« TEPEYACHÆÐIN Í MEXÍKÓ 1531: MÓÐIR NÝRRAR HEIMSSKIPUNAR (1)Helgaðu sókn þína hinu heilaga og Flekklausa Hjarta Maríu »

28.12.06

  09:43:43, Skrásetjari: Jón Rafn Jóhannsson, 4788 orð  
Flokkur: Opinberanir heilagrar Þeotokos í Medjugorje

Upphaf opinberananna í Medjugorje

Erindi sem flutt var á Patriciufundi í Stigahlíðinni hjá fransiskusarsystrunum um 1990.

Ungmennin sem meðtekið hafa boðskap Guðsmóðurinnar í Medjugorje frá upphafi eru sex að tölu og kom úr ýmsum áttum. Þau heita Ívanka (15 ára), Mírjana (16 ára), Vicka (17 ára), Ívan (16 ára), Marija (16 ára) og Jakov (10 ára), en þetta var aldur þeirra við upphaf opinberananna sem hófust þann 24. júní 1981. Auk þeirra bættust síðan tvær telpur í hópin, Jelena og Marija, báðar 10 ára gamlar (árið 1982) og meðtaka einungis opinberanir hið innra líkt og Catherine Labouré í París árið 1830. Önnur þessara stúlkna, Maríja, hefur sagt að Guðsmóðirin vilji leiða hana með sérstökum hætti til mikillar helgunar og heilagleika. Öll hin eru sjáendur, það er að segja meðtaka myndrænar opinberanir. Sjáendurnir hafa bæði verið rannsakaðir meðan opinberanirnar hafa staðið yfir og að þeim loknum. [1] Í þessum rannsóknum hafa menn beitt allri þeirri tækni sem nútíma læknavísinda hafa yfir að ráða, bæði með töku hjarta- og heilulínurita, auk nákvæmra sjón- heyrnar,- og raddmælinga. Þar fyrir utan hafa verið gerðar nákvæmar mælingar á ljósmagni því sem leikið hefur um sjáendurnar.

Tvær stúlknanna, Ívanka og Mírjana, voru á gangi á Krossfjallinu sem er í um kílómeters fjarlægð frá þorpinu Medjugorje í Bosníu-Herzegóveníu þegar þær sáu skyndilega Guðsmóðurina þar sem hún leið fram hjá þeim í um 30 sm. hæð yfir jörðu án þess að bera fyrir sig fæturnar. Hún bar Jesúbarnið í örmum sér og var skrýdd stjörnukórónu. Þær urðu felmtri slegnar og hröðuðu sér heim á leið. Þær komu svo að nýju til staðarins í fylgd tveggja stúlkna og tveggja drengja. Ungmennin tóku að biðja og sáu Maríu en urðu skelfd og hurfu á brott.

Síðdegis daginn eftir fóru sjáendurnir sex ásamt tveimur fullorðnum til staðarins að nýju en það voru einungis sjáendurnir sem koma auga á Guðsmóðurina. Hún var klædd gráum kyrtli og bar hvíta slæðu og var skrýdd stjörnukórónu á höfði. Hún var bláeygð og svarthærð, rjóð í kinnum og virtist vera um tvítug að aldri og um 160 sm að hæð. Hún ávarpaði ungmennin og sagði við þau: „Ég er María, móðir Guðs.“ Þann 26. júni sem var föstudagur sást afar skært ljós yfir opinberunarstaðnum sem um 3000 manns í Medjugorje og aðliggjandi sveitum sáu í allt að sjö kílómetra fjarlægð. Þegar fréttir tóku að berast út um þau undur sem áttu sér hér stað tók fólk að streyma til staðarins þúsundum saman.

