« Ritningarlesturinn 17. ágúst 2006Ritningarlesturinn 16. ágúst 2006 »

16.08.06

  07:55:38, Skrásetjari: Jón Rafn Jóhannsson, 1393 orð  
Flokkur: Hugleiðingar

Vald kirkjunnar á jörðu – skriftavaldið

„ Hvað sem þér bindið á jörðu, mun bundið á himni, og hvað sem þér leysið á jörðu, mun leyst á himni,“ lesum við í ritningarlestri dagsins (16. ágúst). Þetta er það vald sem Kristur felur kirkju sinni á jörðu. Ef einhver lima kirkjunnar óhlýðnast boðorðum Krists samkennir hann sig svo algjörlega við lifandi líkama sinn á jörðu að hann felur forstöðumönnum safnaðanna vald til að leysa þann hinn sama undan skyldum trúarinnar. Þeim hinum sama er veitt frelsi til að haga sér eftir eigin höfði og þjóna lund sinni og fullnægja hvötum sínum og hneigðum að vild. Honum er meinað að ganga að borði Drottins og meðtaka evkaristíuna, eða „settur út af sakramentinu,“ eins og þetta er nefnt í daglegu máli.

Þetta varpar ljósi á það hvers vegna kirkjan er þegar í upphafi nefnd „qahal“ á hebresku eða ha ekklesia á grísku, samfélag hinna aðskildu. Í hinum mikla meistaraverki sínu – Borg Guðs – lýsir Ágústínus kirkjufaðir vegferð þessa samfélags á jörðu sem pílagrímsgöngu til Guðs. Hann lýsir því hvernig kristinn maður tilheyri svo að segja tveimur ríkjum, Guðsríkinu og því veraldlega ríki sem hann býr í og starfar. Kristinn maður hefur svo að segja á nútímamáli „tvöfaldan“ ríkisborgararétt.“ Honum ber að hlíta lögum hins veraldlega valds. En þegar ákvæði laga þess stangast á við ákvæði boðorða Guðs hlýðir hann guðslögunum í einklífi sínu og trú.

Tökum dæmi. Veraldleg yfirvöld á Íslandi heimila fósturdeyðingar. Kirkjan og limir hennar eru andvígir því að deyða líf óborinna barna minnug boðorðs Drottins: Þú skalt ekki mann deyða. Veraldleg yfirvöld heimila þegnum sínum að giftast og skilja að vild. Hins vegar segir Kristur og kirkjan fyrir munn hans að sá maður sem skilji við konu sína og kvænist annarri fremji hórdómsbrot.

Í ummælum landlæknis í sjónvarpinu í gærkveldi opinberast afstaða veraldlegs embættismanns. Hann lítur á samfélagið sem umgjörð eða vettvang til þess að einstaklingurinn geti fundið hneigðum sínum og fýsnum útrás. Svo framarlega sem einstaklingurinn fer ekki út yfir þau mörk í breytni sinni sem ríkisvaldið setur honum, er honum heimilt að fullnægja hvötum sínum.

Hins vegar boðar kirkjan að einstaklingurinn eigi að deyða hinn náttúrlega og holdlega mann sem hún hefur nefnt frá upphafi líkama syndarinnar. Hin heilaga arfleifð kirkjunnar hefur boðað þennan sannleika frá upphafi vega. Einn hinna heilögu feðra á fjórðu öld – abba Chearemon – skilgreindi þennan líkama með skilmerkilegum hætti. Hann sagði:

Nú munuð þið spyrja hvort unnt sé að slökkva brunaglóð kynferðislegra ástríðna, þennan eld holds okkar jarðneskra manna. Því verðum við í upphafi að gefa því gaum hvað postulinn á við þegar hann segir: Deyðið því limi yðar sem eru á jörðu (Kol 3. 5).

Það sem við verðum fyrst að athuga í þessu sambandi er hvernig ber að skilja „limi“ þá sem verður að deyða. Augljóst er að með „limun” er að sjálfsögðu ekki átt við hendur eða fætur eða þá kynfæri sem sneiða verði á brott. Postulinn á hér við að líkama (corpus) allra synda verði að deyða eins skjótt og unnt er í ákafa fullkomins heilagleika sem svo sannarlega er myndaður úr einstökum limum, eins og komist er að orði í Rómverjabréfinu: Vér vitum, að vor gamli maður er með honum krossfestur (í skírninni), til þess að líkami syndarinnar skuli að engu verða og vér ekki lengur vera þrælar syndarinnar (Rm 6. 6). Deyðingin felst þannig í því að vera ekki lengur þrælar syndarinnar. Sjálfur Páll vildi einnig öðlast frelsi frá syndinni þegar hann komst svo að orði: Ég aumur maður! Hver mun frelsa mig frá þessum dauðans líkama (corpus) (Rm 7. 24)?

