« Ritningarlesturinn 26. nóvember 2006Ritningarlesturinn 25. nóvember 2006 »

25.11.06

  15:17:49, Skrásetjari: Jón Rafn Jóhannsson, 1367 orð  
Flokkur: Bænalífið

Um Vinalínu (Vinaleið) hins Alhelga Hjarta Jesú

Hér á kirkju.net hefur Vinaleið íslensku Þjóðkirkjunnar verið mikið til umræðu að undanförnu. En nú hyggst ég ræða um Vinalínu hins Alhelga Hjarta Jesú, þá leið sem Heilagur Andi opinberar okkur þegar sálin hefur lært að þagga niður í sálarkröftum sínum svo að hún geti hlustað á Guð í djúpi verundar sinnar. Eitt sinn komst Jóhannes af Krossi svo að orði: „Faðirinn mælti eitt Orð sem er Sonurinn og þetta Orð mælir hann sífellt í eilífri þögn og í þögninni heyrir sálin það.“ [1] Þannig tekur hjarta að mæla við hjarta, hið Alhelga Hjarta Jesú ræðir við mannshjartað.

Hversu vel hefur ekki Hallgrímur Pétursson, sálmaskáldið mikla, heyrt þessa rödd:

Gegnum Jesú helgast hjarta
í himininn upp ég líta má,
Guðs míns ástar birtu bjarta
bæði fæ ég að reyna' og sjá,
hryggðar myrkrið sorgar svarta
sálu minni hverfur þá.

Fyrir nokkrum árum minntist ég á það við hr. Karl Sigurbjörnsson biskup að Hallgrímur Pétursson væri í raun og veru okkar Jóhannes af Krossi. Hann var mér hjartanlega sammála, enda vellesinn í verkum Jóhannesar. Í gegnum hið Alhelga Hjarta Jesú sjáum við ekki einungis dýrð himnanna, heldur einnig inn í neyð meðbræðra okkar og systra hér á jörðinni fjær og nær: Hið Alhelga Hjarta Jesú er sá vettvangur þar sem við sameinumst bræðrum okkar og systrum á öllum öldum og óháð stað og tíma mennskra takmarkana.

Það var þessi leyndardómur sem karmelsystirin hl. Teresa Margrét af hinu Alhelga Hjarta (1747-1770) lærði til fulls þann skamma tíma sem hún dvaldi í hinni stríðandi kirkju á jörðu vegna þess að hún var einungis 23 ára gömul þegar hún hvarf til himna, hvarf okkur bókstaflega sjónum í ástarfuna hins Alhelga Hjarta sem beindi henni inn í óræðisdjúp Þrenningarinnar. Farið hefur hljótt um þessa auðmjúku og lítillátu karmelsystur sem hafin var upp við altarið í tölu heilagra árið 1934.

Nú líta karmelskir guðfræðingar á hana sem eina hinna „miklu“ og skipa henni á bekk með þeim Teresu frá Avíla, Jóhannesi af Krossi, Thérèse litlu, Elísabetu af Þrenningunni og Edith Stein. Þetta má þakka þeirri umfangsmiklu upplýsingasöfnun sem fór fram á árunum 1770-1838 og fyllir heil níu bindi. Þar má lesa umsagnir skriftafeðra hennar, meðsystra, príorínu og fjölmargra annarra sem báru heilagleika hennar vitni.