Stjórn kommúnista sem en var við völd í landinu á þessum tíma óttaðist að opinberanirnar væru liður í nýrri aðskilnaðarhreyfingu Króata og því voru sjáendurnir hafðir undir stöðugu lögreglueftirliti. Það var einmitt að undirlagi öryggislögreglunnar sem tveir félagsfræðingar voru fengnir frá Sarajevo til að bjóða sjáendunum í ökuferð um nærliggjandi sveitir til að hindra þá í að komast upp á Krossfjallið á réttum tíma. Ungmennin tóku boði þessu fegins hendi eftir álag undanfarinna daga.

Ökuferðin dróst á langin og það var ekki fyrr en klukkan tæplega sjö um kvöldið sem sjáendurnir voru komnir til þorpinu Cerno gagnstætt Krossfjallinu. Þeir báðu um að numið yrði staðar svo að þeir gætu beðist fyrir. Á þessari sömu stundu var mikill mannfjöldi staddur á Krossfjallinu og skyndilega sást ljós líða hjá og nálgast ungmennin þar sem þau báðust fyrir við vegbrúnina. „Ég leit upp,“ sagði einn sjáendanna síðar, „og sá hvernig ljósið nálgaðist okkur. Báðar konunrnar sem voru með okkur sáu það líka, ég spurði þær sérstaklega að því og þær játtu því. Ég horfði statt og stöðugt á ljósið og skyndilega stóð Guðsmóðurin hjá okkur.“ Einn sjáandanna, Mírjana, ávarpaði Maríu og sagði við hana: „Þeir hafa bannað okkur að fara upp á Krossfjallið. Hefur þú eitthvað á móti því að hitta okkur næst í kirkjunni?“ Guðsmóðurin hikaði dálitla stund en kinkaði síðan kollinum til samþykkis. Eftir að hafa gefið sjáendunum þetta loforð hvarf Guðsmóðurin að nýju.

Eftir að hún var horfin á brott skein ljósið enn um stund yfir Krossfjallinu. Báðir félagsfræðingarnir voru miður sín eftir þennan atburð og felmtri slegnir. Þeir fóru með börnin beint til Medjugorje til fundar við föður Jozo, sóknarprest í Jakobskirkjunni á staðnum. Hann yfirheyrði allan hópinn mjög ítarlega (segulbandsupptökurnar eru enn til) og var sjálfur afar undrandi. Ástand ríkistarfsmannanna tveggja hafði einnig djúp áhrif á hann. „Þeir voru miklu betri sönnun þess sem gerst hafði en sjálfir sjáendurnir.“

LJÓS YFIR KROSSINUM

En þetta var einungis upphafið að því sem koma skyldi. Þann 1. júlí boðaði öryggislögreglan þorpsbúa til fundar í skólanum í Medjugorje. Þar var þeim gert ljóst að sjáendunum væri framvegis óheimilt að fara upp á Krossfjallið eða sækja kirkju. Foreldrum þeirra var hótað forræðisviptingu ef út af þessu yrði brugðið. Seint að kveldi þess 14. júlí fóru sjáendurnir leynilega upp á Krossfjallið í fylgd nokkurra vina og nágranna. Einn viðstaddra, Marinko Íkanovoc, lýsir förinni með eftirfarandi orðum: „Tuttugu dögum eftir að opinberanir Guðsmóðurinnar hófust fórum við ásamt fimmtíu þorpsbúum upp á Krossfjallið að kvöldlagi þar sem við báðumst fyrir.

Skyndilega hrópuð sjö eða átta þeirra sem voru viðstaddir: „Sjáið ljósið!“ Það kom af himnum ofan og virtist vera um tíu metrar að þvermáli og nálgaðist okkur óðfluga. Það nam staðar yfir litlum trékrossi sem var þarna. Ljósið virtist streyma út frá krossinum og líktist ljósbarma sem hefði sundrast og tvístrast í þúsundir smástyrna. Við vorum öll böðuð í ljósinu og krupum niður og sum barnanna sem voru viðstödd grétu. Þá sögðum við: „Uss, Guðsmóðurin er hérna hjá okkur,“ og við fórum að biðja af miklum ákafa. Þannig báðum við saman og grétum í um 40 mínútur. Ég mun ekki gleyma þessari nóttu svo lengi sem ég lifi.

