« Samkynhneigðramál í brennidepli á nýhöfnu KirkjuþingiRætt um kristin gildi og áherzlur í aðdraganda kosninga »

17.05.07

  12:25:42, Skrásetjari: Jon Valur Jensson   , 697 orð  
Flokkur: Fósturvernd

Verður kyngreining ófæddra til að fjölga fósturdeyðingum?

Þær fréttir berast utan úr heimi, að fundnar hafi verið upp aðferðir, sem með 98% vissu geti greint kynferði 6 vikna fósturs í móðurkviði. Sjá þessa grein á Vísir.is og í Fréttablaðinu í dag: Kyn fóstra greint eftir sex vikur. Vitað er, að fóstur hafa oft verið deydd á grundvelli þess, að vitað var um kyn þeirra, en nú er hætt við, að slíkt færist mjög í aukana með þessari aðferð til að þefa uppi kynferðið. Efnishyggjan gengur vísast á lagið til að hafa sitt fram, það getur hún í þessari föllnu veröld, en okkur ber að sporna gegn því með öllum sæmilegum ráðum sem á okkar færi eru. Mikilvægt atriði í því efni er að upplýsa um eðli fóstursins, útlit þess og hæfileika. Hér ber t.d. að benda á, að þrátt fyrir að fóstrið á myndinni á Vísis-vefsíðunni virðist ekki ýkja þroskað, er geysihraður þroskaferill í gangi á þeim vikum, og 8 vikna er það með afar mennskt útlit á allan hátt. Hér er því ástæða til að vísa til stærri mynda og betri á vefsíðu Lífsverndar. Hér sjást 7–12 vikna fóstur sýnd á litmyndum, sem segja sína miklu sögu, og síðan fleiri myndir, allt að sex mánaða aldri fósturs.

Ef við skoðum eðli fóstursins, sjá allir, að þetta eru lifandi verur, sem verið er að deyða í hinum svokölluðum "fóstureyðingum", nær allar (um 98,9% á tímabilinu 1975-87) komnar yfir 6 vikna aldur og yfir 70% þeirra 8 vikna eða eldri, með skýr og greinileg auðkenni mannlegrar veru, og hafa heilabylgjur þá borizt frá fóstrinu frá 5 vikna aldri, og það hreyfir sig í móðurkviði.

Samkvæmt rannsókn minni á opinberum tölum um fósturdeyðingar "fóru nál. 1,1% allra fóstureyðinga á Íslandi á 12 ára tímabili (1975–87) fram á 1–5 vikna fóstrum, 27,4% á 6–7 vikna fóstrum, 28,9% á 8 vikna og 42,7% á níu vikna fóstrum eða eldri [þroskaðri].

Árið 1990 hafði hlutfall eldri fóstra hækkað nokkuð: þá fóru 45,1% fóstureyðinga fram á 9 vikna fóstrum og eldri (í tölum talið: 392 á fóstrum yngri en 9 vikna, 305 á 9–12 vikna, 8 á 13–16 vikna, 8 á 17–20 vikna og ein á fóstri yfir 20 vikna gömlu)" (Aldursskipting hinna ófæddu, í Lífsvon, fréttabréfi Lífsvonar, samtaka til verndar ófæddum börnum, 1. tbl. 9. árgangs, marz 1993, s. 10).

Um 44ra til 46 daga fóstur (6 og hálfrar viku gamalt), sem mynd er af í sama Lífsvonarblaði, s. 3, segir: "Á þessum tíma hefur hjartað slegið í 20 daga. "30 daga gamalt hefur fóstrið heila, sem er greinilega með sköpulag mannsheila, augu, eyru, lifur, nýru, naflastreng og hjarta sem pumpar blóði sem fóstrið framleiddi sjálft" (próf. Liley).

