« Vakin athygli á LesbókargreinHIV-nýsmit í hópi danskra homma um 300 sinnum algengara en meðal gagnkynhneigðra, danskra kvenna : rök gegn málflutningi í ísl. fjölmiðum »

02.10.06

  15:15:38, Skrásetjari: Jon Valur Jensson   , 613 orð  
Flokkur: Friðarmál og stríðsátök

Varið land eða óvarið?

Varið land eða óvarið – "hvort er öruggara?" Þannig spyrja menn í tilefni af brottför Bandaríkjahers, sem séð hefur um varnir Íslands í rúm 60 ár (1941–1947 og 1951–2006, auk aðstöðu sem borgaralegir tæknimenn höfðu á Keflavíkurflugvelli 1947–51).

"Og hvort er kristilegra, varið land eða óvarið?" Þannig geta kristnir menn spurt. Saga afneitunar vopnaburðar meðal kristinna manna er afar löng – allt frá fornöld. Það sama þekkjum við meðal trúflokks kvekara á nýöld.

Mörg ríki viðurkenna þau réttindi þeirra (og ýmissa annarra) að þurfa ekki að taka virkan þátt í stríði með vopnaburði; hins vegar hafa kvekarar gjarnan þjónað í ófriði sem hjúkrunarfólk. En þótt þessi stefna þekkist allt frá fornöld og einmitt ekki sízt meðal þeirra, sem töldu sig byggja slíka afstöðu á kristinni sannfæringu (með ýmsum biblíulegum rökum, sem m.a. enduróma í nokkrum innleggjum góðra trúbræðra á þessari vefsíðu minni), þá er þetta ekki það viðhorf, sem orðið hefur ofan á í kaþólskri kirkju. Samt hefur hún mótað sér afar strangar siðferðisreglur um það, hvað teljist leyfilegt og hvað ekki í stríði, og ekki síður strangar reglur um það, hvað réttlætt geti upptök hernaðaraðgerða.

Hér er um afar eldfimt umræðuefni að ræða og skiptir mönnum oft upp í andstæðar fylkingar. Ekki batnar málið við það, að það tengist mjög gjarnan (og raunar eðlilega) stjórnmálum, og þar geta þá pólitískir flokkadrættir enn magnað andstæðurnar og hert á gagnkvæmu skeytasendingunum. Eins gott það endi ekki með hálfgerðu smástríði – svo foxillir geta menn orðið og hnútuköstin illvíg! – t.d. þegar komið er út í landráðabrigzl á báða bóga, eins og gerzt hefur meðal dagfarslega friðsamra Íslendinga.

Já, það er eins gott að það hlaupi hér ekki allt í bál og brand á þessum spjallþræði, og loka mun ég fljótt fyrir hann, innan tveggja daga eða fyrr. Og samt eru stríð og varnir málefni sem vissulega er fjallað um í kaþólskri siðfræði. Og á siðferðislegum grunni, ekki sízt, ber okkur að taka afstöðu til slíkra mála, ekkert síður en annarra sem varða stjórnmál og samfélagshagsmuni okkar. Þannig að það er ekki vegna þess, að þetta umræðuefni eigi að vera tabú meðal kristinna manna eða á vefsíðum þeirra, sem ég segi sem minnst um hervarnir Íslands á þessum vettvangi.

Í grein þessari mun ég ekki setja fram einar né neinar kenningar né staðhæfingar um réttmæti eða rangmæti landvarna. Finnst hins vegar ekki alveg hægt að þegja hér um þá staðreynd, að í gær, sunnudaginn 1. október, kvaddi bandaríski herinn okkur Íslendinga við einfalda athöfn á Keflavíkurflugvelli. Öllu því fólki, sem þar með hefur yfirgefið landið með fjölskyldum sínum, bið ég Guðs blessunar.

En umræður af því pólitíska, sagnfræðilega, hvað þá "herfræðilega" tagi, sem ég bauð ekki upp á á þessari vefsíðu, get ég vísað mönnum á annars staðar, t.d. á Vísis-vefsíðunni http://www.visir.is/apps/pbcs.dll/article?AID=/20061001/SKODANIR04/110010021/1030, þar sem ég tek þátt í umræðum í dag. Á þeim vettvangi geta menn haldið áfram að ræða þau álitamál. Vilji einhver ræða málin hér, vil ég að það sé gert í trúarlegu samhengi og helzt í hinni mestu friðsemd ....

No feedback yet

Ábyrgðarmaður: Jón Valur Jensson guðfræðingur.

Önnur blogg sama höfundar: [jonvalurjensson.blog.is]
[jvj.blog.is]
[krist.blog.is] (þátttaka)
[lifsrettur.blog.is]

Leit

  XML Feeds

powered by b2evolution