Að þessum 40 mínútum liðnum hóf Guðsmóðurin að biðja með okkur og sagði við sjáendurna að við mættum snerta hana, ef okkur langaði til þess. Þar sem við komum ekki auga á hana urðum við að fálma okkur áfram. Nokkrir viðstaddra snertu hana og sögðu að þeir hefðu misst alla tilfinningu í fingurgómunum við snertinguna. Þá varð einhverjum á að stíga á kyrtilfald Guðsmóðurinnar og hún hvarf skyndilega á brott. Að síðustu sáum við tvær verur standa yfir krossinum og önnur þeirra líktist Guðsmóðurinni og ljós streymdi út frá hinni, eins og hér væri um hvítan eld að ræða. Ég hljóp heim til að ná í myndavélina mína og þegar ég kom aftur til baka streymdi enn geislaflóð frá ljósverunni. Ég tók myndir af þeim en ljósveran kom ekki fram á myndinni, en hin veran gerði það.

Einn sjáendanna, Viska, lýsti ljósinu sem eldknetti: „Hann nálgaðist okkur á miklum hraða og sundraðist áður en hann snart jörðu og út frá honum sindraði ljósgneistum, líkt og þetta væru smástyrni.“ Fjöldi fólks í þorpunum í kring sá einnig þetta ljós og hraðaði sér á vettvang.

ORÐIÐ „MIR“ (FRIÐUR) BIRTIST Á HIMNUM

Í lok júlímánaðar sást orðið „mir“ birtast á næturhimninum yfir Krossfjallinu. Fjölmargir uðru vitni að þessu, þar á meðal faðir Jozo: „Lát kringlu himins bifast og himininn birtast á jörðu,“ hrópaði hann hvellri röddu í föstudagsmessunni: „Þetta er tákn þess að Guð hafi ekki snúið baki við mönnunum. Kirkjan okkar er lítil eyja í guðlausu efnishyggjuþjóðfélagi. María reynir að sannfæra okkur um þetta með milligöngu sjáendanna. Við höfum ekkert að óttast.“

DANS SÓLARINNAR

Þann 2. ágúst virtist engu líkara en að sólin hvirflaðist um sjálfa sig. Hún virtist nálgast fólkið og fjarlægjast síðan að nýju. Sólin „dansaði,“ eins og þessu var lýst í opinberunum í Fatíma árið 1917. „Ég stóð í mannmergðinni við kirkjuna,“ segir leigubílstjóri nokkur, „þegar ég veitti því athygli að sólin hagaði sér með harla óvanalegum hætti. . . Hún tók að hvarfla til og frá og það var eins og geislaslóði sliti sig lausan frá henni sem birtist sem regnbogi yfir opinberunarstaðnum. Því næst beindist hann að kirkjuturninum þar sem sjá mátti Guðsmóðirina birtast.“

Um 150 manns fylgdist sem lamaðir með því sem bar fyrir augu. Annar áhorfandi lýsti því sem bar við með eftirfarandi orðum: „Ég sá verur umhverfis sólina. Þetta varð til að fjölmargir tóku að gráta, báðust fyrir eða þá að menn hreint og beint lögðu á flótta. Þannig birtust sex hjörtu sem umgjörð um eitt stórt hjarta. Hvít skýjamóða huldi Krosshæðina. Að þessu loknu færðist sólin aftur á sína upphaþegu braut.“

Í næsta nágrenni Medjugorje, eða nánar til tekið í þorpinu Turciovici, höfðu allir þorpsbúar safnast saman til að fylgja ungri konu til grafar. Skömmu eftir að líkfylgdin lagði af stað frá heimili hinnar látnu sáu menn þennan dans sólarinnar. Allir krupu og báðust fyrir í um tíu mínútur.

