« Var Jóhannes Páll II. páfi valdur að dauða milljóna? |
Á föstudaginn langa, 25. mars 2005 birtist frétt í Ríkissjónvarpinu undir fyrirsögninni „11 sjálfboðaliðar krossfestir á Filippseyjum.“ [1]
Sagt er frá því í inngangi fréttarinnar að „þúsundir Filippseyinga og erlendra ferðamanna“ hafi fylgst með því þegar 11 menn létu krossfesta sig og síðan er bætt við „Krossfestingin er hápunktur páskahátíðarinnar í þessu eina kaþólska ríki Asíu“. Því næst koma myndræn brot af sársaukagrettum og handaneglingum og hópi blóðugra manna að berja sig með svipum. Á meðan krossfestum manni er lyft upp les þulur að rómversk-kaþólska kirkjan hafi „lýst yfir andstöðu sinni við þessa blóðugu helgisiði en hefur lítið gert til að koma í veg fyrir þá.“ Að því búnu er sagt frá því að útlendingum sé meinað að láta krossfesta sig í kjölfar hneykslismáls. Síðan kemur: „85% Filippseyinga eru kaþólskir og eru páskarnir þeirra helgasta stund á ári hverju“. Í niðurlagi fréttarinnar eru svo greint frá því að lögregluyfirvöld í Luzon hafi gefið „lögreglumönnum sem höfðu hlaupist undan merkjum“ tækifæri til að bera krossa eða láta krossfesta sig.
Það er ekkert sem bendir til að birting þessarar fréttar sé mistök. Sérstaklega þegar haft er í huga að aðrar fréttir þessari líkar af sömu árvissu viðburðunum eru að ná að hasla sér völl sem alveg jafn fyrirsjáanlegur liður í páskafréttum RÚV sjónvarps og veðurfréttirnar eru dags daglega.
Fullyrðingin um að krossfestingin sé hápunktur páskahátíðarinnar á Filippseyjum stenst ekki. Þetta kemur fljótlega í ljós ef málið er skoðað. Hjá Manila Bulletin Online [heimildir 2 og 3] kemur fram að giskað sé á að áhorfendur hafi verið um 20 þúsund og margir þeirra ferðamenn. Nú ætti fréttamönnum að vera kunnugt um og þeir skilja að það að vera áhorfandi að einhverju atviki er ekki það sama og að vera þátttakandi í því. Flestir rómversk-kaþólskir Filippseyingar, en þeir skipta tugum milljóna, halda upp á páskahátíðina með því að taka þátt í helgisiðum kirkju sinnar. Það er hápunktur páskahátíðarinnar hjá flestum en ekki að taka þátt í krossfestingu né heldur að vera áhorfandi að slíku. Að vísu er hefð fyrir helgigöngum og helgileikjum en krossfestingar tíðkast ekki nema á þessum örfáu stöðum og með þátttöku tiltölulega fárra. Breskur mannfræðingur Nicholas H. Barker hefur rannsakað þetta og geta þeir sem fræðast vilja meira lesið um það hér og á næstu síðum þar á eftir[4].
Biskuparáðstefna kaþólskra biskupa á Filippseyjum hefur farið þess á leit við þetta fólk að það láti ekki krossfesta sig. Ritari ráðstefnunnar Monsignor Hernando Coronel hefur sagt að athafnir þessar gefi ranga mynd af „kaþólskri trú okkar“ og að tilgangur athafnarinnar sem ætti að vera sá að minnast þjáningar og dauða Krists sé sá að draga að ferðamenn og sé ekki einlæg iðrunarathöfn [5 og 6]. Eins og áður segir kom RÚV efnislega inn á þetta atriði en bætti svo við að kirkjan hefði lítið gert til að „koma í veg fyrir“ þetta. Með þessu niðurlagi er gefið í skyn að kirkjan hafi heimild til að stöðva þetta sjónarspil en það er villandi.