Líkami syndarinnar felst þannig í limum lastanna. Undir slíkt fellur sú synd sem drýgð er í verkum, orðum og hugsunum. Þessum limum er lýst eins og þeir séu á jörðu, sem jarðneskum, sem liggur í hlutarins eðli vegna þess að lostugir menn geta vart komist svo að orði um sjálfa sig: En föðurland vort er á himni (Fl 3. 20).

Nú víkur Páll beint að þessum limum með nafni: Hórdóm, saurlifnað, losta, vondar fýsnir og ágirnd (Kol 3. 5). Í fyrsta lagi minnist hann á hórdóm (fornicatio) sem lýkur með samræði. Í öðru lagi á saurlifnað (immunditia: óhreinleika). Hér er ekki átt við kynferðissamband, heldur að einhver ánetjist með aðgæsluleysi og andlegri vanrækslu ölvunarástandi (kynferðislegra lasta) í vöku eða svefni. Þriðji limur syndarinnar er tilhneigingin til rótlauss lífernis (libido: brennandi þrá eða löngun) sem dafnar hið innra með sálinni og getur þjakað alla án líkamlegra girnda. Orðið libido er dregið af libet (að þrá eitthvað), það er að segja: Einhver breytir eins og honum þóknast, að eigin geðþótta og samkvæmt kenjum sínum.

Postulinn hverfur síðan frá hinum meiri syndum til þeirra minna. Í fjórða lagi getur hann um vondar fýsnir (concupiscentia). Þær leiða ekki einungis til áður umgetins saurlífis, heldur í grundvallaratriðum til græðgi: Þetta er sjúkdómur lamaðs vilja. Drottinn kemst svo að orði um þessar vondu fýsnir í guðspjallinu: En ég segi yður: Hver sem horfir á konu með girndarhug, hefur þegar drýgt hór með henni í hjarta sínu (Mt 5. 28) (Collatio 11. 12, 1-2)

Þetta er boðun kirkjunnar frá upphafi vega, kross Krists sem var hlýðinn allt til dauða á krossi og þar með fyrirmynd allra trúaðra. Við sjáum að hér er um tvenns konar lífsviðhorf að ræða, annars vegar það sem endurspeglast í orðum landlæknisins, viðhorf heimsins í skilningi Jóhannesar guðspjallamanns, og hins vegar afstaða kristindómsins. Þessi tvö viðhorf eru með öllu ósættanleg. ENGINN GETUR ÞJÓNAÐ TVEIMUR HERRUM.

Samkynhneigðir geta svo spurt sjálfa sig að því hvort orð Krists hér að ofan víki ekki líka að þeim eins og öðrum. Hver karlmaður sem horfir á annan með girndarhug og hver kona sem horfir á aðra með girndarhug, hefur drýgt hór í hjarta sínu. Eins og margoft hefur verið tekið fram hér á kirkju.net dæmir kirkjan ekki samkynhneigð sem slíka, heldur kynlíf fólks af sama kyni. Hér er um mikla synd að ræða að dómi kirkju Krists. Því leysir hún slíkt fólk undan því sem það telur byrði trúarinnar (í reynd sagði Frelsarinn að þessi byrði væri ljúf) [1] eða eins og ung stúlka sem tók þátt í göngunni á laugardag sagði í viðtali í sjónvarpinu: FÓLK VERÐUR AÐ ÖÐLAST FRELSI UNDAN SLÍKRI TRÚ. ÞAÐ ER EINMITT ÞETTA SEM KIRKJAN GERIR: HÚN VEITIR SLÍKU FÓLKI FRELSI UNDAN BOÐORÐUM TRÚARINNAR ÞEGAR ÞAÐ VILL EKKI HLÝÐNAST ÞEIM. ÞANNIG GETUR ÞAÐ LIFAÐ AÐ HÆTTI HEIMSINS OG HÖFÐINGJA ÞESSA HEIMS, EN AÐ SJÁLFSÖGÐU EKKI HEIMILUÐ MEÐTAKA EVKARISTÍUNNAR.