SÝN FÖÐUR UMBERTOS

Prestur nokkur, faðir Umberto Luncar, sem var á pílagrímsferð í Medjugorje, varð ekki vitni að því sem gerðist og gerði góðlátlegt grín af þessum svokallaða „dansi sólarinnar.“ Þrátt fyrir að hann yrði sjálfur vitni að samskonar atviki daginn eftir, þá lét hann sér þetta allt í léttu rúmi liggja og útskýrði þetta fyrirbrigði sem óvenjuleg veðurfarsleg skilyrði eða sérstæð heitafrávik. En miðvikudaginn 4. ágúst bar annað fyrir augu hans sem hann lýsti með eftirfarandi orðum: „Nákvæmlega kl. 18.20 síðdegis sá ég ógnarstórt purpuralitað ský yfir Cerno.

Það var gríðarstórt og nálgaðist mig leifturhratt. Það sveif í um tvær mínútur yfir Krossfjallinu en hvarf síðan til austurs. Að lokum virtist það síga til jarðar. Ég gat ekki fylgst nákvæmlega með því sem gerðist vegna þess að hæðardrög og tré birgðu mér sýn. Þess vegna hljóp ég inn í prestahúsið. Klukkan 18.40 birtist rauðfjólublá mynd ábúðarmikillar konu yfir Crnicahæðinni. Rauðfjólublái liturinn dvínaði smám saman þegar konan hófst upp til himins og hvarf mér sjónum. Það síðasta sem ég kom auga á var geislablika sem huldi fætur konunnar og bar hana upp á við. Þessi sýn stóð yfir í sem svarar hálfa mínútu.

FRÁSÖGN IVU VASILJA

„Í rökkurbyrjun var mér gengið út á tóbaksakurinn okkar til að safna saman blöðum. Nágrannakona mín vakti yfir fénu sína skammt fá mér og stytti sér stundir við prjónaskap. Skyndilega var eins og kaldur vindgustur blési á okkur. Við litum upp og sáum sólina dansa og höfuð og herðar konu risu upp frá henni. Hún stefndi til Krossfjallsins og það var eins og rauðir, bláir og purpuralitir ljósknettir gengu út frá sólinni. Kindurnar hennar grönnu minnar urðu svo skelfdar að þær þjöppuðu sér saman.

Þegar við vorum aftur orðnar nægilega styrkar á fótum stauluðumst við heim á leið. Ég sagði bæði manninum mínum, honum Pedro, og dóttir minni frá því sem borið hafði að höndum, en þau hlógu bara og töldu þetta einungis vera minn eigin heilaspuna, þannig að ég brast í grát. Rétt í því kom móðir Pedros og sagði: Guð er með okkur. Iva segir satt og rétt frá þessu öllu saman. Ég sá þetta líka.“

GUÐSMÓÐURIN VERÐUR BIKSVÖRT

Þar sem lögreglan meinaði sjáendunum að fara upp á Krossfjallið meðtóku þeir opinberanirnar heima við, úti á ökrunum og jafnvel í gripahúsum! Fyrst og fremst var þetta eins fjarri lögreglunni og hugsast gat. Hvað eftir annað urðu ungmennin að leggja á sig langar gönguferðir til að forðast varðstöðvar lögreglunnar. Þau voru höfð undir stöðugu eftirliti, bæði á heimilum sínum og annars staðar sem til þeirra sást utan dyrar.

