« Sir William Liley – ævi hans og störf að rannsóknum og lækningum á ófæddum börnumGuðleysinginn Richard Dawkins heiðursgestur í Kastljósi! »

01.07.06

  00:11:27, Skrásetjari: Jon Valur Jensson   , 889 orð  
Flokkur: Kirkjusaga nýaldar, alþjóðleg

Vatíkanið opnar öll skjalasöfn sín frá árunum 1922–1939

Kunngjört var í Páfagarði föstudaginn 30. júní, að Benedikt páfi hafi ákveðið að opna öll skjalasöfn Vatíkansins frá 1922–febr.1939. Með því móti munu menn öðlast fyllri innsýn í það, sem hugsað var og gert á vegum kaþólsku kirkjunnar á þeim uppgangsárum fasisma og nazisma í Evrópu, en tími þessi spannar m.a. yfir spænsku borgarastyrjöldina 1936–39.

Í tilkynningu Vatíkansins var sagt, að þann 18. september yrðu bæði opnuð skjöl leyndarskjalasafns páfa og skjalasafn utanríkisráðuneytis Páfagarðs frá stjórnarárum Píusar XI. Nánar tiltekið er þetta tímabilið 6. febrúar 1922 til 10. febrúar 1939.

Fréttatilkynningin var stutt, en þar sagði m.a.: "Með þessari opnun skjalanna verða öll söguleg skjöl, þau sem varðveitt eru í hinum ýmsu skjalasöfnum hins Heilaga Sætis [Péturs postula og eftirmanna hans] til febrúar 1939, gerð aðgengileg fyrir sagnfræðirannsóknir."

"Sá hluti þessara skjala, sem líklegastur er til að veita nýja innsýn í hlutina, er sá sem varðar Spán," segir í Reuters-frétt um þetta mál eftir heimildarmanni í Vatíkaninu sem vildi ekki láta nafns síns getið. Kirkjan tengdist þjóðernishreyfingu Franciscos Franco hershöfðingja í borgarastyrjöldinni (eins og nánar kemur m.a. fram í hinu allítarlega riti Þórhalls Þorgilssonar um Spánarstríðið).

Sagnfræðingar hafa lengi sótt sér heimildir í skjalasöfn Vatíkansins og leitað eftir því, að skjöl frá styrjaldarárunum yrðu gerð aðgengileg, svo að svör fáist við spurningum um, hversu kunnugt kirkjunni hafi verið um útrýmingu nazista á Gyðingum í Evrópu. Hafa sumir gagnrýnendur sakað Píus XII páfa um að hafa látið fyrirfarast að bjarga Gyðingum, en þeirri fullyrðingu neita þeir, sem verja hann, segir í frétt Washington Post um þetta mál.

Sá er vani Páfagarðs að opna skjalasöfn eins páfastjórnartímabils í einu. Páfaefnið, sem við tók af Píusi XI, var Eugenio Pacelli kardínáli, sem kosinn var páfi í febrúar 1939 og tók sér nafnið Píus XII. Eftir þrýsting eða hvatningu frá sagnfræðingum og hópum Gyðinga ákvað Vatíkanið að gefa út árið 2003 valin skjöl sem snertu samband Páfagarðs við Þýzkaland fyrir seinni heimsstyrjöld, þ. á m. bréf frá Pacelli, meðan hann var sendiherra páfa í Þýzkalandi. Í reynd var þá byrjað að gera aðgengileg fræðimönnum milljónir skjala fram undir upphaf seinni heimstyrjaldar (sept. 1939), en það var að sérstakri ósk Jóhannesar Páls II páfa, sem útgáfu skjalanna var flýtt fram fyrir áætlaðan útgáfutíma. En þá var ennfremur sagt, að meiri skipulagsvinnu væri þörf, áður en það sem eftir væri af þeim skjölum yrði gert aðgengilegt.

The Washington Post hefur það eftir ónafngreindum heimildarmanni í Vatíkaninu (manni sem óskað hefði nafnleyndar), að á meðal þeirra skjala, sem nú yrðu gerð opinber, væru plögg um nazista, en að flestar upplýsingar um samband Páfagarðs við Þýzkaland hefðu þegar verið gefnar út.

WP kallar skjalasöfn Páfagarðs 'viðkvæman blett' í samskiptum kaþólskra og Gyðinga, þar sem margir sagnfræðingar þeirra síðarnefndu trúi því, að Píus XII hafi daufheyrzt við fréttum af Helförinni. Því má bæta hér við, að megnið af Gyðingadrápunum fór fram eftir að Píus XI lézt á öndverðu ári 1939. En Abraham Lehrer, rabbí í Köln, bar fram áskorun eða ákall til Benedikts páfa að opna öll skjalasöfn stríðsáranna, þegar hinn þýzkfæddi páfi heimsótti sýnagógu hans í ágúst á liðnu ári. "Slík fullkomin opnun þeirra skjala, sem ná yfir síðari heimstyrjaldarárin, sextíu árum eftir endalok Sjoah [Helfararinnar eða Brennifórnarinnar, Holocaust], yrði betra dæmi upp á hreina samvizku hvað söguatburðina varðar og myndi einnig fullnægja kröfum gagnrýnenda," sagði rabbíinn. "Þér óluzt upp á hræðilegum tímum í Þýzkalandi," sagði hann við Benedikt XVI. "Við sjáum ekki aðeins í yður höfuð kaþólsku kirkjunnar, heldur líka Þjóðverja sem er sér meðvitaður um sögulega ábyrgð sína."

Meðal þess efnis, sem kann að verða opnað í haust, er umburðarbréf (encyclica) sem Píus vann að til að fordæma kynþáttahyggju og ofbeldisfulla þjóðernishyggju í Þýzkalandi. Yfirskrift þess bréfs var "Humani Generis Unitatis," eða "Eining mannkynsins," en það var aldrei gert opinbert, því að Píus lézt, áður en af útgáfu þess gæti orðið.

Heimildir: Reuters-frétt (Vatican to open all archives from 1922 to 1939) í netútgáfu Washington Post 30. júní 2006 eftir Rachel Sanderson (og Tom Heneghan, París) og AP-frétt (Vatican to Release Files on Pope Pius XI) í sama blaði sama dag. Þessi frétt virtist óvíða komin í fréttamiðla í nótt, bæði skv. Google-leit um hálfþrjúleytið og t.d. við leit á Mbl.is, vefsíðu New York Times og á Zenit.org.

No feedback yet

Ábyrgðarmaður: Jón Valur Jensson guðfræðingur.

Önnur blogg sama höfundar: [jonvalurjensson.blog.is]
[jvj.blog.is]
[krist.blog.is] (þátttaka)
[lifsrettur.blog.is]

Leit

  XML Feeds

blog tool