Í annan stað er sú ákvörðun að velja eitthvað jafn öfgakennt til að sýna sem dæmi um erlenda trúarathöfn í sjónvarpi allra landsmanna á föstudaginn langa illskiljanleg. Því miður féll Stöð 2 í sömu gryfjuna en sem betur fer ekki alveg eins djúpt [7]. Fréttahaukar RÚV hefðu átt að sjá í gegnum þetta án þess að lesa ábendingu Monsignors Coronels. Tilgangurinn með fjölmiðlafárinu er runninn undan rifjum fjármálamanna og gerður til að hala gull í kassann. Fólkið sem lætur krossfesta sig er greinilega annað hvort ekki fyllilega meðvitað um niðurlægingu sína og trúarinnar og þá athygli sem ábyrgðarlaust athæfi þeirra hefur í för með sér eða þá að þeir þiggja sinn skerf af kökunni í einhverjum skilningi. Af furðukörlum- og kerlingum er alltaf nóg en þeir verða ekki allir að fjölmiðlamat á föstudaginn langa. Þannig hefur klókum eyjarskeggjum tekist að breyta hinum og þessum fréttastofum út um heiminn í auglýsingastofur.
Skylduaðild landsmanna að RÚV gerir að verkum að gera verður ríkari kröfur til þessarar stöðvar en annarra stöðva. Þar á fagmennska og þekking að vera í fyrirrúmi. Hafa ber í huga að hér á landi búa margir Íslendingar sem eru annað hvort upprunnir á Filippseyjum eða afkomendur þeirra. Á stöð eins og RÚV þar sem hlutfallslega litlum hluta tímans er varið í umfjöllun um trúmál á Filippseyjum gefur frétt á borð við þessa ekki einasta skakka mynd af trúarlífi Filippseyinga heldur getur hún í einhverjum tilfellum rennt stoðum undir fordóma á Filippseyingum, á trúarbrögðum almennt og þá kannski rómversk-kaþólskum trúarbrögðum frekar en öðrum. Flestir rómversk-kaþólskir eða meðlimir hverra trúarbragða og lífsskoðana sem er eru venjulegt fólk, ekki öfgamenn né furðumenni. Þetta fólk verðskuldar hlutlausa og óbjagaða umfjöllun um staðreyndir og atburði sem snerta það.
Heimildir:
[1] Fréttir. RÚV - Sjónvarp. 26. mars 2005. http://www.ruv.is
[2] The Manila Bulletin Online. 26. mars 2005. http://www.mb.com.ph
[3] The Manila Bulletin Online. 26. mars 2005. http://www.mb.com.ph
[4] The Revival of Religious Self-Flagellation
in Lowland Christian Philippines. Nicholas H. Barker.
[5] Ananova World news.
[6] Catholic News. 26. mars 2002. http://www.cathtelecom.com
[7] Fréttir. Stöð 2. 26. mars 2005. http://stod2.visir.is
Frétt af þessum atburðum var að sjálfsögðu hluti af erlendu fréttayfirliti yfir kristna siði föstudagsins langa í RÚV - sjónvarpi þann 14. apríl 2006. Sama var uppi á teningnum hjá NFS og varað var við myndunum, sjá http://veftivi.visir.is/veftivi/main.do?treeId=1002&progId=15241&itemId=13638
Morgunblaðið setti þetta á forsíðu vefútgáfunnar þennan dag, sjá http://www.mbl.is/mm/frettir/frett.html?nid=1196251. Þessi sértrúarhópur veit greinilega hvað þarf að gera til að öðlast athygli ákveðinnar tegundar af fjölmiðlum og hann nærist á henni. Á tímum vaxandi kynþáttaóvildar hér á Íslandi er ótrúlegt að þetta þyki boðlegar fréttir. Þarf nokkrum að koma á óvart þó vaxandi óvildar gæti líka í garð trúarbragða og trúaðs fólks, sérstaklega af erlendum uppruna?