Þann 2. ágúst slógust nokkrir þorpsbúar í för með sjáendunum til þess að eiga saman með þeim lofgjörðarstund á akri nokkrum skammt frá þorpinu Bijakovici. Þetta var að lokinni kvöldmessu. Marinka Ívakovoc greinir svo frá því sem nú bar við: „Við báðum saman Faðirvorið, Heil sért þú María, Dýrðarbænina og Trúarjátninguna alls sjö sinnum. Því næst sögðu sjáendurnir okkur að við mættum snerta Guðsmóðurina ef við vildum. . . Þegar Guðsmóðurin hvarf síðan á brott, þá hrópaði Maríja allt í einu upp yfir sig og hljóp til mín. Ég spurði hana að því hvað hefði eiginlega komið fyrir: „Ó Marínka,“ sagði hún, „hún varð biksvört!“ Það var þarna fólk sem afneitaði tilvist Guðs og þegar það snerti hana, þá varð ásýnd hennar sífelt dekkri uns hún varð biksvört.“

Marínka komst í mikið uppnám vegna þessarar staðfestingar á ógnarvaldi syndarinnar og hrópaði upp yfir sig: „Nú verðum við öll að skrifta á morgun!“ Næsta dag fjórfaldaðist fjöldi þeirra sem vildu skrifta í kirkjunni í Medjagorje. Skriftafeðurnir undruðust mjög allan þennan fjölda, en fjöldi þeirra átti eftir að aukast til mikilla muna eftir að Guðsmóðurin bar sjáendunum þau boð, að „allir ættu að yðrast vegna synda sinna.“

GUÐSMÓÐURIN UMVAFIN LJÓSI

Og þannig hélt þetta áfram og enn fleiri tákn sáust við opinberunarstaðinn á Krossfjallinu. Miðvikudaginn 15. september árið 1982 brá Önku Pehor illilega í brún þegar hún var að taka þvott sinn niður af snúrunum. Hún sá þríhyrnt ljós yfir Crnicahæðinni: „Ég sá Guðsmóðurina í ljósi með útbreiddan faðm. Hún leið um loftið og nálgaðist kirkjuna.

Ég kallaði á dóttur mína og ömmu. . . og auk þess slógust tveir vinir í hópinn. Öll sáum við hið sama og krupum niður og báðumst fyrir. María Guðsmóðir var umvafin ljósi og skærir geislar sáust að baki höfuðs hennar og herðum. Þessi sýn stóð yfir í um eina klukkustund.

UMMYNDUN KROSSINS

Þann 22. október var faðir Janko Bubalo að undirbúa sig fyrir kvöldmessuna í prestahúsinu. Þetta var um klukkan fimm. Skyndilega bárust honum til eyrna hróp og köll að utan. Þegar hann kom út til að ganga úr skugga um hverju þetta sætti, þá sá hann báðar systurnar sem önnuðust heimilisstörfin krjúpandi á knjánum með útrétta arma. Um sjötíu manns, bæði karlar og konur krupu ásamt þeim og mynduðu röð sem gekk út frá kirkjunni. Það rigndi og þetta virtist ekki hafa minnstu áhrif á fólkið og enginn var með regnhlíf. Allir báðust fyrir og sumir grétu en aðrir sungu sálma.

Allir horfðu til krossins á Krossfjallinu: „Ég horfði einnig til krossins. Í stað hans gaf nú að líta ljósbleikt ljós sem líktist ekki neinu úr hinum jarðneska heimi. Ég varð hrærður en þar sem ég sé fremur illa, þá bað ég um að mér yrði lánður sjónauki . . . Nú sá ég konu með útbreidda arma í stað krossins. Höfuð konunnar reis örlítið yfir þvertré krossins. Fætur hennar voru sveipaðir ljósmóðu sem huldi neðri hluta krossins. Ég kenndi til ósegjanlegrar gleði hið innra með sjálfum mér. Fjórir eða fimm prestanna sem stóðu rétt hjá mér sáu hið sama og aðrir. Allir sem horfðu til Krossfjallsins gátu fylgst með þessu fyrirbrigði.“

ELDAR BRJÓTAST ÚT

Þann 28. október brutust út miklir eldar á Krossfjallinu sem sjá mátti í tíu mínútur. Hundruð manna urðu vitni að þessum eldum sem loguðu glatt í stundarfjórðung. Þegar lögreglan og slökkviliðið í Medjugorje komu á vettvang var engin ummerki að finna um eldanna, hvorki glæður né öskuleyfar. Skilaboð Guðsmóðurinnar voru skýr og greinileg: „Þetta er forboði táknsins mikla sem mun birtast.“

