« Samkynhneigðir jafnhæfir til barnauppeldis og aðrir?Hin ótrúlega auðlegð greinarskrifa Jóns Rafns »

05.05.06

  15:55:22, Skrásetjari: Jon Valur Jensson   , 688 orð  
Flokkur: Siðferði og samfélag

Vændi á Íslandi? Nei takk!

Þessi grein var send DV 13/4 með ósk um birtingu í lesendadálkunum, að gefnu tilefni, en fekkst ekki birt, jafnvel ekki eftir ítrekuð tilmæli 26/4 og 2/5.

Ýmsir eru um þessar myndir (sjá t.d. vefsíðu Silfur-Egils) að predika ágæti vændis fyrir Íslendingum. [1]. Óviturlegt er það tal. Með yfirvofandi lagafrumvarpi um breytingu á almennum hegningarlögum (kynferðisbrot) stendur til að lögleiða vændi á Íslandi, gera það 100% löglegt fyrir 'seljendur' og 'kaupendur'. Er það virkilega það sem Björn Bjarnason, dóms- og kirkjumálaráðherra vill eiga frumkvæði að? Mun hann, sem ég ber mesta virðingu fyrir af íslenzkum ráðamönnum, mæta stoltur á Kirkjuþing í haust til að tilkynna, að meðal þjóðþrifamála, sem hann hafði umsjón með á sumarþingi, sé frumvarp sem lögleiddi vændi á Íslandi?

Í ljósi kristins siðferðis, almenns kynheilbrigðis, sóttvarna og fjölskylduverndar, í ljósi niðurlægingar vændisfólks og áhættu sama fólks vegna ofbeldis og sjúkdóma, í ljósi þess að lægri þröskuldar og 'lögmæti' vændis gera harðskeyttum vændisrekendum hægt um vik að færa sig upp á skaftið, enda altítt að þar sé beitt hótunum, mótmæli ég þeirri óumbeðnu "frjálslyndisstefnu" sem troða á upp á þjóðina með þessu frumvarpi.

Það er líka ábyrgðarleysi að lögleiða vændi, þegar engar ráðstafanir eru til þess gerðar að stofna til heilbrigðiseftirlits með slíkri starfsemi.

Viljum við koma kynsjúkdómum í íslenzkar og erlendar eiginkonur eftir "siðferðisbrek" manna þeirra í örmum gleðikvenna hér á landi, í fylleríi og eftir að hafa verið freistað? Á að opna á frekari útbreiðslu, jafnvel farsótt, af völdum hættulegra kynsjúkdóma í landinu (gjarnan ættaðra úr A-Evrópu)?

Frumvarpsdrögin eru sterilíseruð af siðferði, tillitslaus gagnvart kynheilbrigði. Framhjáhald með "kynferðislega frábærri" konu getur leitt menn til fíknar í meira "frábært kynlíf", til ósættis í hjónabandi og skilnaðar. Þá er fórnarlambið ekki aðeins kona mannsins, heldur og börn þeirra. Afleiðingin er niðurbrot fjölskyldna.

