« Jesúmynd birtist í IngólfsfjalliFjórar nunnur af reglu Kærleiksboðbera féllu í árás á hjúkrunarheimili í Jemen »

12.03.17

  07:47:00, Skrásetjari: Ragnar Geir Brynjólfsson   , 1355 orð  
Flokkur: Lífsvernd

Umsögn um lög nr. 25/1975

Vegna óskar nefndar heilbrigðisráðherra um umsagnir við gildandi löggjöf um lög nr. 25/1975 með tillögum að breytingum og hvatningar til þeirra sem láta sig málið varða um að senda inn ábendingar og athugasemdir.

1) Allt mannlegt líf á rétt til lífs af því að lífið er þegið að gjöf. Enginn maður getur skapað nýtt líf óháð sínu eigin lífi heldur getur hver maður aðeins stuðlað að framlengingu sinnar eigin lífskeðju sem hann er síðasti hlekkurinn í. Það er því ekki í verkahring manna að taka líf - þvert á móti og miklu frekar er það hlutverk okkar og skylda að tryggja tilveru og framgang lífsins.

2) Mannkynið er komið á þann stað sem það er núna vegna hæfileika sinna til samvinnu og samskipta og vegna þeirrar sameiginlegu ákvörðunar að verja lífi sínu í samfélagi og þar með að deila ábyrgð, réttindum og skyldum. Þess vegna eru það hagsmunir samfélagsins og því almennings að vernda tilveru, vöxt og viðgang mannlegs lífs á öllum stigum, allt frá fyrstu tilurð til síðasta andardráttar. Þau rök að lífið sé á einhvern hátt eða einhverjum tímapunkti veikburða eða eigi sér litla möguleika geta ekki gert þennan lífsrétt og þessa lífsverndarskyldu almennings að engu.

3) Þau rök að sumir einstaklingar séu minna verðir eða réttminni en aðrir eru veik, sérstaklega í samfélagi þar sem neyðin ríkir ekki. Það er hætta fólgin í því að takmarka lagalega vernd lífsins við ákveðna hópa því þegar byrjað er að feta þá braut getur verið erfitt að hætta og snúa til baka. Hætt er við að fram komi kröfur um víðtækari "lækningar" og í raun kynbætur mannsins því hvað eru það annað en kynbætur þegar þegjandi samkomulag verður um að tilteknir hópar sem hafa t.d. ákveðna þroskaskerðingu skuli hverfa úr samfélaginu? Sjá 7. lið hér að neðan um hóp sem er að hverfa vegna fóstureyðinga.

4) Sjálfstætt mannlegt líf verður til á því andartaki þegar sáðfruma rennur saman við eggfrumu og myndar okfrumu eða fósturvísi. [1]. Því má líta svo á að strax við þennan samruna myndist réttur til lífs - lífsréttur. Því miður er það sjónarmið einnig ríkjandi að ítrustu hagsmunir móður eða verðandi foreldra fari ekki ávallt saman við ítrustu hagsmuni fósturs/fóstra og því eru fóstureyðingar staðreynd.

5) Eðli málsins samkvæmt geta fósturvísar ekki myndað hagsmunasamtök eða túlkað hagsmuni sína og því má segja að hallað hafi á rétt þeirra til lífs því talsmenn gagnstæðra sjónarmiða eiga öflugar raddir og eiga gjarnan mikla hagsmuni að verja. Það hlýtur því að vera hlutverk áhugasamra einstaklinga, félagasamtaka og síðast en ekki síst ríkisvaldsins sem á að standa vörð um almannahagsmuni að tryggja og standa vörð um réttindi lífsins á öllum stigum þess og leggja á það atriði sérstaka áherslu vegna hópsins sem er horfinn og getur ekki tjáð sig.

6) 9. grein laga nr. 25/1975 heimilar fóstureyðingar af félagslegum ástæðum í liðum 1a til 1d. Undirritaður er þeirrar skoðunar að félagslegum vandamálum eigi frekar að mæta með félagslegum úrlausnarefnum en ekki með læknisaðgerð sem er tæknileg nálgun að viðfangsefninu og er langt frá því að ráðast að rótum vandans sem er í eðli sínu samfélagslegur. Í þessum liðum eru nefnd mörg börn, ómegð, heilsuleysi annarra á heimili, æska, þroskaleysi og einnig aðrar ástæður sambærilegar við þessar. Öllum þessum atriðum ætti að vera hægt að mæta með félagslegum aðgerðum og aðstoð. Í raun má líta svo á að ef beiðni berst um fóstureyðingu þurfi óháðir ráðgjafar að geta bent á tiltekna félagslega valkosti og samfélagið þarf að eiga í sínum handraða, auk öflugra forvarna, sérstök úrræði sem eiga að að vera í boði auk fóstureyðingarinnar, annars er ekki um val að ræða. Hér þarf þjóðfélagið og löggjafinn að vera tilbúið til að grípa inn í og verja hagsmuni sína og lífsins með auknum félagslegum úrræðum. Á þessu sviði er greinilega hægt að gera miklu betur en nú er gert. Ekki þarf annað en líta á tölur yfir fjölda fóstureyðinga til að sannfærast um það, en þær hafa verið yfir 900 á ári hin síðari ár. [6]