Á hátíð hins Alhelga hjarta Jesú þann 18. júní 1982 og Hins þekklausa hjarta Maríu þann 19. júní sáust stjörnur hvarfla til og frá á himinhvolfinu og urðu skærari og myrkari á víxl. Faðir Tomislav Vlasic segir svo í bréfi til Jóhannesar Páls páfa II þegar hann vék að þessum atburði: „Þetta stóð yfir í um það bil eina klukkustund og hér erum við að tala um nákvæmlega sömu stjörnumerkin og við sjáum á sumarhimninum. Þetta fyrirbrigði endutók sig aftur síðar, en þá var ég sjálfur fjarverandi, en aðrir sáu þetta.“

ATBURÐIRNIR VEKJA ATHYGLI UMMHEIMSINS

Öll þessi atburðarás fór nú að vekja athygli manna, ekki einungis í nágrenni staðarins, heldur í sjálfri höfuðborg júgólsavneksa ríkjasambandsins, Belgrad. Það sem átti ekki svo lítinn þátt í að bera fréttirnar af þessum undrum út til ummheimsins voru einmitt viðbrögð stjórnvalda. Ríkissjónvarpið júgóslavneska sendi kvikmyndatökumenn og fréttamenn á vettvang til að kveða þennan orðróm niður í eitt skipti fyrir öll. En þetta varð einungis til að auka áhuga manna enn fekar á fyrirbrigðunum, bæði innan lands og utan, í Evrópu jafnt sem Bandaríkjunum og pílagrímar tóku að streyma til Medjugorje tugþúsundum saman.

Efnahagsástandið í landinu var harla bágborið á þessum síðustu valdaárum kommúnistastjórnarinnar og nú tók dýrmætur erlendur gjaldeyrir að streyma til landsins með stórauknum fjölda ferðamanna. Þetta varð einnig til að glæða áhuga kirkjulegra yfirvalda á fyrirbrigðunum, einkum í ljósi þeirra jákvæðu áhrifa sem opinberanirnar höfðu á fólk: Pílagrímar þeir sem snéru heim frá Medjugorje voru endurnærðir í trú og von eftir reynslu sína. Vegna þeirrar athygli sem opinberanirnar höfðu vakið erlendis héldu stjórnvöld ekki lengur til streitu andúð sinni á atburðunum og afléttu því banni sem svæðisráð sósíalistaflokksins í Citluk hafði lagt gegn því að sjáendurnir kæmu saman ásamt mannfjöldanum.

OPINBERANIRNAR FÆRAST Í JAKOBSKIRKJUNA

Nú færðust opinberanir Guðsmóðurinnar í litla kapellu í Jakopbskirkjunni í Medjugorje. Herbergi þetta er fátæklegt og rúmar aðeins um sextíu manns, þannig að takmarkaður fjöldi fólks getur verið viðstaddur hverju sinni þegar opinberanirnar eiga sér stað. Það er í þessari litlu kapellu sem sjáendurnir hafa meðtekið mest af þeim boðskap sem Guðsmóðurin hefur haft fram að færa, en það sem hefur þó einkennt allar opinberanir Maríu í öll þau 8 ár sem þær hafa staðið yfir er að þær eru ekki staðbundnar. Hvar sem sjáendurnir hafa verið staddir hverju sinni hefur Guðsmóðurin opinberast þeim, hvort sem það hefur verið innan veggja heimila þeirra, meðan þeir hafa dvalist í skólum eða verið bundnir við störf og skyldur. Hátt í þrjátíu milljónir pílagríma hafa heimsótt Medjugorje fram til þessa (Síðar dróg mikið úr fjölda þeirra sem sóttu staðinn heim vegna stríðsástands þess sem ríkti á þessu landsvæði. Nokkru sinnum gerðu stórskotaliðssveitir Serba tilraun til að jafna Jakobskirjuna við jörðu með sprengjuvörpum meðan stríði geisaði í Bosníu en allar féllu sprengjurnar á akrana umhverfis kirkjuna, en hún er á yfirráðasvæði Króata).

