« Trúin í eldhúsdagsumræðum AlþingisUndarlegur fréttaflutningur fréttastofu Sjónvarps (RÚV) »

08.05.05

  13:27:00, Skrásetjari: Ragnar Geir Brynjólfsson   , 590 orð  
Flokkur: Fjölmiðlarýni

Var Jóhannes Páll II. páfi valdur að dauða milljóna?

Dagana eftir andlát Jóhannesar Páls II. páfa hinn 2.4.2005 var mikið fjallað um hann í íslenskum fjölmiðlum. Margt af því sem fram kom virtist nokkuð vel unnið en einnig komu fram óvænt viðhorf - og nokkuð samhljóða - þess efnis að hinn nýlátni páfi hafi valdið dauða fjölda fólks með áhrifum sínum. þrátt fyrir nokkra eftirgrennslan hefur ekkert fundist sem rennt gæti stoðum undir þessar fullyrðingar.

Þetta byrjaði að því er næst verður komist í fréttum á Stöð 2 hinn 3. apríl þar sem eftirfarandi orð féllu:

„Hann ... vildi ekki mæla með notkun smokka, þrátt fyrir að það gæti dregið úr útbreiðslu alnæmis, sem fer sem eldur í sinu um þau lönd þar sem kaþólskur siður hefur fest rætur undanfarna áratugi, ekki síst fyrir atbeina Jóhannesar Páls.“ [1]

Í umræðuþættinum „Silfri Egils“ á Stöð 2 10. apríl var svo gengið mun lengra þegar í þáttinn mætti kona sem fullyrti:

„Auðvitað var þetta merkur maður. Hann hafði mikil áhrif. Spurningin er hvort þau áhrif voru að öllu leyti góð. Ég tel að þau hafi ekki verið góð og ja - hreinlega drepið milljónir manna. Því að þessi páfi og kardínálar hans börðust hreinlega gegn notkun smokksins svo dæmi sé tekið. Það var talsmaður alnæmissamtaka sem sagði eftir lát páfa: ,Við gerðum ekki ráð fyrir að þeir færu að mæla með að fólk notaði smokkinn til að koma í veg fyrir smit - en við vorum að vona að þeir berðust ekki gegn því – sú von rættist ekki.' “ [2]

Þessar fullyrðingar eru sérkennilegar því þrátt fyrir talsverða eftirgrennslan hafa engar tölur fundist sem sýna jákvæða fylgni milli hlutfalls kaþólskra og hlutfalls HIV smitaðra á neinum stað eða landsvæði - tölur sem ættu þó að vera auðfundnar sé horft á hvað fullyrðingarnar eru afdráttarlausar.

Þáttastjórnandinn tók gagnrýnislaust við málflutningnum og vitnaði þar að auki í grein eftir breskan dálkahöfund [3] þar sem svipuðum sjónarmiðum var haldið á lofti. Enginn var kvaddur til að halda uppi andmælum þó Einar Oddur Kristjánsson sem þar var mættur hafi gert það drengilega - þó ekki sé hann kaþólskur.

Í skýrslu Unaids [4] um útbreiðslu HIV kemur m.a. fram að í Afríku sunnan Sahara þar sem algengi HIV smits er mest um þessar mundir (64% af heildarfjölda þeirra sem sýktir eru í heiminum) birtist sjúkdómurinn ekki sem eitt heldur ólík vandamál. Mikill vandi er að víða skortir heilbrigðisþjónustu eða efni til að kaupa hana og því er oft ekki vitað hverjir eru sýktir. Sagt er að viðbrögð við sjúkdómnum miðist gjarnan við hugsjónir um heim þar sem allir séu jafnir, frjálsir að því að taka ákvarðanir og geti valið t.d. að vera skírlífir, að vera tryggir lífsförunaut sínum eða að nota verjur að staðaldri. Raunveruleikinn sé að konur mæti ýmsum hættum frekar en karlar. Meira en fjórðungur (28%) kvenna í Suður-Afríku segir að fyrsta kynferðisleg reynsla hafi verið óumbeðin. (Bls. 24.) Hvergi er bent á trúfélag, þjóðflokk, þjóðríki eða leiðtoga sem sökudólg er ábyrgð beri á ástandinu.