Erlendis hafa aðgerðarhópar samkynhneigðra þannig stofnað með sér svo kölluð Regnbogasamtök og stolið hostíum í heilagri messu, en við hverju má ekki búast af filiii iriae (börnum óhlýðninnar)?

[1]. Því að mitt ok er ljúft og byrði mín létt (Mt 11. 30). Og hinn elskaði lærisveinn hans sem hallaði sér að brjósti Jesú (Hl. Jóhannes) sagði: Og boðorð hans eru ekki þung (1 Jh 5. 3). Þetta sagði hann vegna þess að hann trúði ekki eins og Júdas Ískaríot sem trúði eins og djöflarnir: ÁN ELSKU!

3 athugasemdir

Steingrímur Valgarðsson

Ég fagna þeirri afstöðu sem kaþólska kirkjan tekur á málum samkynhneygðra og á fóstureyðingum. Ég fagna því einnig að menn úr ykkar röðum stígi út og tali gegn háværri rödd fjöldans. Ég hélt á tímabili að Gunnar Þorsteinsson og Snorri í Betel ætluðu einir að axla þá ábyrgð sem lögð er á herðar þeirra sem í forstöðu eru. Ég er hneykslaður að þjóðkirkjan sé orðin svo plastkennd og pólitísk að hún beygir sig undir vilja fjöldans. Fjöldin vill syndina samþykkta af kirkjunni og kirkjan er að finna leiðir til að samlaga sig nútíma samfélagi. T.d með því að endurþýða Orð Guðs og gera hana þægilegri fyrir þá sem vilja ekki láta varpa ljósi á syndir sínar. Ég er ekki í kaþólsku kirkjunni og ég er ekki sammála öllu sem þið kennið. En ég er afskaplega ánægður með ykkur þessa dagana og líkar skrif ykkar. Gangi ykkur vel og ég vona að þið haldið áfram að berjast trúarinnar góðu báráttu.

17.08.06 @ 21:16
Athugasemd from: Jón Rafn Jóhannsson
Jón Rafn Jóhannsson

Þakka þér Steingrímur. Já, er sammála þér um að botninn hefur dottið úr Þjóðkirkjutunnunni eins og hjá ákveðnum og ónefndum bræðrum.

Í reynd er það alls ekki svo slæmt aðgöngu að fá senda dágóða fjárhæð mánaðarlega frá ríksivaldinu inn á bankareikning sinn fyrir að þegja sannleikann í hel, ef menn á annað borð hafa slíkt lunderni til að bera. En trú er það vissulega ekki!

Ég ráðlegg sérhverjum trúuðum manni úr þessu að læra grískuna til að lesa Nýja testamentið vegna þess að þessum mönnum er alls ekki treystandi lengur fyrir hinum helga texta.

18.08.06 @ 14:36
Steingrímur Valgarðsson

Þegar ég les biblíuna þá styðst ég við mjög áhugaverða síðu á internetinu. Sú síða heitir www.blueletterbible.com Þarna er hægt að fletta upp á mjög auðveldan hátt öllum orðum ritningarinnar bæði á hebresku og grísku. Þannig getur maður stúderað upphaflega merkingu mikilvægra orða og skoðað rót og aðra merkingu orðanna. Eftir að hafa lesið athugasemdir eftir fólk sem eru gestir hérna á síðunni, þá sé ég hversu margir eru í myrkri varðandi þekkingu á Orðinu. Menn vilja tileinka sér eitt og eitt vers og nota það sem vopn til að reyna afsaka synd sína. Hef oft rekist á það að fólk nefnir að Jesús hafi sagt að fólk ætti að sýna umburðarlyndi og kærleika gagnvart öðru fólki. Kristur gerði það, en hann sagði ekki að við ættum að sýna syndinni umburðarlyndi eða umfaðma hana með kærleika. Það dugar ekki að taka út eitt eða tvö vers úr ritnungunni og segja “þetta er sannleikur". Maður verður að horfa á Ritninguna í heild sinni. Já ég hvet hvern sem er að stúdera ritninguna í heild sinni, bæði hebreska og gríska textann. Annars geta menn lent á villigötum fáfræðinnar. Ég held að ég sé eini gesturinn hérna inni sem er sammála ykkur.

18.08.06 @ 15:34