Lengi vel eða allt til ársins 1986 komu sjáendurnir daglega saman í kapellu Jakobskirkjunnar þar sem Guðsmóðurin opinberaði þeim margvíslega leyndardóma um framtíð heimsins. Þeir hafa meðtekið tíu leyndardóma sem verða ekki gerðir heyrum kunnir fyrr en María heimilar þeim það. Leyndardómarnir eru í fyllsta samræmi við boðskap Opinberunarbókarinnar! Leyndardómarinir felast í sýnilegum táknum á Krossfjallinu og eru ætlaðir þeim sem ekki trúa og því til staðfestingar, að María Guðsmóðir hafi verið í Medjugorje. Að öðru leyti varða þeir ungmennin sjálf, kirkjuna í Medjugorje, heimskirkjuna og sjálft lokatáknið sem ætlað er mannkyninu öllu.

DROTTNING FRIÐARINS: „TAKIÐ MIG ALVARLEGA!”

Hér hefur hin blessaða Mey jafnframt opinberað sig undir sérstöku nafni: „Ég er drottning friðarins.“ Hérna í Medjogorje hefur Guðsmóðurin nú birst í átta ár samfleytt og sjáendurnir sjá hana, snerta hana og hlusta á hana: Hún er lifandi! Ef við spyrjum okkur hvers vegna hún hefur birst í svo langan tíma, þá hefur hún sjálf svarað þeirri spurningu:

Þessar opinberanir eru þær síðustu sem opinberaðar verða mannkyninu!

Guðsmóðirin víkur að framtíð heimsbyggðarinnar og segir að hún sé komin til að flytja okkur alvarlegan boðskap sem víkur að okkur öllum og til þess að hughreysta okkur: Árið 1983 segir hún við Jelenu:

Takið mig alvarlega. Þegar Guð birtist á meðal manna, þá kemur hann ekki með léttvægan boðskap, heldur til að segja eitthvað sem er afar þýðingarmikið.

Frá upphafi hefur Guðsmóðirin sífellt beðið okkur um að biðja sérstaklega um náðargjafir auðmýktar, elsku, bænar og föstu. Hún biður fólk að biðja daglega Faðirvorið, Heil sért þú, Dýðrarbænina og Trúarjátninguna. Hún biður fólk um að biðja og fasta: „Biðjið, fastið og felið Guði allt á hendur.“ Hún minnir okkur einnig á að okkur hafi gleymst hvílíkur máttur er fólginn í bæninni:

Ykkur hefur gleymst að þið getið jafnvel komið í veg fyrir styrjöld. Þið getið jafnvel haft áhrif á sjálf náttúruöflin.

Hún hefur einnig talað um mikilvægi bænar hjartans:

Í öllum ykkar bænum skulið þið biðja um að hjörtu þeirra sem eru undir ánauðaroki syndarinnar ljúkist upp. Ég þrái þetta og Guð þráir þetta fyrir milligöngu mína.

Guðsmóðurin þakkar jafnframt öllum þeim sem hafa lokið upp hjörtum sínum en hvetur jafnframt alla sem eru en í fjötrum syndarinnar til að biðja. Hún segir jafnvel að ástæða þess að hún hafi opinberast svona lengi á jörðinni sé sú, að hún vilji kenna okkur að biðja. Hún er kennari okkar í heimi bænarinnar og segir okkur að við getum ekki skilið friðarboðskap sinn öðru vísi en með því að biðja og fasta og við opnum hjörtu okkar svo að þau verði að orkuverum bænarinnar. „Friður, friður, friður verður að ríkja. . . friður verður að ríkja á milli Guðs og manna og milli mannanna sjálfra.“ Þetta er það sem hún endurtekur í sífellu. Og hún hvetur hina trúuðu sérstaklega til að biðja fyrir þeim sem glatað hafa trú sinni:

Þeir tilheyra einnig barnahópnum mínum og ég þjáist mikið fyrir þeirra hönd. Ef þeir einungis vissu hvað bíður þeirra ef þeir taka ekki sinnaskiptum.