–––––––––––––––––––––––
[1] Upprunalegt tilefni þessa pistils var, að fáum dögum fyrir páska (11/4) var 'Gunnar' nokkur að predika ágæti vændis í DV. Það mætti ætla, að viðhorf eins og þau, sem reifuð voru í grein minni, væru tabú á ritstjórn þess blaðs. Annar ritstjórinn, Björgvin Guðmundsson, valdi raunar tilefnið til að skrifa sjálfur leiðara, sem styður í raun þá lögleiðingu vændis sem dóms- og kirkjumálaráðherra gerir tillögu um með frumvarpi sínu. Þetta var nánast réttlætt með því að fjölyrða um nauðsyn þess að stemma stigu við mansali, sem við Íslendingar fordæmum að sjálfsögðu. En var Björgvin að gjalda ráðherra sínum og flokksbróður trúnað með þessu, eða var hann einungis að bera á borð enn eitt áherzluatriðið í sinni frjálshyggju-trúarjáningu? Það má bæta því við, að Björgvin þessi, sem nú hefur vikið úr ritstjórastóli, er opinskár og óbilgjarn verjandi fósturdeyðinga á Íslandi. – Hinn ritstjórinn, sem eftir situr, Páll Baldvin Baldvinsson, má þó eiga það, að hann svaraði síðasta bréfi mínu (2/5), þar sem ég óskaði eftir birtingu (svar hans, 3/5, var reyndar neitandi), en fram að því hafði hvorugur þeirra svarað mér fyrir blaðsins hönd. Er þetta dæmigert fyrir ýmsar ritstjórnir landsins, að svara jafnvel ekki ítrekuðum bréfum, þótt lesendur hafi bæði lagt á sig vinnu við að skrifa grein og að inna síðan ítrekað og þó kurteislega eftir undirtektum, þegar ekki kemur bofs frá ritstjórunum. – Taka ber fram, að ég hef breytt hér 1. setningu greinarinnar til að vísa ekki lengur í skrif einhvers Gunnars í DV fyrir mörgum vikum, heldur í umræðu sem er í gangi á Vísir.is í dag.

14 athugasemdir

Athugasemd from: Jon Valur Jensson

Eitt enn: Veit ég vel, að það er hvorki ætlun ráðherrans að lögleyfa vændishús né starfsemi hórumangara né auglýsingar um vændi. En lögleiðing einstaklingsrekins vændis (auk refsileysis ‘kaupenda’) gerir hórumöngurum hægt um vik að setjast hér að og fjarstýra innfluttum vændiskonum sínum með hótunum um líkamsmeiðingar. Þetta er framtíðin, ef menn þora ekki að takast á við vandann með því að takmarka að mun möguleikann á vændi í landinu fremur en að opna frekar dyrnar fyrir aukningu þess. Hvorki ’seljendur’ né ‘kaupendur’ eiga að búa við refsileysi í þessu máli.

Því má bæta við, að nýleg fjölgun þeirra EB-þjóða, sem eiga rétt á að koma hingað til langrar dvalar til atvinnuleitar og starfa, gerir þessum hórumöngurum ennþá hægara um vik að dyljast hér og setjast hér að.

05.05.06 @ 16:28
Athugasemd from: Jon Valur Jensson

Það er líka í gangi umræða á Hugsjón.com um HM í Þýzkalandi og vændiskonuinnflutning, byrjar hér.

Ég á smá-innlegg þar á 2. síðu (hér) í dag kl. 12:56 og á 3. síðu kl. 19.00 – en langmest á 4. síðu. Má kalla það allmikilvæga viðbót við það, sem komið hefur fram hér ofar.

07.05.06 @ 00:04
Guðmundur D. Haraldsson

Hafið þið fengið skýringar á því hvers vegna þið fáið ekki greinarnar ykkar birtar?

10.05.06 @ 13:00
Athugasemd from: Jon Valur Jensson

Hér er aðeins um mína grein að ræða. Mér voru engar skýringar gefnar fyrr en eftir á af Páli: að DV í nýju helgarmyndinni yrði ekki með lesendabréf. Þó var 1. eintakið af DV í þeirri mynd einmitt með lesendabréf! Mitt bréf, sem hafði örugglega beðið lengur en flest eða allt þar og var þó alls ekki úrelt (frumvarpið enn ekki afgreitt), fekk samt ekki birtingu. Og allan tímann frá 13. apríl fram að svari Páls 3. maí hafði ekkert verið hirt um að svara bréfi mínu til ritstjórnarinnar. Trúlega blanda af skeytingarleysi (eða leti) og andstöðu gamals vinstriróttæklings og frjálshyggjustráks við það að birta eitthvað frá kristnum íhaldsmanni (eins og þeir líta sennilega á mig). Kristin varðveizlustefna er nefnilega útnárastefna (gott ef ekki öfgar) í augum íslenzkra fjölmiðlunga og jafnvel flestra eða allra pólitískra flokka. Við þurfum að breyta því, bræður. Og þakka þér tilskrifið, Guðmundur.