Það væri einföldun að fjalla um einstök boð kirkjunnar án þess að horfa á það samhengi sem þau eru sett fram í. Boðum gegn notkun getnaðarvarna er beint til kaþólskra hjóna og hjónin eiga að sýna hvort öðru tryggð. [5, gr. 2370,2380-81] Ógiftu fólki er boðað skírlífi. Ásakanir um að boð Jóhannesar Páls II. páfa hafi valdið dauða milljóna eru samkvæmt framansögðu því ótrúverðugar. Það er áhyggjuefni að fjölmiðill geti gagnrýnislaust orðið farvegur fyrir ásakanir af alvarlegasta tagi, þ.e. að nafngreindir einstaklingar hafi stuðlað að dauða milljóna.

Heimildaskrá:
[1] Fréttir. 3. apríl 2005. http://stod2.visir.is
[2] Silfur Egils. 10. apríl 2005. Umsjón Egill Helgason. http://stod2.visir.is
[3] Not in my name. Polly Toynbee, 8. apríl 2005. The Guardian http://www.guardian.co.uk
[4] AIDS Epidemic Update 2004
Des. 2004. http://www.unaids.org/
[5] Trúfræðslurit kaþólsku kirkjunnar. Óopinber bráðabirgðaútgáfa. Maríukirkja Breiðholti. http://mariu.kirkju.net/trufraedslurit

2 athugasemdir

Athugasemd from: Ragnar Geir Brynjólfsson

Hjörtur Magni Jóhannsson fríkirkjuprestur skrifar grein “Kynferðisafbrotamenn mega, samkynhneigðir ekki” í Morgunblaðið þriðjudaginn 7. mars og segir m.a.

Ekki bara fáránlega kómískt
En þessi mál eiga sér ekki aðeins fáránlega kómískar hliðar. Kennisetningar afturhaldssamra trúarstofnana eru dauðans alvara. Þær geta sannarlega valdið ólýsanlegri þjáningu, varanlegu samfélagslegu böli, veikindum og dauða hinna saklausu í milljóna vís. Kirkjusagan vitnar sannarlega um það.

Einstrengingsleg afstaða rómversk-kaþólsku kirkjunnar til getnaðarvarna er dæmi um það og sú afstaða er einmitt sprottin út frá sakramentisskilningi hjónabandsins.

Síðustu páfar kaþólsku kirkjunnar hafa verið afar afturhaldssamir m.a. í afstöðu sinni til getnaðarvarna. Samkvæmt þeirra kenningu stríðir notkun getnaðarvarna gegn þeirri skyldu karls og konu að fjölga mannkyninu enn meir en þegar er orðið.

Þeir sem líta þannig á hjónabandið ættu þá einnig að banna notkun allra getnaðarvarna hið snarasta. Rétt eins og páfinn.

Dauðastefna
Ljóst er að offjölgun mannkyns er ein stærsta ógn við lífríki jarðar. Offjölgunin skapar óheyranlegt böl, angist og þjáningu. Það er ábyrðarhlutur að lýsa því yfir að þeir sem nota getnaðarvarnir séu að brjóta gegn vilja Guðs. Getnaðarvarnir og fræðsla um notkun þeirra er það sem einna helst getur dregið úr offjölguninni og öllu því böli sem offjölguninni fylgir.

Hér fer kirkjustofnunin augljóslega gegn vilja Guðs, gegn lífinu sjálfu.

Síðan þegar alnæmisvandinn (rétttrúaðir reyndu lengi en árangurslaust að rekja þann vanda til samkynhneigðra) bættist ofan á þetta mikla böl alls mannkyns og sérstakan vanda fátækrasamfélaganna í þriðja heiminum þar sem kaþólska kirkjan er hvað sterkust, þá margfaldast bölið enn frekar.