Hl. Teresa Margrét lærði sama leyndardóminn og hl. Páll: „Hver mun gjöra oss viðskila við kærleika Krists? Mun þjáning geta það eða þrenging, ofsókn, hungur eða nekt, háski eða sverð?“ (Rm 8. 35). Hún sagði við skriftaföður sinn, föður Ildephonse: „Þótt ég dveldi í víti til eilífðar myndi ég elska Jesú jafn heitt.“ Þetta lærðu þau hl. Teresa frá Avíla og hl. Silúan frá Aþosfjalli einnig. Þegar hl. Teresa var leidd niður í víti og sá þann stað sem henni hafði verið fyrirbúinn þar [2] óx elska hennar svo mjög til Jesú að hún varði öllu sínu lífi til að biðja fyrir systkinum sínum á jörðinni og í hreinsunareldinum og stofnsetti 16 klaustur í þessu augnamiði. Og Drottinn sagði við hl. Silúan: „Láttu anda þinn dvelja í víti og örvæntu ekki“ [3]. Það var eftir þetta sem hann varði öllu sínu lífi til að bera fram fyrirbænir vegna systkina sinna á jörðinni og í hreinsunareldinum.

Hl. Teresa Margrét lærði að elska meðsystkini sín í hinu Alhelga Hjarta Jesú. Þar sá hún að náungi hennar er Guðs barn sem henni bæri að elska í Hjarta Jesú og fyrir Hjarta Jesú. Í huga hl. Teresu Margrétar fólst tilbeiðslan á hinu Alhelga hjarta í að endurgjalda þá elsku sem hún varð aðnjótandi sem gerir okkur kleift að elska með yfirskilvitlegum hætti og þar lærðist henni að nálgast alla bræður sína og systur. Eftir að hún gekk í karmelklaustur hl. Appollínu í Flórens og gat ekki umgengist föður sinn sem áður sagði hún í bréfi til hans: „Pabbi minn, við getum alltaf hitt hvort annað daglega í hinu Alhelga Hjarta Jesú.“ Þetta er einmitt það sem þau gerðu og þetta getum við öll gert. Hér er samfundastaður hinna heilögu á öllum öldum.

Allur er þessi leyndardómur opinberaður í tjaldbúð hins Gamla sáttmála sem var forgildi Kristslíkamans. Þar var það gullaltari ilmfórnanna sem stóð í miðju hins Heilaga frammi fyrir forhenginu inn í hið Allra helgasta sem táknaði hið Alhelga Hjarta Jesú. Því skulum við biðja: Alhelga Hjarta Jesú. Gef í miskunnarríkri elsku náðar þinnar að mitt bersynduga hjarta megi samlíkjast þínu Alhelga Hjarta í ástarfuna elsku þinnar. Gef að lifandi logi elsku þinnar sem brennur óaflátanlega í þínu Alhelga Hjarta taki einnig að loga á gullaltari jarðneskrar tjaldbúðar minnar. Jesús sem ég elska svo heitt, skapa í mér hreint hjarta, ó Guð, og veit mér nýjan og stöðugan anda svo að mér megi auðnast að bera fram verðuga ilmfórn til vegsemdar dýrð náðar okkar himneska Föður. Lauga hjarta mitt daglega með þínu dýrlega og háheilaga blóði.“

Þannig verðum við að verðugum æðstuprestum í konunglegu prestafélagi hins Nýja sáttmála. Þá getum við innt þjónustu okkar af hendi með jafn verðugum hætti eins og Kristur sem æðstiprestur komandi gæða: Tekið undir eilífa fyrirbæn Krists sem æðstaprests hins Nýja sáttmála. Og rétt eins og æðstiprestur hins Gamla sáttmála getum við þannig gengið inn í hið Allra helgasta hulin í ilmskýi fórnarinnar til þess síðan að ganga út til að friðþægja sökum synda heimsins.

Í hverju felst slík fyrirbæn. Í eftirfarandi bónarbænum:

(a) Fyrir nánustu ættingjum.
(b) Fyrir vinum, kunningjum og samstarfsfólki.
(c) Fyrir stjórnvöldum á jörðu, fyrir stofnunum og samtökum til að varðveita friðinn
(d) Fyrir þeim sem gegna almennum þjónustustörfum, annast menntun og uppeldi og þeim sem þjóna sjúkum.
(e) Fyrir syrgjendum, föngum og þeim sem ánetjast hafa fíkniefnum og þjást sökum klámvæðingarinnar í heiminum og fyrir þeim mæðrum og ófæddu börnum sem gangast undir fósturdeyðingar.
(f). Fyrir samfélagi kirkjunnar: páfa, kardínálum, biskupum, prestum, djáknum og öðrum þjónum kirkjunnar, meðlimum trúarreglnanna og
kirkjunni í okkar eigin landi.
(g). Fyrir sálunum í hreinsunareldinum og framliðnum vinum.