BÆN HJARTANS

Bæn hjartans er eitt og hið sama og að elska Guð. Þetta eru þau boð sem Guðsmóðirin flytur sjáendunum þann 28. febrúar 1985:

Kæru börn! Ég bið ykkur að íhuga þessi orð til fulls: „ Ég elska Guð: Kæru börn! Með því að elska Guð getið þið öðlast allt, jafnvel það sem virðist óframkvæmanlegt. Drottinn vill að þið tilheyrið honum að öllu leyti og það vil ég líka. Ég þakka ykkur fyrir að hafa hlítt á mig.

Þann 29. nóvember árið 1984 sagði hún: „Elskurnar mínar! Gerið ykkur ljóst að ég er móðir ykkar og er komin til jarðar til að kenna ykkur að hlýða af elsku og biðja í kærleika.“ Þegar við öðlumst þekkingu á Guði í elsku bænarinnar getum við elskað meðbræður okkar. „Kæru börn! Í dag hvet ég ykkur öll til að biðja. Bænin verður að verða ykkar annað líf. Kæru börn! Fórnið Jesú tíma ykkar og hann mun gefa ykkur allt sem þið þarfnist. Hann mun opinbera ykkur hvað felst í fullkomleikanum.“ (25. september 1987).

Guðmóðirin leggur sífellda áherslu á að við verðum að ljúka upp hjörtum okkar í bæninni: „Kæru börn! Ég bið ykkur um að ljúka upp hjörtum ykkar í bæninni“ (31. janúar 1985). Það er þetta sem mun leiða okkur til heilagleikans: „Kæru börn! Biðjið daglega og bætið breytni ykkar daglega svo að þið verðið heilög“ (13. nóv. 1986). Og hún leggur jafnframt áherslu á að það sé bænin ein sem leiði okkur áfram á vegi helgunarinnar og bænin krefjist þess einungis að við viljum biðja og að Guð muni síðan koma til móts við þarfir okkar. „Ég bið ykkur börnin mín að þið opnið hjörtu ykkar og byrjið að biðja“ (20. mars 1986). Opnið þau „eins og blómin opnast á vorin og snúa sér að sólinni“ (31. jan. 1985).

Það er þessi bæn hjartans sem leiðir til uppljómunar: „Í dag vil ég segja ykkur að þið verðið að rækta hjörtu ykkar rétt eins og þið vinnið úti á ökrunum“ (25. apríl 1985). Hún líkir mannshjartanu við óhrein herbergi: „Þið gefið ykkur tíma til að hreinsa herbergi sem þið notið svo lítið í húsum ykkar, en síðan vanrækið þið hjartað. Þið eigið að verja meiri tíma í þessa hreinsun og hreinsa sérhvern afkima hjartna ykkar með elskunni“ (17. okt. 1985). Hún varar okkur við þeim óhreinleika sem leynist í djúpi hjartans og segir: „Biðjið kæru börn! Einungis þannig munið þið koma auga á alla þá illsku sem þar er fólgin og fela hana Drottni á vald svo að hann geti hreinsað hjörtu ykkar“ (4. desember 1986). „Ekkert er eins nauðsynlegt og þetta,“ segir hún þann 28. janúar 1987. Hér opinberast okkur sami leyndardómurinn og við sjáum í ákalli Davíðs í sálmunum: „Skapa í mér hreint hjarta, ó Guð, og veit mér nýjan, stöðugan anda“ (Sl 51. 12).

[1] Sjá: http://www.kirkju.net/index.php/2006/02/21/p207

No feedback yet