7) 9. grein laga 25/1975 heimilar fóstureyðingar af læknisfræðilegum ástæðum. Þar eru nefndar ástæður á borð við hættu á að barn fæðist vanskapað og ef um alvarlegan sjúkdóm vegna erfða er að ræða. Hér á landi hefur þessi grein haft þau áhrif að fækka fæðingum einstaklinga með Downs-heilkenni [2]. Annars staðar í heiminum hafa fóstureyðingar einnig haft svipuð áhrif þ.e. að fækka einstaklingum sem tilheyra tilteknum hópi. Sem dæmi má nefna fækkun stúlknafæðinga í Asíu [3]. Þessar alvarlegu afleiðingar fóstureyðinganna hér á landi þurfa ekki að koma á óvart því rökstuðninginn er auðvelt að sækja í orðalagið um vansköpun eða sjúkdóma vegna erfða. Vegna þessa ákvæðis eru mörg fóstur í lífshættu og þau af þeim sem lifa, lifa aðeins vegna þess að foreldrar þeirra ákveða það. Ákveðin áhætta fyrir öll fóstur sem prófið er gert fyrir fylgir líka framkvæmdinni sem gerð er til að greina erfðagallann. Ef tækni fleygir enn meira fram má hugsanlega greina enn fleiri sjúkdóma strax í móðurkviði. Þessi lagagrein hefur því í raun þau áhrif að fóstur með greiningu á erfðagalla eða sjúkdómi njóta ekki réttarverndar sem er alvarlegt mál.

8) Greinar 11 - 13 fjalla um fræðslu og ráðgjöf. Þar segir að alla ráðgjöf og fræðslu skuli veita á óhlutdrægan hátt en því miður er ekki mælt fyrir um hvernig sú óhlutdrægni sé tryggð og hvernig tryggt sé að óeðlileg hagsmunatengsl séu ekki til staðar. Það er í besta falli óeðlilegt og í raun líklega siðferðislega rangt að ráðgefandi aðilar tengist þeirri stofnun eða lækni sem framkvæmir fóstureyðingu. Sem dæmi um óeðlileg hagsmunatengsl má nefna ef bæði félagsráðgjafi og læknir sem framkvæmir fóstureyðingu þiggja laun frá sömu stofnun. Þær konur sem íhuga fóstureyðingu ættu að eiga kost á ráðgjöf óháðra sérfræðinga.

9) Í þeim ummælum sem viðhöfð hafa verið opinberlega um fyrirhugaða endurskoðun laganna kennir ýmissa sjónarmiða. Ég ætla að skoða nokkur þeirra hér. Vitnað er í Kristján Þór Júlíusson heilbrigðisráðherra á visir.is þar sem hann segir:

„Megináhersla mín í þessum efnum er að konur hafi ákvörðunarvald yfir eigin málum. Í mínum huga er þetta ákvörðun sem konan sjálf er best búin og fær um að taka og hún á að hafa ákvörðunarvaldið í þessu efni.“

Við þessi ummæli má gera þá athugasemd að hér virðist heilbrigðisráðherra ekki átta sig á því sem rökstutt er hér ofar, þ.e. að almannahagsmunir kalli á réttarvernd alls lífs. Hann virðist einnig ekki taka með í myndina réttindi feðra, sem hljóta að vera einhver sér í lagi ef konan er í hjónabandi eða sambúð. Vegna jafnréttissjónarmiða eru enn veigameiri rök fyrir því að feður hafi eitthvað um málið að segja heldur en þeir höfðu árið 1975.

10) Í nýlegri grein í Læknablaðinu varpa fjórir heilbrigðisstarfsmenn fram spurningunni "Þungunarrof á Íslandi í 80 ár. Góð reynsla en er þörf á að breyta?" [7] Þar segir um lögin frá 1975:

"Flestir eru sammála um að löggjöf sem þessi verndar heilsu og jafnvel líf kvenna. Dauði tengdur ólöglegum fóstureyðingum er enn raunverulegur þar sem þungunarrof er bannað. Þungunarrofi fylgja lítil vandkvæði eða áhættur ef rétt er staðið að framkvæmdinni".

Í þessu sambandi er ástæða til að minna á að lög hafa forvarnargildi. Flest fólk er löghlýðið og fer ekki á svig við lög og reglur. Þau lög sem hvað mest og oftast eru brotin og með banvænum afleiðingum í mörgum tilfellum um heim allan eru líklega ekki fóstureyðingarlögin heldur umferðarlögin. Fáir nota þá staðreynd sem rök fyrir því að rýmka þau í þágu hinna brotlegu. Fyrst rök fyrir lögleiðingu fóstureyðinga eru sótt í lífstjón kvenna þar sem fóstureyðing er bönnuð má allt eins ítreka ábendingu um afleiðingar fóstureyðinga í Asíu hér að framan:

"Talið er að árlega sé á milli þremur og fimm milljónum stúlknafóstra eytt á Indlandi; könnun á læknamiðstöð í Bombay sýndi fram á að af 8.000 fóstureyðingum hefðu 7.999 verið stúlknafóstur. " [3]

Ef ég ætti að svara spurningu greinarhöfunda þá hef ég efasemdir um að núverandi lög hámarki fjölda þeirra lífa sem hægt er að bjarga með löggjöf og visa í rökstuðninginn hér að ofan. Ég tel að löggjöf á þessu sviði verði að hafa það að markmiði sínu að varðveita sem flest líf. Ég tel jafnframt ólíklegt að það að fara eftir ýtrustu kröfum um frelsi í þessum efnum muni hafa þau áhrif.

Selfossi 26.04.2016
Ragnar Geir Brynjólfsson. Höfundur er áhugamaður um málefnið.

Heimildir:
[1] http://www.visindavefur.is/svar.php?id=3356
[2] http://www.downs.is/files/56673fe464af4.pdf
[3] http://www.mbl.is/greinasafn/grein/1006294/
[4] http://www.visir.is/endurskoda-loggjof-um-fostureydingar/article/2015151208843
[5] http://www.mbl.is/greinasafn/grein/1197099/
[6] http://www.landlaeknir.is/utgefid-efni/skjal/item13094/
[7] http://www.laeknabladid.is/tolublod/2015/12/nr/5676

No feedback yet