Hér er ekki lengur einungis um að ræða meinlausa þvermóðsku og fastheldni miðaldra karla við löngu úreltar kennisetningar. Hér er bókstaflega um líf og dauða að tefla. Fáránlegar kreddur stofnunarinnar eru metnar meira en milljónir mannslífa. Líkja má afstöðu kirkjustofnunarinnar til getnaðarvarna við dauðastefnu frekar en stefnu til lífs.

Hér heggur Hjörtur Magni í þennan marghöggna knérunn að fullyrða að boðun kaþólsku kirkjunnar til kaþólskra hjóna hafi kostað milljónir mannslífa. Þetta gerir hann án þess að nefna heimildir. Þess virðist ekki þurfa. Við kaþólskir menn höfum þurft að hlusta á þessa speki nú í meira en ár og enginn sem endurtekur þetta virðist þurfa að standa fyrir máli sínu, svo sem með því að nefna eina einustu tölu, eitt einasta land, eina einustu samanburðarrannsókn, einn einasta stafkrók, eða eitt einasta nafn manns sem hefur látið lífið vegna þessarar boðunar kirkjunnar. Þó Hjörtur Magni sé eðlilega og réttilega á móti því að sakbenda samkynhneigða vegna alnæmisvandans þá er hann er greinilega sáttur við að sakbenda yfirmenn kaþólsku kirkjunnar og páfann í þessu máli og það án þess að geta heimilda.

07.03.06 @ 20:29
Athugasemd from: Jon Valur Jensson

Þakka þér kærlega fyrir að fjalla svona vel og skipulega um þetta mál, Ragnar. Þú hafðir gert það áður á öðrum vettvangi og kemur því ekki af fjöllum, þegar enn á ný er veitzt að kirkjunni með þessum fráleitu ásökunum hans Hjartar Magna. “Enn er fríkirkjupresturinn við sama heygarðshornið, sannkallaður meistari útúrsnúninga og hortugheita,” skrifaði mér góður Þjóðkirkjumaður í dag. Og vinur minn skrifaði mér í bréfi: “Já, Jón minn þetta voru ómálefnalegar greinar sem birtust í mogganum í dag. Þessi eftir Svavar Knút svo fullvissuleg að mig grunar að fáir taki mark á henni. Fer svo út í hreinustu vitleysu undir lokin. – Eg var satt að segja líka hissa á grein Hjartar Magna. Mikið hefur maðurinn hversdagslegan skilning á málinu - í senn undrast ég skrif hans sem prestlærðs manns en um leið varpa þau ljósi á baráttu hans. Hann talar eins og skipskokkur sem er að berjast fyrir því að fá að reiða rétti oní fólk. Sveimér þá. Hann ruglar öllu saman blessaður maðurinn. Ekki trúi ég að prestastéttin sem les þetta hneigist að skoðun þessara manna. Þá er ég illa svikinn. Eg tel þeir tali gegn sjálfum sér bæði HMJ og SKK.”

En þú tekur þetta mjög faglega fyrir, Ragnar. Væri ekki ráð, að þú skrifaðir nú grein í Morgunblaðið gegn þessum gassalegu fullyrðingum Fríkirkjuprests, því að hér gefst færi á að steinrota staðhæfingar hans, halda uppi heiðri og sóma kaþólsku kirkjunnar og páfanna, sem og að veikja tiltrú manna (ef einhverjir eru) sem taka mark á Hirti Magna í öðrum þeim málum sem hann pontifíkerar um. – Þetta töku-sagnorð átti hér sérstaklega vel við, því að pontifex eða æðstiprestur er páfinn m.a. kallaður á latínu (þf.: pontificem), og af því eru sagnorð dregin í nýrri málunum; þannig merkir ‘to pontificate about those things’ á ensku: “að tala ábúðarfullur [með meintu kennivaldi, jafnvel dreissuglega, eins og viðkomandi þykist sjálfur páfinn] um þessa hluti.” En þetta er einmitt kennimark fáránlega sjálfsöruggra fullyrðinga Hjartar Magna út og suður, þótt lítt eða ekki séu rökstuddar – og í þessu tilviki alls ekki. – Þarna værir þú kjörinn til svara, Ragnar minn góður, ekki hef ég tímann til þess.

08.03.06 @ 00:36