Hvernig berum við slíkar fyrirbænir fram. Það getum við til að mynda gert með rósakransbæn þeirri sem Drottinn opinberaði systur Elísabetu Szanto:

Heil sért þú María, full náðar,
Drottinn er með þér,
blessuð sért þú á meðal kvenna
og blessaður sé ávöxtur lífs þíns, Jesú.
Heilaga María Guðsmóðir,
bið þú fyrir oss syndugum mönnum
og úthell náð loga elsku þinnar
yfir allt mannkynið,
nú og á dauðastundu vorri.

Við orðin „bið þú fyrir oss syndugum mönnum“ bætum við síðan við: „fyrir x eða y.“

Slíkar fyrirbænir fara fram á næturvökunni. Jafnskjótt og einhver finnur að Heilagur Andi glæðir með honum löngun til að iðka slíka fyrirbæn mun Guðsmóðirin eða verndarengill viðkomandi ávallt vekja hann á réttum tíma. Þetta geta allir staðfest sem leggja rækt við slíka fyrirbænaþjónustu.

[1]. Orð ljóss og elsku, 99. Sjá Vefrit Karmels.
[2]. Saga lífs mín, kafli 32, bls. 311. Sjá Vefrit Karmels.
[3]. Sofronij arkimandríti: Heilagur Silúan frá Aþosfjalli, Líf, kenningar og skrif, kafli 11, bls. 190. Sá Vefrit Karmels.

2 athugasemdir

Athugasemd from: Jón Rafn Jóhannsson
Jón Rafn Jóhannsson

Leyfið mér aðeins að útskýra orð mín örlítið nánar. Í uppgöngunni á Karmelfjall kemst hl. Jóhannes af Krossi svo að orði: „Guð mun koma því til leiðar sem hann hefur í huga með þeim hætti sem honum þóknast.“ [1] Hallgrímur Pétursson gengur í gegnum nótt andans hlaðinn kaunum holdsveikinnar og víkur sér ekki undan þeirri byrði sem kross Krists leggur honum á herðar. Á öðrum stað kemst Jóhannes svo að orði: „Sú sál sem elur ekki með sér neina aðra löngun en þá að verða við boðum Drottins og bera kross Krists, er sönn sáttmálsörk sem ber hið sanna manna hið innra með sér, sem er sjálfur Guð, að vera án nokkurs annars en þessarar lögbókar og stafs. [2] Þannig sjáum við af hvílíkri reisn Hallgrímur gekk konungsveg krossins í Passíusálmunum.

Ég hef fundið tvö dæmi á Norðurlöndunum meðal mótmælenda um þessa áþreifanlegu trúarnótt krossgöngunnar. Hitt dæmið sjáum við hjá sænska djáknanum og skósmiðnum Hjalmar Ekström (1885-1962) sem karmelítafeðurnir í Svíþjóð hafa í miklum hávegum líkt og Hallgrím Pétursson. Hjálmar skrifar meðal annars:

Sá sem gengur inn í helgidóminn gerir það sem iðrandi syndari, fyrirbiðjandi og staðgengill annarra. Sem slíkum er manninum gefinn styrkur til að bera mennska ágalla, vangetu, angist og þjáningar, bæði hvað áhrærir hann sjálfan og sem staðgengill annarra þegar hann fetar í fótspor Krists (sem ekki ber að skilja í eigin mætti, heldur sem náðargjöf Krists) . . . Þegar hann þjáist þannig fyrir aðra (ut-lidare) verður hann jafnframt að farvegi andlegrar orku sem streymir frá ósýnilegum heimi til mannanna (en með afar huldum hætti). Hann tekur þjáningar og angist annarra manna á eigin herðar og verður þannig að farvegi til að miðla þeim styrk og hjálp hið innra . . . Með þessum hætti er hann sífelldur gjafari og deyddur og kominn að því að gefast upp sökum líkamlegra þjáninga sinna. Af þessum sökum er honum gefin innri þekking um innra náðarmeðal, náðarmeðal sem þrátt fyrir þetta er ekki áhrifaríkara en svo, að það viðheldur þreki líkama sem er kominn að því að vanmegnast og örmagnast, en felur jafnframt í sér himneskan mátt þar sem líkaminn sveiflast á mörkum lífs og dauða. Þetta er ekki af ástæðulausu vegna þess að ef líkaminn dveldi ekki þannig á mörkum lífs og dauða, drægist hann brátt frá hinu sanna ásæi til andlegs lífs þessa heims. – Þannig var Páll harla glaður sökum veikleika síns og talaði meðal annars um flein í holdi sínu. Og þetta er hin algilda regla meðal djúphyggjumanna. Án þessa lifðu þeir ekki í því dufti ÞAR SEM KRAFTUR GUÐS umbreytir eyðimörkinni í Edensgarð þar sem hið ósýnilega kemur til móts við heiminn. [3]

Hversu hollara væri það ekki mótmælendakirkjunni á Íslandi að horfa til leyndardóms krossins fremur en til andlegs lífs þessa heims, að fálma með krampakenndum hætti eftir félagsfræðilegum úrlausnum póst-módernískrar veraldarhyggju (secularism) í viðleitni sinni til að vera samstíga heiminum. Með þessu er hún að endurtaka sömu mistök og birtust í frelsunarguðfræði þeirri sem margir kaþólskir prestar aðhylltust í Suðurameríku þegar leitast var við að umbreyta fagnaðarerindi Drottins í marxíska endurlausn. Sjá guðspjall dagsins (sunnudagsins 26. nóvember 2006): „Mitt ríki er ekki af þessum heimi“ (Jh 18. 36).

[1]. Uppgangan á Karmelfjall II. 26, 9.
[2]. Ibid I. 5, 9.
[3]. Mystikern Hjalmar Ekström, bls. 215.

26.11.06 @ 10:22
Athugasemd from: Jón Rafn Jóhannsson
Jón Rafn Jóhannsson

Undursamlegt er að sjá hvernig Heilagur Andi vakir yfir kirkju sinni og uppfræðir í sífellu um hina heilögu og postullegu arfleifð. Það er hún sem öldunganir færðu frumkristnum mönnum í hendur, eins og við sjáum í skrifum Hyppolýtusar frá Róm í guðspjalli dagsins (2. desember 2006):

Á þessari stundu ber okkur að biðja vegna þess að öldungarnir sem færðu okkur þessa arfleifð í hendur, uppfræddu okkur um að á þessari stundu hvílist öll sköpunin eitt andartak til að vegsama Drottin.

Og ef við gleymum arfleifðinni áminnir Móðir okkar okkur á hana í Háskóla bænarinnar. Því getum við sagt með fullum sanni: Dulca Mater et siempre Virgine! Demonstra mihi et semitas tuas edoce me.

Þessa dagana er ég að lesa bókina Que pasa Christo (Þegar Kristur fer hjá) eftir Josemaría Escriva. Sama kenning, sama uppfræðsla.

Við sjáum annað dæmi um þessa sífelldu vöku hinna heilögu yfir arfleifðinni í Dagleg stund með Maríu Guðsmóður á Vefrit Karmels í frásögn franska prestsins föður Desgenettes (1778-1860) í kirkju Vorrar Frúar af sigrinum í París árið 1836.

02.12.06 @ 08:04