10.05.06 @ 13:50
Athugasemd from: Jon Valur Jensson

Vek athygli á nýjum skrifum mínum o.fl. um vændisfrumvarps-málið og almennt um þau mál á bloggsíðu Sylvíu M. á Mbl.-blogginu.

02.07.06 @ 23:12
Athugasemd from: Jón Rafn Jóhannsson
Jón Rafn Jóhannsson

Afstaða íslensku fjölmiðlakrakkanna virðist ekki vera séríslenskt fyrirbrigði. Ég vísa til ummæla formanns slóvaska biskuparáðsins á nýjustu Fréttasjánni: Þetta dekur við líknarmorð, fóstureyðingar, vændi og samkynhneigð má vafalaust rekja til róttæklinganna sem náð hafa völdum í mörgum nefndum Efnahagsbandalagsins.

Þessi óáran er í tísku þessi árin í Evrópu, en það jákvæða er að fleiri og fleiri ráðamenn í Þriðja heiminum sjá orðið í gegnum þessi nýjustu dularklæði eða grímu „vinstriróttæklinga.“

Þessi Brüsselþrýstihópur lítur á sig sem talsmenn framfara þegar sannleikurinn er hið gagnstæða. Verst hvað naflaskoðunin er allsráðandi hjá þessu liði, en staðreyndin er sú að heimsbyggðin er smám saman að hætta að taka mark á þessum afkáraskap innan EB.

03.07.06 @ 09:03
Jón Valur Jensson

Vek ennfremur athygli á nýrri bloggsíðu minni um þetta sama mál í Mbl.-bloggi mínu í lok liðins dags.

03.07.06 @ 22:22
Athugasemd from: Jon Valur Jensson

“Kaup á vændi eru ofbeldi en ekki viðskipti,” segir séra Þorvaldur Víðisson miðborgarprestur vegna fréttar Fréttablaðsins um að tvær liðlega tvítugar stúlkur frá Póllandi hafi verið hér á einhvers vegum til að stunda vændi. Sjá nánar um þetta fréttaviðtalið við séra Þorvald í Fréttablaðinu í dag, s. 8, sem einnig er á þessari vefsíðu, ásamt innleggi mínu þar á eftir: Fagnaðarefni að nýr miðborgarprestur beitir sér gegn vændi …..

02.10.06 @ 10:54
Athugasemd from: Jon Valur Jensson
02.10.06 @ 11:16
Athugasemd from: Jon Valur Jensson
22.10.06 @ 12:30
Athugasemd from: Jon Valur Jensson

Sá, sem skildi hér eftir innlegg (greinarmerkjalaust og óvandað í stafsetningu) undir “nafninu” Lex, er beðinn að skrifa einungis undir fullu nafni, annars hefur hann ekki rétt til að tala hér. En hann taldi, að þótt eitthvað móðgi mitt siðferði, sé það enginn glæpur. Það stenzt fullkomlega. Glæpur er orð sem oftast er notað í lagalegri merkingu: ekki einungis eitthvað ósiðlegt, heldur brot á landslögum. Hins vegar er orðið glæpur líka notað um stór siðferðisafbrot, og það á í þeirri merkingu einmitt við um vændi. Glæpsamlegt eðli misnotkunar kvenna hefur samt ekkert að gera með það, hvort hún móðgi mína siðferðiskennd – það er enginn vandi að rökstyðja glæpaeðlið í misnotkuninni með hlutverulegum rökum sem flestir ættu að sjá að standist prófun skynseminnar. Ekki er þó víst að það sannfæri þá, sem fyrir eru sannfærðir um afstæði allra hluta eða byggja allt á eigin súbjektívisma.

24.10.06 @ 08:35
Athugasemd from: Jon Valur Jensson

Í hádegisfréttum Rúv í dag, 26. des., flutti Broddi Broddason fréttamaður hlustendum eftirfarandi frétt:

Danir verða æ meir afhuga vændi

Dönum mótföllnum vændi fjölgar stöðugt. Fyrir fjórum árum var aðeins fjórði hver Dani andsnúinn vændi, en í dag telja rúm 40% þjóðarinnar vændi óásættanlegt.

