« Blessunarorð hl. Frans frá AssisiFósturverndarsjónarmið ná yfirhöndinni í Bandaríkjunum »

20.05.10

  19:44:04, Skrásetjari: Ragnar Geir Brynjólfsson   , 389 orð  
Flokkur: Kaþólska kirkjan á Íslandi

Umsögn Reykjavíkurbiskups um frumvarp til hjúskaparlaga

Á vefsvæði Alþingis er að finna samantekt umsagna um mál nr. 485 sem er frumvarp til laga um breytingar á hjúskaparlögum. Á vefsíðunni sem er í stafrófsröð eftir sendendum erindanna má finna umsögn Kaþólsku kirkjunnar á Íslandi um frumvarpið. Þessa umsögn gefur herra Pétur Bürcher Reykjavíkurbiskup.

Umsögnin byrjar á því að biskupinn þakkar fyrir að fá að gefa álit sitt á frumvarpinu en furðar sig jafnframt á frumvarpinu sem „felur í sér rangar hugmyndir um gildi mannlegs kynferðis og hjónabandið.“ Biskup rökstyður þessa afstöðu með vísanir í Ritninguna, hirðisbréf páfa, rit Annars Vatíkanþingsins, Trúfræðslurit kirkjunnar og segir:

„Af þessum tilvitnunum ... verður augljóst að kirkjan getur með engu móti sætt sig við þá lagabreytingu sem lögð er til... Röskun á hjúskaparsáttmálanum í innsta eðli sínu hefur í för með sér að friðhelgi fjölskyldunnar og hjónabandsins, sem liggur henni til grundvallar, er ekki lengur virt. Og þá er íslenskt þjóðfélag komið út á hálan ís og afleiðingar slíkrar ákvörðunar eru ófyrirsjáanlegar.

Vegna þeirra ástæðna sem hér hafa komið fram biður Kaþólska kirkjan á Íslandi hið háa Alþingi að falla frá þeim breytingum sem fyrirhugaðar eru á hjúskaparlögunum og ganga ekki á grundvallarréttindi landsmanna. Jafnframt bendir hún á að endurreisn íslenska þjóðfélagsins eftir ringulreið síðustu ára mun ekki verða að veruleika nema alvarlega sé hugað að siðgæði. Þær raddir hafa orðið æ háværari upp á síðkastið sem krefjast þess að siðmenntun og mannréttindi verði aftur sett á oddinn, allt frá almúganum til æðstu embættismanna þjóðarinnar. Eftir hrun efnahagskerfisins á Íslandi myndi samþykkt frumvarpsins kalla á enn alvarlegra hrun. Kaþólska kirkjan vonar að Alþingi muni ekki stíga þetta ógæfuspor en haldi þess í stað verndarhendi yfir helgi fjölskyldunnar og hjúskaparins og hún lofar að halda ótrauð áfram að bera fram bænir sínar í þágu þjóðarinnar og ráðamanna hennar.

Sem svar við spurningu Allsherjarnefndar Alþingis getur Kaþólska kirkjan þess vegna ekki samþykkt fyrirhugaðar breytingar á hjúskaparlögunum. Í raun hefur ekkert mannlegt yfirvald leyfi til þess að breyta þeim náttúrulegu lögmálum sem koma beint frá Skaparanum. Fyrir sitt leyti mun Kaþólska kirkjan á Íslandi halda sig við Guðs lög eins og henni ber, boða heilbrigð og eðlileg viðhorf um mannleg gildi og fara þar með eftir fordæmi Krists eins og hún hefur alltaf gert. “

Heimildir:
Umsögn Reykjavíkurbiskups má nálgast í heild á pdf formi á þessum tengli: http://www.althingi.is/pdf/umsogn.php4?lthing=138&malnr=485&dbnr=2058&nefnd=a
Yfirlit yfir umsagnirnar á vef Alþingis: http://www.althingi.is/dba-bin/erindi.pl?ltg=138&mnr=485

2 athugasemdir

Athugasemd from: Ólafur Ólafursson
Ólafur Ólafursson

Það má þakka Marteini heitinum Lúther fyrir það að einungis minni hluti þjóðarinnar tilheyrir kirkju ykkar sem alræmd fyrir níðingar á börnum og vil kenna samkynhneigð um það. Enda hafa trúarbrögð ekkert með rökhugsun að gera :)

21.05.10 @ 14:16
Athugasemd from: Ragnar Geir Brynjólfsson

Ólafur, varla viltu sakfella allt kirkjusamfélagið fyrir glæpi einstaklinga innan þess? Ég minni á að fórnarlömb þeirra glæpa sem þú vísar til tilheyrðu kirkjunni líka og gera margir hverjir enn.

Með ummælum þínum ertu líklega að vísa í kunn ummæli Bertone kardínála. Páfagarður hefur skýrt afstöðu sína til þeirra og hefur tekið fram að kardínálinn átti ekki við meint tengsl samkynhneigðar og barnagirndar í víðu samhengi heldur voru þau sett fram í þröngu samhengi í umræðu um þessa tilteknu glæpi. Sjá nánar hér:

http://www.catholicculture.org/news/headlines/index.cfm?storyid=6022

Að mínu mati er ekki hægt að líta á að viðhorf kardínálans sé opinbert viðhorf kirkjunnar, enda kemur það fram á hinni tilvísuðu slóð að kirkjan gefur ekki út yfirlýsingar um sálfræðileg eða læknisfræðileg málefni.

Hið opinbera viðhorf hennar gagnvart samkynhneigðum er hið sama og gagnvart öllu fólki sem er að þeim beri að sýna sömu virðinguna og kærleikann sem á að einkenna kristilegt viðhorf til náungans. Birtingarmyndir ofbeldis alveg sama að hverjum það snýr eru margfordæmdar af kirkjuleiðtogum út um allan heim.

Síðasta fullyrðing þín um að trúarbrögð hafi ekkert með rökhugsun að gera er auðhrakin. Ég bendi þér t.d. á að kynna þér sögu rökfræðinnar en ágæt grein er um hana á Wikipediu hér:

http://en.wikipedia.org/wiki/History_of_logic

Á þessari vefslóð er t.d. ágætt yfirlit yfir rökfræði á miðöldum.

21.05.10 @ 16:18