« Vefrit KarmelsTvær undurfagrar Maríubænir »

24.01.06

  21:27:53, Skrásetjari: Jón Rafn Jóhannsson, 1341 orð  
Flokkur: Bænalífið

Úr bænasjóði Karmels

Bæn gegn guðlasti – Gullna örin

Drottinn opinberaði karmelsystur í Tours í Frakklandi þessa fögru bæn árið 1843 sem huggun sína þegar honum er auðsýnd vansæmd:

Megi hið Alhelga, heilaga, tilbeiðsluverða, leyndardómsfulla og ósegjanlega nafn Guðs ætíð vera lofað, blessað, elskað, tilbeðið og vegsamað á himni sem á jörðu og undir jörðinni af allri sköpun Guðs og í hinu Allra helgasta Hjarta Drottins Jesú Krists í hinu heilaga altarissakramenti.

Drottinn sagði: „Örin gullna mun særa hjarta mitt með unaðsríkum hætti og græða þau sár sem guðlastið veldur því.“

Tilbeiðsla hinnar dýrlegu
ásjónar Drottins

Sífellt verðum við að hafa í huga að það er ekki nóg fyrir okkur að horfa til Drottins, ef við elskum hann ekki. Minnist Júdasar Ískaríots sem hafði Drottin fyrir augunum í rúmlega þrjú ár og horfðist í augu við hann, en elskaði hann ekki. Regluheiti Teresu frá Lisieaux í Karmel var: Teresa af Jesúbarninu og hinni heilögu ásjónu:

Jesús, þú sem í hörmungum písla þinna varðst harmkvælamaður og hryggðarmynd. Ég tilbið heilaga ásjónu þína sem geislaði út frá sér fegurð og mildi Guðdómsins. Í þessari afskræmdu mynd ber ég kennsl á takmarkalausa elsku þína og þrái að elska þig og að þú verðir elskaður. Megi mér gefast að líta dýrlega ásjónu þína á himnum!

Nýju daga bæn (Novena) til vegsemdar
dýrð náðar Þrenningarinnar (Ef 1. 6)

Faðir Putigan sem var jesúítaprestur hóf hina níu daga bæn og ákall til heilagrar Teresu þann 3. desember árið 1925. Í níu daga endurtók hann Dýrðarbænina og þakkaði Alhelgri Þrenningu fyrir þá náð sem hún auðsýndi Teresu þau tuttugu og fjögur ár sem hún lifði á jörðinni. Presturinn bað heilaga Teresu um að einhver gæfi sér ferska rós sem tákn um að bæn hans hefði verið heyrð. Á þriðja degi kom ókunnur maður á fund föður Putigan og færði honum rós. Faðir Putigan hóf aðra níu daga Dýrðarbæn þann 24. desember sama árs og bað nú um að hvít rós yrði færð sér sem staðfesting. Á fjórða degi kom sjúkrasystir til hans með hvíta rós og sagði: „Heilög Teresa sendi þér þessa rós.“ Furðu lostinn spurði presturinn: „Hvar fékkstu hana?“ „Ég var í kapellunni,“ sagði systirin, „og þegar ég var að ganga út fór ég fram hjá altarinu þar sem fallega myndin af heilagri Teresu hangir. Rósin féll á gólfið við fætur mér og þegar ég ætlaði að setja hana aftur í blómavasann, þá kom sú hugsun til mín að ég ætti að færa þér hana,“
Litla blómið bænheyrði faðir Putigan og hann hét því að breiða út bænina. Þeir sem vilja taka þátt í því að biðja Dýrðarbænirnar 24 eiga þannig að gera það frá níunda til sautjánda dags mánaðarins og mynda þannig bænahring með öðrum sem biðja bænina.

Milli Dýrðarbænanna er sagt: „Heilög Teresa af Jesúbarninu, bið þú fyrir oss.!“

Sjálfur varð ég undrandi þegar ég reyndi mátt þessarar bænar í fyrsta skiptið. Á þeim tíma var ég að vinna á dagblaði og ég lauk henni á föstudegi. Föstudagarnir voru erfiðustu dagarnir á blaðinu því að ljúka varð við helgarútgáfu blaðsins. Klukkan þrjú síðdegis varð ég að fara í bankann fyrir helgina. Hann var ekki fjarri og ég hljóp þangað. Eftir að hafa lokið erindi mínu ætlaði ég aftur upp á blað.