Þetta sýnir ný könnun sem dagblaðið Politiken greinir frá í dag. Nærri 2.000 Danir voru inntir eftir skoðun sinni fyrr í mánuðinum. 10% kvenna fannst í lagi að karlar leituðu til vændiskvenna og það fannst 25% karla einnig. Helmingur kvenna var algjörlega mótfallinn vændi, en hlutfall karla á þeirri skoðun var 36%.

Þetta eru góðar fréttir. Vonandi verða þær lóð á vogarskálina til að koma í veg fyrir samþykkt þess siðlausa frumvarps, sem nú liggur fyrir Alþingi um refsilaust vændi á þessu (áður?) kristna landi.

26.12.06 @ 15:29
Athugasemd from: Jon Valur Jensson

Ég vil vekja sérstaka athygli á því, að í dag, 11. marz 2008, á ég nýja grein á Moggabloggi mínu: Lítt viðeigandi vændisviðtal í Kastljósi (sem vísar til purkunarlausrar réttlætingar fyrir “frjálsu” vændi í viðtali við danska konu þar í gærkvöldi og tekur á því máli), en þar er ég ennfremur með heildarlista og tilvísanir í allar greinar mínar um vændismál á því vefsetri mínu ásamt þessari hér og annarri til á Kirkjunetinu.

11.03.08 @ 09:00
Athugasemd from: Ragnar Geir Brynjólfsson

Þóra Kristín Ásgeirsdóttir á rökfastan og góðan pistil þar sem hún gagnrýnir málflutning vændiskonnurnnar í Kastljósinu á baksíðu 24 stunda í dag, 13. mars 2008 sem ber yfirskriftina: Glaðar og faglegar hórur. Þóra Kristín skrifar:

Í Danmörku býr ánægð hóra, segir
Kastljósið og kollvarpar þar með kerlingabókum
um að vændi sé algert
skíta-djobb. Danska hóran segist vera
fagmaður og gengur glöð og hress í
bragði að sínum daglegu störfum og
setur þar með dýrmætt fordæmi fyrir
starfssystur sínar.
Ja, hérna hér. En hver er boðskapurinn?
Er hann kannski sá að menn
þurfi ekki að hafa samviskubit af því að
kaupa vændi? Á sama tíma hafa aldrei
fleiri leitað til Stígamóta vegna afleiðinga
vændis en sýnt hefur verið fram á
að flestir sem stunda vændi glíma við
sömu áfallastreitu og þolendur kynferðisbrota.
Hvað með eiturlyfjasjúkling sem er
sáttur við hlutskipti sitt, þrátt fyrir að
eitrið sé að eyðileggja hann andlega og
líkamlega? Er þá ekki í lagi að selja eiturlyf?
Og hvað með mann sem ákveður að
selja úr sér annað augað af því hann
vantar nýjan flatskjá? Hann segist vera
ánægður með skiptin. Er þá ekki í lagi
að kaupa?
Og hvað með fólk sem hingað leitar
frá fátækum og stríðshrjáðum löndum?
Er í lagi að bjóða þeim að vinna ókeypis
og halla sér svo yfir blánóttina á
hálmfleti í einhverju dýrahúsi? Ég
meina ef þau vilja þetta sjálf?
Glaðar hórur, hamingjusamir þrælar,
hressir eiturlyfjaneytendur. Það veitir
ekki af slíkum persónum til að lappa
upp á vonda samvisku. Svona í lokin á
góðærinu.

Sjá: http://www.mbl.is/bladidnet/2008-03/2008-03-13.pdf bls. 48

13.03.08 @ 18:58
Ábyrgðarmaður: Jón Valur Jensson guðfræðingur.

Önnur blogg sama höfundar: [jonvalurjensson.blog.is]
[jvj.blog.is]
[krist.blog.is] (þátttaka)
[lifsrettur.blog.is]

Leit

  XML Feeds

powered by b2evolution