Þú átt þakkir skildar, Ragnar, fyrir að hafa bæði fyrr og nú vakið athygli á villandi framsetningu íslenzkra fjölmiðla um þessi krossfestingarmál. Heimildavinna þín er með miklum ágætum; þú virðist sérfróðastur landsmanna um þessi mál nú orðið, og væri rétt að vekja athygli fjölmiðla á þessum fræðandi skrifum þínum.
Á NFS var sagt orðrétt: „Á Filippseyjum minntust kaþólskir menn píslardauða Krists á hefðbundinn hátt. Grímuklæddir menn börðu sér á bak og gengu um götur…“ Hvað er það annað en bjögun á staðreyndum þegar athyglinni er beint að örsmáum ofsatrúarflokki af þjóð sem telur um 70 milljónir? Ef þetta væri hluti af heimildaþætti um Filippseyjar þar sem trúarlífi landsmanna væri gerð skil þá myndi gegna öðru máli, en ekki kæmi á óvart þó þarna hefðu landsmenn séð alla umfjöllun ársins um trúarlíf Filippseyinga á NFS. Þarf nokkurn að undra þó Austurlandafólk þurfi að þola upprétta fingur, hróp og flaut frá bílum þegar það gengur um gangstéttar þessa lands? Ástandið í þessum málum hefur versnað síðustu árin. Flestir muna líklega eftir gusunni frá bílnum sem nunnur Kærleiksboðberanna þurftu að þola við eina af götum Reykjavíkur og rataði reyndar á forsíðu Fréttablaðsins. Allt og sumt sem kom fram um páfa í þessu myndskeiði NFS var að hann hefði þjónað fyrir altari og yrði bráðlega 79 ára. Þar með er líklega áhuga landsmanna fullnægt á honum, en blessunarlega voru þó ekki rangfærslur í þeim fáu orðum.
Föstudaginn langa 6. apríl 2007 birtist þessi frétt enn á ný sem hluti af erlendu fréttayfirliti hjá ríkissjónvarpinu [1] og stöð 2. Á stöð 2 kom hún sem hluti af erlendum fréttamyndum þar sem m.a. var sýnt frá helgigöngu í Jerúsalem. Í inngangi fréttarinnar hjá ríkissjóvarpinu var sagt:
„Þúsundir Filippseyinga og erlendra ferðamanna fylgdust með því þegar sjálfboðaliðar létu negla sig á kross í þorpinu San Petro Cudud á Filippseyjum í dag. Krossfestingin er hápunktur páskahátíðarinnar í þessu eina kaþólska ríki Asíu.“[Leturbr. RGB]
Í meginmálinu sem á eftir var lesið kom fram að kaþólska kirkjan á Filippseyjum fordæmdi þessar athafnir. Jafnvel þó þannig hafi verið reynt að gæta hlutleysis verður að segjast að með engu móti er hægt að líta svo á að feitletraða setningin geti skoðast sem raunsannur fréttaflutningur af trúarlífi á Filippseyjum. Þó það sé greinilega margbreytilegt þá er það samt svo að flestir Filippseyingar minnast krossfestingar Krists á föstudaginn langa rétt eins og aðrar kristnar og kaþólskar þjóðir, en ekki með því að horfa á krossfestingu eða að láta krossfesta sig. Það að ríkissjónvarpið stendur á þennan hátt að fréttinni núna þriðja árið í röð (og líklega eru árin enn fleiri) hlýtur að vekja furðu. Er áhuginn á trúarlífi þessarar þjóðar ekki meiri en svo að þessi frétt ein er talin nægja af því á árinu? Er áhuginn á athöfnum leiðtoga stærsta kristna trúfélagsins í heiminum ekki meiri en svo að þögnin og þar af leiðandi fáfræðin er talin best eða mest viðeigandi? Telja ráðamenn ríkissjónvarpsins að þessi bjagaði fróðleikur ásamt viðeigandi þögn um ákveðin atriði sé það sem komi landsmönnum best og sé heppilegasta vegarnestið þegar þeir sækja erlendar þjóðir heim?
[1] http://dagskra.ruv.is/streaming/sjonvarpid/?file=4338265/8