« Að snerta Jesú í altarissakramentinuEf maðurinn gerir ekki ráð fyrir Guði, verður hann sjálfur að spurningu sem ekkert svar finnst við. »

04.04.08

  15:19:59, Skrásetjari: Sr. Denis O'Leary   , 469 orð  
Flokkur: Til umhugsunar

Upprisubrúin

Í Recife, höfuðborginni í fátækasta hluta Brasilíu, hafa nokkrar systur sest að í "favelunni". Favelan er fátækrahverfið. Þar býr fólk í kofum og hreysum, sem tjaslað er saman úr pappakössum, blikkplötum, spýtnarusli og hverju því, sem það hefur fundið. Í þessum skúrum er ekkert vatn, ekkert frárennsli og ekkert rafmagn. Systurnar búa við sömu kjör og hitt fólkið og lifa eins og það. Ef þær geta krækt sér í eitthvað að gera á milli, eiga þær peninga fyrir mat. Annars ekki. Alveg eins og hinir íbúarnir.

"Við viljum bara vera hérna", segja systurnar. "Við viljum sýna fólkinu að við og það séum samskonar fólk." Þegar fólkið kemur til okkar og spyr: "Hvað eigum við að gera?" þá segjum við: ………

……… "Það vitum við ekki frekar en þið. Við verðum að ráða fram úr því í sameiningu."

Ef systurnar eru spurðar hvort það væri ekki best að safna einhverri smáupphæð handa þessu fátæka fólki, bregður þeim illa og þær hrista höfuðið. Kemur ekki til mála. Jesús vísaði líka á bug auðæfum og munaði, til þess að geta verið fátækur meðal hinna fátæku. Systurnar vilja bara vera hjá þessu fólki, eins og hann gerði. Þá fer að líða að því að fátæklingarnir verði líka að mönnum sem gera eitthvað sjálfir. Ekki bara vesalingar sem aðrir verða að gera eitthvað fyrir.

Dæmi um það er "upprisubrúin" sem var byggð á páskunum eitt árið. Systurnar og fólkið í favelunni höfðu talað saman um krossferil Jesú alla föstuna. Hvað er ykkar kross - það sem þjáir ykkur mest? spurðu systurnar íbúana. Það er áin, grútskítug, með öllu skolpinu, sem við verðum að synda yfir til þess að komast yfir á hinn bakkann, til þess að geta unnið okkur eitthvað inn í miðborginni. Karlinn í söluturninum niðri við ána tekur peninga fyrir að ferja okkur yfir og við getum alls ekki borgað það sem hann heimtar.

Upp af þessum viðræðum og mörgum öðrum spratt hugmyndin um að fólkið skyldi sjálft byggja brú yfir ána. Það var frumstæð trébrú, byggð úr fábrotnu efni, þeir negldu hana saman á svipaðan hátt og þeir höfðu klambrað saman skúrana sína. Og hún var kölluð "Upprisubrúin", af því að henni fylgdu páskar, nýtt líf, upprisan.

Fagnaðarboðskapurinn um upprisuna hafði skotið rótum og þróast í lífi þessa fólks.

Kafli úr trúfræðslubókinni KOMIÐ OG SJÁIÐ.

No feedback yet