Fyrir utan stóð bláókunnug kona og rétti mér stóra og rauða rós. Kannski var þetta engill, ég veit það ekki, en rósina fékk ég engu að síður. Og hún var rauð, rétt eins og ég hafði beðið um.

REYNIÐ HANA – HÚN HEFUR ALDREI BRUGÐIST!

Bæn

Heilög Teresa, litla blómið.
Týndu fyrir mig rós í hinum himneska
skrúðgarði og send mér sem ástarvott.
Bið þú Guð að verða við því bænarefni
sem ég ber fram og segðu honum
að ég muni elska hann sífellt meira
á hverjum nýjum degi.

Þessa bæn ásamt 5 Faðirvorum, 5 Maríubænum og 5 Dýrðarbænum á að bera upp í 5 daga í röð. Á 5. degi ber að biðja ofannefndar bænir 10 sinnum.

TILBEIÐSLA HEILAGRAR ÞRENNINGAR

Bæn systur Elísabetar af Þrenningunni (Edith Stein) þegar hún gaf lokaheiti sitt.

Ó, Guð minn, Þrenning sem ég tilbið. Hjálpa þú mér til þess að ég gleymi sjálfri mér fullkomlega svo að ég verði rótföst í þér, óhagganleg og kyrrlát, líkt og sál mín væri þegar í eilífðinni. Að ekkert verði til þess að raska ró minni eða draga mig frá þér, ó, þú minn Óumbreytanlegi, heldur að sérhvert andartak leiði mig lengra inn í djúp leyndardóms þíns.

Veit sál minni hvíld. Gjör mig að himni þínum, ástkærum bústað og hvíldarstað og að ég skilji þig þar aldrei eftir einan, heldur dveljist þar og einungis þar, í lifandi trú og fullkominni tilbeiðslu og gefist algjörlega þínum skapandi mætti.

Ó, Kristur minn, sem ég elska svo heitt. Krossfest af elskunni vildi ég verða brúður hjarta þíns. Helst kysi ég að umvefja þig með dýrð og elska þig . . . uns ég léti lífið af ást! . . . En ég skynja veikleika minn, og því bið ég þig að íklæða mig sjálfum þér svo að sál mín samlagist sérhverri hræringu sálar þinnar, að þú kaffærir mig, fossir yfir mig, að þú komir í minn stað, svo að líf mitt verði einungis endurskin af þínu lífi. Komdu til mín sem Tilbiðjandi, Endurlífgari og Lausnari.

Ó eilífa Orð! Raust Guðs míns. Ég vil verja lífi mínu til þess að hlýða á þig og vera fullkomlega opin og nema allt af þér. Á ferð minni gegnum allar nætur, í öllu bjargleysi mínu og vanmætti, vil ég einblína á þig öllum stundum og dveljast í mikilleika ljóss þíns, ó mín heittelskaða stjarna. Gef að ég megi heillast af ljóma þínum, að ég snúi aldrei baki við honum.

Ó, þú eyðandi eldur, Kærleiksandi. Hvolfst þú yfir mig svo að hann verði í sálu minni sem holdtekja Orðsins, að ég verði honum annað manneðli, þar sem hann endurnýjar allan leyndardóm sinn.

Og þú, ó Faðir minn. Lúttu niður til vesællar og aumrar sköpunar þinnar. Hyldu hana í skugga þínum og lít aðeins á þinn Heittelskaða í henni, þann sem þú hefur velþóknun á.

Ó, þið mínir „Þrír”, Allt mitt, Unaður minn, Ótakmarkaða einsemd, Óræði, þar sem ég glata sjálfri mér. Ég gefst þér á vald sem bráð þín. Flæddu yfir mig svo að ég megi drukkna í þér í bið minni þar til ég fer og íhuga í ljósi þínu djúp hátignar þinnar.”

Frehen heitin biskup kenndi guðfræði við háskólann í Utrecht í Hollandi, áður en hann kom til Íslands. Ég gleymi því aldrei þegar hann lauk upp leyndardómi bænarinnar fyrir mér, eins og hann lauk henni upp fyrir nemendum sínum forðum með leikrænum hreyfingum og tjáningu.
Skynjið þið þetta ekki strax sjálf? Þetta er hreyfibæn. Íhugið orðin vegna þess að Heilagur Andi er svo sannarlega lifandi í trúuðum sálum.

No feedback yet