« Hin óþrjótandi virðingRÚV - Sjónvarp fer yfir velsæmismörkin »

03.09.06

  10:02:07, Skrásetjari: Ragnar Geir Brynjólfsson   , 511 orð  
Flokkur: Þjóðfélagsrýni

Valkostir kvenna: Ofurkona eða hvað?

Heiðrún Bergsdóttir afgreiðslukona skrifaði athyglisverðan pistil í Fréttablaðið 30. ágúst sl. Þar lýsir hún nýrri tegund af íslenskum konum: Ofurkonunni. Konum sem:

.. eru óaðfinnanlega klæddar eftir nýjustu tísku, eru í fullu námi með vinnu, eru algerar súpermömmur, elda eins og bestu listakokkar, vilja vera á topp tíu lista yfir kynþokkafyllstu konur landsins, hafa heimili sem eru óaðfinnanlega hrein og svona mætti lengi telja. ... Og þegar maður lítur á þetta blákalt þá sé ég ekki betur en að þetta séu konur að kúga sig sjálfar. Í stað kúgunar sem kom upprunalega frá samfélaginu þá kemur kúgunin í staðinn innan frá konunum sjálfum.[1]

Ofurkonurnar eru líkast til eitt þeirra teikna sem eru á lofti sem benda til að samfélagið hafi ekki enn í kjölfar þjóðfélagsbreytinga greitt úr því vandasama hlutverki sem snýr að uppeldi og menntun barna. Þetta er lýsing á duglegum konum sem reyna að hasla sér völl í samfélaginu og taka við það mið af staðalímyndum útlitsiðnaðar og poppmenningar, en leitast jafnframt við að standa í stykkinu í heimilishaldinu. Það er því freistandi að álykta sem svo að vandi þeirra snúist um skort: Skort á tíma eða fé til að mennta sig og ala upp börnin og jafnframt til að hasla sér völl á framabrautinni. Einnig að gera megi betur í viðurkenningu samfélagsins á mikilvægi móðurhlutverksins og fjölskyldunnar. Fjöldi fósturdeyðinga af félagslegum ástæðum bendir líka til að efnahagslegur skortur sé enn til staðar hjá þessum þjóðfélagshópi, skortur sem ekki hefur minnkað í hlutfalli við stórbættan efnahag þjóðarbúsins síðustu áratugi.

Fyrir nokkrum árum var mikið talað um reynsluheim kvenna. Sú umræða endaði í hálfkæringi því á endanum var gert grín að hugtakinu. Þar fór líklega mikilvæg tilraun í súginn, tilraun til að endurmeta mikilvægi móðurhlutverksins og fjölskyldunnar að verðleikum. Kaþólskir biskupar Norðurlanda skrifuðu um síðustu áramót:

Hefðbundið fjölskyldumynstur hefur undanfarna áratugi, með öllu sem því tilheyrir, ekki verið grundvöllur núverandi lífsstíls manna. Annarsvegar býr fólk saman í einskonar hjónabandssambúð eða kýs að lifa eitt og án skuldbindinga, og hinsvegar þjást menn vegna skipbrota og vonbrigða sem ónýtar hjónabands- og fjölskylduaðstæður hafa fært þeim. Þó að nútímamaðurinn vilji eiga möguleika á fjölbreytni og vali leitar
hann samt á endanum eftir kærleika, tryggð og öryggi.[2]

Ég enda þennan pistil á þeim óskum til íslenskra ofurkvenna og að þær nái jafnframt framanum að höndla kærleika, tryggð og öryggi fjölskyldulífsins.

Heimildir:
[1] Kvennakúgun? Heiðrún Bergsdóttir. Fréttablaðið 30. ágúst 2006.
[2]. Kærleikurinn til lífsins
Hirðisbréf biskupa Norðurlanda um hjónabandið og fjölskylduna. Úr kafla 1.1

3 athugasemdir

Athugasemd from: Kristinn H. Guðnason
Kristinn H. Guðnason

Hversu margir kaþólskir prestar á Norðulöndum eru konur?

03.09.06 @ 21:45
Athugasemd from: Jon Valur Jensson

Þakka þér hugleiðinguna, Ragnar. Þó er ég ekki sáttur við það sem sagt er í þessari setningu:

“Fjöldi fósturdeyðinga af félagslegum ástæðum bendir líka til að efnahagslegur skortur sé enn til staðar hjá þessum þjóðfélagshópi, skortur sem ekki hefur minnkað í hlutfalli …”

Að mínu mati bendir sá fjöldi miklu fremur til skorts á siðferðislegri undirstöðu (skorts, sem m.a. getur verið roluhætti stærsta trúfélags landsins um að kenna), sem og (í sumum tilvikum) raunalegs skorts á sjálfstæði viðkomandi kvenna í vilja og verki til að hafna þrýstingi foreldra og barnsfeðra vegna “óvelkominnar” þungunar.

03.09.06 @ 22:16
Athugasemd from: Ragnar Geir Brynjólfsson

Það mætti kannski tala um skort í víðum skilningi á vilja samfélagsins til að liðsinna konum og ungu fólki sem eru í þessari aðstöðu á mun eindregnari hátt en núna er gert.

Þessi skortur getur trúlega tekið á sig ýmsar myndir - svo sem þrýstings eins og þú bendir á. Hjónaband sem talið er gengið í undir þrýstingi er t.d. talið ógilt. Ábyrgð þeirra einstaklinga sem þrýstingnum beita er því nokkuð ljós. Svo getur sjálfsagt verið um ótta að ræða, ótta við að greina öðrum frá og óska stuðnings.

En ef við reynum að grafast fyrir um orsakir þess að þrýstingi er beitt í þessum tilfellum þá er líklegt að við komum að efnahagslegum forsendum. Amk. í einhverjum tilfellum.

En auðvitað snertir þetta verðmætamat samfélagsins í heild sinni og þar hlýtur andleg leiðsögn að skipta að minnsta kosti einhverju máli og eflaust miklu í sumum tilfellum. Enn sem komið er eru börn velkomin í íslenskum fjölskyldum en sú velvild er á greinilegri niðurleið. Fæðingartíðnin komin í 1,9 barn á konu.

Það sem ég er að reyna að segja er að þó hlutaðeigandi einstaklingar beri alla jafna höfuðábyrgð þá getur samfélagið í heild sinni ekki talið sig vera algerlega stikkfrí af allri ábyrgð. Þá á ég við samfélagið í heild, það samfélag sem ber pólitíska ábyrgð.

Þegar fólk segist styðja frelsi til vals þá hlýtur næsta spurning að vera val um hvað? Hverskonar val vill löggjafinn rétta að þessu fólki og á hvaða forsendum er því boðið til valsins?

04.09.06 @ 18:11