Heilabylgjur hafa greinzt í 35 daga fóstri og ákveðið mynztur heilabylgna í 43ja daga gömlu fóstri (EEG) komið fram á mælitækjum (Humanity, aukahefti, ág./sept. 1978). Aðeins um 28–29% fóstra, sem eytt er hér á landi, eru 6–7 vikna eða yngri – yfir 70% eru komin lengra áleiðis í þroska."

Hér eru svo enn skuggalegri upplýsingar úr sama Lífsvonarblaði (s. 12): "Árin 1982–1990 fóru fram 117 fóstureyðingar á 13–16 vikna fóstrum á Íslandi, 73 á 17–20 vikna fóstrum og 13 á ófæddum börnum eldri en 20 vikna – af alls 6189 fóstureyðingum á þeim níu árum einum saman." Síðan þá eru liðin rúm 16 ár og fósturdeyðingar nokkrum sinnum farið yfir 1000 á ári. Menn beri svo þessar tölur og aldursmörk saman við myndirnar á vefsíðu Lífsverndar!

Hvar er lífsrétturinn? Hvar er samúðin, miskunnsemin, réttlætistilfinningin í brjósti þínu, lesandi góður? Hlífum ófæddu börnunum! Berjumst fyrir lífi þeirra, hvar og hvenær sem við getum, því að þetta ástand ríkir hér ekki vegna þess, að ég eða þú höfum gert allt sem í okkar og Guðs valdi stóð til að stöðva þessi miskunnarlausu fjöldadráp. Byrjum á bæninni, höldum síðan veginn áfram, hvert í sínu lagi og með því að leggja saman krafta okkar.

7 athugasemdir

Athugasemd from: Ragnar Geir Brynjólfsson

Það eru nú þegar teikn á lofti um að þetta verði raunin. Skv. skýrslu UNICEF frá í desember er hlutfall fæddra stúlkna 882 stúlkur á móti 1000 drengjum nú þegar á Indlandi en heimsmeðaltalið er 954 stúlkur á móti 1000 drengjum. Þarna munar ríflega 7,5% nú þegar.

This suggests that 38,000 girls should be born in India every day and that the difference of 7,000 is due to widespread foeticide by parents on female foetuses.

Sjá þessa heimild: [1]

17.05.07 @ 20:19
Athugasemd from: Ragnar Geir Brynjólfsson

Sjá einnig þessa frétt Mbl: [1] og hér er heimildin, þ.e. frétt BBC sem hún byggir á: [2].

17.05.07 @ 20:21
Athugasemd from: Jon Valur Jensson

Kærar þakkir fyrir þetta, Ragnar. Mun kynna mér þetta enn betur.

17.05.07 @ 22:13
Athugasemd from: Jon Valur Jensson

Um þetta efni er einnig fjallað í greininni Kyngreining á fóstrum, sem birtist í dag á vefsíðu Kristinna stjórnmálasamtaka.

18.05.07 @ 21:21
Athugasemd from: Ragnar Geir Brynjólfsson

Í Fréttablaðinu 16. júní 2007 er forsíðufréttin sú að langflest fóstur með Downs-heilkenni eru deydd. Sjá hér: [1]

16.06.07 @ 12:12
Athugasemd from: Haukur Ísleifsson  
Haukur Ísleifsson

Á frekar erfitt með að ímynda mér að
ólétt kona sem hefur alla aðstöðu til að
ala upp barn ákveði að eyða fóstrinu
vegna þess að það er kvenkyns.

01.12.07 @ 14:23
Athugasemd from: Jon Valur Jensson

Þá hefur þú ekki sett þig mikið inn í algenga kínverska hugsun, sem og fleiri þjóða, Haukur!

07.09.09 @ 13:33
Ábyrgðarmaður: Jón Valur Jensson guðfræðingur.

Önnur blogg sama höfundar: [jonvalurjensson.blog.is]
[jvj.blog.is]
[krist.blog.is] (þátttaka)
[lifsrettur.blog.is]

Leit

  XML Feeds

powered by b2evolution free blog software