guð ofurselt þá fýsnum hjartna þeirra til saurlifnaðar, til þess að þeir sín á milli smánuðu líkami sína. Þeir hafa umhverft sann-leika Guðs í lygi og göfgað og dýrkað skepnuna [=hið skapaða] í stað Skaparans, hans sem er blessaður að eilífu. Amen. (Rómverjabréfið, 1.19–25)

Framhaldið ættu menn að þekkja á þessum síðustu og verstu tímum.

07.03.06 @ 16:56
Athugasemd from: Jón Rafn Jóhannsson
Jón Rafn Jóhannsson

Þetta orðar móðir Teresa svo: „Þeim er orðið svo tamt að glíma í sífellu við skorkvikindin og flærnar sem sest hafa að í múrnum umhverfis borgina, að þær svo að segja draga dám af þeim.“

Segja má að klámvæðingin sé sönnun þessa: Að lifa sem skorkvikindi og flær. Ekki leiðum að líkjast!

07.03.06 @ 17:27